Opinberir starfsmenn. Ráðningar læknanema í afleysingarstörf á heilbrigðisstofnunum. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra.

(Mál nr. 5858/2009)

Um miðjan desember 2009 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir tilhögun við ráðningar læknanema í störf á opinberum heilbrigðisstofnunum. Í kvörtuninni kom m.a. fram að A hefði sótt um starf á heilsugæslu en fengið þau svör að ef læknanemar yrðu ráðnir á heilsugæsluna væri það regla að leita á náðir félags læknanema.

Kvörtuninni fylgdi m.a. „ákæra“ ráðningarstjóra Félags læknanema þar sem fram kemur að það sé álit ráðningarstjóra að A hafi brotið gegn reglum félagsins með því að ráða sig til starfa á Landspítala án þess að Félag læknanema hafi haft þar milligöngu og að lagt sé til að hann skuli færast niður í sk. „ráðningarröð“ síns árgangs í tiltekinn tíma. Kvörtuninni fylgdi einnig „reglugerð“ Félags læknanema um ráðningar þar sem m.a. kemur fram að ráðningarstjórar sjái um ráðningu félagsmanna í læknisstöður sem læknanemar séu ráðnir í vegna sérmenntunar sinnar og að félagsmönnum sé óheimilt að ráða sig í læknisstöður sem teljist til jóla-, páska- og/eða sumarafleysinga aðrar en samkvæmt svokallaðri „72 klst. reglu“ án samþykkis ráðningarstjóra, að ráðningarstjóri skuli ávallt vera fremstur í ráðningarröð síns árgangs, að félögum sé raðað í forgangsröð til starfa með því að draga miða með númeri sem segi til um stöðu læknanema innan hópsins og að ráðningarstjóra beri skylda til að bjóða læknastöður samkvæmt þeirri forgangsröð sem kveðið sé á um í reglunum.

Af kvörtuninni og fylgigögnum hennar varð ráðið að A hefði leitað til heilbrigðisráðuneytisins vegna umrædds fyrirkomulags og að ráðuneytið hefði tilkynnt honum að það hygðist kanna hvernig staðið væri að ráðningum læknanema við heilbrigðisstofnanir. Umboðsmaður ritaði því heilbrigðisráðuneytinu bréf og óskaði upplýsinga m.a. um það hvort ráðuneytið hefði kannað málið, hvað könnunin hefði þá leitt í ljós og hvort hún hefði leitt til einhverra ráðstafana eða viðbragða af hálfu ráðuneytisins.

Í skýringum heilbrigðisráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að ráðuneytið hefði þegar brugðist við erindi A til ráðuneytisins vegna málsins með tilteknum hætti. M.a. af þeirri ástæðu lauk umboðsmaður athugun sinni á máli A með bréfi, dags. 31. mars 2010. Í bréfi umboðsmanns til heilbrigðisráðuneytisins af því tilefni kom fram að umboðsmaður skildi svarbréf ráðuneytisins til sín og bréf sem ráðuneytið sendi heilbrigðisstofnunum í tilefni af erindi A, á þá leið að ráðuneytið teldi það fyrirkomulag við ráðningar læknanema fyrir milligöngu Félags læknanema sem tíðkast hefði á heilbrigðisstofnunum ekki samrýmast gildandi lögum. Umboðsmaður tók jafnframt fram að hann legði þann skilning í svarbréfið að heilbrigðisráðuneytið myndi bregðast við á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna kæmu fram upplýsingar um að heilbrigðisstofnanir hefðu, þrátt fyrir bréf ráðuneytisins til heilbrigðisstofnana, haldið áfram ráðningum á grundvelli fyrirkomulagsins.

Bréf umboðsmanns Alþingis til heilbrigðisráðuneytisins, dags. 31. mars 2010 hljóðar svo í heild sinni:

Það tilkynnist hér með að ég hef lokið máli A með bréfi því sem hér fylgir í ljósriti.

Eins og fram kemur í bréfi mínu til A tel ég, að fengnum upplýsingum um viðbrögð heilbrigðisráðuneytisins við erindi hans, ekki tilefni til þess af minni hálfu að taka málið til frekari meðferðar að svo stöddu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tel þó rétt að taka eftirfarandi fram.

Í tilefni af erindi A ritaði ég heilbrigðisráðuneytinu bréf, dags. 21. desember 2009. Í bréfinu óskaði ég upplýsinga um hvort ráðuneytið hefði, í samræmi við það sem fram kom í bréfi ráðuneytisins til A, dags. 12. maí 2009, kannað hvernig staðið væri að ráðningum læknanema við heilbrigðisstofnanir og jafnframt hvort slíkt stæði til, hefði það ekki verið gert. Hefði slík athugun farið fram óskaði ég eftir upplýsingum um hvað athugunin hefði leitt í ljós og hvort hún hefði leitt til einhverra ráðstafana eða viðbragða af hálfu heilbrigðisráðuneytisins. Ég óskaði þess einnig að mér yrðu afhent afrit af þeim gögnum sem ráðuneytið kynni að hafa aflað vegna athugunar málsins.

Í svarbréfi heilbrigðisráðuneytisins til mín, dags. 3. mars sl., segir eftirfarandi:

„Því er til að svara að ráðuneytið fundaði með [D], deildarstjóra lögfræði- og kjaradeildar Landspítala, þann 8. júní 2009 þar sem farið var yfir ráðningar læknanema í afleysingarstörf og önnur störf á Landspítalanum. Á fundinum var m.a. farið yfir þær reglur sem gilda um ráðningar í slíkar stöður og fulltrúi Landspítala gerði ráðuneytinu grein fyrir tilhögun við ráðningar læknanema á Landspítalanum. Í framhaldinu sendi heilbrigðisráðuneytið bréf til allra heilbrigðisstofnana þar sem m.a. var áréttað að um ráðningar læknanema við heilbrigðisstofnanir gilda sömu reglur og um ráðningar í aðrar stöður á ríkisstofnunum.“

Svarbréfi heilbrigðisráðuneytisins fylgdi afrit af umræddu bréfi ráðuneytisins til heilbrigðisstofnana þar sem áréttað er að um ráðningar læknanema við heilbrigðisstofnanir gildi sömu reglur og um ráðningar í aðrar stöður á ríkisstofnunum, þ.e. ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meginreglur stjórnsýsluréttarins, ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og reglur nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum.

Ég skil svarbréf heilbrigðisráðuneytisins til mín, dags. 3. mars sl., og bréf það sem ráðuneytið sendi heilbrigðisstofnunum í tilefni af erindi A, á þá leið að ráðuneytið telji það fyrirkomulag við ráðningar læknanema fyrir milligöngu Félags læknanema, sem tíðkast hefur, ekki samrýmast gildandi lögum. Ég legg jafnframt þann skilning í svarbréfið að heilbrigðisráðuneytið muni bregðast við á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna, sjá þar til hliðsjónar álit mitt frá 7. júlí 2009 í máli nr. 5718/2009, ef upplýsingar koma fram um að heilbrigðisstofnanir hafi, þrátt fyrir áðurnefnt bréf ráðuneytisins til heilbrigðisstofnana, haldið áfram ráðningum á grundvelli umrædds fyrirkomulags. Í því samhengi tel ég ástæðu til að vekja athygli heilbrigðisráðuneytisins á því að samkvæmt upplýsingum sem fram koma á heimasíðu Félags læknanema, www.laeknanemar.is, hefur ráðningarstjóri félagsins raðað félagsmönnum niður í sk. „ráðningarraðir“ fyrir sumarið 2010.

Róbert R. Spanó.