Meðferð ákæruvalds. Upphaf kærufrests. Ákvörðun lögreglustjóra um niðurfellingu máls. Útreikningur kærufrests.

(Mál nr. 5587/2009)

A kvartaði yfir ákvörðun ríkissaksóknara um að hafna því að taka til endurskoðunar ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um að fella niður mál vegna kæru A fyrir líkamsárás á þeirri forsendu að kæra A hafi borist eftir að kærufrestur var útrunninn. Kvörtun A laut að þeirri túlkun ríkissaksóknara á ákvæði 2. mgr. 114. gr. áðurgildandi laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, að upphaf kærufrests hafi borið að miða við dagsetningu tilkynningar lögreglustjóra um niðurfellingu máls en ekki við það tímamark þegar ákvörðunin var komin til aðila. Kvörtunin beindist einnig að þeirri túlkun ríkissaksóknara á sama ákvæði að ekki beri að taka tillit til almennra frídaga við afmörkun á lokadegi kærufrests.

Umboðsmaður rakti ákvæði 112. og 114. gr. áðurgildandi laga nr. 19/1991 og almenn ákvæði 8. og 27. gr. stjórnsýslulaga um útreikning frests og kærufrest. Umboðsmaður vék einnig með almennum hætti að samspili ákvæða stjórnsýslulaga við sérlög um málsmeðferð stjórnvalda á borð við ákvæði áðurgildandi laga nr. 19/1991.

Umboðsmaður taldi að sú túlkun ríkissaksóknara á ákvæði 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, að borið hefði að miða upphafstímamark kærufrests við dagsetningu tilkynningar til aðila um niðurfellingu máls, væri þrengri en efni stæðu til með hliðsjón af texta lagaákvæðisins, lögskýringargögnum að baki því og jafnframt lögskýringargögnum að baki 27. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi einnig að sú túlkun ríkissaksóknara á ákvæði 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, að ákvæði 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga hefði ekki gilt við útreikning kærufrests vegna niðurfellingar máls hjá handhafa ákæruvalds, hefði ekki verið í samræmi við lög. Umboðsmaður tók þó fram að hann teldi ekki rétt að fjalla frekar um hvenær telja yrði að kærufresturinn hefði byrjað að líða að virtum atvikum málsins. Í því sambandi tók hann fram að jafnvel þótt rétt hefði verið að miða við hina formlegu dagsetningu tilkynningar lögreglustjórans á Suðurnesjum til A hefðu lok eins mánaðar kærufrestsins borið upp á frídag og hefði þá samkvæmt 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga átt að miða lok frestsins við næsta virka dag á eftir, en óumdeilt væri að kæra A hefði borist ríkissaksóknara þann dag. Að þessu virtu og í samræmi við þau sjónarmið sem rakin höfðu verið í álitinu var það niðurstaða umboðsmanns að ekki yrði fallist á þá afstöðu ríkissaksóknara að kæra A hefði borist eftir að kærufrestur var liðinn.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til embættis ríkissaksóknara, í ljósi 3. mgr. 76. gr. áðurgildandi laga nr. 19/1991, sbr. nú 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008, að tekin yrði afstaða til þess hvort skilyrði væru að lögum til að taka afgreiðslu embættisins í máli A til athugunar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá A. Enn fremur beindi umboðsmaður þeim almennu tilmælum til embættis ríkissaksóknara að embættið hagaði meðferð mála á grundvelli gildandi laga nr. 88/2008 þannig að gætt væri að þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í áliti hans, að því marki sem þau kynnu að eiga við um meðferð ákæruvalds í sakamálum á grundvelli þeirra laga.

I. Kvörtun.

Hinn 9. febrúar 2009 leitaði B, héraðsdómslögmaður, fyrir hönd A, til mín og kvartaði yfir þeirri ákvörðun ríkissaksóknara að hafna því að endurskoða ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum frá 31. október 2008 um að fella niður mál vegna kæru A fyrir líkamsárás, á þeirri forsendu að kæra A hafi borist eftir að kærufrestur var útrunninn.

Kvörtun lögmannsins lýtur í fyrsta lagi að þeirri túlkun ríkissaksóknara á ákvæði 2. mgr. 114. gr. áðurgildandi laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, að upphaf kærufrests hafi borið að miða við dagsetningu tilkynningar lögreglustjóra um niðurfellingu máls en ekki við það tímamark þegar ákvörðunin var komin til aðila. Í öðru lagi beinist kvörtun lögmannsins að þeirri túlkun ríkissaksóknara á sama ákvæði að ekki beri að taka tillit til almennra frídaga við afmörkun á lokadegi kærufrests.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 10. september 2009.

II. Málavextir.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 31. október 2008, tilkynnti lögreglustjórinn á Suðurnesjum A að ekki yrði um að ræða frekari aðgerðir af hálfu ákæruvaldsins vegna ætlaðrar líkamsárásar tveggja tilgreindra einstaklinga gegn honum. Með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 var málið fellt niður. Í bréfinu var A jafnframt leiðbeint um að hann gæti kært ákvörðunina innan eins mánaðar og að frestur til að krefjast rökstuðnings væri 14 dagar frá dagsetningu bréfsins.

Lögmaður A kærði ákvörðun lögreglustjóra um niðurfellingu málsins með bréfi sem barst ríkissaksóknara 1. desember 2008. Í bréfi ríkissaksóknara, dags. 30. desember 2008, þar sem tekin er afstaða til kæru lögmannsins segir m.a. svo:

„Samkvæmt bréfi lögreglustjórans á Suðurnesjum til kæranda, dags. 31. október 2008, ákvað lögreglustjórinn að fella málið niður með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991 þar sem það sem fram kom við rannsókn málsins þótti ekki nægjanlegt eða líklegt til sakfellis. Í bréfinu kemur fram að þessa ákvörðun megi kæra til ríkissaksóknara innan mánaðar frá tilkynningu. Samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, er ákvörðun lögreglustjóra um að fella mál niður á grundvelli 112. gr. laganna kæranleg til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því að viðkomandi er tilkynnt ákvörðun. Kæra þessi barst ríkissaksóknara 1. desember 2008, en kærufrestur var þá útrunninn.

