Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðgangur að upplýsingum um starfsemi eftirlitssjóðs.

(Mál nr. 4992/2007)

Umboðsmaður tilkynnti landbúnaðarráðherra með bréfi, dags. 24. apríl 2007, að hann hefði ákveðið að taka til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tiltekin atriði sem lúta að því hvernig bókhaldi og rekstri eftirlitssjóðs samkvæmt 11. gr. laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, hefði verið háttað og þá með tilliti til þess hvaða grundvöllur hefði verið lagður að mögulegri upplýsingagjöf um starfsemi sjóðsins. Umboðsmaður tók fram að þar hefði hann einkum í huga hvort hlutaðeigandi stjórnvöld hefðu hagað framkvæmd þessara mála í nægjanlegu samræmi við ákvarðanir Alþingis í þessu efni og þar með hvaða áhrif sú framkvæmd hefði haft á möguleika þeirra aðila sem kynnu að hafa sérstaka og/eða almenna hagsmuni af því að nýta sér lögbundinn rétt sinn til að fá upplýsingar um starfsemi sjóðsins.

Umboðsmaður rakti efni 11. gr. laga nr. 96/1997 og lögskýringargögn að baki því ákvæði. Tók umboðsmaður fram að af hálfu löggjafans hefði með skýrum hætti verið tekin ákvörðun um að binda töku eftirlitsgjalds samkvæmt lagagreininni við raunverulegan kostnað af eftirlitinu vegna einstakra kjöttegunda og hefðu þær fjárhæðir sem lögfestar voru verið byggðar á sérstökum gögnum sem lögð hefðu verið fram af hálfu yfirdýralæknis um skiptingu kostnaðar við eftirlit milli einstakra dýrategunda. Markmiðið að baki lagasetningunni væri því að gjald sem væri innheimt á grundvelli 11. gr. væri ekki hærra en sem næmi þeim kostnaði sem almennt hlytist af því að veita þá þjónustu sem gjaldið kæmi fyrir. Upplýsingar um bókhald og rekstur sjóðsins væru forsenda þess að þeir sem sættu álagningu gjaldsins gætu lagt raunhæft mat á hvort fjárhæð gjaldsins svaraði á hverjum tíma til þess kostnaðar sem félli til við eftirlit með einstökum kjöttegundum og hvort þessum markmiðum löggjafans væri raunverulega náð.

Í ljósi reglna um upplýsingarétt aðila máls og almennings í upplýsingalögum nr. 50/1996 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993 fékk umboðsmaður ekki séð að unnt væri að ganga út frá því að ekki væri þörf á sundurliðun upplýsinga með þeim hætti sem lýst hefði verið í svarbréfi Matvælastofnunar. Minnti hann á að umrætt gjald væri greitt af sláturleyfishöfum af innvegnu kjöti í sláturhúsi eða sláturhúsum þeirra. Hann fengi því ekki annað séð vegna framangreindra sjónarmiða um raunkostnað en að það kynni m.a. að geta haft þýðingu fyrir einstaka sláturleyfishafa að fá aðgang að upplýsingum um hvaða kostnaður hefði verið greiddur af hálfu sjóðsins vegna eftirlits með viðkomandi sláturhúsi. Hér ættu líka við sjónarmið um gegnsæi og málefnalegan og forsvaranlegan grundvöll þess þegar opinberum fjármunum er ráðstafað. Það kynni t.d. að vera harla erfitt fyrir sláturleyfishafa að gera sér grein fyrir því hver væri „raunkostnaður“ við eftirlitið þegar þeir gætu ekki fengið upplýsingar um hvað væri verið að greiða fyrir einstaka þætti þessa eftirlits í húsum þeirra. Samkvæmt framangreindu teldi hann því ekki unnt að útiloka að einstakir sláturleyfishafar gætu á grundvelli reglna um upplýsingarétt almennings og upplýsingarétt aðila máls átt rétt til aðgangs að upplýsingum um kostnað fyrir hverja kjöttegund sundurliðað niður á einstök sláturhús, og þá sérstaklega þeirra eigin, enda hefðu slíkar upplýsingar verið teknar saman. Á sama hátt kynni upplýsingarétturinn að ná til einstakra bókhaldsgagna, svo sem um greiðslur á tilteknum kostnaði.

