Almannatryggingar. Lögmætisregla. Skyldubundið mat. Meinbugir á stjórnvaldsfyrirmælum.

(Mál nr. 5132/2007)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem nefndin staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja honum um styrk vegna kaupa á bifreið. Hafði A sótt um styrkinn með vísun til þess hann byggi við verulega skerta færni í öxlum og handleggjum, auk þess sem hann þyrfti að nota hjólastól. Þá hefði ástand hans versnað töluvert frá því hann fékk síðast styrk til bifreiðakaupa á árinu 2004 og flutningar milli hjólastóls og bílsætis á þeim bíl sem hann æki nú væru orðnir honum ofviða og bifreiðin því nánast ónothæft hjálpartæki.

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í máli A byggðist á þeirri forsendu að hann hefði ekki fullnægt skilyrði 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 um að fimm ár væru liðin frá síðustu styrkveitingu. Af þeim sökum beindi umboðsmaður athugun sinni að því hvort umrætt skilyrði reglugerðarinnar ætti sér fullnægjandi stoð í lögum.

Umboðsmaður rakti að reglugerðin væri sett með heimild í ákvæðum 38. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, en samkvæmt orðalagi a-liðar 1. mgr. 38. gr. laganna hefðu skilyrði fyrir styrkgreiðslum til að afla hjálpartækja og bifreiða eingöngu verið að mat lægi fyrir á nauðsyn slíks búnaðar vegna hamlaðrar líkamsstarfsemi eða þess að líkamshluta vantaði. Taldi umboðsmaður að því væri ekki hægt að draga aðra ályktun af orðalagi lagaákvæðisins en að það mælti fyrir um skyldu tryggingastofnunar til að leggja efnislegt mat á hvort viðkomandi þyrfti á slíkum búnaði að halda vegna tiltekinnar líkamlegrar fötlunar eða takmörkunar. Þótt ljóst væri að reglugerðarheimildin veitti ráðherra heimild til að útfæra nánar reglur um hvernig bæri að framkvæma mat á nauðsyn umsækjanda á að fá styrki og þau málefnalegu sjónarmið sem horfa yrði til í því sambandi var það álit umboðsmanns að ráðherra hefði ekki vald til að setja reglur sem mæltu fyrir um afdráttarlaus tímaskilyrði fyrir umsóknum. Taldi umboðsmaður að slík tímaskilyrði þyrftu að koma fram í lögunum sjálfum. Þar sem svo væri ekki þá hefðu þau ekki átt sér stoð í lögum.

Umboðsmaður taldi einnig að verulegur vafi léki á því hvort sömu tímaskilyrði reglugerðarinnar ættu sér stoð í nýjum ákvæði 26. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, sem leyst hefðu ákvæði V. kafla laga nr. 100/2007 af hólmi. Benti umboðsmaður á að það álitaefni kynni að rísa við framkvæmd 26. gr. hvort sú óhefta heimild sem ráðherra væri fengin í ákvæðinu til að mæla fyrir um takmarkanir á kostnaðarþátttöku í reglugerð gengi eftir atvikum lengra en löggjafanum væri heimilað samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til heilbrigðisráðuneytisins að það tæki afstöðu til þess hvort og þá hvaða breytingar þyrfti að gera á 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002. Umboðsmaður taldi jafnframt rétt að beina því til félags- og tryggingamálaráðuneytisins að horfa til þeirra sjónarmiða sem rakin væru í álitinu við fyrirhugaða endurskoðun almannatryggingalaga. Þá vakti umboðsmaður athygli úrskurðarnefndar almannatrygginga á þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu og að það kynni að verða nefndinni tilefni til að huga að máli A að nýju.

I. Kvörtun.

Hinn 22. október 2007 leitaði A, til mín vegna úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga frá 6. september 2007 þar sem úrskurðarnefndin staðfesti synjun Tryggingastofnunar ríkisins um styrk vegna kaupa á bifreið, sbr. bréf stofnunarinnar frá 14. maí 2007. Í erindi A til mín kemur m.a. fram að hann telji að skilyrði styrkveitingar í reglugerð um að styrkþegi stundi launaða vinnu eða skóla og að fimm ár þurfi að líða á milli styrkveitinga eigi sér ekki lagastoð.

Þegar A sótti um styrk vegna bifreiðar til Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 12. mars 2007, voru í gildi lög nr. 117/1993, um almannatryggingar. Hinn 1. júní 2007 voru lög nr. 117/1993 endurútgefin sem lög nr. 100/2007. Eftir að mér barst erindi Avar V. kafli laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sem fjallaði um sjúkratryggingar, felldur úr gildi með tilkomu laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar og er nú kveðið á um kostnaðarþátttöku sjúkratrygginga við öflun nauðsynlegra hjálpartækja í 26. gr. laga nr. 112/2008.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 1. desember 2008.

II. Málavextir.

Málavextir eru þeir að A sótti með umsóknareyðublaði, dags. 12. mars 2007, um styrk til kaupa á bifreið hjá Tryggingastofnun ríkisins. Í umsókninni og fylgigögnum með henni kom fram að A sækti um uppbót/styrk til Tryggingastofnunar ríkisins um 60% af kaupverði bifreiðar vegna verulegrar skertrar færni í öxlum og handleggjum auk þess sem hann þyrfti að nota hjólastól og væri í raun bundinn við hann. Í reit 10 í umsóknareyðublaðinu, þar sem umsækjandi átti að krossa við ástæður fyrir styrknum, merkti A við eftirtalin efnisatriði: „endurhæfingar/þjálfun“, „náms (skólagöngu ekki fjarnáms), og „reglubundinnar læknismeðferðar“. Þá kom fram að umsókn A nú væri byggð á því að ástand hans hefði versnað töluvert frá því hann fékk síðast styrk til bifreiðakaupa, þ.e. á árinu 2004, flutningar milli hjólastóls og bílsætis á þeim bíl sem hann æki nú á væru orðnir honum ofviða og bifreiðin honum þar af leiðandi nánast ónothæft hjálpartæki. Einnig stundaði hann reglubundna endurhæfingu og læknismeðferð.

