Ríkisútvarpið ohf. Upplýsingalög. Laun.

(Mál nr. 5103/2007)

Fréttir í fjölmiðlum þar sem haft var eftir formanni stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. að hann myndi ekki hvað útvarpsstjóri hefði í laun og þau yrðu gefin upp á næsta aðalfundi Ríkisútvarpsins og ummæli útvarpsstjóra þar sem hann bar við minnisleysi um upphæð eigin launa og tímalengd rekstarleigu bifreiðar urðu umboðsmanni Alþingis tilefni til að taka til athugunar að eigin frumkvæði hvernig Ríkisútvarpið ohf. fylgdi reglum upplýsingalaga við að veita upplýsingar og aðgang að gögnum um laun starfsmanna. Samkvæmt lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., skulu upplýsingalög nr. 50/1996 gilda um starfsemi þess. Umboðsmaður ákvað að ljúka athugun sinni á málinu með bréfi til stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. eftir að upplýsingar um þau launakjör sem um hafði verið fjallað í fréttum fjölmiðla höfðu verið birtar opinberlega. Umboðsmaður taldi hins vegar tilefni til að koma ábendingum á framfæri við stjórnina er lytu að framkvæmd upplýsingalaga við veitingu upplýsinga um laun starfsmanna hins opinbera hlutafélags og aðgangi almennings að slíkum upplýsingum. Einnig ákvað hann að tilkynna menntamálaráðherra um bréf sitt til stjórnarinnar í ljósi þess að ráðherrann færi með eignarhlut íslenska ríkisins í Ríkisútvarpinu ohf., sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 6/2007.

Umboðsmaður rakti í bréfi sínu meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um skyldu stjórnvalda til að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða til¬tekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Vék umboðsmaður síðan að ákvæði 5. gr. upplýsinga og rakti í því sambandi þau sjónarmið sem fram komu um skýringu ákvæðisins við meðferð frumvarps til upplýsingalaga á Alþingi. Þar hefði komið fram sú afstaða löggjafans að upplýsingar um laun opinberra starfsmanna, þ.e. ákvarðanir um föst laun og önnur föst kjör, væru ekki undanþegnar aðgangi almennings. Öðru máli gegndi hins vegar um greidd heildarlaun á hverjum tíma sem kynnu að vera mismunandi vegna breytilegra atvika eins og yfirvinnu. Þá minnti umboðsmaður á að upplýsingar um ákvarðanir um laun og önnur starfskjör starfsmanna hins opinbera væru í eðli sínu upplýsingar um ráðstöfun opinberra fjármuna. Rétti til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum væri meðal annars ætlað að auðvelda almenningi að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni, t.d. á vettvangi fjölmiðla og stjórnmála.

Með tilliti til viðbragða Ríkisútvarpsins ohf. í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns sem fólust í því að birta upplýsingar um heildarlaun útvarpsstjóra fyrr en boðað hafði verið taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla sérstaklega almennt um þær skyldur sem upplýsingalögin legðu Ríkisútvarpinu ohf. á herðar þótt um væri að ræða hlutafélag í opinberri eigu. Þó taldi hann rétt með tilliti til þess hvaða upplýsingar stjórnin hefði veitt um laun útvarpsstjóra að benda á þá afstöðu sem komið hefði fram þegar upplýsingalögin voru samþykkt um að réttur almennings samkvæmt lögunum tæki ekki til aðgangs að gögnum um heildarlaun, þ.e. hverjar hefðu í raun verið launagreiðslur fyrir einstaka mánuði, heldur til gagna um hvaða ákvarðanir hefðu verið teknar um föst laun starfsmanns og önnur föst kjör sem hann hefði. Í samræmi við 5. gr. upplýsingalaga tæki upplýsingarétturinn því til þess að veita aðgang að gögnum um það hver væru umsamin föst laun starfsmanna og síðan hver væru önnur föst starfskjör sem samið hefði verið um, svo sem bifreiðahlunnindi, og þá hver, og föst aukavinna eða þóknanir t.d. fyrir fréttalestur eins og í tilviki Ríkisútvarpsins ohf..

