Skattar og gjöld. Neyðarvegabréf. Lögmætisreglan.

(Mál nr. 5241/2008)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir gjaldi vegna útgáfu neyðarvegabréfs (vegabréfs til bráðabirgða). Hann þurfti að verða sér úti um neyðarvegabréf og sneri sér til embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum. Var hann krafinn um kr. 8.350 fyrir útgáfu vegabréfsins.

Í tilefni af kvörtun A ritaði umboðsmaður bréf til embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum. Óskaði hann m.a. eftir að sér yrðu veittar upplýsingar um á hvaða lagagrundvelli A hefði verið krafinn um gjald að fjárhæð kr. 8.350 fyrir útgáfu neyðarvegabréfs, og þá sérstaklega um greiðslu umfram þá fjárhæð sem tilgreind væri í lögum um aukatekjur ríkissjóðs sem gjald fyrir vegabréf. Í svarbréfi embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum til umboðsmanns vegna athugunar hans á málinu kom fram að umrædd gjaldtaka byggði ekki á lögum og í ljósi þess hefði verið ákveðið að hætta aukagjaldtöku um kr. 5.800 sem málið snerist um. Gjaldtakan hefði verið tíðkuð í tvo áratugi og hefði verið viðhaldið af venju hjá embættinu og komið til vegna aukalegra útgjalda embættisins í tengslum við útgáfuna þar sem vegabréfin hefðu verið gefin út utan hefðbundins opnunartíma skrifstofu. Hefði verið litið svo á að notendur þjónustunnar hafi viljað greiða aukalega fyrir þá þjónustu sem Tollgæsla á Keflavíkurflugvelli hefði veitt með útgáfunni í stað þess að þurfa að sækja þjónustuna utan flugstöðvar á öðrum tímum sólarhringsins. Með hliðsjón af þessu svari embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum og þess að A hafi verið boðin endurgreiðsla á ofteknu gjaldi ákvað umboðsmaður að ljúka umfjöllun sinni á kvörtun A með bréfi til hans, sbr. a- lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í bréfi umboðsmanns til embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum var vikið að því að í lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, væri tilgreint að neyðarvegagjald væri kr. 2.550. Fengi umboðsmaður ekki séð að annað ákvæði í lögunum né í öðrum lögum hefði að geyma frekari ákvæði um gjaldtöku vegna slíkra vegabréfa. Af þessu tilefni tók umboðsmaður fram að ganga yrði almennt út frá því að rekstur opinberra stofnana væri fjármagnaður með fé sem fæst í almennri tekjuöflun ríkisins í formi skattgreiðslna á grundvelli skattlagningarheimilda. Löggjafinn kynni hins vegar að ákveða að tiltekin þjónusta, sem innt væri af hendi af hálfu hins opinbera, skyldi fjármögnuð með sérstökum þjónustugjöldum sem greidd væru af hálfu viðtakanda þjónustunnar. Taka slíkra gjalda þyrfti hins vegar að eiga sér fullnægjandi stoð í lögum. Auk þess kynni löggjafinn að mæla fyrir um aðra sérstaka tekjustofna svo sem gert er í lögum nr. 88/1991. Taldi umboðsmaður að gjald fyrir neyðarvegabréf að upphæð kr. 2.550 ætti fremur samstöðu með sköttum en þjónustugjöldum.

Umboðsmaður kom þeirri ábendingu á framfæri við embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum að framvegis yrði gætt að framangreindu og öðrum atriðum, sem rakin væru í bréfinu, í tengslum við innheimtu gjalda.

Í bréfi mínu til lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 11. júní 2008, kom m.a. eftirfarandi fram:

II.

Ég skrifaði embætti yðar bréf, dags. 22. febrúar sl., þar sem ég rakti framangreinda málavexti og viðeigandi lagaumhverfi. Jafnframt óskaði ég eftir því að mér yrðu veittar upplýsingar um á hvaða lagagrundvelli Páll hefði verið krafinn um gjald að fjárhæð kr. 8.350 fyrir útgáfu neyðarvegabréfs, og þá sérstaklega um greiðslu umfram þá fjárhæð sem tilgreind væri í lögum um aukatekjur ríkissjóðs sem gjald fyrir neyðarvegabréf. Ég óskaði jafnframt eftir því að fram kæmi hvort slík gjaldtaka umfram það gjald sem tilgreint væri í lögum um aukatekjur ríkissjóðs hefði tíðkast um lengri tíma, og þá frá hvaða tíma, og hvort svo væri enn.

