Skólamál. Brottvísun nemanda úr skóla. Meðalhófsreglan. Ákvæði stjórnsýslulaga eiga við um ákvörðun um brottvísun úr skóla. Meinbugir á stjórnvaldsfyrirmælum.

(Mál nr. 761/1993)

Máli lokið með áliti, dags. 24. febrúar 1994.

A kvartaði yfir því að skólastjóri X-skóla hefði vísað syni hennar, B, úr skóla án nægilegs tilefnis og án þess að honum hefði áður verið tryggt annað úrræði svo sem skylt væri samkvæmt grunnskólalögum. Fram kom að ágreiningur hafði verið milli móður B annars vegar og starfsmanna og skólastjóra X-skóla hins vegar um það hvernig bregðast skyldi við vandamálum B.

Umboðsmaður taldi að skólastjóri hefði einungis heimild til að vísa nemanda úr skóla tímabundið, samkvæmt 3. mgr. 57. gr. grunnskólalaga, en aðeins fræðslustjóra væri heimilt að vísa nemanda varanlega úr skóla enda hefði hann áður tryggt nemandanum skólavist annars staðar eða önnur úrræði, sbr. 4. mgr. 57. gr. laganna. Að því athuguðu var það niðurstaða umboðsmanns að ekki yrði fundið að því að B hafði ekki verið tryggt annað úrræði áður en til brottvísunar kom, enda hefði brottvísun hans úr skólanum X verið tímabundin. Hins vegar varð ekki séð af gögnum málsins að skólastjóri hefði tilkynnt forsjármönnum B um brottvísunina svo sem honum bar að lögum að gera. Þá taldi umboðsmaður að fræðslustjóra, sem tilkynnti A um brottvísunina, hefði borið að gera henni skýrari grein fyrir því en gert var að aðeins væri um tímabundna brottvísun að ræða.

Umboðsmaður tók fram í áliti sínu að ákvörðun um brottvísun nemanda úr skóla um stundarsakir yrði að vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum og taka mið af þeirri grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins að gæta ber hófs við meðferð opinbers valds. Þar sem um tímabundna brottvísun var að ræða sem aðeins mátti standa meðan málið væri óútkljáð hjá fræðslustjóra, og með hliðsjón af gögnum þeim sem lögð voru fram taldi umboðsmaður ekki hægt að fullyrða að gripið hefði verið til of harkalegra úrræða eins og á stóð er B var vísað úr skólanum X.

Ákvörðun um brottvísun B var tekin fyrir gildistöku stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Umboðsmaður fjallaði hins vegar almennt um ákvæði stjórnsýslulaga, m.a. um það hvaða ákvarðanir, sem kennarar, skólastjórar og fræðslustjórar geta gripið til á grundvelli 57. gr. grunnskólalaga, geti talist stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá benti umboðsmaður á nauðsyn þess að reglugerð nr. 512/1975 um skólareglur o.fl. í grunnskóla yrði endurskoðuð, með það í huga að fylgt yrði ákvæðum stjórnsýslulaga við undirbúning og meðferð þeirra mála sem stjórnsýslulögin tækju til.

Loks tók umboðsmaður til athugunar ákvæði 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 512/1975 þar sem mælt er fyrir um málskot á ákvörðunum fræðslustjóra til barnaverndarnefndar. Taldi umboðsmaður að ákvæði þetta skorti lagastoð auk þess sem slík skipan væri óheppileg. Af síðastgreindu tilefni var álitið sent forseta Alþingis og menntamálaráðherra, í samræmi við 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

I.

Hinn 29. janúar 1993 bar A, fram kvörtun vegna þess að syni hennar, B, var vikið úr Grunnskóla X 2. apríl 1992. Taldi hún að skólastjóra hefði verið óheimilt að víkja syni hennar úr skóla, nema honum hefði áður verið "tryggt annað úrræði", sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 49/1991 um grunnskóla. Þá taldi hún, að með brottvísuninni hefði verið beitt harkalegra úrræði en efni hafi staðið til.

II.

