Börn. Foreldrar og börn. Umgengnisréttur. Barnavernd. Aðgangur að gögnum og upplýsingum.

(Mál nr. 5186/2007)

A kvartaði til umboðsmanns Alþingis yfir málsmeðferð Barnaverndar Reykjavíkur og Barnaverndarstofu í umgengnis- og barnaverndarmáli vegna sonar A, D. Kvörtunin beindist m.a. að þeirri ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur að óska eftir lögreglurannsókn á meintu ofbeldi A í garð D tiltekna helgi. Þá beindist kvörtunin að synjun Barnaverndar Reykjavíkur um að veita A aðgang að öllum fyrirliggjandi gögnum hjá skrifstofunni sem vörðuðu umrædd atvik. Að lokum gerði A athugasemdir við meðferð Barnaverndarstofu á kvörtun hans framgöngu Barnaverndar Reykjavíkur í málinu.

Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að leggja annað til grundvallar en að barnaverndarnefndum væri að lögum heimilt að óska formlega eftir lögreglurannsókn í tilvikum af því tagi sem kvörtun A beindist að. Hvað varðaði tilvik A sérstaklega lagði umboðsmaður áherslu á að í bréfi Barnaverndar Reykjavíkur til umboðsmanns í tilefni af málinu kæmi fram sú afstaða Barnaverndar Reykjavíkur að ekki hefðu verið nægar forsendur til að óska eftir lögreglurannsókn umrætt sinn. Að virtri þessari afstöðu Barnaverndar Reykjavíkur taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla frekar um lögmæti þeirrar ákvörðunar skrifstofunnar að óska lögreglurannsóknar í málinu og hafði þá í huga að umrætt mál var síðar fellt niður hjá lögreglu. Eftir stæðu þá einvörðungu álitamál um hvort A ætti hugsanlega skaðabótarétt vegna málsmeðferðar og ákvörðunar Barnaverndar Reykjavíkur af þessu tilefni en það yrði að vera verkefni dómstóla að leysa úr því.

Umboðsmaður taldi að af bréfum Barnaverndar Reykjavíkur og Barnaverndarstofu til umboðsmanns A yrði ekki annað ráðið en að það væri afstaða barnaverndaryfirvalda að einungis forsjáraðilar barna teldust almennt aðilar barnaverndarmála og ættu því rétt til aðgangs að gögnum. Þar með yrði ekki talið að forsjárlaust foreldri gæti verið aðili að slíku máli, en þó væri ljóst að á stöku stað í lögunum væri getið um rétt forsjárlausra foreldra og gæti aðild forsjárlausra foreldra einungis átt við í þeim tilvikum. Umboðsmaður féllst ekki á að fært væri að túlka aðilahugtak barnaverndarmála með svo fortakslausum hætti. Umboðsmaður taldi þó að jafnvel þótt A hefði verið talinn njóta aðilastöðu í merkingu 45. gr. barnaverndarlaga hefði hann, eins og atvikum var háttað, ekki átt að lögum fortakslausan rétt til aðgangs að þeim gögnum eftir að barnaverndarnefnd hafði vísað málinu til lögreglu, en ákvæði 3. mgr. 15. gr. og 17. gr. stjórnsýslulaga fælu í sér takmarkanir á rétti aðila til aðgangs að gögnum máls. Með vísan til þessa, atvika málsins og í ljósi þess að fyrir lá að A hefði að meginstefnu til fengið afhent umrædd gögn, að undanskilinni tiltekinni dagálsnótu sem ljóst væri að honum væri kunnugt um, taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um hvort A hefði að hluta eða öllu leyti getað talist aðili að umræddu máli og þá þannig að barnaverndarnefnd hefði réttilega borið að leysa úr aðangsbeiðni hans á grundvelli 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga. Væri það enn vilji A að óska sérstaklega eftir aðgangi að gögnum sem hann hefði ekki undir höndum taldi umboðsmaður rétt að hann freistaði þess að beina erindi þess efnis til Barnaverndar Reykjavíkur með vísan til þess að rannsókn á máli A hefði verið felld niður hjá lögreglu. Hins vegar ákvað umboðsmaður að rita Barnavernd Reykjavíkur bréf þar sem hann gerði athugasemdir við hina fortakslausu afstöðu barnaverndaryfirvalda til aðgangs forsjárlausra foreldra að gögnum í barnaverndarmálum. Í ljósi þess að í skýringum Barnaverndar Reykjavíkur var vísað til þess að afstaða skrifstofunnar væri í samræmi við afstöðu Barnaverndarstofu og að teknu tilliti til lögbundins hlutverks þeirrar stofnunar ákvað umboðsmaður jafnframt að senda Barnaverndarstofu afrit af bréfinu.

