Fjármálastarfsemi. Eftirlit á fjármálamarkaði. Hæfi lykilstarfsmanna í fjármálafyrirtækjum. Lögmætisreglan. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. 5815/2009)

Umboðsmanni Alþingis barst ábending sem laut að athugun og aðgerðum sem haldið var fram að Fjármálaeftirlitið hefði ráðist í og beinst hefði að starfsmönnum þeirra íslensku banka sem ríkið hefði yfirtekið í framhaldi af falli þeirra haustið 2008. Af því tilefni ákvað umboðsmaður að rita bréf til Fjármálaeftirlitsins. Í bréfinu gerði umboðsmaður grein fyrir efni ábendingarinnar og tók fram að hún hefði orðið honum tilefni til að huga að því hvort ástæða væri til að hann tæki þau atriði sem þar væru rakin til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður beindi nokkrum spurningum til Fjármálaeftirlitsins. Hann óskaði m.a. eftir því að sér yrðu send afrit af bréfum Fjármálaeftirlitsins, hefði stofnunin ritað bréf til Íslandsbanka hf., Nýja Kaupþings hf., nú Arion-banka hf. og Landsbanka hf., nú NBI hf., þar á meðal af lista sem átti að hafa fylgt með bréfunum með nöfnum tilgreindra starfsmanna fyrirtækjanna sem haldið hefði verið fram að stofnunin teldi að kæmi til álita að víkja úr starfi, sem og svarbréfum þeirra banka sem áttu að hafa svarað bréfum Fjármálaeftirlitsins. Einnig óskaði umboðsmaður eftir því að stofnunin gerði honum ítarlega grein fyrir þeim lagagrundvelli sem aðgerðir hennar af því tilefni væru reistar á og á hvaða stigi athugunin væri þegar svarbréf stofnunarinnar til hans yrði ritað.

Umboðsmanni barst af þessu tilefni svarbréf frá Fjármálaeftirlitinu, dags. 11. nóvember 2009. Í framhaldi af því átti umboðsmaður fund með forstjóra og varaformanni stjórnar stofnunarinnar. Með tilliti til svara Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurnum umboðsmanns Alþingis og þeirra upplýsinga sem komu fram á fundinum ákvað umboðsmaður á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997 að taka til nánari athugunar að eigin frumkvæði málsmeðferð stofnunarinnar í tengslum við athugun hennar sem beindist að starfsmönnum bankanna.

Umboðsmaður ritaði annað bréf til Fjármálaeftirlitsins þar sem hann beindi í fjórum töluliðum spurningum til stofnunarinnar. Hann óskaði m.a. eftir upplýsingum um hvort stofnunin hefði lagt mat á það hvort og þá með hvaða hætti þeir lykilstarfsmenn, sem vísað hefði verið til á listum sem fylgt hefðu bréfum stofnunarinnar til bankanna, teldust vera stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar í merkingu 4. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og/eða í merkingu 52. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Af svarbréfi Fjármálaeftirlitsins vegna spurninganna réð umboðsmaður að stofnunin teldi nú að viðkomandi lykilstarfsmenn í framangreindum bönkum, aðrir en framkvæmdastjórar, sem athugun stofnunarinnar hefði beinst að, féllu ekki undir ákvæði 4. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998 og 52. gr. laga nr. 161/2002. Stofnunin teldi sig af þeim sökum einungis að óbreyttum lögum geta lokið athugun sinni með útgáfu almennra tilmæla til stjórna umræddra banka á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998, um að þeir hygðu sérstaklega að því hvaða áhrif það hefði á orðspor, traust og trúverðugleika nýju bankanna að sömu lykilstarfsmenn störfuðu innan þeirra og störfuðu innan gömlu bankanna. Umboðsmaður taldi ekki tilefni á þessu stigi til þess að gera sérstakar athugasemdir við þessa fyrirætlan stofnunarinnar. Tók hann þó m.a. fram að samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998 væru almenn tilmæli sem Fjármálaeftirlitið gæti gefið út aðeins „leiðbeinandi“.

