Kirkjumálefni. Kirkjugarðar. Meinbugir á lögum.

(Mál nr. 4895/2007)

A kvartaði yfir afgreiðslu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og biskups Íslands á umsókn um leyfi til að flytja leiði milli kirkjugarða.

Umboðsmaður lauk athugun sinni með bréfi til A, dags. 29. janúar 2007, þar sem hann taldi ekki tilefni til athugasemda við afgreiðslu stjórnvalda í málinu. Með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðherra og forseta Alþingis, dags. sama dag, tilkynnti umboðsmaður hins vegar, með vísan til heimildar í 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um hugsanlega meinbugi á lögum nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu sem gætu gefið tilefni til endurskoðunar. Benti umboðsmaður á að í síðari málslið 1. mgr. 47. gr. laganna hefði orðinu „ekki“ verið bætt inn í setninguna og merking hennar samkvæmt orðanna hljóðan hefði því gerbreyst, enda þótt ekki yrði betur séð af lögskýringargögnum en að ætlunin hefði einmitt verið að halda ákvæðinu efnislega óbreyttu frá eldra ákvæði 2. mgr. 32. gr. laga nr. 21/1963, um kirkjugarða.

Í bréfi umboðsmanns Alþingis til dóms- og kirkjumálaráðherra og forseta Alþingis sagði m.a. svo:

Fjallað er um tilfærslu líka og flutning þeirra í XIV. kafla laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Í 1. mgr. 47. gr. laganna er kveðið á um hvaða aðilar standa skuli að umsókn þar að lútandi og eru þeir taldir upp í fyrri málslið lagagreinarinnar. Í síðari málslið ákvæðisins segir svo orðrétt:



„Einnig er kirkjugarðsstjórn rétt að senda slíka umsókn ef nánir ættingjar hins látna eru ekki lífs eða ef samþykki þeirra liggur ekki fyrir.“ (Leturbr. mín.) Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 36/1993 segir um 47. gr. laganna að ákvæðið sé sambærilegt við 2. mgr. 32. gr. þágildandi laga nr. 21/1963, um kirkjugarða, en að börnum, þar á meðal kjörbörnum og fósturbörnum, og sambúðarmanni og sambúðarkonu, sé bætt í hóp þeirra sem veitt geti samþykki samkvæmt greininni. (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3869) Í fyrri málslið 2. mgr. 32. gr. laga nr. 21/1963 voru, líkt og í 47. gr. núgildandi laga, taldir upp þeir aðilar sem staðið gætu að umsókn um tilfærslu eða flutning líks. Í síðari málslið ákvæðisins sagði svo:

„Einnig er kirkjugarðsstjórn rétt að senda slíka umsókn, ef nánir ættingjar hins látna eru ekki lífs eða ef samþykki þeirra liggur fyrir.“ (Leturbr. mín.)

Eins og sjá má er orðalag ákvæðisins hið sama og í núgildandi lögum að öðru leyti en því að í þeim hefur orðinu „ekki“ verið bætt inn í setninguna og merking hennar samkvæmt orðanna hljóðan því gerbreytt. Eins og áður segir fæ ég hins vegar ekki betur séð af lögskýringargögnum en að ætlunin hafi einmitt verið að halda ákvæðinu efnislega óbreyttu við gildistöku núgildandi laga nr. 36/1993, að undanskildu því sem þegar hefur verið rakið.

Í ljósi framangreinds tel ég rétt, með vísan til 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að tilkynna forseta Alþingis og dóms- og kirkjumálaráðherra að hér kunni að vera um meinbugi á lögum að ræða sem gefið gætu tilefni til endurskoðunar á 47. gr. laga nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu.