Atvinnuleysistryggingar. Réttur til atvinnuleysisbóta við flutning innan EES-svæðisins. Tryggingargjald.

(Mál nr. 4859/2006)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta þar sem staðfest var sú ákvörðun Atvinnuleysistryggingasjóðs að hafna beiðni hennar um breytingu á svonefndu E-301 vottorði sem gefið hafði verið út til hennar sem heimilaði flutning áunnins bótarétts úr einu aðildarríki EES-samningsins til annars. A hafði krafist þess að ekki væri tilgreint sérstaklega á vottorðinu að tryggingartímabil það sem staðfest væri í því væri vegna sjálfstæðrar atvinnustarfsemi hennar sem einstaklings. Jafnframt laut kvörtun A að þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að Atvinnuleysistryggingasjóður hefði fullnægt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart A um bótarétt hennar hér á landi. Gerði A auk þess athugasemdir við að ekki hefði verið viðurkenndur bótaréttur hennar hér á landi á ákveðnu tímabili. A hafði starfað sem sjálfstæður verktaki sem rannsóknarstyrkþegi hjá Y frá janúar 2001 til ágúst 2004 en flutt lögheimili sitt til X 1. desember 2001 en haldið áfram vinnu við rannsóknir á vegum Y sem og sinnt stundakennslu viss tímabil við Z á Íslandi og háskólann Þ í X.

Umboðsmaður lauk athugun sinni með bréfi til A, dags. 14. maí 2007. Þar komst hann að þeirri niðurstöðu að A hefði ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta hér á landi á grundvelli ákvæða laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar, þar sem A uppfyllti hvorugt skilyrði 2. tölul. 2. gr. laganna, þ.e. að vera annað hvort búsett hér á landi eða hafa fengið leyfi hér á landi til atvinnuleitar í öðru EES-landi.

Umboðsmaður beindi einnig athugun sinni að því hvort lög nr. 12/1997 kynnu að takmarka þau réttindi sem ákvæðum EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, um hið Evrópska efnahagssvæði, væri ætlað að tryggja. Hafði umboðsmaður þá í huga það hlutverk sitt að tilkynna Alþingi um það ef hann yrði þess var að meinbugir væru á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður tók fram að hann fengi ekki annað séð af ákvæði b-liðar 1. mgr. 71. gr. reglugerðar nr. 1408/71/EBE en að þeir sem „[sæktu] vinnu yfir landamæri“ ættu ákveðið val um það hvar þeir sæktu atvinnuleysisbætur ef þeir væru tiltækir fyrir vinnumiðlun eða vinnuveitanda í „lögbæru“ ríki í skilningi ákvæðisins. Taldi umboðsmaður að ákvæði laga nr. 12/1997 og eftir atvikum núgildandi laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, um skilyrði bótaréttar væru ekki að öllu leyti í samræmi við fyrrgreint ákvæði 71. gr. reglugerðarinnar og tók hann fram í bréfi sínu til A að hann hygðist vekja athygli Eftirlitsstofnunar EFTA í Brüssel á þessu atriði. Þar sem umboðsmaður fékk hins vegar ekki séð af gögnum málsins að A hefði verið tiltæk fyrir vinnumiðlun eða vinnuveitanda í „lögbæru ríki“ í skilningi b-liðar 1. mgr. 71. gr. reglugerðar nr. 1408/71 tók hann fram að sú ályktun væri ekki dregin af hans hálfu að lög nr. 12/1997 takmörkuðu réttindi sem A kynni ótvírætt að hafa átt skv. alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefði undirgengist skv. EES-samningnum.

