Opinberir starfsmenn. Ráðning í sérfræðistörf hjá Vinnumálastofnun. Rökstuðningur.

(Mál nr. 5947/2010)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að Vinnumálastofnun hefði synjað beiðni hans um að veita honum upplýsingar um nöfn þeirra sem ráðnir voru í störf sérfræðiráðgjafa hjá Vinnumálastofnun í tengslum við átakið „Ungt fólk til athafna“, en A var á meðal umsækjenda. A óskaði jafnframt eftir því að efni rökstuðnings Vinnumálastofnunar fyrir ráðningum í störfin yrði tekið til athugunar.

Meðan á athugun málsins stóð endurskoðaði Vinnumálastofnun afstöðu sína að því leyti að A voru veittar upplýsingar um nöfn umsækjendanna. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um synjun Vinnumálastofnunar á að veita A þær upplýsingar en lagði þó áherslu á að opinbert stjórnvald gæti ekki synjað málsaðilum eða öðrum borgurum um aðgang að fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum á grundvelli laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eins og Vinnumálastofnun hafði gert án þess að fram hefði farið vel ígrundað mat á því hvort samspil stjórnsýslulaga, upplýsingalaga og laga nr. 77/2000 leiddi í reynd til þeirrar niðurstöðu. Í því sambandi benti umboðsmaður á að samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 77/2000 takmörkuðu lögin ekki þann rétt til aðgangs að gögnum sem mælt væri fyrir um í upplýsingalögum og stjórnsýslulögum.

Umboðsmaður rakti ákvæði 20. gr. stjórnsýslulaga og tók fram að í tilkynningu um ráðningu í opinbert starf þyrfti að gera öllum umsækjendum grein fyrir niðurstöðu stjórnvalds um hverjum umsækjenda hefði verið veitt starfið. Umboðsmaður taldi einnig ljóst að rökstuðningur Vinnumálastofnunar hefði ekki fullnægt þeim kröfum sem gerðar væru í 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings. Þar breytti engu að Vinnumálastofnun hefði síðar upplýst A um nöfn þeirra sem hlutu ráðningu í störfin enda hefði framsetning þeirra upplýsinga ekki eins og sér leitt til þess að viðtakanda þeirra mætti vera ljóst hvers vegna viðkomandi einstaklingar væru taldir standa framar öðrum umsækjendum. Það var niðurstaða umboðsmanns að sá rökstuðningur sem Vinnumálastofnun veitti A fyrir ráðningu í umrædd störf hjá stofnuninni hefði ekki verið í samræmi við 1. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Hann beindi því þeim tilmælum til Vinnumálastofnunar að taka beiðni A um rökstuðnings til endurskoðunar leitaði hann eftir því og taka þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

I. Kvörtun.

Hinn 4. mars 2010 leitaði A til mín og kvartaði yfir því að Vinnumálastofnun hefði synjað beiðni hans um að veita honum upplýsingar um nöfn þeirra sem ráðnir voru í störf sérfræðiráðgjafa hjá Vinnumálastofnun í tengslum við átakið „Ungt fólk til athafna“, en A var á meðal umsækjenda. Á meðan á athugun minni á málinu stóð óskaði A jafnframt eftir því að efni rökstuðnings Vinnumálastofnunar fyrir ráðningum í störfin yrði tekið til athugunar.

Athugun mín á kvörtun A hefur beinst að því hvort málsmeðferð Vinnumálastofnunar hafi verið í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 18. júní 2010.

II. Málavextir.

Í kvörtun málsins kemur fram að A hafi sótt um starf sem Vinnumálastofnun auglýsti í tengslum við átakið „Ungt fólk til athafna“. Alls hafi 10 stöður verið auglýstar, 123 sótt um þær, en 30 manns verið boðaðir í atvinnuviðtal. A var ekki á meðal þeirra sem ráðnir voru.

