Menntamál. Einkunnaskil kennara við Háskóla Íslands.

(Mál nr. 4912/2007)

Í tilefni af erindi Stúdentaráðs Háskóla Íslands til umboðsmanns Alþingis tók umboðsmaður til athugunar hvernig staðið væri að einkunnaskilum kennara við Háskóla Íslands og eftirliti með þeim. Eftir að háskólaráð staðfesti verklagsreglur um almennar aðgerðir til að bæta verulega einkunnaskil kennara taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari athugunar á málinu.

Ég lauk athugun minni á erindi Stúdentaráðs Háskóla Íslands með bréfi, dags. 13. júní 2007. Þar sagði eftirfarandi:

„Ég vísa til fyrri bréfaskipta í tilefni af erindi stúdentaráðs, er mér barst 2. febrúar sl., og varðaði einkunnaskil kennara við Háskóla Íslands. Kom fram í kvörtuninni að þótt flestir kennarar skiluðu einkunnum innan setts tímafrests væri algengt að reglurnar væru brotnar og bitnaði það á hagsmunum nemenda. Um hagsmuni nemenda í þessu sambandi var einkum vísað til þess að bið eftir einkunnum á haustönn framyfir setta fresti setti námsframvindu nemenda á vorönn í óvissu enda gætu margir þeirra ekki gengið frá skráningu í námskeið fyrr en einkunnir lægju fyrir. Einnig var vísað til þess að tafir á skilum gætu raskað stöðu námsmanna á stúdentagörðum enda yrðu þeir að sýna fram á tiltekinn námsárangur til þess að halda húsnæði á görðunum. Í þriðja lagi var bent á að tafir á einkunnaskilum hefðu áhrif á námslán sem væru aðeins greidd þegar námsárangur lægi fyrir.

Í tilefni af erindi stúdentaráðs ritaði ég háskólaráði bréf, dags. 12. febrúar sl., þar sem ég reifaði efni kvörtunarinnar og óskaði, með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir því að mér yrðu veittar upplýsingar um nokkur nánar tiltekin atriði. Í fyrsta lagi með hvaða hætti haft væri eftirlit með því að einkunnum væri skilað innan þeirra fresta sem settir væru í 60. gr. reglugerðar fyrir Háskóla Íslands nr. 458/2000. Í öðru lagi hvort, og þá með hvaða hætti, brugðist væri við því þegar skil einkunna í einstaka fögum drægjust úr hófi fram og við hvaða tímamörk væri miðað í því efni. Að lokum óskaði ég eftir því að mér yrðu veittar upplýsingar um hlutfall þeirra einkunna sem skilað væri eftir að frestir hefðu runnið út og hversu langt væri farið fram úr þeim, lægju slíkar upplýsingar á annað borð fyrir, sérstaklega vegna skólaársins 2005/2006 og þess sem stæði yfir er bréf mitt var ritað.

Mér barst svar Háskóla Íslands, undirritað af sviðsstjóra kennslusviðs, með bréfi, dags. 5. mars sl., þar sem leitast var við að veita umbeðnar upplýsingar og svara þeim spurningum er ég hafði sett fram í fyrirspurnarbréfi mínu. Í lok bréfsins sagði svo m.a. orðrétt:

„Á fundi háskólaráðs 1. mars sl. var fjallað um einkunnaskil og framangreindar spurningar umboðsmanns. Sammæli var um það í ráðinu að skil einkunna væru alls ekki viðunandi og fól ráðið kennslumálanefnd háskólaráðs og gæðanefnd rektors að undirbúa fyrir næsta reglulega fund ráðsins tillögur um almennar aðgerðir til að bæta verulega einkunnaskil kennara. Um málið verður jafnframt fjallað á fundi rektors með deildarforsetum á næstunni.“

Í tilefni af tilvitnuðum ummælum í svarbréfinu til mín ritaði ég háskólaráði á ný bréf, dags. 30. mars sl., þar sem ég óskaði eftir því að háskólinn gerði mér grein fyrir framvindu þeirrar vinnu sem greint var frá í svari sviðsstjóra kennslusviðs til mín. Í bréfi mínu óskaði ég sérstaklega eftir því, í ljósi ábendingar er ég hafði fengið frá stúdentaráði, hvort umrædd vinna og umbætur í verklagi við skil einkunna tæki einnig til skila á niðurstöðum námsmats í þeim tilvikum þegar slíkt mat fer fram með öðrum hætti en skriflegu eða munnlegu prófi.

Mér hefur nú borist svar Háskóla Íslands, dags. 8. júní 2007, þar sem fram kemur að háskólaráð hafi á fundi sínum 6. júní sl. staðfest verklagsreglur byggðar á tillögum kennslumálanefndar og gæðanefndar háskólaráðs um almennar aðgerðir til að bæta verulega einkunnaskil kennara. Umræddar verklagsreglur fylgja bréfi háskólans til mín ásamt nokkrum athugasemdum sem lagðar voru fyrir háskólaráð þar að lútandi og fylgja reglurnar bréfi þessu yður til upplýsinga. Ég bendi sérstaklega á í þessu sambandi að skv. 3. mgr. 1. gr. verklagsreglnanna gilda reglurnar um öll próf, ritgerðir og verkefni sem eru hluti af námsmati. Segir ennfremur að felist námsmat í öðru en skriflegu eða munnlegu prófi skuli upphaf tímafrests kennara til yfirferðar á ritgerð eða verkefni miðast við síðasta prófdag misserisins.

Eftir að hafa kynnt mér umræddar verklagsreglur, en þær má finna á heimasíðu Háskóla Íslands, tel ég ekki tilefni að svo stöddu til að taka einkunnaskil í Háskóla Íslands og eftirlit með þeim til frekari athugunar og er umfjöllun minni um mál þetta því hér með lokið, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek það fram að stúdentaráði er að sjálfsögðu frjálst að leita til mín að nýju ef það telur á skorta að hinum nýju reglum sé fylgt.“