Í skýringum Fjármálaeftirlitsins til umboðsmanns kom fram að stofnunin myndi óska eftir því við bankana að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana hverju sinni með tilliti til framangreindra sjónarmiða. Af því tilefni lagði umboðsmaður á það áherslu að hann skildi skýringar Fjármálaeftirlitsins með þeim hætti í ljósi fyrirspurnarbréfs hans að stofnunin teldi sig ekki hafa heimild að lögum til að taka ákvarðanir um að víkja þeim lykilstarfsmönnum frá sem í hlut ættu, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998.

Að framangreindu virtu og í ljósi annarra atriða sem fram komu í skýringum Fjármálaeftirlitsins, taldi umboðsmaður Alþingis ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu í tilefni af málinu á grundvelli heimildar sinnar til að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. og a- lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, og væri frumkvæðisathugun hans því lokið. Umboðsmaður lagði þó áherslu á að kæmi til frekari aðgerða eða ráðstafana af hálfu Fjármálaeftirlitsins í tilefni af athugun stofnunarinnar þá myndi hann eftir atvikum þurfa að taka ákvörðun um hvort tilefni væri af hans hálfu til að taka einstök atriði til athugunar á grundvelli þeirra heimilda sem honum væru fengnar með lögum nr. 85/1997.

Bréf umboðsmanns Alþingis til forstjóra Fjármálaeftirlitsins, dags. 23. júní 2010, er svohljóðandi:

I.

Ég vísa til fyrri bréfaskipta við Fjármálaeftirlitið í tilefni af ábendingu sem mér barst og laut að athugun og aðgerðum sem haldið var fram að Fjármálaeftirlitið hefði ráðist í og beinst að starfsmönnum þeirra íslensku banka sem ríkið hefði yfirtekið í framhaldi af falli þeirra haustið 2008.

Með bréfi mínu til yðar, dags. 28. október 2009, gerði ég grein fyrir efni ábendingarinnar sem var nánar lýst í tilteknu skjali og tók fram að ábendingin hefði orðið mér tilefni til að huga að því hvort ástæða væri til að ég tæki þau atriði sem þar væru rakin til athugunar að eigin frumkvæði sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Hefði ég þá í huga að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, væri hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skyldi hann gæta þess að jafnræði væri í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún færi að öðru leyti fram í samræmi við „lög og vandaða stjórnsýsluhætti“.

Í ofangreindu bréfi mínu óskaði ég eftir því með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að Fjármálaeftirlitið veitti mér upplýsingar og skýringar um nokkur atriði. Í fyrsta lagi óskaði ég eftir því að Fjármálaeftirlitið upplýsti mig um hvort sú atvikalýsing sem kæmi fram í framangreindu skjali og fylgdi með ábendingunni til mín væri rétt hvort sem væri að hluta til eða í heild sinni. Ef einhver þeirra atriða sem þar væri lýst væru rétt óskaði ég nánar tiltekið eftir heildstæðri lýsingu stofnunarinnar á þeim aðgerðum sem hún hefði ráðist í af þessu tilefni, þ.m.t. bréfaskiptum, fundum o.s.frv. Hefði Fjármálaeftirlitið ritað bréf til Íslandsbanka hf., Nýja Kaupþings hf., nú Arion-banka hf., og Landsbanka hf., nú NBI hf., óskaði ég í öðru lagi eftir því að mér yrðu send afrit af þeim bréfum, þ. á m. af lista sem átti að hafa fylgt með bréfunum með nöfnum tilgreindra starfsmanna fyrirtækjanna sem haldið væri fram að stofnunin teldi að kæmi til álita að víkja úr starfi sem og svarbréf þeirra banka sem áttu að hafa svarað framangreindum bréfum Fjármálaeftirlitsins. Ef rétt væri að Fjármálaeftirlitið hefði ráðist í framangreinda athugun óskaði ég í þriðja lagi eftir því að stofnunin gerði mér ítarlega grein fyrir þeim lagagrundvelli sem aðgerðir hennar af því tilefni væru reistar á og á hvaða stigi athugunin væri þegar svarbréf stofnunarinnar til mín yrði ritað.