Taldi umboðsmaður að þó fyrir lægi að af hálfu landbúnaðarráðuneytisins og Matvælastofnunar, áður Landbúnaðarstofnunar, hefði verið leitast við að bæta skráningu upplýsinga um tekjur og gjöld þess eftirlitssjóðs sem starfræktur er samkvæmt 11. gr. laga nr. 96/1997 þá teldi hann í ljósi framangreindra sjónarmiða tilefni til að koma þeim ábendingum á framfæri við ráðuneytið og Matvælastofnun að árleg reikningsskil sjóðsins væru gerð betur aðgengileg en nú væri þeim sem eftir leituðu á grundvelli reglna um upplýsingarétt samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum. Á sama hátt yrði meðferð og skráningu gagna sjóðsins um kostnað við eftirlitið hagað þannig að auk þess að unnt væri að veita upplýsingar um skiptingu kostnaðar eftir kjöttegundum yrði hægt að veita þeim sem rétt eiga upplýsingar um hvaða kostnaður félli til við eftirlit hjá einstökum sláturleyfishöfum og sláturhúsum. Minnti umboðsmaður jafnframt á mikilvægi þess að bókhaldi sjóðsins væri hagað í samræmi við grundvallarsjónarmið sem byggju að baki ákvæðum upplýsingalaga nr. 50/1996 og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig taldi umboðsmaður rétt að vekja athygli Ríkisendurskoðunar á málinu að því er varðaði álitaefni um tilhögun bókhalds og reikningsskila eftirlitssjóðsins í samræmi við lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, laga nr. 145/1994, um bókhald, og laga nr. 3/2006, um ársreikninga.

Bréf umboðsmanns til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Matvælastofnunar, dags. 29. desember 2008, hljóðaði svo.:

I.

Á árunum 2006 og 2007 var til umfjöllunar hjá mér kvörtun frá rekstraraðila alifuglasláturhúss og Samtökum atvinnulífsins sem laut að því að landbúnaðarráðuneytið og yfirdýralæknir hefðu ekki svarað ítrekuðum beiðnum sem þessir aðilar höfðu beint til ráðuneytisins á árunum 2002 til 2006 um upplýsingar í tilefni af gjaldtöku vegna heilbrigðiseftirlits samkvæmt lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, í alifuglasláturhúsi umrædds aðila á árunum 2002 til 2005. Þá hefði heldur ekki verið sinnt óskum sömu aðila um afrit af ársreikningum eftirlitssjóðs samkvæmt 11. gr. sömu laga. Í apríl 2007 ákvað ég að hætta athugun minni á umræddri kvörtun þar sem ráðuneytið hafði þá beint því til Landbúnaðarstofnunar að veita umbeðnar upplýsingar.

Athugun mín á þessari kvörtun varð mér hins vegar tilefni til þess að beina sjónum mínum að því hvort þess væri nægjanlega gætt, og þá almennt af hálfu stjórnvalda, að haga bókhaldi og reikningsskilum sjálfstæðra sjóða sem þau annast vörslur á þannig að bæði almenningur og hagsmunaaðilar á grundvelli upplýsingalaga nr. 50/1996, og þeir sem telja sig vera í stöðu aðila máls gagnvart slíkum sjóðum samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, geti fengið aðgang að þeim gögnum um rekstur og fjármál þessara sjóða sem þeir kunna að eiga rétt á samkvæmt umræddum lögum. Í þessu tilviki er í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, kveðið á um að innheimta skuli sérstakt gjald af sláturleyfishöfum af öllu innvegnu kjöti í sláturhúsi til að standa straum af kostnaði við heilbrigðiseftirlit kjötskoðunarlækna með sláturafurðum og skal gjaldið renna í „sérstakan sjóð í vörslu“, nú Matvælastofnunar. Eins og nánar verður vikið að síðar er fjárhæð umrædds eftirlitsgjalds ákveðin beint í lögum og mismunandi eftir kjöttegundum.

Við breytingu á lögum um þessa gjaldtöku árið 2002 var miðað við að gjaldinu væri ætlað að standa straum af raunkostnaði við heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum í sláturhúsum. Ákveðið var að fjárhæð gjaldsins væri mismunandi eftir kjöttegundum og þar horft til þess hver kostnaðurinn væri við hverja kjöttegund. Þótt gjaldtakan hafi þarna átt að svara til raunkostnaðar við tiltekna þjónustu var ekki valin sú leið að setja í lög almenna heimild til töku þjónustugjalds heldur var beint ákveðið í texta lagaákvæðisins hvert skyldi vera gjald á kíló hverrar kjöttegundar. Miðað við þann lagalega búning sem þessi gjaldtaka var færð í hefur hún í eðli sínu meiri samstöðu með sköttum en hefðbundnum þjónustugjöldum.