Með vísan til ofangreinds er kröfu kæranda um endurskoðun á ákvörðun lögreglustjórans hafnað.“

Með bréfi, dags. 14. janúar 2009, óskaði lögmaður A eftir því að ríkissaksóknari endurskoðaði framangreinda ákvörðun sína. Í bréfi lögmannsins sagði að tilkynning lögreglustjórans á Suðurnesjum um niðurfellingu málsins hafi verið dagsett 31. október 2008 sem hafi verið föstudagur. Tilkynningin hafi því í fyrsta lagi borist A mánudaginn 3. nóvember s.á. Kæru hafi síðan verið skilað inn 1. desember 2008 eða 28 dögum eftir að bréf lögreglustjórans barst A. Í bréfi lögmannsins er síðan vísað til þess að samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefjist kærufrestur fyrst eftir að ákvörðun lægra stjórnvalds er komin til aðila, sem hafi í fyrsta lagi verið mánudaginn 3. nóvember 2008, og því hafi kæran borist innan þeirra tímamarka sem tilgreind hafi verið í 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991. Í bréfi lögmannsins er einnig vísað til 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga þar sem kveðið er á um að sé lokadagur frests almennur frídagur lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir. Af því leiddi að jafnvel þótt litið yrði svo á að tilkynning lögreglustjórans á Suðurnesjum hefði borist A 31. október 2008 teldist kæran hafa borist innan kærufrests þar sem lokadag hefði borið upp á sunnudag og því hefði borið að framlengja frestinn til mánudagsins 1. desember 2008.

Í svarbréfi ríkissaksóknara til lögmannsins, dags. 5. febrúar 2009, segir svo:

„Það að vera kærður fyrir refsiverða háttsemi verður að teljast afar íþyngjandi fyrir einstakling. Því hafa eldri réttarfarslög og núgildandi lög um meðferð sakamála nr. 88/2008 einkum miðað að því að tryggja sem best réttaröryggi sakbornings og hefur lagaþróunin verið sú að veita honum sífellt meiri réttarvernd. Þetta verður til þess að sakborningur nýtur mun ríkari réttarverndar en kærandi í opinberum málum og ber ríkissaksóknara og öðrum ákærendum samkvæmt lögum að tryggja þetta.

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 37/1993 er kveðið á um þriggja mánaða kærufrest frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Hins vegar kemur fram í niðurlagi ákvæðisins að mæli lög á annan veg, þ.e. um lengri eða styttri kærufresti, gangi þau framar hinu almenna ákvæði. Samkvæmt 2. mgr. 114. gr. þágildandi laga nr. 19/1991, sbr. 2. mgr. 147. gr. laga nr. 88/2008 getur sá, sem ekki vill una við ákvörðun lögreglustjóra, kært hana til ríkissaksóknara innan mánaðar frá því að honum var tilkynnt um hana. Segir í greinargerð með lögum nr. 84/1996, þar sem breyting var gerð á 114. gr. laganna, að kærufrestur skv. 2. mgr. greinarinnar sé styttri en almennt gildi um stjórnsýslukærur þar sem þörf sé á því að máli verði lokið sem fyrst. Er því ljóst að hér er um sérreglu að ræða sem gengur framar 27. gr. laga nr. 37/1993.

Þegar lögregla fellir niður mál er henni skylt að tilkynna það sakborningi og ef því er að skipta brotaþola hafi hann hagsmuna að gæta. Getur hann kært ákvörðun lögreglu innan eins mánaðar og skal ríkissaksóknari taka afstöðu til kærunnar innan eins mánaðar frá því að hún berst honum. Tilkynning til kærða um niðurfellingu máls er ívilnandi stjórnvaldsákvörðun og verður kærði að geta treyst því að málið verði ekki tekið upp á ný eftir að mánaðarfresturinn er liðinn enda ekki til þess lagaheimild nema ný sakargögn komi fram eða líklegt að þau komi fram, sbr. 3. mgr. 76. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008.

Miðað við þetta stangast annars vegar á reglur um rétt sakbornings til endanlegra lykta máls og hins vegar reglur stjórnsýslulaga að miða upphafsdag kærufrests við birtingu ákvörðunar til brotaþola eða taka til skoðunar almenna frídaga við ákvörðun lokadags kærufrests. Er það mat ríkissaksóknara að réttindi sakbornings verði að vega hér þyngra og að túlka beri ákvæði þágildandi 114. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 2. mgr. 147. gr. laga nr. 88/2008, þröngt enda virðist sem ákæruvaldið hafi enga heimild til að taka mál til meðferðar ef kæra hefur ekki borist innan 30 daga frá niðurfellingu eða frávísun máls. Er þessi túlkun í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 216/2005.

Þegar af þeirri ástæðu er kröfu yðar um endurskoðun fyrri ákvörðunar hafnað.“

Í kjölfarið leitaði lögmaðurinn fyrir hönd A til mín. Í kvörtuninni kemur fram að lögmaðurinn telji ákvörðun ríkissaksóknara ganga í berhögg við þær stjórnsýslureglur sem gilda um kærufresti og þá sérstaklega 2. mgr. 8. gr. og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er um það vísað til erindis lögmannsins til ríkissaksóknara frá 14. janúar 2009 þar sem farið var fram á endurskoðun ákvörðunar embættisins frá 30. desember 2008.

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda.

