Samgöngumál. Öryggiseftirlit á Keflavíkurflugvelli. Lagaheimild. Jafnræðisreglur. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. 5063/2007)

Umboðsmaður Alþingis tók til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tilhögun við öryggiseftirlit á Keflavíkurflugvelli og gjaldtöku í því sambandi. Tilefni frumkvæðisathugunarinnar var frétt Morgunblaðsins frá 12. júlí 2007 þar sem greint var frá því að gerður hefði verið þjónustusamningur um öryggiseftirlit á Keflavíkurflugvelli og ættu Saga Class farþegar Icelandair þess kost að fara í gegnum sérstakt vopnaleitarhlið.

Umboðsmaður ritaði lögreglustjóranum á Suðurnesjum bréf, dags. 20. júlí 2007, þar sem hann gerði grein fyrir ofangreindri frétt og óskaði eftir nánar tilgreindum upplýsingum og gögnum um tilhögun þjónustunnar. Í svarbréfi lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 15. ágúst 2007, kom m.a. fram að umrætt vopnaleitarhlið hefði verið sett upp að ósk Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli í kjölfar beiðna frá flugrekstraraðilum og stjórnendum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. Þar sem embættið ynni að öryggisleit sem verktaki samkvæmt samningi við flugmálastjórn hefði verið frá því gengið að sérstök greiðsla kæmi til vegna aukakostnaðar við hið nýja hlið frá flugrekstraraðilum fyrir atbeina Flugmálastjórnar. Þá kom fram að drög hefðu verið gerð að þjónustusamningi vegna verkefnisins og fylgdu þau svarbréfinu. Í bréfinu sagði loks að tryggt hefði verið með munnlegum samningum að kostnaður embættis lögreglustjórans við verkefnið yrði að fullu greiddur en samningurinn hefði verið byggður á 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins.

Umboðsmaður ritaði Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli bréf, dags. 28. september 2007. Í bréfinu gerði umboðsmaður grein fyrir umræddri frétt og beindi tilteknum fyrirspurnum til Flugmálastjórnar. Hann óskaði m.a. eftir upplýsingum um á hvaða lagagrundvelli Flugmálastjórn hefði talið sér heimilt að semja um þá sérþjónustu sem kveðið væri á um í ofangreindum samningsdrögum fyrir tiltekna flugfarþega gegn sérstakri greiðslu frá flugfélagi viðkomandi. Einnig óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort Flugmálastjórn teldi það samrýmast meginreglum stjórnsýsluréttarins um jafnræði borgaranna og þeim sjónarmiðum sem löggjafinn hefði ákveðið að byggja á um gerð samninga samkvæmt 30. gr. laga nr. 88/1997 að vildarfarþegum Icelandair væri veitt, með atbeina stjórnvalda, sérstök fríðindaþjónusta til þess að tryggja þeim greiðari aðgang um vopna- og öryggiseftirlit en öðrum farþegum sem færu um flugvöllinn. Þá óskaði umboðsmaður eftir því að sér yrðu veittar upplýsingar um hver hefði greitt umræddan viðbótarkostnað sem hlytist af hinni auknu þjónustu og þá hversu háa fjárhæð.

Í svarbréfi Flugmálastjórnar, dags. 25. október 2007, kom m.a. fram að hinu sérstaka öryggis- og vopnaleitarhliði hefði verið lokað í lok ágúst 2007, en ekki hefði verið tekin ákvörðun um hvort það yrði opnað að nýju. Í ljósi þessa ákvað umboðsmaður að bíða með áframhaldandi athugun á málinu.

Settur umboðsmaður Alþingis, Róbert R. Spanó, ritaði Flugmálastjórn á ný bréf, dags. 13. september 2010, þar sem hann óskaði upplýsinga um hvort umrætt vopnaleitarhlið hefði verið opnað að nýju. Í svarbréfi Isavia ohf., sem tók við rekstri Keflavíkurflugvallar í kjölfar setningar laga nr. 76/2008, kom fram að vopnaleitarhliðið hefði ekki verið starfrækt síðan sumarið 2007 og væru engar áætlanir um að opna það að nýju. Með tilliti til svarbréfs Isavia ohf. taldi settur umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins á grundvelli heimildar sinnar til að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. og a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, og lauk því frumkvæðisathugun sinni.