Lögreglurannsókn. Leit. Skólastofnun. Friðhelgi einkalífs.

(Mál nr. 5918/2010 - Fyrirspurnarbréf umboðsmanns Alþingis til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu)

Umfjöllun í fjölmiðlum varð umboðsmanni Alþingis tilefni til þess að kanna hvort ástæða væri til að hann tæki til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hvernig staðið hefði verið að leit að fíkniefnum í Tækniskólanum í Reykjavík 11. febrúar 2009. Af því tilefni óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum og skýringum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Umboðsmaður óskaði annars vegar eftir því að vera upplýstur um aðdraganda þess að leit var gerð í skólanum og eftir nánari upplýsingum um það hvernig sú leit fór fram, þ. á m. hvert hefði verið tilefni leitarinnar. Hins vegar óskaði umboðsmaður eftir því á hvaða lagagrundvelli umrædd aðgerð byggðist á og ef hún hefði byggst á 3. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, óskaði hann eftir nánari rökstuðningi til þess hvernig skólastofnun af því tagi, sem var vettvangur umræddrar aðgerðar, gæti talist „[húsakynni] sem [væru] opin almenningi eða hver og einn geti átölulaust gengið um“, og þá m.a. að virtri grundvallarreglu 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs.

Bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 12. febrúar 2010, er svohljóðandi:

I.

Í fréttum á vefmiðlunum www.mbl.is og www.visir.is birtust fréttir á milli kl. 13 og 14, dags. 11. febrúar sl., þess efnis að lögreglan hefði gert leit að fíkniefnum í hádeginu sama dag í Tækniskólanum í Reykjavík. Kemur fram í fréttunum að lögreglan hafi notað þrjá fíkniefnahunda við leitina og að öllum útgönguleiðum skólans hafi verið lokað á meðan leitinni stóð að undanskilinni einni hurð sem lögreglan vaktaði. Kemur jafnframt fram að skólayfirvöld hafi gefið samþykki sitt fyrir leitinni og að leitin hafi verið hluti af „hefðbundinni leit“ og til marks um hve mikið skólinn leggi á fíkniefnalaust umhverfi. Þá segir að leitin hafi mikið forvarnargildi.

Í frétt síðar sama dag á vefmiðlinum www.visir.is er vitnað í Aðalheiði Sigursveinsdóttur samskiptastjóra Tækniskólans í Reykjavík og tekið fram að engin fíkniefni hafi fundist og „átakið“ gengið vonum framar auk þess sem að þetta hafi verið „frábær forvörn“. Í fréttinni kemur jafnframt fram að leitinni hafi komið átta lögreglumenn auk tollvarða og fulltrúa barnaverndaryfirvalda svo og þrír hundar. Leitað hafi verið á fíkniefnum „á nemendum“ en að fjölmargir framhaldsskólar hafa gert slík hið sama.

Í Fréttablaðinu í dag, 12. febrúar 2010, kemur fram að á tólfta hundrað nemenda hafi verið lokaðir inni í skólanum í 45 mínútur á meðan leitinni stóð. Í fréttinni er vitnað í Baldur Gíslason, skólameistara Tækniskólans í Reykjavík. Þar kemur fram að leitin hafi verið „að frumkvæði skólans“. Aðspurður hvort beðið hafi verið um leitina vegna rökstudds gruns um fíkniefni í skólanum segir hann svo hafi „alls ekki [...] verið“. Í fréttinni kemur fram að Baldur hafi látið þau ummæli falla að fyrst og fremst hafi þetta „ákveðið forvarnargildi“ og vitnað í að aðrir skólar hafi einnig gert þetta.

II.

1.

Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skulu allir njóta friðhelgi einkalífs og heimilis. Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. má ekki gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama eigi við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns. Í 3. mgr. 71. gr. segir síðan að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. megi með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs og heimilis ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, segir að sérhver maður eigi rétt á friðhelgi einkalífs, heimilis og bréfaskipta og að opinber stjórnvöld skuli eigi ganga á þann rétt nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar velsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.

