Opinberir starfsmenn. Grunnskólakennari leystur frá störfum. Lausn um stundarsakir. Stjórnvaldsákvörðun. Andmælaréttur. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 4891/2007)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurðar félagsmálaráðuneytisins frá 22. febrúar 2006 þar sem talið var að ákvarðanir Reykjavíkurborgar um að leysa hann sem kennara við grunnskólann X frá störfum, fyrst um stundarsakir og síðan að fullu, hefðu verið gildar.
Atvik málsins voru þau að borgarráð tók þá ákvörðun að veita A lausn um stundarsakir á fundi 8. október 2002 í kjölfar þess að skólastjóri X ritaði fræðslustjóra Reykjavíkur bréf 30. september 2002 þar sem rakin voru ýmiss atriði sem skólastjórinn taldi áfátt í störfum A. Hafði skólastjórinn veitt A áminningu 24. september sama ár eftir að hafa boðað A til funda við sig vegna athugasemda við störf hans. Í bréfi skólastjórans til fræðslustjóra voru auk áminningarinnar rakin atvik er vörðuðu störf A hjá X frá 15. febrúar 2002 til 30. september sama ár og ekki voru talin vera í samræmi við starfsskyldur A. Óskaði skólastjórinn þess að fræðslustjóri beitti sér fyrir því að A fengi lausn um stundarsakir á meðan mál hans yrði rannsakað af kunnáttumönnum. Í kjölfar þess að A var veitt lausn um stundarsakir var á grundvelli 8. gr. laga nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, skipuð nefnd til að rannsaka mál A. Skoðaði nefndin gögn málsins og ræddi við starfsmenn X auk A sjálfs. Taldi nefndin að efnislegar forsendur hefðu verið til þess að veita A lausn um stundarsakir frá stöðu hans. Í framhaldinu leysti borgarráð A að fullu frá störfum.
Umboðsmaður rakti að í lögum nr. 72/1996 væri gert ráð fyrir að grunnskólakennari yrði almennt ekki leystur endanlega frá störfum nema að undangengnu þrískiptu ferli, sem fæli í sér að fyrst væri veitt áminning, síðan lausn um stundarsakir og loks lausn að fullu. Af athugasemdum við frumvarp til þeirra laga og í frumvarpi til stjórnsýslulaga mætti ráða að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaganna kynnu að eiga við um töku hverrar af áðurnefndum þremur ákvörðunum fyrir sig. Tilkynna þyrfti aðila máls að mál hans væri til meðferðar hjá stjórnvaldi, ef ljóst væri að hann hefði ekki fengið það fyrirfram, í samræmi við 14. gr. stjórnsýslulaga. Taldi umboðsmaður að Reykjavíkurborg hefði látið hjá líða að tilkynna A um að mál um lausn hans um stundarsakir væri til meðferðar og að gefa honum á því tímamarki færi á að koma að sínum sjónarmiðum, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga, áður en borgarráð tók ákvörðun um tímabundna lausn enda hefði sú ákvörðun ekki bara verið byggð á þeim atriðum sem voru tilefni áminngar heldur á síðari atvikum . Einnig hefði Reykjavíkurborg borið skylda til að upplýsa A frekar um um ástæður lausnar hans um stundarsakir.
Umboðsmaður veitti því síðan eftirtekt að bréf fræðlustjóra til borgarlögmanns, dags 8. október 2002, var ekki meðal þeirra gagna sem lágu fyrir í félagsmálaráðuneytinu þegar ráðuneytið kvað upp úrskurð í málinu. Þrátt fyrir að umboðsmaður fengi ekki séð af efni bréfsins að það hefði haft beina þýðingu við rannsókn málsins benti hann á að þar kæmi fram hvaða gögn voru send með erindi fræðslustjóra. Ekki hefði í öðrum gögnum málsins komið fram upplýsingar um þau gögn sem Reykjavíkurborg hafði undir höndum þegar tekin var ákvörðun í málinu. Ráðuneytið hefði því ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.
Vegna ákvörðunar borgarráðs um að leysa A að fullu frá störfum taldi umboðsmaður ljóst að A hefði verið veittur kostur á að tjá sig um atvik málsins á fundi þeirrar nefndar sem skipuð var samkvæmt 8. gr. laga nr. 72/1996. Ekki yrði annað séð en að nefndin hefði byggt niðurstöður sínar á þeim atvikum og gögnum sem lögð voru fram við meðferð málsins og A hafði átt þess kost á að kynna sér. Ályktanir nefndarinnar hefðu jafnframt ekki verið þess eðlis að þær hefðu falið í sér nýjar upplýsingar í merkingu 13. gr. stjórnsýslulaga þannig að skylt hefði verið eins og atvik voru í málinu að veita A tækifæri til andmæla á ný. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að gera athugasemd við þá niðurstöðu félagsmálaráðuneytisins að andmælaréttar hefði verið gætt áður en Reykjavíkurborg tók ákvörðun um að leysa A frá störfum að fullu.
Í ljósi gagna og atvika málsins fékk umboðsmaður ekki séð að þeir annmarkar sem hann hefði bent á í áliti sínu hefðu verið til þess fallnir að hafa efnisleg áhrif á endanlega niðurstöðu Reykjavíkurborgar. Taldi hann því ekki tilefni til þess að fullyrða að þeir hefðu verið svo verulegir að ráðuneytinu hefði verið rétt að ógilda ákvörðun borgaryfirvalda.

I. Kvörtun.

Hinn 2. janúar 2007 leitaði til mín A, vegna þeirrar ákvörðunar Reykjavíkurborgar frá 14. janúar 2003 að leysa hann frá kennarastörfum við grunnskóla Reykjavíkur. Félagsmálaráðuneytið kvað upp úrskurð í málinu 28. janúar 2004 en í kjölfar kvörtunar A til mín, dags. 26. janúar 2005, ákvað ráðuneytið að endurupptaka málið og lauk ég því athugun minni á málinu. Félagsmálaráðuneytið aflaði frekari gagna og kvað upp nýjan úrskurð 22. febrúar 2006 þar sem ákvörðun Reykjavíkurborgar var talin gild. Leitaði A á ný til mín vegna málsins með erindi sem mér barst 2. janúar sl. sem fyrr segir.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hef ég ákveðið að takmaka athugun mína á kvörtun A við þá niðurstöðu félagsmálaráðuneytisins að Reykjavíkurborg hefði gætt með fullnægjandi hætti að andmælarétti A þegar hún tók ákvörðun um að veita honum lausn um stundarsakir og síðan að leysa hann endanlega frá störfum. Þá hefur athugun mín jafnframt beinst að því atriði hvort gagnaöflun ráðuneytisins í tengslum við meðferð málsins hafi verið í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til rannsóknar stjórnvalda samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 23. júlí 2008.

II. Málavextir.

Samkvæmt gögnum málsins var A ráðinn til starfa sem kennari við X-skóla árið 1986 og sinnti hann frá þeim tíma kennslu á ýmsum stigum skólans og í forfallakennslu, að frátöldum þeim tíma sem hann hefur verið í veikinda- eða námsleyfum.

Af gögnum málsins verður ráðið að á þeim tíma sem A starfaði við skólann hafi stjórnendur skólans gert ýmsar athugasemdir við störf hans. Formlegt upphaf þess máls sem úrskurður félagsmálaráðuneytisins frá 22. febrúar 2006 lýtur að má hins vegar rekja til þess að skólastjóri X-skóla ákvað hinn 10. mars 2002 að boða A til fundar þar sem ræða átti ávirðingar á hendur honum. A mætti hins vegar ekki til fundarins. Með bréfi, dags. 2. apríl 2002, boðaði skólastjóri A til viðtals á skrifstofu sinni 5. apríl 2002. Var tilgreint í bréfinu að efni viðtalsins væru meintar ávirðingar í starfi og fyrirhuguð áminning vegna þess að forfallakennsla sem A hefði sinnt hefði ekki verið sem skyldi hvað varðaði stjórnun nemenda, verkefnaval og kennsluhætti, auk þess sem ræða ætti viðbrögð A við leiðbeiningum skólastjóra um fyrrgreind atriði. Samkvæmt gögnum málsins var fundarboðið afhent A sem neitaði að taka við því og mótmælti því sem hann sagði vera aðför sem gerð væri að honum, auk þess sem hann taldi fundarboðið hafa verið afhent honum með of skömmum fyrirvara. Var fundurinn í kjölfarið boðaður 17. apríl 2002 en ekki mun hafa orðið af þeim fundi.

Í ágúst 2002 bauð skólastjóri X-skóla A að hefja störf sem kennari nemenda í lengdri viðveru á sambærilegum launum. Mun A hafa hafnað þessu boði á þeim forsendum að um væri að ræða viðleitni til að bola honum frá störfum. Síðar í sama mánuði voru enn settar fram ávirðingar á hendur A vegna agaleysis í kennslu. Með bréfi, dags. 3. september 2002, var A á ný boðaður í viðtal til skólastjóra en í bréfinu sagði meðal annars svo:

„Þú ert hér með boðaður til viðtals á skrifstofu minni þriðjudaginn 10. september nk. kl. 14.30. Efni viðtalsins eru meintar ávirðingar í starfi og fyrirhuguð áminning vegna þess að forfallakennsla sú sem þú sinntir á vordögum var ekki sem skyldi hvað varðar stjórnun nemenda, verkefnaval og kennsluhætti og forfallakennsla í byrjun hausts er að sama marki brennd. Einnig eru til umræðu viðbrögð þín við leiðbeiningum mínum um fyrrgreind atriði sbr. samræður okkar á vinnuherbergi kennara ([...]) þann 12.03 síðastliðinn.“

Hinn 25. september 2002 mun skólastjóri hafa reynt að afhenda A áminningarbréf, dags. 24. september 2002, og kynnt honum efni þess að viðstöddum vottum. A neitaði að taka við bréfinu og var bréfið þá sent í ábyrgðarpósti en í bréfinu sagði svo:

„Hér með er þér, [A] veitt áminning vegna þess að forfallakennsla sú sem þú hefur sinnt á þessu ári hefur ekki [verið] sem skyldi hvað varðar stjórnun nemenda, verkefnaval og kennsluhætti. Einnig vegna þess að þú hefur neitað að skrifa undir vinnuskýrslu. Veitt hefur verið handleiðsla og ráðgjöf af skólastjóra og aðstoðarskólastjóra ítrekað vegna forfallakennslunnar.

Þér hefur verið veitt tækifæri til þess að nýta þér andmælarétt þinn, á skriflega boðuðum fundi sem halda átti þann 10.09.2002 þar sem kynna átti þér meintar ávirðingar í starfi. Þú kaust að koma ekki á þann fund. Frá þeim tíma hef ég sannreynt, eftir ábendingar starfsmanna skólans, að fyrrgreindar ávirðingar hafa við rök að styðjast.

Verði kennslustörf þín ekki samkvæmt samþykktri vinnuskýrslu og eftir fyrirmælum skólastjórnenda, frá og með 1. október 2002, mun ég óska eftir því við Fræðslustjóra Reykjavíkur að þér verði veitt lausn frá störfum tímabundið, og fer þá um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla.“

Samkvæmt gögnum málsins ritaði skólastjóri X-skóla fræðslustjóra Reykjavíkurborgar tölvubréf, dags. 30. september 2002 þar sem forsaga málsins og atvik þau sem leiddu til áminningar A eru rakin. Í bréfinu segir síðan:

„Erindi mitt er harla þungbært. Í [X-skóla] hefur í allmörg ár starfað kennari að nafni [A]. Ýmislegt hefur gengið á varðandi starfsferil hans á liðnum árum og starfaði hann til seinasta hausts í lengdri viðveru eftir að hafa verið færður úr bekkjarkennslu fyrir nokkrum árum. Núgildandi kjarasamningar leyfa ekki að kennarar sinni kennsluskyldu sinni í lengdri viðveru og tilkynnti ég honum það strax haustið 2001. Þó leið nokkuð á skólaárið áður en tekið var af skarið varðandi störf hans á meðan leitað var leiða til þess að málalyktir yrðu þannig að allir væru sáttir. Var [A] m.a. boðin störf í [...] – en á öðrum kjarasamningi. Ekki þáði hann það og því var ekki undan vikist að stíga næsta skref. Öll skref í þessu máli hef ég stigið að höfðu samráði við [...] og [...].