Mér barst svar frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 18. apríl sl. Í bréfinu segir m.a.:

„Nákvæm athugun embættisins í framhaldi af erindi yðar hefur leitt í ljós að gjaldtaka sú er fyrirspurn yðar lýtur að byggir ekki á lögum og í ljósi þeirrar niðurstöðu hefur verið ákveðið að hætta þeirri aukagjaldtöku á kr. 5.800- sem mál þetta snýst um. Gjaldtaka sem þessi hefur verið tíðkuð í tvo áratugi og hefur verið viðhaldið af venju hjá embættinu og komið til vegna aukalegra útgjalda embættisins í tengslum við útgáfuna þar sem vegabréfin hafa verið gefin út utan hefðbundins opnunartíma skrifstofu. Hefur verið litið svo á að notendur þjónustunnar hafi viljað greiða aukalega fyrir þá þjónustu sem Tollgæsla á Keflavíkurflugvelli hefur veitt með útgáfunni í stað þess að þurfa að sækja þjónustuna utan flugstöðvar á öðrum tímum sólarhringsins.“

III.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 136/1998, er það almennt í verkahring Þjóðskrár að gefa út vegabréf. Í 2. mgr. 2. gr. sömu laga kemur hins vegar fram að heimilt sé að fela öðrum stjórnvöldum að gefa út vegabréf til bráðabirgða þegar sérstaklega stendur á. Samkvæmt c-lið 11. gr. sömu laga skal dómsmálaráðherra setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna, þ.á m. um heimild annarra stjórnvalda til útgáfu vegabréfs til bráðabirgða í sérstökum tilvikum.

Sú reglugerð hefur verið sett með reglugerð nr. 624/1999, um íslensk vegabréf, með síðari breytingum. Í 16. gr. reglugerðarinnar kemur fram að lögreglustjórar megi gefa út vegabréf til bráðabirgða (neyðarvegabréf) þegar sérstaklega stendur á. Í IX. kafla sömu reglugerðar er m.a. fjallað um gjöld. Í 26. gr. segir að um gjöld fyrir útgáfu vegabréfa fer samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs hverju sinni. Í c-lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, kemur fram að gjald fyrir neyðarvegabréf sé kr. 2.550.

Ég fæ ekki séð að annað ákvæði í lögunum né í öðrum lögum hafi að geyma frekari ákvæði um gjaldtöku vegna slíkra vegabréfa. Af þessu tilefni tek ég fram að ganga verður almennt út frá því að rekstur opinberra stofnana sé fjármagnaður með fé sem fæst í almennri tekjuöflun ríkisins í formi skattgreiðslna á grundvelli skattlagningarheimilda. Löggjafinn kann hins vegar að ákveða að tiltekin þjónusta, sem innt er af hendi af hálfu hins opinbera, skuli fjármögnuð með sérstökum þjónustugjöldum sem greidd séu af hálfu viðtakanda þjónustunnar. Taka slíkra gjalda þarf hins vegar að eiga sér fullnægjandi stoð í lögum. Auk þess kann löggjafinn að mæla fyrir um aðra sérstaka tekjustofna svo sem gert er í lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.

Samkvæmt þessu verður almennt að miða við það að ef almenningur á að standa undir kostnaði í hverju tilviki vegna þáttar sem telst til almenns rekstrar opinberrar stofnunar, t.d. vegna innheimtu á lögbundnum og ógjaldföllnum gjöldum, þarf að mæla fyrir um slíka skyldu með sérstakri lagaheimild. Að öðrum kosti verður að líta svo á að sá þáttur rekstrarins, eða sú þjónusta, skuli innt af hendi endurgjaldslaust til almennings í hverju tilviki fyrir sig og skuli þannig fjármagnaður af almennu rekstrarfé stofnunar sem henni er úthlutað á fjárlögum hverju sinni eða fengið er með sérstökum og lögmæltum tekjustofnum á borð við c-lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 88/1991.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, er gjald fyrir neyðarvegabréf, sem fyrr segir, kr. 2.550. Ákvæðið tilgreinir bæði fjárhæð og hvenær greiðsluskylda stofnast. Á því gjald það sem c-liður 1. mgr. 14. gr. mælir fyrir um fremur samstöðu með sköttum en þjónustugjöldum. Með tilliti til þess hver urðu viðbrögð af hálfu embættis yðar í kjölfar fyrirspurnar minnar, þ.e. að hætta þeirri aukagjaldtöku á kr. 5.800, tel ég ekki tilefni til að fjalla frekar lagagrundvöll þeirrar gjaldtöku. Ég ítreka þó að þegar lagaákvæði mælir fyrir um tilgreinda fjárhæð gjalds vegna ákveðinnar þjónustu þá leiðir það af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins að ekki er heimilt að innheimta hærra gjald en lagaákvæðið mælir fyrir um, nema til þess komi sérstök lagaheimild. Stjórnvöld verða því að mæta þeim auknu útgjöldum sem koma til við að veita þjónustu af eigin rekstrarfé. Er þeirri ábendingu hér með komið á framfæri við embætti yðar að framvegis verði gætt að framangreindum atriðum í tengslum við innheimtu gjalda.