Húsnæðismál. Félagslegar íbúðir. Stjórnvaldsákvörðun. Fyrirspurn umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 5544/2008)

Umboðsmaður ritaði bréf, dags. 31. desember 2008, þar sem hann lagði spurningar í sjö töluliðum fyrir borgarstjórn Reykjavíkur. Í bréfi umboðsmanns kom fram að tilefni bréfsins hefði verið að honum hefðu á síðustu árum borist nokkur erindi og kvartanir þar sem gerðar hefðu verið athugasemdir við það hvernig staðið hefði verið að ákvörðunum og framkvæmd mála er lutu að félagslegu leiguhúsnæði sem Félagsbústaðir hf. færu með fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Einkum hefðu þessar athugasemdir beinst að því hvernig staðið hefði verið að uppsögn á slíku leiguhúsnæði og framkomu starfsmanna Félagsbústaða hf. gagnvart leigutökum. Í fyrra tilvikinu hefðu athugasemdirnar m.a. beinst að því að gripið hefði verið til uppsagnar eða riftunar á afnotum viðkomandi af því húsnæði sem hann hefði fengið á félagslegum grundvelli án þess að nokkur breyting hefði orðið á þeim félagslegu aðstæðum sem voru tilefni úthlutunar húsnæðisins. Uppsögnin og útburðarkrafa fyrir dómi í kjölfar hennar hefði verið sett fram og framkvæmd af hálfu Félagsbústaða hf. án þess að úrlausn hefði áður fengist hjá félagsmálayfirvöldum Reykjavíkurborgar um nýtt húsnæði fyrir viðkomandi eða um fjárhagslegan stuðning til að mæta vanskilum á leigugreiðslum. Um síðara atriðið hefðu athugasemdirnar m.a. beinst að framkomu starfsmanna Félagsbústaða hf. í garð leigutaka, gripið hefði verið til aðgerða eins og tilkynninga um meint brot á húsreglum eða umgengni án þess að rætt hefði verið við leigutaka eða skýringa leitað hjá þeim og húsmunir leigutaka hefðu verið fjarlægðir af starfsmönnum Félagsbústaða hf. úr leiguíbúð án þess að haft hefði verið samband við leigutaka.

Í bréfi umboðsmanns Alþingis kom fram að mál af þessum toga hefðu áður verið honum tilefni til bréfaskipta og funda með fulltrúum Reykjavíkurborgar en eftir athugun á þeim málum sem honum hefðu borist að undanförnu væri það niðurstaða hans að heppilegra væri að hann tæki ofangreind álitaefni til almennrar athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í því skyni hefði hann ákveðið að rita borgarstjórn Reykjavíkur bréf þar sem hann færi fram á svör við ákveðnum spurningum og óskaði eftir skýringum sem kynnu að varpa betra ljósi á málið. Bréfið var sent borgarstjórn þar sem hann teldi að hér væri um að ræða málefni sem lyti að fyrri ákvörðunum borgarstjórnar um fyrirkomulag á úthlutunum, meðferð og lokum afnota af félagslegu leiguhúsnæði sem sveitarfélagið hefði yfir að ráða til að mæta þeim skyldum sem á því hvíla lögum samkvæmt gagnvart íbúum sveitarfélagsins um úrlausn á húsnæðisvanda þeirra. Tók umboðsmaður jafnframt fram að þau álitaefni sem hér kynni að reyna á gætu einnig átt við í tilvikum fleiri sveitarfélaga sem farið hefðu þá leið að stofna hlutafélag um rekstur félagslegs leiguhúsnæðis sveitarfélagsins.



Í bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 31. desember 2008, til borgarstjórnar Reykjavíkur sagði m.a.:

II.

Sumar af þeim kvörtunum sem mér hafa borist varðandi hvernig staðið er að ákvörðunum og framkvæmd mála að því er lýtur að félagslegu leiguhúsnæði sem Félagsbústaðir hf. fara með fyrir hönd Reykjavíkurborgar hafa gefið mér tilefni til að óska eftir skýringum og gögnum hjá Reykjavíkurborg og félagsmálaráðuneytinu. Ég óskaði t.a.m. með bréfi, dags. 22. mars 2005, eftir gögnum og skýringum frá Reykjavíkurborg varðandi meðferð tveggja mála sem lutu að uppsögnum á félagslegu leiguhúsnæði hjá Félagsbústöðum hf.

Í svari Reykjavíkurborgar, dags. 22. júní 2005, er það m.a. rakið að í bréfi félagsmálaráðuneytisins til Reykjavíkurborgar í tengslum við stofnun Félagsbústaða hf., dags. 9. maí 1997, komi fram sú afstaða ráðuneytisins að Félagsbústöðum hf. væri ætlað að starfa að sams konar lögbundnum verkefnum og Reykjavíkurborg væri skylt að rækja á þessum vettvangi. Réttarstaða aðila sem samskipti ættu við fyrirtækið yrði í einu og öllu innan ramma þeirra laga sem gildu um starfsemi Reykjavíkurborgar. Í lögskiptum félagsins við einstaklinga yrði farið að lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, húsaleigulögum og stjórnsýslulögum. Meginatriðið sé að umrætt fyrirtæki í eigu borgarinnar myndi starfa að lögákveðnum verkefnum, þeim sömu og Reykjavíkurborg eða nefnd/stofnun á vegum borgarinnar hefði ella sinnt og innan ramma sömu laga. Einnig kemur fram í umræddu bréfi Reykjavíkurborgar að í kjölfar þeirra breytinga á lagaumhverfi Félagsbústaða hf. sem urðu með gildistöku laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, sé afstaða borgarinnar sú, hvað varðar athafnir Félagsbústaða hf. um lok félagslegs leiguhúsnæðis og ákvarðanir í tilefni af brotum gegn ákvæðum leigusamnings eða húsaleigulaga, að um einkaréttarlegar athafnir sé að ræða sem beri að framkvæma á grundvelli húsaleigulaga.