Í mars ákvað ég því í samráði við [...] og [...] að [A] myndi sinna forfallakennslu út skólaárið. Sú kennsla gekk ekki sem skyldi og ég boðaði til fundar til þess að kynna honum meintar ávirðingar í starfi. Til fundarins kom þó ekki vegna þess að það átti að reyna ná samkomulagi við KÍ um leið að lausn mála [A]. Það tókst ekki.

Í haust hóf [A] á ný forfallakennslu (í samráði við hann – hann vildi það frekar en bekkjarkennslu) þar sem mér þótti einsýnt að ef hann fengi bekk til kennslu væri hann kominn með verkefni í hendur sem hann myndi á engan hátt valda.

Það fór strax í fyrra horf og því boðaði ég hann til fundar til þess að kynna honum meintar ávirðingar í starfi. Hann kaus að koma ekki til fundarins. Eftir að hafa sinnt eftirliti með störfum [A] ákvað ég að veita honum áminningu í starfi.

Eftir það hefur hann hegðað sér á þá lund að ég óska eftir að þú beitir þér fyrir því að [A] fái lausn um stundarsakir á meðan mál hans verður rannsakað af kunnáttumönnum á grundvelli þeirrar ávirðingar og áminningar sem honum hefur verið veitt.

Ég fer fram á að gengið verði í þetta mál eins fljótt sem auðið er (helst á morgun) þar sem að þetta er farið að hafa talsverð áhrif á starfsandann og líðan starfsfólks.“

Erindi skólastjórans fylgdi skrá sem skólastjóri hafði tekið saman yfir feril mála A á árinu 2002, fundarboð vegna meintra ávirðinga og áminning skólastjóra. Voru þar nefnd til sögunnar ýmis atvik sem átt höfðu sér stað á tímabilinu 15. febrúar og fram til þess að honum var veitt áminning með bréfi, dags. 24. september 2002. Auk þeirra atvika sem áttu sér stað áður en A var veitt áminning voru í bréfi skólastjóra rakin nokkur atvik sem áttu sér stað eftir að A var afhent áminningarbréf skólastjóra á fundi 25. september 2002 og fram að því að bréfið var sent 30. september 2002. Um þessi atvik segir orðrétt í yfirliti skólastjóra:

„Miðvikudagur 25.09.

Ég afhenti [A] áminningarbréfið kl. 8:30. Ég kynnti honum innihald bréfsins og las það að megninu til, þ.e. orsök, tímamörk og afleiðingar. [...] Einnig ítrekaði ég hvað hann gæti gert til þess að færa kennsluhætti til betri vegar (styrkari verkstjórn, aukin gæði kennslu). Ég hvatti hann eindregið til þess að hafa sambandi við lögfræðing KÍ til þess að hans réttur væri tryggður. Þá bað ég hann að kvitta fyrir móttöku bréfsins. Hann neitaði því og vildi ekki taka við bréfinu. Að endingu reif hann verkefnaáætlun dagsins, gekk á dyr og sagðist ekki sinna sínum verkum í dag. Ég bað [...] að senda honum bréfið í ábyrgðarpósti. [A] kemur til mín undir hádegi og segist ekki munu koma á morgun til vinnu. Ég bið [...] að færa skrá hjá sér í Stundvísi ólaunaða óheimila fjarveru hjá [A] í dag og morgun (7 tíma í dag og 8 tíma á morgun). [A] kemur í skólann í hádeginu og hittir samstarfsfólk (eins og ekkert hafi í skorist.

Ég hafði samband við [starfsmannastjóra Reykjavíkurborgar] og bað um ráðgjöf varðandi viðbrögð. Afráðið að veita ekki agaviðbrögðum yfirmanns og veita honum tækifæri til að iðrast á næstu dögum.

Fimmtudagur 26.09

[A] hellir sér yfir [...] með ýmsum aðdróttunum um þessa „aðför“ að sér. Hann sinnir ekki forfallakennslu af eigin ákvörðun.

Seinna um daginn birtist hann á vinnustað eiginkonu [...] og hellir sér þar yfir hana að viðstöddu samstarfsfólki og viðskiptavinum um meinta aðild eiginmanns hennar að „þessari aðför að sér“. Hún biður hann að eiga þessa orðræðu við [...] en ekki sig og gengur síðan í burtu. [A] er með einhverjar upphrópanir og hverfur síðan á braut.

Ég sendi [starfsmannastjóra Reykjavíkurborgar] tölvupóst um kvöldið og bið um að öllu lausnarferli sé flýtt og það sé tilbúið á þriðjudagsmorgni.

Föstudagur 27.09.

[A] er settur í forfallakennslu en yfirgefur bekkinn og skilur hann eftir í reiðileysi.

Mánudagur 30.09.

[Starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar] sendir mér skeyti og ráðleggur mér að hafa samband við fræðslustjóra og óska eftir að hún beiti sér fyrir því að [A] fái lausn um stundarsakir á meðan mál hans verður rannsakað af kunnáttumönnum á grundvelli þeirra ávirðinga og áminningar sem honum hefur verið veitt.“

Samkvæmt gögnum málsins gerðist það næst í málinu að fræðslustjóri Reykjavíkurborgar ritaði borgarlögmanni bréf, dags. 8. október 2002, þar sem þess var óskað að A yrði leystur frá störfum um stundarsakir vegna ávirðinga sem á hann væru bornar og að skipuð yrði nefnd kunnáttumanna til að rannsaka mál hans, sbr. 8. gr. laga nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Bréfinu fylgdi erindi skólastjóra X-skóla til fræðslustjóra, frá 30. september 2002, ásamt þeim gögnum sem skólastjórinn hafði sent með því erindi sínu. Sama dag, eða 8. október 2002, ritaði borgarstjóri Reykjavíkur A bréf þar sem honum var tilkynnt um að ákveðið hefði verið að leysa hann frá störfum um stundarsakir. Í bréfinu sagði meðal annars svo:

„Á fundi borgarráðs í dag var samþykkt að leysa yður frá störfum kennara við [X-skóla] um stundarsakir, vegna ávirðinga sem á yður eru bornar.

Nánar er vísað til bréfs fræðslustjóra frá 8. október 2002, ásamt fylgiskjölum.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, segir að hafi starfsmanni verið veitt lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi skuli þá þegar mál hans rannsakað af kunnáttumönnum, svo að upplýst verði hvort rétt sé að veita honum lausn að fullu eða láta hann taka aftur við starfi sínu.

Borgarráð samþykkti að skipa [...] og [...] í nefndina, jafnframt því að ákveðið var að leita eftir tilnefningu Kennarasambands Íslands um skipun eins manns til viðbótar.

Þetta tilkynnist yður hér með og tekur lausn um stundarsakir gildi þegar í stað.“

Með bréfi, dags. 23. október 2002, var fyrrnefnd nefnd kunnáttumanna skipuð á grundvelli 8. gr. laga nr. 72/1996, en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir þeim möguleika að kunnáttumönnum verði falið það hlutverk að kanna hvort rétt hafi verið að veita starfsmanni lausn að fullu eða láta hann taka við starfi að nýju.

Formaður nefndarinnar tilkynnti A um skipan nefndarinnar með ábyrgðarbréfi, dags. 4. nóvember 2002, og var honum þá sent afrit af bréfi formannsins til Fræðsluráðs Reykjavíkur, þar sem óskað var eftir gögnum málsins. Samkvæmt gögnum þeim sem ég hef undir höndum mun A ekki hafa sótt ábyrgðarbréf formanns nefndarinnar frá 4. nóvember 2002 og var það því endursent. Í kjölfarið mun formaður nefndarinnar hafa haft samband við A símleiðis þar sem hann lagði að honum að fá aðstoð lögmanns til að gæta hagsmuna sinna.

Gögn málsins bárust formanni nefndarinnar með bréfi, dags. 12. nóvember 2002, og voru A send gögnin sem bárust frá Fræðslumiðstöð Reykjavíkurborgar með bréfi, dags. 18. nóvember 2002. Þá var A boðaður á fund nefndarinnar 21. nóvember 2002. Mætti lögmaður til fundarins fyrir hönd A en á fundinum mun hafa verið fjallað um framlögð skjöl og meðferð málsins. Næsti fundur nefndarinnar var haldinn 28. nóvember 2002 og mætti lögmaður fyrir hönd A til þess fundar. Á fundinum var fjallað frekar um meðferð málsins og lagði borgarlögmaður fram greinargerð í málinu auk fleiri skjala. Ætlaði nefndin næst að fjalla um málið á fundi 6. desember 2002 en þeim fundi var frestað að beiðni þess lögmanns sem mætt hafði fyrir hönd A þar sem honum hafði ekki tekist að fá skriflegt umboð til hagsmunagæslunnar frá A. Á næsta fundi nefndarinnar 13. desember 2002 var lagt fram bréf frá þeim lögmanni sem mætt hafði fyrir A þar sem hann tilkynnti formanni nefndarinnar um að hann liti svo á að hann gætti ekki lengur hagsmuna A í málinu og að hann hefði tilkynnt A um það. Með bréfinu endursendi lögmaðurinn þau gögn sem honum voru afhent.

Á sama fundi var lagt fram yfirlit skólastjóra um mál A frá og með 15. febrúar 2002 sem var efnislega samhljóða því yfirliti sem skólastjóri sendi fræðslustjóra með tölvupósti 8. október 2002, að öðru leyti en því að tilgreind voru nokkur atvik til viðbótar sem áttu sér stað eftir að skólastjóri óskaði eftir því við fræðslustjóra að lausn A yrði tekin til athugunar. Segir þar að A hafi verið falin forfallakennsla 1., 2., 3. og 4. október 2002 en hann hafi í engu tilvikanna sinnt þeirri kennslu. Þá segir að A hafi sinnt forfallakennslu í íþróttum í þrjá tíma 7. október 2002 og að hlutir hafi verið í lagi eftir fyrsta tímann en eftir það hafi allt farið í upplausn.

Nefndin tók þá ákvörðun á fundi sínum að rannsaka málið frekar með því að taka skýrslur af þáverandi og fyrrverandi skólastjóra X-skóla og kennurum við skólann á næsta fundi sínum 20. desember 2002. Var jafnframt ákveðið að boða Atil fundarins til þess að gefa honum kost á að gæta hagsmuna sinna og tjá sig um málið. A mætti til fundarins þar sem honum var gefinn kostur á að tjá sig um atvik málsins munnlega og svara spurningum nefndarmanna til útlistunar á þeim.

Með álitsgerð, dags. 11. janúar 2003, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt hefði verið að veita A lausn um stundarsakir úr stöðu grunnskólakennara við X-skóla. Kemur fram í álitsgerðinni að A hafi gefið skýrslu fyrir nefndinni 20. desember 2002, auk þáverandi og fyrrverandi skólastjóra X-skóla og kennara við skólann. Í álitsgerð nefndarinnar er það haft eftir A að hann neiti því ekki að hann hafi ekki sinnt vinnu 25. september 2002 en að „illa hafi verið að þessu staðið af hálfu skólastjóra, svo hann hafi engan veginn unað við þetta.“ Þá er það einnig haft eftir A að það sé „ekki alls kostar rétt“ að hann hafi ekki viljað sinna forfallakennslu dagana 1. til 4. október 2002 heldur hafi hann „ekki talið sig vera í vinnu því engin vinnuskýrsla hafi verið til fyrir sig“. Þá sé það líka algerlega rangt að kennsla hans í íþróttum 7. október 2002 hafi farið í upplausn. Þá segir jafnframt í álitsgerðinni að A hafi ekki óskað eftir því að tjá sig um málið, en hann hafi þó bent á að skýrslur hefðu verið einhliða frá þeim sem hann taldi hliðholla skólastjóra í málinu.

