Námslán og námsstyrkir. Kæra berst að liðnum kærufresti. Meinbugir á lögum.

(Mál nr. 4878/2006)

B kvartaði fyrir hönd A eiginkonu sinnar yfir því að Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) og málskotsnefnd sjóðsins hefðu vísað frá beiðni A um frestun á árlegri afborgun af LÍN láni, án þess að taka á beiðninni efnislega.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi til B, dags. 19. mars 2007, þar sem hann taldi ekki tilefni til athugasemda við þá niðurstöðu málskotsnefndarinnar að ekki hefðu verið skilyrði til að taka stjórnsýslukæru A til meðferðar á grundvelli heimildar í 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Í bréfinu tók hann fram að hvað sem liði því hvort skilyrði hefðu verið uppfyllt til að nefndin fjallaði um kæruna hefði nefndin við efnislega niðurstöðu máls A verið bundin af fortakslausu ákvæði síðari málsliðar 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sem kvæði á um að umsókn um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu á námsláni skyldi berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar, en hvergi væri í lögunum, eins og þeim var breytt með lögum nr. 140/2004, heimild til að víkja frá þeim tímafresti. Með bréfi, dags. sama dag, kom umboðsmaður þó á framfæri við málskotsnefnd lánasjóðsins ábendingu um að bréf nefndarinnar til A hefði ekki uppfyllt kröfur stjórnsýslulaga og óskráðra reglna stjórnsýsluréttar um form og efni úrskurða í kærumálum.

Umboðsmaður ákvað jafnframt að rita menntamálaráðherra og menntamálanefnd Alþingis bréf, dags. sama dag, þar sem vakin var athygli þeirra á því hve fortakslaus frestur 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 væri eftir þá breytingu sem gerð var á lögunum með lögum nr. 140/2004.

Bréf umboðsmanns til menntamálaráðherra og menntamálanefndar Alþingis, dags. 19. mars 2007, er svohljóðandi:

Mér barst nýlega kvörtun einstaklings þar sem beiðni hans um frestun á árlegri endurgreiðslu á námsláni, sbr. heimild þess efnis í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, hafði verið synjað þar sem beiðnin var fram komin að liðnum þeim 60 dögum frá gjalddaga afborgunar sem áskilið er að umsóknir berist innan. Atvik í þessu máli voru með þeim hætti að ég tel rétt að vekja athygli menntamálaráðherra og menntamálanefndar Alþingis á málinu og þá með tilliti til þess hversu fortakslaus áðurnefndur frestur 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 en nú eftir þá breytingu sem gerð var á lögunum með lögum nr. 140/2004.

Málavextir voru í grófum dráttum þeir að viðkomandi einstaklingur veiktist af alvarlegum sjúkdómi sem leiddi til verulegrar röskunar á högum hans. Í kæru viðkomandi til málskotsnefndar LÍN kemur fram að mikil veikindi og afleiðingar lyfjatöku auk þunglyndis vegna veikindanna hafi leitt til þess að viðkomandi hafi lítt sinnt um að opna póst eða sinna öðrum persónulegum málum sínum um tíma. Þá hafi viðkomandi ekki viljað að aðrir fjölskyldumeðlimir sinnt þessum málum og þeir því ekki fengið vitneskju um stöðu fjárhagsmála hennar á umræddum tíma. Við þetta hafi og bæst að fjölskyldan hafi staðið í flutningum á þessum tíma. Afleiðingar þessa hafi verið að bréf frá LÍN hafi ekki verið opnuð og það hafi ekki verið fyrr en afborgun af láninu var komin til innheimtu hjá innheimtufyrirtæki sem aðstandendum varð ljóst hvernig málum var komið gagnvart greiðslur viðkomandi til LÍN og sótt var um frestun afborgunarinnar. Stjórn LÍN féllst ekki á að veita undanþáguna þar sem ekki hafði verið sótt um hana innan 60 daga eftir gjalddaga afborgunar, eins og kveðið er á um í síðari málslið 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Áðurnefndir erfiðleikar vegna veikinda viðkomandi höfðu síðan þær afleiðingar að kæra til málskotsnefndar LÍN barst ekki fyrr en fimm mánuðum eftir að stjórn LÍN úrskurðaði í málinu og kærufrestur 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var runninn út. Vísaði málskotsnefndin málinu því frá. Ég lauk athugun minni á kvörtun þessa einstaklings á grundvelli gildandi laga væri ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu við niðurstöðu málskotsnefndarinnar í málinu hins vegar sendi ég nefndinni bréf þar sem ég kom þeirri ábendingu á framfæri að nauðsynlegt væri að vanda betur form og efni þeirra úrskurða sem nefndin sendi frá sér.