Hinn 8. mars 1993 ritaði ég fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis vestra bréf og óskaði eftir því, með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að hann léti mér í té gögn málsins og upplýsingar um afskipti embættis síns af málinu. Mér bárust svör fræðslustjórans með bréfi, dags. 7. júní 1993, en þar segir m.a. svo:

"Síðdegis 2. apríl mætti [C] skólastjóri á skrifstofu mína með bréf sem hann afhenti mér og óskaði jafnframt eftir því að ræða efni þess og aðdraganda. Lýsti hann fyrir mér atburðum síðustu daga sem mér voru að mestu kunnir í gegnum viðtöl við starfsmann minn [D] sálfræðing. Tjáði [C] mér að hann og starfsfólk við skólann treysti sér ekki undir þeim kringumstæðum sem upp voru komnar að hafa [B] lengur í skólanum og taldi hann sig nauðbeygðan að vísa honum úr skóla þar sem ítrekaðar tilraunir þeirra til að vinna með vandamál hans í skólanum hefðu engan árangur borið. Sæi hann ekki fram á að hægt væri að hafa hann við svo búið í skólanum þar sem hann truflaði kennslu og flestir kennarar hefðu gefist upp á að hafa hann í tímum. Ekki tækist að eiga samstarf við heimilið, þ.e. móður, því hún hafnaði öllu samstarfi og kenndi skólanum og sálfræðingi einhliða um hvernig komið væri fyrir drengnum. Tilkynnti ég móður drengsins símleiðis strax eftir samtalið hvernig staðan væri og hafði jafnframt samband við formann skólanefndar símleiðis. Boðaði ég móðurina á minn fund til þess að ræða þessi mál frekar og úrræði sem við gætum gripið til.

Þar sem aðdragandi að því að drengnum var vísað úr skóla hafði verið nokkur, og það sem gerðist 1. og 2. apríl var aðeins það sem tók steininn úr, höfðu verið ræddir nokkrir möguleikar á fundum mínum með starfsfólki Ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu um aðgerðir í hans málum. Voru þessir möguleikar nú ræddir við móðurina á fundi mínum og hennar."

Hinn 15. júní 1993 kynnti ég A bréf fræðslustjóra og gaf henni kost á að gera athugasemdir við það. Athugasemdir hennar bárust mér í bréfi 6. júlí 1993, þar sem m.a. kom fram, að fræðslustjóri hefði ekki kynnt henni, að skólastjóri mætti ekki vísa nemanda úr skóla nema tímabundið, en að það hefði hún fyrst fengið upplýsingar um eftir að B hefði hafið nám í skólanum Y.

Hinn 9. nóvember 1993 ritaði ég fræðslustjóra á ný bréf og óskaði eftir því að mér yrðu veittar upplýsingar um þau úrræði, sem fullreynd hefðu verið án nægjanlegs árangurs, áður en gripið var til þess að vísa B úr skóla 2. apríl 1992. Ennfremur óskaði ég upplýsinga um þær ráðstafanir, sem gerðar hefðu verið varðandi skólagöngu B veturinn 1993-1994.

Mér bárust svör fræðslustjórans með bréfi, dags. 12. nóvember 1993, en þar vitnar hann til fylgiskjala, sem mér höfðu áður verið send, um úrræði þau, sem reynd voru af hálfu skólans og embætti fræðslustjóra til úrbóta.

Hinn 30. nóvember 1993 kynnti ég A bréf fræðslustjóra og gaf henni kost á að gera athugasemdir við það. Athugasemdir hennar bárust mér í bréfi 6. janúar 1994. Þar kemur m.a. fram, að hún telur staðreyndum málsins ekki að öllu leyti rétt lýst í gögnum þeim, sem fræðslustjóri hefur lagt fram.

III.

Í áliti mínu rakti ég ákvæði laga og reglugerða um brottvísun nemenda úr skóla:

"Í 57. gr. laga nr. 49/1991 um grunnskóla er kveðið á um heimildir skólastjóra og fræðslustjóra til þess að víkja nemendum úr skóla:

"Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla í öllu því er skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisvenjum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.

Ef nemanda reynist verulega áfátt í hegðun ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og forráðamenn hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans.

Meðan mál skv. 2. mgr. eru óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir, enda tilkynni hann forráðamönnum nemanda og fræðslustjóra tafarlaust þá ákvörðun. Takist ekki að leysa málið innan skólans tekur fræðslustjóri það til meðferðar í samráði við skólanefnd.