Í tilefni af kvörtun lögmannsins ritaði ég ríkissaksóknara bréf, dags. 16. mars 2009, þar sem ég rakti efni kvörtunarinnar og vísaði til bréfaskipta umboðsmanns Alþingis við embætti ríkissaksóknara vegna annarrar kvörtunar sem umboðsmaður hafði til meðferðar vegna þeirrar túlkunar ríkissaksóknara á 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, að upphaf kærufrests bæri að miða við tilkynningu lögreglustjóra um niðurfellingu máls. Í bréfi vegna þess máls hafði umboðsmaður óskað eftir afstöðu ríkissaksóknara til þess hvort og þá að hvaða marki ákvörðun í því máli samrýmdist sjónarmiðum um samspil ákvæða þágildandi 114. gr. laga nr. 19/1991 og ákvæða 27. gr. stjórnsýslulaga sem rakin voru í áliti umboðsmanns Alþingis frá 28. desember 2006 í máli nr. 4787/2006. Í bréfi mínu tók ég fram að svarbréf embættis ríkissaksóknara vegna þess máls, dags. 4. febrúar 2009, væri efnislega samhljóða bréfi embættisins til lögmanns A, dags. 5. febrúar 2009, að því er varðar þau álitamál sem varða samspil 27. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991. Í ljósi þess teldi ég óþarft að leita á ný eftir afstöðu ríkissaksóknaraembættisins til þess álitaefnis nema embættið óskaði sérstaklega eftir að koma frekari athugasemdum þar að lútandi á framfæri. Hins vegar óskaði ég með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir nánari skýringum ríkissaksóknara á því sjónarmiði embættisins að ákvæði 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga gildi ekki um útreikning frests vegna kæru á niðurfellingu máls hjá lögreglu. Í því sambandi tók ég fram að ég hefði einkum í huga að 8. gr. laganna væri ekki bundin við útreikning frests samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga heldur væri í 1. mgr. 8. gr. laganna kveðið á um að þar sem „kveðið [væri] á um frest í lögum“ teldist sá dagur sem fresturinn er talinn frá ekki með í honum.

Í svarbréfi ríkissaksóknara til mín, dags. 6. apríl 2009, segir eftirfarandi:

„Í 1. mgr. 8. gr. [stjórnsýslulaga] segir „Þar sem kveðið er á um frest í lögum telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum.“ Ríkissaksóknari hefur túlkað þetta ákvæði svo að sé ákvörðun, til að mynda, tekin 1. janúar, sé lokadagur kærufrests 1. febrúar. Miðað við þetta er dagurinn sem fresturinn er talinn frá, 1. janúar, ekki talinn með í frestinum.

Það að vera kærður fyrir refsiverða háttsemi verður að teljast afar íþyngjandi fyrir einstakling. Því hafa eldri réttarfarslög og núgildandi lög um meðferð sakamála nr. 88/2008 einkum miðað að því að tryggja sem best réttaröryggi sakbornings og hefur lagaþróunin verið sú að veita honum sífellt meiri réttarvernd. Þetta verður til þess að sakborningur nýtur mun ríkari réttarverndar en kærandi í opinberum málum og ber ríkissaksóknara og öðrum ákærendum samkvæmt lögum að tryggja þetta.

Þegar lögregla fellir niður mál er henni skylt að tilkynna það sakborningi og ef því er að skipta brotaþola hafi hann hagsmuna að gæta. Getur hann kært ákvörðun lögreglu innan eins mánaðar og skal ríkissaksóknari taka afstöðu til kærunnar innan eins mánaðar frá því að hún berst honum. Tilkynning til kærða um niðurfellingu máls er ívilnandi stjórnvaldsákvörðun og verður kærði að geta treyst því að málið verði ekki tekið upp á ný eftir að mánaðarfresturinn er liðinn enda ekki til þess lagaheimild nema ný sakargögn komi fram eða líklegt að þau komi fram, sbr. 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008.

Miðað við þetta stangast annars vegar á reglur um rétt sakbornings til endanlegra lykta máls, mánuði eftir að ákvörðun var tekin og hins vegar regla 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaganna um að ef lokadagur frests er almennur frídagur lengist fresturinn til næsta opnunardags. Er það mat ríkissaksóknara að réttindi sakbornings verði að vega hér þyngra og að túlka beri ákvæði 2. mgr. 147. gr. laga nr. 88/2008, þröngt enda virðist sem ákæruvaldið hafi enga heimild til að taka mál til meðferðar ef kæra hefur ekki borist innan 30 daga frá niðurfellingu eða frávísun máls. Er þessi túlkun í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 216/2005.

Ríkissaksóknari hefur litið svo á að með nútímatækni sé unnt að koma kæru til skila á almennum frídegi með tölvupósti eða faxi og er þá komudagur kæru miðaður við þann dag. Þá skal það einnig tekið fram að með kæru þarf ekki að berast rökstuðningur heldur er nóg að kæra sé í formi einfaldrar tilkynningar. Óski aðilar eftir að koma að rökstuðningi, er hægt að koma honum að á síðari stigum máls.“

Með bréfi, dags. 8. apríl 2009, var lögmanni A gefinn kostur á að gera athugasemdir við framangreint svarbréf ríkissaksóknara. Athugasemdir lögmannsins bárust mér með bréfi, dags. 26. apríl 2009, og var þar meðal annars vakin athygli á því að í svarbréfi embættis ríkissaksóknara frá 6. apríl 2009 segði að embættið hefði ekki heimild til að taka mál til meðferðar bærist kæra ekki „innan 30 daga“ frá niðurfellingu þess hjá lögreglu.

Ég ritaði ríkissaksóknara á ný bréf, dags. 8. maí 2009, þar sem ég rakti að í 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 segði að sá sem ekki vildi una við ákvörðun lögreglustjóra um að fella niður mál eða falla frá saksókn gæti kært hana til ríkissaksóknara „innan eins mánaðar“ frá því að honum hefði verið tilkynnt um hana. Ákvæði 2. mgr. 147. gr. núgildandi laga nr. 88/2008 væri efnislega samhljóða að þessu leyti. Í hvorugum lagabálknum væri að finna ákvæði sem svöruðu til 2. mgr. 31. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þar sem m.a. kæmi fram að „mánuður“ í skilningi þeirra laga merkti 30 daga. Slík ákvæði væri ekki heldur að finna í stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps þess sem síðar varð að þeim lögum yrði þó ráðið að með „mánuði“ væri átt við almanaksmánuð, en þar væri í dæmaskyni nefnt að væri ákvörðun tilkynnt aðila máls 1. september þyrfti kæra að berast æðra stjórnvaldi eða vera póstlögð eigi síðar en 1. desember.