Um þá niðurstöðu sína að rétt hafi verið að veita A lausn um stundarsakir segir meðal annars svo í skýrslu nefndarinnar:

„Nefndin telur, að upplýst sé í málinu, að [A] hafi ítrekað sýnt af sér vanrækslu í starfi sínu við forfallakennslu sem honum hafði verið falin. Hann hefur ekki hlýtt löglegum boðum skólastjóra um að halda uppi þeim aga og sinna þeim kennslustörfum, sem honum hafa verið falin. Hefur hann einnig ítrekað vikist undan því að sinna þeirri forfallakennslu, sem honum hefur verið falin, án þess að fyrir því hafi verið réttmætar ástæður. Verður einnig að telja að hann hafi sýnt óvandvirkni í starfi sínu. Breytir engu að mati nefndarinnar þótt rekja megi ávirðingar um agaleysi í kennslustundum, veitingu leyfa án heimildar og synjun um að sinna forfallakennslu til ólíkra viðhorfa [A] og skólastjóra um það, hvernig eigi að hafa stjórn á nemendum. Það skiptir heldur ekki máli að mati nefndarinnar þótt veiting leyfa hafi verið á grundvelli samkomulags við nemendur eða synjun á því að taka forfallakennslu hafi verið vegna þess að hann hafi ekki talið sig þurfa þess þar sem ekki hafi verið í gildi nein vinnuskýrsla fyrir hann. Nefndin tekur fram að samkvæmt 14. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla, er skólastjóri stjórnandi grunnskóla og ber ábyrgð á starfi hans og veitir honum faglega forstöðu. Það er því á valdi skólastjóra, eftir atvikum í samráði við aðra stjórnendur grunnskóla og fræðsluyfirvöld, að taka ákvörðun um hvort og hvernig beri að halda uppi aga og hvaða kennsluhætti eigi að viðhafa. Telur nefndin í ljósi framanritaðs, að [A] hafi ekki á þeim tíma sem hér skiptir máli sinnt skyldum sínum sem grunnskólakennari, svo sem þær eru ákveðnar í VI. kafla laga nr. 72/1996. Er hér einkum vísað til 1. málsl. 28. gr. laganna, 1. mgr. 29. gr. og 2. málsl. 33. gr. þeirra.

Samkvæmt framansögðu telur nefndin að efnislegar forsendur hafi verið til þess að veita [A] lausn um stundarsakir frá stöðu hans sem grunnskólakennari við [X-skóla] 8. október 2002.“

Nefndin fjallaði einnig um það hvort rétt hefði verið staðið að því að veita A lausn um stundarsakir en um það segir svo í álitsgerðinni:

„Í máli þessu er upplýst og óumdeilt að skólastjóri ræddi við [A] 12. mars 2002 um ávirðingar þær sem þá höfðu komið fram á hendur honum. Fór skólastjóri yfir það hvernig hann vildi að [A] héldi uppi aga og hagaði kennslu sinni.

Þá liggur einnig fyrir að reynt var að afhenda honum fundarboð 4. apríl 2002 þar sem ræða átti ávirðingar þær, sem þá höfðu komið fram á hendur honum. Fór skólastjóri yfir það hvernig hann vildi að [A] héldi uppi aga og hagaði kennslu sinni.

Þá liggur einnig fyrir að reynt var að afhenda honum fundarboð 4. apríl 2002 þar sem ræða átti ávirðingar þær sem fram höfðu verið bornar, en [A] neitaði að taka við því.

Aftur var reynt að boða hann til fundar í sama skyni 3. september 2002, eftir að fram höfðu komið ávirðingar vegna kennslu hans á haustmisseri það ár, en hann mætti ekki til fundarins, sem fram átti að fara 10. sama mánaðar.

[A] var afhent áminningarbréf 25. september 2002, sem dagsett var daginn áður. Liggur það bréf frammi í málinu. [A] neitaði viðtöku þess, en efni þess var kynnt fyrir honum. Áminningarbréfið er efnislega rétt, þ.e. þar er tilgreint hvaða ávirðingar séu bornar á hann, að hann hafi ekki nýtt sér þann andmælarétt sem hann eigi og hverju það varði ef hann lætur ekki skipast við áminninguna.

Þrátt fyrir áminningarbréfið hélt [A] uppteknum hætti, eins og rakið er í lýsingu málavaxta. Þegar honum var veitt lausn um stundarsakir hafði hann ekki látið skipast við áminninguna heldur haldið áfram að óhlýðnast löglegum fyrirmælum yfirboðara síns.

Nefndin telur það ekki skipta máli um réttarstöðu [A] þótt hann hafi ekki neytt andmælaréttar, enda telur nefndin upplýst að hann hafi marg ítrekað átt þess kost. Með sama hætti telur nefndin að það skipti ekki máli, þótt [A] hafi ekki tekið við áminningarbréfi eða bréfi um veitingu lausnar um stundarsakir, enda getur það ekki bætt réttarstöðu hans.“

Í kjölfar þess að nefndin skilaði álitsgerð sinni var mál A tekið fyrir hjá borgarráði Reykjavíkurborgar á fundi 14. janúar 2003. Var þar samþykkt að veita A lausn frá störfum og var sú niðurstaða tilkynnt A með bréfi borgarstjóra dagsettu sama dag. Í því bréfi sagði meðal annars svo:

„Með ákvörðun borgarráðs 8. október s.l. var yður um stundarsakir veitt lausn frá stöðu grunnskólakennara við [X-skóla] vegna nánar tilgreindra ávirðinga sem á yður voru bornar. Þann sama dag var sett á fót nefnd kunnáttumanna á grundvelli 8. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla til að komast að niðurstöðu um það hvort rétt væri að veita yður lausn að fullu eða láta yður taka við starfi yðar aftur. Á fundi borgarráðs í dag var lögð fram álitsgerð nefndarinnar, dags. 11. þ.m. ásamt bréfum formanns hennar, dags. s.d. Niðurstaða nefndarinnar er eftirfarandi:

Nefnd, sem skipuð er skv. 8. gr. laga nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla í máli [A] telur að rétt hafi verið að veita honum lausn um stundarsakir úr stöðu grunnskólakennara í [X-skóla] hinn 8. október 2002.

Í nefndarálitinu kemur fram að nefndin telji ljóst að þér hafið ekki leitast við að fara eftir fyrirmælum um að halda uppi þeim aga í kennslu sem skólastjórnendur [X-skóla] hafi lagt fyrir yður og ekki sinnt þeim verkum sem yður voru falin, eins og til var ætlast af yður. Nefndin telur að upplýst sé í málinu, að þér hafið ítrekað sýnt af yður vanrækslu í starfi yðar í forfallakennslu sem yður hafi verið falin. Þér hafið ekki hlýtt löglegum boðum skólastjóra um að halda uppi þeim aga og sinna þeim kennslustörfum sem yður hafi verið falin. Hafið þér einnig ítrekað vikist undan því að sinna þeirri forfallakennslu sem yður hafi verið falin, án þess að fyrir því hafi verið réttmætar ástæður. Í ljósi þessa telur nefndin að þér hafið ekki á þeim tíma, sem hér skipti máli, sinnt skyldum yðar sem grunnskólakennari, svo sem þær eru ákveðnar í VI. kafla laga nr. 72/1996.

Á fundi borgarráðs í dag var jafnframt lagt fram erindi borgarlögmanns, dags. í dag, þar sem hann leggur til með skírskotun til bréfs fræðslustjóra, dags. 8. október 2002, sem lagt var fram á fundi borgarráðs sama dag ásamt fylgiskjölum, niðurstöðu nefndarinnar og þess rökstuðnings sem fram kemur í álitsgerð hennar, að borgarráð samþykki að veita yður þegar lausn úr stöðu grunnskólakennara við [X-skóla].

Borgarráð samþykkti erindi borgarlögmanns og því er yður hér með, með vísan til 10. gr. laga nr. 72/1996, veitt lausn að fullu úr stöðu grunnskólakennara við [X-skóla]. Lausnin tekur þegar gildi.“

Með bréfi, dags. 29. september 2003, leitaði A til félagsmálaráðuneytisins og óskaði eftir því að ráðuneytið úrskurðaði um „lögmæti þeirra aðgerða sem Reykjavíkurborg hefði unnið gegn [honum]“. Var rakið í bréfi A að honum hefði verið vísað úr starfi grunnskólakennara við Grunnskóla Reykjavíkur á grundvelli „ósannra og órökstuddra ávirðinga“ skólastjóra og að honum hefði fyrst verið vikið úr hálfri stöðu en síðan að fullu hinn 14. janúar 2003.

Ráðuneytið kvað upp úrskurð í málinu 28. janúar 2004 á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 en endurupptók þann úrskurð síðan með bréfi, dags. 6. júlí 2005, í kjölfar þess að A leitaði til mín og ég hafði ritað ráðuneytinu bréf þar sem ég hafði spurst fyrir um tiltekin atriði sem lutu að meðferð ráðuneytisins á málinu. Hinn 22. febrúar 2006 kvað ráðuneytið síðan upp nýjan úrskurð í málinu en þar sagði meðal annars svo:

„Aðila málsins greinir í verulegum atriðum á um hvort þær ávirðingar sem voru grundvöllur lausnar kæranda úr starfi grunnskólakennara eigi við rök að styðjast. Í álitsgerð nefndar kunnáttumanna, dags. 11. janúar 2003, sem var grundvöllur að lausnarbréfi borgarstjóra, dags. 14. janúar 2003, er forsendum uppsagnar kæranda lýst ítarlega. Þar kemur fram að kærandi hafi sýnt af sér vanrækslu í starfi sínu við forfallakennslu sem honum hafi verið falin. Hann hafi ekki hlýtt löglegum boðum skólastjóra um að halda uppi aga og sinna þeim kennslustörfum sem honum hafi verið falin. Þá hafi hann vikið sér undan því að sinna forfallakennslu án þess að fyrir því hafi verið réttmætar ástæður. Þá taldi nefndin sýnt að kærandi hafi sýnt óvandvirkni í starfi. Hvað varðar sönnun um einstök atvik og sannleiksgildi þeirra ávirðinga sem bornar hafa verið á kæranda telur ráðuneytið að ekki hafi verið sýnt fram á það, svo sem með nýjum gögnum eða upplýsingum, að sú atburðarás sem lýst er í álitsgerð nefndar kunnáttumanna, og byggir meðal annars á framburði vitna, sé röng. Gildir það einnig um þau gögn sem aflað var við endurupptöku málsins, enda lá efni þeirra upplýsinga þegar fyrir í álitsgerð kunnáttumanna frá 11. janúar 2003, sem hin kærða ákvörðun er byggð á, og lá þar með fyrir þegar úrskurður ráðuneytisins frá 28. janúar 2004 var kveðinn upp. Þá styðja gögn málsins ekki staðhæfingar kæranda hvað þetta varðar. Í ljósi þessa telur ráðuneytið ekki unnt að fallast á þá málsástæðu kæranda að umræddar ávirðingar hafi verið ósannar og órökstuddar.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat ráðuneytisins að ekkert hafi komið fram í málinu sem bendir til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið byggð á röngum efnislegum forsendum.[...]

Tekið skal fram að gögn sem aflað var við endurupptöku málsins bæta engu við varðandi upplýsingar um aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar eða um mat ráðuneytisins á málsmeðferð kærða, enda er efni þeirra í samræmi við lýsingu á málavöxtum í álitsgerð kunnáttumanna frá 11. janúar 2003 sem hin kærða ákvörðun er byggð á.

Í heild sinni telur ráðuneytið að málsmeðferð kærða hafi verið lögmæt. Þannig verði ekki annað séð en að efnislegar forsendur ákvörðunarinnar teljist málefnalegar, meðal annars með hliðsjón af 2. mgr. 7. gr. laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda, nr. 72/1996, og meginreglum vinnu- og opinbers starfsmannaréttar um hlýðni- og vinnuskyldu starfsmanns. Málið var rannsakað með skipun nefndar kunnáttumanna í samræmi við ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1996, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi andmælaréttar verið nægilega gætt, sbr. 11. gr. laga nr. 72/1996 og 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga. Ákvörðun kærða um lausn frá störfum var og rökstudd í bréfi kærða frá 8. október 2002. Viðbótargögn sem aflað var við endurupptöku málsins breyta ekki þessu mati ráðuneytisins.

Að öllu virtu sem að framan er rakið og þeim forsendum sem lausn kæranda frá störfum er byggð á er það niðurstaða ráðuneytisins að ákvörðun kærða um lausn kæranda úr starfi grunnskólakennara sé lögmæt.“

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég félagsmálaráðuneytinu bréf, dags. 5. febrúar 2007, þar sem ég óskaði eftir því, með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að mér yrðu send afrit af þeim gögnum málsins sem bárust ráðuneytinu og aflað var af hálfu þess eftir að tekin var ákvörðun um endurupptöku málsins, en mér höfðu áður borist önnur gögn málsins í tengslum við kvörtun A frá árinu 2005. Bárust gögn málsins mér með bréfi ráðuneytisins, dags. 14. febrúar sl.