Að því er varðar athugasemdir A við meðferð Barnaverndarstofu á kvörtun hans yfir framgöngu Barnaverndar Reykjavíkur tók umboðsmaður fram að eins og áður væri rakið væri hann ekki að öllu leyti sammála afstöðu Barnaverndarstofu til þess hvort A ætti rétt til aðgangs að gögnum hjá Barnavernd Reykjavíkur. Að öðru leyti taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari umfjöllunar um svarbréf Barnaverndarstofu til A og taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við þann tíma sem það tók að svara erindi A.

Í tilefni af málinu ákvað umboðsmaður Alþingis að rita Barnavernd Reykjavíkur bréf þar sem hann kom á framfæri ábendingum vegna stjórnsýslu í máli A. Jafnframt ákvað hann að senda Barnaverndarstofu afrit af bréfinu og óska ennfremur eftir ákveðnum upplýsingum með það í huga að meta hvort tilefni sé til að taka álitaefni um heimildir barnaverndarnefnda til að framselja ákvörðunarvald til einstakra starfsmanna til athugunar að eigin frumkvæði.

Í bréfi umboðsmanns Alþingis til Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 9. nóvember 2009 segir m.a. svo:

I.

Ég vísa til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar B héraðsdómslögmanns fyrir hönd A vegna málsmeðferðar Barnaverndar Reykjavíkur í umgengnis- og barnaverndarmáli vegna sonar A, D.

Eins og kemur fram í bréfi mínu til lögmannsins sem fylgir hér hjálagt í ljósriti hef ég ákveðið að ljúka umfjöllun minni um mál það sem kvörtunin laut að. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á þessu máli orðið mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingum á framfæri við skrifstofuna og þá með það í huga að umrædd atriði verði framvegis höfð í huga við meðferð hliðstæðra mála hjá Barnavernd Reykjavíkur.

...

V.

Kvörtun lögmanns A beindist einnig að synjun Barnaverndar Reykjavíkur á að veita A aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem vörðuðu aðdraganda þess að óskað var eftir lögreglurannsókn á því hvort hann hefði beitt D ofbeldi.

Í bréfi umboðsmanns A til Barnaverndar Reykjavíkur, dags. [...] var þess krafist að A yrði „látið í té öll þau gögn sem varða þá ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur að vísa til lögreglurannsóknar meintu ofbeldisbroti hans gagnvart barni sínu, D [...] “. Til vara var þess krafist að A eða umboðsmaður hans fengi að kynna sér öll gögn sem varða ákvörðunina án þess að fá þau eða afrit af þeim afhent. Kröfurnar voru sagðar styðjast við 1. og 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Í synjun Barnaverndar Reykjavíkur, sem er dagsett 16. janúar 2007, segir eftirfarandi:

„Samkvæmt 45. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal barnaverndarnefnd láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess. Þar sem umbjóðandi yðar fer ekki með forsjá barnsins telst hann ekki aðili að máli þess hjá Barnavernd Reykjavíkur og er því ekki unnt að veita umbeðinn aðgang að gögnum málsins án samþykkis forsjárhafa. Þá er rétt að ítreka það, sbr. tölvupóstur undirritaðrar til yðar, dags. [...], að ákvörðun um að umgengni yrði ekki í desember var ákvörðun móður og forsjárhafa drengsins.

