Stjórnun fiskveiða. Úthlutun veiðiheimilda til smábáta. Mæling báta. Jafnræðisregla.

(Mál nr. 712/1992)

Máli lokið með áliti, dags. 28. apríl 1994.

A kvartaði yfir synjun sjávarútvegsráðuneytisins á að leiðrétta veiðiheimildir fyrir bát hans M SF, og byggði á því, að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar við afgreiðslu málsins.

Í fyrsta lagi taldi A, að hann hefði ekki átt kost á meðalaflahlutdeild báta í sama stærðarflokki og M SF, með sama hætti og tiltekinn bátur, X HU. Um X HU er fjallað í SUA 1992.290. Niðurstaða umboðsmanns um þennan lið í kvörtun A var, að reglur þær sem áttu við um bátinn X, hefðu ekki átt við um M, þar sem smíði M hófst ekki fyrir gildistöku laga nr. 3/1988, eins og smíði X. Þar sem ólíkar lagareglur giltu um úthlutun veiðileyfis og veiðiheimilda til X HU annars vegar og M SF hins vegar, taldi umboðsmaður, að vegna þess hve ólíkt háttaði til um bátana, yrði ekki sagt, að með úthlutun veiðiheimilda til X hefði verið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar gagnvart A. Sömu sjónarmið áttu við um bátinn Þ RE og úthlutun veiðiheimilda til hans.

Í öðru lagi laut kvörtun A að mælingu bátsins M, en miða bar ákvörðun um veiðileyfi við mælingu bátsins, eins og hún var skráð hjá Siglingamálastofnun hinn 18. maí 1990, eða við útgáfu haffærisskírteinis. Umboðsmaður tók fram, að framkvæmd laga um skipamælingar hefði á þessum tíma verið þannig, að fyrirkomulag mælingarbanda hefði haft veruleg áhrif á niðurstöðu mælingar. Taldi umboðsmaður að A hefði þar verið í sömu aðstöðu og aðrir og að ekki hefði annað komið fram, en að M hefði réttilega mælst 9.61 brl. við útgáfu haffærisskírteinis.

Í þriðja lagi taldi A sér mismunað með því, að eigendur tiltekinna báta, R ÍS og E ÍS, hefðu fengið að breyta upphaflegum mælingarböndum og láta mæla bátana á ný, og hefðu þannig öðlast rétt á krókaveiðileyfi. Umboðsmaður benti á að A hefði sjálfur ráðið því, hvort hann kæmi fyrir mælingarböndum í bátnum, áður en báturinn var mældur og skráður. Breyting á fyrirkomulagi mælingarbanda í R ÍS og E ÍS, sem smíðaðir voru í Noregi, varð ekki talin fela í sér mismunun gagnvart A, en í öllum tilvikum var við úthlutun veiðiheimilda tekið mið af fyrstu mælingu á stærð skipanna í brúttórúmlestum.

Þá taldi umboðsmaður að leiðrétting á mælingu bátsins S SH, þar sem í upphafi hafði ekki verið tekið tillit til mælingarbanda, gæti ekki talist fela í sér brot á jafnræðisreglum stjórnsýsluréttar. Það var því niðurstaða umboðsmanns, að ekki væri tilefni til athugasemda við þær ákvarðanir sjávarútvegsráðuneytisins, sem kvörtun A laut að.

I.

Hinn 11. nóvember 1992 leitaði til mín A, og kvartaði yfir því, að sjávarútvegsráðuneytið hefði synjað ósk hans um leiðréttingu á veiðiheimildum fyrir fiskibát hans M SF. Taldi A, að á sér hefði verið brotinn réttur, þar sem bátar sambærilegir M hefðu fengið leiðréttingu á þeim veiðiheimildum, sem þeim hefðu verið ákveðnar, er lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða komu til framkvæmda 1. janúar 1991. Þannig hefði eigendum fiskibátanna S SH, E ÍS og R ÍS verið gefinn kostur á leyfi til línu- og handfæraveiða, svonefnt krókaveiðileyfi, eftir að mælingarbönd höfðu verið færð til í bátunum. Í öðru lagi hefði M ekki verið gefinn kostur á meðalaflahlutdeild báta í sínum stærðarflokki á sama hátt og X HU. Loks taldi A, að eiganda bátsins Þ RE hefði verið veitt veiðileyfi, án þess að hann hafi haft haffærisskírteini 18. ágúst 1990 og án þess að sambærilegur bátur hefði verið tekinn úr rekstri í hans stað.

II.

Í júlímánuði 1990 keypti A bát í smíðum, er síðar hlaut nafnið M SF. Var báturinn skráður 9,61 brl. Í tilefni af fyrirspurn sjávarútvegsráðuneytisins um útgáfu haffærisskírteina til M SF, E ÍS og R ÍS, ritaði Siglingamálastofnun ríkisins ráðuneytinu bréf 3. desember 1990. Þar segir:

"1. [M SF-]

[M] var eitt þeirra skipa sem var á lokastigi frágangs og úttektar þann 18. ágúst s.l. og hafði þá verið gengið frá skráningu og útfyllt haffærisskírteini, sem ekki var afhent þegar í ljós kom að kvöldi þess 18. s.l. að of mörg atriði voru ófrágengin.

Skipasmíðastöð og eigandi skipsins höfðu samband við Siglingamálastofnun ríkisins í vikunni eftir 18. ágúst og var þeim þá kynnt hvaða atriði þyrfti að lagfæra áður en haffærisskírteini yrði gefið út.