Eftir að hafa farið yfir gögn málsins ritaði ég ráðuneytinu á ný bréf, dags. 26. mars 2007. Þar óskaði ég, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, meðal annars eftir því að félagsmálaráðuneytið lýsti afstöðu sinni til þess hvort það teldi að Reykjavíkurborg hefði gætt nægjanlega að andmælarétti A, annars vegar áður en honum var veitt tímabundin lausn frá störfum eftir að hann var áminntur og hins vegar áður en tekin var ákvörðun um að veita honum lausn að fullu eftir að sérfræðinefnd hafði skilað skýrslu sinni

Í bréfi mínu til ráðuneytisins vakti ég enn fremur athygli á því að A hefði verið veitt lausn frá störfum um stundarsakir með bréfi borgarstjóra, dags. 8. október 2002. Í því bréfi væri vísað til þess að í bréfi fræðslustjóra, dags. sama dag, væri að finna rökstuðning fyrir umræddri ákvörðun. A hefði síðan verið veitt lausn að fullu úr starfi grunnskólakennara 14. janúar 2003. Ég gerði ráðuneytinu grein fyrir því að ég fengi ekki séð að umrætt bréf fræðslustjóra eða bréf borgarstjóra til A þar sem honum var tilkynnt um lausn að fullu hefðu verið meðal gagna málsins þegar ráðuneytið kvað upp úrskurð sinn, dags. 22. febrúar 2006. Þrátt fyrir það væri í úrskurðinum vísað til þess að lausn frá störfum hefði verið rökstudd í áðurnefndu bréfi borgarstjóra þar sem verið var að veita A lausn frá störfum um stundarsakir. Ég benti í þessu sambandi á að kveðið væri á um í 10. gr. laga nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, að lausn skyldi veitt skriflega og jafnan greindar orsakir, svo sem vegna umsóknar, heilsubrests, tiltekinna ávirðinga o.s.frv. Óskaði ég af þessum sökum einnig eftir að ráðuneytið upplýsti mig um hvort framangreindra bréfa hefði verið aflað áður en úrskurður var kveðinn upp í málinu og, ef svo væri, óskaði ég eftir að mér yrðu send afrit af bréfunum. Ef þau lágu ekki fyrir þegar ráðuneytið kvað upp úrskurð í málinu óskaði ég eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það teldi að það hefði uppfyllt kröfur 10. gr. stjórnsýslulaga við rannsókn málsins þrátt fyrir að umræddra gagna hefði ekki verið aflað áður en það kvað upp úrskurð í málinu.

Mér barst svo svar ráðuneytisins 27. apríl 2007. Þar segir meðal annars eftirfarandi um andmælarétt A:

„Í erindi yðar óskið þér eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það telji að Reykjavíkurborg hafi gætt andmælaréttar [A], „annars vegar áður en honum var veitt tímabundin lausn frá störfum eftir að hann var áminntur og hins vegar áður en tekin var ákvörðun um að veita honum lausn að fullu eftir að sérfræðinefnd hafði skilað skýrslu sinni“.

Af þessu tilefni tekur ráðuneytið fram:

A. Um andmælarétt [A] eftir áminningu áður en honum var veitt tímabundin lausn frá störfum.

Í málinu liggur fyrir að þann 25. september 2006 hafi skólastjóri afhent [A] áminningarbréf, dags. 24. september 2002, og kynnt honum efni þess að viðstöddum vottum. [A] hafi ekki viljað kvitta fyrir móttöku þess bréfs. Þetta staðfestir [A] að sé rétt, sbr. álitsgerð nefndar sem skipuð var skv. 8. gr. laga nr. 72/1996. Í áminningunni er tekið fram að [A] hafi verið veitt tækifæri til að nýta sér andmælarétt sinn á skriflega boðuðum fundi sem halda átti þann 10. september 2002 þar sem kynna hafi átt honum meintar ávirðingar í starfi. [A] hafi kosið að mæta ekki á þann fund. Í áminningunni eru meintar ávirðingar tilgreindar og tekið fram að verði kennslustörf hans ekki samkvæmt samþykktri vinnuskýrslu og eftir fyrirmælum skólastjórnenda frá og með l. október 2002 muni verða óskað eftir því við fræðslustjóra Reykjavíkur að [A] yrði veitt lausn frá störfum tímabundið.

Varðandi bréf borgarstjóra um lausn um stundarsakir, dags. 8. október 2002, kemur fram í álitsgerð sérfræðinganefndar, dags. 11. janúar 2003, sem skipuð var skv. 8. gr. laga nr. 72/1996, að þann 10. október 2002 hafi skólastjóri reynt að kynna [A] bréf borgarstjórans í Reykjavík um að veita honum lausn um stundarsakir. Séu vitni að þeim tilraunum. [A] hafi ekki viljað taka við bréfinu, en hann hafi vitað um efni þess.

Í álitsgerð sérfræðinganefndarinnar segir síðan svo um andmælarétt [A]:

„Nefndin telur það ekki skipta máli um réttarstöðu [A], þótt hann hafi ekki neytt andmælaréttar, enda telur nefndin upplýst að hann hafi margítrekað átt þess kost. Með sama hætti telur nefndin það ekki skipta máli, þótt [A] hafi ekki tekið við áminningarbréfi eða bréfi um veitingu lausnar um stundarsakir, enda getur það ekki bætt réttarstöðu hans.“

Eins og fram kemur í úrskurði ráðuneytisins telur ráðuneytið að miðað við þá atburðarrás sem var undanfari uppsagnar í þessu máli hafi málsmeðferð Reykjavíkurborgar varðandi andmælarétt [A]verið fullnægjandi og því ekki talin ástæða til að gera athugasemd við hana. Það geti ekki verið á ábyrgð skólastjóra að [A] neytti ekki andmælaréttar síns, hvorki gagnvart áminningu frá 24. september 2002 né uppsagnarbréfi um stundarsakir dags. 8. október 2002.

Í erindi yðar kemur fram að gögn málsins beri ekki með sér að [A] hafi verið tilkynnt að til stæði að veita honum lausn frá störfum tímabundið áður en ákvörðun væri tekin að veita honum lausn að fullu. Af því tilefni ítrekar ráðuneytið það sem áður sagði að í áðurnefndri áminningu frá 24. september 2002 kemur fram að til stæði að veita [A] „lausn frá störfum tímabundið, og fer þá um málsmeðferð samkvæmt ákvæðum laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla“, eins og segir orðrétt. Telur ráðuneytið því ljóst að í áminningunni var [A] tilkynnt að ef ekki yrði orðið við því sem þar kom fram væri næsta skref að veita honum lausn frá störfum tímabundið.

B. Um andmælarétt eftir að álitsgerð sérfræðinganefndar lá fyrir 11. janúar 2003 til þess er lausn að fullu var ákveðin þann 14. janúar 2003.

Spurning yðar snýst um hvort ráðuneytið telji að Reykjavíkurborg hafi gætt andmælaréttar [A] áður en honum var veitt lausn að fullu þann 14. janúar 2003 eftir að nefnd sérfræðinga hafði skilað álitsgerð sinni. Hér er því spurt um andmælarétt [A] á tímabilinu 11.-14. janúar 2003.

Í þessu sambandi vill ráðuneytið benda á að í álitsgerð sérfræðinganefndarinnar, sem var að störfum 23. október 2002 til 1l. janúar 2003, kemur fram að [A] hafi ekki óskað eftir að tjá sig um málið við nefndina sem hann átti kost á eftir að hann og aðrir sem komu að málinu gáfu skýrslu fyrir nefndinni þann 20. desember 2002. Eftir þann tíma var raunar að ábendingu [A] leitað umsagnar [...]kennara, [...], sem gaf jákvæðari umsögn en aðrir sem nefndin leitaði til.

Vafalaust hefði það verið vandaðri stjórnsýsla ef Reykjavíkurborg hefði enn á ný leitað eftir andmælum [A] eftir að álitsgerðin lá fyrir 11. janúar 2003 og áður en uppsögn að fullu var ákveðin. Í þessu tiltekna máli taldi ráðuneytið hins vegar málsmeðferð Reykjavíkurborgar hvað andmælarétt varðar fullnægjandi eins og áður hefur komið fram. Vísast þar til þess að upplýst var að [A] átti þess sannanlega ítrekaðan kost að koma að andmælum sínum í lok september og byrjun október 2002, þ.e. í tengslum við áminningu frá 24. september 2002 og lausn um stundarsakir frá. 8. október 2002, og einnig að tjá sig fyrir sérfræðinganefndinni þann 20. desember 2002.

Að öllu framangreindu virtu telur ráðuneytið að ekki hafi verið brotið gegn andmælarétti [A] í máli þessu, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og 11. gr. laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, nr. 72/1996. Að mati ráðuneytisins er ekki við Reykjavíkurborg að sakast að [A] neytti ekki andmælaréttar sem ítrekað stóð honum til boða.“

Um rannsókn ráðuneytisins segir svo í svarbréfi þess:

„Í erindi yðar er spurst fyrir um tvö bréf er tengjast máli þessu sem ekki liggi fyrir í gögnum þeim sem send hafa verið yður. Annars vegar spyrjist þér fyrir um bréf fræðslustjóra Reykjavíkur, dags. 8. október 2002. Hins vegar um bréf borgarstjóra til [A] um lausn að fullu, dags. 14. janúar 2003.

Ráðuneytið hefur að hluta til svarað þessari fyrirspurn með bréfi sínu, dags. 29. mars 2007. Þar kemur fram að ráðuneytið hafi við meðferð málsins ekki óskað sérstaklega eftir bréfi fræðslustjóra frá 8. október 2002, sem vísað er til í bréfi borgarstjóra frá sama degi, enda taldi ráðuneytið að ítarlegar upplýsingar um aðdraganda uppsagnarinnar lægju fyrir í málinu. Varðandi hins vegar bréf borgarstjóra til [A], dags. 14. janúar 2003, um uppsögn að fullu, lá það bréf fyrir í málinu, enda mikilvægt málsgagn. Bréfið hefur þegar verið sent yður með bréfi ráðuneytisins, dags. 29. mars 2007. Vegna mistaka við útprentun gagna úr málaskrá barst það bréf yður ekki þegar gögn málsins voru send yður með bréfi ráðuneytisins, dags. 12. febrúar 2007. Er beðist velvirðingar á þeim mistökum.

Ráðuneytið hefur nú aflað bréfs fræðslustjóra til borgarlögmanns, dags. 8. október 2002. Í bréfinu óskar fræðslustjóri eftir því að [A] verði leystur frá störfum um stundarsakir og jafnframt að skipuð verði nefnd kunnáttumanna til að rannasaka mál hans, sbr. 8. gr. laga nr. 72/1996. Með bréfinu fylgdu fjögur fylgiskjöl sem öll lágu fyrir í gögnum málsins áður en ráðuneytið kvað upp úrskurð sinn 22. febrúar 2006. Til öryggis fylgja þau gögn þessu bréfi ásamt áðurnefndu bréfi fræðslustjóra, dags. 8. október 2002.“

Með bréfi, dags. 2. maí 2007, gaf ég A kost á að koma á framfæri við mig athugasemdum, ef einhverjar væru, í tilefni af svari félagsmálaráðuneytisins fyrir 17. maí 2007. Athugasemdir hans hafa ekki borist mér.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1. Afmörkun athugunar.

Eins og rakið er hér að framan óskaði A þess upphaflega í bréfi til félagsmálaráðuneytisins, dags. 29. september 2003, að ráðuneytið úrskurðaði um „lögmæti þeirra aðgerða sem Reykjavíkurborg hefði unnið gegn [honum]“. Af því bréfi A og þeim gögnum sem því fylgdu verður ráðið að ósk hans um endurskoðun ráðuneytisins laut í meginatriðum að þeim ákvörðunum borgarráðs frá 8. október 2002 að veita honum lausn um stundarsakir og þeirri ákvörðun borgarráðs frá 14. janúar 2003 að veita honum lausn að fullu.