Í ljósi þessa óskaði ég eftir þeim sjónarmiðum er byggju að baki þeirri afstöðu embættis ríkissaksóknara að kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, nú 2. mgr. 147. gr. laga nr. 88/2008, væri 30 dagar en ekki almanaksmánuður, enda væri í ákvæðinu mælt svo fyrir að kæra skyldi hafa borist „innan eins mánaðar“. Í þessu sambandi tók ég fram að ég fengi ekki séð að sá skilningur væri lagður í framangreint ákvæði í dómi Hæstaréttar í máli nr. 216/2005, sem vísað væri til í bréfi embættisins til mín, að þar væri 30 daga regla lögð til grundvallar. Í bréfinu óskaði ég þess einnig að mér yrði afhent afrit af bréfi lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 31. október 2008, þar sem tilkynnt hefði verið um niðurfellingu málsins.

Í svarbréfi embættis ríkissaksóknara, dags. 13. maí 2009, er framangreindri spurningu minni svarað með eftirfarandi hætti:

„Í bréfi ríkissaksóknara er um misritun að ræða. Ríkissaksóknari miðar mánaðarfrestinn samkvæmt ákvæði 2. mgr. 147. gr. laganna við almanaksmánuðinn en ekki 30 daga eins og fram kemur í bréfinu enda kemur það fram í útskýringu ríkissaksóknara í 2. málsgrein bréfsins [...]“

Ég skil svarbréfið á þann veg að embætti ríkissaksóknara hafi lagt sama skilning í 2. mgr. 114. gr. áðurgildandi laga nr. 19/1991.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1. Afmörkun athugunar.

Athugun mín á máli þessu lýtur annars vegar að því hvenær kærufrestur til ríkissaksóknara samkvæmt 2. mgr. 114. gr. þágildandi laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, vegna ákvörðunar lögreglustjóra um að fella niður mál, sbr. 112. gr. sömu laga, hafi byrjað að líða. Hins vegur lýtur athugun mín á málinu að því hvort það að lokadag kærufrests samkvæmt 2. mgr. 114. gr. beri upp á almennum frídegi hafi þau áhrif að kærufresturinn lengist til næsta opnunardags þar á eftir. Þar reynir einkum á hvernig háttað var samspili 2. mgr. 114. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 og 2. mgr. 8. gr. og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Af kvörtun lögmannsins og erindi hans til ríkissaksóknara, dags. 14. janúar 2009, verður ráðið að hann telji leiða af 27. gr. stjórnsýslulaga að kærufrestur hafi fyrst byrjað að líða þegar ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum var komin til umbjóðanda hans. Af kvörtuninni verður jafnframt ráðið að lögmaðurinn telji leiða af 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga að jafnvel þótt litið yrði svo á að tilkynning lögreglustjórans á Suðurnesjum hefði borist umbjóðanda hans 31. október 2008 teldist kæran hafa borist innan kærufrests þar sem lokadag hefði þá borið upp á sunnudag og því hefði borið að lengja kærufrestinn til mánudagsins 1. desember 2008.

Eins og áður er rakið er afstaða ríkissaksóknara hins vegar sú að upphaf kærufrests hafi borið að miða við dagsetningu tilkynningar ákæranda um niðurfellingu máls og að þágildandi ákvæði 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, nú 147. gr. laga nr. 88/2008, hafi falið í sér sérreglu sem hafi gengið framar ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga um upphaf kærufrests. Af svörum ríkissaksóknara verður jafnframt ráðið að það sé afstaða hans að ákvæði 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 hafi gengið framar reglu 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga um að kærufrestur lengist til næsta opnunardags ef lokadagur frests er almennur frídagur.

Þar sem ríkissaksóknari hefur ekki tekið efnislega afstöðu til þeirrar ákvörðunar lögreglustjóra að fella umrætt mál niður á grundvelli 112. gr. laga nr. 19/1991 hefur athugun mín einungis beinst að því hvort ákvörðun embættisins um að hafna því að taka kæru lögmannsins til efnislegrar meðferðar hafi samrýmst lögum.

2. Lagaumhverfi.

Um meðferð sakamála, þar á meðal ákvarðanir handhafa ákæruvalds um að fella niður mál, gilda ákvæði laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Lögin tóku gildi 1. janúar 2009 með þeim undantekningum sem tilgreindar voru í ákvæðum til bráðabirgða. Sú ákvörðun ríkissaksóknara sem hér er til umfjöllunar var sem fyrr greinir hins vegar tekin í gildistíð eldri laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og fór því um niðurfellingu máls og meðferð kæru slíkrar ákvörðunar eftir 112. og 114. gr. þeirra laga.

Samkvæmt 112. gr. laga nr. 19/1991 bar ákæranda, þegar hann hafði fengið gögn opinbers máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn þess væri lokið, að athuga hvort sækja skyldi mann til sakar eða ekki. Ef hann taldi það sem fram væri komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lét hann við svo búið standa, en ella lagði hann málið fyrir dóm samkvæmt 116. gr. laganna.

Ákvæði 114. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 84/1996 og 26. gr. laga nr. 36/1999, hljóðuðu svo:

„1. Nú er mál fellt niður skv. 112. gr. eða fallið er frá saksókn skv. 113. gr. og skal ákærandi sem þá ákvörðun tók tilkynna hana sakborningi og ef því er að skipta brotaþola, enda liggi fyrir hver hann er. Ber að rökstyðja ákvörðunina ef þess er krafist.

2. Sá sem ekki vill una við ákvörðun lögreglustjóra skv. 1. mgr. getur kært hana til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því að honum var tilkynnt um hana. Skal ríkissaksóknari taka afstöðu til kærunnar innan eins mánaðar frá því að hún berst honum, nema svo standi á sem í 3. mgr. 28. gr. segir.“

Kæruheimild 2. mgr. 114. gr. var nýmæli sem fest var í lög með 10. gr. laga nr. 84/1996, um breyting á lögum um meðferð opinberra mála. Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 84/1996 segir svo um nefnda 10. gr., sem var 9. gr. frumvarpsins:

„Ef mál er fellt niður skv. 112. gr. laga um meðferð opinberra mála eða fallið er frá saksókn skv. 113. gr. laganna ber ákæranda skv. 114. gr. að tilkynna það sakborningi eða ef því er að skipta þeim sem misgert er við. Lagt er til að það komi í hlut þess sem þá ákvörðun tók að sjá um þá tilkynningu.