Af gögnum málsins er ljóst að A óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðunum um ráðningarnar. Í tölvubréfi starfsmannastjóra Vinnumálastofnunar til A, dags. 10. febrúar 2010, er að finna svohljóðandi rökstuðning fyrir ákvörðununum:

„Samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga getur umsækjandi sem ekki hlýtur starf krafist rökstuðnings fyrir ráðningu í starfið. Í rökstuðningi skal koma fram af hverju sá sem varð fyrir valinu var ráðinn, en ekki ástæður þess að sá sem krefst rökstuðnings fékk ekki starfið.

Vinnumálastofnun barst beiðni þín, dags. 3. febrúar 2010, um ofangreindan rökstuðning.

Þann 24. desember 2009 var auglýst eftir ráðgjöfum til tímabundinna starfa á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum í tengslum við átakið Ungt fólk til athafna. Alls bárust 123 umsóknir og 30 umsækjendur voru boðaðir í viðtal. Ákvarðanir voru teknar um að ráða í tvö stöðugildi á Suðurnesjum og átta á höfuðborgarsvæðinu.

Meðal hæfniskrafna var að viðkomandi hafi háskólanám í náms- og starfsráðgjöf, félagsráðgjöf, sálfræði eða sambærilegu námi. Hann hafi einnig góða þekkingu á vinnumarkaði og menntakerfi og reynslu af ráðgjafastörfum væri jafnframt kostur.

Hópurinn sem var boðaður í viðtal samanstóð af fólki með masterpróf í félagsvísindum, próf í náms- og starfsráðgjöf eða öðrum greinum innan félagsvísinda. Einnig var horft til þess að viðkomandi hafi unnið með ungu fólki.

Þeir sem voru ráðnir eru með menntun í náms- og starfsráðgjöf, uppeldis- og menntunarfræði, sálarfræði, mannauðsstjórnun og tómstunda- og félagsmálafræði. Starfsreynsla þeirra nær m.a. til náms- og starfsráðgjafar, stuðningsfulltrúar, meðferðarráðgjafar og verkefnisstjórnunar á félagsmiðstöðvum.

Ákvarðanir um ráðningarnar voru byggðar á menntun, starfsreynslu með ungu fólki, umsögnum og einstaklingsbundnu mati.“

Hinn 12. febrúar 2010 sendi A fyrirspurn á starfsmannastjórann um hvar hann gæti fundið upplýsingar um þá sem ráðnir voru í störfin. Í svari starfsmannastjórans, sem sent var með tölvubréfi dags. 15. s.m., segir eftirfarandi:

„Sæll [A]

á grundvelli laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga (nr. 77/2000) eru upplýsingar sem varða hagi og einkalíf fólks ekki veittar öðrum umsækjendum.“

Í framhaldinu leitaði A til mín með kvörtun.

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og Vinnumálastofnunar.

Í tilefni af kvörtun málsins ritaði ég Vinnumálastofnun bréf, dags. 16. mars 2010. Í bréfinu rakti ég m.a. ákvæði laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, einkum 1. mgr. 8. gr. laganna, þar sem fram kemur að heimilt sé að vinna persónuupplýsingar ef vinnslan er nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila upplýsinganna, í því tilviki sem hér um ræðir Vinnumálastofnun. Þá rakti ég ákvæði 20.-22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um birtingu og rökstuðning stjórnvaldsákvörðunar og lagasjónarmið að baki þessum ákvæðum.

Ég óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að Vinnumálastofnun veitti mér tilteknar upplýsingar og skýringar.