Athugun mín vegna kvörtunar A hefur sem fyrr segir einkum beinst að þeirri afstöðu sem birtist í úrskurði ráðuneytisins 22. febrúar 2006 að málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi verið í heild sinni lögmæt og þá einkum að því atriði sem þar er tekið fram um að þá „hafi andmælaréttar verið nægilega gætt, sbr. 11. gr. laga nr. 72/1996 og 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga“. Miðað við forsendur úrskurðarins verður ekki önnur ályktun dregin en að sú afstaða ráðuneytisins sem þar er lýst eigi bæði við um þá ákvörðun borgarráðs frá 8. október 2002 að veita A lausn um stundarsakir og þá ákvörðun borgarráðs frá 14. janúar 2003 að veita A lausn að fullu. Í samræmi við framangreint mun ég fjalla um málsmeðferð Reykjavíkurborgar í tengslum við báðar þessar ákvarðanir.

2. Lagagrundvöllur málsins.

Áður en ég vík að málsmeðferð Reykjavíkurborgar og efni úrskurðar félagsmálaráðuneytisins tel ég rétt að gera hér til glöggvunar grein fyrir lagalegum grundvelli þeirra ákvarðana að veita A lausn um stundarsakir og síðar að fullu. Ákvarðanir þessar eiga það sammerkt að þær eru báðar teknar á grundvelli laga nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda í grunnskóla, en samkvæmt 1. gr. þeirra taka þau til hvers kennara og skólastjórnanda við grunnskóla í þjónustu sveitarfélaga á föstum launum meðan hann gegnir starfanum, enda verði starf hans talið aðalstarf.

Umrædd lög nr. 72/1996 voru sett þegar rekstur grunnskóla færðist yfir á ábyrgð sveitarfélaga en af ákvæðum laganna og almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 72/1996 verður ráðið að lögunum hafi meðal annars verið ætlað að tryggja að grunnskólakennarar og skólastjórnendur nytu áfram sama starfsöryggis og réttarverndar við brottrekstur og þeir gerðu þegar málefni grunnskóla voru á forræði ríkisins, sbr. Alþt. 1995-1996, A-deild bls. 2689. Í samræmi við þessa stefnumörkun er í 1. málsl. 4. gr. laganna kveðið á um það að líta beri svo á að starfsmenn sem skipaðir eru í stöðu samkvæmt lögunum skuli gegna stöðunni þar til eitthvert þeirra atriða sem greinir í a-f liðum 4. gr. kemur til, en þar undir fellur m.a. þegar starfsmaður brýtur af sér í starfinu, svo að honum beri að víkja úr því, sbr. a-lið 4. gr.

Í III. kafla laganna er að finna sérstök ákvæði um það hvernig staðið skuli að því að leysa kennara og skólastjórnendur frá störfum, sbr. 7. – 15. gr. laganna. Um lausn frá störfum vegna atriða sem tengjast frammistöðu í starfi eða hegðun sem þykir ósæmileg, óhæfileg eða ósamrýmanleg starfinu er fjallað sérstaklega í 7. gr. laganna en ákvörðun Reykjavíkurborgar um að veita A lausn um stundarsakir var einmitt tekin á grundvelli þess ákvæðis. Ákvæðið hljóðar í heild sinni svo:

„Sveitarstjórn veitir starfsmanni lausn frá stöðu um stundarsakir. Skólastjóri getur þó veitt starfsmanni lausn um stundarsakir, þótt hann hafi ekki veitt stöðuna, ef bið þykir hættuleg, en tilkynna skal sveitarstjórn tafarlaust þá ráðstöfun með skýringu á málavöxtum, enda tekur hún fullnaðarákvörðun um lausnarveitinguna.

Rétt er að veita starfsmanni lausn um stundarsakir ef hann hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi sínu, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykir að öðru leyti ósæmileg, óhæfileg eða ósamrýmanleg því starfi. Þó skal veita starfsmanni áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt áður en honum er veitt lausn um stundarsakir samkvæmt þessari málsgrein.

Nú hefur starfsmaður fjárreiður eða bókhald með höndum og má þá veita honum lausn um stundarsakir án áminningar ef ætla má eða víst þykir að óreiða sé á bókhaldi eða fjárreiðum, bú hans tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga. Sama er ef hann er grunaður eða sannur orðinn að háttsemi er varða kynni sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga eða heilsu hans er svo farið að eigi þyki gerlegt að láta hann gegna starfa lengur.

Lausn um stundarsakir skal jafnan vera skrifleg með tilgreindum ástæðum.“

Í athugasemdum við ákvæði 7. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 72/1996 segir:

„Ef sveitarstjórn þykir einhverju svo áfátt um starfsmann að rök liggja til þess að víkja honum úr starfi skal að jafnaði fara þá leið að veita starfsmanninum lausn um stundarsakir og láta síðan fara fram rannsókn skv. 8. gr. frumvarpsins. Ástæður lausnar eru tilgreindar í 2. mgr.

Ákvæðin um lausn um stundarsakir eru sett til að draga úr áhættu sveitarfélaga á bótagreiðslum vegna frávikningar að fullu og til að vernda grunnskólakennara og skólastjórnendur grunnskóla fyrir gerræðisfullum brottrekstri. Meginreglan er sú að ef sveitarfélagi þykir einhver rök liggja að því að víkja starfsmanni úr starfi skal honum veitt lausn um stundarsakir, en síðan fari fram rannsókn skv. 8. gr. frumvarpsins.

Gert er ráð fyrir því sem aðalreglu að starfsmann beri að áminna áður en honum er veitt lausn. Gefa verður starfsmanni kost á að bæta ráð sitt. Þó er heimilt að veita starfsmanni lausn um stundarsakir án áminningar ef þau tilvik sem greind eru í 3. mgr. greinar þessarar eiga við.

Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar skal lausn vera skrifleg og ástæður tilgreindar. Starfsmaður á að sjálfsögðu rétt á að vita á hvern hátt hann hefur af sér brotið. Hafa ber í huga að lausn úr stöðu skoðast sem stjórnvaldsathöfn og skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er aðila máls tryggður réttur til að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því.“ (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 2692.)

Í 1. mgr. 8. gr. laganna segir að þegar starfsmanni hefur verið veitt lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi samkvæmt 7. gr. þá skuli mál hans þegar rannsakað af kunnáttumönnum eða að hætti opinberra mála, ef ástæða þykir til, „svo að upplýst verði hvort rétt er að veita honum lausn að fullu eða láta hann aftur taka við starfi sínu“. Þá segir í 2. mgr. 8. gr. að „úrslit um stöðuna skuli ráðin strax og lokaniðurstöður rannsóknar eru kunnar“. Ræð ég af þessu orðalagi 2. mgr. 8. gr. og niðurlagi ákvæðis 1. mgr. 8. gr. að sveitarstjórn skuli að lokinni rannsókn samkvæmt ákvæðinu taka ákvörðun um það hvort starfsmaður skuli leystur endanlega frá störfum í samræmi við ákvæði 10. gr. laganna en það ákvæði hljóðar svo:

„Sveitarstjórn veitir starfsmanni lausn úr stöðu. Lausn skal veita skriflega og jafnan greindar orsakir, svo sem vegna umsóknar, heilsubrests, tiltekinna ávirðinga o.s.frv.

Í lausnarbréfi skal jafnan kveðið á um það frá hvaða degi starfsmaður skuli lausn taka og með hvaða kjörum, svo sem um eftirlaun, sé um þau að ræða, lífeyri, hvenær hann skuli sleppa íbúð, jarðnæði o.s.frv., eftir því sem við á.“

Í 11. gr. laganna er síðan kveðið á um að starfsmanni sem víkja skal úr stöðu skuli að jafnaði veittur kostur á að tala máli sínu áður en ákvörðun er tekin, ef þess er kostur. Er ákvæði 11. gr. að þessu leyti í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt því ákvæði skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Er stjórnvöldum þá skylt að haga málsmeðferð sinni í samræmi við 13. og 14. gr. laganna sem og aðrar reglur laganna þegar þau taka „ákvörðun um rétt eða skyldu“ í skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna, svo framarlega sem ekki er að finna strangari málsmeðferðarreglur í öðrum lögum, sbr. 2. mgr. 2. gr. Ég tek í þessu sambandi fram að í athugasemdum við 1. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 kemur fram að gengið hafi verið út frá því að ákvarðanir um skipun, setningu eða ráðningu opinberra starfsmanna svo og um lausn þeirra og brottvikningu teldust til ákvarðana í skilningi 2. mgr. greinarinnar og að sama máli gegndi um ákvarðanir um að beita starfsmann stjórnsýsluviðurlögum, eins og frádrætti frá launum vegna ólögmætra fjarvista frá vinnu, sbr. Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3283. Þær skýringar sem teknar voru upp hér að framan úr athugasemdum við 7. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 72/1996 um að lausn úr stöðu sé stjórnvaldsathöfn er í samræmi við þetta.

Vikið er nánar að inntaki andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga í athugasemdum við IV. kafla frumvarps þess er varð að lögunum. Þar segir að í reglunni um andmælarétt felist að aðili máls skuli eiga þess kost að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður er ákvörðun mun byggjast á, leiðrétta framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Kemur þar enn fremur fram að andmælareglan eigi ekki aðeins að tryggja hagsmuni aðila máls heldur sé tilgangur hennar einnig sá að stuðla að því að mál verði betur upplýst og tengist hún þannig rannsóknarreglunni. Í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins kemur fram að þegar aðili máls hefur sótt um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu hjá stjórnvöldum og fyrir liggur afstaða hans í gögnum máls þurfi almennt ekki að veita honum frekara færi á að tjá sig um málsefnið. Sé honum hins vegar ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafi bæst við í máli hans og telja verði að þær séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins þá sé almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær. (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3295-3296.)

Að því leyti sem ekki er mælt um annað í lögum nr. 72/1996 þá tel ég að ganga verði út frá því að þau sjónarmið sem lýst er um beitingu andmælaréttar í tilvitnuðum athugasemdum við IV. kafla stjórnsýslulaga eigi að jafnaði einnig við þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um mál einstakra starfsmanna á grundvelli þeirra heimilda sem mælt er fyrir um í III. kafla laga nr. 72/1996. Á það einnig við þótt sérstakt ákvæði sé að finna í 11. gr. laganna um að gefa skuli starfsmanni sem víkja skal úr stöðu færi á að tala máli sínu áður en ákvörðun er tekin, ef þess er kostur, enda verður hvorki séð af orðalagi ákvæðisins né lögskýringargögnum að með því hafi verið ætlunin að víkja frá því inntaki andmælaréttarins sem lagt er til grundvallar í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Áður en ég vík nánar að málsmeðferð Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytisins í máli A tel ég rétt á þessu stigi að taka fram að eins og umfjöllunin hér að framan um lagagrundvöll ákvarðana um starfslok skólastjórnenda eða kennara í grunnskólum gefur til kynna verður mat á hvort nægilega hafi verið gætt að andmælarétti viðkomandi starfsmanns að vera í meginatriðum heildstætt. Hins vegar er ljóst að um er að ræða þrískipt ákvörðunartökuferli, a.m.k. þegar lyktir máls eru þær að veita kennara eða skólastjórnanda í grunnskóla lausn að fullu. Ef um er að ræða persónulegar ávirðingar á hendur kennara í merkingu 2. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1996 ber sveitarstjórn í fyrsta lagi að veita starfsmanni áminningu og gefa honum kost á að bæta ráð sitt. Ef það úrræði dugar ekki þarf í öðru lagi að taka ákvörðun um lausn um stundarsakir og láta rannsaka mál starfsmannsins af kunnáttumönnum með það fyrir augum að meta hvort sveitarstjórn skuli í þriðja lagi veita honum lausn að fullu eða láta hann taka aftur við starfi sínu. Eins og nánar verður rakið hér síðar leiða gildandi lagareglur til þess að gæta þarf að réttaröryggi starfsmannsins þegar hvert skref er tekið. Ég ítreka hins vegar að þegar kemur að því að meta réttaráhrif hugsanlegra annmarka á málsmeðferð stjórnvalda verður að horfa á ofangreint ferli heildstætt og leggja mat á hvort almennt séð verði talið að réttaröryggi kennara eða skólastjórnanda hafi verið gætt, m.a. með tilliti til þess réttar hans að eiga kost á að tjá sig um atvik máls áður en ákvarðanir eru teknar. Þar kann að skipta máli hvort stjórnvöld hafi gert reka að því að gefa hlutaðeigandi kennara færi á að koma að sínum sjónarmiðum.

3. Málsmeðferð Reykjavíkurborgar

við lausn A frá störfum um stundarsakir.