Óheimilt er að víkja nemanda úr skóla nema honum hafi verið tryggt annað úrræði.

Í reglugerð skal mæla nánar fyrir um framkvæmd þessarar greinar."

Í athugasemdum við það frumvarp, sem síðar varð að lögum nr. 49/1991 um grunnskóla, segir svo:

"54. gr. grunnskólalaga er hér umorðuð og reynt að tryggja að viðbrögð við hegðunarvandkvæðum séu skipuleg og markviss.

Í 5. mgr. er nýtt ákvæði um að nemanda sé ekki vikið úr skóla án þess að ráðstafanir séu gerðar til að tryggja honum skólavist annars staðar eða önnur úrræði." (Alþt. 1990, A-deild, bls. 2016.)

Í reglugerð nr. 512/1975, um skólareglur o.fl. í grunnskólum, segir svo í 2. mgr. 5. gr.:

"Við endurtekna brottvikningu nemanda úr kennslustund skal kennari ræða málið við skólastjóra og forráðamenn nemandans. Skólastjóri skal leitast við að ljúka málinu. Takist það ekki vísar hann því til fræðslustjóra, sem hlutast til um sérfræðilega meðferð þess."

6. gr. sömu reglugerðar hljóðar svo:

"Nú veldur nemandi vandræðum í skóla með hegðun sinni. Ber þá umsjónarkennara að leita orsaka og reyna að ráða bót á, m.a. með viðtölum við nemandann og forráðamenn hans. Ef viðleitni kennarans ber ekki árangur, skal hann vísa málinu til skólastjóra, sem kannar það frá öllum hliðum.

Geti skóli og heimili ekki í sameiningu leyst vandann, vísar skólastjóri málinu til fræðslustjóra til sérfræðilegrar meðferðar. Forráðamönnum nemandans skal tilkynnt sú ákvörðun án tafar, hafi hún ekki verið tekin í samráði við þá.

Meðan málið er óútkljáð getur skólastjóri vísað nemandanum úr skóla um stundarsakir, enda hafi hann tilkynnt forráðamönnum nemandans og fræðslustjóra þá ákvörðun.

Ákvarðanir samkvæmt þessari grein skulu teknar í samráði við kennararáð (kennarafund) og kennara þess nemanda, sem hlut á að máli."

IV.

Þá tók ég til úrlausnar þau álitaefni sem kvörtun A beindist að, og benti á, að samkvæmt grunnskólalögum hefði skólastjóri einungis heimild til að vísa nemanda úr skóla tímabundið. Þá fjallaði ég um málefnalegar forsendur stjórnvaldsákvörðunar og þá meginreglu stjórnsýsluréttar að gætt skuli hófs við meðferð opinbers valds. Í álitinu, dags. 24. febrúar 1994, segir:

"1.

Ákvörðun skv. 3. mgr. 57. gr. grunnskólalaga um að vísa nemanda úr skóla um stundarsakir, á meðan mál er óútkljáð, verður að vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum. Þá verður einnig að líta til þeirrar grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins, að gæta beri hófs við meðferð opinbers valds. Ber því ekki að grípa til þess að vísa nemanda úr skóla um stundarsakir, ef hægt er að bregðast við vandanum með öðrum og vægari úrræðum. Þegar atvik eru aftur á móti þau, að ekki verður hjá því komist að vísa nemanda tímabundið úr skóla, ber að gæta þess að nemanda sé ekki vísað lengur úr skóla en nauðsyn ber til.

2.

Í kvörtun A kemur fram, að hún telur, að óheimilt hafi verið að víkja syni hennar úr skóla, nema honum hefði áður verið "tryggt annað úrræði", sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 49/1991 um grunnskóla.

Heimild skólastjóra til þess að vísa nemanda úr grunnskóla er í 3. mgr. 57. gr. grunnskólalaga. Samkvæmt samanburðarskýringu ákvæðisins við 2. málsl. 3. mgr. og 4. mgr. 57. gr. laganna, hefur skólastjóri einungis heimild til þess að vísa nemanda úr skóla tímabundið. Reglugerð nr. 512/1975, um skólareglur o.fl. í grunnskóla, er byggð á sömu lagaviðhorfum. Hefur einungis fræðslustjóri heimild til þess að vísa nemanda varanlega úr skóla, enda hafi hann áður tryggt nemandanum skólavist annars staðar eða önnur úrræði, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 49/1991 um grunnskóla.