Í fyrsta lagi óskaði ég þess að mér yrðu veittar upplýsingar um hvort og þá með hvaða hætti A hefði verið tilkynnt um ákvörðun Vinnumálastofnunar um ráðningar í umrædd störf. Hefði ekki verið tiltekið í tilkynningunni hvaða einstaklingar hlutu ráðningu í störfin óskaði ég eftir afstöðu Vinnumálastofnunar til þess hvort og þá hvernig slíkt samrýmdist 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga og þá að virtum þeim lagasjónarmiðum sem rakin höfðu verið framar í bréfinu. Í ljósi þess í hvaða samhengi beiðni A um upplýsingar um þá sem ráðnir voru í umrædd störf hjá Vinnumálastofnun var sett fram, þ.e. í framhaldi af því að hann óskaði eftir rökstuðningi á grundvelli 21. gr. stjórnsýslulaga, óskaði ég þess í öðru lagi að Vinnumálastofnun skýrði nánar hvaða lagasjónarmið byggju að baki þeirri afstöðu stofnunarinnar að hafna því að veita honum umræddar upplýsingar. Í þriðja lagi óskaði ég eftir afstöðu Vinnumálastofnunar til þess hvort rökstuðningur stofnunarinnar fyrir ráðningum í umrædd störf, sem sendur var A með tölvupósti dags. 10. febrúar 2010, uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru í 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga til efnis rökstuðnings. Þá óskaði ég þess jafnframt að mér yrðu afhent öll gögn sem vörðuðu erindi A, einkum ef þau bæru með sér hvaða mat hefði farið fram á því hvort umrædd vinnsla persónuupplýsinga væri heimil samkvæmt lögum nr. 77/2000.

Í skýringum Vinnumálastofnunar til mín, dags. 25. mars 2010, sagði eftirfarandi:

„Stofnunin hefur nú, í ljósi erindis umboðsmanns Alþingis, farið á ný yfir gögn í máli A og komist að þeirri niðurstöðu, með vísan til þeirra lagasjónarmiða sem rakin eru í bréfinu og með tilliti til fyrri álita umboðsmanns Alþingis, að stofnuninni sé heimilt að láta af hendi upplýsingar um þá sem ráðnir voru í störf ráðgjafa hjá stofnuninni eftir auglýsingu þ.a.l. um síðastliðin áramót.

Hefur Vinnumálstofnun því sent [A] lista þar sem fram koma nöfn þeirra sem ráðnir voru í tímabundnar stöður sérfræðiráðgjafa hjá þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar. Óski hann eftir frekari gögnum vegna málsins mun stofnunin taka slíka beiðni til skoðunar í samræmi við 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

Spurningu minni um afstöðu Vinnumálastofnunar til þess hvort rökstuðningurinn, sem A var veittur fyrir umræddum ráðningum, uppfyllti kröfur 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga, var hins vegar ekki svarað. Ég ritaði því Vinnumálastofnun á ný bréf, dags. 30. mars 2010, þar sem ég ítrekaði fyrirspurn mína um þetta atriði og áréttaði mikilvægi þess að stjórnvöld veiti umboðsmanni skýr og glögg svör sé eftir þeim leitað. Í því sambandi tók ég fram að að öðrum kosti yrði það úrræði, sem borgurunum væri fengið með lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ekki raunhæft og virkt. Ég tilkynnti jafnframt um að þar sem ég hefði þegar tekið meðferð Vinnumálastofnunar til athugunar að þessu leyti myndi ég ekki líta svo á að ársfrestur samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 væri liðinn, færi svo að A kysi á síðari stigum athugunarinnar að kvarta sérstaklega yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar um val á umsækjendum í umræddar stöður eftir að fresturinn ætti að vera liðinn samkvæmt ákvæðinu.

Mér barst tölvubréf frá A, dags. 30. mars 2010, þar sem fram kom að honum hefðu borist tvö bréf frá Vinnumálastofnun, bæði dagsett 26. mars 2010. Í öðru bréfinu kæmi m.a. fram að í ljósi erindis míns til Vinnumálastofnunar vegna kvörtunar hans hefði stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að heimilt væri að láta af hendi upplýsingar um nöfn umsækjenda. Í hinu bréfinu væri að finna lista yfir nöfn þeirra einstaklinga sem hlotið hefðu ráðningu í stöðurnar sem Vinnumálastofnun auglýsti umrætt sinn og A sótti um. Í samskiptum A við starfsmann minn í kjölfarið kom fram að hann vildi að athuguninni yrði haldið áfram að því er varðar rökstuðninginn sem honum var veittur með tölvubréfi starfsmannastjóra Vinnumálastofnunar, dags. 10. febrúar 2010.

