Atvinnuréttindi. Leyfisveitingar til hrefnuveiða. Auglýsing. Jafnræði.

(Mál nr. 5364/2008)

Umboðsmaður ritaði bréf, með vísan til 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem laut að útgáfu reglugerðar nr. 456/2008, um breytingu á reglugerð nr. 163 30. maí 1973, um hvalveiðar, sem birtist 19. maí 2008 í B-deild Stjórnartíðinda, en með henni heimilaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veiðar á 40 hrefnum. Í bréfi umboðsmanns óskaði hann m.a. eftir upplýsingum um hvort það stæði til af hálfu ráðuneytisins að auglýsa leyfisveitingar til hrefnuveiðar ef ráðuneytið hefði ekki þegar auglýst þær. Í svarbréfi ráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að sú ákvörðun hefði verið tekin að auglýsa fyrirfram umræddar leyfisveitingar og skilyrði fyrir þeim ef til þeirra kæmi á næsta ári. Í ljósi þess taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna þessa þátta málsins. Taldi umboðsmaður þó ástæðu til að koma ákveðnum ábendingum á framfæri vegna stjórnsýslu ráðuneytisins í málinu sem lyti að auglýsingu leyfisveitinga og þeim sjónarmiðum sem þar lægju að baki.

Í bréfi umboðsmanns kom fram að ráðstöfun leyfa til veiða á hrefnum fæli í sér úthlutun takmarkaðra gæða sem væru eftirsóknarverð og kynni að hafa mikla fjárhagslega þýðingu fyrir þá sem uppfylltu skilyrði til slíkra veiða. Af þessu leiddi að gera yrði kröfur til þess að stjórnvöld gættu að sjónarmiðum um jafnræði þegar úthlutað væri til einstaklinga eða lögaðila. Taldi umboðsmaður þessar kröfur eiga enn við þótt stjórnvald hefði ákveðið fyrirfram hverjir kæmu til greina sem handhafar leyfis til veiða á hrefnum og útilokað þar með aðra sem ekki féllu undir þá ákvörðun, eins og 1. gr. reglugerðar nr. 456/2008 bæri með sér, og gert ráðstafanir til þess að tryggja að allir úr fyrri hópnum fengju vitneskju um fyrirhugaðar leyfisveitingar. Hefði hann þá í huga að auglýsing um fyrirhugaðar leyfisveitingar til hrefnuveiða þar sem kallað væri eftir umsóknum og tilgreind væru skilyrði, t.d. hverjir gætu sótt um leyfi, hefði þá almennu þýðingu að hún veitti öðrum aðilum, sem áhuga hefðu á að stunda hrefnuveiðar en uppfylltu ekki skilyrði til þess, bæði fyrirfram vitneskju um þá ákvörðun stjórnvalda að heimila slíkar veiðar og um að þeir gætu ekki fengið leyfi til veiðanna. Að þessu leyti stuðlaði auglýsingin að jafnræði borgaranna og gegnsærri stjórnsýslu.

Kom umboðsmaður þeirri ábendingu á framfæri við ráðuneytið að framvegis yrði gætt að framangreindum sjónarmiðum við veitingu leyfa til hrefnuveiða og leyfa til veiða á öðrum sjávardýrum rétt eins og ráðuneytið hefði boðað í bréfi til hans.



Í bréfi umboðsmanns Alþingis til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dags. 19. desember 2008, sagði m.a. svo:

Eins og áður hefur komið fram auglýsti ráðuneyti yðar ekki leyfisveitingar til hrefnuveiða á þessu ári. Í skýringum ráðuneytisins til mín kemur fram að sú ákvörðun hafi verið tekin að auglýsa ekki fyrirfram leyfisveitingarnar en tryggja þess í stað að allir þeir sem byggju yfir nauðsynlegri reynslu, tækni, tækjum og veiðiaðferðum, sem ráðuneytið taldi nauðsynlegt vegna þátttöku Íslands í alþjóðasamningum um hvalveiðar, sbr. f-lið 4. gr. laga nr. 26/1949, um hvalveiðar, fengju vitneskju um fyrirhugaðar leyfisveitingar. Einnig segir ráðuneytið í skýringum til mín að þar sem það hafi mikla yfirsýn yfir þennan sérhæfða málaflokk telji það að með úthlutun leyfa til hrefnuveiða hafi engum verið mismunað og því hafi verið tryggt að jafnræðis væri gætt þar sem öllum sem bjuggu yfir ofangreindum þáttum var veitt heimild til hrefnuveiða.