Ákvörðun skólastjóra Grunnskóla X um að vísa B úr skóla hinn 2. apríl 1992 var tekin á grundvelli 3. mgr. 57. gr. grunnskólalaga. Þar var einungis um að ræða tímabundna brottvísun á meðan málið var óútkljáð. Af gögnum málsins virðist svo sem A hafi hins vegar ekki verið gerð nægjanlega skýr grein fyrir því. Eins og áður segir, þá skal sú ákvörðun, að vísa nemanda úr skóla um stundarsakir, tilkynnt forsjármönnum og fræðslustjóra tafarlaust, sbr. 3. mgr. 57. gr. grunnskólalaga. Við slíka tilkynningu tel ég skylt að gera forsjármönnum grein fyrir því, að um tímabundna brottvísun sé að ræða. Þessi skylda verður leidd af þeirri óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttar, að stjórnvaldsákvörðun verði að vera bæði ákveðin og skýr, svo að málsaðilar geti skilið hana og metið réttarstöðu sína.

Eins og áður segir, verður ekki séð af gögnum málsins, að skólastjóri hafi uppfyllt þá skyldu sína að gera forsjármönnum tafarlaust grein fyrir brottvísuninni. Aftur á móti bætti fræðslustjóri strax úr þessum annmarka á meðferð málsins og tilkynnti A um brottvísunina. Tel ég því ekki ástæðu til að fjalla nánar um þennan þátt málsins.

Þótt að ýmsu leyti sé deilt um, hvernig mál þetta bar að, virðist þó ljóst, að ágreiningur var á milli skólastjóra og A, hvernig best yrði brugðist við vandamálum B. Virðist A hafa verið mótfallin því að senda B aftur í Grunnskóla X, ef ekki yrði brugðist á annan hátt við vandamálum B en rætt hafði verið um. Eins og málum var þá komið, verður að telja eðlilegt að fræðslustjóri reyndi að tryggja B skólavist í öðrum grunnskóla í samráði við forsjármenn hans.

Að framansögðu athuguðu er það niðurstaða mín, að ekki verði að því fundið, þó ekki hafi verið búið að tryggja B annað úrræði, er honum var vísað úr skóla af skólastjóra Grunnskóla X, þar sem aðeins var um tímabundna brottvísun að ræða. Hins vegar tel ég, að gera hafi átt A skýrari grein fyrir því, að brottvísunin væri aðeins tímabundin. Ég tel ennfremur, að lögum samkvæmt hafi sú skylda hvílt á skólastjóra að tilkynna forsjármönnum um hina tímabundnu brottvísun.

3.

Þá kvartar A yfir því, að beitt hafi verið harkalegra úrræði en efni stóðu til, er syni hennar var vísað úr skóla 2. apríl 1992 af skólastjóra Grunnskóla X.

Í kvörtun A kemur fram, að B hafi átt erfitt með tilfinningar sínar á umræddum tíma. Í ódagsettri umsögn umsjónarkennara vegna vetrarins 1991-1992 segir, að B hafi oft átt erfitt með að einbeita sér og hemja sig. Suma daga hafi hann verið rólegur en aðra daga hafi hann verið illviðráðanlegur, án þess að nokkur sýnileg ástæða væri fyrir þeirri hegðun. Komið hafi fyrir að hann grýtti lausum hlutum í bekkjarsystkini sín og hreytt fúkyrðum í þau og kennara. Hafi þá þurft að kalla á aðstoð skólastjóra til að hemja hann, þar sem þessi hegðun hafi valdið vanlíðan og ókyrrð hjá öðrum nemendum. Þá kemur fram, að foreldrum hafi verið gerð grein fyrir málum og reynt að halda uppi samvinnu. Ýmissa úrræða hafi verið leitað til að leysa vanda B en þeim flestum hafnað af hálfu foreldra. Megi þar nefna tíma hjá sálfræðingi skólans og greiningu á barnageðdeild. Í bréfi A, dags. 6. janúar 1994, gagnrýnir hún fyrrnefnda umsögn og telur þar koma fram alls konar fullyrðingar, sem séu órökstuddar, og enginn heimildarmaður nefndur. Í bréfi A, sem mér barst 6. júlí 1993, mótmælir hún staðhæfingum um að hún hafi hafnað öllu samstarfi við skólann. Hins vegar hafi hún verið ósammála skólastjóra um þau úrræði, sem hann taldi geta leyst vandan, þ. á m. að beita B hörðum aga. Var þannig ósamkomulag um það, hvernig brugðist skyldi við vanda B.

