Útlendingar. Ríkisborgararéttur.

(Mál nr. 5529/2008)

B hæstaréttarlögmaður leitaði til umboðsmanns Alþingis fyrir hönd A og kvartaði yfir því að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði synjað A um íslenskan ríkisborgararétt á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, um að hafa ekki, hérlendis eða erlendis, sætt sektum eða fangelsisrefsingu eða eiga ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann væri grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi samkvæmt íslenskum lögum. Í ákvæðinu var að finna heimild til að víkja frá þessu skilyrði að liðnum nánar tilgreindum fresti enda væri ekki að ræða endurtekin brot. Synjun ráðuneytisins byggðist á þeirri forsendu að A hefði á árum áður gerst sekur um „endurtekin brot“ í merkingu ákvæðisins.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtun A með bréfi, dags. 15. desember 2009, þar sem hann taldi, að fengnum skýringum dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu. Í bréfi sínu rakti umboðsmaður ákvæði laga nr. 100/1952 og benti á að í lögunum væri annars vegar enn byggt á því að Alþingi veitti útlendingum ríkisborgararétt með beinni lagasetningu og hins vegar hefði dómsmálaráðherra með lagabreytingu verið fengin heimild til að veita útlendingi ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun. Heimild dómsmálaráðherra til að veita útlendingum ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun væri þó takmörkuð við þau tilvik þar sem vafalaust væri að umsækjandi uppfyllti lögmælt skilyrði. Ljóst væri að samkvæmt texta síðari málsliðar 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna væri ekki gert ráð fyrir heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt þeim útlendingi sem hefði gerst sekur um „endurtekin brot“. Umboðsmaður tók fram að hvorki í texta laga nr. 100/1952 né í lögskýringargögnum væri að finna nánari skýrgreiningu á inntaki þessa orðasambands. Af samanburði á þessum málslið og tímafrestsákvæðum a-f-liðar sama töluliðar væri þó óhjákvæmilegt að draga þá ályktun að þegar um endurtekin brot væri að ræða girti það jafnan alfarið fyrir að útlendingur gæti á þessum lagagrundvelli talist fullnægja skilyrðum til að verða veittur ríkisborgararéttur með ákvörðun ráðherra og skipti þá ekki máli hve langt væri liðið frá síðasta broti. Í ljósi þess hvernig kvörtunin var fram sett taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um þá afstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að ráðuneytinu væri fært að leggja til grundvallar að brot væru ekki endurtekin ef þau væru mjög ólík og ekki eðlisskyld. Þá tók umboðsmaður fram að ljóst væri að verklagsregla sú sem ráðuneytið hefði lagt til grundvallar, að fært væri að öðrum skilyrðum uppfylltum að veita ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun ef samanlagðar fjársektir vegna endurtekinna brota næmu lægri fjárhæð en 50.000 kr., ætti ekki við í tilviki A eins og sakavottorði hans væri háttað. Umboðsmaður taldi því ekki forsendur af sinni hálfu til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að umsókn A hefði ekki fullnægt lögmæltum skilyrðum til að heimilt hefði verið að veita honum ríkisborgararétt með ákvörðun ráðherra. Umboðsmaður benti þó á að A væri fært að óska eftir því við Alþingi að honum yrði veittur ríkisborgararéttur á grundvelli 6. gr. laga nr. 100/1952. Þá ritaði umboðsmaður dómsmála- og mannréttindaráðherra bréf þar sem hann setti fram ábendingu um tiltekinn annmarka á rökstuðningi á ákvörðun ráðuneytisins í máli A.

Bréf umboðsmanns Alþingis til B f.h. A, dags. 15. desember 2009, hljóðar svo í heild sinni:

I.

Ég vísa til kvörtunar umbjóðanda yðar, A, sem barst umboðsmanni Alþingis 11. desember 2008, og bréfaskipta minna af því tilefni til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, nú dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins. Lýtur kvörtunin að synjun ráðuneytisins á umsókn umbjóðanda yðar um íslenskan ríkisborgararétt, dags. 6. október 2008, en þar var honum tilkynnt að hann uppfyllti ekki skilyrði 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt, sbr. 5. gr. laga nr. 81/2007, enda hefði hann á árum áður gerst sekur um „endurtekin brot“ í merkingu upphafsmálsliðar töluliðarins, eins og nánar verður rakið hér síðar.