Eins og lýst er í kafla II hér að framan þá tók borgarráð þá ákvörðun að veita A lausn um stundarsakir á fundi 8. október 2002. Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að ákvörðun borgarráðs hafi byggst á þeim atvikum sem rakin voru í bréfi fræðslustjóra og tölvubréfi skólastjóra X-skóla til fræðslustjóra, dags. 30. september 2002. Í tölvubréfi sínu til fræðslustjóra rakti skólastjóri X-skóla ýmiss atriði sem hann taldi hafa verið áfátt í störfum A og hefðu orðið til þess að hann hefði veitt A áminningu á haustdögum 2002. Í bréfi skólastjóra segir síðan að eftir að A var veitt áminningin hefði hann hegðað sér á þá lund að hann hefði ákveðið að óska þess að fræðslustjóri beitti sér fyrir því að A fengi lausn um stundarsakir á meðan mál hans yrði rannsakað af kunnáttumönnum á grundvelli þeirrar ávirðinga sem á hann væru bornar og þeirrar áminningar sem honum hefði verið veitt. Tölvubréfinu fylgdu síðan þrjú skjöl sem viðhengi, en þar á meðal var að finna yfirlit þar sem skólastjóri lýsti þeim málavöxtum um störf og framkomu sem voru tilefni áminningarinnar og þeirrar óskar að fræðslustjóri beitti sér fyrir lausn A.

Fræðslustjóri bar síðan sömu ósk fyrir borgarlögmann í bréfi, dags. 8. október 2002, en bréfinu fylgdu þau gögn sem skólastjóri X-skóla hafði sent fræðslustjóra sem viðhengi með beiðni sinni um lausn A. Á fundi sínum sama dag tók borgarráð ákvörðun um að A skyldi leystur frá störfum um stundarsakir en ákvörðunin var tilkynnt A með bréfi, dags. samdægurs. Í bréfinu var ástæðum ákvörðunarinnar einungis lýst með þeim hætti að A hefði verið leystur frá störfum „vegna ávirðinga sem á [hann] væru bornar“ og í því sambandi nánar vísað til bréfs fræðslustjóra frá 8. október 2002, ásamt fylgiskjölum. Ekki verður hins vegar ráðið af þeim gögnum sem félagsmálaráðuneytið hefur afhent mér vegna athugunar minnar á kvörtun A hvort honum hafi á þessu stigi verið afhent bréf fræðslustjóra og þau gögn sem því fylgdu.

Ekki er að mínu áliti unnt að ráða annað af tölvubréfi skólastjóra, dags. 30. september 2002, en að ósk hans um að A yrði leystur frá störfum um stundarsakir hafi ekki einvörðungu byggst á þeim atvikum sem lágu til grundvallar áminningu, dags. 24. september 2002, heldur hafi óskin einnig verið tilkomin vegna atvika sem áttu sér stað á tímabilinu 24. september til 27. september 2002. Í því sambandi voru í meðfylgjandi yfirliti skólastjóra rakin atvik sem lutu að framkomu A í garð samstarfsfólks og maka þeirra, fjarveru hans frá vinnu og óhlýðni hans við fyrirmæli skólastjóra. Verður ekki annað séð en að það hafi verið mat skólastjóra á þessum atvikum að áminningin hefði ekki haft tilætluð áhrif og því yrði að grípa til viðurhlutameiri úrræða og huga að því að A yrði leystur frá störfum um stundarsakir. Enn fremur má ráða það af gögnum málsins að umrædd atvik hafi að einhverju leyti verið lögð til grundvallar við ákvörðun borgarráðs frá 8. október 2002 og í niðurstöðum nefndar þeirrar sem rannsakaði mál A á grundvelli 8. gr. laga nr. 72/1996, þótt nefndin hafi að vísu einnig haft til umfjöllunar atvik sem gerðust eftir 27. september 2002.

Af þeim gögnum sem félagsmálaráðuneytið hefur afhent mér vegna athugunar minnar verður ekki séð að A hafi verið gefinn kostur á að tjá sig sérstaklega um þau atvik sem skólastjóri tilfærði í þessu sambandi og áttu sér stað eftir að A var veitt áminningin 24. september 2002, hvort sem var fyrir skólastjóra X-skóla eða borgarráði áður en tekin var ákvörðun um að leysa hann frá störfum um stundarsakir 8. október 2002.

Ég tel hins vegar að það megi ráða af álitsgerð nefndar þeirrar sem rannsakaði mál A að honum hafi þar verið gefinn kostur á tjá sig um þessi tilteknu atvik, a.m.k. að einhverju leyti. Þannig voru A send gögn málsins með bréfi formanns nefndarinnar, dags. 18. nóvember 2002, og gefinn kostur á að tjá sig um atvik málsins á fundi nefndarinnar 20. desember 2002, en um þennan þátt málsins segir orðrétt í álitsgerð nefndarinnar:

„Hinn 25. september kveðst skólastjóri hafa afhent [A] áminningarbréf og kynnt honum efni þess að viðstöddum vottum. Að auki kveðst skólastjóri hafa bent [A] á, hvað hann gæti gert til þess að bæta úr kennslu sinni og stjórn á nemendum. Skólastjóri kveður [A] ekki hafa viljað kvitta fyrir móttöku þessa bréfs og hann hafi rifið verkefnaáætlun dagsins og enn fremur hafi hann yfirgefið vinnustaðinn, en þó tímabundið. Hann hafi ekki sinnt vinnu þennan dag. [A] neitar þessu ekki í skýrslu sinni fyrir nefndinni, en segir að illa hafi verið að þessu staðið af hálfu skólastjóra, svo hann hafi engan vegið unað við þetta.

Dagana 1. til 4. október kveðst skólastjóri hafa fjórum sinnum reynt að fela [A] forfallakennslu, en hann ekki viljað sinna henni. Þann 7. október hafi [A] sinnt forfallakennslu í íþróttum, sem hafi eftir fyrsta tímann leystst upp. A kveður þetta ekki alls kostar rétt. Hann hafi ekki talið sig vera í vinnu, því engin vinnuskýrsla hafi verið til fyrir sig. Það sé líka algerlega rangt að kennsla hans í íþróttum þann 7. október hafi farið í upplausn.“

Í álitgerð nefndarinnar kemur fram að A hafi ekki óskað eftir að tjá sig um málið heldur hafi hann látið við það sitja að benda á að skýrslur frá þeim sem hann taldi hliðholla skólastjóra í málinu hefðu verið einhliða. Að öðru leyti verður ekki séð að A hafi verið veitt frekari tækifæri til að tjá sig um meðferð málsins áður en borgarráð tók ákvörðun um endanlega lausn hans frá störfum þann 14. janúar 2003.

Samkvæmt framangreindu liggur það fyrir að A var ekki veitt sérstakt tækifæri til að tjá sig um þau atvik sem lágu til grundvallar mati skólastjóra og borgarráðs að hann hefði ekki bætt ráð sitt í kjölfar þeirrar áminningar sem honum var veitt 25. september 2002 fyrr en við meðferð nefndar þeirrar sem falið var að rannsaka mál hans samkvæmt 8. gr. laganna.

Eins og rakið er í kafla IV.2 hér að framan er gert ráð fyrir því í lögum nr. 72/1996 að grunnskólakennari verði almennt ekki leystur endanlega frá störfum nema að undangengnu þrískiptu ferli, sem felur í sér að fyrst er veitt áminning, síðan lausn um stundarsakir og loks lausn að fullu.

Ég hef áður rakið hvernig gengið var út frá því við setningu hinna sérstöku laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla nr. 72/1996 að fylgja bæri stjórnsýslulögum þegar teknar yrðu ákvarðanir um lausn úr starfi. Í athugasemdum í frumvarpi til stjórnsýslulaga er fjallað um hvernig ákvarðanir um málefni opinberra starfsmanna falla undir gildissvið laganna. Má af þeim ráða að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga, þ.m.t. andmælaréttur aðila, kunna að eiga við um töku hverrar af áðurnefndum þremur ákvörðunum fyrir sig. Í umræddum lögskýringargögnum við ákvæði stjórnsýslulaga er að vísu ekki vikið með beinum hætti að því hvernig fara eigi með áminningu eða ákvörðun um lausn um stundarsakir samkvæmt stjórnsýslulögum. Í framkvæmd dómstóla og umboðsmanns Alþingis hefur verið lagt til grundvallar að ákvarðanir sem stjórnvöld taka um áminningu eða tímabundna lausn starfsmanna sinna á sérstökum lagagrundvelli falli almennt undir gildissvið stjórnsýslulaga. Þannig hefur verið byggt á því að stjórnvöldum sé skylt að fylgja reglum laganna þegar þau taka ákvarðanir um áminningu starfsmanna, sbr. dóma Hæstaréttar sem birtir eru í dómasafni réttarins Hrd. 1999, bls. 802, Hrd. 2000, bls. 2862, Hrd. 2000, bls. 2878 og dóm Hæstaréttar í máli nr. 371/2003 frá 18. mars 2004 og álit mín frá 26. júlí 1999 í máli nr. 2475/2000 og 23. maí 2001 í máli nr. 2970/2000. Ég bendi í þessu sambandi á að í áðurnefndum dómi Hæstaréttar frá 18. mars 2004 er tekið svo til orða að „áminning samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 [er] mjög íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun“ en nefnd ákvæði 21. gr. eru um tilefni áminningar sama efnis og 7. gr. laga nr. 72/1996. Ég tel í þessu sambandi rétt að benda á að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur einnig verið gengið út frá því að ákvörðun um að veita lausn um stundarsakir á grundvelli 26. gr. laga nr. 70/1996 falli undir ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 132/1999 frá 11. nóvember 1999 sem birtur er á bls. 4247 í dómasafni réttarins, en samkvæmt 1. mgr. 28. gr. er slík ákvörðun bundin sömu réttaráhrifum og ákvörðun um lausn um stundarsakir samkvæmt 9. gr. laga nr. 72/1996. Þá hef ég jafnframt gengið út frá því í störfum mínum að ákvarðanir veitingarvaldshafa um að starfsmaður skuli hverfa tímabundið frá störfum og missa laun samhliða því falli undir ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. álit mitt í máli nr. 3853/2003 sem áður er vitnað til, og að veitingarvaldshafa sé skylt að fylgja málsmeðferðarreglum laganna við töku slíkra ákvarðana.

Þær athugasemdir sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 72/1996 benda til þess að löggjafinn hafi gengið út frá því að ákvörðun um lausn um stundarsakir teljist sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun. Ég minni í þessu samhengi á að í athugasemdum við ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1996, sem fjallar samkvæmt efni sínum um lausn um stundarsakir er tekið svo til orða að „starfsmaður [eigi] að sjálfsögðu rétt á að vita á hvern hátt hann hefur af sér brotið“ og beri að hafa í huga að „lausn úr stöðu [skoðist] sem stjórnvaldsathöfn og skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, [sé] aðila máls tryggður réttur til að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því“.

Ég hef hins vegar áður lýst þeirri afstöðu minni að þegar vafi leikur á því hvort einstök ákvörðun eigi að falla undir ákvæði stjórnsýslulaga verði einkum að líta til raunverulegrar þýðingar hennar fyrir stöðu viðkomandi svo og hvort þörf er á því og eðlilegt verði talið að hann njóti þeirra réttinda sem þar er mælt fyrir um, sbr. álit mitt frá 5. mars 2004 í máli nr. 3853/2003. Í samræmi við framangreint verður að hafa í huga að það leiðir af 1. mgr. 9. gr. laga nr. 72/1996 að ákvörðun um lausn starfsmanns um stundarsakir hefur sjálfkrafa í för með sér þau íþyngjandi réttaráhrif að starfsmaðurinn fær aðeins greiddan helming þeirra föstu launa sem stöðu hans fylgja uns tekin hefur verið endanleg ákvörðun um hvort hann gegni starfinu áfram, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 72/1996. Það leiðir einnig af 1. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1996 að ákvörðun um lausn um stundarsakir hefur í för með sér að mál starfsmannsins verður rannsakað af sérstakri nefnd eða að hætti opinberra mála með það fyrir augum að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort segja eigi honum upp að fullu.

Í ljósi þess sem að framan er rakið tel ég að leggja verði til grundvallar að ákvörðunin um að veita A lausn um stundarsakir hafi verið þess eðlis að hún félli undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Eins og atvikum var háttað tel ég því að Reykjavíkurborg hafi verið skylt að fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga við undirbúning og töku ákvörðunarinnar. Í þessu sambandi vek ég athygli á því að í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir um 1. gr. að orðalag hennar sé „annars svo rúmt að í algerum vafatilvikum“ beri að „álykta svo að lögin gildi fremur en að þau gildi ekki“, sjá Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3284.