Í bréfi félagsmálaráðuneytisins til mín, dags. 29. júní 2007, þar sem fjallað er um framangreinda afstöðu Reykjavíkurborgar frá 22. júní 2005, kemur m.a. fram að gera verði greinarmun á eðli og lagagrundvelli ákvarðana sem teknar eru um lok afnota á húsnæði. Annars vegar sé um að ræða ákvörðun Félagsbústaða hf. um lok leigusamnings og hins vegar ákvörðun velferðarsviðs eða þjónustumiðstöðvar um að aðili uppfylli ekki lengur skilyrði til að öðlast rétt til félagslegs húsnæðis. Kemur fram í bréfi ráðuneytisins að það telji rök hníga til þess að í síðara tilvikinu sé um að ræða nýja stjórnvaldsákvörðun sem felli úr gildi hina upphaflegu ákvörðun um rétt aðila til félagslegs húsnæðis. Af því leiði að stjórnsýslulögin hljóti að gilda um slíkar ákvarðanir. Í fyrra tilvikinu geti hins vegar verið um að ræða ákvörðun sem tekin sé af Félagsbústöðum hf. á grundvelli einkaréttarlegs leigusamnings eða vegna brota leigutaka á húsaleigulögum eða öðrum reglum. Í þeim tilvikum verði vart litið svo á að stjórnsýslulög gildi heldur ákvæði húsaleigulaga. Vísaði ráðuneytið þessu til stuðnings m.a. til 77. gr. laga nr. 97/1993, um húsnæðisstofnun ríkisins og 1. mgr. 30. gr. reglugerðar nr. 873/2001, um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur, sem sett er með stoð í lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál.

Afstaða Reykjavíkurborgar til bréfs félagsmálaráðuneytisins barst mér með bréfi borgarlögmanns, dags. 8. október 2007. Þar kemur fram að það sé einnig skoðun Reykjavíkurborgar að ákvörðun Reykjavíkurborgar um lok afnota félagslegs húsnæðis vegna þess að leigjandi uppfylli ekki lengur sett skilyrði, sé stjórnvaldsákvörðun og um hana gildi ákvæði stjórnsýslulaga. Bæði 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 20. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur, sem raktar verða hér að neðan, var breytt í september 2007 og í minnisblaði frá lögfræðingi velferðarsviðs til borgarlögmanns, dags. 12. september 2007, sem fylgdi ofangreindu bréfi Reykjavíkurborgar til mín, kemur fram að velferðarsvið hyggist taka til skoðunar og gera breytingar á nokkrum tilteknum atriðum er varða Félagsbústaði hf. Þar á meðal kemur fram í minnisblaðinu að velferðarsvið hyggist breyta reglum um félagslegar íbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík þannig að tekið yrði fram í reglunum að um samskipti leigjenda og Félagsbústaða fari samkvæmt húsaleigulögum nr. 36/1994. Einnig komi fram í reglunum að endurskoðun leigusamninga og hugsanleg uppsögn í kjölfar þess sé stjórnsýsluákvörðun.

Ég tel nú rétt, áður en lengra er haldið, að varpa í næsta kafla nokkru ljósi á þær réttarheimildir sem kunna að skipta máli um skyldur sveitarfélaga að því er varðar úrlausn húsnæðismála íbúa sinna og um heimildir sveitarfélaga til að stofna til hlutafélaga til að annast rekstur leiguíbúða sinna. Þá mun ég rekja þær lagareglur sem rekstur Félagsbústaða hf. er byggður á. Í kafla IV. mun ég síðan draga fram þau álitaefni, sem samspil þessara lagareglna og ákvæða um lögbundnar skyldur sveitarfélaga í þessum málaflokki skapa, m.a. að virtri réttarstöðu leigjenda félagslegs leiguhúsnæðis samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Í kafla V. set ég loks fram þær fyrirspurnir sem ég tel rétt að setja fram á þessu stigi, sbr. kafli I í bréfi þessu.

III.

Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 eru lagðar opinberar skyldur á sveitarfélögin um að annast þau tilvik þegar íbúar geta ekki leyst úr húsnæðisvanda sínum sjálfir. Eru ákvæði þar um í XII. kafla laganna. Er þar greint á milli almennra úrræða og sérstakra úrræða fólks í bráðum vanda. Þannig segir um hin almennu úrræði í 45. gr. laganna:



„Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.“

Í athugasemdum við þetta ákvæði í því frumvarpi sem var að lögum nr. 40/1991 sagði svo:

„Greinin er hugsuð sem hvatning til sveitarfélaga um að hafa framboð af félagslegu húsnæði.“

Ákvæði um hina beinu skyldu sveitarfélaga til að aðstoða íbúa sína við að leysa úr húsnæðismálum sínum eru síðan í 46. gr. laganna en þar segir svo:

„Félagsmálanefndir skulu sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.“

Í 47. gr. laganna er að hluta til fjallað um stjórnsýslu þessara mála innan sveitarfélagsins og þar segir að sveitarstjórn sé heimilt að fela félagsmálanefnd umsjón með leiguíbúðum í eigu sveitarfélagsins og útleigu þeirra.

Rétt er að taka hér orðrétt upp athugasemdir úr greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 40/1991 og beinast að ofangreindum ákvæðum 46. og 47. gr., sem voru 50. og 51. gr. í frumvarpinu:

„Um 50. gr.

Greinin felur í sér skyldu félagsmálanefnda til að útvega þeim íbúum sveitarfélagsins húsnæði sem ekki eru færir um það sjálfir. Ákvæðið er í samræmi við hið almenna ákvæði 11. gr. frumvarpsins um verkefni félagsmálanefndar, en húsnæðismál eru mikilvægur þáttur í þeirri aðstoð sem félagsmálanefndir eiga að veita skv. 7. tölul. 11. gr.

Að baki skyldu félagsmálanefndar hvílir að sjálfsögðu sú forsenda að sveitarfélagið hafi tiltækt húsnæði. Hér er ekki nýmæli á ferðinni þar sem 1. gr. framfærslulaga hefur verið túlkuð og framkvæmd svo að sveitarfélögum beri skylda til að veita fólki úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda. Sú skylda er í samræmi við ákvæði 12. gr. frumvarpsins þar sem segir að sveitarfélag skuli veita aðstoð hverjum þeim íbúa sem ekki er fær um að sjá fyrir þörfum sínum og fjölskyldu sinnar. Með aðstoð er m.a. átt við hjálp til að útvega húsnæði.

