Opinberir starfsmenn. Sérstakt hæfi dómnefndarmanna um prófessorsstöðu.

(Mál nr. 377/1990)

Máli lokið með bréfi, dags. 22. mars 1991.

I.

A leitaði með kvörtun til mín, sem upphaflega laut að því, að skólaráð Kennaraháskóla Íslands og rektor skólans hefðu neitað að taka til greina óskir hans um skipan nýrrar dómnefndar um stöðu prófessors við skólann. Taldi A m.a., að tiltekinn nefndarmaður bæri óvildarhug til sín. Í bréfi, er ég ritaði A í ágúst 1990, greindi ég honum fá þeirri niðurstöðu minni að skjóta mætti ákvörðun þeirri, er kvörtun hans laut að, til menntamálaráðuneytisins, sem færi með yfirstjórn skólans. Menntamálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu, að fenginni umsögn Kennaraháskóla Íslands, að ekki hefði verið ástæða til að taka kröfu A til greina. Með bréfi, dags. 3. janúar 1991, ítrekaði A upphaflegu kvörtun sína.

Eftir að mér höfðu borist gögn málsins frá menntamálaráðuneytinu, ritaði ég A bréf, dags. 22. mars 1991, þar sem eftirfarandi kom m.a. fram:

"II.

Samkvæmt framansögðu kærðuð þér með bréfi, dags. 17. ágúst 1990, til menntamálaráðuneytisins þá ákvörðun skólaráðs og rektors Kennaraháskóla Íslands að hafna beiðni yðar um skipun nýrrar dómnefndar um stöðu prófessors í [X-fræði]. Hefur athugun mín takmarkast við þessa ákvörðun og niðurstöðu menntamálaráðuneytisins um sama efni samkvæmt fyrrgreindu bréfi þess frá 21. desember 1990, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

Málsatvik voru í meginatriðum þau, að í Lögbirtingablaði nr. 1/1989 var auglýst laust til umsóknar embætti prófessors í [X-fræði] við Kennaraháskóla Íslands. Fimm umsóknir bárust um embættið og voruð þér meðal umsækjenda. Með bréfum, dags. 17. mars 1989, var skipuð dómnefnd á grundvelli 32. greinar laga nr. 29/1988 um Kennaraháskóla Íslands til að meta hæfi umsækjenda til að gegna prófessorsembættinu. Í nefndinni áttu sæti [S] prófessor, tilnefndur af skólaráði Kennaraháskóla Íslands, sem jafnframt var skipaður formaður, [B] uppeldisfræðingur, einnig tilnefndur af skólaráði, og [J] skólastjóri [...], tilnefndur af menntamálaráðuneytinu.

Með bréfi menntamálaráðuneytisins, dags. 22. mars 1989, gerðuð þér athugasemd við setu [S] í dómnefndinni og rökstudduð hana með tilvísun til dómnefndarálits um yður frá árinu 1975, er [S] hafði átt þátt í. Skólaráð Kennaraháskólans fjallaði um athugasemd þessa á fundi sínum 12. apríl 1989 og komst að þeirri niðurstöðu, að formlega séð væru gildar ástæður til þess, að skipa bæri nýjan formann í dómnefndina. Í umsögn skólaráðs af þessu tilefni kemur fram sá skilningur ráðsins, að mikilvægt sé, þegar um störf dómnefnda er að ræða, að umsækjendur um stöður við skólann geti borið sem fyllst traust til dómnefndarmanna. Þá lýsti ráðið því jafnframt yfir, að það bæri áfram traust til [S] til að meta verk umsækjenda af hlutlægni og sanngirni, þótt málsatvik og aðstæður að þessu sinni yllu því að æskilegt þætti að annar fulltrúi tæki sæti í dómnefndinni. Niðurstaða þessi var kynnt ráðuneytinu með bréfi, dags. 13. apríl 1989. Menntamálaráðuneytið taldi ekki efni til athugasemda af sinni hálfu við þessa meðferð málsins.

Með bréfum, dags. 9. ágúst 1989, var skipuð ný dómnefnd vegna embættisveitingarinnar. Formaður hinnar nýju nefndar var [V], tilnefnd af skólaráði. Aðrir í nefndinni voru [B], tilnefndur af skólaráði svo sem verið hafði, og [H], tilnefnd af menntamálaráðuneytinu, en [J] skólastjóri hafði að eigin ósk verið leystur undan fyrri tilnefningu.

