Opinberir starfsmenn. Staða opinbers starfsmanns sem dómkvaddur er sem kunnáttumaður til aðstoðar við skýrslutöku fyrir dómi. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 5286/2008)

Til umboðsmanns leitaði A vegna skrásetningar og upplýsingagjafar starfsmanns Barnahúss, sem er undirstofnun barnaverndarstofu, um skýrslutöku yfir dóttur sinni fyrir dómi sem fram fór við héraðsdóm X. Laut skrásetning og upplýsingagjöf umrædds starfsmanns að atriðum sem komu fram í lokuðu þinghaldi við skýrslutöku fyrir dómi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Samkvæmt gögnum málsins var viðkomandi einstaklingur, sem jafnframt er starfsmaður Barnahúss, kvaddur til af dómara sem kunnáttumaður til aðstoðar við skýrslutökuna, sbr. 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991. Í bréfi umboðsmanns til forstjóra barnaverndarstofu, ríkissaksóknara og formanns dómstólaráðs, tók umboðsmaður fram að af gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en að dómari hefði kvatt viðkomandi til starfa sem sjálfstæðan kunnáttumann á þessu sviði en ekki sem starfsmann Barnahúss. Umrædd upplýsingagjöf hefði farið fram í formi samantektar sem þessi einstaklingur hefði ritað að lokinni skýrslutökunni en eintak af samantektinni hefði borist þeim sem leitaði til umboðsmanns frá fjölskyldudeild hlutaðeigandi sveitarfélags sem færi með barnaverndarmál þar. Eftir athugun umboðsmanns á málinu varð niðurstaða hans sú að ljúka athugun sinni á því með bréfi til barnaverndarstofu, ríkissaksóknara og dómstólaráðs, dags. 31. desember 2008.

Umboðsmaður taldi, m.a. í ljósi b-liðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að málið væri á mörkum þess að falla undir starfssvið umboðsmanns Alþingis. Beindi umboðsmaður því athugun sinni að því hvort umræddur starfsmaður Barnahúss hefði að lögum haft formlega heimild til þeirrar skrásetningar og dreifingar á efni skýrslutökunnar sem um ræddi.

Umboðsmaður benti á að vandinn í málinu væri sá að umræddur einstaklingur sem sinnt hefði störfum í þágu dómstólsins sem kunnáttumaður ritaði minnispunkta sína um það sem fram fór í hinu lokaða réttarhaldi á bréfsefni Barnahúss og ritaði undir þá „f.h. Barnahúss“. Gagnvart þeim sem fengi slíka minnispunkta í hendur eða ætti að öðru leyti hagsmuna að gæta vegna umræddrar skýrslutöku væri nærtækast að líta svo á að þarna væri um að ræða skjal sem ritað væri á vegum þeirrar opinberu stofnunar sem Barnahúss er og þar með á ábyrgð yfirstjórnar þess, þ.e. barnaverndarstofu. Af því tilefni taldi umboðsmaður rétt að leggja málið í þann farveg að upplýsa dómstólaráð, ríkissaksóknara og barnaverndarstofu um það og koma jafnframt þeirri ábendingu á framfæri við þessa aðila að sérstaklega yrði gætt að því hvaða stöðu þeir einstaklingar hefðu sem dómari kvæði til starfa sem kunnáttumenn við skýrslutökur samkvæmt 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991 og væru jafnframt starfsmenn barnaverndaryfirvalda, þ.m.t. Barnahúss, og um skil á milli starfa þeirra og upplýsingagjafar, annars vegar í þágu dómsins og hins vegar gagnvart barnaverndaryfirvöldum. Tók umboðsmaður fram að hér kynni að vera tilefni til þess að ofangreindir aðilar hefðu með sér samráð um fyrirkomulag þessara mála innan þess ramma sem lög settu og settar yrðu nánari reglur um þessi mál af hálfu þar til bærs opinbers aðila. Óskaði umboðsmaður eftir því að sér yrði kynnt það ef framangreindar ábendingar yrðu tilefni viðbragða og þá hver þau yrðu.

Í bréfi umboðsmann Alþingis, dags. 31. desember 2008, til forstjóra barnverndarstofu, ríkissaksóknara og formanns dómstólaráðs sagði m.a svo.:



...



Í tilefni af kvörtun mannsins skrifaði ég barnaverndarstofu bréf þar sem ég spurðist m.a. fyrir um hvort það væri almenn framkvæmd hjá barnaverndarstofu að starfsfólk á vegum hennar eða undirstofnana hennar tækju saman eigin skýrslur á borð við ofangreinda minnispunkta um skýrslutökur fyrir dómi sem starfsfólkið kæmi að sem kunnáttumenn til aðstoðar dómara, sbr. ofangreind ákvæði laga um meðferð opinberra mála. Ég óskaði þá upplýsinga um tilgang slíkrar skráningar og hvaða heimild stæði til hennar að lögum. Þá óskaði ég upplýsinga um það hvort og þá hvaða reglum væri fylgt um aðgang og dreifingu á slíkum gögnum. Ég óskaði í sérstaklega eftir upplýsingum um það hvaða ástæða hafi legið að baki því að minnispunktarnir voru sendir fjölskyldudeild Akureyrarbæjar.



