Börn. Meðferð máls hjá sýslumanni vegna kröfu um þátttöku forsjárforeldris í ferðakostnaði vegna umgengni. Valdmörk dómstóla og stjórnvalda.

(Mál nr. 4931/2007)

B, lögmaður, leitaði fyrir hönd A til umboðsmanns Alþingis og laut kvörtun hans að úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þar sem synjun sýslumannsins á Ísafirði á kröfu A um þátttöku forsjárforeldris í ferðakostnaði sonarins C vegna umgengni var staðfest. Taldi B að héraðsdómur Reykjaness hefði með dómi sínum í umgengnismáli, er gengið hefði í máli A og barnsmóður hans, kveðið með skýrum hætti á um að barnsmóðirin, er færi með forræði sonarins, skyldi taka þátt í kostnaði sem félli til vegna umgengni feðganna og stjórnvöldum hefði því ekki verið rétt að taka umsókn B til sjálfstæðrar meðferðar og kalla eftir gögnum um fjárhagslega og félagslega stöðu hans.

Í bréfi sínu til B rakti umboðsmaður 2. mgr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003 og benti á að af ákvæðinu væri ljóst að foreldri sem nyti umgengnisréttar bæri sjálft þann kostnað sem hlytist af umgengninni og þessu yrði ekki breytt nema foreldrar semdu um annað eða að sýslumaður kvæði upp úrskurð þar að lútandi. Umboðsmaður vísaði einnig til athugasemda er fylgdu frumvarpi til barnalaga þar sem fjallað var um heimild sýslumanns til að kveða upp slíkan úrskurð. Taldi umboðsmaður ljóst að lög kvæðu á um það með skýrum hætti að ákvörðunarvald um það hvort foreldri sem barn byggi hjá skyldi taka þátt í kostnaði vegna umgengni væri hjá foreldrunum sjálfum annars vegar og hjá stjórnvöldum hins vegar, en ekki hjá dómstólum. Benti umboðsmaður í þessu sambandi á að í dómi héraðsdóms Reykjaness, er B hefði vísað til í kvörtun sinni, væri að finna ummæli sem væru í samræmi við þessa ályktun. Tók umboðsmaður ennfremur fram að þessi afstaða hans styddist einnig við þá meginreglu íslensks réttar að þótt dómstólar hefðu úrskurðarvald um lögmæti og eftir atvikum réttmæti stjórnvaldsákvarðana sem teknar hefðu verið væru þeir ekki bærir til þess að taka slíkar ákvarðanir í stað stjórnvaldsins sem til þess hefði heimild að lögum. Með vísan til þessa taldi umboðsmaður sig ekki geta fallist á að túlka bæri ummæli héraðsdóms Reykjaness með þeim hætti að í þeim hefðu falist fyrirmæli um þá efnislegu niðurstöðu sem sýslumanninum á X hefði borið skylda til að komast að í máli A bærist honum beiðni um úrskurð.

Með vísan til framangreinds taldi umboðsmaður að sýslumaðurinn á X hefði réttilega tekið beiðni A, um greiðsluþátttöku barnsmóður sinnar í kostnaði vegna umgengni hans við son sinn, til sjálfstæðrar meðferðar í samræmi við ákvæði barnalaga nr. 76/2003. Taldi umboðsmaður því ekki forsendur til að gera athugasemd við þá afstöðu sýslumannsins og ráðuneytisins að nauðsynlegt hefði verið að sýslumaður fengi í hendur gögn um fjárhagslega og félagslega stöðu A. Tók umboðsmaður fram að hann fengi ekki betur séð en að óskir sýslumannsins þar að lútandi hefðu verið eðlilegur þáttur í rannsókn embættisins á þeim atriðum sem skýrlega væri kveðið á um í lögskýringargögnum að baki 46. gr. barnalaga að líta skyldi til við ákvörðun um það hvort verða ætti við beiðni um kostnaðarþátttöku þess foreldris sem barn byggi hjá. Var það því niðurstaða umboðsmanns að ekki væru forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í máli A.