Skattar og gjöld. Tollar. Friðhelgi einkalífs. Stjórnsýslueftirlit.

(Mál nr. 5262/2008)

A, skipverji á farskipi, kvartaði til umboðsmanns yfir þeirri aðferð við tolleftirlit í farskipum, sem hann sagði tollgæslumenn í nánar tilgreindu tollumdæmi stunda, að fyrirskipa skipverjum að halda sig í matsal skipsins meðan leitað væri í klefum þeirra. Taldi A það brjóta gegn friðhelgi einkalífs skipverja sem verndað væri með 71. gr. stjórnarskrárinnar að meina þeim að vera viðstaddir leit í klefum sínum. Þá taldi A þessa framkvæmd vera í andstöðu við reglur um meðalhóf og þá meginreglu íslensks réttar að húsleit væri eingöngu heimil með dómsúrskurði.

Í tilefni af kvörtun A ritaði umboðsmaður tollstjóranum í Reykjavík bréf með fyrirspurnum sem hann taldi tilefni til að beina til hans vegna kvörtunar A. Fyrirspurnum var beint til tollstjórans í Reykjavík vegna sérstakrar stöðu hans á grundvelli 43. gr. tollalaga nr. 88/2005 við framkvæmd og skipulag tollamála. Umboðsmaður spurði tollstjórann hvort honum væri kunnugt um hvort framkvæmd leitar í klefum skipverja á farskipum við tollskoðun í íslenskum tollumdæmum væri almennt í samræmi við það sem A lýsti. Þá óskaði umboðsmaður þess, með vísan til 43. gr. tollalaga, að tollstjórinn upplýsti hann um hvort settar hefðu verið verklags- eða vinnureglur fyrir tollverði um framkvæmd leitar af þessu tagi á grundvelli ákvæðisins. Ef raunin væri sú að framkvæmd leitarinnar væri með þeim hætti sem A lýsti óskaði umboðsmaður loks eftir því að tollstjóri veitti honum upplýsingar um á hvaða lagagrundvelli slík framkvæmd væri byggð.

Í svari tollstjórans í Reykjavík við bréfi umboðsmanns kom fram að embættið hefði talið rétt að kalla eftir svörum frá tollstjórum á landsvísu um framkvæmd leita í klefum skipverja að þessu leyti. Tekið var fram að embættið hefði ekki sett sérstakar skriflegar verklags- eða vinnureglur fyrir tollverði um framkvæmd slíkrar leitar. Þá sagði að embættinu hefðu borist umbeðin svör frá öðrum tollstjórum og ljóst væri að framkvæmd leita í klefum skipverja færi ekki alfarið fram með samræmdum hætti alls staðar á landinu.

Afrit umræddra svara tollstjóranna fylgdu bréfi tollstjórans í Reykjavík til umboðsmanns. Af þeim var að ráða að framkvæmd leitar í klefum skipverja á farskipum, á mismunandi stigum og við mismunandi aðstæður sem í svörunum var nánar gerð grein fyrir, væri nokkuð mismunandi á milli tollstjóraembættanna enda þótt almennt væri þar fylgt sambærilegum reglum og aðferðum, stundum í mismunandi útfærslu. Meðal þess sem var ólíkt var það að ekki var í öllum tilvikum um það að ræða að skipverji eða fulltrúi hans væri viðstaddur leit í klefa sínum. Samkvæmt svörunum gat slíkt einkum átt við þegar um fíkniefnaleit væri að ræða og þá annað hvort almenna leit eða þegar rökstuddur grunur um smygl var talinn vera fyrir hendi.

Í fyrrnefndu svari tollstjórans í Reykjavík til umboðsmanns sagði að í ljósi þessa teldi embættið þörf á því, í samræmingarskyni, að gera verklagsreglur eða myndrænan verkferil um framkvæmd við leitir í klefum skipverja og að markmiðið væri að því verki lyki fyrir 1. október nk. Þá var í svari tollstjórans tekið fram að embættið hefði þó þegar beint þeim tilmælum til annarra tollstjóra að skipverjum yrði ávallt gefinn kostur á að vera viðstaddir leit í eigin klefum ef unnt væri, í samræmi við sjónarmið 2. mgr. 94. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sbr. 1. mgr. 163. gr. tollalaga. Loks sagði í svari tollstjórans til umboðsmanns að afrit af væntanlegum samræmdum verklagsreglum yrði sent umboðsmanni þegar þær lægju fyrir.

Í ljósi svara tollstjórans í Reykjavík við fyrirspurnum umboðsmanns taldi umboðsmaður að breyting hefði orðið af hálfu stjórnvalda á þeirri framkvæmd sem var tilefni kvörtunar A til hans. Umboðsmaður vísaði þar einkum til framangreindra tilmæla tollstjórans í Reykjavík sem hann hefði beint til annarra tollstjóra á grundvelli sérstaks hlutverks síns samkvæmt 43. gr. tollalaga. Einnig vísaði umboðsmaður um þetta til þeirra upplýsinga tollstjórans í Reykjavík að gerðar yrðu verklagsreglur um framkvæmd slíkrar leitar. Í ljósi viðbragða tollstjórans í Reykjavík við fyrirspurnum umboðsmanns taldi hann að gera mætti ráð fyrir því að með slíkum verklagsreglum yrði leitast við að tryggja með fullnægjandi hætti rétt skipverja að þessu leyti. Umboðsmaður lauk því málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga um umboðsmann Alþingis.