Tryggingastofnun synjaði umsókn A með bréfi, dags. 14. maí 2007. Þar var vísað til a-liðar 33. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og ákvæðis 1. mgr. 11. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð. Þá var rakið að nánari skilyrði fyrir veitingu uppbóta/styrkja kæmu fram í reglugerð nr. 752/2002, um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Loks kemur fram að umsókninni hafi verið synjað þar sem A hafi ekki „uppfyllt skilyrðin um að [stunda] launaða vinnu eða [vera] í skóla“.

Með bréfi til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. maí 2007, óskaði A eftir rökstuðningi fyrir synjun stofnunarinnar. Þá óskaði hann jafnframt eftir upplýsingum um það hvaða tímamörk væru í gildi um það hve gamla bifreið mætti kaupa miðað við veitingu styrkja.

Í svarbréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. júní 2007, er vísað til sömu laga og reglna og í bréfinu, dags. 14. maí 2007. Þá er vísað sérstaklega til ákvæða í reglugerð nr. 752/2002 um að heimild til veitingar styrks allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar eigi „einungis við þegar umsækjandi ekur sjálfur og þarf á bifreið að halda til að stunda launaða vinnu eða skóla“. Þessu næst er vísað til þess að í reglugerðinni standi einnig að heimilt sé að veita styrk á fimm ára fresti til sama einstaklings. Loks segir m.a. svo í bréfinu:

„Umsókninni hefur verið synjað þar sem þú uppfyllir ekki skilyrðin um að þú stundir launaða vinnu eða sért í skóla og ekki eru liðin 5 ár síðan að þú fékkst styrk síðast.“

Með bréfi, dags. 19. júní 2007, kærði A niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Í kæru A voru færð rök fyrir því að synjun tryggingastofnunar væri ekki í samræmi við lög. M.a. var því haldið fram að ákvæði 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 um að liðin væru fimm ár frá síðustu styrkveitingu ætti sér ekki stoð í lögum nr. 117/1993 um almannatryggingar, sbr. lög nr. 100/2007.

Í tilefni af kærunni sendi Tryggingastofnun ríkisins úrskurðarnefnd almannatrygginga greinargerð, dags. 3. júlí 2007. Með bréfi, dags. 17. júlí s.á., setti A fram andmæli sín við þau sjónarmið sem fram komu í greinargerð stofnunarinnar.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga staðfesti synjun Tryggingastofnunar ríkisins með úrskurði, dags. 6. september 2007. Þar er í niðurstöðukafla úrskurðarins vísað til a-liðar 1. mgr. og 3. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993, sbr. nú a-liðar 1. mgr. og 3. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007. Þá er vísað til þess að nánari ákvæði um greiðslur þessar sé að finna í reglugerð nr. 752/2002 sem hafi þrívegis verið breytt. Í úrskurði nefndarinnar segir síðan svo:

„Fram kemur í 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 eins og henni var breytt með reglugerð nr. 462/2004 að heimilt er að veita styrk vegna kaupa á bifreið á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Tilvitnað lagaákvæði mælir fyrir um veitingu styrks til fatlaðra einstaklinga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Af eðli máls leiðir, að styrkveitingin er bundin við kaup á tiltekinni bifreið. Af því leiðir að eðlilegt er að ákveðinn tími líði á milli styrkveitinga sem taki mið af endurnýjunartíma bifreiða almennt. Í lagaákvæðinu sjálfu er ekki settir tímafrestir hér að lútandi en það er gert í reglugerð eins og rakið hefur verið.

Reglugerð nr. 752/2002 er sett með skýrri heimild í lögum þar sem stjórnvöldum er sérstaklega falið að setja nánari reglur um greiðslu bifreiðastyrkja. Að mati úrskurðarnefndarinnar er það á rökum reist að ákveðinn tími þurfi að líða á milli styrkveitinga. Annars vegar er eðlilegt að takmarka með málefnalegum hætti þau útgjöld sem til þessa málaflokks renna enda um greiðslur af almannafé að tefla og takmörkuðu fé er varið til almannatrygginga á ári hverju. Hins vegar telur nefndin ekki óeðlilegt að miða styrkveitinguna við almennan endurnýjunartíma bifreiða og þykir fimm ára tími eðlilegur í því sambandi.

Að mati nefndarinnar felur ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 þess efnis að heimilt sé að veita styrk vegna kaupa á bifreið á fimm ára fresti, ekki í sér ólögmæta þrengingu á a-lið 1. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993 (nú a-liður 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007). Kærandi hefur fengið styrk til bifreiðakaupa enda er honum nauðsyn á bifreið vegna fötlunar sinnar. Hann þarf hins vegar að sæta því eins og aðrir sem eru í sambærilegri stöðu að bíða í fimm ár eftir því að geta sótt um styrkveitingu aftur.

Þegar af þeirri ástæðu að styrkveiting er ekki tímabær er beiðni um styrk til bifreiðakaupa synjað.“

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda.

Í tilefni af erindi A til mín ritaði ég heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu bréf, dags. 10. desember 2007. Þar rakti ég að ég skildi niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar svo að afstaða nefndarinnar væri eingöngu byggð á því að A uppfyllti ekki umrætt skilyrði um að fimm ár líði milli þess að einstaklingur geti fengið styrk til bifreiðakaupa. Í þessu sambandi benti ég á að nefndin tæki í úrskurði sínum fram að A væri bifreið nauðsynleg vegna fötlunar sinnar. Tók ég sérstaklega fram að nefndin hefði áður í úrskurðum sínum talið sér heimilt að víkja frá tilteknum skilyrðum sem sett hafa verið í reglum og reglugerðum um styrki og aðstoð til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sem hjálpartækja. Þess í stað hafi nefndin metið það sjálfstætt hvort aðstæður viðkomandi hafi verið svo að hann komist ekki af án bifreiðar. Vísaði ég í þessu efni til úrskurða nefndarinnar þar sem reyndi á áðurgildandi skilyrði um að hinn hreyfihamlaði notaði tvær hækjur og/eða væri bundinn hjólastól að staðaldri.