Ákvæði 2. mgr. er nýmæli. Samkvæmt því getur sá er ekki vill una við ákvörðun lögreglustjóra um að fella niður mál eða að falla frá saksókn kært þá ákvörðun til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því að honum var tilkynnt um hana. Er hér um skemmri kærufrest en almennt gildir um stjórnsýslukærur skv. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. [37/1993], þar sem miðað er við þriggja mánaða kærufrest. Er það eðlilegt þar sem þörf er á að málunum verði lokið sem fyrst. Ríkissaksóknari skal taka afstöðu til kærunnar innan eins mánaðar frá því að hún barst honum, nema ríkissaksóknari ákveði að höfða málið sjálfur eða leggi fyrir lögreglustjóra að gera það, sbr. 3. mgr. 28. gr. laganna.“ (Alþt. 1995—1996, A-deild, bls. 3746.)

Auk ofangreindra sérákvæða þágildandi laga nr. 19/1991 giltu um starfsemi handhafa ákæruvalds almenn ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda telst hún til „stjórnsýslu ríkisins“ í merkingu 1. mgr. 1. gr. laganna. Ég hef lagt til grundvallar að ákvörðun lögreglustjóra um niðurfellingu máls á grundvelli 112. gr. áðurgildandi laga nr. 19/1991 hafi talist stjórnvaldsákvörðun, enda fellur hún að öllum efnisskilyrðum þess hugtaks, sbr. álit mitt frá 23. júní 2009 í máli nr. 5486/2008, sjá einnig álit umboðsmanns Alþingis frá 28. desember 2006 í máli nr. 4787/2006. Jafnframt hef ég lagt til grundvallar að úrskurður ríkissaksóknara í kærumáli samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 hafi varðað „rétt“ þess sem kært hafði í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga og að um meðferð slíks kærumáls hafi stjórnsýslulög því gilt að því marki sem ekki var að finna í lögum nr. 19/1991 sérstök fyrirmæli um meðferð þeirra mála.

Almennt ákvæði um kærufrest er að finna í 27. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun „nema lög mæli á annan veg“. Í athugasemdum við 27. gr. frumvarps er síðar varð að stjórnsýslulögum kemur fram að hafi ákvörðun verið tilkynnt skriflega hefjist kærufresturinn „þegar ákvörðun er komin til aðila“. (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3307—3308.)

Ákvæði um útreikning frests, þ. á m. kærufrests, er að finna í 8. gr. stjórnsýslulaga. Í 2. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að sé lokadagur frests almennur frídagur lengist kærufresturinn til næsta opnunardags þar á eftir. Að öðru leyti beri að telja frídaga með sem eru innan frestsins þegar fresturinn er reiknaður. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps þess er síðar varð að stjórnsýslulögum segir eftirfarandi:

„Endi frestur á almennum frídegi lengist fresturinn til næsta opnunardags. Að öðru leyti ber að telja þá frídaga með sem eru innan frestsins þegar hann er reiknaður. Þegar reiknaður er t.d. út kærufrestur skv. 27. gr. og ákvörðun er tilkynnt aðila 1. september þarf kæra að berast æðra stjórnvaldi eða vera póstlögð eigi síðar en 1. desember. Beri 1. desember upp á laugardag eða sunnudag mundi kærufresturinn framlengjast fram á næsta opnunardag sem undir venjulegum kringumstæðum væri þá næsti mánudagur þar á eftir, þ.e. 2. eða 3. desember.“ (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3293.)

Eins og fram kom í áliti mínu frá 23. júní 2009 í máli nr. 5486/2008 er ótvírætt að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi í grundvallaratriðum gilt um meðferð ákæruvalds samhliða sérákvæðum áðurgildandi laga nr. 19/1991 og verið þeim til fyllingar. Þar benti ég jafnframt á að það sama gildir í meginatriðum um samspil stjórnsýslulaga og gildandi laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Ég vísa nánar um það til umfjöllunar í framangreindu áliti mínu.

Með framangreint í huga tel ég rétt, áður en ég vík sérstaklega að röksemdum ríkissaksóknara í máli þessu, að fara almennum orðum um hvaða efnislegu þýðingu það hafi haft við beitingu sérákvæða 114. gr. laga nr. 19/1991 að stjórnsýslulög gildi um meðferð ákæruvalds í sakamálum.

Stjórnsýslulögin taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, sbr. 1. gr. laganna. Ljóst er að löggjafinn getur við setningu lagareglna á einstökum sviðum stjórnsýslunnar tekið þá ákvörðun að almennar reglur stjórnsýsluréttarins, skráðar eða óskráðar, skuli ekki gilda að hluta eða í heild um störf þeirra stjórnvalda sem falið er að annast þau verkefni sem kveðið er á um í sérlögum. Þar sem almennar reglur stjórnsýsluréttarins eru fyrst og fremst réttaröryggisreglur, og er ætlað að veita borgurunum tiltekna réttarvernd í samskiptum sínum við stjórnvöld, eru hins vegar almennt taldar líkur gegn því að löggjafinn hafi með setningu sérlaga ætlað sér að skerða réttaröryggi borgaranna með setningu slíkra laga. Það verður m.ö.o. að vera hægt að draga þá ályktun með nokkurri vissu af texta ákvæða í sérlögum eða eftir atvikum forsendum í lögskýringargögnum að fyrirætlan löggjafans hafi verið sú að víkja að hluta eða í heild frá hinum almennu réttaröryggisreglum stjórnsýsluréttarins, þannig að réttarstaða borgaranna verði lakari en leiðir af stjórnsýslulögunum sem ætlað er að tryggja að málsmeðferð stjórnvalda sé í samræmi við þær lágmarkskröfur sem gera verður til stjórnsýslunnar, sjá nánar álit mitt frá 23. júní 2009 í máli nr. 5486/2008 og jafnframt álit umboðsmanns Alþingis frá 28. desember 2006 í máli nr. 4787/2006, frá 8. júlí 2005 í máli nr. 4095/2004 og frá 13. febrúar 1998 í máli nr. 1820/1996. Ef slíkar vísbendingar verða ekki ráðnar af texta sérlaga eða lögskýringargögnum verður að jafnaði ekki dregin sú ályktun af markmiðum og eðli þeirra verkefna sem sérlög fjalla um að almennar reglur stjórnsýsluréttarins, skráðar eða óskráðar, gildi ekki um starfsemi þeirra stjórnvalda sem hafa þau verkefni með höndum. Hér er ástæða til að minna á þá skýringarreglu sem orðuð var í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi því er síðar varð að stjórnsýslulögum að þau sérákvæði í lögum sem gera minni kröfur til stjórnvalda en reglur stjórnsýslulaganna hljóða um þoki fyrir hinum almennu ákvæðum stjórnsýslulaganna. Þá sagði í athugasemdunum:

„Auk þess ber að skýra ýmis þau sérákvæði í lögum sem almennt eru orðuð, svonefnd eyðuákvæði, til samræmis við ákvæði þessara laga [...]“ (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3284.)