Svarbréf Fjármálaeftirlitsins vegna fyrirspurnarbréfs míns barst mér 11. nóvember 2009. Með tilliti til efnis svarbréfsins taldi ég rétt í upphafi nýs árs að óska eftir fundi með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins í fyrsta lagi til að afla frekari upplýsinga um hvað gerst hefði frá því að svarbréf Fjármálaeftirlitsins til mín var sent og hvernig stofnunin sæi fyrir sér framhald málsins. Í öðru lagi að fá tækifæri til að ræða ákveðin álitaefni, sem vaknað hefðu hjá mér við lestur svarbréfs stofnunarinnar. Var sá fundur haldinn á skrifstofu minni 22. janúar 2010, þar sem þér mættuð ásamt varaformanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins og starfsmanni stofnunarinnar.

Með bréfi mínu frá 1. febrúar 2010 tilkynnti ég yður að með tilliti til efnis svarbréfs stofnunarinnar til mín frá 11. nóvember 2009 og þeirra upplýsinga sem komu fram á ofangreindum fundi hefði ég á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ákveðið að taka til nánari umfjöllunar málsmeðferð Fjármálaeftirlitsins í tengslum við athugun þess sem beindist að starfsmönnum bankanna. Af því tilefni, og eins og ég tók fram á ofangreindum fundi með yður og varaformanni stjórnar stofnunarinnar, ákvað ég að rita yður á ný bréf þar sem ég gerði með frekari hætti grein fyrir þeim álitamálum sem ég taldi að hefðu vaknað við yfirferð á svarbréfi yðar fyrir hönd Fjármálaeftirlitsins til mín, dags. 11. nóvember 2009, þeim gögnum sem fylgdu með bréfi yðar sem og þeim umræðum sem áttu sér stað á fundi okkar.

II.

Í kafla II.2 í bréfi mínu til yðar frá 1. febrúar 2010 rakti ég í megindráttum þau lagafyrirmæli sem Fjármálaeftirlitið vísaði til í tengslum við fyrirspurn mína um lagagrundvöll ofangreindrar athugunar stofnunarinnar, þ.e. annars vegar 8. og 10. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og hins vegar 9., 19. og 52. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Einnig setti ég fram þær fyrirspurnir sem ég taldi nauðsynlegt að fá svör stofnunarinnar við. Með hliðsjón af lagafyrirmælunum óskaði ég með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir að Fjármálaeftirlitið veitti mér upplýsingar og skýringar á nokkrum atriðum.

Í fyrsta lagi tók ég fram í bréfi mínu frá 1. febrúar 2010 að það yrði ráðið af bréfi Fjármálaeftirlitsins til mín frá 11. nóvember 2009 að stofnunin hefði tekið hæfi „lykilstarfsmanna“ Íslandsbanka hf., Nýja Kaupþings hf. [nú Arion-banka hf.] og NBI hf.“ til athugunar. Á fundi mínum með fulltrúum stofnunarinnar 22. janúar sl. hefði einnig verið lögð áhersla á að hæfi þeirra einstaklinga sem gegndu lykilstöðum í bönkunum hefði verið tekið til athugunar. Hvorki í umræddu bréfi né á fundinum hefði verið vikið að því hvað stofnunin teldi felast í hugtakinu „lykilstarfsmaður“. Með vísan til þeirra lagafyrirmæla sem vísað var til í svarbréfi stofnunarinnar til mín óskaði ég eftir upplýsingum um hvort Fjármálaeftirlitið hefði lagt mat á það hvort og þá með hvaða hætti þeir „lykilstarfsmenn“, sem vísað hefði verið til á listum sem fylgt hefðu bréfum stofnunarinnar til bankanna, teldust vera stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar í merkingu 4. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998 og/eða í merkingu 52. gr. laga nr. 161/2002. Teldi stofnunin að umræddir starfsmenn féllu undir þessi lagaákvæði, annað þeirra eða bæði, óskaði ég eftir nánari skýringum á þeim lagasjónarmiðum sem byggju að baki þeirri afstöðu og þá í tilviki hvers og eins þeirra starfsmanna sem enn féllu undir athugun stofnunarinnar.