Með bréfi til rektors Kennaraháskóla Íslands, dags. 23. október 1989, gerðuð þér athugasemd við skipun hinnar nýju dómnefndar. Annars vegar bentuð þér á, að hvorki [H] né [B] hefðu fengið hæfisdóm til að gegna sambærilegu embætti við það, sem um var fjallað. Hins vegar gerðuð þér þá athugasemd, að [V] væri vanhæf til að sitja í dómnefnd, þar sem þér ættuð hlut að máli. Loks lögðuð þér til, að ný dómnefnd yrði skipuð og að tveir dómnefndarmenn yrðu valdir erlendis frá. Skólaráð fjallaði um þessar athugasemdir yðar á fundi sínum 1. nóvember 1989 og komst þá að þeirri niðurstöðu, að ekki hefðu verið færð nægilega gild formleg rök fyrir því að taka bæri skipun dómnefndarinnar að nýju til endurskoðunar. Einkum væri um að ræða ágreining varðandi afgreiðslu styrksumsókna innan stjórnar Rannsóknarstofnunar uppeldismála og aðra almenna samstarfsörðugleika. Var erindi yðar því vísað frá. Málalok þessi leiddu til þess, að þér dróguð til baka umsókn yðar um téð prófessorsembætti.

III.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. laga nr. 29/1988 um Kennaraháskóla Íslands skal hverju sinni skipa þriggja manna nefnd til að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna stöðu prófessors, dósents eða lektors. Skipar menntamálaráðherra einn mann í nefndina, en skólaráð Kennaraháskólans hina tvo og skal a.m.k. annar þeirra vera utan stofnunarinnar. Skólaráð skipar formann nefndarinnar. Í nefnd þessa má skipa þá eina, sem lokið hafa háskólaprófi í hlutaðeigandi grein eða eru að öðru leyti viðurkenndir sérfræðingar í greininni.

Ekki eru í lögum nr. 29/1988 nein ákvæði um hæfi nefndarmanna samkv. 3. mgr. 32. gr. sömu laga til meðferðar einstaks máls vegna tengsla þeirra við umsækjendur. Að mínum dómi er hins vegar tvímælalaust, að í því efni gildir sú grundvallarregla stjórnarfarsréttar, að enginn eigi að taka þátt í meðferð máls, ef hann tengist máli eða aðilum þess með þeim hætti, að ástæða sé til að draga í efa að hann muni fjalla um málið á hlutlausan hátt. Koma þar til greina bæði náin vinátta manna og óvild þeirra hvers í annars garð. Nefnd regla er reist bæði á því sjónarmiði, að rétt niðurstaða fáist í máli og að menn geti borið traust til stjórnsýslunnar.

Við nánari mótun ofangreindrar meginreglu verður að taka tillit til ýmissa sérstakra aðstæðna á einstökum stjórnsýslusviðum. Þannig verður ekki horft fram hjá því hér, að vegna fámennis er oft ekki margra kosta völ um skipun manna í nefndir til að fjalla um hæfni manna til starfa við háskóla og almennt verður þess ekki krafist að leitað sé til útlendinga.

Í máli því, sem hér er til umræðu, tölduð þér [V] vanhæfa vegna þess að hún væri í hópi óvildarmanna yðar, eins og þér hafið nánar rökstutt. Þannig hafi [V] brugðist illa við, þegar þér voruð kjörinn skorarstjóri uppeldisskorar við Kennaraháskóla Íslands, auk þess sem hún hafi beitt sér gegn yður og stuðningsmanni yðar í störfum sínum í þeirri skor. Þá hafi [V] lagst gegn því að þér væruð fenginn til trúnaðarstarfa í stjórn Rannsóknarstofnunar uppeldismála. Hún hafi misnotað aðstöðu sína í þeirri stöðu sér og nánum samstarfsmönnum sínum til framdráttar og lagt stein í götu yðar, hvað snertir styrkveitingar og fyrirlestrahald, auk þess sem allsnarpar deilur hafi orðið með yður og [V] um tiltekna styrkumsókn þriðja aðila. Er nánari grein gerð fyrir þessum sjónarmiðum í gögnum málsins og þeim ofsóknum gegn yður, sem þér teljið ýmsa nafngreinda menn hafa staðið að, en afstaða [V] til yðar hljóti að hafa mótast af samstarfi við þessa menn og áhrifum frá þeim.

Leggja verður áherslu á, að það veldur ekki vanhæfi eitt sér, þótt menn hafi starfað saman eða áður fjallað hvor um annars verk eða hæfni. Yfirleitt veldur það heldur ekki vanhæfi manna, þótt þeir hafi ólíkar skoðanir á fræðilegum efnum eða hafi greint á í afstöðu til manna eða málefna. Því aðeins verður vanhæfi til meðferðar einstaks máls talið liggja fyrir, að vegna illvígra deilna eða af öðrum ástæðum hafi maður orðið svo ber að óvild í garð annars manns, að ekki verði talið að sá fyrrnefndi geti á hlutlausan hátt fjallað um mál, sem sá síðarnefndi á hlut að. Það er niðurstaða athugunar minnar á gögnum þessa máls, að af þeim verði ekki með neinni vissu ráðið, að [V] hafi í samræmi við þau sjónarmið, er að framan hefur verið gerð grein fyrir, ekki getað talist hæf til að taka sæti í umræddri nefnd, sem meðal annars hafði verið falið að meta hæfi yðar til að gegna stöðu prófessors við Kennaraháskóla Íslands. Tel ég því ekki tilefni til frekari afskipta af minni hálfu vegna kvörtunar yðar."