3. Upphafstími kærufrests vegna ákvörðunar handhafa ákæruvalds um að fella niður sakamál og röksemdir ríkissaksóknara.

Eins og áður er komið fram óskaði lögmaður A eftir því með bréfi, dags. 14. janúar 2009, að ríkissaksóknari endurskoðaði ákvörðun sína um að vísa frá kæru á ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum. Með svarbréfi embættis ríkissaksóknara til lögmannsins, dags. 5. febrúar s.á., var erindinu hafnað og kemur meðal annars fram í bréfinu sú afstaða embættisins að ákvæði 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið sérregla sem gengið hafi framar 27. gr. stjórnsýslulaga. Af því verður ráðið að afstaða ríkissaksóknara sé sú að miða beri upphafsdag kærufrests við dagsetningu tilkynningar frá lögreglustjóra um niðurfellingu máls en ekki við síðara tímamark, t.d. þegar ætla má að ákvörðun sé komin til brotaþola. Jafnframt verður ráðið af bréfinu að afstaða embættis ríkissaksóknara sé sú að 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga um framlengingu kærufrests þegar lokadag frests ber upp á frídag gildi ekki um útreikning kærufrests þegar kærð er ákvörðun handhafa ákæruvalds um að fella niður opinbert mál.

Eins og áður er rakið hafði mér borist bréf frá embætti ríkissaksóknara, dags. 4. febrúar 2009, vegna annars máls er ég hafði til athugunar, sem var efnislega samhljóða framangreindu bréfi embættisins til lögmanns A að því er varðar þau álitamál sem varða samspil 27. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991. Því tók ég meðal annars fram í erindi mínu til ríkissaksóknara, dags. 16. mars 2009, að ég teldi óþarft að leita á ný eftir afstöðu ríkissaksóknara til þess tiltekna álitaefnis nema embættið óskaði sérstaklega eftir að koma frekari athugasemdum þar að lútandi á framfæri. Í svarbréfi embættis ríkissaksóknara frá 6. apríl 2009 var ekki sérstaklega vikið að þessu álitaefni heldur gert grein fyrir sjónarmiðum embættisins að því er varðar samspil 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 og 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga. Þau rök eru að hluta til af sama meiði og þau rök sem embætti ríkissaksóknara hefur áður fært fyrir því að ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga gildi ekki við ákvörðun kærufrests vegna ákvörðunar um niðurfellingu máls hjá lögreglu. Ég tel rétt að gera stuttlega grein fyrir meginröksemdum ríkissaksóknara fyrir þessari afstöðu sinni til málsins.

Í fyrsta lagi vísar embætti ríkissaksóknara til þess í bréfi sínu til lögmanns A að í athugasemdum að baki 10. gr. laga nr. 84/1996, sem fól í sér breytingu á 114. gr. laga nr. 19/1991, komi fram að kærufrestur samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins sé styttri en almennt gildi um stjórnsýslukærur þar sem þörf sé á því að opinberum málum sé lokið sem fyrst. Af því er dregin sú ályktun að 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 feli í sér sérreglu sem gangi framar ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga. Af bréfi embættis ríkissaksóknara til lögmanns A og skýringum embættisins til mín verður jafnframt ráðið að embættið telji að ákvæði 2. mgr. 114. gr. feli í sér sérreglu sem gangi framar ákvæði 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga, sbr. þau ummæli að reglur um rétt sakbornings til endanlegra lykta máls mánuði eftir að ákvörðun er tekin og regla 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga stangist á og að ríkissaksóknari telji réttindi sakborningsins verði að vega þyngra.

Í öðru lagi vísar embætti ríkissaksóknara til þess í bréfi sínu til lögmanns A og í skýringum sínum til mín að ákvæði 114. gr. laga nr. 19/1991 beri að skýra þröngt og er í því sambandi vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 216/2005.

Í þriðja lagi vísar embætti ríkissaksóknara til þess í skýringum sínum til mín, að því er varðar ákvæði 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga, að ríkissaksóknari hafi litið svo á að með nútímatækni sé unnt að koma kæru til skila á almennum frídegi með tölvupósti eða faxi og sé þá komudagur kæru miðaður við þann dag. Þá er tekið fram að með kæru þurfi ekki að berast rökstuðningur heldur sé nóg að kæra í formi einfaldrar tilkynningar. Óski aðilar eftir að koma að rökstuðningi sé hægt að koma honum að á síðari stigum.

Um ofangreindar röksemdir ríkissaksóknara tek ég eftirfarandi fram.

Ég legg á það áherslu í þessu sambandi að sögnin „að tilkynna“, sem notuð er í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, er nánar útfærð á þann veg í ofantilvitnuðum athugasemdum greinargerðar að baki því ákvæði stjórnsýslulaga, að hana beri að skilja þannig að kærufrestur byrji að líða þegar ákvörðun er „komin til aðila“, en ekki þannig að kærufrestur miðist við dagsetningu tilkynningar. Það viðmið upphafstíma kærufrests, að ákvörðun sé „komin til aðila“, hefur verið túlkað þannig að ekki sé þess krafist að ákvörðun sé komin til vitundar aðila, heldur nægi „að ákvörðun sé komin þangað sem almennt má búast við að aðili geti kynnt sér hana, t.d. að bréf hafi verið „afhent á heimili hans“, sjá Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin, skýringarrit. Reykjavík, 1994, bls. 215 og 268. Rök standa ekki til þess að túlka beri sérlagaákvæði um kærufrest vegna töku stjórnvaldsákvarðana, sem orðuð eru að þessu leyti með sama hætti, á annan veg. Þegar stjórnvaldsákvörðun er tilkynnt aðila skriflega er upphaf kærufrests vegna ákvörðunarinnar þannig miðað við það tímamark þegar ákvörðun er komin til málsaðila, nema annað verði með skýrum hætti ráðið af texta hlutaðeigandi sérlagaákvæðis. (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3307—3308.)

