Mannréttindi. Félagafrelsi. Stjórnarskrá. Skylduaðild að Félagi löggiltra endurskoðenda. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. 5559/2009)

Kvörtun til umboðsmanns Alþingis varð honum tilefni til þess að kanna hvort ástæða væri til að hann tæki til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ákvæði 12. gr. laga nr. 79/2008, um endurskoðendur, er lýtur að skylduaðild að Félagi löggiltra endurskoðenda og heimild til töku árgjalds af félagsmönnum í því sambandi, að virtri þeirri réttindavernd sem leiðir af 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, um frelsi til að standa utan félaga.

Í tilefni af erindinu óskaði umboðsmaður eftir skýringum fjármálaráðuneytisins á viðhorfum þess til þeirra sjónarmiða sem skylduaðild að Félagi löggiltra endurskoðenda samkvæmt lögum nr. 79/2008 byggðist á og jafnframt að ráðuneytið lýsti afstöðu sinni til þess hvort og þá að hvaða leyti hlutverk félagsins eins og það væri afmarkað í lögum gerði það að verkum að skylduaðild að félaginu samrýmdist þeim áskilnaði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar að vera nauðsynleg til að félagið gæti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Í svarbréfi fjármálaráðuneytisins kom fram að ráðuneytið ráðgerði að endurskoða lög nr. 79/2008 með hliðsjón af athugasemdum sem fram hefðu komið í fyrirspurnarbréfi umboðsmanns. Umboðsmaður taldi því að svo stöddu ekki tilefni til að taka efni kvörtunarinnar til nánari athugunar en tók enga afstöðu til þess hvort meinbugir kynnu að vera á umræddum lögum. Þá tók hann fram í bréfi til fjármálaráðherra, dags. 8. febrúar 2010, að þar sem honum væri ekki kunnugt um að frumvarp til breytinga á umræddu ákvæði laga nr. 79/2008 hefði verið lagt fram fyrir Alþingi óskaði hann þess að sér yrði tilkynnt um þegar það hefði verið gert. Hefði slíkt frumvarp ekki verið lagt fram innan sex mánaða frá dagsetningu bréfsins óskaði umboðsmaður þess að sér yrði þá tilkynnt um stöðu málsins.

Bréf umboðsmanns Alþingis til fjármálaráðherra, dags. 8. febrúar 2010 hljóðar svo:

Ég vísa til fyrri bréfaskipta vegna erindis sem mér barst frá löggiltum endurskoðenda þar sem gerðar voru athugasemdir við að samkvæmt 12. gr. laga nr. 79/2008, um endurskoðendur, sé öllum endurskoðendum skylt að vera félagsmenn í Félagi löggiltra endurskoðenda. Í erindinu var því haldið fram að lagaákvæðið bryti í bága við 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Í samræmi við framangreint ritaði ég yður bréf, dags. 4. febrúar 2009, þar sem ég rakti ákvæði laga nr. 79/2008 og lögskýringargögn að baki þeim. Þá gerði ég einnig grein fyrir ákvæði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og benti á að af lögskýringargögnum væri ljóst að við setningu þess með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 hefði verið lagt til grundvallar að menn yrðu ekki skyldaðir til aðildar að félagi nema mælt væri annars vegar fyrir um slíka skyldu í lögum og hins vegar að sú skylda væri nauðsynleg til þess að félag gæti sinn lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Með hliðsjón af þessu óskaði ég eftir skýringum fjármálaráðuneytisins á viðhorfum þess til þeirra sjónarmiða sem skylduaðild að Félagi löggiltra endurskoðenda samkvæmt lögum nr. 79/2008 byggist á. Ég óskaði þess sérstaklega að ráðuneytið lýsti afstöðu sinni til þess hvort og þá að hvaða leyti hlutverk félagsins eins og það væri afmarkað í lögunum gerði það að verkum að skylduaðild að félaginu samrýmdist þeim áskilnaði 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar að vera nauðsynleg til að félagið gæti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Í svarbréfi ráðuneytis yðar, dags. 18. nóvember 2009, segir m.a. að „[umdeilt sé] hvort að skylduaðildar [sé] þörf í ljósi þeirra verkefna sem félaginu er falið samkvæmt lögum. Ráðuneytið [telji] því að endurskoða þurfi ákvæði um skylduaðild m.a. vegna skýrs áskilnaðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar um að skylduaðild verði að vera nauðsynleg til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna og réttinda annarra“. Að þessu virtu segir loks í niðurlagi bréfsins að í ljósi þeirra athugasemda sem fram hafi komið um skylduaðild að Félagi löggiltra endurskoðenda ráðgeri ráðuneytið að endurskoða lögin með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram komu í ofangreindu fyrirspurnarbréfi mínu frá 4. febrúar 2009.

Að virti framangreindri afstöðu ráðuneytis yðar tel ég, a.m.k. að svo stöddu, ekki tilefni til að taka ofangreint erindi til nánari athugunar á grundvelli þeirrar heimildar sem mér er veitt í 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis, og læt athugun minni lokið, sbr. a-lið 1. mgr. 10. gr. laganna.

Ég legg á það áherslu að með þessari afgreiðslu tek ég enga afstöðu tekið til þess hvort meinbugir kunni að vera á umræddum lögum. Þar sem mér er ekki kunnugt um að frumvarp til breytinga á umræddu ákvæði laga nr. 79/2008 hafi verið lagt fyrir Alþingi óska ég þess að mér verði tilkynnt um það þegar slíkt hefur verið gert, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997. Hafi slíkt frumvarp ekki verið lagt fram innan sex mánaða frá dagsetningu bréfs þessa óska ég þess loks að mér verði tilkynnt um þá stöðu málsins.

Róbert R. Spanó.