Óumdeilt er að B átti við tilfinningaleg vandamál að stríða á vormisseri 1992. Ekki var samkomulag á milli foreldra og skólayfirvalda, hvernig brugðist skyldi við vanda drengsins, og þau úrræði, sem reynd höfðu verið, virðast ekki hafa borið nægilegan árangur. Eins og hér að framan er rakið, er deilt um ýmsar staðreyndir þessa máls. Með hliðsjón af þeim gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð, tel ég þó ekki hægt að fullyrða, að gripið hafi verið til of harkalegra úrræða, eins og á stóð, er B var vísað úr skóla, þar sem um brottvísunin var tímabundin og mátti lögum samkvæmt aðeins standa yfir á meðan mál var óútkljáð hjá fræðslustjóra."

V.

Ég taldi ástæðu til að víkja nokkrum orðum að þýðingu nýrra stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, í sambandi við ákvarðanir um brottvísun nemenda úr skóla, og benti á að endurskoða þyrfti reglugerð nr. 512/1975 um skólareglur o.fl. í grunnskóla með tilliti til þessa, og með tilliti til ákvæða grunnskólalaga um stjórnsýslusamband æðra og lægra setts stjórnvalds. Í álitinu segir svo um þetta:

"1.

Stjórnsýslulög nr. 37/1993 mæla m.a. fyrir um þá málsmeðferð, sem stjórnvöld skulu fylgja, þegar teknar eru ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, þ.e.a.s. svonefndar stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna. Stjórnsýslulögin tóku gildi hinn 1. janúar 1994 og verður þeim því ekki beitt um þær ákvarðanir, sem í máli þessu er kvartað yfir, sbr. 1. og 2. mgr. 35. gr. laganna. Þar sem stjórnsýslulögin geta gilt a.m.k. um sumar ákvarðanir um brottvísun nemanda úr skóla, tel ég rétt að víkja nokkrum orðum að þýðingu stjórnsýslulaga í þessu sambandi og tengslum þeirra við reglugerð nr. 512/1975 um skólareglur o.fl. í grunnskólum.

Eins og áður segir, gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993 um stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, þegar stjórnvöld taka stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna. Kemur þá til athugunar, hvaða ráðstafanir, sem kennarar, skólastjórar og fræðslustjórar grípa til á grundvelli 57. gr. grunnskólalaga, geti talist stjórnvaldsákvarðanir, þannig að þeim sé skylt að haga meðferð mála í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í athugasemdum við 1. gr. í greinargerð frumvarps þess, er varð að stjórnsýslulögum, segir meðal annars:

"Lögunum er einungis ætlað að gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna, hvort sem er einstaklinga eða lögaðila. Með orðinu "ákvarðanir" er vísað til svonefndra stjórnvaldsákvarðana, en sérstaklega er tekið fram að lögin gildi ekki um samningu reglugerða né annarra almennra stjórnvaldsfyrirmæla. Þau taka þannig einungis til einstaklegra ákvarðana, þ.e. ákvarðana sem varða ákveðna einstaklinga eða lögaðila, einn eða fleiri.