Í bréfi mínu til ráðuneytisins rakti ég einnig að samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. nú 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007, væri það hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins að annast sjúkratryggingar, sbr. 2. gr. laganna. Tók ég fram að kveðið væri á um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til þess að greiða styrki til hreyfihamlaðra vegna kaupa á bifreið í a-lið 1. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993, sbr. a-lið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007 og 11. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, sbr. nú 10. gr. laga nr. 99/2007. Í bréfi mínu til ráðuneytisins rakti ég einnig að samkvæmt 2. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007 og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, sbr. nú 2. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007, setti heilbrigðisráðherra reglugerð um greiðslur samkvæmt framangreindum ákvæðum. Núgildandi reglugerð um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða væri nr. 752/2002. Rakti ég einnig einstök ákvæði reglugerðarinnar, einkum 1., 4. og 5. gr. hennar auk þess sem ég vísaði til eldri álita umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2511/1998 frá 23. júlí 1999 og máli nr. 2796/1999 frá 17. október 2000 þar sem ég lét í ljós viðhorf mín um það hvaða skyldur hvíli á stjórnvöldum við mat á umsóknum einstaklinga sem sækja um bifreiðastyrki. Óskaði ég því næst eftir því, með vísan til ákvæða 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið veitti mér eftirfarandi upplýsingar og skýringar:

„1. Í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 14. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, segir að öllum, sem þess þurfa, skuli tryggður „í lögum réttur til aðstoðar” vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Samkvæmt núgildandi ákvæði 38. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, taka sjúkratryggingar laganna meðal annars til styrks til að afla hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Þá segir í lok greinarinnar að ráðherra setji reglugerð um greiðslur samkvæmt henni. Mér er ljóst að sá háttur að mæla fyrir um styrki m.a. til öflunar umræddra hjálpartækja, hefur verið viðhafður í lögum frá því áður en stjórnarskránni var breytt árið 1995 og í áðurgildandi ákvæði stjórnarskrárinnar að þessu leyti, 70. gr., var talað um styrk þegar fjallað var um rétt til félagslegrar aðstoðar. Vegna athugunar minnar á lagagrundvelli reglna og ákvarðana í því máli sem hér er fjallað um tel ég rétt að gefa ráðuneytinu kost á að lýsa viðhorfi sínu til þess hvernig það samrýmist áskilnaði 76. gr. stjórnarskrárinnar:

a. Að í ákvæði 38. gr. laga nr. 100/2007, er viðhaft það fyrirkomulag að mæla fyrir um að sjúkratryggingar eins og t.d. í því tilviki sem a-liður 1. mgr. tekur til séu í formi styrks án þess að mælt sé með neinu móti fyrir um það í lögunum hverjir geti fengið umræddan styrk að öðru leyti en því að umrædd hjálpartæki séu nauðsynleg vegna þess að líkamsstarfsemi viðkomandi er hömluð eða vantar líkamshluta

b. Að það ráðist alfarið af ákvæðum reglugerðar hvaða skilyrði hreyfihamlaðir einstaklingar þurfi að uppfylla til að fá styrki og uppbætur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna bifreiða sem hjálpartækja.

2. [...]

Ég óska eftir að ráðuneytið skýri á hvaða lagagrundvelli það er byggt að takmarka þá aðstoð sem veitt er í nefndri 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 með síðari breytingum annars vegar við að viðkomandi þurfi á bifreið að halda til að stunda „launaða vinnu eða skóla” og hins vegar að styrkurinn verði aðeins veittur á sex ára fresti. Ég vek þar athygli á því að í reglugerðinni eins og hún hljóðar nú er það afmarkað með mismunandi hætti til hvaða þarfa viðkomandi þurfi á bifreið að halda og eins hvaða frestir eru settir um þann tíma sem líða þarf milli aðstoðar.

3. Með tilliti til þess að samkvæmt a-lið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007 er því úrræði ætlað að veita styrki til að afla hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta óska ég eftir að ráðuneytið skýri á hvaða lagagrundvelli það telur unnt að takmarka þá aðstoð sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 752/2002 við það að hún komi aðeins til á tilteknum árafresti og þá án þess að breytingar á líkamsstarfsemi/heilsufari innan þessara tímabila geti haft þar nein áhrif. Ég hef þá meðal annars í huga að í tilviki A er ósk hans um styrkinn studd þeim rökum að hann þurfi nú að endurnýja bifreið sína þar hann geti ekki lengur notað hana vegna breytinga á heilsufari sínu.“

Svar heilbrigðisráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 14. febrúar 2008. Í bréfi ráðuneytisins segir eftirfarandi varðandi a-lið spurningar nr. 1 í bréfi mínu til ráðuneytisins:

„Með ákvæði a-liðar 1. mgr. 38. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun ríkisins falið að meta hvenær eigi að veita styrk eða uppbætur til bifreiðakaupa sbr. 2. málslið 2. gr. laganna. Í 3. mgr. 38. gr. laganna er að finna heimild fyrir ráðherra til að setja nánari fyrirmæli um greiðslu bifreiðastyrkja og með stoð í því ákvæði var reglugerð nr. 752/2002, með síðari breytingum, sett og þar er kveðið á um þau viðmið sem [höfð] skulu til hliðsjónar við matið. Ráðuneytið hefur litið svo á að reglugerðin sé innan þeirra efnismarka sem ákvæði 38. gr. setja og í samræmi við meginefni hennar. Sú til[h]ögun að setja nánari viðmið í reglugerð er til hagræðis þar sem nauðsynlegt kann að vera að breyta þurfi settum reglum að fenginni reynslu og í samræmi við breyttar þarfir. Jafnframt leiðir sú tilhögun til þess að samræmis og jafnræðis er gætt við meðferð einstakra mála.“

Svar ráðuneytisins við b-lið spurningar nr. 1 í bréfi mínu er svohljóðandi:

„[...]

Lagaheimild fyrir veitingu styrks til kaupa á bifreið er að finna í a-lið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í ákvæðinu kemur fram að skilyrði til að fá styrk sé að bifreið sé nauðsynleg vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða líkamshluta vantar. Með 3. mgr. 38. gr. laganna hefur löggjafinn svo ætlast til að stjórnvöld kveði nánar á um hvernig greiðslu styrkja skuli hagað. Ráðuneytið telur að tilgangur með setningu reglugerðar nr. [752]/2002 hafi ekki verið að þrengja óhóflega hið skyldubundna mat skv. 38. gr. almannatryggingalaga, heldur að hafa ákvæðið þannig að það feli í sér upptalningu á þeim atriðum sem helst eru höfð til viðmiðunar svo að samræmis sé gætt við úrlausn sambærilegra mála.“

Í svari heilbrigðisráðuneytisins segir eftirfarandi varðandi spurningu nr. 2 í bréfi mínu:

„[...]