Þann 21. september hafði verið bætt úr flestu er að var fundið og var haffærisskírteini gefið út þann dag.

24. september kom eigandi skipsins [A] á skrifstofu Siglingamálastofnunar í Reykjavík og fékk þá afhent í misgripum haffærisskírteini áritað 18. ágúst 1990 með gildistíma til 30. september 1990, en átti að fá skírteini gefið út þann 21. september 1990.

Að morgni 25. september uppgötvaði [P] deildarstjóri eftirlitsdeildar að mistök höfðu orðið og hafði þegar samband við [S] starfsmann Sjávarútvegsráðuneytisins og kynnti honum þau mistök sem orðið höfðu og að haffærisskírteinið yrði þegar afturkallað.

[S] kvaðst mundi skýra starfsmanni sínum málavexti og gat þess að þar sem skipið væri skráð í haffærisskírteini 9,61 brl. og að ekki hefði verið smíðaleyfi fyrir skipinu fengi það ekki afgreitt veiðileyfi.

Einnig hafði deildarstjóri eftirlitsdeildar samband við [Ó] skipaskoðunarmann í [H] og bað hann um að ná sambandi við [A] og skýra honum frá mistökum sem orðið höfðu.

[A] og [Ó] áttu stuttu síðar samtal við [P] og varð að samkomulagi að skipti færu fram á haffærisskírteinum og að það er út var gefið 18. ágúst 1990 yrði þegar eyðilagt í umsjá [Ó].

2. [E ÍS-] og [R ÍS-]

Hvað varðar skipin [E ÍS-], skipaskrárnr. [...], og [R ÍS-], skipaskrárnr.[...], voru skipin skoðuð og prófuð hjá fyrirtækinu [S] í Noregi 10. og 12. ágúst 1990. Þar sem þau voru smíðuð.

Í ljósi þess að skipunum átti að sigla heim til Íslands, voru þau skráð til bráðabirgða og veitt haffærisskírteini, mælibréf og bráðabirgðaþjóðernisskírteini sem giltu í einn mánuð sbr. lög nr. 115/1985 um skráningu skipa.

Til að skrá skipin bráðabirgðaskráningu og veita þeim framangreind skipsskjöl, voru þau mæld brúttótonnamælingu samkvæmt reglum um mælingu skipa frá 27. maí 1987. Rúmlestastærð skipanna var hins vegar ekki ákvörðuð fyrr en þeir komu til landsins, en mælingarbönd voru þó sett í bátana hjá skipasmíðastöðinni í Noregi.

Þegar skipin komu til landsins, eftir siglingu frá Noregi, var eigandi þeirra ekki sáttur við mælingarböndin eins og þau höfðu verið gerð hjá skipasmíðastöðinni og óskaði eftir heimild til að breyta fyrirkomulagi þeirra. Á þessa beiðni var fallist, brúttórúmlesta mæling framkvæmd og mælibréf gefin út 14. sept. 1990."

Í desember 1990 gaf sjávarútvegsráðuneytið A kost á veiðileyfi fyrir árið 1990, ef tekinn yrði úr rekstri annar sambærilegur bátur. Í því skyni tók A tvo báta úr rekstri 17. desember 1990 og í framhaldi af því var gefið út veiðileyfi til handa M SF með 105 lesta aflahámarki. Fyrir fiskveiðitímabilið 1. janúar til 31. ágúst 1991 var bátnum úthlutað tæplega 20 tonna aflamarki í þorskígildum. Sjávarútvegsráðuneytið synjaði ósk A um leiðréttingu á úthlutuninni.

III.

Með bréfi, er lögmaður A ritaði sjávarútvegsráðuneytinu 23. júní 1992, fór hann þess á leit, að leiðréttar yrðu aflaheimildir, sem M SF höfðu verið ákveðnar, er lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða komu til framkvæmda. Í bréfi lögmannsins sagði meðal annars:

"Umbj. m. leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna synjunar ráðuneytisins og taldi að hún hefði ekki verið í samræmi við lög og reglugerðir um þessi mál. Í bréfi umboðsmanns Alþingis um afgreiðslu málsins frá 4. nóvember 1991 er komist að þeirri niðurstöðu að úthlutun ráðuneytisins á veiðiheimildum [M] 1991 hefði eigi verið lakari en lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða stóðu til.

Við nánari athugun málsins og úthlutanir á veiðiheimildum til annarra sambærilegra báta hefur síðan komið í ljós að ráðuneytið hefur í tilvikum, sem telja verður sambærileg við [M], úthlutað þeim bátum frekari veiðiheimildum heldur en [M]. Það skal tekið fram að þessi hlið málsins hlaut samkvæmt bréfi umboðsmanns Alþingis frá 4. nóvember 1991 ekki skoðun hjá honum, enda var umbj. m. ekki ljós þessi staða mála fyrr en eftir að afgreiðsla umboðsmanns Alþingis lá fyrir. Vegna þessa mismunar eru veiðiheimildir [M] nú mun takmarkaðri heldur en sambærilegra báta. Krafa umbj. m. um leiðréttingu á fiskveiðiheimildum bátsins er því byggð á því að sjávarútvegsráðuneytið hafi ekki fylgt þeirri jafnræðisreglu, sem gildir í íslenskum stjórnsýslurétti, við ákvörðun á veiðiheimildum bátsins."

