Sveitarfélög. Meðferð valds og eftirlit vegna eignaraðildar að Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirspurn.

(Mál nr. 5117/2007 )

Umboðsmaður ritaði bréf, dags. 31. desember 2008, þar sem hann lagði spurningar í fjórum töluliðum fyrir borgarstjórn Reykjavíkur. Í bréfi umboðsmanns kom fram að hann hefði upphaflega sent borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Akranesbæjar og sveitarstjórn Borgarbyggðar bréf, dags. 9. október 2007, þar sem hann setti fram tilteknar spurningar vegna meðferðar þess valds og eftirlits sem sveitastjórnirnar færu með sem yfirstjórnir þeirra sveitarfélaga sem væru eignaraðilar að Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og hvaða þýðingu reglur um stjórnsýslu sveitarfélaga og ráðstöfun eigna þeirra hefði í þessu sambandi. Tilefni bréfsins voru frásagnir í fjölmiðlum um stofnun dótturfélags OR, Reykjavík Energy Invest (REI), samninga um meðferð eignarhluta í því félagi og samþykkt eigendafundar OR um sameiningu þess félags við annað félag í eigu einkaaðila. Voru fyrirspurnir umboðsmanns settar fram með það í huga hvort tilefni væri til þess að hann tæki tiltekin atriði málsins til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Í bréfi umboðsmanns, dags. 31. desember 2008, er atburðarrás frá ritun bréfs hans, dags. 9. október 2007, að nokkru rakin. Þar er m.a. rakin stofnun sérstaks stýrihóps og sú tillaga stýrihópsins að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gera stjórnsýsluúttekt á OR. Í bréfi umboðsmanns kemur fram að vegna efnis skýrslu stýrihópsins og þeirra tillagna sem þar voru settar fram sem og fyrri svara Reykjavíkurborgar í bréfi, dags. 30. október 2008, hefði hann ákveðið að rita borgarstjórn Reykjavíkur bréf vegna þessa máls, dags. 22. febrúar 2008. Í síðastnefnda bréfinu hafði umboðsmaður óskað eftir upplýsingum frá borgarstjórn Reykjavíkur um hvort einhverjar breytingar hefðu verið ákveðnar eða væru fyrirhugaðar á samþykktum borgarinnar eða reglum sem fylgt væri við stjórnun hennar eða OR og lytu að þeim atriðum sem fyrirspurnir hans í bréfinu frá 9. október 2007 hefðu beinst að eða um væri fjallað í lokaskýrslu stýrihóps borgarráðs, dags. 7. febrúar 2007. Í bréfi umboðsmanns er m.a. svar borgarráðs rakið.
Í bréfi umboðsmanns, dags. 31. desember 2008, kemur fram að honum hefðu ekki verið kynntar frekari ákvarðanir eða ráðagerðir um breytingar á reglum um meðferð eigendavalds sveitarfélaganna innan OR eða um stöðu fyrirtækisins almennt frá því að honum hefðu borist svör við bréfi sínu, dags. 22. febrúar 2008. Ástæða þess að hann hefði beðið með að ljúka athugun sinni á þessu máli væri einkum sú að í samræmi við þá starfsvenju umboðsmanns Alþingis að gefa stjórnvöldum hæfilegan tíma til að ráðast í boðaðar breytingar og endurskoðun hefði hann talið rétt að sjá hver yrði framvinda ráðagerðar um breytingar á reglum og fyrirkomulagi mála og því er varðar OR á grundvelli tillagna stýrihóps borgarráðs og þar með úrvinnslu stjórnar OR á þeim í samræmi við samþykkt eigendafundar OR 15. febrúar 2008. Í bréfi umboðsmanns kom fram að hann fengi ekki annað séð af þeim upplýsingum sem hann hefði aflað um framgang þessa máls í kjölfar skýrslu og tillagna stýrihóps borgarráðs, og þrátt fyrir afstöðu a.m.k. Reykjavíkurborgar sem eiganda að meiri hluta OR og hvernig málið var afgreitt á fundi eigenda OR 15. febrúar 2008, en að enn kynni af hálfu eigenda OR að vera uppi sú sama staða og fram kom við vinnu stýrihópsins um að OR væri ýmist talin starfa á sviði einkaréttar eða á sviði opinberrar stjórnsýslu. Hann teldi því nauðsynlegt áður en mál þetta kæmi til lokavinnslu hjá sér að óska eftir upplýsingum og gögnum, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, sem nánar eru rakin í bréfinu.