Ráðuneytið hefur litið svo á að með ákvæði 3. mgr. 38. gr. hefur löggjafinn ætlað stjórnvöldum að setja sér reglur til viðmiðunar við matið og þar með til að tryggja samræmi í stjórnsýsluframkvæmd. Því hafa við mat á því hvort skilyrði séu fyrir hendi fyrir þörf umsækjanda á sérútbúinni bifreið verið lögð til grundvallar þau viðmið sem koma fram í 4. mgr. 5. gr. reglug[e]rðar nr. 752/2002, með síðari breytingum. Eðlilegt þykir að ákveðinn tími líði á milli styrkveitinga og er tekið mið af endurnýjunartíma bifreiða almennt í því sambandi. Þá ber að vekja athygli á því að takmörkuðum fjármunum er varið til almannatrygginga á ári hverju og til að tryggja að útgjöld séu innan heimilda er nauðsynlegt að takmarka styrkveitingu við að viðkomandi þurfi á bifreið að halda til að stunda launaða vinnu eða skóla og að styrkurinn sé aðeins veittur á sex ára fresti.“

Varðandi spurningu nr. 3, sem ég lagði fyrir ráðuneytið í bréfi mínu, dags. 10. desember 2007, segir eftirfarandi í svari ráðuneytisins:

„Eins og fyrr greinir þá er lagaheimild fyrir veitingu styrks til bifreiðakaupa að finna í a-lið 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Reglugerð nr. 752/2002 var sett með skýrri heimild í lögum nr. 100/2007, en þar hafa stjórnvöld sett nánari reglur um greiðslu bifreiðastyrkja eins og löggjafinn lagði til. Að teknu tilliti til fjárhagssjónarmiða ríkissjóðs þótti eðlilegt að kveða á um í reglugerð að til styrkveitingar komi aðeins á tilteknum árafresti.“

Með bréfi, dags. 18. febrúar 2008, gaf ég A tækifæri til að koma með athugasemdir við þær skýringar sem fram komu í svarbréfi ráðuneytisins. Athugasemdir hans bárust mér með bréfi, dags. 20. febrúar s.á.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1. Afmörkun athugunar.

Kvörtun málsins beinist að úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga frá 6. september 2007 í tilefni af kæru A á synjun Tryggingastofnunar ríkisins á erindi hans um styrk til bifreiðakaupa á grundvelli a-liðar 1. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. nú a-lið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007, og reglugerðar nr. 752/2002, um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, sbr. b-lið 2. gr. reglugerðar nr. 462/2004.

Það skal tekið fram að kvörtun A byggir á því að honum hafi verið synjað um umbeðinn styrk til bifreiðakaupa annars vegar á þeim forsendum að hann hafi ekki verið í launuðu starfi eða stundað nám og hins vegar að ekki hafi verið liðin fimm ár frá því hann fékk síðast styrk á árinu 2003. Ég tek það fram að í upphaflegu bréfi Tryggingastofnunar ríkisins til A, dags. 14. maí 2007, þar sem honum var tilkynnt um synjun stofnunarinnar, er aðeins vísað til þess að hún byggist á fyrra atriðinu, þ.e. að A hafi ekki uppfyllt skilyrðin um að stunda launaða vinnu eða vera í námi. Þar er hvergi vísað til þess að synjunin byggi á síðara skilyrðinu um að fimm ár séu ekki liðin frá síðustu styrkveitingu. Sú forsenda kemur fyrst fram í svarbréfi tryggingastofnunar, dags. 5. júní 2007, við beiðni A um rökstuðning. Ég tek hér fram um þetta atriði að það er meginregla stjórnsýsluréttar að stjórnvaldsákvörðun verði að vera bæði ákveðin og skýr. Sjónarmið um að nánari röksemdafærsla fyrir synjun Tryggingastofnunar ríkisins hafi komið fram í svarbréfinu frá 5. júní 2007, breytir því ekki að mínu áliti að það hafi ekki samrýmst ofangreindri meginreglu að í svarbréfinu hafi stofnunin bætt við nýrri forsendu fyrir synjuninni sem ekki kom fram í upphaflegu tilkynningarbréfi stofnunarinnar, dags. 14. maí 2007.

Ljóst er af forsendum í niðurstöðukafla úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga að nefndin taldi nægilegt að leysa úr máli A á grundvelli þess að hann hafi ekki fullnægt skilyrðum 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 um að fimm ár séu liðin frá síðustu styrkveitingu. Með það í huga hefur athugun mín einskorðast við mat á því hvort þetta skilyrði reglugerðarinnar eigi sér fullnægjandi stoð í lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. lög nr. 100/2007. Mun ég því ekki fjalla frekar um hvort fyrra skilyrðið, um að A hafi ekki stundað launaða vinnu eða verið í námi, hafi verið í samræmi við lög. Ég mun eftirleiðis vísa þar sem við á í lög nr. 100/2007 til hægðarauka en um er að ræða sambærileg ákvæði og voru í lögum nr. 117/1993, sem voru í gildi þegar A sótti um umræddan styrk.

Ég minni á að með lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, var V. kafli laga nr. 100/2007 felldur úr gildi og að í 26. gr. laga nr. 112/2008 er fjallað um kostnaðarþátttöku sjúkratrygginga við öflun nauðsynlegra hjálpartækja. Atvik þessa máls áttu sér stað í gildistíð eldri laga og miðast athugun mín við það, en ég mun þó í kafla IV.3 fara nokkrum orðum um nýmæli 26. gr. laga nr. 112/2008 í samhengi við það ágreiningsefni sem hér er til umfjöllunar.