Óski [A] eftir munnlegum upplýsingum á grundvelli 2. mgr. 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 er sjálfsagt að verða við þeirri ósk með tilliti til eðli málsins, t.a.m. með viðtali.“

Í skýringum Barnaverndar Reykjavíkur til mín frá 7. apríl [2009] segir eftirfarandi um þetta atriði:

„Að því er varðar lagagrundvöll þess að [A] telst ekki aðili að barnaverndarmáli varðandi meint ofbeldi hans í garð [D] skal tekið fram að móðir fór ein með forsjá drengsins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er með hugtakinu foreldrar að jafnaði átt við þá sem fara með forsjá barns. Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. mgr. 3. gr. sömu laga þá ber barnaverndarnefnd að gæta fyllsta trúnaðar um hagi barna, foreldra og annarra sem nefnd hefur afskipti af. Í athugasemdum við lagafrumvarp sem síðar varð að barnaverndarlögum kemur fram að í samræmi við markmið með barnavernd sé gert ráð fyrir víðtækri samvinnu við foreldra um beitingu úrræða þegar þess er þörf en jafnframt er gert ráð fyrir heimildum til beitingar þvingunarúrræða gegn foreldrum þegar nauðsyn krefur. Í þessum tilvikum er eingöngu átt við foreldra sem fara með forsjá barna sinna samkvæmt ákvæðum barnalaga. Þá kemur fram í fyrrgreindum athugasemdum að orðalagið „að jafnaði“ sem fram kemur í 3. mgr. 3. gr. barnaverndarlaga vísar til þess að í einstaka tilvikum er fjallað um réttarstöðu foreldra sem hafa misst forsjá barna sinna samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga en njóta samt tiltekinna réttinda skv. ákvæðum laganna. Að þessu virtu er það mat undirritaðra að af þessu leiði að einungis forsjáraðilar barna teljist almennt aðilar barnaverndarmála og eiga m.a. rétt til aðgangs að gögnum. Er þessi túlkun í samræmi við mat Barnaverndarstofu, sbr. bréf Barnaverndarstofu, dags. 28. mars 2007, sem liggur fyrir í máli þessu en þar segir ennfremur:

„Í barnaverndarlögum er á stöku stað getið um rétt forsjárlausra foreldra, svo sem til [umgengni] við barn í fóstri, og getur aðild forsjárlausra foreldra einungis átt við í þeim takmörkuðu tilvikum. Þá verður einnig að benda á ákvæði 52. gr. barnalaga nr. 76/2003 en skýrt kemur fram í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til upphaflega efnisákvæðisins (lög nr. 23/1995) að réttur forsjárlauss foreldris nær ekki til þess að fá afhent gögn heldur einungis til þess að fá munnlegar upplýsingar um líðan barns.“

Ákvæði 45. gr. barnaverndarlaga er svohljóðandi:

„Barnaverndarnefnd skal með nægilegum fyrirvara láta aðilum máls í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess, enda tryggi þeir trúnað.

Barnaverndarnefnd getur með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Nefndin getur einnig úrskurðað að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent.“

Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að barnaverndarlögum nr. 80/2002 segir svo um ofangreinda 45. gr.:

„Í ákvæðinu er kveðið á um upplýsingarétt og aðgang málsaðila að gögnum máls.

Í 1. mgr. er sett fram sú meginregla að barnaverndarnefnd skuli með nægjanlegum fyrirvara láta aðilum í té öll gögn sem málið varða og koma til álita við úrlausn þess. Hliðstæð regla er í 15. gr. stjórnsýslulaga. Þar kemur fram að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varða. Samkvæmt ákvæði stjórnsýslulaga felst einnig í reglunni að aðili skuli fá afrit eða ljósrit af málsskjölum fari hann fram á það, nema skjölin séu þess eðlis eða fjöldi þeirra svo mikill að það sé vandkvæðum bundið.