Samkvæmt framangreindu hefur beinlínis verið ákveðið í lögum að fjármunir sem ríkið innheimtir við þetta heilbrigðiseftirlit skuli renna í sérstakan sjóð og þar með að þessum fjármunum skuli haldið aðgreindum frá öðrum tekjum ríkisins. Framangreind aðstaða leiðir til þess að þeir sem greiða þessi gjöld kunna að hafa sérstaka hagsmuni af því að geta gert sér grein fyrir því hvort gjaldtakan svarar á hverjum tíma til þess raunkostnaðar sem gengið var út frá við lagasetninguna. Almennt má gera ráð fyrir því að þeir sem greiða í sjóðinn geti áttað sig á slíkum atriðum á grundvelli upplýsinga um tekjur sjóðsins og kostnað sem fellur til vegna einstakra kjöttegunda. Slíkar upplýsingar kunna þá að leiða til þess að þeir telji tilefni til að gera athugasemdir við hvaða kostnað sjóðurinn greiðir og hvort sá kostnaður falli innan lagaheimildar um sjóðinn. Jafnframt kunna slíkar upplýsingar að verða hagsmunaaðilum tilefni til þess að setja fram óskir um breytingar á þeim fjárhæðum eftirlitsgjaldanna sem ákveðnar eru í lögum.

Sá upplýsingaréttur sem almenningi, hagsmunaaðilum almennt og aðilum einstakra stjórnsýslumála er fenginn með lögum er einmitt ætlað að vera grundvöllur þess að þessir aðilar standi sem mest jafnfætis stjórnvöldum um aðgang að gögnum um upplýsingar í förum stjórnvalda og þeir geti í krafti slíkra upplýsinga haft áhrif á opinbera stefnumótun og töku ákvarðana um viðkomandi málefni. Ástæða þess að ég staðnæmdist við þetta mál er ekki eingöngu það hvernig staðið er að málum um þennan tiltekna sjóð vegna eftirlitsgjaldsins heldur tel ég að þær lagareglur og sjónarmið sem hér reynir á eigi almennt við þegar löggjafinn hefur ákveðið að fjármunum sem stjórnvald innheimta skuli haldið aðgreindum í sérstökum sjóði. Ég tek fram að athugun umboðsmanns Alþingis á þessu máli beinist eingöngu að umræddum upplýsingarétti en það kemur í hlut annarrar eftirlitsstofnunar Alþingis, Ríkisendurskoðunar, að fjalla um hvernig hinu eiginlega bókhaldi og reikningsskilum slíkra sjóða ber að haga þannig að fullnægt sé þeim kröfum sem leiða af reglum um bókhald og fjárreiður ríkisins.

[...]

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, skal bókhaldi ríkisaðila hagað á skýran og aðgengilegan hátt og skulu reikningsskil gefa glögga mynd af rekstri þeirra og efnahag. Að svo miklu leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir á annan veg í lögum gilda ákvæði laga nr. 145/1994, um bókhald, og laga nr. 144/1994, um ársreikninga, svo og góðar bókhalds- og reikningsskilavenjur. Samkvæmt 7. tölul. 1. mgr. 1. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994 eru hvers konar félög, sjóðir og stofnanir sem stunda atvinnurekstur eða hafa á hendi fjáröflun eða fjárvörslu bókhaldsskyldir. Samkvæmt 4. gr. bókhaldslaga skulu bókhaldsskyldir aðilar haga bókhaldi sínu á skýran og aðgengilegan hátt og semja ársreikninga í samræmi við lög, reglugerðir og settar reikningsskilareglur. Lög nr. 144/1994, um ársreikninga, voru endurútgefin sem lög nr. 3/2006, sbr. 6. gr. laga nr. 135/2005. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 3/2006 skulu stjórn og framkvæmdastjóri bera ábyrgð á samningu ársreiknings fyrir hvert reikningsár og skal ársreikningurinn hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, sjóðstreymi, skýringar og skýrslu stjórnar. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna skulu ársreikningar samdir í samræmi við lögin, reglugerðir og settar reikningsskilareglur, ef við á, og gefa glögga mynd af afkomu, efnahag og breytingu á handbæru fé.