Um 51. gr.

Grein þessi er samin með hliðsjón af k - lið ( 61. gr.) laga nr. 70/1990, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Í þeirri grein felst sú meginregla að umsjón og úthlutun á félagslegum íbúðum er á vegum húsnæðisnefndar, en jafnframt heimild til að víkja frá þeirri reglu þegar leiguíbúðir sveitarfélaga eiga í hlut og fela umsjón og útleigu þeirra félagsmálanefnd.

Í athugasemdum frumvarps með fyrrgreindum k - lið laga nr. 70/1990 kemur jafnframt fram að gert er ráð fyrir því að húsnæðisnefnd hafi samráð og samvinnu við félagsmálanefnd um ráðstöfun félagslegra íbúða. Auk leiguíbúða sveitarfélaga, tilheyra félagslegum íbúðum, félagslegar eignaríbúðir (áður verkamannabústaðir) og félagslegar og almennar kaupleiguíbúðir.

Í samræmi við það sem hér rakið er 1. mgr. þessarar greinar í beinu samhengi við síðari málsgrein í k - lið (61. gr.) laga nr. 70/1990, þ.e. um heimild sveitarstjórnar til að fela félagsmálanefnd umsjón og útleigu félagslegra leiguíbúða. Í félagsmálanefndinni er að finna þekkingu og yfirsýn yfir félagslega hagi fólks og þar af leiðandi hefur sú nefnd góðar faglegar forsendur til þess að sjá til þess að úthlutun leiguíbúða komi þeim að notum sem mest þurfa á þeim að halda. Við þetta bætist að aðstoð við öflun húsnæðis er einn þáttur í félagsþjónustu við einstaklinga og fjölskyldur og aðrir þættir hennar nýtast síður ef húsnæðismál eru þar undanskilin, sbr. það sem áður er fram komið í frumvarpi þessu um nauðsyn á því að við framkvæmd félagsþjónustunnar sé beitt heildarsýn yfir alla þætti hennar.

Önnur málsgrein þessarar greinar er í samræmi og framhaldi af því sem fram kemur í athugasemdum frumvarps til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins með 5. tölul. k - liðar (61. gr.) lög nr. 70/1990 þar sem segir að telja verði líklegt að húsnæðisnefnd hafi við úthlutun félagslegra íbúða samráð og samvinnu við félagsmálanefnd. Sé slíks samráðs leitað er talið eðlilegt að tryggja félagsmálanefnd tillögurétt um ráðstöfun íbúða.“

Reykjavíkurborg hefur sett sér reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Reglurnar voru samþykktar í félagsmálaráði borgarinnar 18. febrúar 2004 og í borgarráði 24. febrúar 2004. Þær tóku gildi 1. mars 2004, en hefur verið breytt alls átta sinnum síðan, síðast með breytingum samþykktum í velferðarráði 23. apríl 2008 og í borgarráði 25. apríl 2008. Í 4. gr. reglnanna er fjallað um skilyrði fyrir því að umsókn um leiguhúsnæði verði metin gild. Þar er kveðið á um að við vinnslu umsóknar skuli leita upplýsinga m.a. um félagslegar aðstæður, lögheimili, tekjur og eignir. Umsækjandi þarf að uppfylla fimm tilgreind skilyrði til að umsókn öðlist gildi. Í 6. gr.,m sem fjallar um forgangsröðun umsókna, segir að fullnægi umsækjandi skilyrðum 4. gr. raðist umsóknir í forgangsröð eftir ákveðnum matsviðmiðum sem sé að finna í fylgiskjali við reglurnar, þar sem m.a. sé höfð hliðsjón af núverandi húsnæðisaðstæðum, heilsufari, félagslegum aðstæðum og tekjum. Við lok greiningar séu reiknuð stig fyrir hvern þátt fyrir sig. Útkoman sé skráð á biðlista sem hafður sé til hliðsjónar við úthlutun húsnæðis.

Ákvörðun um úthlutun leiguhúsnæðis er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 3. mgr. 15. gr. áðurnefndra reglna Reykjavíkurborgar. Í 1. mgr. sömu greinar kemur fram að úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fari fram á sérstökum fundi þar sem Félagsbústaðir hf. eigi áheyrnarfulltrúa og úthlutanir séu lagðar fyrir velferðarráð (áður félagsmálaráð) til staðfestingar. Meðal gagna sem mér hafa borist í tengslum við úthlutanir á félagslegu húsnæði hjá Reykjavíkurborg er bréf frá Reykjavíkurborg þar sem einstaklingi er tilkynnt að hann hafi fengið úthlutað félagslegri leiguíbúð. Segir m.a. eftirfarandi í viðkomandi bréfi:

„Vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð Reykjavíkurborgar.

Á úthlutunarfundi þann [dags.] var þér úthlutað íbúð að [heimilisfang]. Um er að ræða íbúð [númer], [fermetrafjöldi]. Mánaðarleiga er nú kr. [fjárhæð]. Áætlað er að íbúðin verði tilbúin til innflutnings þann [dags.].

Vinsamlegast hafðu samband við þjónustudeild Félagsbústaða hf., í síma 520-1500 en þar eru veittar nánari upplýsingar auk þess sem fulltrúar sjá um að sýna húsnæðið og annast frágang leigusamnings, Félagsbústaðir hf. hafa heimild til þess að gera tímabundinn leigusamning.“