Í bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 31. desember 2008, til borgarstjórnar Reykjavíkur sagði:



Með bréfi sem ég sendi borgarstjórn Reykjavík, bæjarstjórn Akranesbæjar og sveitarstjórn Borgarbyggðar 9. október 2007 setti ég fram tilteknar spurningar vegna meðferðar þess valds og eftirlits sem sveitarstjórnirnar fara með sem yfirstjórnir þeirra sveitarfélaga sem eru eignaraðilar að Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og hvaða þýðingu reglur um stjórnsýslu sveitarfélaga og ráðstöfun eigna þeirra hafi í þessu sambandi. Tilefni bréfsins voru frásagnir sem þá höfðu komið fram í fjölmiðlum um stofnun dótturfélags OR, Reykjavik Energy Invest (REI), samninga um meðferð eignarhluta í því félagi og samþykkt eigendafundar OR um sameiningu þess félags við annað félag í eigu einkaaðila. Fyrirspurnir mínar voru eins og sagði í bréfinu settar fram með það í huga hvort tilefni væri til þess að ég tæki tiltekin atriði málsins til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Svör sveitarstjórnanna við þessu bréfi mínu bárust mér með bréfum, dags. 27., 29., 30. október 2007.



Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja í þessu bréfi þá atburðarás sem varð í framhaldinu og leiddi til þess að eigendafundur OR samþykkti í framhaldi af starfi sérstaks stýrihóps sem borgarráð Reykjavíkur setti á laggirnar og samþykkt borgarráðs 1. nóvember 2007 að fella úr gildi þær ákvarðanir sem teknar höfðu verið um samruna REI við annað félag og fleiri samninga sem gerðir höfðu verið af því tilefni. Á þessum fundi borgarráðs var einnig samþykkt að tillögu stýrihópsins að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að gera stjórnsýsluúttekt á Orkuveitu Reykjavíkur og átti m.a. að fjalla um stjórnskipulag og ábyrgð verkefna, hvort ábyrgð og hlutverk stjórnar, stjórnenda og starfsmanna væri skýr. Þá yrði farið yfir hvernig OR hefði staðið að stofnun félaga og hvernig eftirliti með slíkum félögum væri háttað. Umræddur stýrihópur borgarráð hélst síðan áfram störfum og skilaði hinn 7. febrúar 2008 skýrslu til borgarráðs. Var skýrslan lögð fram á fundi borgarráðs þann dag og í bókun borgarráðs um hana sagði m.a.:



„Borgarráð lýsir stuðningi við skýrslu stýrihópsins og þær tillögur sem þar koma fram og hafa það einkum að markmiði að treysta enn frekar stjórnsýslu á vettvangi Orkuveitu Reykjavíkur, tryggja góð vinnubrögð og betri aðkomu kjörinna fulltrúa, fyrir hönd eigenda fyrirtækisins, að stórum ákvörðunum. Borgarráð þakkar fulltrúum í stýrihópnum, starfsmanni hans og öðrum sem komu að þessu umfangsmikla starfi, vel unnin störf og væntir góðrar samstöðu um aðgerðir sem boðaðar eru í skýrslu hópsins.“



Fjallað var að nýju um lokaskýrslu stýrihóps borgarráðs um málefni REI og OR á fundi borgarráðs 14. febrúar 2008 og í fundargerð þessa fundar segir:



„Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að fylgja eftir niðurstöðum í skýrslu stýrihópsins og leggja nánari útfærslu fyrir borgarráð til afgreiðslu eftir því sem þörf krefur.“



Vegna efnis skýrslu stýrihópsins og þeirra tillagna sem þar voru settar sem fyrri svara Reykjavíkurborgar í bréfi, dags. 30. október 2008, ákvað ég að rita borgarstjórn Reykjavíkur bréf vegna þessa máls, dags. 22. febrúar 2008, en bréf þetta var einnig kynnt sveitarstjórnum annarra sveitarfélaga sem eru eignaraðilar að OR. Í lok bréfs mín óskaði ég eftir upplýsingum frá borgarstjórn Reykjavíkur um hvort einhverjar breytingar hefðu verið ákveðnar eða væru fyrirhugaðar á samþykktum borgarinnar eða reglum sem fylgt væri við stjórnun hennar eða OR og lytu að þeim atriðum sem fyrirspurnir mínar í bréfinu frá 9. október 2007 hefðu beinst að eða um væri fjallað í lokaskýrslu stýrihóps borgarráðs, dags. 7. febrúar 2007.



Í svari borgarráðs við þessari spurningu minni er vitnað til áðurnefndra bókana á fundum borgarráðs 7. og 14. febrúar 2008 auk þess sem fram kemur að á eigendafundi OR sem haldinn var 15. febrúar 2008 hafi stjórn OR verið falin meðferð þeirra tillagna sem fram komu í skýrslu stýrihóps borgarráðs varðandi eftirfarandi atriði:



„Mótun framtíðarstefnu fyrir Orkuveitu Reykjavíkur.