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til að standa straum af kostnaði við heilbrigðiseftirlit kjötskoðunarlækna með sláturafurðum, innheimta gjald af sláturleyfishöfum af öllu innvegnu kjöti í sláturhúsi sem rennur í sérstakan sjóð í vörslu Matvælastofnunar. Í bréfi Matvælastofnunar, dags. 15. desember 2008, kemur fram að rekstri eftirlitssjóðsins sé haldið aðgreindum í bókhaldi stofnunarinnar á tilteknu yfirviðfangi og bókunarviðföngum fyrir hverja kjöttegund, en ekki hafi verið gerður sérstakur ársreikningur fyrir sjóðinn. Hins vegar sé í ársreikningi stofnunarinnar fyrir árið 2006 að finna rekstraryfirlit yfir sjóðinn og í endurskoðunarbréfi ríkisendurskoðanda árið 2007 sé gerð grein fyrir sjóðnum.

Með vísan til þess að löggjafinn hefur samkvæmt lögum nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun, falið sérstakri stofnun á vegum Alþingis, Ríkisendurskoðun, að endurskoða ríkisreiknings og reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum ríkisins hef ég ákveðið að taka þetta atriði ekki sérstaklega til frekari athugunar og þar með hvernig haga beri reikningshaldi sjóðsins þannig að fullnægt sé áðurnefndum lagakröfum um reikningsskil og ársreikninga. Þess í stað hef ég ákveðið að vekja athygli Ríkisendurskoðunar á málinu og hef ég í dag ritað Ríkisendurskoðun meðfylgjandi bréf af því tilefni. Þar vek ég athygli á því að framkvæmd umræddra reglna um reikningsskil og bókhald í opinberum rekstri þurfi jafnframt að taka mið af því að stjórnvöld geti fullnægt þeim kröfum sem leiða af reglum laga um upplýsingarétt og aðgang að gögnum í vörslum stjórnvalda.

IV.

Alþingi samþykkti upplýsingalög nr. 50/1996 17. maí 1996 og tóku þau gildi 1. janúar 1997. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram sú meginregla að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.-6. gr. Í almennum athugasemdum sem fylgdu greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga segir svo um þessa meginreglu:

„Aðalatriði þessarar meginreglu er að einstaklingar og lögaðilar, þ.m.t. fjölmiðlar, eigi lögum samkvæmt rétt til aðgangs að gögnum mála innan stjórnsýslunnar án þess að þurfa að sýna fram á tengsl við málið eða aðila þess og án þess að þurfa að sýna fram á hagsmuni af því að fá eða nota umbeðnar upplýsingar.“ (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3017.)

Í lögskýringargögnum með frumvarpi til upplýsingalaga er gerð grein fyrir þeim markmiðum sem liggja að baki frumvarpinu. Í almennum athugasemdum í frumvarpinu kemur eftirfarandi fram um það efni:

„Í nútíma lýðræðisþjóðfélagi er það talið sjálfsagt að almenningur eigi þess kost að fylgjast með því sem stjórnvöld hafast að, ýmist beint eða fyrir milligöngu fjölmiðla. Liður í því er að hver og einn geti fengið aðgang að upplýsingum um mál sem til meðferðar eru hjá stjórnvöldum, jafnvel þótt það snerti ekki hann sjálfan. Þetta er meginmarkmiðið með frumvarpi þessu og er þannig á sama hátt og stjórnsýslulögum ætlað að stuðla að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni. Lögin ættu jafnframt að draga úr tortryggni almennings í garð stjórnvalda --- tortryggni sem oft og einatt á rót sína að rekja til þess að upplýsingum hefur, stundum að óþörfu, verið haldið leyndum. Að sjálfsögðu getur það verið óhjákvæmilegt í vissum undantekningartilvikum, en til þess þurfa þá að vera brýnar ástæður.“ (Alþt. 1995-1996, A-deild, bls. 3010.)