Bréf mitt til stjórnar Ríkisútvarpsins ohf., dags. 22. nóvember 2007, er svohljóðandi:

„I.

Ég vísa til bréfs míns til stjórnar Ríkisútvarpsins ohf., dags. 18. september 2007, bréfs míns til Sigurbjarnar Magnússonar, hæstaréttarlögmanns, dags. 9. september 2007, og svarbréfa lögmannsins fyrir hönd stjórnarinnar, dags. 1. október og 18. október 2007.

Ástæða þess að ég ákvað að rita stjórn Ríkisútvarpsins ohf. bréf, dags. 18. september sl., og taka mál þetta til athugunar að eigin frumkvæði samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, voru svör formanns stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. og útvarpsstjóra þegar þeir voru spurðir í fjölmiðlum um laun og starfstengdar greiðslur útvarpsstjóra. Þessi svör gáfu tilefni til að ætla að þess væri ekki nægjanlega gætt hjá Ríkisútvarpinu ohf. að fylgja því ákvæði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 6/2007 að upplýsingalög nr. 50/1996 giltu um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. Ég hef nú ákveðið að ljúka athugun minni á málinu með bréfi þessu en bréfaskipti mín við Ríkisútvarpið ohf. og þau svör sem þar koma fram gefa tilefni til þess að ég komi eftirfarandi ábendingum á framfæri við stjórnina er lúta að framkvæmd upplýsingalaga við veitingu upplýsinga um laun starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf. og aðgangi almennings að slíkum upplýsingum. Jafnframt hef ég ákveðið að kynna menntamálaráðherra þetta bréf mitt með tilliti til þess að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 6/2007 fer menntamálaráðherra með eignarhlut íslenska ríkisins í Ríkisútvarpinu ohf.

II.

Í bréfi mínu frá 18. september 2007 til stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. óskaði ég eftir því að stjórnin upplýsti mig um hvort rétt væri haft eftir stjórnarformanni þess og útvarpsstjóra í frétt um launakjör útvarpsstjóra sem birtist á vefsíðunni www.visir.is 23. ágúst sl. Var í fréttinni haft eftir stjórnarformanninum að hann myndi ekki „hvað útvarpsstjóri [hefði] í laun en þau [yrðu] gefin upp á næsta aðalfundi Ríkisútvarpsins“. Í fréttinni var einnig haft eftir honum að „ástæðulaust [væri] að halda þeim leyndum“. Í sömu frétt kom fram að útvarpsstjóri hefði borið við „minnisleysi“ um upphæð eigin launa og tímalengd rekstrarleigu bifreiðar sem hann notaði og um var fjallað í fréttinni. Ég tók fram að væri í fréttinni rétt haft eftir stjórnarformanninum og útvarpsstjóranum, óskaði ég eftir því að stjórn Ríkisútvarpsins ohf. lýsti afstöðu sinni til þess hvort og að hvaða leyti þau svör sem veitt voru af tilgreindum einstaklingum væru í samræmi við ákvæði 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, eins og það yrði skýrt með hliðsjón af 5. gr. laganna og þeim sjónarmiðum er leidd verða af þeim ákvæðum. Ég óskaði eftir að svar við bréfi þessu bærist mér fyrir 2. október 2007.

Hinn 1. október 2007 barst mér bréf frá lögmanni Ríkisútvarpsins ohf. þar sem fram kom að stjórnarformaður Ríkisútvarpsins ohf. hefði falið honum að svara bréfi mínu frá 18. september sl. Í bréfinu sagði að þar sem stjórnarfundur Ríkisútvarpsins ohf. væri ekki fyrirhugaður fyrr en 15. október 2007 og nauðsynlegt væri að ræða bréf mitt á stjórnarfundi væri óskað eftir því að veittur yrði frestur til þess að svara erindi mínu til 18. október 2007.