Ég mun hér í framhaldinu samhengisins vegna notast við eldra heiti ráðuneytisins, þ.e. dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, enda áttu bréfaskipti A og ráðuneytisins annars vegar og milli umboðsmanns hans og ráðuneytisins hins vegar, sér stað fyrir breytingu á heiti ráðuneytisins 1. október sl., sbr. lög nr. 98/2009, um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

II.

Með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 16. desember 2008, óskaði starfsmaður minn meðal annars eftir upplýsingum, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um ástæður þess að A uppfyllti ekki skilyrði 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. umræddra laga. Í svarbréfi ráðuneytisins frá 22. desember 2008 var tekið fram að samkvæmt sakavottorði umbjóðanda yðar, sem það hafði aflað er umsókn hans barst, hefði hann fjórum sinnum sætt sektum frá því hann fluttist hingað til lands. Hinn 29. maí 2001 hefði hann hlotið 150.000 kr. sekt fyrir umferðarlagabrot og verið sviptur ökuréttindum í 20 mánuði. Hinn 10. júlí s.á. hefði hann hlotið 54.000 kr. sekt, einnig fyrir umferðarlagabrot. Hinn 7. ágúst 2001 hefði hann hlotið 30.000 kr. sekt fyrir þjófnað og 24. maí 2002 hefði hann hlotið 15.000 kr. sekt sömuleiðis fyrir þjófnað. Þar sem um „endurtekin brot“ væri að ræða hefði það verið mat dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að umbjóðandi yðar uppfyllti ekki skilyrði 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 100/1952 um veitingu íslensks ríkisborgararéttar.

Í tilefni af ofangreindu svari dóms- og kirkjumálaráðuneytisins ritaði ég á ný bréf til ráðuneytisins, dags. 15. janúar 2009. Þar óskaði ég meðal annars eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, að ráðuneytið útskýrði hvaða skilning það legði í orðalagið „enda sé ekki um að ræða endurtekin brot“ í 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 100/1952, þ.e. hvort ráðuneytið teldi að brot teldust alltaf endurtekin í skilningi ákvæðisins væru þau fleiri en eitt eða hvort, og þá hvaða, önnur viðmið væru lögð til grundvallar, einkum þá hvort væri litið væri til almennra reglna um ítrekunaráhrif brota, sbr. 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Svarbréf ráðuneytisins, dags. 26. janúar sl., barst mér 4. febrúar sl. Í því bréfi segir m.a. svo:

„1. […] Með hliðsjón af ákvæði a. liðar 6. tölul. 9. gr., þar sem segir að veita megi íslenskan ríkisborgararétt að liðnu einu ári frá því að brot var framið sem sæti sekt lægri en 50.000 kr., hefur ráðuneytið fylgt þeirri vinnureglu að hafi umsækjandi hlotið sektir fyrir nokkur smávægileg brot, sem samanlagt eru að fjárhæð undir 50.000 kr., komi það ekki í veg fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Þrátt fyrir að ráðuneytið líti svo á að ítrekunaráhrif 71. gr. almennra hegningarlaga eigi ekki beinlínis við í þessu sambandi tekur ráðuneytið mið af svipuðum grundvallarsjónarmiðum við ákvörðun um veitingu ríkisborgararéttar, jafnframt því sem litið er til heildarsakaferils og þess hvernig framkoma viðkomandi hefur verið.

2. Hafi umsækjandi framið brot sem eru endurtekin í skilningi ráðuneytisins, þ.e. ef samanlögð sektarfjárhæð er yfir 50.000 kr., er ekki fallist á umsókn hans um ríkisborgararétt. Sömuleiðis lítur ráðuneytið svo á að það hafi ekki heimild til að veita ríkisborgararétt ef umsækjandi hefur hlotið fangelsisrefsingu oftar en einu sinni.

3. Samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt hefur ráðherra aðeins heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt ef vafalaust er að umsækjandi uppfylli lögmælt skilyrði laganna. Að öðrum kosti verður ráðherra að synja og í þeim tilvikum er athygli umsækjanda vakin á því að Alþingi geti veitt ríkisborgararétt með lögum. Óski hann eftir að umsókn verði lögð fyrir Alþingi verði hann að rita ráðuneytinu bréf þar sem þess er farið á leit ásamt því að gera grein fyrir undanþágubeiðninni. Þar sem verið er að synja framkominni umsókn í synjunarbréfi ráðuneytisins er umsækjanda leiðbeint um að hann verði að leggja inn nýja umsókn ásamt greiðslu og tilskildum gögnum óski hann að umsókn hans verði tekin til meðferðar á ný og framsend Alþingi til afgreiðslu. Í samræmi við það var [A] veitt sambærileg leiðsögn í synjunarbréfi ráðuneytisins, dags. 6. október 2008.

