Umhverfismál. Aðgangur að upplýsingum um umhverfismál. Lögboðinn afgreiðslufrestur. Skýringar á töfum á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 1282/1994)

Máli lokið með áliti, dags. 16. desember 1994.

A kvartaði yfir töfum á afgreiðslu erindis hjá iðnaðarráðuneytinu, en A hafði óskað eftir því að fá aðgang að greinargerð er orkumálastjóri hafði tekið saman fyrir ráðuneytið, í tilefni af tilteknu máli. Byggði A kröfu sína á lögum nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál.

Umboðsmaður tók fram að lög nr. 21/1993 tryggðu almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál hjá ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra, og að um sjálfstæðan rétt einstaklinga og lögaðila væri að ræða sem ekki væri háður meðferð stjórnsýslumáls eða annarri umfjöllun stjórnvalda. Því væri um slík réttindi að ræða að stjórnsýslulög nr. 37/1993 tækju til meðferðar máls er stjórnvald tæki ákvörðun um hvort aðila skyldi veittur aðgangur að upplýsingum. Vísaði umboðsmaður til 1. mgr. 9. gr. þeirra laga, svo og þess að samkvæmt 3. gr. laga nr. 21/1993 skyldi stjórnvald afgreiða beiðni innan fjögurra vikna frá móttökudegi.

Afgreiðsla erindis A dróst í tvær vikur umfram lögboðinn frest. Með tilliti til skýringa iðnaðarráðuneytisins, einkum þess að um ný lög væri að ræða sem ekki væri ótvírætt hvernig skýra ætti, taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gagnrýna tafir á afgreiðslu málsins. Hins vegar áréttaði umboðsmaður í áliti sínu mikilvægi þess að erindi almennings um aðgang að upplýsingum sem þessum yrðu ávallt afgreidd fljótt og án ástæðulausra tafa þar sem réttur þessi gæti ella orðið þýðingarlaus og aðili misst færis á að nýta sér upplýsingarnar við meðferð mála á öðrum vettvangi. Umboðsmaður taldi hins vegar aðfinnsluvert að A hefði ekki verið gerð grein fyrir því að tafir yrðu á afgreiðslu málsins í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

I.

Hinn 17. nóvember 1994 leitaði til mín A, og kvartaði yfir töfum á afgreiðslu erindis, sem hún hafði borið fram við iðnaðarráðuneytið hinn 6. október 1994. Fór hún þar fram á aðgang að greinargerð, er, orkumálastjóri, hafði tekið saman fyrir iðnaðarráðuneytið í tilefni af kröfu hreppsnefndar X um niðurfellingu leyfis, er atvinnumálaráðuneytið hafði veitt Y-virkjun til að hækka yfirborð Z-vatn um hálfan metra. A byggði beiðni sína á lögum nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál.

II.

Hinn 21. nóvember 1994 ritaði ég iðnaðarráðherra bréf og óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að mér yrðu veittar upplýsingar um, hvað liði afgreiðslu erindis A. Þá óskaði ég ennfremur upplýsinga um, hvort A hefði verið gerð skrifleg grein fyrir væntanlegum töfum á afgreiðslu erindisins umfram lögboðinn afgreiðslufrest skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1993, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svör iðnaðarráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 24. nóvember 1994, og segir þar meðal annars:

"Ráðuneytið upplýsir hér með að mál þetta hefur verið til vinnslu undanfarið og var raunar svar ráðuneytisins á lokastigi er bréf umboðsmanns barst nú í dag. Hjálögð eru svör ráðuneytisins við erindi [A], en þar koma fram skýringar á þeim drætti sem orðið hefur á að erindi hennar hafi verið svarað."