Ekki er vikið að því í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga með hvaða hætti fara eigi með mál einstaklinga eftir að sveitarfélag, eins og Reykjavíkurborg, eða húsnæðisnefnd þess tekur ákvörðun um að úthluta félagslegri leiguíbúð til viðkomandi. Hins vegar er kveðið á um það í 1. mgr. 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík að Félagsbústaðir hf. sjái um frágang leigusamninga og um þá gildi ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994. Tekið skuli fram í leigusamningi að um réttarsamband leigutaka og Félagsbústaða hf. gildi ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 en afskiptum velferðarráðs/velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem stjórnvalds sé lokið. Í 1. mgr. 20. gr. reglnanna er tekið fram að leigjandi verði að fullnægja skilyrðum b og c (sem lúta annars vegar að því að lögheimili í viðkomandi sé í Reykjavík og hins vegar að því að eignir og tekjur miðist við tilteknar hámarksupphæðir) allt það tímabil sem leigusamningur gildir. Á leigutímanum muni velferðarsvið á 12 mánaða fresti gera athugun á því hvort leigutaki fullnægi skilyrðunum. Ef þeim sé ekki lengur fullnægt sé heimilt að segja leigusamningi upp. Ákvörðun um uppsögn leigusamnings sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í ljósi þess sem ég rakti í kafla II hér að framan um afstöðu Reykjavíkurborgar til þess hvaða reglur gilda um lok leigusamnings á félagslegu húsnæði, og orðalagi 1. mgr. 18. og 1. mgr. 20. gr. í reglum Reykjavíkurborgar, og því sem að framan er rakið úr bréfum Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytisins, fæ ég ekki annað séð en að Reykjavíkurborg geri greinarmun á uppsögnum leigusamnings vegna félagslegs húsnæðis eftir því hvort á skorti að einstaklingar uppfylli skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt húsnæði eða ákvörðun um lok leigusamnings er tekin af öðrum ástæðum. Ákvörðun sem tekin er vegna fyrra tilviksins sé stjórnvaldsákvörðun en ekki ákvörðun sem tekin er í síðara tilvikinu. Þegar uppsögn leigusamnings á sér þannig stað á grundvelli atvika eða athafna er varða t.d. leigjanda og/eða fjölskyldumeðlimi hans og beinast að skyldum leigjanda samkvæmt húsaleigusamningi og húsaleigulögum, eins og á við í mörgum þeirra mála sem mér hafa borist, sé það verkefni Félagsbústaða hf. að taka ákvörðun um uppsögn samnings eða eftir atvikum að meta hvort skilyrði riftunar samkvæmt 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 sé fullnægt. Slíkri ákvörðun geti síðan fylgt krafa um útburð á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989, um aðför, sbr. m.a. til hliðsjónar Hrd. 4. september 2007, mál nr. 432/2008, Hrd. 14. febrúar 2006, nr. 49/2006, Hrd. 29. ágúst 2005, nr. 266/2005 og Hrd. 21. janúar 2002, nr. 13/2002. Þegar Félagsbústaðir hf. taka slíkar ákvarðanir, sem kunna að hafa grundvallaráhrif á réttarstöðu leigjenda félagslegs leiguhúsnæðis, sé um að ræða einkaréttarlegar ákvarðanir, og því ekki að lögum skylt af hálfu Félagsbústaða hf. að fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ég tel því sem fyrr greinir ástæðu til þess að fara yfir á hvaða grunni Félagsbústaðir hf. starfa og rekja helstu lagaákvæði þar sem kveðið er á um rekstur félagslegra leiguíbúða og hvaða málsmeðferðarreglur eiga að gilda um meðferð slíkra mála til viðbótar þeim ákvæðum sem rakin hafa verið úr lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Áður en að því kemur tek ég fram að í tilefni af fyrri athugasemdum mínum um fyrirkomulag þessara mála hafði af hálfu Reykjavíkurborgar verið lýst áformum og breytingum á reglum og framkvæmd sem ættu að tryggja að ekki kæmi til þess að leigutakar hjá Félagsbústöðum hf., sem fengið hefðu húsnæðinu úthlutað vegna félagslegra aðstæðna, yrðu sviptir því án þess að áður hefði verið fjallað um málefni þeirra af hálfu félagsmálayfirvalda hjá Reykjavíkurborg. Þar yrði tekin afstaða til þess hvernig ætti að leysa úr húsnæðismálum þeirra ef félagslegar aðstæður viðkomandi væru enn með þeim hætti að þörf væri á aðstoð borgarinnar og þá áður en gripið væri til útburðar af hálfu Félagsbústaða hf. Í þeim málum sem komið hafa til athugunar hjá mér á síðustu misserum, bæði formlega og einnig vegna símtala og fyrirspurna, hef ég veitt því athygli að þessi áform virðast ekki hafa gengið eftir að öllu leyti því dæmi eru um leigutökum hafi verið birt útburðarkrafa, hún hafi gengið til enda fyrir dómi og verið framkvæmd áður en niðurstaða hefur legið fyrir af hálfu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um hvernig leysa ætti úr húsnæðisvanda viðkomandi, ef hann missti þáverandi leiguhúsnæði.

IV.

Félagsbústaðir hf. starfa á grunni ákvæðis 38. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismála, sem rakið er hér að neðan, og kemur fram í bréfi Reykjavíkurborgar til mín, dags. 22. júní 2005, að tillaga um að stofna hlutafélagið Félagsbústaði hf. um eignarhald og rekstur félagslegs leiguhúsnæðis borgarinnar í samræmi við V. kafla laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, hafi verið samþykkt í borgarráði 7. apríl 1997. Á heimasíðu Félagsbústaða, www.felagsbustadir.is, kemur fram að félagið er alfarið í eigu Reykjavíkurborgar, borgarsjóður eigi stærsta hluta þess en Velferðarráð Reykjavíkur sé skráð fyrir óverulegum hlut. Þar kemur einnig fram að einn megintilgangurinn með stofnun Félagsbústaða hf. hafi verið að skilja rekstur félagslegra leiguíbúða Reykjavíkurborgar frá öðrum rekstri borgarinnar. Hlutverk borgarinnar hafi breyst úr því að vera beinn rekstraraðili í það að hafa eftirlit með gæðum þjónustunnar og veita nauðsynlegt aðhald í rekstri og fjárhagsstöðu rekstraraðilans, þ.e. Félagsbústaða hf. Einnig kemur fram á heimasíðu Félagsbústaða hf. að þeir starfi í þágu almannaheilla og reksturinn skuli vera sjálfbær. Raunkostnaður við rekstur íbúða sé greiddur niður um þriðjung af borgarsjóði sem færist sem félagsleg aðstoð við leigjendur í gegnum velferðarsvið Reykjavíkur. Fram kemur á skipuriti Félagsbústaða hf., sem birt er á heimasíðu þeirra, að stjórn Félagsbústaða hf. heyrir beint undir borgarstjórn Reykjavíkur.