Samkvæmt þessu ná lögin ekki til margvíslegrar þjónustustarfsemi á vegum hins opinbera, svo sem umönnun sjúkra, fatlaðra og aldraðra, kennslu, bókavörslu og slökkvistörf, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Vissulega getur það verið álitamál hvort þær ákvarðanir, sem tengjast opinberri þjónustu, falli undir gildissvið laganna. Í því efni verður að skoða hvort ákvörðunin lýtur fyrst og fremst að framkvæmdinni, svo sem því hvenær og hvernig læknisaðgerð skuli framkvæmd, hvaða námsefni skuli lagt til grundvallar við kennslu o.s.frv., eða hvort ákvörðunin er fremur lagalegs eðlis, þ.e. fær mönnum réttindi eða skerðir þau, léttir skyldum af mönnum eða leggur á þá auknar byrðar. Þannig verður að líta til þess hvers eðlis ákvörðunin er, en ekki eingöngu til þess hver tekur ákvörðunina og hvers efnis hún er. Sem dæmi má taka þá ákvörðun læknis að framkvæma læknisaðgerð eða synja um framkvæmd hennar. Slík ákvörðun getur augljóslega fallið undir gildissvið laganna, svo sem synjun læknis um að framkvæma fóstureyðingu, meðan synjun um að framkvæma minni háttar læknisverk myndi tæplega teljast stjórnvaldsákvörðun í skilningi laganna." (Alþt. 1992, A-deild, bls. 3283.)

Eins og fram kemur í framangreindum lögskýringargögnum, fellur kennsla almennt ekki undir stjórnsýslulögin eða ákvarðanir, sem lúta að framkvæmd kennslu, svo sem um það hvaða námsefni skuli lagt til grundvallar við kennslu o.fl. Ákvarðanir um agaviðurlög og skyld úrræði geta aftur á móti fallið undir stjórnsýslulögin. Með hliðsjón af framangreindum ummælum í greinargerð verður væntanlega að telja, að hin vægari úrræði, sem notuð er til að halda uppi aga og almennum umgengnisvenjum, teljist almennt ekki stjórnvaldsákvarðanir. Þannig verða ávítur og áminningar svo og brottvísun nemanda úr ákveðinni kennslustund almennt ekki talin stjórnvaldsákvarðanir. Væntanlega verður brottvísun úr skóla það, sem eftir er skóladags, heldur ekki talin það. Sú ákvörðun, að meina nemanda að sækja kennslutíma í ákveðnu fagi um nokkurt skeið eða víkja honum úr skóla í fleiri en einn skóladag, telst aftur á móti ákvörðun um slík réttindi og skyldur, þannig að hún fellur undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ber því að fara með slík mál í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ég tel þörf á því að reglugerð nr. 512/1975, um skólareglur o.fl. í grunnskóla, verði endurskoðuð með það í huga, að fylgt sé ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við undirbúning og meðferð þeirra mála, þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Skiptir miklu að reglugerðin sé ákveðin og skýr um þá málsmeðferð, sem fylgja ber, því ella er hætta á að ákvæði 57. gr. grunnskólalaga nái ekki því markmiði, sem að var stefnt, þ.e.a.s. "að viðbrögð við hegðunarvandkvæðum séu skipuleg og markviss" (Alþt. 1990, A-deild, bls. 2016).

2.

Af 14. og 15. gr. grunnskólalaga leiðir, að fræðslustjóri er lægra sett stjórnvald gagnvart menntamálaráðherra. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er almennt heimilt að kæra ákvarðanir lægra setts stjórnvalds til æðra setts stjórnvalds á hlutaðeigandi sviði. Í 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 512/1975 um skólareglur o.fl. í grunnskóla, er svohljóðandi ákvæði:

"Fræðslustjóri sker úr málum nemenda, sem vísað er til hans samkvæmt þessari reglugerð. Vilji forráðamenn nemanda ekki hlíta úrskurði fræðslustjóra getur hvor aðili um sig vísað málinu til barnaverndarnefndar."

Á vegum sveitarfélaga starfa barnaverndarnefndir, sbr. 6. gr. laga nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna. Foreldrar, forráðamenn barns og aðrir þeir, sem eru barninu nákomnir, geta skotið úrskurði barnaverndarnefndar til barnaverndarráðs til fullnaðarúrskurðar, sbr. 49. gr. laganna. Samkvæmt 3. gr. laganna fer félagsmálaráðuneytið með yfirstjórn barnaverndarmála.