Í bréfi iðnaðarráðuneytisins til A, dags. 24. nóvember 1994, segir m.a. svo:

"Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1993 ber stjórnvaldi að afgreiða beiðnir innan fjögurra vikna frá því að þær berast. Ástæða þess að afgreiðsla erindis yðar hefur dregist fram yfir þann frest stafar af því að umsögn orkumálastjóra þurfti nákvæmrar skoðunar við til að unnt væri að meta hvaða hlutar hennar gætu mögulega talist hafa að geyma upplýsingar um umhverfismál og hverjir ekki. Bent er á að lög 21/1993 eru ný og ekki hefur reynt á þau í þessu ráðuneyti áður. Því þurfti að leggja vinnu í að átta sig á hvernig skilja bæri lögin, en þau eru að sumu leyti óskýr í mikilsverðum atriðum. T.d. er ekki skýrt út hvað teljist vera umhverfismál í merkingu laganna, né hvað felist í orðinu upplýsingar. Erindi yðar var því engan veginn auðvelt úrlausnar og þar sem ráðuneytið taldi rétt að vanda til verksins hefur afgreiðsla þess dregist."

Hinn 28. nóvember 1994 ritaði ég iðnaðarráðuneytinu á ný bréf og ítrekaði fyrirspurn mína um, hvort A hefði verið gerð skrifleg grein fyrir væntanlegum töfum á afgreiðslu erindisins umfram lögboðinn afgreiðslufrest skv. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1993, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Svör iðnaðarráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 30. nóvember 1994, og segir þar m.a. svo:

"Í bréfi ráðuneytisins dags. 24. nóvember s.l. til [A] koma fram ástæður þess að dráttur var á afgreiðslu erindis hennar. Ráðuneytið gerði [A] hins vegar ekki grein fyrir því fyrirfram að afgreiðsla erindis hennar mundi dragast umfram lögboðinn frest. Ástæða þess er sú að ekki var fyrirfram vitað að afgreiðsla erindis mundi dragast svo lengi sem síðan varð raunin. Oft er það svo þegar mörg verkefni liggja fyrir að starfsmenn flokka þau niður, vitandi eða óafvitandi, eftir því hversu mjög liggur á afgreiðslu þeirra. Því miður var það svo í tilfelli [A] að viðkomandi starfsmenn þurftu að sinna aðkallandi verkefnum sem ekki þoldu bið og afgreiðsla erindis hennar beið á meðan. Jafnframt því sem þeir þurftu að ræða við fleiri aðila innan ráðuneytis sem utan um túlkun laga nr. 21/1993. Mat starfsmanna var að erindi [A] þyldi bið frekar en sum önnur verkefni, einkum þar sem henni hafði verið munnlega gerð grein fyrir helstu efnisatriðum umsagnar Orkumálastjóra í febrúar síðast liðnum. Afgreiðsla erindis hennar fólst þannig í raun í því að setja á blað nokkuð sem [A] hafði að verulegu leyti verið gerð grein fyrir áður. Rétt þykir einnig að geta þess að [A] hafði ekki samband við ráðuneytið til að grennslast fyrir um afgreiðslu erindis síns áður en hún snéri sér með kvörtun til umboðsmanns Alþingis. Með því hefði hún getað gert þeim sem að afgreiðslu erindis hennar unnu grein fyrir því að aðkallandi væri fyrir hana að fá svar við erindi sínu."

Með bréfi 5. desember 1994 gaf ég A færi á að gera athugasemdir við fyrrnefnd bréf ráðuneytisins. Með bréfi, dags. 6. desember 1994, bárust mér athugasemdir A.

III.

Í forsendum og niðurstöðum álits míns, dags. 16. desember 1994, sagði:

"1.

A byggir rétt sinn til aðgangs að umræddri greinargerð, er orkumálastjóri tók saman, á lögum nr. 21/1993 um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Einskorðast umfjöllun mín því við meðferð máls hennar á þeim lagagrundvelli. Kvörtun A, sem hér er til umfjöllunar, lýtur eingöngu að töfum á afgreiðslu erindis hennar og verður af þeim sökum engin afstaða tekin til efnisúrlausnar málsins.

2.

Lög nr. 21/1993 tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál hjá ríki, sveitarfélögum svo og stofnunum þeirra, sbr. 1. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna.