Eftir að hafa gert grein fyrir röksemdum sínum gerði lögmaðurinn kröfu um að veiðiheimildir M yrðu leiðréttar með eftirfarandi hætti:

"a)

Með þeim hætti að báturinn fái úthlutað aflahlutdeild sem miðist við meðalaflahlutdeild báta í stærðarflokki 9 til 10 brl. Er krafa þessi studd þeim rökum að tilteknir bátar, sem fengu veiðileyfi í fyrsta sinn árið 1990, eins og [M], og komu í stað annarra báta, sem enga aflareynslu höfðu hafi fengið slíka meðalaflahlutdeild, sbr. 1. málslið 3. tl. 10. gr. reglugerðar nr. 465/1990. Umbj. m. telur í öllu falli að aflahlutdeild [M] eigi ekki að vera minni en [X HU].

b)

Verði ekki fallist á að leiðrétta aflahlutdeild bátsins gerir umbj. m. kröfu um að báturinn fái krókaleyfi með sama hætti og báturinn [S SH] og þá eftir atvikum á grundvelli nýrrar brúttórúmlestamælingar miðað við hliðstæða bita og eru í [S]. Bátar þessir eru sambærilegir að stærð og höfðu fylgst að við úthlutun veiðiheimilda þar til eigandi [S] fékk að mæla bátinn niður í brl. þrátt fyrir að ekki væru í bátnum sérstök mælingabönd og komið væri fram yfir þau tímamörk sem stærðarviðmiðanir áttu að miðast við. Ekki voru því uppfyllt skilyrði til þess að ákvarða veiðiheimildir [S] með öðrum hætti en [M]."

Sjávarútvegsráðuneytið synjaði erindi lögmanns A með bréfi 29. október 1992. Þar segir meðal annars:

"Með lögum nr. 38/1990 var öllum bátum minni en 10 brl. sem áttu kost á leyfi til veiða í atvinnuskyni ákvörðuð aflahlutdeild. Meginreglan var sú að aflahlutdeildin var ákvörðuð út frá aflareynslu bátanna á árunum 1987 til 1989. Þrjár veigamiklar undantekningar voru frá þessari meginreglu. Í fyrsta lagi vegna báta sem veiðileyfi fengu í upphafi árs 1990 með aflahámarki sem byggði á eigin veiðireynslu. Í öðru lagi vegna báta sem komu í fyrsta sinn til veiða á árinu 1990 án þess að sambærilegur bátur hyrfi úr rekstri. Í þriðja lagi var um að ræða báta 6 brl. og stærri sem komu í stað báta sem veiðileyfi höfðu fengið á grundvelli laga nr. 3/1988.

[M] var í smíðum þegar lög nr. 38/1990 öðluðust gildi þann 18. maí 1990. Mun hafa verið við það miðað að smíði hans lyki fyrir þann 18. ágúst 1990 þannig að báturinn uppfyllti skilyrði laga nr. 38/1990 um veiðileyfi til báta minni en 6. brl. þ.e.a.s að báturinn fengi veiðileyfi án þess að sambærilegur bátur hyrfi úr rekstri í hans stað. Af ýmsum ástæðum tókst hins vegar ekki að ljúka smíði bátsins á tilsettum tíma. Sama gilti um 9 aðra báta. Málefni þessara báta komu til sérstakrar meðhöndlunar í sjávarútvegsráðuneytinu. Ekki var fært að verða við óskum eigenda þessara báta um að veita þeim leyfi til veiða í atvinnuskyni án þess að sambærilegir bátar yrðu úreltir í þeirra stað.

Eigendum þessara báta var hins vegar ívilnað með tvennum hætti. Í fyrsta lagi var þeim ekki gert að uppfylla ströngustu skilyrði varðandi úreldingu. Í öðru lagi var öllum bátum, nema [X HU], ákvörðuð aflahlutdeild báta á stærðarbilinu 5-6 brl. en það var hæsta aflahlutdeild sem nýir báta þ.e. bátar sem komu í fyrsta sinn til veiða á árinu 1990 án þess að sambærilegir bátar hyrfu úr rekstri. Eigandi [M] var t.d. heimilað að úrelda tvo báta sem voru báðir minni en 6 brl. í stað [M] en bátar af þeirri stærð þurftu ekki sérstakt veiðileyfi á gildistíma laga nr. 3/1988. Ráðuneytið hefur áður gert ítarlega grein fyrir ákvörðun aflahlutdeildar til [M] m.a. í bréfi til umboðsmanns. Í greinargerðinni til umboðsmanns er gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lágu að baki þeirri ákvörðun. Var jafnframt í sérstakri greinargerð til umboðsmanns fjallað um úthlutun aflahlutdeildar til [X HU] og gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lágu að baki þeirri sérstöku meðhöndlun sem þessir 10 bátar fengu og eins því að aflahlutdeild [X HU] var ákvörðuð hærri en aflahlutdeild [M].

...

Í framhaldi af úrskurði umboðsmanns Alþingis haustið 1991 vegna galla sem orðið höfðu í meðförum Alþingis á frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða, sem síðar varð að lögum nr. 38/1990, hafði eigandi [S] samband við ráðuneytið. Hélt eigandi bátsins því fram að báturinn hefði einungis verið 5,76 brl. en ekki 9,61 brl. eins og fram kom í mælibréfi bátsins frá því í ágúst 1990. Máli sínu til stuðnings lagði hann fram nýtt mælingarbréf fyrir bátinn. Í framhaldi af þessu ritaði ráðuneytið Siglingamálastofnun bréf þann 14. nóvember 1991 [...]. Eins og fram kemur í svarbréfi stofnunarinnar dags. þann 28. nóvember 1991 er greinilegt að mistök hafa átt sér stað við mælingu bátsins því ekki var tekið tillit til mælingarbanda þegar báturinn var mældur. Stofnunin gat hins vegar ekki gefið fullnægjandi skýringar á því hvers vegna ekki var tekið tillit til mælingarbandanna í samræmi við reglur um mælingu skipa. Þar sem ráðuneytinu var kunnugt um að [M SF-] var af svipaðri stærð og gerð var ennfremur spurt í bréfinu þann 14. nóvember hvort mælingarbönd hefðu verið í þeim bát þegar hann var mældur í upphafi. Eins og fram kemur í svarbréfi stofnunarinnar mun svo ekki hafa verið. Af framansögðu er ljóst að ekki er hægt að leggja þessa tvo báta að jöfnu þegar afstaða er tekin til þess hvort veita eigi þeim leyfi til veiða með línu- og handfærum auk dagatakmarkanna. Texti laga nr. 38/1990 er afdráttarlaus hvað þetta atriði varðar.