Af þessu tilefni ákvað ég að rita bréf til lögmannsins, dags. 9. október sl. Í bréfinu tók ég m.a. fram að ég fengi ekki séð hvers vegna stjórn Ríkisútvarpsins ohf. og þá sérstaklega lögmaður sem falið hafði verið að svara bréfi mínu þyrfti viðbótartíma til að svara fyrirspurn minni. Ég minnti á að mál þetta lyti að framkvæmd upplýsingalaga nr. 50/1996 og að samkvæmt þeim lögum ætti ávallt að afgreiða erindi um aðgang að gögnum hjá stjórnvöldum fljótt og án ástæðulausra tafa, eins og segði í athugasemd við 11. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga. Því væru það tilmæli mín að Ríkisútvarpið ohf. léti mér þegar í té svör við umbeðnum upplýsingum þannig að ganga mætti úr skugga um hvort það viðhorf sem fram kom í tilvitnaðri frásögn í fjölmiðlum stæði því enn í vegi að Ríkisútvarpið ohf. léti í té upplýsingar um launakjör útvarpsstjóra. Í niðurlagi bréfsins tók ég fram að það væri mikilvægt að þeir aðilar sem á annað borð lytu ákvæðum upplýsingalaga höguðu afhendingu gagna og upplýsinga á grundvelli þeirra laga án þess að í reynd væri verið að búa þær upplýsingar í einhvern þann búning sem ekki þjónaði þeim markmiðum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum sem þau lög væru byggð á.

Í svarbréfi lögmanns Ríkisútvarpsins ohf. til mín, dags. 18. október 2007, kom m.a. eftirfarandi fram:

„Þann 16. október sl. upplýsti stjórnarformaður umbj. míns, Ómar Benediktsson, að mánaðarleg laun útvarpsstjóra væru kr. 1.500.000,- og sú fjárhæð samanstæði af launum, bifreiðahlunnindum og þóknunum fyrir fréttalestur.

Umbj. minn hafði í fyrstu ákveðið að veita þessar upplýsingar á næsta aðalfundi félagsins en hvarf frá þeirri afstöðu sinni og upplýsti um laun útvarpsstjóra eins og að framan er rakið.

Með vísan til þessa tel ég ekki þörf á frekari umfjöllun vegna þessa af hálfu umbj. míns.“

Ég tel rétt að fram komi að á Alþingi 7. nóvember sl. greindi menntamálaráðherra frá því í svari við fyrirspurn þingmanns að samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu ohf. væru heildargreiðslur til útvarpsstjóra 1.530 þús. kr. á mánuði. Þá væru meðtalin laun og reiknuð bifreiðahlunnindi fyrir útvarpsstjórastarfið og þóknun fyrir fréttalestur til jafns við aðra sem gegna því starfi.

III.

Alþingi samþykkti upplýsingalög nr. 50/1996 17. maí 1996 og tóku þau gildi 1. janúar 1997. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur ákveðin meginregla fram. Þar segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Í almennum athugasemdum sem fylgdu greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga segir svo um þessa meginreglu:

„Aðalatriði þessarar meginreglu er að einstaklingar og lögaðilar, þ.m.t. fjölmiðlar, eigi lögum samkvæmt rétt til aðgangs að gögnum mála innan stjórnsýslunnar án þess að þurfa að sýna fram á tengsl við málið eða aðila þess og án þess að þurfa að sýna fram á hagsmuni af því að fá eða nota umbeðnar upplýsingar.“ (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3017.)