Barnaverndarnefndir teljast til stjórnsýslu sveitarfélaga og heyra stjórnarfarslega undir félagsmálaráðherra. Menntamálaráðherra er því aðeins heimilt að fela barnaverndarnefndum vald til þess að leysa úr kærumálum á þessu sviði, að hann hafi til þess skýra lagaheimild. Ráðherra getur ekki á grundvelli hinnar almennu heimildar til setningar reglugerðar um nánari framkvæmd þess ákvæðis, sem fram kemur í 5. mgr. 57. gr., sbr. 85. gr. grunnskólalaga, falið vald sitt stjórnvaldi, sem hvorki fellur undir yfirstjórn hans né hann ber stjórnskipulega ábyrgð á. Þar sem ekki er mælt fyrir um slíka kæruheimild í grunnskólalögunum, eins og gert er t.d. í 56. gr. laganna, og ráðherra heldur ekki veitt sérstök lagaheimild til þess að mæla fyrir um slíkt í reglugerð, verður að telja, að ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 512/1975, þar sem mælt er fyrir um málskot til barnaverndarnefndar, skorti lagaheimild.

Í þessu sambandi tel ég einnig rétt að taka fram, að þótt nægjanleg lagaheimild væri til þess að fela barnaverndarnefnd meðferð slíkra kærumála, tel ég vafa leika á því að slík skipan væri heppileg. Er þar rétt að hafa í huga, að barnaverndarnefndir hafa oft þegar tekið afstöðu í slíkum málum með úrræðum, sem barnaverndarnefndum ber að grípa til skv. lögum nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna, til að tryggja hagsmuni og velferð barna og ungmenna."

VI.

Niðurstaða álits míns, dags. 24. febrúar 1994, var svohljóðandi:

"Eins og nánar er rakið hér að framan, er það niðurstaða mín, að ekki verði að því fundið, þó ekki hafi verið búið að tryggja B "annað úrræði", er honum var vísað úr skóla af skólastjóra Grunnskóla X, þar sem aðeins var um tímabundna brottvísun að ræða. Aftur á móti tel ég að gera hafi átt A skýrari grein fyrir því, að brottvísunin væri aðeins tímabundin. Ég tel ennfremur að lögum samkvæmt hafi sú skylda hvílt á skólastjóra að tilkynna forsjármönnum um hina tímabundnu brottvísun. Af þeim gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð, tel ég á hinn bóginn ekki hægt að fullyrða, að gripið hafi verið til of harkalegra úrræða, eins og á stóð, er B var vísað tímabundið úr skóla 2. apríl 1992.

Ég tel þörf á því að reglugerð nr. 512/1975, um skólareglur o.fl. í grunnskóla, verði endurskoðuð með tilliti til þess, að fylgja ber ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við undirbúning og meðferð máls, þegar taka skal ákvarðanir, sem telja verður stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Þá verður að telja, að ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 512/1975, þar sem mælt er fyrir um málskot til barnaverndarnefndar, skorti lagastoð. Af þessu tilefni er álit þetta sent forseta Alþingis og menntamálaráðherra, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis og 11. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis."

VII.

Með bréfi, dags. 4. nóvember 1994, óskaði ég eftir upplýsingum um það hjá menntamálaráðherra, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af áliti mínu. Í svari menntamálaráðuneytisins frá 8. desember 1994 segir:

"Þegar bréf umboðsmanns dags. 24. febrúar 1994 barst menntamálaráðuneytinu, stóð yfir samning að frumvarpi til nýrra grunnskólalaga. Reglugerð um skólareglur mun byggja á 41. gr. frumvarpsins, sbr. reglugerðarákvæði í lok greinar. Frumvarp til grunnskólalaga er nú til umfjöllunar hjá menntamálanefnd Alþingis. Þegar frumvarp þetta er orðið að lögum verður samin ný reglugerð um skólareglur o.fl. eins og 41. gr. frumvarpsins kveður á um.

Við samningu að frumvarpi til laga um grunnskóla var sérstaklega hugað að 2. málsl. 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 512/1994 og 3. málsgr. 57. gr. gildandi laga um grunnskóla frá 1991. Umboðsmaður Alþingis hafði í bréfi frá febrúar 1994 bent á að barnaverndarnefndir heyrðu undir félagsmálaráðherra og því væri menntamálaráðherra ekki heimilt að fela barnaverndarnefndum vald til að leysa úr kærumálum nema að hann hefði til þess skýra lagaheimild.

Tekið var mið af þessum ábendingum umboðsmanns og eiga 6. gr. og 41. gr. í frumvarpi til laga um grunnskóla að vera í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um undirbúning og meðferð máls...."

Frumvarp þetta varð að lögum nr. 66/1995 um grunnskóla.