Hvað varðar bátana [E ÍS 99] og [R ÍS] þá voru þessir bátar skoðaðir í Noregi af starfsmönnum Siglingamálastofnunar og fengu útgefið haffærisskírteini þann 12. ágúst 1990. Þegar haffærisskírteinið var gefið út lá brúttórúmlestamæling bátanna ekki fyrir en þeir voru mældir eftir að þeir komu til Íslands og reyndust bátarnir þá vera 5,95 brúttórúmlestir. Bátar þessir voru hins vegar 13,2 brúttótonn að stærð og var bátunum í upphafi árs 1991 úthlutað leyfi til veiða í atvinnuskyni með sömu aflahlutdeild og [M]. Eftir að niðurstaða umboðsmanns Alþingis lá fyrir haustið 1991 um að allir bátar minni en 6 brl. ættu kost á veiðileyfi með línu- og handfærum með banndögum, í stað aflahlutdeildar, var eigendum þessara báta gefinn kostur á að velja slíkt veiðileyfi. Sú ákvörðun leiddi hins vegar ekki til þess að þessir bátar fengju ákvarðaða hærri aflahlutdeild og er aflahlutdeild þeirra sú sama og [M] fékk úthlutað í upphafi árs 1991."

IV.

Ég ritaði sjávarútvegsráðuneytinu bréf 29. desember 1992. Þar rakti ég efni kvörtunar A og vísaði til bréfs lögmanns hans frá 23. júní 1992. Síðan sagði svo í bréfi mínu til sjávarútvegsráðuneytisins:

"Með tilvísun til 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis óska ég eftir því, að sjávarútvegsráðuneytið skýri afstöðu sína til kvörtunar [A]. Sérstaklega óska ég nánari skýringa á eftirfarandi atriðum:

1)

Að hvaða leyti aðstaða [M SF] annars vegar og [X HU] hins vegar hafi ekki verið sambærileg.

2)

Af bréfi sjávarútvegsráðuneytisins frá 29. október 1992 verður ráðið, að [M SF] hafi ekki átt rétt á sömu veiðiheimildum og [X HU], þar sem í hans stað hafi verið teknir úr rekstri bátar, sem voru minni en 6 brl. Ef þessi skilningur er réttur, óska ég eftir því, að ráðuneytið skýri á hvaða lagagrundvelli sú niðurstaða hafi byggst.

3)

Í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins frá 8. nóvember 1990 til [A] kemur fram, "... að úrelding m.b. [G SU] skrnr. [...] og [Ö SU] skrnr.[...] telst vera fullnægjandi til að m.b. [M] skrnr.[...] fái veiðileyfi á þessu ári skv. ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 552/1989 um veiðar smábáta 1990". Af þessu tilefni óska ég eftir því, að mér verði látnar í té upplýsingar og gögn um stærð tilvitnaðra báta í brúttórúmlestum talið. Ennfremur óska ég eftir því, að mér verði látnar í té sömu upplýsingar og gögn um þann bát, sem tekinn var úr rekstri í stað [X HU].

4)

Með hvaða hætti sjávarútvegsráðuneytið hafi kannað þær fullyrðingar [A], að ekki hafi verið sett sérstök mælingabönd í [S SH], heldur hafi einungis verið settar stoðir í bátinn undir innréttingar. Þar sem svo hafi verið, telur [A], að einnig hafi átt að gefa honum kost á að mæla stærð [M] SF á ný.

5)

Hvort ekki beri að líta svo á, að tilfærsla á mælingaböndum eftir 18. maí 1990 verði jafnað til þess, að báti hafi verið gefinn kostur á nýrri stærðarmælingu. Ráðið verður, að það hafi verið gert að því er tekur til bátanna [E ÍS] og [R ÍS], sbr. bréf Siglingamálastofnunar ríkisins frá 3. desember 1990."

Með bréfi sjávarútvegsráðuneytisins 19. janúar 1993 bárust mér eftirfarandi skýringar:

"Í erindi umboðsmanns er óskað svara ráðuneytisins við fimm spurningum og verður þeim nú svarað í sömu röð og þær voru bornar upp:

1.