Með vísan til framangreinds minni ég á það að í fyrri málslið 2. mgr. 114. gr. áðurgildandi laga nr. 19/1991 var notast að þessu leyti við sama orðalag, um að sá, sem ekki vildi una við ákvörðun um niðurfellingu máls, gæti kært hana innan eins mánaðar frá því honum var „tilkynnt“ um hana, eins og fram kemur í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, þótt kærufresturinn sé styttri. Af orðalagi umrædds fyrri málsliðar 2. mgr. 114. gr. áðurgildandi laga nr. 19/1991 eða athugasemdum að baki því, sem raktar voru í kafla IV.2 hér að framan, varð því ekki dregin sú ályktun að upphafstímamark kærufrests hafi átt að miða við „dagsetningu“ tilkynningar til aðila.

Í tilefni af þeirri röksemd í skýringarbréfi ríkissaksóknara, að tilteknar athugasemdir í lögskýringargögnum leiði til þess að ákvæði 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 hafi falið í sér sérreglu sem hafi gengið framar almennri reglu 27. gr. stjórnsýslulaga, ítreka ég að þær athugasemdir sem embættið vísar til voru samkvæmt orðalagi sínu settar fram einungis til skýringar á því hvers vegna vikið væri frá hinum almenna þriggja mánaða kærufresti samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga og kveðið á um styttri kærufrest, eða einn mánuð. Löggjafinn hafi þannig talið nauðsynlegt að mæla sérstaklega fyrir um styttri frest í þessum tilvikum enda myndi að öðrum kosti gilda hinn almenni kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum athugasemdum verður hins vegar ekkert ráðið um það að vikið hafi verið frá ákvæðinu að öðru leyti.

Ég bendi í þessu sambandi á að ef ætlunin hefði verið að víkja ekki aðeins frá lengd kærufrestsins, heldur einnig þeirri aðferð sem notuð er samkvæmt stjórnsýslulögum til þess að reikna hann út í einstökum stjórnsýslumálum, hefði löggjafanum verið í lófa lagið að kveða með skýrum hætti á um það. Í niðurlagi 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga er raunar beinlínis gert ráð fyrir að löggjafinn kunni að ákveða að mæla fyrir um aðra kærufresti í sérlögum en fram kemur í ákvæðinu, sbr. orðalagið „nema lög mæli á annan veg“. Velji löggjafinn að fara þá leið að mæla fyrir um styttri kærufresti við setningu sérlaga um tiltekna tegund stjórnsýslu ríkisins er hins vegar með engu móti sjálfgefið að dregin verði sú ályktun af slíku löggjafarfyrirkomulagi að ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga eigi ekki við að öðru leyti.

Í samræmi við þau lagasjónarmið, sem rakin eru hér að framan, verður þvert á móti að ganga út frá því að þótt löggjafinn hafi í einstökum tilvikum mælt fyrir um styttri kærufresti í sérlögum vegna ákveðinna hagsmuna, sem þar kann að reyna á, verði hlutaðeigandi stjórnvöld að fylgja öðrum ákvæðum stjórnsýslulaga við töku stjórnvaldsákvarðana, enda sé ekki með sérlögum jafnframt vikið með skýrum og ótvíræðum hætti frá þeim, almennt eða sérstætt.

Með vísan til framangreinds tel ég að þótt ljóst sé að með ákvæði 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 hafi verið vikið frá lengd hins almenna kærufrests stjórnsýslulaga, að því leyti að kveðið var á um eins mánaðar kærufrest í stað þriggja mánaða frests, verði hvorki ráðið af orðalagi ákvæðisins né athugasemdum að baki því að ætlun löggjafans hafi staðið til þess að upphafsmark kærufrestsins yrði miðað við annað tímamark en upphafsmark hins almenna kærufrests 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaganna.

Hvað varðar tilvísun ríkissaksóknara til dóms Hæstaréttar í máli nr. 216/2005 bendi ég á að umboðsmaður Alþingis hefur áður fjallað um það álitaefni hvort miða hafi átt upphaf kærufrests samkvæmt 2. mgr. 114. laga nr. 19/1991 við dagsetningu tilkynningar óháð því hvenær tilkynning barst viðtakanda, sbr. álit umboðsmanns frá 28. desember 2006 í máli nr. 4787/2006. Í álitinu benti umboðsmaður á að hann fengi ekki séð að af tilvitnuðum dómi Hæstaréttar yrði ráðið að upphafstímamark kærufrests skuli ávallt miðast við dagsetningu tilkynningar, án tillits til þess t.d. ef fram kæmi í tilteknu máli að viðtakandi gæti sannað að tilkynning hefði borist honum síðar. Þá benti umboðsmaður á að ekki væri unnt að ráða það af dóminum með fullri vissu hvort upphaf kærufrestsins hafi þar verið miðað við dagsetningu tilkynningar eða síðara tímamark, t.d. 1—2 dögum síðar, með hliðsjón af því að bréf eru almennt borin út til viðtakanda innanlands 1—2 dögum eftir að þau eru póstlögð.

Samkvæmt framanrituðu tel ég að sú túlkun ríkissaksóknara á ákvæði 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, að borið hafi að miða upphafstímamark kærufrests við dagsetningu tilkynningar til aðila um niðurfellingu máls, sé þrengri en efni standi til með hliðsjón af texta lagaákvæðisins og þeim lögskýringargögnum sem vitnað er til hér að framan. Auk þess tel ég að of víðtækar ályktanir hafi verið dregnar af dómi Hæstaréttar í máli nr. 216/2005 af hálfu ríkissaksóknara við þá túlkun.