Í öðru lagi tók ég fram að í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins til mín, dags. 11. nóvember 2009, væri rakið að unnið væri við „athugun málsins þ. á m. hvort tilefni [yrði] til töku stjórnvaldsákvörðunar“. Af þessu tilefni, og með vísan til sjónarmiða sem fram komu af hálfu fulltrúa stofnunarinnar á ofangreindum fundi 22. janúar sl., óskaði ég eftir að Fjármálaeftirlitið veitti mér nánari skýringar á því hvort og þá með hvaða hætti athugun stofnunarinnar á starfsemi bankanna gengi út á að leggja grundvöll að því að stofnunin tæki stjórnvaldsákvarðanir. Í því sambandi óskaði ég eftir að stofnunin upplýsti mig um hvort til greina kæmi að ljúka athugunum stofnunarinnar með því að gera kröfur um tilteknar úrbætur á starfsemi hlutaðeigandi banka, sbr. 1. og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998, og ef svo væri, hvaða kröfur kæmu til greina að þessu leyti. Ég óskaði sérstaklega eftir að Fjármálaeftirlitið upplýsti mig um hvort til greina kæmi að athugunin á umræddum starfsmönnum bankanna lyki með ákvörðun stofnunar yðar um að víkja þeim starfsmönnum sem í hlut ættu frá, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998, yrði kröfum hennar um að viðkomandi léti af störfum, ýmist tímabundið eða til frambúðar, ekki sinnt af hálfu bankanna. Ef svo væri, óskaði ég eftir nánari skýringum stofnunarinnar á þeim sjónarmiðum sem byggju að baki þeirri afstöðu að ofangreindar lagaheimildir gætu átt við um þá starfsmenn sem féllu undir það sem stofnunin kallaði „lykilstarfsmenn“, ef þeir yrðu ekki taldir falla í flokk stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra, sbr. spurningu nr. 1 í bréfi mínu. Vegna tilvísunar Fjármálaeftirlitsins í svarbréfinu til mín til 10. gr. viljayfirlýsingar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins óskaði ég loks eftir nánari skýringum á því hvaða lagalegu þýðingu stofnunin teldi að umrædd viljayfirlýsing hefði í þessu sambandi og þá að virtri grundvallarreglu íslensks réttar, sem nefnd hefði verið lögmætisreglan, að stjórnvöld væru bundin af lögum.

Að virtum þeim sjónarmiðum sem fram komu á fundi mínum með fulltrúum Fjármálaeftirlitsins 22. janúar 2010 óskaði ég í þriðja lagi eftir nánari skýringum stofnunarinnar á því á hvaða lagagrundvelli athugun stofnunarinnar byggðist, og þá hverjar kynnu að verða lyktir athugunarinnar ef Fjármálaeftirlitið teldi að ekki kæmi til greina að ljúka athugun stofnunarinnar með formlegum ákvörðunum og þá eftir atvikum með þeim hætti sem lýst væri í spurningu nr. 2 í bréfi mínu.

Í fjórða og síðasta lagi tók ég fram að í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins til mín, dags. 11. nóvember sl., væri tekið sérstaklega fram að í „viðræðum FME og aðila [hefði verið] lögð áhersla á mikilvægi þess að bankastjóri og stjórn myndu leita sjónarmiða (þ. á m. andmæla) þeirra starfsmanna sem hér um [ræddi] eftir atvikum hverju sinni. FME myndi ekki leita sjónarmiða einstakra starfsmanna því þeir [starfi] á ábyrgð hins eftirlitsskylda aðila. Andmælaréttur vegna mögulegrar töku stjórnvaldsákvörðunar [væri] gagnvart bönkunum (þ.e. hinum eftirlitsskylda aðila) en ekki einstökum starfsmönnum“.

