Atvinnuleysistryggingar. Frestun bótagreiðslna. Stjórnvaldsákvörðun. Málsmeðferð. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. 5736/2009)

Umboðsmaður Alþingis ritaði forstjóra Vinnumálastofnunar bréf og óskaði eftir upplýsingum og skýringum á nokkrum atriðum varðandi greiðslur atvinnuleysisbóta. Var bréfið birt 22. júlí 2009 á heimasíðu embættisins. Tilefni fyrirspurnarinnar var frétt þar sem fjallað var um aðstæður atvinnulausrar einstæðrar móður en síðustu greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar hafði verið frestað með vísan til þess að hún hefði fengið greidd mæðralaun. Í fréttinni kom fram að slík laun væru engu að síður ekki frádráttarbær. Umboðsmaður óskaði eftir staðfestingu Vinnumálastofnunar á efni fréttarinnar, hversu margir hefðu af þessum sökum ekki fengið atvinnuleysisbætur sínar greiddar á réttum tíma um mánaðamótin júní/júlí og hvenær þær hefðu að lokum verið greiddar. Jafnframt spurði umboðsmaður hvaða lagagrundvöllur og sjónarmið hefðu legið að baki frestunum, hvort stofnunin teldi þær vera stjórnvaldsákvarðanir og hvernig málsmeðferð þeirra hefði verið háttað.

Í svarbréfi Vinnumálastofnunar til umboðsmanns, dags. 9. september 2009, kom fram að gerð hefðu verið mistök af hálfu starfsmanna Greiðslustofu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd við samkeyrslu við staðgreiðslugrunn ríkisskattstjóra en stofnunin hefði yfirfarið verklag vegna samkeyrslunnar til þess að tryggja að óvissuástand sem skapaðist hjá hluta bótaþega um mánaðamótin júní/júlí kæmi ekki upp aftur. Með tilliti til þessara skýringa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins á grundvelli heimildar hans til að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður horfði einnig til þess að í skýringunum lýsti Vinnumálastofnun þeirri afstöðu sinni að ákvörðun um að fresta að greiða út atvinnuleysisbætur væri stjórnvaldsákvörðun og með hana bæri að fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hefði m.a. verið áréttað í breyttu verklagi við úrvinnslu samkeyrslu við staðgreiðslugrunn ríkisskattstjóra eftir að mistök af hálfu starfsmanna Vinnumálastofnunar hefðu verið gerð. Lauk umboðsmaður athugun sinni á málinu með bréfi til forstjóra Vinnumálastofnunar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Bréf umboðsmanns Alþingis til forstjóra Vinnumálastofnunar, dags. 18. september 2009, er svohljóðandi:

Ég vísa til fyrri bréfaskipta vegna frumkvæðisathugunar minnar á því hvernig var staðið af hálfu Vinnumálastofnunar að frestun á greiðslu atvinnuleysisbóta um mánaðamótin júní/júlí 2009 til þeirra sem eru atvinnulausir.

Í bréfi mínu til yðar, dags. 22. júlí 2009, tók ég fram að frétt sem birtist á vefsíðunni www.visir.is og laut að aðstæðum einstæðrar móður með fjögur börn á framfæri hefði orðið mér tilefni til að taka afstöðu til þess hvort ástæða væri til að taka til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, framangreinda starfshætti Vinnumálastofnunar. Af því tilefni óskaði ég eftir því með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að stofnunin veitti mér upplýsingar og skýringar um nokkur atriði. Ég tel ekki ástæðu til að rekja efni þeirra spurninga sem ég lagði fram. Ég vísa í umrætt bréf um það efni.