Reglan er byggð á því sjónarmiði að almennur aðgangur að upplýsingum og umráð skjala málsins sé nauðsynlegur liður í því að aðili geti gætt andmælaréttar síns.

Í 2. mgr. er mælt fyrir um takmörkun á rétti til aðgangs að gögnum málsins. Segir þar að barnaverndarnefnd geti með rökstuddum úrskurði ákveðið að tiltekin gögn skuli ekki afhent telji hún það geta skaðað hagsmuni barnsins. Á sama hátt getur nefndin ákveðið að aðilar og lögmenn þeirra geti kynnt sér skjöl og önnur gögn án þess að þau eða ljósrit af þeim séu afhent. Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um álitamál varðandi takmarkanir á aðgangi að gögnum máls sem geta verið til þess fallin að skaða tengsl barns og foreldris, sbr. álit hans í máli nr. 1360/1995, eins og fram kemur í athugasemdum við 38. gr. hér að framan. Meginsjónarmiðið er það að stjórnsýslulögin mæla fyrir um lágmarkskröfur til málsmeðferðar fyrir stjórnvöldum. Takmarkanir þær sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. eru aftur á móti í samræmi við það sem fram kemur í 17. gr. stjórnsýslulaga. Byggt er á því sjónarmiði að ríkir einkahagsmunir réttlæti þau frávik sem 2. mgr. 45. gr. frumvarpsins mælir fyrir um.

Að öðru leyti vísast til athugasemda við 38. gr. frumvarpsins.“ (Alþt. 2001-2002, A-deild, bls. 1851.)

Í 3. mgr. 33. gr. og 55. gr. barnaverndarlaga er að finna sérákvæði um aðild að barnaverndarmáli en þau eiga ekki við í þessu máli. Að öðru leyti er ekki mælt fyrir um það í lögunum eða lögskýringargögnum hverjir teljist eiga aðild að barnaverndarmáli og hvorki í stjórnsýslulögum né öðrum lögum er mælt með almennum hætti fyrir um það hverjir teljast eiga aðild að stjórnsýslumáli. Af þessu leiðir að við nánari túlkun á aðilahugtaki 45. gr. barnaverndarlaga verður að byggja á þeim almennu grundvallarreglum stjórnsýsluréttar sem gilda um aðild að stjórnsýslumáli. Almennt hefur þá verið lagt til grundvallar að sá eigi aðild að stjórnsýslumáli sem eigi einstaklegra, verulegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls, sjá t.d. Pál Hreinsson: Aðili stjórnsýslumáls. Tímarit lögfræðinga, 3. hefti 2005, bls. 389. Við úrlausn á því hvort einstaklingur verði talinn aðili máls, og þá þannig að hann kunni að eiga rétt til aðgangs að gögnum í merkingu 45. gr. barnaverndarlaga, verður því að leggja heildstætt mat á hagsmuni og tengsl viðkomandi við úrlausn fyrirliggjandi barnaverndarmáls á grundvelli ofangreindra sjónarmiða.

Með „barnaverndarmáli“ í skilningi barnaverndarlaga er átt við stjórnsýslumál sérstaks eðlis sem miðar að því marki að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta hvort þörf sé á að beita þeim sérstöku úrræðum sem kveðið er á um í VI. og VII. kafla barnaverndarlaga. Barnaverndarmál hefst með formlegri ákvörðun barnaverndarnefndar um könnun máls og lýkur ýmist þegar barnaverndarnefnd telur ekki þörf á frekari afskiptum eða þegar barn er orðið 18 ára gamalt.

Þau úrræði sem kveðið er á um í barnaverndarlögum beinast að öllu jöfnu að barninu sjálfu og forsjáraðilum þess, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna, þar sem segir að með foreldrum sé „að jafnaði“ átt við þá sem fara með forsjá barns. Af því leiðir að aðild og þau réttindi sem af henni leiða er að meginreglu bundin við þá aðila. Slíkt er þó ekki einhlítt.