Af þessu tilefni óskaði ég eftir frekari skýringum Fjármálaeftirlitsins á þeim lagasjónarmiðum sem byggju að baki tilvitnaðri afstöðu. Ég óskaði sérstaklega eftir afstöðu stofnunarinnar til þess hvort þeir starfsmenn bankanna, sem í hlut ættu, yrðu taldir hafa einstaklegra, beinna og verulegra hagsmuna að gæta af hugsanlegri ákvörðun stofnunarinnar um beitingu þeirra valdheimilda sem raktar væru nánar í spurningu 2 hér að framan, þannig að þeir teldust eiga aðild að málinu í merkingu stjórnsýsluréttar og þá m.a með þeim afleiðingum að stofnuninni væri skylt að gæta ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins gagnvart þeim, sbr. einkum 13. og 14. gr. þeirra laga. Teldi stofnunin að svo væri ekki, óskaði ég eftir að hún gerði mér grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lægju að baki þeirri afstöðu.

Svör Fjármálaeftirlitsins við framangreindum spurningum bárust mér með bréfi til mín, dags. 15. mars 2010. Svörin voru eftirfarandi:

„1.[...]

Athugun Fjármálaeftirlitsins fólst aðallega í því að afla upplýsinga um skipurit viðkomandi banka, bæði fyrir og eftir október 2008, og upplýsinga um starfsskyldur tiltekinna aðila. Jafnframt var skoðað hvaða hæfiskröfur stjórn og framkvæmdastjóri gera til sinna lykilstarfsmanna. Slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar til þess að Fjármálaeftirlitið geti sinnt þeim lagaskyldum sem á því hvíla sbr. 8., 9. og 10. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Flestir þeir starfsmenn sem athugun Fjármálaeftirlitsins laut að bera titilinn framkvæmdastjóri. Með hliðsjón af þeim gögnum og upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið hefur aflað telur það að viðkomandi lykilstarfsmenn falli ekki undir tilvitnuð lagaákvæði í spurningu yðar.

2. [...]

Að teknu tilliti til þeirra gagna sem aflað hefur verið svo og annarra atvika mun Fjármálaeftirlitið ljúka athugun sinni með útgáfu almennra tilmæla til stjórna og framkvæmdastjóra eftirlitsskyldra aðila á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um að þeir hugi sérstaklega að því hvaða áhrif það hafi á orðspor og traust og trúverðugleika nýju bankanna að sömu lykilstarfsmenn starfi innan þeirra og störfuðu innan gömlu bankanna. Óskað verður eftir því að gripið verði til viðeigandi ráðstafana hverju sinni m.t.t. til framangreindra sjónarmiða.

Viljayfirlýsing Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins felur í sér sameiginlegar áherslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda á mikilvægi þess að gripið sé til viðeigandi ráðstafana varðandi hæfi lykilstarfsmanna og hefur einungis gildi sem slík. Tilvísun eftirlitsins til nefndrar yfirlýsingar var til áhersluauka að stjórnir og framkvæmdastjórar tækju hæfi lykilstarfsmanna sinna til sérstakrar skoðunar.

3. [...]

Skoðun Fjármálaeftirlitsins fór fram á grundvelli almenns eftirlits sbr. 8., 9. og 10. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Jafnframt var horft til þeirra markmiða sem stefnt er að með lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og þeim sérlögum sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með, um að rekstur eftirlitsskyldra aðila sé heilbrigður og traustur. Við mat á því hvort rekstur sé traustur og heilbrigður þarf m.a. að horfa til orðsporsáhættu og rekstraráhættu eftirlitsskyldra aðila.

Eins og að framan greinir mun Fjármálaeftirlitið beina almennum tilmælum til stjórna og framkvæmdastjóra eftirlitsskyldra aðila á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um að þeir hugi sérstaklega að hæfi lykilstarfsmanna sinna og grípi til viðeigandi ráðstafana hverju sinni.

4.[...]