Í 1. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, er kveðið á um að tilgangur laganna sé að stuðla að því, m.a. með skipulagi húsnæðismála, að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Í 5. gr. laganna er kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á og hafi frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnist aðstoðar við húsnæðisöflun og er í 6. gr. laganna kveðið á um skyldu sveitarstjórna til að skipa húsnæðisnefndir og hlutverk þeirra nefnda.

Í athugasemdum við 5. og 6. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 44/1998 segir m.a. að í þeim ákvæðum sé fjallað um þá stjórnsýslu sem sveitarfélög skuli hafa með höndum. Skylda sveitarstjórna verði eftir sem áður að eiga frumkvæði að því að leysa úr húsnæðisþörf fólks í sveitarfélaginu. Um skyldur sveitarfélaga til þess að tryggja framboð á íbúðarhúsnæði handa þeim sem búi við erfiðar aðstæður sé fjallað í 45. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga og þyki eðlilegra að í þeim lögum sé fjallað um skyldu sveitarfélaga í þessum efnum. (Alþt. 1997-1998, A-deild, bls. 3605.)

Í 38. gr. laga um húsnæðismál er svo sérstakt ákvæði um leiguíbúðir sveitarfélaga og er ákvæðið svohljóðandi:

„Sveitarfélagi er heimilt að stofna hlutafélag, sjálfseignarstofnun eða félag með ótakmarkaðri ábyrgð er annist útleigu íbúða í eigu sveitarfélagsins. Sveitarstjórn er heimilt að leggja slíku félagi til íbúðir í eigu sveitarfélags, ásamt þeim skuldbindingum sem þeim fylgja.

Áður en skráning hlutafélags fer fram skulu samþykktir þess staðfestar af félagsmálaráðherra.

Stofni sveitarfélag hlutafélag skv. 1. mgr. skal allt hlutafé þess vera í eigu sveitarfélags og skal sala þess óheimil án samþykkis félagsmálaráðherra. Að öðru leyti skulu ákvæði laga um hlutafélög gilda um slíkt félag eftir því sem við getur átt.

Sveitarfélag er leggur félagi skv. 1. mgr. til íbúðir í eigu sveitarfélagsins ber áfram ábyrgð á þeim fjárhagsskuldbindingum sem til hefur verið stofnað vegna byggingar eða kaupa slíkra íbúða.

Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um skilyrði þess að sveitarstjórn megi stofna félag skv. 1. mgr., hvað skuli koma fram í samþykktum þess og hvernig skuli hagað yfirfærslu eigna og skulda til slíks félags.“

Í athugasemdum við það ákvæði, sem varð að 38. gr. laga nr. 44/1998, segir m.a. að greinin sé nýmæli og geymi sérstök skilyrði um það þegar sveitarfélög leggja félögum til leiguíbúðir sínar. Sérstaklega er tekið fram að með stofnun félags um rekstur leiguíbúða verði sveitarstjórn ekki laus við þær skuldbindingar sem hún eða húsnæðisnefnd hafi stofnað til vegna byggingar leiguíbúða, en þar á meðal séu lán sem tekin hafi verið til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum og ákvörðun leigugjalds. Umrædd heimild veiti sveitarfélögum á hinn bóginn möguleika á að ná vissri hagkvæmni við rekstur leiguíbúða sinna. (Alþt. 1997-1998, A-deild, bls. 3613.)

Þrátt fyrir að mörg ákvæði laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, hafi fallið úr gildi við gildistöku laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, eru enn í gildi ýmis ákvæði í þeim lögum sem lúta að félagslegum íbúðum sveitarfélaga og meðal þeirra ákvæða er 1. mgr. 77. gr. laga nr. 97/1993 þar sem kveðið er á um að um samskipti leigutaka félagslegrar leiguíbúðar og framkvæmdaraðila gildi ákvæði laga um húsaleigusamninga. Hefur samskonar ákvæði verið í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins frá árinu 1990, sbr. pp-liður 3. gr. laga nr. 70/1990, um breyting á lögum nr. 86/1998, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Sambærileg ákvæði höfðu frá gildistöku laga nr. 56/1988, um breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, gilt um þá sem leigðu kaupleiguíbúðir, sbr. 7. mgr. h-liðar 8. gr. laga nr. 56/1988, sem varð að 7. mgr. 37. gr. laga nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Einnig er vikið að félagslegu leiguhúsnæði í 3. mgr. 2. gr. húsaleigulaga nr. 36/1997. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er kveðið á um að óheimilt sé að semja um að leigjandi íbúðarhúsnæðis taki á sig ríkari skyldur og öðlist minni réttindi en lögin mæli fyrir um nema ákvæði laganna hafi að geyma sérstök frávik þess efnis. Í 3. mgr. 2. gr. er gerð undantekning frá þeirri meginreglu, en þar er kveðið á um að sé íbúðarhúsnæði leigt til ákveðinna hópa, svo sem námsmanna, aldraðra eða öryrkja, þar sem sérstakar aðstæður kalla á aðra skipan en lögin mæla fyrir um, sé þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilt, vegna sérstaks eðlis eða tilgangs starfseminnar, að víkja frá einstökum ákvæðum laganna með samningi.

Í athugasemdum með 3. mgr. 2. gr. frumvarps þess sem varð að húsaleigulögum nr. 36/1994 kemur fram að þar sem um sé að ræða undantekningu frá 1. mgr. 2. gr. beri að túlka hana þröngt með hliðsjón af meginreglunni sem kemur fram í 1. mgr. Í 3. mgr. sé fyrst og fremst horft til þess þegar félög, stofnanir eða sambærilegir aðilar leigi skjólstæðingum sínum íbúðarhúsnæði. Yfirleitt myndi það vera með sérstökum og betri kjörum en almennt gengur og gerist. Þess vegna sé eðlilegt að slíkir aðilar geti sett sérstök ákvæði, skilyrði og fyrirvara í leigusamninga umfram það sem almennir leigusalar geta gert. Ekki þyki ástæða til að óttast að það svigrúm og þau frávik, sem hér eru lögð til, hafi í för með sér misnotkun og harðræði fyrir viðkomandi leigjendur. Í athugasemdunum er einnig lögð áhersla á að hér sé um þrönga undantekningarheimild að ræða. (Alþt. 1993-1994, A-deild, bls. 1081.)

