Opinberir starfsmenn. Flutningur í starfi.

(Mál nr. 5593/2009)

Í kjölfar fréttatilkynninga af breytingum á yfirstjórn forsætis- og fjármálaráðuneyta, sem komu fram í kjölfar ríkisstjórnarskipta í febrúar 2009 og fólust í því að skipaðir ráðuneytisstjórar þessara ráðuneyta fóru í tímabundið leyfi, taldi umboðsmaður Alþingis rétt að afla upplýsinga um aðdraganda og forsendur þeirra ráðstafana og þann lagagrundvöll sem þær voru reistar á þar sem hann taldi þessi atriði ekki liggja skýr fyrir. Hann ritaði því forsætisráðherra og fjármálaráðherra bréf þess efnis til þess að sér væri fært að leggja mat á hvort þessar ákvarðanir hefðu verið í samræmi við gildandi lagareglur og verið reistar á málefnalegum forsendum. Að baki þessari ákvörðun umboðsmanns lágu til grundvallar almennir hagsmunir borgaranna og hins opinbera af því að ráðstafanir sem þessar af hálfu ráðherra við ríkisstjórnarskipti gagnvart æðstu embættismönnum í stjórnsýslu væru reistar á málefnalegum sjónarmiðum og í samræmi við lög.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfum til forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem bæði voru dagsett 11. nóvember 2009.

Í bréfi umboðsmanns til forsætisráðherra kom m.a. fram að þegar litið væri til nánar tilgreindra bréfaskipta væri sér ekki fært að draga aðra ályktun en að þeim bæri ekki fyllilega saman um tildrög þess að þáverandi skipuðum ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins hefði verið veitt tímabundið leyfi frá störfum. Aðdragandi leyfisveitingarinnar kynni að lögum að hafa efnislega þýðinegu við mat á hvort ráðstafanir í tengslum við veitingu leyfisins yrði talið reist á málefnalegum og lögmætum forsendum. Umboðsmaður taldi hins vegar, m.a. vegna lagasjónarmiða um takmarkanir á möguleikum umboðsmanns til að leggja mat á málsatvik sem ekki væru að öllu leyti skýr og eins og gögnum málsins væri háttað, að ekki væru forsendur til frekari umfjöllunar af sinni hálfu um þá ráðstöfun að veita ráðuneytisstjóranum tímabundið launað leyfi frá störfum. Umboðsmaður tók fram að hann hefði einnig horft til þess að samkvæmt fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins hefði skipaður ráðuneytisstjórinn nú verið skipaður í embætti ráðuneytisstjóra félags- og tryggingamálaráðuneytisins með vísan til 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Bréf umboðsmanns til fjármálaráðherra var efnislega samhljóða bréfi hans til forsætisráðherra og var þar m.a. horft til þess að samkvæmt fréttatilkynningu ráðuneytisins hefði skipaður ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins verið settur ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu og tekið fram að hann myndi snúa aftur til fyrri starfa um næstu áramót. Í þessu sambandi tók umboðsmaður fram að það hefði ekki þýðingu fyrir úrlausn hans á málinu að ráðuneytisstjórinn hefði síðar ákveðið að láta af störfum sem ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneytinu.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á ofangreindum málum en tók sérstaklega fram að hann hefði ekki tekið neina efnislega afstöðu til þeirra lagasjónarmiða og forsendna sem legið hefðu til grundvallar ráðstöfunum á embættum ráðuneytisstjóranna.

.