Í framsöguræðu forsætisráðherra á Alþingi þegar frumvarp til upplýsingalaga var lagt fram kom einnig eftirfarandi fram um markmið frumvarpsins:

„Ein forsenda þess að unnt sé að tala um lýðræðislega stjórnarhætti er sú að borgurum sé gert kleift að fylgjast með og kynnast athöfnum og starfsemi þeirra stofnana sem reknar eru í almenningsþágu. Slíkan aðgang hafa borgararnir að fundum á hinu háa Alþingi eins og þeir eiga stjórnarskrárvarinn rétt til og sama á að meginreglu við um þinghald dómstóla. Sama aðferð verður af augljósum ástæðum ekki almennt viðhöfð um starfsrækslu framkvæmdarvaldsins enda þótt sömu sjónarmið eigi ekki síður við um þá starfsemi sem þar fer fram. Það þarf þó ekki að koma í veg fyrir og á ekki að standa því í vegi að almenningur geti fylgst með athöfnum stjórnvalda, ýmist beint eða fyrir milligöngu fjölmiðla. Slíkur aðgangur gefur almenningi kost á að kynna sér viðfangsefni stjórnvalda og mynda sér á þeim skoðun á hlutlægum grundvelli og ætti yfirleitt að veita fjölmiðlum betri möguleika á að sinna hlutverki sínu í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Þá eru lögfestar reglur um upplýsingaskyldu stjórnvalda til þess fallnar að auka á aðhald með starfsemi stjórnsýslunnar. Með lögunum opnast sú leið að fá upplýsingar um áður afgreitt mál hjá stjórnvöldum svo hægt sé að meta hvort stjórnvöld hafi gætt samræmis og jafnræðis við úrlausn mála. Þannig stuðla meginmarkmið frv. að því að styrkja lýðræðislega stjórnarhætti og réttaröryggi stjórnsýslu hins opinbera auk þess sem þau ættu þegar best lætur að auka tiltrú almennings á að stjórnvöld séu hlutverki sínu vaxin.

Í samræmi við þessi markmið er með þessu frv. lagt til að lögfest verði sú meginregla að stjórnvöldum sé skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum máls þegar eftir því er leitað. Rétt er hins vegar að geta þess sérstaklega að ekki er nein skylda lögð á herðar stjórnvöldum að veita slíkar upplýsingar að eigin frumkvæði né heldur að taka saman eða búa til upplýsingar sem liggja ekki fyrir.“ (Alþt. 1995-1996, B-deild, dálkur 4081.)

Af hinum tilvitnuðu orðum má ráða að markmið með frumvarpi til upplýsingalaga hafi verið að veita almenningi aðgang að gögnum um mál sem til meðferðar hafa verið eða eru hjá stjórnvöldum þannig að hann geti fylgst með störfum stjórnvalda og veitt þeim aðhald. Þetta markmið sé til þess fallið að auka tiltrú almennings á að stjórnvöld séu hlutverki sínu vaxin og draga úr tortryggni almennings í garð stjórnvalda. Samkvæmt þessu er ljóst að sjónarmið um gegnsæi í stjórnsýslunni er ráðandi sjónarmið sem hafa verður almennt í huga við skýringu og beitingu á ákvæðum upplýsingalaga.

Auk þess réttar sem kveðið er á um til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum er í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kveðið á um að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er máls hans varða. Ákvæði þessu er m.a. ætlað að tryggja réttindi og hagsmuni aðila máls með því að veita honum færi á að kynna sér þau gögn sem stjórnvaldsákvörðun byggir á í því skyni að staðreyna hvort hún sé í samræmi við gildandi lög og reglur. Réttur almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum er þó ekki bundinn við að menn hafi tengsl við mál eða hafi að öðru leyti sérstakra hagsmuna að gæta af því að kynna sér ákveðin gögn. Sá almenni réttur til aðgangs sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum að þessu leyti endurspeglar öðru fremur það sjónarmið laganna auka gegnsæi í störfum stjórnsýslunnar og auðvelda lýðræðislegt aðhald með henni.

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til að standa straum af kostnaði við heilbrigðiseftirlit kjötskoðunarlækna með sláturafurðum, innheimta gjald af sláturleyfishöfum af öllu innvegnu kjöti í sláturhúsi sem rennur í sérstakan sjóð í vörslu Matvælastofnunar. Eftirlitsgjald þetta skal miðast við raunkostnað og skal vera 2,10 kr. fyrir hvert kíló kindakjöts, 3,00 kr. fyrir hvert kíló svínakjöts, 2,20 kr. fyrir hvert kíló nautgripakjöts, 2,90 kr. fyrir hvert kíló hrossakjöts og 6,50 kr. fyrir hvert kíló alifuglakjöts. Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laganna setur ráðherra nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits og innheimtu eftirlitsgjalda samkvæmt.