Í skýringum Reykjavíkurborgar og félagsmálaráðuneytisins til mín, sbr. kafli II hér að framan, er fyrir utan ofangreind ákvæði laga nr. 97/1993 og laga nr. 44/1998 vísað til ákvæða reglugerðar nr. 873/2001, um lánveitingar til leiguíbúða, ráðstöfun þeirra og rekstur, hvað varðar réttarsamband leigjenda félagslegs leiguhúsnæðis og Félagsbústaða hf. Þessi reglugerð er sett á grundvelli 1. mgr. 34. gr., 3. mgr. 35. gr., 1. og 3. mgr. 37. gr., 5. mgr. 38. gr., 39. gr. og 50. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál. Í VIII. kafla reglugerðarinnar er fjallað um ákvörðun leigufjárhæðar og réttarstöðu leigjenda. Eins og margoft er vísað til í skýringum stjórnvalda til mín segir í 1. mgr. 30. gr. reglugerðarinnar að um samskipti leigjenda og framkvæmdaraðila gilda ákvæði húsaleigulaga. Er þetta ákvæði efnislega samhljóða áðurnefndri 1. mgr. 77. gr. laga nr. 97/1993, þar sem kveðið er á um að um samskipti leigutaka félagslegrar leiguíbúðar og framkvæmdaraðila gildi ákvæði laga um húsaleigusamninga.

V.

Eins og ráðið verður af umfjölluninni hér að framan er samspil grundvallarákvæða 45.-47. gr. laga nr. 40/1991 um skyldur sveitarfélaga til að sinna bráðum húsnæðisvanda íbúa sinna og ákvæða laga um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 97/1993 og laga nr. 40/1998, um húsnæðismál, nokkuð flókið að því er varðar mat á réttarstöðu leigjenda félagslegs leiguhúsnæðis þegar sveitarfélag eins og Reykjavíkurborg hefur ákveðið að nýta heimild 1. mgr. 38. gr. síðastnefndra laga til að stofna hlutafélag um rekstur og útleigu leiguíbúða sinna. Í þessu sambandi verður að hafa í huga við mat á stöðu leigjenda að grunnhugsunin að baki lögum nr. 40/1998 er sú að tryggja eins og kostur er raunhæfa möguleika fyrir sveitarfélög, félög eða félagasamtök til að tryggja opinbera fjármögnum fyrir byggingu félagslegs íbúða- og leiguhúsnæðis. Sveitarfélag sem tryggt hefur opinbera fjármögnum fyrir byggingu félagslegs íbúðar- og leiguhúsnæðis er þannig að framfylgja skyldum sínum samkvæmt hinu almenna ákvæði 45. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ákvæði laga nr. 44/1998, og ákvæði 1. mgr. 77. gr. laga nr. 97/1993 og 1. mgr. 30. gr. reglugerðar nr. 873/2001, eru þannig almenn í þeirri merkingu að þau beinast að öllum framkvæmdaraðilum í skilningi laga nr. 44/1998, hvort sem slíkir aðilar eru opinberir, s.s. sveitarfélög, eða einkaréttarleg félög eða félagasamtök. Þannig er almennt séð á því byggt að réttarsamband leigjenda félagslegs leiguhúsnæðis og framkvæmdaraðila, sem reist hafa íbúðarhúsnæði á grundvelli opinberrar fjármögnunar, sé reist á ákvæðum laga um húsaleigusamninga, nú húsaleigulög nr. 36/1994. Á hinn bóginn tel ég að ekki megi gleymast í þessu sambandi að í þeim tilvikum þegar einstaklingur hefur fengið úthlutað félagslegu leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi sínu er lagagrundvöllur slíkrar ákvörðunar þær opinberu og allsherjarréttarlegu skyldur er hvíla á sveitarfélaginu samkvæmt ákvæðum 45. og 46. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga til að sinna bráðum húsnæðisvanda íbúa sinna. Ég minni á að hinar opinberu skyldur sveitarfélaga í þessum efnum eru þannig áréttaðar í 5. gr. laga nr. 44/1998, þar sem kveðið er á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á og hafi frumkvæði að því að leysa húsnæðisþörf þess fólks í sveitarfélaginu sem þarfnist aðstoðar við húsnæðisöflun. Við framkvæmd þessara mála af hálfu Reykjavíkurborgar hefur hins vegar með tilvísunum til heimildar 1. mgr. 38. gr. laga nr. 44/1998 um stofnun hlutafélags í eigu sveitarfélaga um útleigu leiguíbúða og ákvæða í reglugerð nr. 873/2001 verið lagt til grundvallar að fyrir utan ákvarðanir félagsmálanefnda um úthlutun leiguíbúða og ákvarðana um að leigjendur uppfylli ekki lengur skilyrði reglna um slíkar úthlutanir, þá gildi aðeins ákvæði í húsaleigusamningi og ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 um réttarstöðu leigjendanna. Athafnir og ákvarðanir Félagsbústaða hf. í samskiptum sínum við leigjendur teljist þannig ákvarðanir einkaréttarlegs eðlis og því ekki skylt að gæta reglna stjórnsýslulaga eða óskráðra reglna stjórnsýsluréttar þegar teknar eru ákvarðanir um stöðu leigjendanna að slepptum þeim ákvörðunum sem að framan eru nefndar.

Samkvæmt ofangreindu skapast að mínu áliti það álitaefni við þessa framkvæmd hvort og þá að hvaða marki ákvæði gildandi laga nr. 40/1991, laga nr. 97/1993 og laga nr. 44/1998, sbr. og ákvæði reglugerðar nr. 873/2001, leiði til þeirra ályktana að fært sé að takmarka eða jafnvel afnema að lögum og í reynd þá réttarvernd sem leigjendur félagslegra íbúða á vegum sveitarfélaga njóta í samskiptum sínum við sveitarfélagið á grundvelli stjórnsýslulaga og óskráðra reglna stjórnsýsluréttar. Ég tek fram að við mat á þessu álitaefni og við túlkun þeirra lagareglna, sem hér á reynir, kann að þurfa að hafa í huga að þegar fallist hefur verið á að einstaklingur skuli fá úthlutað leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi, og hann hefur flutt þar inn, verður húsnæðið talið „heimili“ hans og fjölskyldu í merkingu 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Þegar sveitarfélag eða eftir atvikum hlutafélag, sem það hefur stofnað til að annast rekstur og útleigu leiguíbúða, gerir ráðstafanir í formi uppsagnar eða riftunar á leigusamningi kann slík ráðstöfun þannig að fela í sér skerðingu á rétti viðkomandi leigjanda til friðhelgi heimilis í merkingu ofangreindra ákvæða, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli McCann gegn Englandi frá 13. ágúst 2008 í máli nr. 19009/04.