Varðandi þann þátt kvörtunar A er laut að því að A hefði ekki sótt formlega um atvinnuleysisbætur hér á landi vegna rangra upplýsinga og leiðbeininga Vinnumálastofnunar í sambandi við bótarétt hér á landi taldi umboðsmaður, einkum út frá því hvernig réttur til atvinnuleysisbóta væri afmarkaður skv. lögum nr. 12/1997, að ekki hefði verið staðið ranglega að veitingu leiðbeininga um efnislegan rétt A skv. þeim lögum. Benti umboðsmaður jafnframt á að eins og meðferð mála hjá umboðsmanni væri háttað skv. lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hefði hann ekki forsendur til að tjá sig um hvað kynni að hafa farið á milli í einstökum símtölum A við starfsmenn Vinnumálastofnunar. Í ljósi þess að umboðsmaður taldi ekki loku fyrir það skotið að A kynni að hafa átt rétt til þess samkvæmt þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands að um ákvörðun atvinnuleysisbóta hennar færi eftir íslenskri löggjöf um atvinnuleysistryggingar taldi hann ekki unnt að taka alfarið fyrir að meintar rangar leiðbeiningar til A kynnu að hafa í för með sér bótaskyldu af hálfu ríkisins, í samræmi við meginsjónarmið um skaðabótaskyldu ríkisins þegar á skortir að innlend löggjöf hafi verið réttilega löguð að skuldbindingum Íslands skv. samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Úrlausn slíkra álitaefna heyrði hins vegar undir dómstóla og félli því utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis, sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Umboðsmaður taldi miðað við gögn málsins að sú aðstaða kynni að vera uppi að A hefði innt af hendi tryggingargjald hér á landi og þar með atvinnutryggingargjald skv. lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, án þess að hafa hlotnast samsvarandi réttindi til greiðslu atvinnuleysisbóta, auk þess sem A hefði hugsanlega verið tryggð samtímis í tveimur löndum. Umboðsmaður benti á að í dómaframkvæmd EB-dómstólsins hefði verið lagt til grundvallar að það væri andstætt ákvæðum reglugerðar nr. 1408/71/EBE ef launþegi sem reglugerðin næði til væri gert að greiða gjöld af sömu tekjum til að fjármagna samfélagslegar tryggingar í fleiri einu aðildarríki auk þess sem slík aðstaða hefði verið talin fela í sér brot á ákvæðum samningsins um Evrópusambandið varðandi frjálsa för launafólks og frelsi til atvinnustarfsemi, sbr. nú 39. og 43. gr. þess samnings. Hefði yfirskattanefnd, æðsti úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi um tryggingargjald, lýst þeirri afstöðu sinni að skýra bæri ákvæði laga nr. 113/1990 til samræmis við ákvæði 28. gr. EES-samningsins og reglugerðar nr. 1408/71/EBE. Benti umboðsmaður á að A kynni að vera fær sú leið að leita til ríkisskattstjóra og óska eftir endurupptöku álagningar tryggingargjalds.

Um þann þátt kvörtunar A að Atvinnuleysistryggingarsjóður hefði ekki staðið rétt að útgáfu E-301 vottorðsins til staðfestingar á greiðslum A til Atvinnuleysistryggingarsjóðs á árunum 2001-2004 og þar með haft þau áhrif að útilokað hafi verið fyrir yfirvöld í ríkinu X að viðurkenna bótarétt A úr atvinnuleysistryggingum skv. þarlendum lögum benti umboðsmaður á að stjórnvöld í X hefðu kannað grundvöll skírteinisins sem A lagði fram og metið sjálfstætt rétt A til bóta á grundvelli reglna sem giltu í X. Benti umboðsmaður á að ákvæði laga nr. 85/1997 og almennar reglur um alþjóðleg lagaskil gerðu það að verkum að það félli utan starfssviðs hans að fjalla um ákvarðanir erlendra stjórnvalda.

Umboðsmaður tók að lokum fram að hann hefði orðið þess var að sami einstaklingur ritaði undir skýringar nefndarinnar fyrir hönd hennar til hans og sá sem ritaði undir upphaflegu ákvörðun Atvinnuleysistryggingasjóðs og hefði það orðið honum tilefni til þess að rita nefndinni bréf þar sem hann óskaði nánari upplýsinga og skýringa um þetta atriði.