Í svarbréfi Vinnumálastofnunar til mín, dags. 9. september 2009, kemur meðal annars eftirfarandi fram:

„Í stað þess að svara spurningunum lið fyrir lið telur Vinnumálastofnun rétt að greina frá því að sú aðgerð sem gripið var til við mánaðamótin júní/júlí á Greiðslustofu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd, vegna samkeyrslu við staðgreiðslugrunn Ríkisskattstjóra, var óundirbúin og ákvörðun um hana tekin án samráðs við yfirstjórn stofnunarinnar. Vinnumálastofnun leggur mikla áherslu á það gagnvart starfsmönnum sínum að þeir séu meðvitaðir um ábyrgð stofnunarinnar sem vörsluaðila opinberra fjármuna en það verður að viðurkennast að í þessu tilviki réði meira kapp en forsjá. Helgaðist það m.a. af bættu og skilvirkara samkeyrsluformi við gögn frá Ríkisskattstjóra sem tekið var upp í lok júnímánaðar. Skilar samkeyrslan nú stofnuninni mun ítarlegri tekjuupplýsingum um bótaþega frá því sem áður var. Stofnunin hefur farið yfir verklag vegna samkeyrslunnar og eftirfarandi aðgerðir, til þess að tryggja að slíkt óvissuástand sem skapaðist hjá hluta bótaþega á þessum tíma komi ekki upp aftur.

Tilkynnt var um hina rafrænu samkeyrslu með frétt á heimasíðu stofnunarinnar þann 30. júní og þess getið að stofnunin myndi senda nokkrum umsækjendum um atvinnuleysistryggingar bréf þann sama dag þar sem óskað væri eftir frekari upplýsingum um tekjur þeirra. Var og sagt að af þeim sökum kynni að verða töf á greiðslum til þeirra þar til viðeigandi upplýsingar bærust. Sagði einnig að stefnt yrði að því að greiðsla færi í banka daginn eftir að upplýsingar bærust, eða eins fljótt og hægt væri.

Reyndin var sú að send voru út rúmlega 2400 bréf þar sem athugasemdir um óskráðar tekjur komu fram í samkeyrslunni. Greiðslustofan áttaði sig strax daginn eftir á því að mannafla skorti og afkastagetu til þess að skrá inn athugasemdir frá viðtakendum bréfanna og greiðslur tóku því að dragast á langinn. Síðdegis fimmtudaginn 2. júlí beindi undirritaður þeim tilmælum til Greiðslustofu að öllum þeim sem hefðu fengið sent bréf yrði greitt þegar í stað, hvort sem athugasemdir hefðu frá þeim borist eður ei. Á föstudeginum hófst sú vinna en þann dag hafði ekki tekist að vinna úr nema um 870 innsendum athugasemdum. Tókst ekki að ljúka greiðslum þann dag og mun einhver hluti þeirra sem fengu athugasemdarbréf ekki hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrr en á mánudeginum 6. júlí og þeir allra síðustu þriðjudaginn 7. júlí.

Má leiða líkum að því að sú kona sem vitnað er til í bréfi umboðsmanns hafi verið í þeim hópi.

Ákvörðun um að fresta að greiða út atvinnuleysisbætur vegna þess að athugasemdir koma fram um vantaldar tekjur er stjórnvaldsákvörðun og með hana ber að fara skv. ákvæðum stjórnsýslulaga. Það hefur m.a. verið áréttað í breyttu verklagi við úrvinnslu samkeyrslu eftir að þessi mistök voru gerð.“

Með tilliti til þessara skýringa Vinnumálastofnunar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna máls þessa á grundvelli heimildar minnar til að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Einnig hef ég í þessu sambandi horft til þess að í hinum tilvitnuðu orðum lýsir Vinnumálastofnun þeirri afstöðu sinni að ákvörðun um að fresta að greiða út atvinnuleysisbætur sé stjórnvaldsákvörðun og með hana beri að fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hafi meðal annars verið áréttað í breyttu verklagi við úrvinnslu samkeyrslu eftir að framangreind mistök af hálfu starfsmanna Vinnumálastofnunar voru gerð.

Með vísan til framangreinds hef ég því ákveðið að ljúka frumkvæðisathugun minni á máli þessu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.