Í skýringum Vinnumálastofnunar til mín, dags. 21. apríl 2010, segir m.a. eftirfarandi:

„Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skal í rökstuðningi, vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.

Í rökstuðningi stofnunarinnar var almennt gerð grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við mat á því hvaða umsækjendur hlutu ráðningu í tímabundið starf sérfræðiráðgjafa hjá stofnuninni. Má í því sambandi benda á að í rökstuðningnum voru tilteknar þær hæfniskröfur sem Vinnumálastofnun leitaði eftir hjá umsækjendum. Kom m.a. fram að stofnunin óskaði eftir fólki með háskólanám í náms- og starfsráðgjöf, félagsráðgjöf, sálfræði eða sambærilegu námi. Einnig var tekið fram í rökstuðningnum að það hafi verið kostur fyrir umsækjendur, hefðu þeir góða þekkingu á vinnumarkaði og menntakerfi auk þess að hafa reynslu af ráðgjafastörfum. Að lokum var upplýst að þeir sem voru ráðnir uppfylltu allir framangreindar hæfniskröfur. Þó stofnunin telji að rétt hefði verið að taka fram hverjir höfðu verið ráðnir í störf sérfræðiráðgjafa í rökstuðningi til [A], metur Vinnumálastofnun það svo að skýrt hafi komið fram hvaða sjónarmið voru ráðandi við mat á umsækjendum um nefndar stöður. Viðtakandi hafi því mátt gera sér grein fyrir því í rökstuðningi stofnunarinnar til hans, hvaða þættir lágu til grundvallar ákvörðunum um ráðningarnar og hvað hafi ráðið úrslitum um hverjir hlutu ráðningar að þessu sinni.

Vinnumálastofnun telur því að rökstuðningur sá er stofnunin gaf [A] fyrir ráðningu í tímabundnar stöður sérfræðiráðgjafa hjá þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar, hafi verið í samræmi við 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

Með bréfi, dags. 27. apríl 2010, var A sent afrit af skýringum Vinnumálastofnunar og veittur kostur á að gera þær athugasemdir sem hann teldi ástæðu til að gera af því tilefni. Athugasemdir hans bárust mér 3. maí 2010.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1. Afmörkun athugunar.

Upphafleg kvörtun vegna máls þessa beindist að því að Vinnumálastofnun hefði synjað A um að veita honum upplýsingar um nöfn þeirra umsækjenda, sem ráðnir voru í auglýst störf á vegum Vinnumálastofnunar, á grundvelli laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Nú liggur hins vegar fyrir að Vinnumálastofnun hefur endurskoðað afstöðu sína og veitt A upplýsingar um nöfn umsækjendanna. Jafnframt hefur Vinnumálastofnun lýst yfir að æski A aðgangs að frekari gögnum málsins verði tekin afstaða til þeirrar beiðni hans á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Eins og atvikum er háttað er þannig ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um synjun Vinnumálastofnunar á að veita A upplýsingar um nöfn þeirra sem hlutu ráðningu í umræddar stöður hjá stofnuninni. Ég legg þó áherslu á að opinbert stjórnvald getur ekki synjað málsaðilum eða öðrum borgurum um aðgang að fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum á grundvelli laga nr. 77/2000 án þess að fram hafi farið vel ígrundað mat á því hvort samspil stjórnsýslulaga, upplýsingalaga nr. 50/1996 og laga nr. 77/2000 leiði í reynd til þeirrar niðurstöðu. Í því sambandi bendi ég á að samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 77/2000 takmarka lögin ekki þann rétt til aðgangs að gögnum, sem mælt er fyrir um í upplýsingalögum nr. 50/1996 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993, auk þess sem í 8. og 9. gr. laganna er kveðið á um heimildir til vinnslu persónuupplýsinga að uppfylltum þar til greindum skilyrðum. Ég tel ástæðu til að taka þetta sérstaklega fram þar sem mér hafa ekki borist nein gögn, upplýsingar eða skýringar frá Vinnumálstofnun sem bera með sér hvort og þá hvaða mat fór fram á því hvort umrædd vinnsla persónuupplýsinga væri heimil samkvæmt lögum nr. 77/2000 þrátt fyrir að ég hafi óskað eftir þeim í bréfi mínu til stofnunarinnar, dags. 16. mars 2010.

