Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum.

(Mál nr. 4946/2007)

A kvartaði yfir þeirri niðurstöðu í úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum að tjónþoli ætti ekki rétt á að fá greiddan kostnað vegna launatengdra gjalda og virðisaukaskatts meðan hann framvísaði ekki reikningi sem sýndi fram á greiðslu slíkra gjalda.

Umboðsmaður lauk athugun sinni með bréfi til A, dags. 9. mars 2007. Þar benti hann á að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, væri það hlutverk umboðsmanns Alþingis að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna næði starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hefðu opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt gagnályktun frá framangreindum lagaákvæðum féllu ákvarðanir einkaréttarlegra aðila, sem ekki hefði verið falið vald til að taka slíkar ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, utan starfssviðs umboðsmanns.

Umboðsmaður tók fram að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum starfaði á grundvelli sérstaks samkomulags viðskiptaráðuneytisins, Neytendasamtakanna og Sambands íslenskra tryggingafélaga. Taldi hann með vísan til 141. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingasamninga, og athugasemda við það ákvæði í frumvarpi til laganna að löggjafinn hefði með skýrum hætti tekið þá afstöðu að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum færi ekki með stjórnsýsluvald og tæki ekki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umboðsmaður lauk því umfjöllun sinni um kvörtun A þar sem niðurstaða úrskurðarnefndarinnar féll ekki undir starfssvið hans.

.