Loks vill ráðuneytið benda á að á næstu vikum stendur til að taka skriflega saman þær verklagsreglur sem ráðuneytið fer eftir við vinnslu umsókna um íslenskan ríkisborgararétt til birtingar á heimasíðu ráðuneytisins. Telur ráðuneytið að það geti verið til bóta að hafa þær reglur aðgengilegar og teljast til vandaðra stjórnsýsluhátta.“

Með bréfum til yðar, dags. 4. febrúar og 29. apríl 2009, gaf ég umbjóðanda yðar kost á að koma með þær athugasemdir sem hann teldi ástæðu til að gera í tilefni af ofangreindu svarbréfi ráðuneytisins. Bárust mér athugasemdir yðar fyrir hönd umbjóðanda yðar með bréfi, dags. 6. maí 2009.

Vegna þess sem kom fram í svarbréfi ráðuneytisins frá 26. janúar sl. ákvað ég að rita annað bréf til þess, dags. 24. júní 2009, þar sem setti ég fram þrjár tilgreindar spurningar í tilefni af kvörtun A, en afrit af bréfinu var sent yður samdægurs.

Af þessu tilefni barst mér 1. september sl. svar frá ráðuneytinu með bréfi til mín, dags. 28. ágúst sl., en ég tel ekki þörf á að reifa efni þess nánar hér, en vík að því eins og þörf krefur í umfjöllun minni hér á eftir. Með bréfi til yðar, dags. 4. september 2009, gaf ég yður kost á að koma með athugasemdir fyrir hönd umbjóðanda yðar sem þér telduð ástæðu til að gera í tilefni af umræddu svarbréfi og bárust mér athugasemdir frá yður 15. september sl.

III.

Samkvæmt þriðja málsl. 1. mgr. 66. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. ákvæði 4. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, verður útlendingi aðeins veittur íslenskur ríkisborgararéttur samkvæmt lögum, en veiting ríkisborgararéttar til útlendings er jafnan kölluð „þegnleiðing“, sjá til hliðsjónar Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur, mannréttindi. Reykjavík 2008, bls. 123. Nánari fyrirmæli um veitingu ríkisborgararéttar hafa lengi komið fram í lögum nr. 100/1952, um íslenskan ríkisborgararétt. Er þar enn annars vegar byggt á þeirri fornu reglu að Alþingi veiti útlendingum ríkisborgararétt með beinni lagasetningu, sbr. II. kafla laganna, einkum 1. mgr. 6. gr. Með gildistöku laga nr. 62/1998, sem breytti lögum nr. 100/1952, var dómsmálaráðherra hins vegar fengin heimild til að veita útlendingi ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun. Sú skipan hélst með lögum nr. 81/2007, sem breytti lögum nr. 100/1952, sbr. III. kafli laga nr. 100/1952.

Í máli umbjóðanda yðar, A, reynir á synjun dómsmálaráðherra sem tekin er á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 100/1952, sem er að finna í III. kafla laganna. Hefur athugun mín þannig beinst að lögmæti þeirrar úrlausnar.

Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 100/1952, sbr. ákvæði 5. gr. laga nr. 81/2007, er mælt svo fyrir að þrátt fyrir ákvæði 6. gr. laganna sé dómsmálaráðherra heimilt, að fenginni umsögn lögreglu og Útlendingastofnunar, að veita íslenskan ríkisborgararétt samkvæmt umsókn sem borin er fram af umsækjanda sjálfum eða forsjármönnum hans hafi hann ekki náð 18 ára aldri, enda fullnægi hann skilyrðum 8. og 9. gr. Í 2. mgr. 7. gr. er mælt fyrir um að heimild dómsmálaráðherra samkvæmt ákvæðum kaflans sé bundin við þau mál þar sem „vafalaust er að umsækjandi uppfylli lögmælt skilyrði“. Sé dómsmálaráðherra þó ávallt heimilt að vísa umsókn um ríkisborgararétt til ákvörðunar Alþingis sem eftir atvikum veitir umsækjanda ríkisborgararétt með lögum.

Samkvæmt því sem hér er rakið er ljóst að dómsmálaráðherra hefur verið veitt heimild til að veita einstaklingi ríkisborgararétt. Þessi heimild sætir þeim takmörkunum að hún er bundin við mál þar sem „vafalaust“ er að lögmælt skilyrði eru uppfyllt til að fá ríkisborgararétt. Ef vafi leikur á að umsókn fullnægi skilyrðum III. kafla laga nr. 100/1952 kann útlendingur að geta óskað eftir því að Alþingi veiti honum ríkisborgararétt með lögum, sbr. II. kafli laganna, eins og nánar verður rakið hér síðar.