Í 4. gr. upplýsingalaga eru ákvæði um gögn sem undanþegin eru upplýsingarétti almennings. Í 6. gr. er mælt fyrir um takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna. Í 5. gr. er ákvæði er lýtur að takmörkunum á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Í ákvæðinu segir svo:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Í athugasemdum við 5. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum er vikið nánar að þeim takmörkunum sem mælt er fyrir um í greininni og hvert sé umfang þeirra. Þar segir m.a. svo:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um fjárhagsmálefni. Þannig er t.d. almennt óheimilt að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggist á sérstakri lagaheimild. Að því er snertir laun opinberra starfsmanna, þá eru upplýsingar um föst laun og önnur föst kjör opinberra starfsmanna ekki undanþegnar aðgangi almennings. Á grundvelli 5. gr. er það aftur á móti undanþegið aðgangi almennings hver heildarlaun hver opinber starfsmaður hefur haft, hvort sem laun hans eru hærri en föst laun og kjör, sem stöðu hans fylgja, sökum unninnar yfirvinnu, eða þá lægri vegna launafrádráttar sökum fjarvista eða annarra atvika.“ (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3021.)

Í tilefni af þessum athugasemdum tók allsherjarnefnd Alþingis fram í nefndaráliti sínu að nefndin legði áherslu á að skýra bæri ákvæði 5. gr. svo að með lögunum væri ekki aðeins tryggður aðgangur að upplýsingum um föst laun opinberra starfsmanna heldur einnig að þeim eintaklingsbundnu samningum sem gerðir hefðu verið við starfsmenn um önnur föst kjör þeirra, svo sem fasta (ómælda) yfirvinnu, akstursgjald o.fl. (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 4263.)

Af hinum tilvitnuðu orðum sem koma fram í athugasemdum við 5. gr. frumvarps er varð að upplýsingalögum má ráða að það hafi verið afstaða löggjafans að upplýsingar um laun opinberra starfsmanna, þ.e. ákvarðanir og samningar um föst laun og önnur föst kjör, væru ekki undanþegnar aðgangi almennings. Hins vegar hafi verið litið svo á af hálfu löggjafans að ákvæði 5. gr. veitti almenningi ekki aðgang að upplýsingum er lytu að því hver heildarlaun opinberra starfsmanna væru á hverjum tíma vegna breytilegra atvika eins og yfirvinnu og fjarvista sem hefðu áhrif t.d. á útgreidd mánaðarlaun.

Í lögskýringargögnum með frumvarpi til upplýsingalaga er gerð grein fyrir þeim markmiðum sem liggja að baki frumvarpinu. Í almennum athugasemdum í frumvarpinu kemur eftirfarandi fram um það efni:

„Í nútíma lýðræðisþjóðfélagi er það talið sjálfsagt að almenningur eigi þess kost að fylgjast með því sem stjórnvöld hafast að, ýmist beint eða fyrir milligöngu fjölmiðla. Liður í því er að hver og einn geti fengið aðgang að upplýsingum um mál sem til meðferðar eru hjá stjórnvöldum, jafnvel þótt það snerti ekki hann sjálfan. Þetta er meginmarkmiðið með frumvarpi þessu og er þannig á sama hátt og stjórnsýslulögum ætlað að stuðla að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni. Lögin ættu jafnframt að draga úr tortryggni almennings í garð stjórnvalda --- tortryggni sem oft og einatt á rót sína að rekja til þess að upplýsingum hefur, stundum að óþörfu, verið haldið leyndum. Að sjálfsögðu getur það verið óhjákvæmilegt í vissum undantekningartilvikum, en til þess þurfa þá að vera brýnar ástæður.“ (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3010.)