Þegar frumvarp til breytinga á lögum nr. 96/1997 var flutt af hálfu landbúnaðarráðherra á Alþingi 2001-2002, sbr. lög nr. 82/2002, var aðeins gert ráð fyrir að eftirlitsgjaldið yrði hækkað og yrði ein fjárhæð á hvert kíló kjöts. Landbúnaðarnefnd þingsins lagði hins vegar til að þessu yrði breytt og þar yrðu tilgreinar fjárhæðir vegna einstakra kjöttegunda eins og lýst var hér að framan og í áliti nefndarinnar sagði m.a.:

„Fyrir nefndina hafa verið lögð gögn frá yfirdýralækni sem sýna skiptingu kostnaðar við eftirlit milli einstakra dýrategunda. Samkvæmt þeim upplýsingum er hlutfallslega mestur kostnaður við eftirlit með alifuglakjöti, einkum vegna salmonellu- og kampýlóbaktersmits. Nefndin telur eðlilegt að hver grein um sig beri þann kostnað sem af eftirlitinu hlýst og leggur til að mismunandi gjald verði innheimt fyrir hverja tegund kjöts. Þá telur nefndin að kostnaður af starfi héraðsdýralækna við kjötskoðun skuli greiðast af launalið viðkomandi embætta samkvæmt fjárlögum enda verður að telja skoðunina hluta af starfi þeirra. Óeðlilegt er að framleiðendur og/eða neytendur greiði þann hluta kostnaðarins með skattheimtu af þessu tagi. Nefndin leggur því til breytingar á frumvarpinu sem miðast við að mismikla gjaldtöku af hverri tegund fyrir sig.“ (Alþt. 2001-2002, A-deild, bls. 5848.)

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 336/2005, um innheimtu gjalds vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum, skal greiða gjald af öllu innvegnu kjöti í afurðastöð, sem rennur í sérstakan sjóð samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997. Gjaldið miðast við raunkostnað við heilbrigðiseftirlitið. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 336/2005 skal gjaldið standa straum af launum og ferðakostnaði kjötskoðunarlækna og aðstoðarfólks þeirra, kostnaði við töku nánar tilgreindra sýna í sláturhúsum og úrvinnslu þeirra, þ.á m. hálsaskinnssýna sem tekin eru með reglubundnum hætti vegna innleggs allra alifuglaframleiðenda, til rannsókna vegna salmonella, botnlangasýna sem tekin eru með reglubundnum hætti vegna innleggs allra alifuglaframleiðenda, til rannsókna vegna kampýlóbakter, og sýna sem tekin eru af búnaði sláturhúsa, rannsóknum á sýnum vegna reglubundinna mælinga á lyfjaleifum og aðskotaefnum í sláturafurðum og nauðsynlegu námskeiðahaldi fyrir kjötskoðunarlækna og aðstoðarfólk þeirra, til viðhaldsmenntunar og samræmingar eftirlits milli afurðastöðva. Gjaldið tekur ekki til greiðslu á öðrum kostnaði við heilbrigðiseftirlit. Kostnaður vegna viðbótarsýna eða prófana sem framleiðandi á búi þar sem greinst hefur smitefni er ógnar matvælaöryggi kann að óska eftir greiðist af viðkomandi framleiðanda. Beiðni um viðbótarsýnatökur skal vera skrifleg.

Samkvæmt framangreindu var af hálfu löggjafans með skýrum hætti tekin ákvörðun um að binda töku eftirlitsgjalds samkvæmt 11. gr. laga nr. 96/1997 við raunverulegan kostnað af eftirlitinu vegna einstakra kjöttegunda og voru þær fjárhæðir sem lögfestar voru byggðar á sérstökum gögnum sem lögð voru fram af hálfu yfirdýralæknis um skiptingu kostaðar við eftirlit milli einstakra dýrategunda þegar umrædd lagabreyting var gerð árið 2002. Markmiðið að baki lagasetningunni er því að gjald sem er innheimt á grundvelli 11. gr. sé ekki hærra en sem nemur þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldið kemur fyrir. Upplýsingar um bókhald og rekstur sjóðsins eru forsendur þess að þeir sem sæta álagningu gjaldsins geti lagt raunhæft mat á hvort fjárhæð gjaldsins svari á hverjum tíma til þess kostnaðar sem fellur til við eftirlit með einstökum kjöttegundum og hvort þessum markmiðum löggjafans sé raunverulega náð.