Þar sem málefni [X HU-] hafa áður komið til ítarlegrar athugunar, bæði hjá ráðuneyti og umboðsmanni Alþingis, sbr. álit umboðsmanns dags. 19. febrúar 1992, sér ráðuneytið ekki ástæðu til að endurtaka öll þau atriði sem þar koma fram. Smíði [X HU-] var hafin þegar lög nr. 3/1988, um stjórn botnfiskveiða 1988-1990, öðluðust gildi. Óskýr lagaákvæði urðu m.a. til þess að ráðuneytið treysti sér ekki til að krefjast þess að bátar 6 brl. eða stærri, sem smíði var hafin á þegar lög nr. 3/1988 öðluðust gildi, þyrftu að vera fullbúnir fyrir þann 1. júlí 1988. Með gildistöku laga nr. 38/1990 voru m.a. sett skýr ákvæði um leyfisbindingu veiða báta minni en 6 brl. Í framhaldi af þessari lagasetningu var sú ákvörðun tekin að láta sömu framkvæmdarreglu gilda varðandi útgáfu leyfa til veiða í atvinnuskyni til þeirra báta 6 brl og stærri, sem smíði var hafin á fyrir gildistöku laga nr. 3/1988 og um báta minni en 6 brl. Í þessari ákvörðun fólst að bátar 6 brl. og stærri, sem smíði var hafin á fyrir gildistöku laga nr. 3/1988, þurftu að vera fullbúnir fyrir 18. ágúst 1990 til að fá leyfi til veiða í atvinnuskyni án þess að sambærilegir bátar hyrfu úr rekstri í þeirra stað. Rökin fyrir þessari ákvörðun voru þau að ekki þætti verjandi að veita þeim aðilum, sem hófu smíði á bátum fyrir áramótin 1987/1988, lengri frest til að ljúka smíði þeirra en aðilum, sem hófu smíði báta sinna skömmu fyrir gildistöku laga nr. 38/1990. Smíði [X HU] hófst fyrir áramótin 1987/1988. Samkvæmt þeirri framkvæmdarreglu, sem ráðuneytið tók upp eftir að lög nr. 38/1990 öðluðust gildi, þurfti báturinn því að vera fullbúinn fyrir 18. ágúst 1990 til að fá útgefið leyfi til veiða í atvinnuskyni. Ekki tókst að ljúka smíði bátsins fyrir þau tímamörk. Eigandi bátsins þurfti því að úrelda sambærilegan bát fyrir [X HU]. Hins vegar fékk báturinn úthlutað sömu aflahlutdeild og hann hefði fengið ef hann hefði verið tilbúinn fyrir 18. ágúst 1990. Var sérstök grein gerð fyrir þeirri ákvörðun í bréfi til fyrirtækisins [T], dags. 1. október 1991, og er ráðuneytinu kunnugt um að umboðsmaður hefur það bréf undir höndum. Hvað varðar [M SF-] þá mun smíði bátsins hafa verið skammt á veg komin þegar lög nr. 38/1990 öðluðust gildi. Hér var ekki um að ræða einn af þeim bátum sem smíði var hafin á fyrir áramótin 1987/1988 og fengið hafði sérstakt smíðaleyfi. Sú framkvæmdarregla, sem ráðuneytið tók upp gagnvart umræddum bátum, átti því augljóslega ekki við um [M SF]. Til að fá leyfi til veiða í atvinnuskyni á grundvelli laga nr. 38/1990, án þess að sambærilegur bátur hyrfi úr rekstri, þurfti [M SF] að uppfylla tvö skilyrði. Í fyrsta lagi þurfti báturinn að vera minni en 6 brl. Í öðru lagi þurfti báturinn að vera fullbúinn fyrir 18. ágúst 1990. Í ljós kom að báturinn uppfyllti hvorugt þessara skilyrða. Það leiddi til þess að eiganda bátsins var gert að úrelda bát/a í stað [M] og verður sérstaklega vikið að því atriði síðar. Á sama hátt og eiganda [X HU] var eiganda [M SF] ívilnað þegar ákvörðun var tekin um úthlutun aflahlutdeildar til bátsins. Var báðum bátunum, að fengnum tillögum sérstakrar lögskipaðrar samstarfsnefndar, ákvörðuð sú að aflahlutdeild, sem þeir hefðu fengið ef bátarnir hefðu uppfyllt nauðsynleg skilyrði fyrir veitingu leyfis til veiða í atvinnuskyni, án þess að sambærilegir bátar yrðu úreltir í þeirra stað. Til að svo hefði mátt vera hefði [X HU] þurft, í samræmi við ofangreinda framkvæmdarreglu ráðuneytisins, að vera fullbúin fyrir 18. ágúst 1990. Sama gilti um [M], en að auki hefði báturinn þurft að mælast minni en 6 brl. Í samræmi við þessa niðurstöðu var [X HU] ákvörðuð aflahlutdeild báta á stærðarbilinu 9-10 brl. en [M SF] var ákvörðuð aflahlutdeild báta á stærðarbilinu 5-6 brl. Var aflahlutdeild [M SF] hæsta aflahlutdeild, sem ákvörðuð var til báta, sem komu í fyrsta sinn til veiða á árinu 1990, án þess að sambærilegir bátar hyrfu úr rekstri í þeirra stað, ef frá eru taldir bátar eins og [X HU], sem höfðu sérstök smíðaleyfi vegna ákvæða l. nr. 3/1988.