Svar barnaverndarstofu við fyrri spurningu minni var efnislega það að stofnunin gæti staðfest að vinnureglur gengju út frá því að þegar barnaverndarnefnd hefði sent tilvísun til Barnahúss og óskað eftir skýrslutöku af barni þá væru ætíð ritaðir minnispunktar um skýrslutökuna í því augnamiði að senda þá nefndinni. Þetta ætti við „óháð því hvort lögreglurannsókn [færi] einnig fram og skýrslutakan [hefði] farið fram undir stjórn dómara“. Afstaða Barnaverndarstofu var einnig sett fram með þeim orðum að þarna hefði „jafnframt verið í gangi barnaverndarmál skv. ákvæðum barnaverndarlaga“ og að líta mætti svo á að skýrslutakan hefði „að sínu leyti“ einnig farið fram sem liður í rannsókn barnaverndarmálsins. Barnaverndarstofa taldi „ótvíræða heimild“ standa til þessarar skráningar og upplýsingagjafar í 44. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um tilgang með skráningu og dreifingu á minnispunktunum vísaði barnaverndarstofa sérstaklega til þess að barnaverndaryfirvöld þyrftu oft að grípa skjótt til aðgerða til verndar barni, sem nefnd voru dæmi um. Yrði að meta þörfina á slíku eins fljótt og unnt væri að lokinni skýrslutöku og ekki væri hægt að bíða eftir endurriti sem tæki „alla jafna nokkrar vikur að fá“.



...



III.



Við athugun mína á ofangreindri kvörtun hef ég litið svo á að aðalálitaefni málsins sé hvort þeir úr hópi starfsmanna barnaverndarstofu og stofnana hennar sem dómarar kveðja til sem „kunnáttumann“ samkvæmt heimildarákvæði fyrsta málsliðar 7. mgr. 59. gr. laga um meðferð opinberra mála við skýrslutöku samkvæmt a-lið 1. mgr. 74. gr. a. sömu laga hafi almennt að lögum heimild til að skrásetja og afhenda þriðja aðila upplýsingar um það sem fram fer við skýrslutökuna. Ljóst er að þinghaldið þar sem skýrslutakan fór fram var lokað þinghald, sbr. svör dómarans til mín hér að framan, b-lið 1. mgr. 8. gr. laga um meðferð opinberra mála og 3. gr. reglugerðar nr. 321/1999. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um meðferð opinberra mála er óheimilt að skýra opinberlega frá því sem fram fer í lokuðu þinghaldi nema dómari leyfi. Sú regla bindur eðli málsins samkvæmt alla þá sem í hlut eiga í viðkomandi þinghaldi. Dómarinn sem skýrði skýrslutökunni hefur upplýst að ekkert líkt leyfi var veitt í þessu tilviki.



Af þeim gögnum málsins sem liggja fyrir mér verður ekki annað ráðið en að sá starfsmaður Barnahúss sem var dómara við aðstoðar sem kunnáttumaður umrætt sinn hafi verið kölluð til persónulega vegna sérþekkingar sinnar en ekki beint á grundvelli starfa sinna eða stöðu hjá barnaverndaryfirvöldum. Ég hef áður rakið afstöðu barnaverndarstofu til þess hvaða heimildir starfsmaður Barnahúss hafi í þessu tilviki haft til að rita og senda frá sér minnispunkta um það sem fram fór í hinu lokaða réttarhaldi. Ég tek fram að fæ ekki séð af orðalagi fyrsta málsliðar 7. mgr. 59. gr. laga um meðferð opinberra mála svo að þar sé gert ráð fyrir að heimild dómara til að fá aðstoð kunnáttumanns sé á nokkurn hátt bundin að þessu leyti. Getur hann samkvæmt því leitað aðstoðar hjá hverjum þeim sem hann telur rétt að fela verkið. Dómari er þannig ekki að lögum bundinn við að leita eftir kunnáttumanni með tiltekna getu eða menntun eða úr einhverjum tilteknum hópi, þ. á m. ekki úr röðum starfsfólks barnaverndaryfirvalda. Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 321/1999 eru tekin dæmi af sérþjálfuðum sálfræðingi eða lögreglumanni í þessu sambandi.



Ég bendi á að í 17. gr. reglugerðar nr. 321/1999, sem sett er með heimild í 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991 og mælir nánar fyrir um skýrslutökur sem þessar, er ekki gert ráð fyrir öðrum gögnum um þinghöldin en endurrit úr þinghaldinu og, eftir atvikum samkvæmt nánari ákvörðun dómara, myndbandsupptöku.



Í tilefni af svörum barnaverndarstofu sem vitnað var til hér að framan tel ég einnig rétt að geta þess að barnaverndaryfirvöldum er að lögum sérstaklega tryggður réttur til að vera viðstödd skýrslutökur eins og þá sem hér um ræðir, sbr. 2. mgr. 18. gr. barnaverndarlaga og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 321/1991. Ljóst er af ofangreindum svörum dómarans til mín að fulltrúi fjölskyldudeildar Akureyrar fylgdist með skýrslutökunni sem hér um ræðir. Viðveru fulltrúans er raunar einnig getið í minnispunktum Barnahúss, dags. 26. febrúar 2007.