Af bréfum Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 16. janúar 2007, og Barnaverndarstofu, dags. 28. mars 2007, til umboðsmanns A verður ekki annað ráðið en að það sé afstaða barnaverndaryfirvalda að einungis forsjáraðilar barna teljist almennt aðilar barnaverndarmála og eigi því rétt til aðgangs að gögnum. Forsjárlaust foreldri geti þar með ekki verið aðili að slíku máli, en þó sé ljóst að á stöku stað í lögunum sé getið um rétt forsjárlausra foreldra, svo sem til umgengni við barn í fóstri, og geti aðild forsjárlausra foreldra einungis átt við í þeim tilvikum.

Með vísan til þeirra lagasjónarmiða sem að framan eru rakin fellst ég ekki á að fært sé að túlka aðilahugtak barnaverndarmála með svo fortakslausum hætti sem gert er í ofangreindum bréfum Barnaverndar Reykjavíkur og Barnaverndarstofu, a.m.k. þegar ekki er í tilteknu ákvæði laganna mælt með tæmandi hætti fyrir um það hverjir eigi aðild að því máli sem er til úrlausnar að virtu eðli þess og tegund. Verður þannig ekki á það fallist að fyrirfram sé hægt að ganga út frá því að forsjárlausir foreldrar geti aðeins átt aðild í þeim málum þar sem „getið er um rétt“ þeirra, svo sem til umgengni við barn í fóstri, eins og lagt er til grundvallar í bréfi Barnaverndarstofu, dags. 28. mars 2007.

Eins og orðalagi ákvæða VI. og VIII. kafla barnaverndarlaga og lögskýringargögnum er háttað skortir á að nægar forsendur séu að lögum til þeirrar ályktunar að girt sé með öllu fyrir að forsjárlaust foreldri geti átt aðild að barnaverndarmálum sem varða beina hagsmuni þeirra sjálfra þannig að fullnægi ofangreindum kröfum sem leiða af aðildarhugtaki stjórnsýsluréttar. Um hvort slíkt er að ræða verður þannig að leysa í hverju tilviki á grundvelli heildstæðs mats á hagsmunum og tengslum hins forsjárlausa foreldris við það úrlausnarefni sem til meðferðar er. Við slíkt mat verður m.a. að huga að því hvort og þá hvaða áhrif hugsanlegar ákvarðanir eða beiting úrræða barnaverndarnefndar í máli á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 kunna að hafa á réttindi og skyldur forsjárlauss foreldris í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig er nauðsynlegt að horfa til þess hvort hagsmunir foreldrisins séu slíkir að því sé þörf á að njóta verndar þeirra réttaröryggisreglna sem sérstaklega er mælt fyrir um í VIII. kafla barnaverndarlaga um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd. Að þessu virtu tel ég að ef leggja ætti á annað borð til grundvallar þá fortakslausu afstöðu til aðildar að barnaverndarmálum, sem fram koma í ofangreindum bréfum Barnaverndar Reykjavíkur og Barnaverndarstofu, þyrfti að mínu áliti a.m.k að koma til skýr og ótvíræð afstaða löggjafans í lögunum sjálfum. Henni er ekki til að dreifa í gildandi barnaverndarlögum. Þá getur tilvísun til 52. gr. barnalaga 76/2003, sem fram kemur í áðurnefndu bréfi Barnaverndarstofu, dags. 28. mars 2007, ekki haft sérstaka þýðingu þegar reynir á álitaefni um upplýsingarétt aðila máls samkvæmt barnaverndarlögum.

Loks vek ég athygli á því að þegar barnaverndarnefnd berst ósk um aðgang að gögnum kann eftir atvikum að koma til greina að afstaða sé tekin til þess hvort sá sem æskir aðgangs kunni að eiga slíka rétt á grundvelli annarra laga en stjórnsýslu- og barnaverndarlaga og þá að teknu tilliti til takmarkana sem kveðið er á um í viðkomandi löggjöf.