Ég vek í þessu sambandi athygli á því að með því að gera alfarið ráð fyrir því að um réttindi og skyldur leigutaka, þ.e. þess einstaklings sem fengið hefur úthlutað félagslegu leiguhúsnæði hjá sveitarfélagi, sé fjallað í húsaleigusamningi við Félagsbústaði hf. og í ákvæðum húsaleigulaga eru settar tilteknar hömlur við því að leigjandinn geti nýtt þau réttarúrræði sem stjórnsýslulögin og óskráðar reglur stjórnsýsluréttar gera ráð fyrir þegar reynir á ákvarðanir Félagsbústaða hf. um uppsögn eða riftun leigusamningsins. Þegar slík mál koma fyrir dóm, t.d. í útburðarmáli, er það einkaaðilinn Félagsbústaðir hf. sem fylgir fram rétti sínum á grundvelli einkaréttarlegs samnings, húsaleigusamnings, gagnvart leigutakanum. Slík mál eru þannig ekki lögð fyrir dómstólinn með þeim hætti að honum sé falið að leysa úr málinu á grundvelli reglna um stjórnvaldsákvarðanir eða embættistakmörk yfirvalda, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Sama gildir um mat á því hvort þau lög og þær reglur sem gilda um ráðstöfun og rétt til umrædds húsnæðis veiti leigjanda félagslegs leiguhúsnæðis næga réttarvernd og hvort gætt hafa verið meðalhófs þegar ráðstafanir eru gerðar um að skerða rétt hlutaðeigandi til friðhelgi heimilis, sbr. það sem áður sagði um ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu um þau atriði.

Að þessu sögðu tek ég fram að vera kann að hafa þurfi þessi sjónarmið í huga ef talið verður að vafi leiki á því hvort fyrir hendi sé eins og lögum er háttað nægur grundvöllur til að búa svo um hnútana að um réttarstöðu leigjanda félagslegs leiguhúsnæðis, sem hann hefur fengið úthlutað hjá Reykjavíkurborg, fari alfarið eftir einkaréttarlegu mati Félagsbústaða hf. á grundvelli húsaleigusamnings og ákvæða í húsaleigulögum nr. 34/1996. Í því sambandi hef ég einkum til athugunar hvort eðli réttarsambands slíks leigjanda og Reykjavíkurborgar, að virtum ákvæðum laga nr. 40/1991, og eins og það ber að meta í ljósi áðurnefndra ákvæða 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, áskilji að við útfærslu húsaleigusamnings sé af hálfu sveitarfélagsins tryggt að leigjandi njóti í samskiptum sínum við Félagsbústaði hf. áfram sömu réttarverndar og hann nýtur annars gagnvart sveitarfélaginu, sbr. áðurnefnd heimild í 3. mgr. 2. gr. húsaleigulaga nr. 34/1996. Þá sé jafnframt tryggt að sveitarfélag, eftir atvikum félagsmálanefnd, hafi raunhæft og virkt eftirlit með samskiptum leigjenda sinna og félags sem það hefur stofnað á grundvelli 38. gr. laga nr. 44/1998 til að annast rekstur og útleigu íbúða.

VI.

Með hliðsjón af því sem ég hef rakið að framan óska ég eftir, með vísan til 7. og 9. gr. um laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir að Reykjavíkurborg veiti mér upplýsingar og skýringar á eftirfarandi:

1. Að virtri þeirri umfjöllun sem fram kemur hér að framan óska ég eftir afstöðu Reykjavíkurborgar til þess hvort 1. mgr. 77. gr. laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, og 38. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, teljist fullnægjandi lagaheimildir fyrir því fyrirkomulagi að við ákvarðanir sem teknar eru af Félagsbústöðum hf. um lok á leiguafnotum leigutaka sem fékk húsnæðinu úthlutað á grundvelli skilyrða um félagslegar aðstæður samkvæmt lögum, og ekki liggur annað fyrir en viðkomandi uppfylli þær enn, njóti leigjandi ekki þeirrar réttarverndar sem leiðir af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða óskráðum reglum stjórnsýsluréttar. Ég ítreka að í ofangreindum lagaákvæðum um rekstur félagslegs leiguhúsnæðis er fyrst og fremst vikið að því með hvaða hætti reka megi umrædda starfsemi sveitarfélaganna og að samskipti leigutaka og framkvæmdaraðila í merkingu þessara laga eigi að fara eftir þeim reglum sem kveðið er á um í húsaleigulögum nr. 36/1994.

2. Ég óska jafnframt eftir að fram komi hvernig það samrýmist þeim lagagrundvelli sem fram kemur í lögum nr. 40/1991 um úthlutun á félagslegu leiguhúsnæði og reglum stjórnsýsluréttarins að stjórnvaldsákvörðun um úthlutun á slíku húsnæði sé felld niður af hálfu einkaaðila og á einkaréttarlegum grundvelli, og þar með án þess að fylgt sé reglum um endurupptöku máls eða afturköllun stjórnvaldsákvörðunar, sbr. stjórnsýslulög. Sé það afstaða Reykjavíkurborgar í þessu sambandi að ákvarðanir Félagsbústaða hf. um uppsögn á leiguhúsnæði teljist stjórnvaldsákvarðanir óska ég eftir að Reykjavíkurborg upplýsi mig um hvar er að finna lagaheimild fyrir framsali á slíkri ákvarðanatöku til einkaréttarlegs aðila, en Reykjavíkurborg hefur talið að Félagsbústaðir hf. teljist einkaréttarlegur aðili og ekki hluti af stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Ég tel hér jafnframt rétt að vekja athygli Reykjavíkurborgar á því að af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins leiðir m.a. að framsal stjórnsýsluvalds til töku lögbundinna stjórnvaldsákvarðana frá stjórnvaldi til einkaréttarlegra aðila er aldrei heimil án þess að það liggi fyrir skýr lagaheimild þess efnis, sjá til hliðsjónar Páll Hreinsson: Valdmörk stjórnvalda. Tímarit lögfræðinga, 55. árg., 4. hefti, bls. 465—466 og 469.