2.

og 3. Eigandi [M SF] beindi þeirri fyrirspurn til ráðuneytisins haustið 1990, hvort bátarnir [G SU-], skipaskrárnúmer[...], og [A SU-], skipaskrárnúmer [...], teldust nægjanleg úrelding fyrir [M SU]. [G SU] var 3,53 brúttórúmlestir en [Ö SU] var 2,55 brúttórúmlestir. Bátar af þessari stærð þurftu ekki sérstakt veiðileyfi á gildistíma laga nr. 3/1988, en til að öðlast leyfi til veiða í atvinnuskyni á árinu 1991 hefðu þeir þurft að uppfylla skilyrði laga nr. 38/1990 og reglugerðar nr. 465/1990. Ef þessir bátar hefðu uppfyllt skilyrði fyrir veitingu leyfis til veiða í atvinnuskyni, áttu þeir auk þess kost á að velja á milli leyfis til veiða með aflahlutdeild og leyfis til veiða með línum og handfærum auk dagatakmarkana. Ráðuneytið svaraði þessari beiðni jákvætt þrátt fyrir að það hafi ekki legið fyrir að þessari bátar kæmu til með að uppfylla skilyrði fyrir útgáfu leyfis til veiða í atvinnuskyni. Nokkru síðar óskaði eigandi [M SF] eftir því að í stað [Ö SU] yrði [H SF-], skipaskrárnúmer [...], úreltur. [H SF] var 4,94 brúttórúmlestir að stærð. Bátinn keypti [A] þann 7. desember 1990, en 25. mars 1991 óskaði hann eftir því að aflahlutdeild bátsins yrði flutt yfir á [K SF-] en sá bátur var í eigu [B] h/f. Ráðuneytið samþykkti þessa breytingu á úreldingu og varð því niðurstaðan sú að [G SU] og [H SF] voru úreltir í stað [M SF]. Við afgreiðslu ráðuneytisins á veiðileyfi til [M SF] var hvorki gerð krafa til þess að sá bátur(ar) sem úreltur var í stað [M SF] hefði fengið veiðileyfi á grundvelli laga nr. 3/1988, né að viðkomandi bátur(ar) uppfyllti skilyrði fyrir veitingu leyfis til veiða í atvinnuskyni. Að þessu leyti má því segja að eiganda [M SF] hafi verið ívilnað. Þessi ráðstöfun hafði hins vegar ekkert með úthlutun aflahlutdeildar til bátsins að gera. Við þá ákvörðun var miðað við þá hæstu aflahlutdeild, sem bátur er kom í fyrsta sinn til veiða á árinu 1990, án þess að sambærilegur bátur hyrfi úr rekstri, átti kost á. Hvað varðar [X HU] þá var [M BA-], skipaskrárnúmer [...], úreltur í hennar stað. [X] var því úthlutað því veiðileyfi sem [M BA] hafði en báturinn var 11,39 brúttórúmlestir.

4.

Þann 30. september 1991 ritaði ráðuneytið bréf til eigenda báta stærri en 6 brúttótonn en minni en 6 brúttórúmlestir sem komu í fyrsta sinn til veiða á árinu 1990. Var eigendum þessara báta gefinn kostur á að velja að nýju milli veiðileyfis með aflahlutdeild og leyfis til veiða með línu og handfærum auk dagatakmarkana. Þessi ákvörðun var byggð á hnökrum, sbr. bréf umboðsmanns Alþingis dags. 29. ágúst 1991, sem urðu í meðferð Alþingis við meðferð frumvarps til laga um stjórn fiskveiða sem síðar varð að lögum nr. 38/1990. Í framhaldi af þessari ákvörðun ritaði eigandi [S], [K], ráðuneytinu bréf þar sem hann upplýsti að báturinn mældist minni en 6 brl. og því ætti hann rétt á endurvali með sama hætti og að ofan greinir. Ráðuneytið sendi Siglingamálastofnun erindi [K] til umsagnar enda voru ýmis atriði í bréfinu sem snertu störf og starfshætti stofnunarinnar. Í framhaldi af umsögn Siglingamálastofnunar um erindi [K] ritaði ráðuneytið stofnuninni bréf, dags. 14. nóvember 1991 [...], þar sem ennfremur var beðið um upplýsingar um [M SF]. Eins og fram kemur í svarbréfi Siglingamálastofnunar, dags. 28. nóvember 1991 [...], voru mælingarbönd í [S SH] þegar báturinn var afhentur frá verksmiðju haustið 1990. Í bréfinu kemur jafnframt fram að ávallt sé tekið tillit til slíkra mælingarbanda þegar bátar eru stærðarmældir. Það mun hins vegar ekki hafa verið gert þegar [S] var mæld upphaflega. Þá kemur fram í bréfinu að engin mælingarbönd hafi verið í [M SF] þegar báturinn var afhentur frá verksmiðju. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu var eiganda [S SH] gefinn kostur á að velja að nýju milli veiðileyfa [...].

5.

Hér virðist gæta nokkurs misskilnings. Smíði þeirra báta sem smíði var hafin á fyrir 18. maí 1990 var mjög misjafnlega á veg komin. Engin leið var því að taka út stærðir bátanna á þeim tíma. Það var hins vegar tvennt sem skipti máli til að bátarnir gætu fengið leyfi til veiða í atvinnuskyni, án þess að sambærilegir bátar hyrfu úr rekstri í þeirra stað. Í fyrsta lagi þurftu bátarnir að vera haffærir fyrir 18. ágúst 1990. Í öðru lagi þurfti stærð þeirra að mælast innan við 6 brl. [M SF] uppfyllti hvorugt þessara skilyrða þegar afstaða var tekin til þess hvort báturinn uppfyllti skilyrði fyrir veitingu leyfis til veiða í atvinnuskyni. Þegar ráðuneytið tók afstöðu til veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni fyrir [E ÍS] og [R ÍS] lá fyrir að bátarnir hefðu fengið útgefið fullgilt haffærisskírteini þann 12. ágúst 1990 og að bátarnir mældust 5,99 brúttórúmlestir að stærð en 13,2 brúttótonn. Þegar bátarnir voru teknir út af skoðunarmönnum Siglingamálastofnunar í ágústmánuði 1990 lá einungis brúttótonnamæling þeirra fyrir. Fyrsta mæling á brúttórúmlestamælingu bátanna mun hafa farið fram í septembermánuði 1990 eða eftir að bátarnir komu til landsins. Samkvæmt þeirri mælingu mældust þeir 5,99 brúttórúmlestir. Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um að þær breytingar, sem gerðar voru á bátunum við heimkomu, hafi orðið til þess að bátarnir mældust minni en 6 brúttórúmlestir."