Ég ítreka að ég hef í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram koma í bréfum Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 16. janúar 2007, og bréfi Barnaverndarstofu, dags. 28. mars 2007, ákveðið að koma á framfæri ofangreindri afstöðu minni til lögmætis þeirra sjónarmiða. Hvað varðar mál A sérstaklega hef ég í bréfi til hans, dagsettu í dag, þar sem ég lýk athugun minni á kvörtun hans, rakið að í máli hans liggi fyrir að þau gögn, sem beiðni hans laut að, voru, að undanskilinni ofangreindri dagálsnótu, dags. [...], send til lögreglu með ósk um að rannsókn færi fram á ætluðu refsiverðu broti hans gagnvart syni hans. Sú ósk var sett fram [...] eða 11 dögum eftir að athygli lögreglunnar var vakin á þeim upplýsingum sem Barnavernd Reykjavíkur hafði undir höndum. Þá sé ljóst að gögnin voru á þeim tímapunkti, sem beiðnin var fram sett, hluti af málsgögnum hjá lögreglu þar sem fyrir lá að taka ákvörðun um farveg rannsóknar í sakamáli. Að þessu virtu sé það afstaða mín að jafnvel þótt A hefði verið talin njóta aðilastöðu í merkingu 45. gr. barnaverndarlaga hefði hann, eins og atvikum var háttað, ekki átt að lögum fortakslausan rétt til aðgangs að þeim gögnum eftir að málinu hafði verið vísað máli til lögreglu.

Í þessu sambandi minni ég á í bréfi mínu til lögmanns A að samkvæmt 2. mgr. 45. gr. geti barnaverndarnefnd með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum ef hún telji að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra. Eins og tilvísun til ákvæða stjórnsýslulaga í ofantilvitnuðum athugasemdum að baki 45. gr. barnaverndarlaga bendir til sé barnaverndarnefnd þá fært að draga inn í mat sitt lagasjónarmið um takmarkanir á almennum upplýsingarétti að gögnum máls, sem mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 26. ágúst 1996 í máli nr. 1360/1995, úr tíð eldri laga nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna.

Að þessu virtu bendi ég í bréfi mínu til lögmanns A á það að samkvæmt 3. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga á sakborningur ekki rétt til aðgangs að gögnum sem eru liður í rannsókn sakamáls og meðferðar þess að öðru leyti. Þó geti m.a. sakborningur krafist þess að fá að kynna sér gögn málsins eftir að það hefur verið fellt niður eða því lokið með öðrum hætti. Þá sé með 17. gr. sömu laga mælt fyrir um undanþágu frá upplýsingarétti aðila máls ef mun ríkari einkahagsmunir eða almannahagsmunir mæli með því, en til þessa ákvæðis er sérstaklega vísað í tilvitnuðum lögskýringargögnum að baki 45. gr. barnaverndarlaga.

Með vísan til þessara lagasjónarmiða og atvika í máli A tek ég að lokum fram í meðfylgjandi bréfi mínu til lögmanns hans að ekki sé tilefni til þess að ég fjalli sérstaklega um hvort A hafi að hluta eða að öllu leyti getað talist aðili að umræddu máli og þá þannig að barnaverndarnefnd hafi réttilega borið að leysa úr aðgangsbeiðni hans á grundvelli 2. mgr. 45. gr. barnaverndarlaga. Í því sambandi hafi ég einnig horft til þess að nú liggur fyrir að A hefur að meginstefnu til fengið afhent umrædd gögn þó að undanskilinni ofangreindri dagálsnótu. Sé það hins vegar enn vilji A að óska nú sérstaklega eftir aðgangi að því gagni eða eftir atvikum öðrum gögnum tek ég fram í bréfinu að rétt sé að hann freisti þess að beina erindi þess efnis til Barnaverndar Reykjavíkur og þá í ljósi þeirra sjónarmiða sem lýst er í þessu bréfi mínu til skrifstofunnar og með vísan til þess að rannsókn á máli A hefur verið felld niður hjá lögreglu. Að öllu framangreindu virtu telji ég ekki tilefni til frekari umfjöllunar af minni hálfu um þennan lið kvörtunarinnar.

Róbert R. Spanó