Í 8. gr. laga nr. 100/1952, sbr. 5. gr. laga nr. 81/2007, eru talin upp þau búsetuskilyrði sem gilda um þá ákvörðun dómsmálaráðherra að veita ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun samkvæmt 1. mgr. 7. gr. Í 9. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 81/2007, eru talin upp þau skilyrði sem gilda að öðru leyti um veitingu ríkisborgararéttarins. Í 6. tölul. 1. mgr. 9. gr., sem á reynir í máli A, segir svo:

„Um veitingu íslensks ríkisborgararéttar skv. 1. mgr. 7. gr. gilda að öðru leyti eftirtalin skilyrði:

[…]

Umsækjandi hafi ekki, hérlendis eða erlendis, sætt sektum eða fangelsisrefsingu eða eigi ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi samkvæmt íslenskum lögum. Frá þessu má þó víkja að liðnum fresti sem hér greinir, enda sé ekki um að ræða endurtekin brot:

a. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnu einu ári frá því að brot var framið sem sætti sekt lægri en 50.000 kr.

b. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum þremur árum frá því að brot var framið sem sætti sekt að fjárhæð 50.000 kr. eða hærri

c. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum sex árum frá því að fangelsisrefsing í allt að 60 daga var afplánuð.

d. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum átta árum frá því að fangelsisrefsing í allt að sex mánuði var afplánuð.

e. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum tíu árum frá því að fangelsisrefsing í allt að eitt ár var afplánuð.

f. Veita má íslenskan ríkisborgararétt að liðnum 14 árum frá því að lengri fangelsisrefsing en eitt ár var afplánuð. Hið sama gildir um öryggisgæslu.“

Til að eiga kost á ríkisborgararétti með ákvörðun dómsmálaráðherra verður útlendingur samkvæmt tilvitnuðu ákvæði þannig m.a. að fullnægja því skilyrði að hafa ekki sætt sektum eða fangelsisrefsingu eða að eiga ólokið mál í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi. Frá þessu skilyrði má víkja að liðnum þeim tímafrestum sem mælt er fyrir um í a-f liðum, þó að gættu því skilyrði að ekki sé um að ræða „endurtekin brot“.

Í athugasemdum greinargerðar við 5. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 81/2007, um breytingu á lögum nr. 100/1952, um ríkisborgararétt, er ekki vikið að því hvað felst í hinu tilvitnaða orðalagi. Í athugasemdunum kemur aðeins fram að lagt sé til að ákvæði 6. tölul. verði breytt, en nú sé gerð sú krafa að umsækjandi hafi ekki sætt varðhaldi eða fangelsisrefsingu eða eigi ólokið máli í réttarvörslukerfinu. Sanngjarnt þyki, með hliðsjón af rétti nágrannaríkjanna, að unnt sé að sækja um ríkisborgararétt þegar ákveðinn tími sé liðinn frá því að meðferð viðkomandi brots lauk, eins og nánar greini í ákvæðinu. Hnykkt sé á því með afdráttarlausu orðalagi að brot framin erlendis skipti hér jafnmiklu máli og brot framin hérlendis, enda sé um að ræða verknað sem er refsinæmur samkvæmt íslenskum lögum. (Alþt. 2006-2007, A-deild, bls. 3682.) Önnur lögskýringargögn sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 81/2007 veita ekki vísbendingu um hvernig skilja megi hið tilvitnaða orðalag um að brot sé ekki „endurtekin“.

Í fyrra skýringarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín frá 26. janúar 2009 kemur meðal annars fram að það hafi fylgt þeirri vinnureglu að hafi umsækjandi hlotið sektir fyrir nokkur smávægileg brot sem samanlagt eru að fjárhæð undir 50.000 kr., komi það ekki í veg fyrir veitingu ríkisborgararéttar.

