Atvinnuleysistryggingar. Frestun bótagreiðslna. Stjórnvaldsákvörðun. Málsmeðferð. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. 5736/2009 - Fyrirspurnarbréf umboðsmanns Alþingis til Vinnumálastofnunar)

Umboðsmaður Alþingis ritaði forstjóra Vinnumálastofnunar bréf og óskaði eftir upplýsingum og skýringum á nokkrum atriðum varðandi greiðslur atvinnuleysisbóta. Tilefni fyrirspurnarinnar var frétt þar sem fjallað var um aðstæður atvinnulausrar einstæðrar móður en síðustu greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar hafði verið frestað með vísan til þess að hún hefði fengið greidd mæðralaun. Í fréttinni kom fram að slík laun væru engu að síður ekki frádráttarbær. Í bréfinu greindi umboðsmaður frá því að fréttin hefði orðið honum tilefni til að taka afstöðu til þess hvort ástæða væri til að hann tæki að eigin frumkvæði til athugunar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hvernig staðið væri af hálfu Vinnumálastofnunar að frestun greiðslu atvinnuleysisbóta.

Umboðsmaður óskaði eftir staðfestingu Vinnumálastofnunar á efni fréttarinnar, hversu margir hefðu af þessum sökum ekki fengið atvinnuleysisbætur sínar greiddar á réttum tíma um þessi sömu mánaðamót og hvenær þær hefðu að lokum verið greiddar. Jafnframt spurði umboðsmaður hvaða lagagrundvöllur og sjónarmið hefðu legið að baki frestununum, hvort stofnunin teldi þær vera stjórnvaldsákvarðanir og hvernig málsmeðferð þeirra hefði verið háttað.
Sjá tengt mál

Bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 22. júlí 2009, til forstjóra Vinnumálastofnunar hljóðaði svo: „Miðvikudaginn 15. júlí 2009 birtist frétt á vefsíðunni www.visir.is sem hafði fyrirsögnina „Fékk sjokk þegar bæturnar skiluðu sér ekki“ en í fréttinni var umfjöllun um aðstæður einstæðrar móður með fjögur börn á framfæri. Í fréttinni kom fram að greiðslu atvinnuleysisbóta til þessarar konu hafi verið frestað um síðustu mánaðamót, þar eð hún hefði aðrar tekjur í marsmánuði samkvæmt samkeyrslu Vinnumálastofnunar við staðgreiðsluskrár Ríkisskattstjóra. Tekjurnar reyndust vera mæðralaun að upphæð 16.300 krónur sem ekki væru frádráttarbærar. Vinkona konunnar hefði sömu sögu að segja. Í fréttinni eru eftirfarandi ummæli höfð eftir umræddri konu: „[A]ð stöðva svona greiðslu án neins fyrirvara er náttúrulega fáránlegt. Þú getur ímyndað þér sjokkið sem maður fær“. Einnig er vitnað í eftirfarandi orð hennar: „Ég var búin að plana að fara með krakkana mína upp í sumarbústað. Þegar maður lendir í svona frestun getur maður ekki greitt neina reikninga eða mat einu sinni. Maður vissi ekkert hvað maður átti að gera“. Loks kemur fram í fréttinni að umrædd kona hafi átt erfitt með að ná sambandi við Vinnumálastofnun til að fá skýringar á greiðslufrestuninni. Hún sé afar ósátt og hún hafi ekki fengið neina afsökunarbeiðni eða skýringu frá stofnuninni.

Frétt þessi hefur orðið mér tilefni til að taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til að taka til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hvernig staðið er af hálfu Vinnumálastofnunar að frestun á greiðslu atvinnuleysisbóta til þeirra sem eru atvinnulausir nú um stundir. Hef ég þá í huga að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja „rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins“. Skuli hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við „lög og vandaða stjórnsýsluhætti“.

Áður en ég tek frekari ákvörðun um athugun mína á máli þessu óska ég eftir því með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að Vinnumálastofnun veiti mér upplýsingar og skýringar um eftirtalin atriði:

1. Hvort það sé rétt sem komi fram í framangreindri frétt að það hafi orðið frestun á greiðslu atvinnuleysisbóta til umræddrar konu og annarra sem voru í sömu sporum og hún um mánaðamótin júní/júlí 2009?

2. Hversu margir einstaklingar fengu ekki atvinnuleysisbætur greiddar út á réttum tíma um mánaðamótin júní/júlí 2009 vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar um frestun á greiðslu bótanna? Hvenær bárust greiðslurnar að lokum til viðkomandi einstaklinga?

3. Hvaða lagagrundvöllur og sjónarmið lá að baki þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fresta að greiða út atvinnuleysisbætur á réttum tíma, bæði í tilviki umræddrar konu og þeirra sem voru í sömu sporum og hún?

4. Hvort ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fresta að greiða út atvinnuleysisbætur til einstaklinga teljist að mati stofnunarinnar stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993? Þá óska ég eftir upplýsingum um hvernig háttað hafi verið málsmeðferð stofnunarinnar í þessu sambandi, þ.e. hvort hlutaðeigandi hafi verið tilkynnt fyrirfram um umrædda ákvörðun, verið gefinn kostur á að tjá sig um hana o.s.frv.

Þess er óskað að svar verði sent mér fyrir 1. september nk.“