Í framsöguræðu forsætisráðherra á Alþingi þegar frumvarp til upplýsingalaga var lagt fram kom einnig eftirfarandi fram um markmið frumvarpsins:

„Ein forsenda þess að unnt sé að tala um lýðræðislega stjórnarhætti er sú að borgurum sé gert kleift að fylgjast með og kynnast athöfnum og starfsemi þeirra stofnana sem reknar eru í almenningsþágu. Slíkan aðgang hafa borgararnir að fundum á hinu háa Alþingi eins og þeir eiga stjórnarskrárvarinn rétt til og sama á að meginreglu við um þinghald dómstóla. Sama aðferð verður af augljósum ástæðum ekki almennt viðhöfð um starfsrækslu framkvæmdarvaldsins enda þótt sömu sjónarmið eigi ekki síður við um þá starfsemi sem þar fer fram. Það þarf þó ekki að koma í veg fyrir og á ekki að standa því í vegi að almenningur geti fylgst með athöfnum stjórnvalda, ýmist beint eða fyrir milligöngu fjölmiðla. Slíkur aðgangur gefur almenningi kost á að kynna sér viðfangsefni stjórnvalda og mynda sér á þeim skoðun á hlutlægum grundvelli og ætti yfirleitt að veita fjölmiðlum betri möguleika á að sinna hlutverki sínu í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Þá eru lögfestar reglur um upplýsingaskyldu stjórnvalda til þess fallnar að auka á aðhald með starfsemi stjórnsýslunnar. Með lögunum opnast sú leið að fá upplýsingar um áður afgreitt mál hjá stjórnvöldum svo hægt sé að meta hvort stjórnvöld hafi gætt samræmis og jafnræðis við úrlausn mála. Þannig stuðla meginmarkmið frv. að því að styrkja lýðræðislega stjórnarhætti og réttaröryggi stjórnsýslu hins opinbera auk þess sem þau ættu þegar best lætur að auka tiltrú almennings á að stjórnvöld séu hlutverki sínu vaxin.

Í samræmi við þessi markmið er með þessu frv. lagt til að lögfest verði sú meginregla að stjórnvöldum sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum máls þegar eftir því er leitað. Rétt er hins vegar að geta þess sérstaklega að ekki er nein skylda lögð á herðar stjórnvöldum að veita slíkar upplýsingar að eigin frumkvæði né heldur að taka saman eða búa til upplýsingar sem liggja ekki fyrir.“ (Alþt. 1995-1996, B-deild, dálkur 4081.)

Af hinum tilvitnuðu orðum má ráða að markmið með frumvarpi til upplýsingalaga hafi verið að veita almenningi aðgang að gögnum um mál sem til meðferðar hafa verið eða eru hjá stjórnvöldum þannig að hann geti fylgst með störfum stjórnvalda og veitt þeim aðhald. Þetta markmið sé til þess fallið að auka tiltrú almennings á að stjórnvöld séu hlutverki sínu vaxin og draga úr tortryggni almennings í garð stjórnvalda. Samkvæmt þessu er ljóst að sjónarmið um gegnsæi í stjórnsýslunni er ráðandi sjónarmið sem hafa verður almennt í huga við skýringu og beitingu á ákvæðum upplýsingalaga.

Ég bendi á í þessu sambandi að upplýsingar um þær ákvarðanir sem teknar eru um laun og önnur starfstengd réttindi eða greiðslur til starfsmanna hins opinbera fyrir vinnu þeirra eru í eðli sínu upplýsingar um ákvarðanir um ráðstöfun opinberra fjármuna. Fjármunum sem eiga uppruna sinn í skatttekjum, gjöldum fyrir veitta þjónustu og öðrum tekjum hins opinbera.

IV.

Lög nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., tóku gildi 1. febrúar 2007. Í 2. mgr. 12. gr. laganna segir að upplýsingalög nr. 50/1996 gildi um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 6/2007 segir svo:

„Í 2. mgr. segir síðan að upplýsingalög, nr. 50/1996, gildi um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf. Er það í samræmi við nefndarálit meiri hluta menntamálanefndar eftir 2. umræðu um frumvarp þetta um Ríkisútvarpið hf. á síðasta þingi. Í umræðum um frumvarpið innan nefndarinnar og í umræðum á Alþingi á síðasta þingi var lögð á það þung áhersla að ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996, giltu um Ríkisútvarpið hf. Eins og nánar er rakið í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum, nr. 50/1996, gilda lögin einvörðungu um stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga en ekki um hlutafélög og skiptir þar engu þótt hlutafélagið sé að öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélags. Í ljósi þess að Ríkisútvarpinu hf. væri ætlað að veita útvarpsþjónustu í almannaþágu sem væri í eðli sínu opinber þjónusta taldi meiri hlutinn engu síður rétt að upplýsingalög giltu um starfsemi þess þannig að almenningur gæti fengið aðgang að gögnum mála hjá því í samræmi við ákvæði laganna.“ (Alþt. 2006-2007, A-deild, bls. 765-766.)

