Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Icesave-reikningar. Skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Störf Alþingis.

(Mál nr. 5836/2009)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis fyrir sína hönd og 25 annarra nafngreindra einstaklinga. Taldi hann það m.a. brjóta í bága við reglu íslenskrar stjórnskipunar um þrígreiningu ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, að Steingrímur J. Sigfússon tæki sem kjörinn þingmaður þátt í atkvæðagreiðslu á Alþingi um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2009 (Icesave-reikningar) samhliða því að hann gegndi embætti fjármálaráðherra og hefði sem slíkur átt þátt í meðferð og afgreiðslu sama máls á fyrri stigum áður en það var lagt fyrir Alþingi.

Umboðsmaður rakti ákvæði 38. og 51. gr. stjórnarskrárinnar og tók fram að ótvírætt væri gert ráð fyrir því í stjórnarskránni að sami einstaklingur gæti farið með hvort tveggja í senn framkvæmdarvald sem ráðherra og löggjafarvald, enda hefði hann hlotið kosningu sem þingmaður. Benti umboðsmaður á að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, væri einnig 1. þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Tók hann fram að það félli utan við starfssvið umboðsmanns að fjalla um störf Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laganna, þ.á m. um þann þátt í störfum ráðherra, sem jafnframt eru kjörnir þingmenn, sem fram fer á vettvangi Alþingis samkvæmt ofangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Umboðsmaður lauk því umfjöllun sinni um kvörtunina, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Bréf umboðsmanns til A, dags. 3. desember 2009, er svohljóðandi í heild sinni:

I.

Ég vísa til erindis yðar, dags. 17. nóvember sl., sem þér leggið fram fyrir eigin hönd og 25 annarra nafngreindra einstaklinga sem skrifa undir fylgiskjal með því. Í erindinu lýsið þér því efnislega yfir að þér teljið það brjóta í bága við reglu íslenskrar stjórnskipunar um þrígreiningu ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, að Steingrímur J. Sigfússon taki sem kjörinn þingmaður þátt í atkvæðagreiðslu á Alþingi um nánar tilgreint mál samhliða því að hann gegni embætti fjármálaráðherra og hafi sem slíkur átt þátt í meðferð og afgreiðslu sama máls á fyrri stigum áður en það var lagt fyrir Alþingi. Í kvörtuninni vísið þér til kenninga franska stjórnspekingsins Montesquieu um þrígreiningu ríkisvaldsins auk þess sem fram kemur að þér teljið að framangreint brjóti gegn mannréttindum yðar og vísið um það til mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1948 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

II.

Eins og áður er rakið er í kvörtun yðar haldið fram að það brjóti í bága við grundvallarreglu 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 að fjármálaráðherra taki sem kjörinn þingmaður þátt í atkvæðagreiðslu á Alþingi um mál sem hann hefur sjálfur komið að á fyrri stigum sem handhafi framkvæmdarvalds. Skil ég kvörtun yðar svo að þar sé um að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., sem lagt var fram á yfirstandandi 138. löggjafarþingi 2009-2010, sjá þingskjal nr. 76 – 76. mál.

Í 51. gr. stjórnarskrárinnar segir eftirfarandi:

„Ráðherrar eiga samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi, og eiga þeir rétt á að taka þátt í umræðunum eins oft og þeir vilja, en gæta verða þeir þingskapa. Atkvæðisrétt eiga þeir þó því aðeins, að þeir séu jafnframt alþingismenn.“

Í stjórnarskránni er þannig ótvírætt gert ráð fyrir því að sami einstaklingur geti farið með hvort tveggja í senn framkvæmdarvald sem ráðherra og löggjafarvald, enda hafi hann hlotið kosningu sem þingmaður. Í 38. gr. stjórnarskrárinnar er jafnframt tekið fram að rétt til að flytja frumvörp til laga og tillögur til ályktana hafi bæði alþingismenn og ráðherrar.

Af framangreindu leiðir að eins og kvörtun yðar er úr garði er í henni gerð athugasemd við það að Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sem jafnframt er 1. þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra, taki þátt í þinglegri meðferð á ofangreindu lagafrumvarpi þar sem hann hafi komið að því máli sem er umfjöllunarefni frumvarpsins á fyrri stigum sem ráðherra. Kvörtun yðar beinist þannig að löggjafarstörfum nefnds ráðherra, enda er hann jafnframt kjörinn þingmaður.

Að þessu virtu tek ég fram að samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um störf Alþingis, þ.á m. um þann þátt í störfum ráðherra, sem jafnframt eru kjörnir þingmenn, sem fram fara á vettvangi Alþingis samkvæmt ofangreindum ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og lögum nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.

Með vísan til þessa og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er umfjöllun minni um erindi yðar hér með lokið.

Róbert R. Spanó.