Með bréfi 21. janúar 1993 gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir í tilefni af framangreindu bréfi sjávarútvegsráðuneytisins. Athugasemdir hans bárust mér síðan með bréfi 17. maí 1993. Í athugasemdum A kom meðal annars fram sú skoðun hans, að hið svonefnda smíðaleyfi X HU hefði ekki átt að leiða til þess að báturinn fengi betri stöðu. Eitt væri "aðgangur að kerfinu og síðan hvaða veiðiheimildir bátur fær". Þá ítrekaði A þá skoðun sína, að engin mælingarbönd hefðu verið í S og að heimilaðar hefðu verið breytingar á mælingarböndum bátanna E og R, eftir að þeir komu til landsins í september 1990.

V.

Í bréfi til sjávarútvegsráðuneytisins 5. ágúst 1993 vísaði ég til bréfs lögmanns A frá 23. júní 1992. Ennfremur vísaði ég til þess, að í svarbréfi ráðuneytisins frá 29. október 1992 hefði eftirfarandi komið fram:

"Mun hafa verið við það miðað að smíði hans lyki fyrir þann 18. ágúst 1990 þannig að báturinn uppfyllti skilyrði laga nr. 38/1990 um veiðileyfi til báta minni en 6 brl. þ.e.a.s. að báturinn fengi veiðileyfi án þess að sambærilegur bátur hyrfi úr rekstri í hans stað."

Óskaði ég nánari skýringa á því, á hvaða gögnum og sjónarmiðum framangreind afstaða ráðuneytisins hefði verið byggð. Svör sjávarútvegsráðuneytisins bárust mér með bréfi ráðuneytisins 10. ágúst 1993. Þar segir meðal annars:

"Hvað varðar tilvitnun í bréf ráðuneytisins til [lögmanns A], þá byggist þessi afstaða ráðuneytisins á þeim áhuga sem var til staðar hjá eigenda bátsins á því að smíði hans lyki fyrir 18. ágúst 1990. Ef smíði bátsins var hins vegar frá upphafi miðuð við að hann yrði stærri en 6 brl. þá skipti þessi tímasetning ekki máli varðandi það hvort báturinn ætti kost á leyfi til veiða í atvinnuskyni eða ekki."

Hinn 17. ágúst 1993 gaf ég A kost á að senda mér athugasemdir sínar í tilefni af bréfi sjávarútvegsráðuneytisins. Í símtölum 15. og 17. nóvember 1993 greindi A mér frá því, að hann hygðist ekki koma frekari athugasemdum á framfæri í málinu.

VI.

Í forsendum og niðurstöðu álits míns, dags. 28. apríl 1994, sagði svo:

"Almennt hefur verið litið svo á hér á landi, að stjórnvöld séu í úrlausnum um rétt og skyldur manna bundin af óskráðri jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er öðluðust gildi 1. janúar 1994, er tekið fram, að við "úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti". Kvörtun A lýtur að því, að bátur hans M SF hafi ekki fengið sömu úrlausn og sambærilegir bátar við ákvörðun aflaheimilda þeirra (aflahlutdeildar og aflamarks), er lög nr. 38/1990 komu til framkvæmda 1. janúar 1991 eða þegar sjávarútvegsráðuneytið hafi síðar leiðrétt aflaheimildir tiltekinna báta.

1.

A telur, að sér hafi ekki verið gefinn kostur á, að M SF yrði úthlutað meðalaflahlutdeild báta í sama stærðarflokki, svo sem gert hafi verið, þegar X HU var úthlutað aflaheimildum. Um X HU er fjallað í áliti mínu frá 19. febrúar 1992 (SUA 1992. 290).

Með lögum nr. 3/1988 um stjórn fiskveiða 1988-1990 voru settar skorður við fjölgun fiskiskipa 6 brl. og stærri. Var sú regla lögfest, að því aðeins var heimilt að veita veiðileyfi nýju skipi, sem var 6 brl. eða stærra, að annað sambærilegt skip væri tekið úr rekstri í þess stað. Samkvæmt G-lið 10. gr. laga nr. 3/1988 var þó undantekning gerð um báta, sem smíði var hafin á fyrir gildistöku laganna. Að tilteknum skilyrðum fullnægðum, áttu þessir síðastgreindu bátar rétt á veiðileyfi, án þess að taka þyrfti sambærilega báta úr rekstri í þeirra stað.

Sjávarútvegsráðuneytið ákvað, að frestur til að fullgera þá báta, sem smíði var samkvæmt framansögðu hafin á fyrir gildistöku laga nr. 3/1988, skyldi vera til 18. ágúst 1990. Hef ég gert grein fyrir því í nefndu áliti mínu frá 19. febrúar 1992 (SUA 1992. 290), að sú ákvörðun hafi verið lögmæt. Ekki tókst að ljúka smíði X HU innan þess frests. Varð eigandi bátsins því að taka bát úr rekstri til þess að X HU fengi veiðileyfi. Að því skilyrði fullnægðu, var X HU ákveðin aflahlutdeild í sínum stærðarflokki, eins og báturinn átti kost á, hefði hann verið tilbúinn fyrir 18. ágúst 1990.