Það er hlutverk stjórnar og framkvæmdastjóra að tryggja að rekstur hins eftirlitsskylda aðila sé í samræmi við þau lög og reglur sem gilda hverju sinni og að stuðla að því að ekki sé gengið gegn þeim markmiðum sem lög kveða á um, þ. á m. að tryggja að lykilstarfsmenn félagsins séu hæfir til að sinna sínu hlutverki að teknu tilliti til heilbrigðs og trausts fjármálamarkaðar og orðsporsáhættu félagsins. Með vísan til framanritaðs sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi var ákveðið að taka nefnt mál til skoðunar. Af því tilefni voru stjórnir viðkomandi banka upplýstar um að málið væri til meðferðar og þeim veitt færi á að koma sjónarmiðum og gögnum á framfæri auk þess sem þeim var falið að upplýsa viðkomandi starfsmenn um málið og gefa þeim tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Athugun Fjármálaeftirlitsins, eins og framan greinir fólst að mestu leyti í gagnaöflun, var þáttur í því að skera úr um hvort grundvöllur væri til töku stjórnvaldsákvörðunar og ef svo væri þá hvers eðlis/efnis hún ætti að vera, eða hvort grípa ætti til annarra ráðstafana. Hefði athugunin leitt til þess að tilefni væri til töku stjórnvaldsákvörðunar þá hefðu viðkomandi starfsmenn haft einstaklegra, beinna og verulegra hagsmuna að gæta af hugsanlegri ákvörðun stofnunarinnar. Í málinu var því um að ræða athugun á því hvort grundvöllur væri til töku stjórnvaldsákvörðunar en ekki undirbúning stjórnvaldsákvörðunar. Með vísan til framanritaðs telur Fjármálaeftirlitið að framangreind málsmeðferð sé í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ.e. tilkynningarreglu, rannsóknarreglu og andmælareglu laganna.

Fjármálaeftirlitið er reiðubúið að veita yður fyllri upplýsingar ef óskað er.“

III.

1.

Samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, ber Fjármálaeftirlitinu að vinna að því markmiði í störfum sínum að fjármálastarfsemi sem lögin taka til sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur og samþykktir sem hverju sinni gilda um starfsemina. Til starfans hefur stofnunin víðtækar valdheimildir sem henni er hverju sinni heimilt og jafnvel skylt að nýta í samræmi við grundvallarreglur íslensks réttar. Í samræmi við lögmætisregluna eru valdheimildir Fjármálaeftirlitsins eins og annarra stjórnvalda hins vegar ekki án takmarkana. Getur stofnunin því ekki gengið lengra í störfum sínum hverju sinni en lög leyfa.

Eins og að framan er rakið tók ég þá ákvörðun að hefja að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, athugun á málsmeðferð Fjármálaeftirlitsins í tengslum við athugun þess á hæfi tiltekinna starfsmanna þeirra banka sem féllu í október 2008. Í samræmi við 2. gr. laga nr. 85/1997, um að það sé hlutverk umboðsmanns að tryggja að stjórnvöld fari að lögum við störf sín, hefur athugun mín fyrst og fremst beinst að þeim lagagrundvelli sem málsmeðferð Fjármálaeftirlitsins hefur verið reist á. Ég hef þá haft í huga áðurnefnda lögmætisreglu, sem er grundvallarregla íslensks réttar. Í þeirri reglu felst að ákvarðanir stjórnvalda verða annars vegar að eiga sér stoð í lögum og mega hins vegar ekki brjóta í bága við lög. Við mat á hvort stjórnvöld hafa fylgt lögmætisreglunni verður einnig að hafa í huga að efni hennar er afstætt að því leyti að þær kröfur sem gerðar eru hverju sinni til skýrleika þeirra lagaheimilda, sem ákvarðanir stjórnvalda eru reistar á, taka nokkurt mið af því hvort og þá hvaða þýðingu ákvarðanir stjórnvalda hafa fyrir líf og hagsmuni þeirra einstaklinga sem þeir beinast að. Ef um íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda er að ræða eru gerðar þeim mun ríkari kröfur til þess að lagagrundvöllur slíkra ákvarðana sé skýr og ótvíræður.

2.

Af framangreindu svarbréfi Fjármálaeftirlitsins til mín, dags. 15. mars sl., verður í fyrsta lagi ráðið að Fjármálaeftirlitið telji nú að umræddir lykilstarfsmenn í Íslandsbanka hf., Arion banka hf. og NBI hf., aðrir en framkvæmdastjórar, sem athugun stofnunarinnar hefur beinst að, falli ekki undir ákvæði 4. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og 52. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í öðru lagi verður ráðið að Fjármálaeftirlitið telji sig af þeim sökum einungis að óbreyttum lögum geta lokið athugun sinni með útgáfu almennra tilmæla til stjórna umræddra banka á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998, um að þeir hugi sérstaklega að því hvaða áhrif það hafi á orðspor, traust og trúverðugleika nýju bankanna að sömu lykilstarfsmenn starfi innan þeirra og störfuðu innan gömlu bankanna.