Athugun mín á umræddu máli vakti hins vegar athygli mína á hversu fortakslaust orðalag 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, er, en þar er engin heimild til þess að víkja frá áðurnefndum 60 daga fresti. Ákvæði 8. mgr. 7. gr. var bætt inn í lögin með 2. gr. laga nr. 140/2004 og í athugasemdum með frumvarpi sem varð að þeim lögum kemur fram að umræddur frestur sé settur vegna þess að „dæmi [séu] um að óskir um endurútreikning eða undanþágu frá afborgunum berist sjóðnum mörgum mánuðum eftir gjalddaga. Þessi mál [séu] oft mjög erfið úrlausnar þar sem lán í vanskilum leið[i] oft til kostnaðarsamra innheimtuaðgerða. Aukin festa í meðferð þessara mála [eigi] því að vera allra hagur.“ Síðan segir: „Hér er þó ekki gengið lengra en að kalla eftir því að þeir sem hafa hug á endurútreikningi eða undanþágu láti sjóðinn vita áður en lán í vanskilum eru send í lögmannsinnheimtu.“ Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, er kveðið á um hvaða atvik þurfa að vera fyrir hendi til þess að unnt sé að veita undanþágu frá árlegri afborgun námslána. Samkvæmt ákvæðinu verða að hafa orðið skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Einstaklingar verða því að eiga í nokkuð alvarlegum erfiðleikum til að geta sótt um undanþágu frá afborgun námslána, heilsufarslegum og/eða félagslegum, auk þess sem þessir erfiðleikar verða að hafa skert ráðstöfunarfé viðkomandi til muna.

Ég tel því ljóst að þarna eru um að ræða sérstakt úrræði sem ætlað er að koma til móts við breytingar af félagslegri stöðu lánþega sjóðsins. Af áðurnefndum athugasemdum við þá breytingu sem gerð var á lögum nr. 21/1992 með lögum nr. 140/2004 verður helst ráðið að umræddur 60 daga frestur sé settur vegna hugsanlegs kostnaðar sem kann að leiða af því að sjóðurinn sendur kröfur í lögmannsinnheimtu, og þá væntanlega kostnaðar sem getur lent á sjóðnum ef síðar er veitt undanþága frá greiðslu afborgunarinnar. Það hlýtur hins vegar að vera áleitin spurning hvernig það samrýmist því félagslega úrræði sem heimildin í 6. mgr. 8. laga nr. 21/1992 er að tímabinda hana með þessum hætti, ef á annað borð eru hendi skilyrði til að veita lánþega umrædda undanþágu. Varla verður það til að bæta þá stöðu hans að gera honum, ef umsókn hefur ekki komið fram innan 60 daga, að greiða auk afborgunarinnar kostnað við lögmannsinnheimtuna. Ég tel að atvik í því máli sem er mér tilefni til að rita bæði menntamálaráðherra og menntamálanefnd Alþingis þetta bréf sé til marks um að ástæða geti verið til að huga að því hvort rétt sé að láta frest af þessu tagi, sem fyrst og fremst er settur til hagræðis fyrir lánasjóðinn, útiloka að umsóknir frá lánþegum sem berst eftir umræddan frest og ótvírætt eiga við að etja þá félagslegu- og fjárhagslegu erfiðleika sem um er fjallað í undanþáguheimildinni komi til athugunar. Mér er að minnsta kosti ljóst af þeim ýmsu málum einstaklinga sem ég fæ til umfjöllunar í starfi mínu að veikindi og breytingar á félagslegum högum fólk leiða í mörgum tilvikum til þess að það þau frávik verða að þessu fólki tekst ekki að hafa reiður á fjáreiðum sínum eða samskiptum við hið opinbera eða fjármálastofnanir um sinn. Víst er það göfugt markmið að reyna með lögum að koma á aukinni festu í málum þessara einstaklinga en ég tel rétt vegna þess lagaákvæðis sem hér er fjallað um að koma á framfæri þeirri ábendingu minni til menntamálaráðherra og menntamálanefndar Alþingis að hugað verði að því hvort umræddur 60 daga frestur sé of fortakslaus og hvort hann sé réttlætanlegur á grundvelli þeirra ástæðna sem hann virðist byggður á samkvæmt athugasemdum við lagafrumvarpið að teknu tilliti til þess að hér er um að ræða úrræði sem ætlað er að mæta sérstökum félagslegum og fjárhagslegum erfiðleikum lánþega LÍN. Ég tek það fram að þessi ábending mín er sett fram með tilliti til þeirrar heimildar sem mér er veitt í 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi þess sem ég hef rakið að framan er þeirri ábendingu komið á framfæri við menntamálaráðherra og menntamálanefnd Alþingis að athugað verði hvort rétt sé að taka ákvæði 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, til endurskoðunar.