Með hliðsjón af framangreindu tel ég að Reykjavíkurborg hafi borið að haga málsmeðferð sinni eftir ákvæðum stjórnsýslulaga áður en borgarráð tók ákvörðun um að leysa A frá störfum um stundarsakir 8. október 2002. Bar Reykjavíkurborg í því sambandi að fylgja ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt aðila máls. Meginreglan varðandi andmælarétt er að aðili máls verður að hafa frumkvæði sjálfur að því að kynna sér gögn og tjá sig um mál. Til þess að hann hafi tækifæri til þess þarf að tilkynna viðkomandi aðila að mál hans sé til meðferðar hjá stjórnvaldi, ef ljóst er að hann hefur ekki fengið vitneskju um það fyrirfram, í samræmi við fyrirmæli 14. gr. stjórnsýslulaga. Tilkynning til aðila máls samkvæmt 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er þannig almennt forsenda þess að andmælaréttur aðila verði virkur svo hann geti meðal annars leiðrétt fram komnar upplýsingar og bætt því við sem hann telur að skipti máli við úrlausn málsins.

Eins og áður er rakið er ekki unnt að draga þá ályktun af fyrirliggjandi gögnum málsins að A hafi verið kunnugt um að til athugunar væri hjá borgarráði að leysa hann frá störfum um stundarsakir fyrr en skólastjóri birti honum ákvörðun borgarráðs á fundi hinn 10. október 2002. Í svörum ráðuneytisins við fyrirspurn minni um að hvaða leyti ráðuneytið teldi Reykjavíkurborg hafa gætt að andmælarétti A eftir áminningu og áður en honum var veitt tímabundin lausn frá störfum er afstöðu ráðuneytisins til þessa atriðis lýst svo að í áminningunni frá 24. september 2002 hafi komið fram að „til stæði að veita A „lausn frá störfum tímabundið, og um þá málsmeðferð [færi] samkvæmt ákvæðum laga nr. 72/1996 [...] eins og [segði] orðrétt“ í áminningunni“.

Að því er snertir þetta atriði tel ég að sú lýsing á efni áminningarinnar sem fram kemur í svörum ráðuneytisins sé ekki alls kostar nákvæm þegar litið er til gagna málsins. Þannig verður að mínum dómi ekki séð af orðalagi áminningarinnar að þar hafi verið fullyrt með almennum hætti að „til stæði“ að veita A lausn um stundarsakir. Þar segir hins vegar að skólastjóri muni óska eftir því að verði veitt lausn frá störfum tímabundið „verði kennslustörf [hans] ekki samkvæmt samþykktri vinnuskýrslu og eftir fyrirmælum skólastjórnenda, frá og með 1. október 2002“. Áminningin fól með þessum hætti í sér ákveðna viðvörun til A um að ef hann færi ekki eftir þeim tilmælum sem þar væru sett fram kynni að vera gripið til frekari og alvarlegri úrræða gagnvart honum en áminningu.

Ráðuneytið vísar enn fremur til þess að A hafi verið tilkynnt þegar honum var veitt áminningin með bréfi skólastjóra, dags. 24. september 2002, að ef ekki yrði orðið við því sem þar kom fram yrði næsta skref að veita honum lausn frá störfum tímabundið. Ég get ekki skilið skýringar félagsmálaráðuneytisins öðruvísi en svo en að það telji það ekki hafa haft þýðingu fyrir andmælarétt A þótt honum hafi ekki verið tilkynnt um að til athugunar væri að leysa hann frá störfum um stundarsakir þar sem honum hafi þegar mátt vera ljóst að til þess gæti komið ef hann færi ekki eftir fyrirmælum áminningarinnar.

Ég get ekki fallist á að það sjónarmið sem ráðuneytið lýsir að þessu leyti geti haft þýðingu um þá skyldu Reykjavíkurborgar að tilkynna A um að lausn hans frá störfum um stundarsakir væri til athugunar, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga og einnig 13. gr. sömu laga. Bendi ég í því sambandi á að lausn frá störfum um stundarsakir er í eðli sínu sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun. Slík ákvörðun felur í sér annað og viðurhlutameira úrræði gagnvart starfsmanni en áminning, sem samkvæmt efni sínu felur í sér að starfsmanni er gefið tækifæri til að bæta ráð sitt svo að ekki komi til þess að veitingarvaldshafi beiti öðrum og meira íþyngjandi úrræðum gegn honum, svo sem úrræðum sem miða að lokum starfssambands hans. Hér verður enn fremur að hafa í huga að ákvörðunin um að leysa A frá störfum um stundarsakir byggðist samkvæmt framangreindu ekki einungis á þeim atvikum sem lögð voru til grundvallar áminningu heldur einnig á atvikum sem áttu sér stað í kjölfar ákvörðunar skólastjóra um að veita honum áminningu. Ákvörðun borgarráðs var því byggð á einhliða frásögn og afstöðu skólastjórans til atvika málsins.

Í ljósi framangreinds tel ég að ekki verði hjá því komist að gera athugasemdir við það að Reykjavíkurborg hafi látið hjá líða að tilkynna A um að mál um lausn hans um stundarsakir væri til meðferðar og gefa honum á því tímamarki færi á að koma að sínum sjónarmiðum, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga, áður en borgarráð tók ákvörðun um tímabundna lausn hans. Ég tel í þessu sambandi rétt að vekja athygli á því að telji stjórnvöld við þessar aðstæður brýnt að slíku máli sé ráðið til lykta með skjótum hætti, þá geta þau á grundvelli heimildar 1. mgr. 18. gr. stjórnsýslulaga sett aðila ákveðinn frest til að kynna sér gögn máls og tjá sig um málið.

Ég tel einnig að gera verði tilteknar athugasemdir við að Reykjavíkurborg tilgreindi ekki nægilega í samræmi við ákvæði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1996 þær ástæður sem voru fyrir ákvörðun borgarráðs um að leysa A frá störfum um stundarsakir í bréfi borgarstjóra frá 8. október 2002. Þannig segir einvörðungu í umræddu bréfi að samþykkt hafi verið að leysa hann frá störfum um stundarsakir „vegna ávirðinga sem á [A] hafi verið bornar“ segir í framhaldinu að „nánar [sé] vísað í bréf fræðslustjóra frá 8. október 2002, ásamt fylgiskjölum.“ Ég tek í þessu sambandi fram að ég get ekki ráðið af þeim gögnum málsins sem fyrir liggja og ráðuneytið hefur afhent mér að A hafi á þessum tímapunkti verið afhent bréf fræðslustjóra og fylgiskjöl með því. Þá fæ ég heldur ekki séð að A hafi á þessum tíma verið veittar frekari upplýsingar en þarna greinir um ástæður lausnar og þá verður heldur ekki séð að hann hafi á þessu stigi málsins meðan það var til meðferðar hjá Reykjavíkurborg fengið afhent bréf fræðslustjóra og þau gögn sem vísað er til í bréfi borgarstjóra. Í ljósi þessa fæ ég ekki séð að Reykjavíkurborg hafi gætt þeirrar skyldu sinnar að upplýsa A nægjanlega um ástæður lausnar hans um stundarsakir, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1996. Tel ég því að félagsmálaráðuneytið hefði að réttu lagi átt að gera athugasemdir við þennan þátt málsmeðferðar Reykjavíkurborgar.

5. Rannsókn félagsmálaráðuneytisins.

Ég hef veitt því eftirtekt við athugun mína á þeim þætti málsins sem lýtur að ákvörðun borgarráðs frá 8. október 2002 um að leysa A frá störfum að bréf fræðslustjóra til borgarlögmanns, dags. sama dag, var ekki meðal gagna sem fyrir lágu í félagsmálaráðuneytinu þegar það kvað upp úrskurð sinn í máli þessu. Í skýringum ráðuneytisins til mín á þessu atriði kemur fram að ráðuneytið hafi ekki óskað sérstaklega eftir afriti af þessu bréfi við meðferð málsins enda hefði það talið að „ítarlegar upplýsingar um aðdraganda uppsagnarinnar lægju fyrir í málinu“. Þá vísar ráðuneytið til þess að þau fjögur fylgiskjöl sem vísað er til í bréfi fræðslustjóra hafi legið fyrir í gögnum málsins áður en ráðuneytið kvað upp upphaflegan úrskurð sinn í málinu.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og gildir sú regla einnig við málsmeðferð í kærumálum, sbr. 30. gr. laganna. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Ekki verður um það villst að úrskurður félagsmálaráðuneytisins frá 22. febrúar 2006 laut í megindráttum að því atriði hvort ákvarðanir Reykjavíkurborgar um lausn A frá störfum hefðu verið reistar á réttum efnislegum forsendum og hvort sú málsmeðferð sem borgaryfirvöld höfðu viðhaft í því sambandi hefði verið í samræmi við ákvæði laga nr. 72/1996 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í samræmi við ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga bar félagsmálaráðuneytinu því meðal annars að sjá til þess að þeirra gagna væri aflað í málinu sem nauðsynleg voru til þess að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort málsmeðferð Reykjavíkurborgar hefði uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru í lögum nr. 72/1996 og stjórnsýslulögum, en þeim kröfum er lýst hér að framan.

Ég fæ ekki séð af efni bréfs fræðslustjóra til borgarlögmanns að það hafi haft beina þýðingu fyrir rannsókn félagsmálaráðuneytisins á málinu enda felur það eingöngu í sér beiðni til borgarráðs um að A verði leystur frá störfum og að skipuð verði nefnd kunnáttumanna til að rannsaka mál hans. Í bréfinu kemur hins vegar fram hvaða gögn voru send með erindi fræðslustjóra, en þar á meðal voru erindi skólastjóra X-skóla til fræðslustjóra, yfirlit skólastjóra um feril mála varðandi A, fundarboð vegna áminningar og svo áminningarbréfið.

Í ljósi þess að ekki voru í öðrum gögnum málsins en bréfi fræðslustjóra upplýsingar um þau gögn sem Reykjavíkurborg hafði undir höndum þegar tekin var ákvörðun um lausn A tel ég að ráðuneytinu hafi verið rétt að afla bréfs fræðslustjóra til þess að gæta rannsóknarskyldu sinnar í málinu. Ég tek jafnframt fram að miðað við þau gögn sem fyrir lágu þegar ráðuneytið kvað upp úrskurð sinn og það hefur afhent mér þá fæ ég ekki séð að ráðuneytið hafi haft forsendur til að taka afstöðu til þess hvaða gögn lágu fyrir borgarráði þegar það tók ákvörðun um að veita A lausn um stundarsakir. Af þeim sökum hafði ráðuneytið hvorki fullnægjandi upplýsingar til að álykta um hvort borgarráð Reykjavíkur hefði gætt rannsóknarskyldu sinnar þegar það tók umrædda ákvörðun né hvort gögnin hefðu að geyma slíkar upplýsingar að rétt væri að veita A andmælarétt vegna þeirra. Tel ég því að ráðuneytið hafi að þessu leyti ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.

6. Ákvörðun Reykjavíkurborgar

um að leysa A frá störfum að fullu.

Eins og rakið er hér að framan tel ég að Reykjavíkurborg hafi ekki gætt þess nægilega við lausn A um stundarsakir að upplýsa hann um ástæður ákvörðunarinnar í samræmi við 4. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1996. Af þeim lögskýringargögnum við ákvæðið sem vitnað er til í kafla IV.2 hér að framan má ráða að sú skylda sem lögð er á veitingarvaldshafa um að tilgreina ástæður lausnar við þessar aðstæður hafi að einhverju leyti tekið mið af nauðsyn þess að tryggja andmælarétt starfsmanns samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ætla verður að starfsmaður sé almennt betur í stakk búinn til að gera athugasemdir við þær forsendur sem liggja til grundvallar ákvörðun um lausn hans þegar hann hefur verið upplýstur um ástæður ákvörðunarinnar. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að ástæður sem liggja að baki lausn á grundvelli 4. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1996 hljóta eðli málsins samkvæmt oft og tíðum að fara saman við ástæður sem endanleg lausn starfsmanns byggist á, sbr. 10. gr. laganna, enda gegnir starfsmaðurinn ekki starfinu á meðan lausn um stundarsakir stendur yfir.