Af ofangreindu verður ráðið að löggjafinn hafi með lögum nr. 6/2007 ákveðið að láta gildissvið upplýsingalaga einnig taka til starfsemi hins opinbera hlutafélags, Ríkisútvarpsins en í 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga segir að lögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þessi afstaða löggjafans hefur það í för með sér að ákvæði upplýsingalaga um aðgang almennings að upplýsingum og þau sjónarmið sem ráðin verða af lögskýringargögnum, sem vikið er að í kafla III hér að framan, eiga við um starfsemi Ríkisútvarpsins ohf.

Eins og rakið er í kafla II laut fyrirspurnarbréf mitt til stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. að tilsvörum formanns stjórnar og útvarpsstjóra þegar fjölmiðill leitaði eftir upplýsingum um launakjör útvarpsstjóra. Athugun mín á þessu máli hefur því ekki beinst að synjun Ríkisútvarpsins ohf. á tilteknu formlegu erindi og í þeirri frétt sem varð tilefni fyrirspurnarinnar kom fram sú afstaða stjórnarmannsins að „ástæðulaust“ væri að halda launum útvarpsstjóra leyndum. Hins vegar yrðu þau ekki gefin upp fyrr en á næsta aðalfundi Ríkisútvarpsins ohf. Tekið skal fram að samkvæmt grein 5.1.2. í samþykktum Ríkisútvarpsins ohf. skal halda aðalfund félagsins fyrir lok maímánaðar ár hvert.

Með tilliti til þess hver urðu viðbrögð af hálfu Ríkisútvarpsins ohf. í kjölfar fyrirspurnar minnar og þar með að birta upplýsingar um laun útvarpsstjóra fyrr en boðað hafði verið tel ég ekki tilefni til að fjalla sérstaklega almennt um þær skyldur sem upplýsingalögin leggja Ríkisútvarpinu ohf. á herðar þótt um sé að ræða hlutafélag í opinberri eigu. Það eru þó tvö atriði sem ég tel rétt að víkja að. Annars vegar ítreka ég nauðsyn á því að Ríkisútvarpið ohf. bregðist, eins og það er orðað í 11. gr. upplýsingalaga, svo fljótt sem verða má við beiðnum um gögn sem aðgangsréttur almennings tekur til. Þá vil ég einnig benda sérstaklega á að aðgangsrétturinn tekur til fyrirliggjandi gagna sem um kann að vera beðið og því gera lögin ekki ráð fyrir að Ríkisútvarpið ohf. geti sjálft valið í hvaða formi það lætur í té upplýsingar sem umbeðin gögn hafa að geyma eða birt þær sem hluta af öðrum gögnum eða samhliða öðrum gögnum t.d. ársreikningum, árshlutareikningum eða öðrum uppgjörum og yfirlitum sem tekin eru saman af öðru tilefni.

Hitt atriðið sem ég tel rétt að víkja sérstaklega að er efni þeirra upplýsinga sem Ríkisútvarpið ohf. birti í því máli sem hér er fjallað um. Í svarbréfi lögmanns félagsins frá 18. október 2007 kom fram að hinn 16. október sl. hefði stjórnarformaður félagsins upplýst að mánaðarleg laun útvarpsstjóra væru kr. 1.500.000,- og sú fjárhæð samanstæði af launum, bifreiðahlunnindum og þóknun fyrir fréttalestur. Ég vek reyndar athygli á því að sú fjárhæð sem þarna er tilgreind er 30.000 kr. lægri en kom fram í svari menntamálaráðherra á Alþingi 7. nóvember sl.