Farið verði yfir lagaumhverfi fyrirtækisins, sameignarsamning og starfsreglur stjórnar. Skoðað verði hlutverk kjörinna fulltrúa og umboð stjórnarmanna og aðgangur þeirra að upplýsingum og með hvaða hætti samstarfi þessara aðila við stjórnendur verði best háttað.“



Þá kemur fram í svarinu að stjórn OR hafi samþykkt 15. febrúar 2008 að ráðast í umrædda stefnumótun.



Stjórnsýsluúttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborg um OR var lögð fram á fundi borgarráðs 11. september 2008 og í bókun borgarráðs af því tilefni segir m.a. um úttektina að þar komi „fram með margar gagnlegar tillögur og ábendingar sem munu gagnast bæði eigendum og stjórn Orkuveitunnar við framtíðaruppbyggingu og stefnumótun fyrirtækisins þar sem lögð verður áhersla á góða þjónustu, árangur og jafnvægi í rekstrinum.“ Þá segir í bókuninni:



„Borgarráð vill árétta þá sátt sem náðst hefur um fyrirtækið og birtist í lokaskýrslu stýrihóps um málefni REI og Orkuveitunnar, en hún fól m.a. í sér að Orkuveitan verði áfram í eigu almennings, gagnsæi verði tryggt í stjórnsýslu og upplýsingagjöf auk þess sem lýðræðislegt aðhald verði tryggt með skýrri aðkomu kjörinna fulltrúa. Borgarráð vísar úttektinni til áframhaldandi umræðu og skoðunar á vettvangi stjórnar OR.“



Í svari borgarlögmanns við bréfi mínu, dags. 9. október 2007, kom m.a. fram sú afstaða að OR væri samkvæmt lögum sameignarfyrirtæki og starfaði „nú á sviði einkaréttar.“ Var síðan vísað t.d. til þess að ákvæði upplýsingalaga og stjórnsýslulaga ættu ekki við slíka einkaaðila þótt þeir æru í eigu opinberra aðila. Í tillögum stýrihóps borgarráðs frá 7. febrúar 2008 sagði m.a.:



„Í vinnu stýrihópsins hefur komið fram að Orkuveitan er ýmist talin starfa á sviði einkaréttar eða á sviði opinberrar stjórnsýslu. Stýrihópurinn er sammála um þá meginreglu að þau fyrirtæki eða stofnanir sem reknar eru fyrir opinbert fé og í þágu almennings eigi að lúta almennum reglum um opinbera stjórnsýslu svo lýðræðislegt aðhald sé ekki fyrir borð borið. Hópurinn leggur því til að í samvinnu Orkuveitunnar og eigenda verði farið yfir lagaumhverfi fyrirtækisins, samstarfssamning um það sem og starfsreglur stjórnar og stjórnenda sem gilda um ákvarðanatöku og rekstur Orkuveitunnar.“



Ég tel líka rétt að vekja athygli á því að í lok tillagna stýrihópsins kemur fram að það sé tillaga hópsins að skýrslan hans verði kynnt helstu stjórnum og fyrirtækjum borgarinnar ássamt lykilstofnunum og embættismönnum. Síðan segir að í framhaldi af því verði skrifstofu borgarstjórnar falið að halda niðurstöðum og tillögum skýrslunnar til haga við mögulega endurskoðun á samþykktum borgarinnar.



Ég tek það fram að af hálfu eigenda OR hafa mér ekki eftir að mér bárust svör við bréfi mínu, dags. 22. febrúar 2008, verið kynntar frekari ákvarðanir eða ráðgerðir um breytingar á reglum um meðferð eigendavalds sveitarfélaganna innan OR eða um stöðu fyrirtækisins almennt. Ástæða þess að ég hef beðið með að ljúka athugun minni á þessu máli er einkum sú að í samræmi við þá starfsvenju umboðsmanns Alþingis að gefa stjórnvöldum hæfilegan tíma til að ráðast í boðaðar breytingar og endurskoðun hef ég talið rétt að sjá hver yrði framvinda ráðagerða um breytingar á reglum og fyrirkomulagi mála að því er varðar OR á grundvelli tillagna stýrihóps borgarráðs og þar með úrvinnslu stjórnar OR á þeim í samræmi við samþykkt eigendafundar OR 15. febrúar 2008.