2. Um lagastoð 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002.

Líkt og áður hefur verið rakið leysti úrskurðarnefnd almannatrygginga úr kæru A á grundvelli þágildandi ákvæðis um sjúkratryggingar í V. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Í 3. mgr. 37. gr. sagði að sjúkratrygging samkvæmt lögunum tæki til heilbrigðisþjónustu, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu, sem ákveðið hefði verið með lögum, reglugerðum eða samningum að veita á kostnað ríkisins eða með greiðsluþátttöku ríkisins. Sjúkratryggingar samkvæmt 3. mgr. 37. gr. tóku til þeirra styrkja sem taldir voru upp í a- til f-lið 1. mgr. 38. gr. Ákvæði a-liðar 1. mgr. 38. gr., sem á reynir í þessu máli, var svohljóðandi:

„Styrks til að afla hjálpartækja og bifreiða sem nauðsynlegar eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta.“

Þá sagði m.a. í 3. mgr. 38. gr. að ráðherra setti reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu. Einnig kom fram að tryggingastofnun gæti áskilið vottorð sérfræðings um nauðsyn hjálpartækis.

Á grundvelli 3. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007, áður laga nr. 117/1993, var sett reglugerð nr. 752/2002, um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiðakaupa. Hefur þeirri reglugerð verið breytt þrisvar sinnum, þ.e. með reglugerðum nr. 109/2003, 462/2004 og 233/2007.

Ég hef áður í áliti mínu frá 23. júlí 1999 í máli nr. 2511/1998 vikið að forsögu eldra ákvæðis 1. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Einnig hefur verið vikið að forsögunni í áliti umboðsmanns frá 20. febrúar 1997 í máli nr. 1845/1996. Af þessu má ráða að í upphafi hafi þessi aðstoð verið í formi tollaívilnana, sbr. 22. tölul. 1. gr. laga nr. 108/1951, um breytingar á lögum nr. 62/1939, um tollskrá o.fl., en hafi síðar breyst í styrki úr almannatryggingum, sbr. lög nr. 54/1987, sem breyttu lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar. Í kjölfar laga nr. 54/1987 var sett reglugerð nr. 170/1987, um þátttöku almannatrygginga í bifreiðakaupum fatlaðra. Reglugerðin takmarkaði ekki veitingu á styrk eða uppbót við notkun farartækis í ákveðnum tilgangi. Hins vegar kom fram í 3. mgr. 2. gr. að styrkir skyldu veittir ekki oftar en á tilteknum árafresti.

Í 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 752/2002 kemur m.a. fram að markmið reglugerðarinnar sé að auðvelda umsækjendum að sækja um lögbundna styrki og uppbætur frá tryggingastofnun vegna bifreiða hreyfihamlaðra einstaklinga. Jafnframt væri það markmið með styrkjum og uppbótum vegna bifreiða að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu eða skóla þótt önnur sjónarmið geti einnig réttlætt slíkar bætur, s.s. hvort sækja þurfi reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um styrk til kaupa á bifreið samkvæmt a-lið 1. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. a-lið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007. Í 1. mgr. segir að sjúkratrygging, sbr. 3. mgr. 32. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, sbr. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 100/2007, taki til styrks sem veittur er til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Samkvæmt 2. mgr. skal styrkurinn vera kr. 1.000.000 og skal eingöngu veittur þegar nánar tiltekin skilyrði 2. mgr. eru uppfyllt. Í 3. og 4. málsl. 4. mgr. 5. gr. segir að heimilt sé að veita styrk allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, sé um að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin eigi þó einungis við þegar umsækjandinn ekur sjálfur og þarf á bifreiðinni að halda til að stunda launaða vinnu eða skóla. Samkvæmt 2. málsl. 5. mgr. 5. gr., eins og henni var breytt með b-lið 3. gr. reglugerðar nr. 462/2004, er heimilt að veita styrk skv. 2. mgr. á fimm ára fresti en styrk samkvæmt 3. málsl. 4. mgr. á sex ára fresti vegna sama einstaklings.

Samkvæmt orðum a-liðar 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007 var styrkur til að afla hjálpartækja og bifreiða að lögum bundinn við tvö valkvæð og matskennd skilyrði. Annars vegar varð að liggja fyrir mat á nauðsyn fyrir slíkum búnaði vegna hamlaðrar líkamsstarfsemi eða að sá, sem styrksins bæðist, væri nauðsyn slíks búnaðar vegna vöntunar á líkamshluta. Önnur skilyrði komu ekki fram í ákvæðinu. Ekki verður því önnur ályktun dregin af orðalagi ákvæðisins en að við framkvæmd styrkveitinga vegna öflunar hjálpartækja og bifreiða hafi tryggingastofnun borið að leggja efnislegt mat á hvort hlutaðeigandi þyrfti á slíkum búnaði að halda vegna tiltekinnar líkamlegrar fötlunar eða takmörkunar. Það mat var eðli máls samkvæmt af læknisfræðilegum eða sérfræðilegum toga, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 38. gr. um að tryggingastofnun gæti áskilið vottorð sérfræðings um nauðsyn hjálpartækis. Ákvæðið mælti því fyrir um skyldubundið mat stjórnvalda. Með þetta í huga tek ég fram að það er grundvallarregla stjórnsýsluréttar að í þeim tilvikum er löggjafinn hefur veitt stjórnvöldum mat til þess að geta tekið ákvörðun, sem best hentar í hverju og einu tilviki með tilliti til allra aðstæðna, er stjórnvöldum óheimilt að afnema matið eða takmarka það óhóflega með því að setja reglu, sem tekur til allra mála, sambærilegra eða ósambærilegra. Í slíkum tilvikum er mat stjórnvalda skyldubundið, sjá til hliðsjónar álit mín frá 29. júlí 1999 í máli nr. 2511/1998 og frá 17. október 2000 í máli nr. 2796/1999, sem fjalla um umsóknir þeirra einstaklinga sem sækja um bifreiðastyrki þar sem ég vík að sambærilegum sjónarmiðum og rakin eru hér að framan. Í þessu sambandi vek ég einnig athygli á grein Páls Hreinssonar: Skyldubundið mat stjórnvalda, Tímarit lögfræðinga, 3. hefti 2006, bls. 263 o.áfr.