M SF mældist 9,61 brl. Smíði bátsins hófst hins vegar ekki fyrir gildistöku laga nr. 3/1988 og gátu fyrrgreindar reglur þeirra laga því ekki átt við bátinn, eins og X HU. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/1990 var alveg tekið fyrir veitingu veiðileyfa til nýrra fiskiskipa, nema úrelt væru skip í þeirra stað. Undantekning var þó með vissum skilyrðum gerð um skip, sem voru í smíðum og voru minni en 6 brl., sbr. nánar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/1990.

Miðað við stærð M SF, 9,61 brl., átti báturinn ekki kost á veiðileyfi, nema hann kæmi í stað sambærilegs skips, er tekið væri úr rekstri. Hefði M SF þá fengið veiðiheimildir þess skips. Skipti í því efni engu máli, hvort tekist hefði að ljúka smíði bátsins fyrir 18. ágúst 1990 eða ekki.

Samkvæmt framansögðu giltu ólíkar lagareglur um úthlutun veiðileyfis og veiðiheimilda til X HU annars vegar og M SF hins vegar. Tel ég, að svo ólíkt hafi háttað til um báta þessa, að ekki verði sagt að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglum stjórnsýsluréttar gagnvart eiganda M SF með umræddri úthlutun veiðiheimilda til X HU.

2.

Samkv. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 465/1990, um veiðar í atvinnuskyni, bar við ákvörðun um það, hvort nýr bátur ætti rétt á leyfi til línu- og handfæraveiða, að miða við mælingu bátsins, eins og hún var skráð hjá Siglingamálastofnun ríkisins 18. maí 1990 eða, eftir atvikum, við stærð bátsins, eins og hún var skráð við útgáfu haffærisskírteinis.

Framkvæmd laga um skipamælingar var á þessum tíma þannig, að fyrirkomulag svonefndra mælingarbanda hafði veruleg áhrif á það, hvaða niðurstaða fengist um stærð skips í brúttórúmlestum. Gátu eigendur skipa þannig ráðið miklu um niðurstöðu mælinga að þessu leyti og var A þar í sömu aðstöðu og aðrir. Hefur ekki annað komið fram en að M hafi réttilega mælst 9,61 brl. við útgáfu haffærisskírteinis. A hefur haldið því fram, að í sjávarútvegsráðuneytinu hafi honum verið tjáð, að ekki þýddi að breyta fyrirkomulagi mælingarbanda í M. Ég hef rætt þessa staðhæfingu sérstaklega við starfsmenn ráðuneytisins og er niðurstaða mín sú, að ekkert liggi fyrir um slíkar fullyrðingar af hálfu ráðuneytisins. Verður það því ekki lagt til grundvallar af minni hálfu.

3.

A telur sér mismunað með því, að eigendur R ÍS og E ÍS hafi fengið að breyta upphaflegum mælingarböndum og láta mæla bátana á ný. Hafi þeir þannig fengið tækifæri til að afla bátunum leyfis til línu- og handfæra, svonefnds krókaveiðileyfis. Þess hafi hann ekki átt kost fyrir M SF, enda þótt bátarnir allir séu í raun jafnstórir, enda steyptir í sama mót.

Rétt er að minna á það, að A réði því sjálfur, hvort hann kæmi fyrir mælingarböndum í bátnum, áður en báturinn var mældur og skráður. Bátarnir E ÍS og R ÍS voru smíðaðir í Noregi og fengu útgefið haffærisskírteini 12. ágúst 1990, áður en þeim var siglt til Íslands. Eftir heimkomuna var fyrirkomulagi mælingarbanda breytt og stærð bátanna í brúttórúmlestum mæld fyrsta sinni. Það er skoðun mín, að þessar breytingar eftir útgáfu haffærisskírteina feli ekki í sér mismunun miðað við M SF. Í öllum þessum tilvikum var við úthlutun veiðiheimilda tekið mið af fyrstu mælingu á stærð skipanna í brúttórúmlestum talið.

4.

A telur sér einnig mismunað miðað við úthlutun veiðiheimilda til S SH. Breyting á mælingu þess báts, miðað við brúttórúmlestir, stafaði af því, að við upphaflega mælingu hafði ekki verið tekið tillit til mælingarbanda, eins og tíðkast hafði. Slík leiðrétting getur ekki að mínum dómi talist fela í sér brot á jafnræðisreglum stjórnsýsluréttar.

5.

Loks lýtur kvörtun A að því, að M SF hafi ekki notið sömu ívilnunar og báturinn Þ RE. Hafi síðargreindum báti verið veitt veiðileyfi, þótt hann hefði ekki verið búinn að fá útgefið haffærisskírteini 18. ágúst 1990 og ekki verið tekinn bátur úr rekstri í hans stað.

Fram kemur af þeim gögnum, sem fyrir mig hafa verið lögð, að smíði Þ RE hafi byrjað fyrir gildistöku laga nr. 3/1988, en bátur þessi er 9,29 brl. að stærð. Af sömu ástæðum og gerð er grein fyrir í kafla VI.1 hér að framan tel ég, að svo ólíkt hafi háttað um M SF annars vegar og Þ RE hins vegar, að ekki geti talist vera um brot á jafnræðisreglum að ræða með úthlutun veiðiheimilda til Þ RE.

VII.

Niðurstaða mín er samkvæmt framansögðu sú, að ekki sé tilefni til athugasemda við þær ákvarðanir sjávarútvegsráðuneytisins, sem kvörtun A lýtur að."