4. Lok kærufrests samkvæmt 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga.

Þegar lokadagur kærufrests er almennur frídagur lengist kærufresturinn til næsta opnunardags þar á eftir, sbr. 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæði þetta gildir almennt um útreikning kærufrests vegna stjórnvaldsákvarðana lægra setts stjórnvalds nema annað verði skýrlega ráðið af lögum eða lögskýringargögnum.

Vegna þeirrar röksemdar embættis ríkissaksóknara að ákvæði 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991 feli í sér sérreglu sem gangi framar ákvæði 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga bendi ég á að hvorki í ákvæði 2. mgr. 114. gr. né í lögskýringargögnum er tekin afstaða til þessa efnisatriðis. Með vísan til þess sem áður er rakið í kafla IV.2 um samspil almennra reglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er mæla fyrir um þær lágmarkskröfur er gera verður til stjórnsýslunnar, og ákvæða 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, get ég ekki fallist á að ætlun löggjafans hafi verið að víkja frá almennri reglu 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga.

Vegna tilvísunar ríkissaksóknara í dóm Hæstaréttar í máli nr. 216/2005 tek ég fram að af dómnum verður ekkert ráðið um að ákvæði 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga gildi ekki við afmörkun á lokadegi kærufrests vegna niðurfellingar máls hjá handhafa ákæruvalds, enda voru atvik þess máls ekki með þeim hætti að kæra hefði borist á næsta opnunardegi eftir lokadag kærufrests.

Vegna þeirrar röksemdar ríkissaksóknara að með nútímatækni sé unnt að koma kæru til skila á almennum frídegi með tölvupósti eða faxi tek ég fram að sú staðreynd breytir því ekki að í 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga er með skýrum hætti kveðið á um að ef lokadagur kærufrests er almennur frídagur lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir. Einnig bendi ég á að ekki allir hafa aðgang að eða þekkingu á þeirri tækni sem embættið vísar til. Þá er ljóst að A var ekki sérstaklega leiðbeint um þetta atriði í tilkynningu lögreglustjórans á Suðurnesjum um niðurfellingu málsins

Í ljósi framangreinds tel ég að sú túlkun ríkissaksóknara á ákvæði 2. mgr. 114. gr. laga nr. 19/1991, að ákvæði 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki gilt við útreikning kærufrests vegna niðurfellingar máls hjá handhafa ákæruvalds, hafi ekki verið í samræmi við lög.

5. Atvik í máli A.

Ég hef hér að framan komist að þeirri niðurstöðu að ekki verði í fyrsta lagi fallist á þá túlkun embættis ríkissaksóknara á 2. mgr. 114. gr. áðurgildandi laga nr. 91/1991, um meðferð opinberra mála, að eins mánaðar kærufrestur, sem þar var tilgreindur, hafi byrjað að líða við dagsetningu tilkynningar lögreglustjóra, heldur hafi átt að miða við þann dag sem ætla hafi mátt að tilkynningin hafi komið til aðila. Þá er það í öðru lagi afstaða mín að ekki verði fallist á það viðhorf ríkissaksóknara að 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki gilt um útreikning á umræddum kærufresti.

Ég tek fram að í ljósi niðurstöðu minnar hér að framan um fyrra atriðið, og að því virtu að ríkissaksóknari hefur ekki sjálfstætt leyst úr kærumáli A á grundvelli þessara lagasjónarmiða, tel ég ekki rétt að ég fjalli frekar um það hvenær telja verði að kærufresturinn hafi hér byrjað að líða að virtum atvikum málsins. Í því sambandi tek ég enda fram að jafnvel þótt rétt hefði verið að miða við hina formlegu dagsetningu tilkynningar lögreglustjórans á Suðurnesjum 31. október 2008, þá hefðu lok eins mánaðar kærufrestsins borið upp á frídag, þ.e. sunnudaginn 30. nóvember s.á. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga hefði þá átt að miða lok frestsins við næsta virka dag þar á eftir, eða mánudaginn 1. desember 2008, en óumdeilt er að kæra lögmanns A barst embætti ríkissaksóknara þann dag. Að þessu virtu, og í samræmi við þau lagasjónarmið sem rakin hafa verið í áliti þessu, er það niðurstaða mín að ekki verði fallist á þá afstöðu ríkissaksóknara frá 30. desember 2008 að kæra A hafi borist eftir að kærufrestur var liðin.

V. Niðurstaða.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að ákvörðun embættis ríkissaksóknara, um að hafna því að taka ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 30. desember 2008, til endurskoðunar á grundvelli 114. gr. þágildandi laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, þar sem kæra A hafi verið of seint fram komin, hafi ekki verið í samræmi við lög.

Í ljósi 3. mgr. 76. gr. áðurgildandi laga nr. 19/1991, sbr. nú 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, læt ég við það sitja að beina þeim tilmælum til embættis ríkissaksóknara að tekin verði afstaða til þess hvort skilyrði séu að lögum til að taka afgreiðslu embættisins frá 30. desember 2008 til athugunar að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá A. Þá beini ég þeim almennu tilmælum til embættis ríkissaksóknara að embættið hagi meðferð mála á grundvelli laga nr. 88/2008 þannig að gætt sé að þeim sjónarmiðum, sem fram koma í áliti þessu, að því marki sem þau kunna að eiga við um meðferð ákæruvalds í sakamálum á grundvelli þeirra laga.

Róbert R. Spanó.

VI. Viðbrögð stjónvalda.

Ég ritaði ríkissaksóknara bréf, dags. 12. febrúar 2010, þar sem ég óskaði upplýsinga um hvort framangreint álit mitt hefði orðið tilefni til einhverra sérstakra ráðstafana hjá embætti hans og þá í hverju þær ráðstafanir hefðu falist.

Í svarbréfi ríkissaksóknara, dags. 24. febrúar 2010, kemur fram að A hafi ekki leitað til embættisins og óskað eftir að afgreiðsla þess í máli hans verði tekin til athugunar að nýja. Hins vegar hafi ríkissaksóknari tekið tillit til athugasemda minna við útreiknings kærufests og er í því sambandi vísað til afstöðu embættisins til meðfylgjandi stjórnsýslukæru. Þar kemur fram að ríkissaksóknari leggi til grundvallar að kærufrestur byrji að líða þegar ákvörðun er komin til aðila en ekki frá og með dagsetningu tilkynningar.