Í síðara skýringarbréfi ráðuneytisins til mín frá 28. ágúst 2009 kemur fram að þessi viðmiðunarregla byggi einkum á því að sektarrefsing fyrir einstök brot, sem samanlagt ná ekki 50.000 kr., sé almennt mjög lág og brotin smávægilegri en eitt brot sem sæti 50.000 kr. sekt eða hærri. Ráðuneytið hafi því tekið mið af því að heimila útgáfu ríkisborgararéttar þegar um svo lágar sektarrefsingar er að ræða, ef liðið er eitt ár frá síðasta broti, fremur en að synja um ríkisborgararétt en eftir atvikum kunni máli þá að verða vísað til Alþingis. Byggir viðmiðunarreglan einkum á sanngirnissjónarmiðum og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Ég ræð af þessum skýringum ráðuneytisins að það líti svo á að ekki sé um endurtekið brot að ræða þegar einstaklingur hefur framið brot oftar en einu sinni og hann hefur fengið sem refsingu fyrir öll brotin sektir sem eru samtals að fjárhæð lægri en 50.000 kr. Af þessu leiðir að einstaklingur sem framið hefur nokkur brot er í sömu stöðu og sá sem hefur framið aðeins eitt brot og fengið sekt sem nemur lægri fjárhæð en 50.000 kr. og þar með fellur undir a-lið 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 100/1952. Í skýringarbréfi ráðuneytisins frá 26. janúar 2009 kemur einnig fram að hafi umsækjandi framið brot sem eru endurtekin í skilningi þess, þ.e. ef samanlögð sektarfjárhæð er yfir 50.000 kr., sé ekki fallist á umsókn hans um ríkisborgararétt og að ráðuneytið hafi ekki heimild til að veita ríkisborgararétt ef umsækjandi hefur hlotið fangelsisrefsingu oftar en einu sinni.

Í umræddu skýringarbréfi ráðuneytisins til mín frá 26. janúar 2009 er vikið að fleiri viðmiðum en þeim sem rakin eru hér að framan. Í bréfinu tekur ráðuneytið fram að þrátt fyrir að það líti svo á að ítrekunaráhrif 71. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eigi ekki beinlínis við taki það mið af svipuðum „grundvallarsjónarmiðum“ við ákvörðun um veitingu ríkisborgararéttar, jafnframt því sem litið er til heildarsakaferils og þess hvernig framkoma viðkomandi hefur verið. Í skýringarbréfi sínu frá 28. ágúst sl. gerir ráðuneytið nánar grein fyrir því hvað það eigi við með þessum orðum. Þar kemur fram að þau grundvallarsjónarmið sem hér um ræðir séu einkum þau að brot yrðu ekki talin endurtekin ef þau eru af mjög ólíkum toga og vart megi telja þau eðlisskyld. Við afgreiðslu máls sé litið til allra gagna sem fyrir liggja í máli og ákvörðun tekin út frá heildarmati. Við það mat skipti meðal annars máli hvort viðkomandi leggi í vana sinn að fremja afbrot. Hafi sakavottorð þar mikið að segja sem og umsagnir Útlendingastofnunar og lögreglu sem veitt geta nánari upplýsingar um framkomu umsækjanda.

Ég vek athygli yðar á því að dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefur nýverið birt á heimasíðu þess, www.domsmalaraduneyti.is, „verklagsreglur vegna sakarferils“ þar sem ofangreindar viðmiðunarreglur koma fram.

Áður er rakið að dóms- og kirkjumálaráðuneytið synjaði umsókn umbjóðanda yðar um veitingu íslensks ríkisborgararéttar á grundvelli þess að hann uppfyllti ekki skilyrði 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 100/1952, sbr. 5. gr. laga nr. 81/2007, vegna endurtekinna brota. Eins og vikið er að í kafla I byggðist synjunin á þeim upplýsingum sem koma fram í sakavottorði. Þegar litið er til sakavottorðsins er ljóst að 29. maí 2001 var umbjóðandi yðar meðal annars dæmdur í Héraðsdómi X í 150.000 kr. sekt fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Umrædd ákvæði lutu að banni við akstri undir áhrifum áfengis. Stuttu síðar, 10. júlí 2001, gekkst umbjóðandi yðar undir sátt við Lögreglustjórann í Y með því að greiða 54.000 kr. sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 48. og 1. mgr. 71. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Lutu ákvæðin að banni við akstri ökutækis án þess að hafa gilt ökuskírteini og banni við að sitja í bíl án þess að nota öryggisbelti þegar bíllinn væri á ferð.

Af ofangreindu er ljóst að umbjóðandi yðar hefur framið fleiri en eitt brot sem eru samkynja eða af svipuðu tagi. Sakavottorð um umbjóðanda yðar gefur einnig til kynna að hann hafi 24. maí 2002 verið dæmdur af Héraðsdómi X í 15.000 kr. sekt fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1941 og hann hafi 7. ágúst 2001 gengist undir sátt við Lögreglustjórann í Y með því að greiða 30.000 kr. sekt.