Áður er rakið að A sótti í mars 2007 um styrk til 60% af kaupverði bifreiðar vegna verulegra skertrar færni í öxlum og handleggjum auk þess sem hann væri þyrfti að nota hjólastól og væri í raun bundinn við hann. Var umsókn hans einkum byggð á því að ástand hans hefði versnað frá því að hann fékk síðast styrk til bifreiðakaupa, þ.e. á árinu 2003, og flutningur á milli hjólastóls og bílsætis á þeim bíl sem hann æki nú væri orðinn honum ofviða og bifreiðin honum þar af leiðandi nánast ónothæf. Einnig stundaði hann reglubundna endurhæfingu og læknismeðferð. Beiðni hans var synjað m.a. á þeim grundvelli að í ákvæði 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 væri mælt svo fyrir að aðeins væri heimilt að veita styrk vegna kaupa á bifreið á fimm ára fresti. Var það sú forsenda sem úrskurðarnefnd almannatrygginga lagði til grundvallar niðurstöðu sinni, eins og áður er rakið.

Í bréfi heilbrigðisráðuneytisins til mín, dags. 18. febrúar 2008, kemur m.a. fram að í reglugerð nr. 752/2002 sé kveðið á um þau „viðmið sem höfð skulu til hliðsjónar við“ mat samkvæmt a-lið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007 og að ákvæðin feli í sér „upptalningu á þeim atriðum sem helst eru höfð til viðmiðunar“. Ég get ekki fallist á þessar skýringar. Orðalag 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 bendir ekki til þess að um „viðmið“ sé að ræða, a.m.k. ef það hugtak á að vísa til matskenndra reglna sem séu sveigjanlegar og taki mið af mismunandi þörfum styrkbeiðanda. Ekki verður dregin önnur ályktun af orðalagi reglugerðarákvæðisins en að um afdráttarlaust tímaskilyrði sé að ræða. Raunar tekur ráðuneytið sjálft fram að styrkir séu „aðeins“ veittir á tilteknum árafresti. Jafnframt er ljóst af úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli A að umræddu skilyrði um 5 ára frest á milli styrkveitinga var beitt með hlutlægum og fortakslausum hætti í máli hans. Var því ekki lagt mat á röksemdir A um að líkamlegt ástand hans hafi versnað til muna frá síðustu styrkveitingu á árinu 2003 og því nauðsynlegt fyrir hann að sækja um styrk til að kaupa nýja bifreið. Afstaða úrskurðarnefndarinnar til lagastoðar reglugerðarákvæðisins var líka alfarið byggt á hugleiðingum um almennan endurnýjunartíma bifreiða. Í málinu var því við úrlausn á beiðni A byggt á fortakslausri og hlutlægri efnisreglu sem girti fyrir að lagt væri skyldubundið og sérfræðilegt mat á hvort breytingar á líkamlegu ástandi hans væru þess eðlis að þörf væri nýrrar tegundar bifreiðar. Verður þá að taka afstöðu til þess hvort ráðherra hafi haft næga heimild í 3. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007 til að mæla fyrir um slíkt skilyrði í reglugerð í ljósi þess hvernig a-liður 1. mgr. 38. gr. var úr garði gerður.

Samkvæmt reglugerðarheimild 3. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007 var gert ráð fyrir að ráðherra setti reglugerð um „greiðslur“ samkvæmt ákvæðinu. Orðalag heimildarinnar gaf að mínu áliti ekki til kynna að útfærsla á efnisreglu a-liðar 1. mgr. 38. gr. hafi þannig getað í reynd verið fólgin í afnámi eða óhóflegri takmörkun á því skyldubundna mati sem lagaákvæðið áskildi við mat á nauðsyn hjálpartækis og bifreiðar. Þótt lagaákvæði áskilji að stjórnvald framkvæmi skyldubundið mat, sem taki mið af einstaklingsbundnum atvikum, hefur almennt verið lagt til grundvallar að ráðherra geti á grundvelli reglugerðarheimildar, ef henni er til að dreifa, útfært nánar slíkar matskenndar efnisreglur í stjórnvaldsfyrirmælum þannig að leitast sé við að gæta samræmis og jafnræðis við úrlausn mála. Ég ítreka hins vegar að slík ákvæði í reglugerðum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum mega ekki í framkvæmd afnema eða takmarka óhóflega það einstaklingsbundna mat sem löggjafinn hefur lagt til grundvallar við setningu lagaákvæðis af því tagi sem fram kom í a-lið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007.

Við frekari afmörkun á heimildum ráðherra samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007, í ljósi a-liðar 1. mgr. sömu greinar, verður einnig að hafa í huga að sjúkratryggingar samkvæmt V. kafla laga nr. 100/2007 fólu í sér lögfestingu á tilteknum réttindum borgaranna til aðstoðar vegna sjúkleika sem ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar áskilur að séu tryggð í lögum. Eins og ég hef áður tekið fram í áliti mínu frá 30. desember 1999 í máli nr. 2125/1997 þá leiðir ekki það eitt af 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að slíkar reglur þurfi að vera til í lögum heldur þurfa þær að mæla efnislega fyrir rétt einstaklinga sem hlut geta átt að máli. Á það meðal annars við um hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að njóta aðstoðar og hvaða aðstoð sé í boði þegar þau atvik verða sem stjórnarskrárákvæðið vísar til. Á það jafnframt við um það að hvaða marki heimilt sé að takmarka hinn lögbundna rétt til aðstoðar eða jafnvel afnema hann með stjórnvaldsfyrirmælum sem ráðherra setur. Hef ég í þessu sambandi jafnframt í huga forsendur sem fram koma í Hrd. 2000, bls. 4480 um að gera verði „[...] þá kröfu til [löggjafans] að lög geymi skýr og ótvíræð ákvæði um þá skerðingu greiðslna úr sjóðum almannatrygginga, sem ákveða megi með reglugerðum”. Sem fyrr segir þá hefur ákvæði a-liðar 1. mgr. 38. gr. ekki að geyma nein önnur viðmið um hverjir eigi rétt á styrk til bifreiðakaupa en þau sem fela í sér valkvæðan áskilnað um skyldubundið mat á nauðsyn manna fyrir styrk í ljósi líkamlegs ástands.