Að þessu sögðu stendur eftir að taka afstöðu til þess hvort sá rökstuðningur sem Vinnumálastofnun veitti A með tölvubréfi, dags. 10. febrúar 2010, hafi samrýmst stjórnsýslulögum.

2. Rökstuðningur Vinnumálastofnunar.

Ákvörðun um ráðningu, setningu eða skipun í opinbert starf er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við undirbúning og töku slíkra ákvarðana ber stjórnvaldi því að gæta ákvæða stjórnsýslulaga, þ. á m. ákvæða V. kafla laganna um birtingu ákvörðunar, rökstuðning o.fl.

Í 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um að eftir að stjórnvald hafi tekið ákvörðun skuli hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. skal, þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur, enn fremur veita leiðbeiningar um nánar tilgreind atriði, þ. á m. um heimild aðila til þess að fá ákvörðunina rökstudda, sbr. 1. tölul. ákvæðisins. Að öðru leyti er ekki í stjórnsýslulögum kveðið á um efni tilkynningar um töku stjórnvaldsákvörðunar. Hins vegar hefur verið lagt til grundvallar að í tilkynningu um ráðningu í opinbert starf þurfi að gera öllum umsækjendum grein fyrir niðurstöðu stjórnvalds um hverjum umsækjenda hafi verið veitt starfið enda getur slíkt verið forsenda þess að umsækjandi sem telur á sér brotið með ákvörðuninni leiti réttar síns gagnvart veitingarvaldshafanum, sjá nánar um þetta kafla IV.6 í áliti mínu frá 8. maí 2009 í máli nr. 5356/2008 og kafla V.5 í áliti umboðsmanns Alþingis frá 4. júní 1999 í máli nr. 2202/1997.

Í 21. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um að aðili máls geti krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt honum. Í athugasemdum greinargerðar við V. kafla frumvarps þess er síðar varð að stjórnsýslulögum er fjallað um ástæður þess að ákveðið var að festa í lög almenna reglu um skyldu til eftirfarandi rökstuðnings stjórnvaldsákvarðana. Þar segir að út frá sjónarmiðum um réttaröryggi og traust almennings á stjórnsýslunni verði að telja mikilvægt að stjórnvaldsákvörðunum fylgi rökstuðningur. Það sem helst mæli með almennri reglu um rökstuðning sé að slík regla sé almennt talin auka líkur á því að ákvarðanirnar verði réttar þar sem hún knýi á um það að stjórnvald vandi til undirbúnings að ákvörðun og leysi úr máli á málefnalegan hátt. Einnig segir að þegar rökstuðningur fylgi ákvörðun stuðli hann að því að aðili máls fái í raun skilið niðurstöðu þess þar sem hann geti staðreynt að ákvörðun eigi sér stoð í lögum og sé í samræmi við þau. Rökstuðningur fyrir ákvörðun geti því orðið til þess að aðili máls uni ákvörðun þótt hún sé honum óhagstæð. Af rökstuðningi geti aðila líka orðið ljóst að starfsmaður, sem tekið hefur ákvörðun, hafi verið í villu um staðreyndir máls eða að ákvörðun sé haldin öðrum annmarka. Þegar rökstuðningur fylgi ákvörðun eigi aðili máls auðveldara með að taka ákvörðun um það hvort leita eigi eftir endurupptöku málsins, hvort kæra eigi ákvörðunina til æðra stjórnvalds eða bera málið undir dómstóla eða umboðsmann Alþingis ef skilyrði eru til þess. Þá sé ljóst að til þess að eftirlit æðri stjórnvalda, dómstóla og umboðsmanns Alþingis sé sem virkast verði að vera ljóst á hvaða grundvelli stjórnvaldsákvörðun er byggð. Oft geti verið erfitt að staðreyna hvort ákvörðun sé t.d. byggð á ólögmætum sjónarmiðum, rangri túlkun réttarheimilda o.s.frv., ef henni hefur ekki fylgt rökstuðningur. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3299.)