Að mínu áliti ber stjórnvöldum að gæta þessarar skyldu þegar þau taka ákvarðanir á grundvelli 7. gr. laga nr. 72/1996, enda hefur löggjafinn tekið þá afstöðu að starfsmaður skuli í þessum tilvikum njóta vandaðri málsmeðferðar að því leyti sem stjórnvaldi ber að gera honum kunnugt um ástæður ákvörðunar um leið og það tilkynnir honum skriflega um hana. Almennt verður hins vegar ekki fullyrt að brotið hafi verið gegn andmælarétti aðila af þeirri ástæðu einni að farist hafi fyrir að gæta þessa ákvæðis. Í því sambandi verður að líta til þeirrar viðteknu afmörkunar á andmælarétti aðila máls sem felst í því hvort hann hafi haft tækifæri til að tjá sig um þau atvik málsins sem telja verður að hafi haft verulega þýðingu úrlausn þess.

Af bréfi borgarstjóra, dags. 14. janúar 2003, þar sem A var tilkynnt um þá ákvörðun að veita honum lausn frá störfum að fullu á grundvelli 1. mgr. 10. gr. laga nr. 72/1996, verður ráðið að ákvörðun um endanlega lausn hans hafi annars vegar verið byggð á þeirri niðurstöðu sem fram kom í álitsgerð nefndar samkvæmt 8. gr. laganna og dagsett var 11. janúar 2003, um að rétt hefði verið að leysa A frá störfum um stundarsakir samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna. Auk þess hafi ákvörðunin verið byggð á erindi borgarlögmanns sem hann lagði fram á fundi borgarráðs 14. janúar 2003 ásamt fylgiskjölum, en í því erindi var m.a. vísað til bréfs fræðslustjóra, dags. 8. október 2002, sem lagt var fram á fundi borgarráðs sama dag ásamt fylgiskjölum, niðurstöðu nefndarinnar og þess rökstuðnings sem fram kemur í álitsgerð hennar.

Miðað við þá lýsingu sem fram kemur í bréfi borgarstjóra verður að leggja til grundvallar að ákvörðun borgarráðs um að leysa A endanlega frá störfum hafi annars vegar byggst á þeim atvikum sem urðu tilefni áminningar hans og hins vegar á þeim atvikum sem áttu sér í stað kjölfar hennar og leiddu til þess að borgarráð mat það nauðsynlegt að leysa hann frá störfum.

Þegar litið er til gagna málsins þá er ekki annað að sjá en að A hafi gefist fullnægjandi tækifæri á að neyta andmælaréttar síns um þau atvik sem lágu til grundvallar áminningu skólastjóra frá 24. september 2002. Vísa ég í því sambandi til þess sem rakið er í II. kafla hér að framan en þar kemur fram að skólastjóri hafi með bréfi, dags. 3. september 2002, boðað A til viðtals á skrifstofu sinni hinn 10. sama mánaðar, vegna fyrirhugaðrar áminningar og var þar vísað til tiltekinna ávirðinga í því sambandi. Fyrir liggur að A mætti ekki til þess fundar.

Að því er snertir þau atvik sem áttu sér stað í kjölfar áminningarinnar þá tel ég ljóst af gögnum málsins að A var ekki veitt sérstakt tækifæri til að tjá sig um atvik málsins fyrir borgarráði áður en það tók ákvörðun um endanlega lausn hans frá störfum hinn 14. janúar 2003 eða þá álitsgerð þeirrar nefndar sem rannsakaði mál hans, dags. 11. janúar 2003. Á hinn bóginn er ljóst að A var vissulega gefinn kostur á að tjá sig um atvik málsins á fundi þeirrar nefndar sem skipuð var samkvæmt 8. gr. laga nr. 72/1996 hinn 20. desember 2002. A mætti til fundarins þar sem honum var gefinn kostur á að tjá sig um atvik málsins munnlega og svara spurningum nefndarmanna til útlistunar á þeim.

Í álitsgerð nefndarinnar kemur fram að A var á fundi nefndarinnar gefinn kostur á að tjá sig um viðbrögð sín þegar honum var afhent áminningarbréfið 25. september 2002, m.a. um að hann hafi rifið verkefnaáætlun dagsins, yfirgefið vinnustaðinn tímabundið og ekki sinnt vinnu þann daginn. Þá var honum jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um það sem fram kom í skýrslu skólastjóra um að skólastjóri hefði fjórum sinnum á tímabilinu 1.-4. október 2002 reynt að fela A forfallakennslu, en hann ekki viljað sinna henni og forfallakennsla hans í íþróttum 7. október 2002 hafi farið í upplausn. Ekki verður hins vegar ráðið af álitsgerð nefndarinnar hvort A hafi þar tjáð sig um önnur atvik sem vísað var til þegar lausn hans um stundarsakir var ákveðin og lutu meðal annars að framkomu hans í garð samstarfsmanna og maka þeirra. Ég tel hins vegar að ganga verði út frá því að A hafi haft umrædd gögn um þessar ávirðingar undir höndum áður en hann kom fyrir nefndina. Ég bendi í því sambandi á að í álitsgerð nefndarinnar kemur fram að formaður nefndarinnar hafi sent A gögn málsins með bréfi, dags. 18. nóvember 2002, en ganga verður út frá því að tölvubréf skólastjóra X-skóla til fræðslustjóra og fylgigögn þess hafi verið meðal þeirra gagna. Þá kemur fram í álitsgerð nefndarinnar að A hafi ekki óskað eftir að tjá sig um málið heldur hafi hann látið við það sitja að benda á að skýrslur frá þeim sem hann taldi hliðholla skólastjóra í málinu hefðu verið einhliða.

Eins og ég hef áður lýst felur ákvörðun um endanlega lausn úr starfi samkvæmt 10. gr. laga nr. 72/1996 í sér sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun og við undirbúning hennar þarf að fylgja málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga auk þeirra sérstöku reglna sem fram koma í lögum nr. 72/1996. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga kost á því að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Þótt andmælaréttur aðila sé þannig meginreglan geta atvik í málinu verið þannig að nefndar undantekningar frá skyldunni til að gefa aðila kost á að tjá sig eigi við.

Ég hef áður lýst því á hvaða atvikum hin endanlega ákvörðun um lausn A úr starfi var byggð. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að A hafi haft fullt tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum sínum um þau atvik sem lögð voru til grundvallar þeirri ákvörðun borgarráðs 14. janúar 2003. Ég vísa þar til þess að A hafði fengið tækifæri til að tjá sig um þessi atvik fyrir þeirri nefnd sem skipuð var á grundvelli 8. gr. laga nr. 72/1996. Ég tek jafnframt fram að ekki verður annað séð en að nefndin hafi byggt niðurstöður sínar á þeim atvikum og gögnum sem lögð voru fram við meðferð málsins hjá nefndinni og A hafði átt þess kost á að kynna sér. Ályktanir þær sem fram koma í niðurstöðum nefndarinnar eru jafnframt ekki þess eðlis að þær hafi falið í sér nýjar upplýsingar í merkingu 13. gr. stjórnsýslulaga þannig að skylt hafi verið að gefa A enn á ný tækifæri til að koma að andmælum áður en ákvörðun um lausn að fullu var tekin. (Sjá hér til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 132/1999 frá 11. nóvember 1999, dómasafn það ár bls. 4247.)

Í samræmi við framangreint tel ég ekki tilefni til að ég geri athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins um að Reykjavíkurborg hafi gætt andmælaréttar nægilega samkvæmt 11. gr. laga nr. 72/1996 og einnig 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga áður en hún tók ákvörðun um að leysa A frá störfum að fullu. Ég tek hins vegar undir þau sjónarmið sem lýst er í skýringum ráðuneytisins til mínum að það hefði verið vandaðri stjórnsýsla ef Reykjavíkurborg hefði áður en mál um hvort veita ætti A endanlega lausn frá kennarastarfinu í kjölfar niðurstöðu nefndarinnar var ráðið til lykta tilkynnt honum um málið og gefið honum kost á að koma að andmælum, og þá eftir atvikum innan tiltekins frests.

7. Áhrif annmarka á gildi ákvörðunar.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða mín að ákveðnir annmarkar hafi verið á málsmeðferð Reykjavíkurborgar við undirbúning þeirrar ákvörðunar að veita A lausn frá störfum um stundarsakir. Lúta þeir annmarkar einkum að því A var ekki gefið fullnægjandi tækifæri til að tjá sig um tiltekin atvik að baki ákvörðuninni. A gafst hins vegar á síðari stigum málsins kostur á að tjá sig um þessi sömu atvik við undirbúning þeirrar ákvörðunar sem laut að lausn hans að fullu.

Ljóst er að ákvarðanir sem skólastjórnendur og sveitarstjórn tóku í máli þessu á grundvelli laga nr. 72/1996 byggðu að verulegu leyti á sömu atvikum. Þannig kann ákvörðun um að veita starfsmanni lausn frá störfum um stundarsakir samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna að byggjast að nokkru á atvikum sem varða frammistöðu og hegðun hans og hann hefur þegar verið áminntur fyrir en ekki bætt úr þrátt fyrir tilmæli áminningarinnar þar um. Þá kann oft og tíðum að vera örðugt að skilja á milli atvika sem liggja til grundvallar ákvörðunar um lausn um stundarsakir vegna framkomu eða athafna starfsmanns í starfi sínu samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1996 og ákvörðunar um lausn að fullu á grundvelli sama ákvæðis, enda leiðir það sjálfkrafa af fyrri ákvörðuninni að starfsmaður er ekki lengur við störf og ekki getur því orðið um frekari brot af því tagi að ræða á meðan mál hans er til rannsóknar, sbr. 8. gr. laganna.

Í ljósi þeirra gagna sem lágu fyrir í kjölfar þeirrar athugunar og þeirra atvika sem lögð voru til grundvallar endanlegri ákvörðun borgarráðs 14. janúar 2003 fæ ég ekki séð að umræddir annmarkar hafi verið til þess fallnir að hafa efnisleg áhrif á endanlega niðurstöðu Reykjavíkurborgar. Verður þá að hafa í huga að ákvörðunin átti sér langan aðdraganda og ekki verður annað séð en að öll atvik málsins hafi verið könnuð ítarlega af hálfu þeirrar nefndar sem falin var rannsókn málsins á grundvelli 8. gr. laga nr. 72/1996.

Með vísan til framangreinds tel ég því ekki tilefni til þess að fullyrða að þeir annmarkar sem voru á málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi verið svo verulegir að ráðuneytinu hafi verið rétt að ógilda ákvörðun borgaryfirvalda. Hef ég þá enn fremur litið til þess hvernig dómstólar hafa tekið afstöðu til áhrifa annmarka á málsmeðferð á gildi stjórnvaldsákvarðana undanfarin ár.

V. Niðurstaða.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að nokkrir annmarkar hafi verið á málsmeðferð Reykjavíkurborgar og á úrskurði félagsmálaráðuneytisins frá 22. febrúar 2006 í máli A. Það er niðurstaða mín að á hafi skort af hálfu Reykjavíkurborgar að A væri tilkynnt um að mál hans um lausn um stundarsakir væri til meðferðar og að honum væri gefið tækifæri til að tjá sig um málið áður en ákvörðun var tekin um að leysa hann frá störfum um stundarsakir 8. október 2002 og það hvernig staðið var að því að tilkynna A um ástæður ákvörðunarinnar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 72/1996. Þá tel ég hafa skort á að ráðuneytið gætti rannsóknarskyldu sinnar þegar það kvað upp úrskurð sinn í málinu. Ég tel þessa annmarka þó ekki það verulega að þeir valdi ógildi úrskurðar ráðuneytisins. Tel ég því ekki tilefni til að beina tilmælum til stjórnvalda um endurupptöku málsins. Ég tel að það verði að vera verkefni dómstóla að skera úr um hvort framangreindir annmarkar á málsmeðferð í máli A leiði til bótaskyldu af hálfu stjórnvalds, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í samræmi við 92. gr. laga nr. 167/2007, um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands mun ég auk þess að senda félagsmálaráðuneytinu álit þetta kynna samgönguráðuneytinu það en það ráðuneyti hefur nú tekið við úrskurðarvaldi því sem félagsmálaráðuneytið hafði áður samkvæmt sveitarstjórnarlögum.