Af framangreindu tilefni vil ég taka fram að í lögum nr. 26/1949, um hvalveiðar, og reglugerð nr. 163/1973, um hvalveiðar, sbr. reglugerðir nr. 239/1984, 304/1983, 862/2006 og 822/2007, um breytingu á fyrrnefndri reglugerð, er ekki að finna reglur um það með hvaða hætti skuli staðið að birtingu upplýsinga um fyrirhugaðar leyfisveitingar er lúta að hrefnuveiðum. Þrátt fyrir það verður að hafa í huga að það leiðir af óskráðri grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins um jafnræði, sbr. til hliðsjónar 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að stjórnvöld verða jafnan að framkvæma úthlutanir á takmörkuðum gæðum sem mikla þýðingu hafa þannig að leitast sé við að tryggja jafna möguleika allra þeirra sem til greina koma til að sýna fram á þörf sína fyrir slíka úthlutun. Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur í fyrri álitum verið bent á það að það sé í betra samræmi við sjónarmið um jafnræði og vandaða stjórnsýsluhætti að stjórnvöld auglýsi opinberlega að til standi að úthluta takmörkuðum gæðum, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis frá 29. desember 2006 í máli nr. 4478/2005, frá 22. desember 2006 í máli nr. 4351/2005, frá 17. janúar 2003 í máli nr. 3699/2003, frá 13. febrúar 1998 í máli nr. 1820/1996, frá 29. apríl 1997 í máli nr. 1718/1996, frá 4. janúar 1996 í málum nr. 993/1994 og 1025/1994 og frá 19. desember 1989 í máli nr. 166/1989.

Ég bendi á að ráðstöfun leyfa til veiða á hrefnum felur í sér úthlutun takmarkaðra gæða sem eru eftirsóknarverð og kunna að hafa mikla fjárhagslega þýðingu fyrir þá sem uppfylla skilyrði til slíkra veiða. Af þessu leiðir að gera verður kröfur til þess að stjórnvöld gæti að sjónarmiðum um jafnræði þegar takmörkuðum gæðum á borð við hrefnur er úthlutað til einstaklinga eða lögaðila. Ég tel að þessar kröfur eigi enn við þótt stjórnvald hafi ákveðið fyrirfram hverjir koma til greina sem handhafar leyfis til veiða á hrefnum og útilokað þar með aðra sem ekki falla undir þá ákvörðun, eins og 1. gr. reglugerðar nr. 456/2008 ber með sér, og gert ráðstafanir til þess að tryggja að allir úr fyrri hópnum fengju vitneskju um fyrirhugaðar leyfisveitingar. Hef ég þá í huga að auglýsing um fyrirhugaðar leyfisveitingar til hrefnuveiða þar sem kallað er eftir umsóknum og tilgreind eru skilyrði, t.d. hverjir geta sótt um leyfi, hefur þá almenna þýðingu að hún veitir öðrum aðilum, sem hafa áhuga á að stunda hrefnuveiðar en uppfylla ekki skilyrði til þess, bæði fyrirfram vitneskju um ákvörðun stjórnvalda að heimila slíkar veiðar og um að þeir geti ekki fengið leyfi til veiðanna. Að þessu leyti stuðlar auglýsingin að jafnræði borgaranna og gegnsærri stjórnsýslu.

Ég kem þeirri ábendingu á framfæri við ráðuneyti yðar að framvegis verði gætt að framangreindum sjónarmiðum við veitingu leyfa til hrefnuveiða og leyfa til veiða á öðrum sjávardýrum rétt eins og ráðuneytið hefur boðað í bréfi til mín.