Það vakti líka athygli mína að þrátt fyrir það sem sagði hér að framan um afstöðu og tillögur stýrihóps borgarráðs um þá meginreglu að þau fyrirtæki og stofnanir sem reknar eru fyrir opinbert fé og í þágu almennings eigi að lúta almennum reglum um opinbera stjórnsýslu kom þegar unnið var að ráðningu nýs forstjóra OR fyrr á þessu ári að ekki yrðu veittar upplýsingar um nöfn umsækjenda um starfið í samræmi við reglu upplýsingalaga. Með fylgdi að OR félli ekki undir lögin en þau gilda um stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.



Ég hafði vonast til þess að geta á þessu ári lokið athugun minni á því máli sem ég hóf með bréfi mínu, dags. 9. október 2007, og þá að teknu tilliti til þeirra breytinga sem orðið hefðu bæði á atvikum málsins í kjölfar þess að fallið var frá þeim samningum og sameiningum félaga sem urðu tilefni fyrirspurna minna og á reglum og starfsháttum um meðferð eigendavalds innan OR og um stöðu OR almennt í ljósi reglna um sveitarfélög og stjórnsýslu þeirra. Ég fæ hins vegar ekki annað séð af þeim upplýsingum sem ég hef aflað um framgang þessa máls í kjölfar skýrslu og tillagna stýrihóps borgarráðs, og þrátt fyrir afstöðu að minnsta kosti Reykjavíkurborgar sem eiganda að meiri hluta OR og hvernig málið var afgreitt á fundi eigenda OR 15. febrúar 2008, en að enn kunni af hálfu eigenda OR að vera uppi sú sama staða og fram kom við vinnu stýrihópsins um að OR sé ýmist talin starfa á sviði einkaréttar eða á sviði opinberrar stjórnsýslu. Ég tel því nauðsynlegt áður en mál þetta kemur til lokavinnslu hjá mér að óska eftir, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að borgarstjórn Reykjavíkur láti mér í té upplýsingar og viðeigandi gögn um eftirfarandi:



1. Hvernig hefur eftirfarandi tillögu stýrihóps borgarráðs verið fylgt eftir innan OR og þá með ákvörðunum eigendafunda OR: „Stýrihópurinn er sammála um þá meginreglu að þau fyrirtæki eða stofnanir sem reknar eru fyrir opinbert fé og í þágu almennings eigi að lúta almennum reglum um opinbera stjórnsýslu.“



2. Er það afstaða borgarstjórnar að OR „eigi að lúta almennum reglum um opinbera stjórnsýslu“ og ef svo er hvaða áform eru uppi um að gera breytingar á reglum um OR til að fylgja því eftir.



3. Með tilliti til þess sem rakið var hér að framan um þá tillögu stýrihópsins að skýrsla hópsins yrði kynnt helstu stjórnum og fyrirtækjum borgarinnar óska ég eftir upplýsingum hvort það hafi verið gert og þá hvernig, og hvort einhverjar breytingar hafi verið gerðar á reglum eða starfsháttum fyrirtækja borgarinnar af því tilefni.



4. Að síðustu óska ég eftir upplýsingum hvort gerðar hafi verið einhverjar þær breytingar á reglum um meðferð borgarstjóra á atkvæðisrétti borgarinnar á eigendafundum OR, reglum um starfsemi OR eða dótturfélaga OR sem komi í veg fyrir að ákvarðanir eða samningar sambærilegir þeim sem borgarráðs féllst ekki á, sbr. samþykkt borgarráðs 1. nóvember 2007, verðir gerðir aftur án þess að sveitarstjórnir eigenda OR hafi tekið formlega afstöðu til þeirra fyrirfram, þ.m.t. um kauprétt starfsmanna á hlutabréfum í dótturfélögum OR og sölu á eignarhlutum í þeim til einkaaðila/einstakling án auglýsinga.



Eins og ég tók fram í upphafi mun ég senda afrit af bréfi þessu til sveitarstjórna þeirra sveitarfélaga sem eru auk Reykjavíkurborgar eignaraðilar að OR og gefa þeim kost á að senda mér athugasemdir sínar og skýringar í tilefni af þeim fyrirspurnum sem ég hef hér að ofan beint til borgarstjórnar Reykjavíkur.



Það er ósk mín að svar við bréfi þessu verði sent mér eigi síðar en 10. febrúar nk. Ég tek að síðustu fram að þrátt fyrir að ég muni 1. janúar nk. fá leyfi frá daglegum störfum umboðsmanns Alþingis til að sinna sem umboðsmaður starfi í þeirri rannsóknarnefnd sem Alþingi hefur stofnað til með lögum nr. 142/2008 mun ég í samræmi við 19. gr. þeirra laga um breytingu á 14. gr. laga nr. 85/1997 ljúka afgreiðslu á þessu máli nema ég ákveði annað síðar, sbr. bréf forseta Alþingis, dags. 22. desember 2008.