Í svörum barnaverndarstofu til mín er einnig vikið að nauðsyn þess að barnaverndaryfirvöldum berist eins fljótt og unnt er upplýsingar um efni skýrslna ætlaðra brotaþola við þessar aðstæður og staðhæft að bið eftir endurritum úr þinghöldum taki alla jafna nokkrar vikur. Í þessu sambandi tel ég tilefni til þess í fyrsta lagi að vísa aftur til þess að þar sem barnaverndarnefnd hefur að lögum rétt til að láta fulltrúa sinn vera viðstaddan skýrslutöku, og gerði það í raun í þessu tilviki, verður að líta svo á að hún hafi í raun aðgang að þessum upplýsingum frá upphafi. Í öðru lagi vek ég athygli á því að þinghaldið fór fram 12. febrúar 2007 en minnispunktar Barnahúss um skýrslutökuna eru dagsettir tveimur vikum síðar eða 26. febrúar s.á. Ekki kemur fram hvenær eftir að þeir voru skráðir þeir voru sendir fjölskyldudeild Akureyrar. Samkvæmt upplýsingum dómarans sem stýrði skýrslutökunni var endurrit þinghaldsins tilbúið og sent lögreglustjóra tveimur dögum eftir þinghaldið, eða 14. febrúar s.á. Þá hefur dómarinn upplýst að lagt sé kapp á að hraða endurritsgerð við þessar kringumstæður.



IV.



Eins og ég greindi frá hér að framan taldi ég ljóst við athugun mína á málinu að það væri á mörkum þess að falla undir starfssvið umboðsmanns Alþingis. Ég hef einnig gert grein fyrir þeirri afstöðu minni að ekki verði litið svo á að sá starfsmaður Barnahúss sem hér um ræðir hafi í stöðu sinni sem kunnáttumaður samkvæmt fyrsta málslið 7. mgr. 59. gr. laga um meðferð opinberra mála komið fram sem starfsmaður barnaverndaryfirvalda heldur lúti þessi sérstaka staða alfarið ákvörðun viðkomandi dómara og viðeigandi ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla á sviði sakamálaréttarfars. Vandinn í málinu er hins vegar sá að umræddur einstaklingur sem sinnt hafði þarna störfum í þágu dómstólsins sem kunnáttumaður ritaði minnispunkta sína um það sem fram fór í hinu lokaða réttarhaldi á bréfsefni Barnahúss og ritaði undir þá „f.h. Barnahúss“. Gagnvart þeim sem fá slíka minnispunkta í hendur eða eiga að öðru leyti hagsmuna að gæta vegna umræddrar skýrslutöku er nærtækast að líta svo á að þarna sé um að ræða skjal sem ritað er á vegum þeirrar opinberu stofnunar sem Barnahús er og þar með á ábyrgð yfirstjórnar þess, þ.e. barnaverndarstofu.



Eins og óbeint má ráða af ofangreindri umfjöllun hefur athugun mín á málinu ekki með neinum hætti beinst að sjálfu efni minnispunkta Barnahúss, dags. 26. febrúar 2007. Ég hef því ekki athugað né tekið neina afstöðu til þess hvort og þá að hvaða marki þeir hafi falið í sér hlutlæga og að öðru leyti fullnægjandi endursögn á því sem fram kom við skýrslutökuna 12. febrúar 2007.



Eins og frá greindi í upphafi bréfs þessa taldi ég rétt með tilliti til atvika í máli þessu og starfssvið umboðsmanns að leggja þetta mál í þann farveg að upplýsa dómstólaráð, ríkissaksóknara og barnaverndarstofu um það og koma jafnframt þeirri ábendingu á framfæri við þessa aðila að sérstaklega verði gætt að því hvaða stöðu þeir einstaklingar hafa sem dómari kveður til starfa sem kunnáttumenn við skýrslutökur samkvæmt 7. mgr. 59. gr. laga um meðferð opinberra mála og eru jafnframt starfsmenn barnaverndaryfirvalda, þ.m.t. Barnahúss, og um skil á milli starfa þeirra og upplýsingagjafar, annars vegar í þágu dómsins og hins vegar gagnvart barnaverndaryfirvöldum. Hér kann að vera tilefni til þess að ofangreindir aðilar hafi með sér samráð um fyrirkomulag þessara mála innan þess ramma sem lög setja og settar verði nánari reglur um þessi mál af hálfu þar til bærs opinbers aðila.



Það er að síðustu ósk mín að mér verði kynnt ef framangreindar ábendingar verða tilefni viðbragða af hálfu þeirra aðila sem bréfi þessu er beint til og þá hver þau verða. Ég hef þá sérstaklega í huga að geta greint frá þeim í árlegri skýrslu umboðsmanns til Alþingis samhliða frásögn af bréfi þessu. Gert er ráð fyrir að skýrsla fyrir árið 2008 verði búin til prentunar í júnímánuði nk.