Lögreglumál. Þvinguð þvagsýnataka. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Meðalhófsregla. Frumkvæðisathugun

(Mál nr. 5089/2007)

Umboðsmaður Alþingis ákvað á árinu 2007 að taka til skoðunar að eigin frumkvæði málsmeðferð lögreglu í tilefni af þvinguðum þvagsýnatökum í þágu sakamálarannsóknar og þá meðal annars hvort heimilt væri að notast við þvaglegg í því sambandi. Tildrög þess að umboðsmaður hófst handa við athugunina voru frásagnir í fjölmiðlum af einstaklingi sem kvartaði til ríkissaksóknara vegna þess hvernig starfsmenn sýslumanns stóðu að töku þvagsýnis úr henni. Við athugun sína horfði umboðsmaður til atvika í umræddu máli þótt einkum hafi verið miðað við að setja fram almenn sjónarmið.

Settur umboðsmaður lauk athugun á málinu með bréfi til dómsmála- og mannréttindaráðherra, dags. 26. ágúst 2010. Í bréfinu rakti settur umboðsmaður bréfaskipti sín við ráðuneytið í tilefni af athuguninni. Gerði hann grein fyrir fyrirspurn sinni til ráðherra og svörum ráðherra af því tilefni. Þá fjallaði settur umboðsmaður um 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar um að engan megi beita pyndingum né annarri „ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð“ eða refsingu og samsvarandi ákvæði í 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í því sambandi rakti hann dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Jalloh gegn Þýskalandi, nr. 54810/00, frá 11. júlí 2006, þar sem fjallað var með stefnumarkandi hætti um þvingaða læknisaðgerð í þágu rannsóknar sakamáls. Var í umræddum dómi komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið í bága við 3. gr. mannréttindasáttmálans.

Settur umboðsmaður minnti einnig á grundvallarreglu íslensks réttar um meðalhóf, sem bæði er óskráð meginregla stjórnsýsluréttar og sérstaklega lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá tók hann fram að reglan væri lögfest í 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og í 3. mgr. 79. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Jafnframt hefði meðalhófsreglan þýðingu við mat á því hvort mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar hefðu verið brotin, þ. á m. 1. mgr. 68. gr., og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994.

Í svörum dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins til setts umboðsmanns kom fram að forðast ætti að nota þvaglegg til að taka þvagsýni í þágu rannsóknar sakamáls. Þá taldi ráðuneytið að fallast mætti á að í umræddu máli konu, sem sætt hafði slíku úrræði, hefði ekki verið gætt að grundvallarreglunni um meðalhóf. Þá hefði verið réttara að þeir lögreglumenn sem aðstoðuðu við töku þvagsýnisins hefðu allir verið kvenkyns ef unnt hefði verið að koma slíku við og þá í samræmi við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar. Þá kom fram að ráðuneytið hefði óskað eftir því við ríkislögmann að hann tæki mál umræddrar konu til meðferðar, kæmi fram rökstudd krafa um slíkt. Í ljósi svara ráðuneytisins, og að því virtu að málið var tekið til athugunar að eigin frumkvæði, taldi settur umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar.

Mér hafa síðar borist upplýsingar um að lyktir málsins hafi orðið þær að ríkið greiddi umræddum einstaklingi bætur á grundvelli samkomulags aðila.