3. Í kafla V. hér að framan var bent á að sú leið sveitarfélags að láta lok afnota af félagslegu leiguhúsnæði ráðast af ákvæðum í húsaleigusamningi og ákvörðunum einkaréttarlegs aðila, hlutafélags í eigu sveitarfélagsins, um að beita útburði kunni að setja tilteknar hömlur við því að leigjandinn geti nýtt þau réttarúrræði sem stjórnsýslulögin og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins gera ráð fyrir þegar reynir á ákvarðanir Félagsbústaða hf. um uppsögn eða riftun leigusamningsins. Þá var einnig vísað til þeirrar stöðu sem slíkt húsnæði kann að hafa sem heimili í merkingu ákvæða stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og þar með á kröfuna um að unnt sé að fá úr því skorið fyrir dómstólum að meðalhófs hafi verið gætt af hálfu stjórnvalds. Ég óska af þessu tilefni eftir að Reykjavíkurborg skýri hvernig hún telur að það fyrirkomulag sem nú er haft á þessum málum af hálfu borgarinnar og þá með atbeina hlutafélags borgarinnar, Félagsbústaða hf., um lok afnota leigutaka af félagslegu húsnæði samrýmist þeim reglum sem leiða af ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og þar með um möguleika til að fá með raunhæfum hætti skorið úr gildi slíkra ákvarðana fyrir dómi, þ.e. um réttinn til að halda húsnæðinu.

4. Hvernig er hagað framkvæmd á aðkomu og ákvörðunum velferðarsviðs borgarinnar að málum einstakra leigutaka áður en til þess kemur að Félagsbústaðir hf. beiti uppsögn eða riftun leigusamnings hvort sem það er í tilefni af vanskilum á leigu eða meintum brotum á húsreglum og umgengni. Ég óska eftir að fá send afrit að tilkynningum og vinnugögnum bæði frá Félagsbústöðum hf. og velferðarsviði vegna þeirra mála sem velferðarsvið fjallaði um af þessu tilefni á tímabilinu 1. september til 31. desember 2008.

5. Líkt og rakið er í kafla IV. hér að framan kemur fram á heimasíðu Félagsbústaða hf. að hlutverk Reykjavíkurborgar sé, eftir stofnun hlutafélagsins, m.a. að hafa eftirlit með gæðum þeirrar þjónustu sem Félagsbústaðir hf. veita einstaklingum. Ég óska því eftir upplýsingum um hvernig Reykjavíkurborg hafi, í tengslum við eftirlitsskyldu sína, skilgreint með hvaða hætti Félagsbústaðir hf. þurfa að starfa til þess að starfsemin sé í samræmi við lög og ef svo er hvort þau skilyrði hafi verið skráð. Ef Reykjavíkurborg hefur ekki skilgreint framangreint óska ég eftir því með hvaða hætti Reykjavíkurborg tryggir að Félagsbústaðir hf. starfi í samræmi við lög í samskiptum sínum við leigjendur félagslegs leiguhúsnæðis á vegum borgarinnar.

6. Ég óska jafnframt eftir að Reykjavíkurborg veiti mér upplýsingar um hvernig eftirliti borgarinnar með starfsemi Félagsbústaða hf. er háttað. Í þessu sambandi óska ég sérstaklega eftir að mér verði veittar upplýsingar um hvort borgin hafi að eigin frumkvæði eftirlit með því hvort starfshættir Félagsbústaða hf. eru í samræmi við þær reglur sem gilda um félagslegt leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga, sbr. t.d. þær kröfur sem ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála gera til meðalhófs við uppsögn á félagslegu leiguhúsæði. Ég óska jafnframt eftir að mér verði veittar upplýsingar um hvert þeir einstaklingar sem Reykjavíkurborg hefur úthlutað félagslegu leiguhúsnæði og hafa athugasemdir við starfshætti Félagsbústaða hf., þ.m.t. framkomu eða athafnir starfsmanna, geti leitað innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar. Í þessu sambandi óska ég m.a. eftir að borgin veiti mér upplýsingar um hvort einstaklingum séu upplýstir um hvert þeir geti leitað og með hvaða hætti Reykjavíkurborg rannsakar hvort athugasemdir þeirra eigi við rök að styðjast. Ég minni í þessu sambandi á að ákvarðanir sem Reykjavíkurborg tekur, þ.m.t. synjun um úthlutun á félagslegu leiguhúsnæði, samkvæmt lögum nr. 40/1991 eru kæranlegar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Þá verður ákvörðunum húsnæðisnefnda sem starfa samkvæmt lögum nr. 44/1998 skotið til kærunefndar húsnæðismála. Þarna er því fylgt þeirri almennu reglu að borgararnir geti leitað endurskoðunar á ákvörðunum stjórnvalds hjá sérstökum kærunefndum sem koma í stað hins hefðbundna æðra stjórnvalds að þessu leyti og fara með stjórnsýslueftirlit. Um almenn atriði við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna er hliðstætt eftirlit í höndum samgönguráðuneytisins.

7. Í tengslum við eftirlit Reykjavíkurborgar með Félagsbústöðum hf. óska ég að lokum eftir því hvort Reykjavíkurborg hefur tekið afstöðu til þess með hvaða hætti brugðist yrði við ef rannsókn máls leiddi í að Félagsbústaðir hf. hefðu ekki starfað samkvæmt lögum eða framkoma starfsmanna gagnvart leigjendum félagslegs leiguhúsnæði teldist ekki ásættanleg og hvaða afleiðingar slík niðurstaða gæti haft um endurskoðun á ákvörðunum starfsmanna og stjórnar Félagsbústaða hf.

Ég óska þess að svar Reykjavíkurborgar ásamt nauðsynlegum gögnum verði sent umboðsmanni Alþingis eigi síðar en 9. febrúar nk.