Í 22. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um efni rökstuðnings fyrir stjórnvaldsákvörðun. Þar segir í 1. mgr. að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds sé byggð á. Að því marki, sem ákvörðun byggist á mati, skuli í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal í rökstuðningi, þar sem ástæða er til, rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Við mat á hvort gætt hafi verið að kröfum um efni rökstuðnings þarf fyrst og fremst að hafa í huga að rökstuðningur stjórnvalds fyrir ákvörðun á að meginstefnu til að vera stuttur en þó það greinargóður að búast megi við því að aðili geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á. (Alþt. 1992—1993, A-deild, bls. 3303.)

Þegar ráðið er í opinbert starf verður það jafnan að vera gert að undangengnum samanburði á upplýsingum um umsækjendur út frá tilteknum forsendum. Almennt hefur því verið lagt til grundvallar að stjórnvaldi beri að lýsa í stuttu máli helstu upplýsingum um þann umsækjanda sem varð fyrir valinu er skiptu mestu máli við matið, sbr. 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga, þannig að ljóst liggi fyrir hvaða meginsjónarmið réðu því að starfið var veitt þeim umsækjanda. Almennt er þá ekki nægjanlegt að lýsa einvörðungu þeim staðreyndum um þann umsækjanda sem fékk starfið, sem fram koma í umsókn hans til veitingarvaldshafa, heldur verður viðtakandi rökstuðningsins að geta gert sér grein fyrir því með raunhæfum hætti á hvaða sjónarmiðum veitingarvaldshafi byggði ákvörðun sína og eftir atvikum hvert vægi þeirra hafi verið. Þetta mætti orða svo að í rökstuðningi ætti að koma fram lýsing á því hvers konar starfsmanni veitingarvaldshafi var að leita að og hvernig sá umsækjandi sem valinn var féll að þeirri lýsingu. Í þessu sambandi vísa ég m.a. til álits umboðsmanns Alþingis frá 18. júní 2003 í máli nr. 3490/2002 þar sem gert er grein fyrir almennum sjónarmiðum um efni rökstuðnings af hálfu veitingarvaldshafa þegar svarað er beiðnum umsækjenda um rökstuðning fyrir ráðningu í starf. Ég hef jafnframt lagt til grundvallar að á grundvelli 2. mgr. 22. gr. sé skylt að upplýsa í rökstuðningi hver ráðinn var í starf sem umsækjandi sóttist eftir, sjá nánar kafla IV.5 í áliti mínu frá 19. ágúst 2009 í máli nr. 5118/2007.