Af þessu tilefni vil ég taka fram að það leiðir af 5. gr. upplýsingalaga, eins og hún er skýrð með hliðsjón af framangreindum athugasemdum við hana í frumvarpi til laganna, sbr. kafla III, að réttur almennings samkvæmt upplýsingalögum tekur ekki til þess að fá upplýsingar um heildargreiðslur til útvarpsstjóra fyrir störf hans, þ.e. hverjar hafa í raun verið launagreiðslur til hans fyrir einstaka mánuði, heldur upplýsingar um föst laun hans og önnur föst kjör sem hann hefur. Ég bendi enn fremur á að í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál, t.d. í málum nr. 10/1997 frá 7. apríl 1997, nr. 183/2004 frá 27. júlí 2004 og nr. 214/2005 frá 25. júlí 2005, en samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga úrskurðar nefndin um ágreining vegna aðgangs að gögnum hjá stjórnvaldi, hefur 5. gr. verið skýrð svo, þegar óskað er eftir upplýsingum um laun opinberra starfsmanna, að aðgangur skuli veittur að upplýsingum í formi fyrirliggjandi gagna um föst laun og launakjör þeirra, þ. á m. að einstaklingsbundnum ráðningarsamningum og öðrum slíkum samningum. Hefur nefndin í því sambandi horft til athugasemda við 5. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga sem og ummæla í nefndaráliti allsherjarnefndar Alþingis sem vísað var til hér að framan. Í samræmi við framangreinda lagareglu á að því er útvarpsstjóra og aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. varðar að veita aðgang að gögnum um það hver séu umsamin föst laun þeirra og síðan hver séu önnur föst starfskjör sem samið hefur verið um, svo sem bifreiðahlunnindi, og þá hver, og föst aukavinna eða þóknanir t.d. fyrir fréttalestur.

Rétti til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum er meðal annars ætlað að veita almenningi kost á því að fá í hendur gögn um þær ákvarðanir sem stjórnvöld hafa tekið til þess að hann geti almennt á grundvelli sömu upplýsinga og stjórnvöld búa yfir tekið þátt í þjóðfélagsumræðu t.d. á vettvangi fjölmiðla og stjórnmála. Þar kann meðal annars að skipta máli hvernig laun einstakra starfsmanna eru ákveðin og samansett og hvaða rétt starfsmaðurinn á til annarra greiðslna sem tengd eru starfi hans. Það á t.d. við um þá samninga sem kunna að hafa verið gerðir við starfsmann um föst bifreiðahlunnindi. Sá sem á rétt til aðgangs að upplýsingum kann ef til vill að kjósa að gera samanburð á því hvernig slík kjör eru ákveðin hjá einhverjum hópi starfsmanna.

Ég kem þeirri ábendingu á framfæri við stjórn Ríkisútvarpsins ohf. að framvegis verði gætt framangreindra ákvæða upplýsingalaga og þeirra sjónarmiða, sem leiða af lögskýringargögnum með frumvarpi til laganna og af framkvæmd úrskurðarnefndar, þegar félaginu berast fyrirspurnir eða erindi um aðgang að gögnum er lúta að launakjörum útvarpsstjóra og annarra starfsmanna félagsins, þannig að þau viðhorf sem fram koma í tilvitnaðri frásögn á vefsíðunni www.visir.is, sbr. kafla II, standi því ekki í vegi að Ríkisútvarpið ohf. láti í té upplýsingar um launakjörin.

V.

Með vísan til framangreinds lýk ég hér með athugun minni á málefnum Ríkisútvarpsins ohf. er lúta að upplýsingagjöf um launakjör útvarpsstjóra, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég mun eins og áður sagði kynna menntamálaráðherra bréf þetta með því að senda honum afrit af því.“