Skattar og gjöld. Seðilgjöld. Lögmætisreglan.

(Mál nr. 5265/2008 - Fyrirspurnarbréf umboðsmanns Alþingis til fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra.)

Umboðsmaður Alþingis ritaði fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra bréf, dags. 22. febrúar 2008, þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um hvort þessi ráðuneyti hefðu fyrirhugað að kanna nánar í hvaða mæli það tíðkaðist að opinberar stofnanir og fyrirtæki innheimtu seðilgjöld og í hvaða tilvikum fullnægjandi lagaheimild stæði til þessarar gjaldtöku. Tilefni bréfs umboðsmanns var að viðskiptaráðherra hafði ákveðið að beina tilmælum til fjármálafyrirtækja um seðilgjöld sem innheimt væru í tengslum við innheimtu krafna. Vakti umboðsmaður athygli á í bréfi sínu að honum hefðu af og til á undanförnum árum borist kvartanir og erindi þar sem fundið væri að því að opinberar stofnanir og fyrirtæki hefðu bætt seðilgjaldi eða sambærilegu innheimtugjaldi við fjárhæð lögbundinna gjalda eða greiðslna fyrir þjónustu sem þau veittu.

Bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 22. febrúar 2008, til fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra er svohljóðandi:

Ég hef veitt því athygli að viðskiptaráðherra hefur beint tilmælum til fjármálafyrirtækja um seðilgjöld sem innheimt eru í tengslum við innheimtu krafna. Mér hafa af og til eftir að umrædd gjaldtaka hóf innreið sína fyrir nokkrum árum borist kvartanir og erindi þar sem fundið hefur verið að því að opinberar stofnanir og fyrirtæki, sem eru að innheimta lögbundin gjöld eða greiðslur fyrir þjónustu sem þau hafa veitt, hafa bætt seðilgjaldi eða sambærilegu innheimtugjald við fjárhæðina þegar komið hefur að innheimtu.

Í áliti mínu í máli nr. 3350/2001 frá 15. mars 2002 var fjallað um þá ákvörðun Ríkisútvarpsins að bæta við sérstöku gírógjaldi við innheimtu á lögbundnu afnotagjaldi Ríkisútvarpsins. Var það niðurstaða mín að slík gjaldtaka væri ekki heimil en af hálfu Ríkisútvarpsins var innheimta á hinu sérstaka gírógjaldi talin heimil á grundvelli þess að þarna væri um að ræða seðilgjald sem innheimt væri af viðkomandi banka og teljist því til gjaldtöku bankans. Í áliti mínu sagði m.a.:

„Útsending gíróseðla til greiðenda afnotagjalda er af hálfu Ríkisútvarpsins liður í því að innheimta lögbundin afnotagjöld. Í álitum umboðsmanns Alþingis hefur verið bent á að í samræmi við lögmætisregluna þurfi skýra lagaheimild til þess að heimta megi úr hendi skattþegnanna endurgjald á kostnaði af ákveðnum þáttum í skattheimtu ríkisins, sjá álit í málinu nr. 610/1992 frá 30. desember 1992. Þá er m.a. fjallað í áliti umboðsmanns Alþingis frá 13. mars 1995 í máli nr. 1041/1994 um nauðsyn lagaheimildar til töku sérstaks innheimtukostnaðar við almenna innheimtu þjónustugjalda.

Ég tel að það leiði af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins að Ríkisútvarpið þurfi lagaheimild til að gera greiðendum afnotagjalda að greiða til stofnunarinnar sérstök gjöld eða hluta af kostnaði sem fellur til hjá stofnuninni við innheimtu útvarpsgjalds.“

Mér hafa líka ítrekað borist erindi þar sem kvartað hefur verið yfir því að orkufyrirtæki ríkis og sveitarfélaga innheimti umrædd seðilgjöld þegar þau senda viðskiptamönnum sínum innheimtuseðla vegna orkukaupa. Þá var einnig kvartað yfir því að takmarkanir væru á greiða fyrir orkukaup með því að greiða fyrir þau í banka án kostnaðar en hins vegar væri boðið upp á gjaldfærslur hjá kortafyrirtækjum. Þessi mál urðu mér meðal annars umfjöllunarefni í bréfaskiptum við Orkuveitu Reykjavíkur sem birt eru á heimasíðu embættis míns sem mál nr. 3471/2002, 3608/2002 og 3635/2002. Það hefur verið afstaða mín að í þeim tilvikum þegar ákvæði eru í lögum um að þessi þjónustufyrirtæki sveitarfélaga og ríkisins þurfa að fá staðfestingu ráðherra á gjaldskrá sé ekki heimilt að innheimta umrædd seðilgjöld eða annan sérstakan kostnað við greiðslu, sem ekki telst til hefðbundins vanskilakostnaðar, nema kveðið sé á um slíkt í gjaldskránni. Að lögum sé orkufyrirtækjunum þannig heimilt að sundurliða þann kostnað sem verður til við að veita þjónustuna ef þau kjósa það og ráðherra staðfestir.

Á síðasta ári var meðal annars vakin athygli mín á því að heilbrigðisstofnun hefði þegar hún sendi innheimtuseðil vegna læknisheimsóknar og krafði um gjald fyrir samkvæmt ákvæðum reglugerðar um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu bætt seðilgjaldi við þá fjárhæð sem greiða skyldi fyrir læknisheimsóknina. Annað dæmi er að Háskóli Íslands hefur auk þess að krefja stúdenta um þá fjárhæð árlegs skráningargjalds sem tilgreind er í lögum gert þeim að greiða sérstakt seðilgjald til viðbótar við innheimtu skráningargjaldsins. Þrátt fyrir að ég hafi vakið athygli Háskóla Íslands á fyrri afstöðu minni til slíkrar gjaldtöku, sbr. álit mitt um gírógjald Ríkisútvarpsins, er mér ekki kunnugt um að látið hafi verið af innheimtu seðilgjaldsins.

Ég tel ljóst af þeim ábendingum sem mér hafa borist að það tíðkist í einhverju mæli að opinberar stofnanir og fyrirtæki innheimti svonefnd seðilgjöld og þá bæði til viðbótar við fjárhæðir gjalda sem ákveðnar eru í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum og einnig vegna þjónustu sem þau veita. Þegar leitað hefur verið eftir skýringum á þessari gjaldtöku hefur gjarnan verið vísað til þess að þetta væri kostnaður sem greiða þyrfti til bankanna vegna innheimtunnar. Með tilliti til þeirrar vinnu sem upplýst var að hafin væri á vegum viðskiptaráðuneytisins á síðasta ári til að skoða meðal annars innheimtu seðilgjalda af hálfu fjármálafyrirtækja taldi ég rétt að bíða niðurstöðu hennar og viðbragða viðskiptaráðherra af því tilefni áður en ég aðhefðist frekar vegna töku seðilgjalda hjá opinberum aðilum.

Ég hef nú ákveðið í ljósi þeirra tilmæla sem viðskiptaráðherra hefur beint til fjármálafyrirtækja að beina þeirri fyrirspurn til fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra hvort fyrirhugað sé af hálfu þessara ráðuneyta að kanna nánar í hvaða mæli það tíðkist að opinberar stofnanir og fyrirtæki innheimti seðilgjöld og í hvaða tilvikum fullnægjandi lagaheimild stendur til þessarar gjaldtöku.

Það er ósk mín að svar við bréfi þessu verði sent mér eigi síðar en 18. mars nk.