Í svarbréfi Matvælastofnunar, dags. 15. desember 2008, kemur m.a. fram að ekki sé hægt að veita upplýsingar um kostnað fyrir hverja kjöttegund sundurliðað niður á einstök sláturhús, enda telji stofnunin ekki þörf á slíkri sundurliðun þar sem núgildandi lagaákvæði um gjaldtöku taki mið af einstökum kjöttegundum.

Í ljósi þeirra reglna sem raktar eru hér að framan um rétt til aðgangs samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum fæ ég ekki séð að unnt sé að ganga fyrirfram út frá því að ekki sé þörf á sundurliðun upplýsinga með þeim hætti sem lýst er í bréfi Matvælastofnunar. Ég minni á að umrætt gjald er greitt af sláturleyfishöfum af innvegnu kjöti í sláturhúsi eða sláturhúsum þeirra. Ég fæ því ekki annað séð vegna framangreindra sjónarmiða um raunkostnað en að það kunni meðal annars að geta haft þýðingu fyrir einstaka sláturleyfishafa að fá aðgang að upplýsingum um hvaða kostnaður hafi verið greiddur af hálfu sjóðsins vegna eftirlits með viðkomandi sláturhúsi. Hér eiga líka við sjónarmið um gegnsæi og málefnalegan og forsvaranlegan grundvöll þess þegar opinberum fjármunum er ráðstafað. Það kann t.d. að vera harla erfitt fyrir sláturleyfishafa að gera sér grein fyrir því hver sé „raunkostnaður“ við eftirlitið þegar þeir geta ekki fengið upplýsingar um hvað sé verið að greiða fyrir einstaka þætti þessa eftirlits í húsum þeirra.

Samkvæmt framangreindu tel ég því ekki unnt að útiloka að einstakir sláturleyfishafar geti á grundvelli reglna um upplýsingarétt almennings og upplýsingarétt aðila máls átt rétt til aðgangs að upplýsingum um kostnað fyrir hverja kjöttegund sundurliðað niður á einstök sláturhús, og þá sérstaklega þeirra eigin, enda hafi slíkar upplýsingar verið teknar saman. Á sama hátt kann upplýsingarétturinn að ná til einstakra bókhaldsgagna, svo sem um greiðslu á tilteknum kostnaði.

Hér er hins vegar ekki tilefni til þess að taka endanlega afstöðu til þess í hvaða mæli þessi réttur kann að vera til staðar í einstökum tilvikum. Áður en slíkt getur komið til umfjöllunar hjá umboðsmanni Alþingis þarf afstaða viðkomandi stjórnvalds til beiðni um aðgang að slíkum gögnum að liggja fyrir og þá eftir atvikum úrskurður æðra stjórnvalds eða sérstakar úrskurðarnefndar ef beiðninni hefur verið synjað.

Þótt fyrir liggi að af hálfu landbúnaðarráðuneytisins og Matvælastofnunar, áður Landbúnaðarstofnunar, hafi verið leitast við að bæta skráningu upplýsinga um tekjur og gjöld þess eftirlitssjóðs sem starfræktur er samkvæmt 11. gr. laga nr. 96/1997 tel ég í ljósi framangreindra sjónarmiða tilefni til að koma þeim ábendingum á framfæri við ráðuneytið og Matvælastofnun að árleg reikningsskil sjóðsins séu gerð betur aðgengileg en nú er þeim sem eftir leita á grundvelli reglna að upplýsingarétt samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum. Á sama hátt verði meðferð og skráningu gagna sjóðsins um kostnað við eftirlitið hagað þannig að auk þess að unnt sé að veita upplýsingar um skiptingu kostnaðar eftir kjöttegundum verði hægt að veita þeim sem rétt eiga upplýsingar um hvaða kostnaður fellur til við eftirlit hjá einstökum sláturleyfishöfum og sláturhúsum. Ég minni jafnframt á mikilvægi þess að bókhaldi sjóðsins sé hagað í samræmi við þau grundvallarsjónarmið sem búa að baki ákvæðum upplýsingalaga nr. 50/1996 og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV.

Með vísan til framangreinds lýk ég hér með athugun minni á máli þessu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég mun eins og áður sagði vekja athygli Ríkisendurskoðunar á málinu að því er varðar álitaefni um tilhögun bókhalds og reikningsskila eftirlitssjóðsins í samræmi við lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, laga nr. 145/1994, um bókhald, og laga nr. 3/2006, um ársreikninga.