Í ljósi þess stjórnskipulega samhengis, sem hér verður samkvæmt ofangreindu að horfa til, og markmiðs a-liðar 1. mgr. 38. gr., verður reglugerðarheimild 3. mgr. 38. gr. ekki skilin svo rúmt að með hugtakinu greiðslur sé ráðuneytinu mögulegt að setja sjálfstæð efnisleg skilyrði í reglugerð sem í reynd girða fyrir nokkurn mögulega á styrkveitingu á þessum lagagrundvelli vegna hugsanlegra breytinga á líkamlegu ástandi manns, sem áður hefur fengið styrk. Annar skilningur verður ekki ráðinn af lögskýringargögnum eða forsögu þessa ákvæðis. Það er ljóst að reglugerðarheimildin veitti ráðherra heimild til að útfæra nánar í stjórnvaldsfyrirmælum reglur um hvernig beri að framkvæma mat á nauðsyn umsækjanda um umrædda styrki og þá eftir atvikum nánar um þau málefnalegu sjónarmið sem horfa bar til í því sambandi. Grundvallarreglan um skyldubundið mat útilokar ekki að stjórnvöld setji þannig reglur til að stuðla að hagræði og jafnræði við úrlausn mála á grundvelli matskenndra stjórnvaldsákvarðana. Það er hins vegar ljóst að án skýrrar lagaheimildar verður ekki talið að ráðherra hafi á grundvelli almennrar reglugerðarheimildar á borð við 3. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007 vald til að setja reglur, sem mæla fyrir um afdráttarlaust tímaskilyrði fyrir umsóknum, sem í reynd girða fyrir að einstaklingsbundið mat fari yfirhöfuð fram. Með þetta í huga tel ég að sú fortakslausa og hlutlæga viðmiðun sem fram kom í tímafrestsákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 hafi þurft að koma fram í lögunum sjálfum eða að löggjafinn hefði gefið það til kynna með skýrri og ótvíræðri reglugerðarheimild að ráðherra væri heimilt að útfæra slíka efnisreglu í almenn stjórnvaldsfyrirmælum. Hvorugu er til að dreifa í þessu máli.

Ég tek fram að í bréfi heilbrigðisráðuneytisins til mín, dags. 14. febrúar 2008, er rökstutt að „eðlilegt [hafi þótt] að ákveðinn tími líði á milli styrkveitinga og [hafi verið] tekið mið af endurnýjunartíma bifreiða almennt í því sambandi“. Þá beri að vekja athygli á því að „takmörkuðum fjármunum [sé] varið til almannatrygginga á ári hverju og til að tryggja að útgjöld séu innan heimilda [sé] nauðsynlegt að takmarka styrkveitingu við að viðkomandi þurfi á bifreið að halda til að stunda vinnu eða skóla og að styrkurinn sé aðeins veittur á sex ára fresti“. Jafnframt kemur fram að „teknu tilliti til fjárhagssjónarmiða ríkissjóðs þótti eðlilegt að kveða á um í reglugerð að til styrkveitingar komi aðeins á tilteknum árafresti.“

Í þessu sambandi tel ég að lokum rétt að taka fram að „fjárhagssjónarmið ríkissjóðs“ eða sjónarmið um almennan „endurnýjunartíma bifreiða“ geta ekki, án fyrirliggjandi afstöðu löggjafans, veitt viðhlítandi grundvöll fyrir því fyrirkomulagi að í reglugerð séu sett fortakslaus og hlutlæg skilyrði fyrir aðstoð vegna sjúkleika, sem í reynd útiloka lögmælt og skyldubundið mat á líkamsástandi umsækjanda, sem ráðgert er í almennum lögum. Það er hins vegar annað mál, sem hefði þá hugsanlega þýðingu við sérfræðilegt mat á nauðsyn fyrir frekari styrkveitingu, ef tiltölulega stuttur tími er liðinn frá því umsækjanda var áður veittur styrkur.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að tímafrestsskilyrði 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002, sbr. b-lið 2. gr. reglugerðar nr. 462/2004, hafi ekki átt sér næga stoð í a-lið 1., sbr. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007, sbr. áður samsvarandi málsgreinar í 33. gr. laga nr. 117/1993.

3. Nýmæli 26. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.

Eins og áður hefur verið minnst á hafa lög nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, tekið við af ákvæðum V. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sem fjallaði um sama efni. Í 26. gr. laga nr. 112/2008 er fjallað um kostnaðarþátttöku sjúkratrygginga við öflun nauðsynlegra hjálpartækja. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um hvaða hjálpartæki sjúkratryggingar taka þátt í að greiða og að hve miklu leyti.

Hjálpartæki er tæki sem ætlað er að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Hjálpartækið verður jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Afla skal greiðsluheimildar frá sjúkratryggingastofnuninni fyrir fram. Stofnunin getur áskilið vottorð sérfræðings um nauðsyn hjálpartækis.“

Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði er í upphafi 1. mgr. mælt fyrir um kostnaðarþátttöku sjúkratrygginga við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða. Því næst er tekið fram að kostnaðarþátttakan sætir takmörkunum og nánari ákvæðum sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skuli m.a. kveðið á um hvaða hjálpartæki sjúkratryggingar taka þátt í að greiða og að hve miklu leyti. Í 2. mgr. er þó hugtakið hjálpartæki skýrt auk þess sem fram kemur sú matskennda efnisregla að hjálpartækið verði jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Ég vek athygli á því að ég fæ ekki séð að reglugerð nr. 752/2002 hafi verið felld úr gildi. Ef ætlunin er sú að viðhalda því fyrirkomulagi sem reglugerðin frá 2002 mælir fyrir um, og ég hef gert að umtalsefni í þessu áliti, rís það álitaefni hvort gildandi 26. gr. laga nr. 112/2008 veiti umræddum ákvæðum 5. gr. reglugerðarinnar næga stoð. Ekki er hér ástæða fyrir mig til að fjalla endanlega um það atriði eða þá framsetningu sem fram kemur í nýmæli 26. gr. laga nr. 112/2008 og reglugerðarheimild þeirri sem mælt er fyrir um í ákvæðinu. Ég tek aðeins fram að með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í kafla IV.2 tel ég jafnframt að verulegur vafi leiki á því að 26. gr. laga nr. 112/2008 hafi að geyma viðhlítandi lagastoð fyrir því fyrirkomulagi sem fram kemur í 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 og fjallað er um hér að framan. Við endanlegt mat á lagastoð þessara ákvæða eða við setningu nýrrar reglugerðar á grundvelli ákvæðisins þarf ráðherra að gæta að þeim viðmiðum um hugtakið hjálpartæki sem fram koma í 2. mgr. 26. gr. auk þess að horfa til þeirrar matskenndu efnisreglu sem orðuð er í lok ákvæðisins. Þá kann það álitaefni að rísa við framkvæmd ákvæðisins hvort sú óhefta heimild, sem ráðherra er fengin í 1. mgr. um að mæla fyrir um „takmarkanir“ á kostnaðarþátttöku sjúkratrygginga í reglugerð, gangi eftir atvikum lengra en löggjafanum er heimilt samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og þau sjónarmið sem áður eru reifuð úr Hrd. 2000, bls. 4480. Hef ég þá einkum í huga að ekki eru í ákvæðinu sjálfu sett tiltekin skilyrði eða fyrirvarar í þessu sambandi eða að fært sé að ráða af ákvæðinu eða lögskýringargögnum hvaða sjónarmið ráðherra ber að hafa í huga að þessu leyti þegar sleppir þeim ályktunum sem dregnar verða af þeim atriðum sem fram koma í 2. mgr. 26. gr. og áður eru reifuð.