Lögin fjalla um sjálfstæðan rétt einstaklinga og lögaðila til aðgangs að upplýsingum. Upplýsingagjöfin er því ekki aðeins liður í meðferð stjórnsýslumáls eða annarri umfjöllun stjórnvalda. Af þessum sökum tel ég, að um slík réttindi sé að ræða, að stjórnsýslulög nr. 37/1993 taki til meðferðar máls, þegar stjórnvald tekur ákvörðun um, hvort aðila skuli veittur aðgangur að upplýsingum um umhverfismál hjá stjórnvöldum, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1993 skal stjórnvald afgreiða beiðni innan fjögurra vikna frá móttökudegi. Þegar löggjafinn hefur sett stjórnvöldum slíkan afgreiðslufrest, ber þeim að haga meðferð mála með þeim hætti, að tryggt sé að lögmæltir frestir til afgreiðslu þeirra séu haldnir.

A bar fram erindi sitt með bréfi, dags. 6. október 1994, og barst það iðnaðarráðuneytinu 11. október 1994. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1993 hafði iðnaðarráðuneytið fjórar vikur til afgreiðslu þess frá viðtöku erindisins. Erindið var afgreitt með bréfi, dags. 24. nóvember 1994, og hafði þá afgreiðsla málsins dregist rúmlega tvær vikur fram yfir hinn lögákveðna afgreiðslufrest, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Iðnaðarráðuneytið hefur í bréfum, dags. 24. nóvember og 30. nóvember 1994, gert grein fyrir ástæðum þess, að afgreiðsla málsins tafðist. Með tilliti til skýringa ráðuneytisins og þá sérstaklega þess, að hér er um ný lög að ræða, sem ekki er ótvírætt hvernig skýra beri, tel ég ekki ástæðu til, eins og mál þetta er vaxið, að gagnrýna tafir á afgreiðslu málsins hjá iðnaðarráðuneytinu. Ég tel þó sérstaka ástæðu til að árétta, að mikilsvert er að erindi almennings um aðgang að upplýsingum um umhverfismál verði ávallt afgreidd fljótt og án ástæðulausra tafa, þar sem ætla má að réttur til aðgangs að upplýsingum geti í sumum tilvikum í raun orðið þýðingarlaus, ef verulegar tafir verða á afgreiðslu slíkra erinda, þar sem aðili getur misst færis á að nýta sér upplýsingarnar við meðferð mála á öðrum vettvangi.

3.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvaldi að skýra aðila máls frá því, þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.

Í bréfi iðnaðarráðuneytisins, dags. 30. nóvember 1994, kemur fram, að ráðuneytið hafi ekki gert A grein fyrir því að afgreiðsla málsins myndi tefjast. Ástæða þess hafi verið sú, að ekki hafi fyrirfram verið vitað að afgreiðsla málsins myndi dragast svo lengi sem raun varð á.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1993, ber stjórnvaldi að gera aðila, er óskar eftir upplýsingum um umhverfismál, grein fyrir töfum á afgreiðslu máls, þegar fyrirsjáanlegt er að mál verði ekki afgreitt innan fjögurra vikna frá viðtöku erindis. Samkvæmt skýringum ráðuneytisins var ekki ljóst við upphaf meðferðar málsins að afgreiðsla þess mundi dragast. Ég tel hins vegar, að ráðuneytinu hafi borið að gera A grein fyrir töfum á afgreiðslu málsins, þegar komið var fram yfir hinn lögákveðna fjögurra vikna afgreiðslufrest, ef málið varð ekki þá þegar afgreitt, en afgreiðsla þess dróst rúmlega tvær vikur fram yfir hinn lögskipaða afgreiðslufrest.

IV.

Niðurstaða.

Eins og nánar greinir hér að framan, er niðurstaða mín sú, að ekki sé ástæða til að gera athugasemdir við tafir á afgreiðslu málsins. Ég tel aftur á móti aðfinnsluvert, að A skyldi ekki vera gerð grein fyrir töfum málsins í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993."