Í X. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er fjallað um leit og líkamsrannsókn. Í 74. gr. er að finna heimildir til að leita í tilteknum rýmum sakbornings í því skyni að handtaka hann, rannsaka andlag brots og önnur ummerki eða hafa upp á munum sem hald skuli leggja á. Leita má í tilteknum rýmum annars manns en sakbornings þegar brot hafi verið framið þar eða sakborningur handtekinn þar. Einnig ef rökstuddur grunur leikur á að sakborningur hafi haldi sig þar eða þar sé að finna muni sem hald skuli leggja á. Í 3. mgr. 74. gr. segir að skilyrði fyrir húsleit sé að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt geti ákæru og að sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu „augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi“. Það sé enn fremur skilyrði fyrir húsleit samkvæmt 2. mgr. að rannsókn beinist að broti sem geti varðað fangelsisrefsingu að lögum.

Í 1. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008 segir síðan að leit samkvæmt 74. gr. skuli ákveðin með úrskurði dómara nema fyrir liggi ótvírætt samþykki eiganda eða umráðamanns, sbr. þó 2. og 3. mgr. Í 2. mgr. kemur fram að leit sé þó heimil án dómsúrskurðar ef „brýn hætta“ er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum. Enn fremur ef leitað sé að manni sem handtaka skuli og honum sé veitt eftirför eða hætt sé á að hann komi sér undan ef beðið sé úrskurðar. Í 3. mgr. kemur síðan fram að leit sé heimil án dómsúrskurðar á víðavangi og í húsakynnum eða farartækjum, sem séu opin almenningi eða hver og einn geti átölulaust gengið um, þótt ekki sé fullnægt skilyrðum 74. gr.

2.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur umboðsmaður að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Þær umfjallanir úr fjölmiðlum sem að framan greinir hafa orðið mér tilefni til að taka að kanna hvort tilefni sé til þess að ég taki lagagrundvöll framangreindrar lögregluaðgerðar 11. febrúar sl. til athugunar að eigin frumkvæði. Í því skyni að varpa fullnægjandi ljósi á þau atriði, sem þar reynir á, hef ég ákveðið að rita yður þetta bréf, hr. lögreglustjóri, og óska eftir því, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997 að þér veitið mér á þessu stigi upplýsingar og skýringar á eftirfarandi:

1. Ég óska þess að vera upplýstur um aðdraganda þess að leit var gerð í Tækniskólanum í Reykjavík 11. febrúar sl. og eftir nánari upplýsingum um það hvernig sú leit fór fram. Óska ég þá meðal annars eftir upplýsingum um hvert hafi verið tilefni leitarinnar og hvaða gögn og upplýsingar lögreglan hafi lagt til grundvallar þegar tekin var ákvörðun um að leita í Tækniskólanum í Reykjavík umræddan dag. Hef ég jafnframt í huga hvort leitað hafi verið „á nemendum“ eins og kemur fram í einni af ofantilvitnaðri frétt, í skápum þeirra, skólatöskum o.þ.h.

2. Ég óska eftir afstöðu embættis yðar til þess á hvaða lagagrundvelli umrædd aðgerð fór fram. Hafi hún verið reist á 3. mgr. 75. gr. laga nr. 88/2008 óska ég eftir nánar rökstuðningi embættis yðar til þess hvernig skólastofnun af því tagi, sem var vettvangur umræddrar aðgerðar, geti talist „[húsakynni] sem séu opin almenningi eða hver og einn geti átölulaust gengið um“, og þá m.a. að virtri grundvallareglu 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Í þessu sambandi vek ég sérstaka athygli á því sem segir um ofangreint ákvæði laga nr. 88/2008 í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögunum, en þar kemur eftirfarandi m.a. fram: „Þá er rétt að vekja athygli á þeirri sjálfsögðu verklagsreglu, sem byggist á sjónarmiðum um meðalhóf, sbr. 2. mgr. 53. gr. frumvarpsins, að leiki vafi á því hvort heimild skv. 3. mgr. og reyndar einnig 2. mgr. sé fyrir hendi er varlegra fyrir lögreglu að leita úrskurðar dómara til að firra sig ábyrgð af því að hafa gripið til ólögmætrar leitar í þágu rannsóknar.“ (Allt. 2007-2008, A-deild, bls. 1437.)

Ég óska þess að svar berist mér eigi síðar en 1 mars. nk.

Róbert R. Spanó.