V. Niðurstaða

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að skilyrði 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002, um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiðakaupa, sbr. b-lið 3. gr. reglugerðar nr. 462/2004, um að styrkveiting komi aðeins til greina á fimm ára fresti, hafi ekki átt sér stoð í a-lið 1., sbr. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sbr. áður 33. gr. laga nr. 117/1993. Þá er það niðurstaða mín, með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í köflum IV.2-IV.3, að verulegur vafi leiki jafnframt á því að 26. gr. laga nr. 112/2008, sem komið hefur í stað fyrri laga um þessi mál, hafi að geyma viðhlítandi lagastoð fyrir því fyrirkomulagi sem fram kemur í 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 og fjallað er um í álitinu. Ekki er hins vegar fjallað endanlega um það atriði í álitinu eða þá framsetningu sem fram kemur í nýmæli 26. gr. laga nr. 112/2008 og reglugerðarheimild þeirri sem mælt er fyrir um í ákvæðinu. Tel ég rétt að beina þeim tilmælum til heilbrigðisráðuneytisins að það taki afstöðu til þess hvort og þá hvaða breytingar þurfi að gera á 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 að virtum þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti þessu og nýmæli 26. gr. laga nr. 112/2008. Þá tel ég jafnframt rétt að beina því til félags- og tryggingamálaráðuneytisins að horfa til þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti þessu við fyrirhugaða endurskoðun almannatryggingalaga og þá m.a. um þær kröfur sem 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar gerir til lagaheimilda á þessu sviði.

Að framan er rakin niðurstaða mín um að á skorti að 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002 hafi haft næga stoð í lögum nr. 100/2007, sbr. áður lög nr. 117/1993. Við athugun mína óskaði ég því eftir afstöðu heilbrigðisráðuneytisins til ágreiningsefnisins. Ég tel nú jafnframt rétt vegna réttarstöðu A að vekja athygli úrskurðarnefndar almannatrygginga á þeim sjónarmiðum sem fram koma í álitinu. Hef ég þá í huga að ég hef áður haft tilefni til að óska eftir afstöðu úrskurðarnefndarinnar til þess hvort hún telji sig bæra að lögum til að fjalla að nýju um mál þegar fyrir liggur að nefndin hefur í úrskurði látið hjá líða að taka afstöðu til lagastoðar reglugerðar nr. 752/2002, sjá bréf mitt til nefndarinnar, dags. 3. apríl 2006, í máli nr. 4626/2006. Að virtum úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli A kann álit þetta að verða nefndinni tilefni til að huga að nýju að máli hans.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Í bréfi, dags. 17. desember 2008, sem mér barst frá heilbrigðisráðuneytinu í tilefni af áliti mínu kemur fram að í 26. gr. laga nr. 112/2008 séu ákvæði um þátt sjúkratrygginga í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja. Í 2. mgr. séu hjálpartæki skilgreind sem tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Bifreiðar séu ekki tilgreindar í ákvæðinu svo sem hafi verið í staflið a 1. mgr. 38. gr. þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Með 3. tölulið 58. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, hafi sú breyting verið gerð á lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, að bætt hafi verið við nýrri málsgrein við 10. gr. laganna. Samkvæmt lagabreytingunni hljóði 3. mgr. 10. gr. svo:

„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Ákvæði um styrki til kaupa á bifreið sé því nú að finna í lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.

Með bréfi frá úrskurðarnefnd almannatrygginga, dags. 3. júlí 2009, barst mér afrit af úrskurði nefndarinnar í máli A, sem kveðinn hafi verið upp 24. júní 2009. Í niðurstöðukafla úrskurðarin kemur fram að þegar nefndin hafi ákveðið að endurupptaka mál A eftir að álit umboðsmanns Alþingis hafi legið fyrir hafi henni ekki verið kunnugt um að A hefði með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. febrúar 2008, fengið 1.000.000 króna bifreiðastyrk. Með sömu ákvörðun hefði verið hafnað umsókn A um 50-60 % bifreiðastyrk. Verði að líta svo á að með nýrri umsókn hafi A unað fyrri ákvörðunum stjórnvalda um málið. Þegar af þeirri ástæðu telji nefndin að ákvörðun um endurupptöku hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum og forsendur séu brostnar fyrir því að fjalla um málið á grundvelli þeirrar ákvörðunar sem úrskurðað hafi verið um þann 6. september 2007. Ný ákvörðun hafi verið tekin um sama efni þann 11. febrúar 2008 og þyki því rétt að sú ákvörðun sæti kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Síðan segir í úrskurðinum:

„Ljóst er af atvikum málsins að kærandi vill fá úrlausn úrskurðarnefndar almannatrygginga um þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að synja honum um 50-60 % bifreiðastyrk á grundvelli skilyrða 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 752/2002. Með tilliti til hagsmuna kæranda tekur úrskurðarnefndin til umfjöllunar ex officio synjunarákvörðunina frá því í febrúar 2008. Verður án tafar kallað eftir öllum gögnum er varða þá ákvörðun. Sjónarmið aðila liggja þegar fyrir en þeim gefst kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri við nefndina. Af hálfu nefndarinnar verður kveðinn upp úrskurður um efni málsins eins fljótt og kostur er.“