Ég tel ekki tilefni á þessu stigi til að gera sérstakar athugasemdir við þessa fyrirætlan stofnunarinnar. Ég tek aðeins fram að samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998 er Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að gefa út og birta opinberlega „almenn leiðbeinandi tilmæli um starfsemi eftirlitsskyldra aðila, enda varði málefnið hóp eftirlitsskyldra aðila“. Samkvæmt þessu er ljóst að komi til þess að stofnunin gefi út tilmæli á þessum lagagrundvelli geta þau að lögum aðeins verið „leiðbeinandi“, enda sé fullnægt því skilyrði að þau varði málefni hóps eftirlitsskyldra aðila.

Í skýringarbréfi sínu tekur Fjármálaeftirlitið jafnframt fram að það muni óska eftir því að gripið verði til viðeigandi ráðstafana hverju sinni með tilliti til umræddra sjónarmiða. Hvað þetta síðastnefnda atriði varðar legg ég á það áherslu að ég skil skýringar stofnunarinnar með þeim hætti í ljósi fyrirspurnarbréfs míns að hún telji sig ekki hafa heimild að lögum til að taka ákvarðanir um að víkja þeim lykilstarfsmönnum frá sem í hlut eiga, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998, verði kröfum hennar um að viðkomandi láti af störfum, ýmist tímabundið eða til frambúðar, ekki sinnt af hálfu bankanna. Í þessu sambandi vek ég athygli á því að þar sem ný lög um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem samþykkt voru á Alþingi 12. júní sl., hafa ekki verið birt með rafrænum hætti á vefsíðu Stjórnartíðinda, þegar þetta er ritað, sbr. 7. gr. laga nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, hef ég ekki tekið endanlega afstöðu til þess hvort og þá með hvaða hætti þau kunna að hafa þýðingu fyrir það viðfangsefni sem athugun mín hefur beinst að. Ég tek aðeins fram að ekki verður séð að 52. gr. laga nr. 161/2002 hafi með hinum nýju lögum verið breytt með þeim hætti að það ákvæði taki til „lykilsstarfsmanna“ fjármálafyrirtækja, eins og það ákvæði er nú skilgreint í 8. tölul. 1. gr. a hinna nýju laga.

Að öllu framangreindu virtu, og í ljósi annarra atriða sem fram koma í skýringum Fjármálaeftirlitsins til mín, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar að svo stöddu í tilefni af máli þessu á grundvelli heimildar minnar til að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. og a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og er frumkvæðisathugun minni því lokið. Ég legg þó á það áherslu að komi til frekari aðgerða eða ráðstafana af hálfu Fjármálaeftirlitsins í tilefni af ofangreindri athugun stofnunarinnar mun umboðsmaður Alþingis eftir atvikum þurfa að taka ákvörðun um hvort tilefni sé af hans hálfu til að taka einstök atriði til athugunar á grundvelli þeirra heimilda sem honum eru fengnar með lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Ég vek loks athygli á því að í samræmi við 3. mgr. 12. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, mun ég birta bréf þetta á heimasíðu embættis míns mánudaginn 28. júní 2010.

Róbert R. Spanó.

Á árinu 2011 barst mér kvörtun yfir dreifibréfi Fjármálaeftirlitsins til vátryggingafélaga og vátryggingamiðlara, dags. 14. apríl 2011, sem og leiðbeinandi tilmælum stofnunarinnar nr. 3/2010, um hæfi lykilstarfsmanna, frá 5. október 2010. Málið er til athugunar að fengnum skýringum Fjármálaeftirlitsins. Þá hafa mér einnig borist ábendingar frá fleiri aðilum á fjármálamarkaði er varða tilmælin.