Í rökstuðningi þeim sem Vinnumálastofnun veitti A með tölvubréfi, dags. 10. febrúar 2010, kemur ekki fram hverjir hlutu ráðningu í störfin. Tekið er fram að á meðal hæfniskrafna hafi verið tilteknar menntunarkröfur og þekking á vinnumarkaði og menntakerfi. Jafnframt segir að reynsla af ráðgjafarstörfum hafi verið kostur. Síðan er gerð stutt grein fyrir því hvaða sjónarmið voru lögð til grundvallar vali á umsækjendum sem boðið var í atvinnuviðtal og í framhaldinu er að finna rökstuðning stofnunarinnar fyrir því hvers vegna hinir ótilgreindu einstaklingar, sem hlutu ráðningu, voru taldir hæfastir til starfanna að undangengnum samanburði við aðra umsækjendur. Þar er eingöngu að finna upptalningu á háskólamenntun þeirra og starfsreynsla þeirra er tíunduð í dæmaskyni. Þá segir að ákvarðanir um ráðningar hafi verið byggðar á menntun, starfsreynslu með ungu fólki, umsögnum og einstaklingsbundnu mati án þess þó að fram komi hvaða menntun og starfsreynslu hver og einn sem ráðinn var hefur, hvers efnis umsagnir um hann hafi verið, í hverju einstaklingsbundið mat hafi falist og hver niðurstaða þess hafi orðið.

Af framangreindu tel ég ljóst að rökstuðningur Vinnumálastofnunar, sem sendur var A með tölvubréfi, dags. 10. febrúar 2010, hafi ekki fullnægt þeim kröfum sem gerðar eru í 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings. Þar breytir engu að Vinnumálastofnun hafi með bréfi, dags. 26. mars 2010, upplýst A um nöfn þeirra sem hlutu ráðningu í störfin enda voru þær upplýsingar í formi einfalds lista. Slík framsetning getur ekki ein og sér leitt til þess að viðtakanda rökstuðnings megi vera ljóst hvers vegna viðkomandi einstaklingar voru taldir standa framar öðrum umsækjendum. Það er því niðurstaða mín að sá rökstuðningur sem Vinnumálastofnun veitti A fyrir ráðningu í umrædd störf hjá stofnuninni hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.

V. Niðurstaða.

Það er niðurstaða mín að sá rökstuðningur sem Vinnumálastofnun veitti A fyrir ráðningu um störf sérfræðiráðgjafa hjá stofnuninni í tengslum við átakið „Ungt fólk til athafna“ hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ég beini þeim tilmælum til Vinnumálastofnunar að taka beiðni A um rökstuðning fyrir umræddum ákvörðunum til endurskoðunar leiti hann eftir því og taka þá mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti þessu.

Róbert R. Spanó.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Vinnumálastofnun var ritað bréf, dags. 1. febrúar 2011, þar sem þess var óskað að stofnunin upplýsti um hvort álit setts umboðsmanns í málinu hefði orðið tilefni til einhverra ráðstafana hjá stofnuninni og ef svo væri í hverju þær ráðstafanir hefðu falist.

Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 28. febrúar 2011, kemur fram að Vinnumálastofnun hafi endurskoðað verklagsreglur stofnunarinnar um rökstuðningsbeiðnir umsækjenda um störf hjá stofnuninni. Slíkar beiðnir verði framvegis afgreiddar með aðkomu starfsmannastjóra og sviðssjóra stjórnsýslusviðs stofnunarinnar. Stofnunin muni veita umsækjendum nauðsynlegar upplýsingar, s.s. um nöfn, menntun og starfsreysnlu meðumsækjenda sem og önnur gögn er mál varðar. Einnig kemur fram að Vinnumálastofnun hafi komið sér upp nýju verklagi við afgreiðslu sambærilegra rökstuðningsbeiðna. Með þeim ráðstöfunum sé leitast við að fullnægja öllum kröfum sem gerðar séu til rökstuðnings samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar umsækjandi um störf hjá Vinnumálastofnun óskar eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um ráðningu.

Með bréfi, dags. 10. mars 2011, var þess óskað að Vinnumálastofnun upplýsti mig um það hvort A hefði, eftir að stofnuninni var sent álitið, beðið um endurskoðun á máli sínu og þá hver viðbrögð stofnunarinnar hefðu verið við þeirri beiðni.

Í svarbréfi Vinnumálastofnunar, dags. 1. apríl 2011, kemur fram að A hafi á ný óskað eftir rökstuðningi og honum hafi verið svarað með bréfi, dags. 27. ágúst 2010.