Ég minni á að heimild dómsmálaráðherra til að veita útlendingum ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun er takmörkuð við þau tilvik þar sem „vafalaust er að umsækjandi uppfylli lögmælt skilyrði“, eins og segir í fyrri málsl. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 100/1952. Ljóst er að samkvæmt texta síðari málsl. 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. sömu laga er ekki gert ráð fyrir heimild til að veita íslenskan ríkisborgararétt þeim útlendingi sem hefur gerst sekur um „endurtekin brot“. Ég ítreka að hvorki í texta laga nr. 100/1952 eða í lögskýringargögnum er að finna nánari skýrgreiningu á inntaki þessa orðasambands. Af samanburði á þessum málslið og tímafrestsákvæðum a.-f. liðar sama töluliðar er þó óhjákvæmilegt að draga þá ályktun að þegar um „endurtekin brot“ er réttilega að ræða girðir það jafnan alfarið fyrir að útlendingur geti á þessum lagagrundvelli talist fullnægja skilyrðum til að verða veittur ríkisborgararéttur með ákvörðun ráðherra og skiptir þá ekki máli hve langt er liðið frá síðasta broti.

Ég tek fram að eins og kvörtun málsins er fram sett er ekki tilefni til þess að ég fjalli sérstaklega um þá afstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að við mat á hvort útlendingur fullnægi skilyrðum 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 100/1952 sé ráðuneytinu fært að leggja til grundvallar að brot séu ekki endurtekin ef þau eru mjög ólík og ekki eðlisskyld. Ég tek enda fram að sú afstaða er í reynd til hagsbóta fyrir þá útlendinga, eins og A, sem gerst hafa sekir um refsiverða háttsemi oftar en einu sinni. Þá tek ég fram að ljóst er að sú verklagsregla sem ráðuneytið hefur lagt til grundvallar í þessu málaflokki, og nú hefur verið birt á heimasíðu ráðuneytisins, að því sé fært að öðrum skilyrðum uppfylltum að veita ríkisborgararétt með stjórnvaldsákvörðun ef samanlagðar fjársektir vegna endurtekinna brota nema lægri fjárhæð en 50.000 kr., sbr. a-lið 1. mgr. 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 100/1952, á ekki við í tilviki umbjóðanda yðar, eins og sakavottorði hans er háttað.

Að þessu virtu, og öllu því sem að framan er rakið, eru ekki forsendur af minni hálfu, eins og síðari málsl. 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 100/1952 er úr garði gerður, að gera athugasemdir við þá niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að umsókn A hafi ekki fullnægt skilyrðum ofangreinds ákvæðis til að heimilt hafi verið að veita honum íslenskan ríkisborgararétt með ákvörðun ráðherra.

Ég legg á það áherslu að þessi niðurstaða mín verður að vera óháð því hvort gera megi tilteknar athugasemdir við efni og eðli þeirrar lagareglu sem niðurstaða ráðuneytisins byggist á, enda er það ekki verkefni umboðsmanns Alþingis að fjalla um störf Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Ég tel auk þess ekki tilefni, eins og atvikum er háttað, að nýta þá heimild sem umboðsmanni er fengin í 11. gr. sömu laga. Í þessu sambandi legg ég á það áherslu að umbjóðanda yðar er, þrátt fyrir niðurstöðu dómsmálaráðherra, fært að óska eftir því við Alþingi að honum verði veittur ríkisborgararéttur á grundvelli 6. gr. laga nr. 100/1952. Þar segir í 2. mgr. að áður en umsókn um ríkisborgararétt sé lögð fyrir Alþingi skuli dómsmálaráðuneytið fá um hana umsögn lögreglustjóra á dvalarstað umsækjenda og Útlendingastofnunar. Það er því ljóst að umbjóðandi yðar verður að bera umsókn um að Alþingi veiti honum ríkisborgararétt með lögum fram við dómsmála- og mannréttindaráðuneytið sem sér síðan um að koma henni til Alþingis, eins og lýst er í bréfi ráðuneytisins til A, dags. 6. október 2008. Í ljósi aðstæðna í máli umbjóðanda yðar bendi ég loks á að litið hefur verið svo á að sú tilhögun að Alþingi veiti ríkisborgararétt með lögum endurspegli að löggjafinn hafi ekki viljað afsala sér forræði á að geta brugðist við sérstökum aðstæðum og veitt útlendingi íslenskan ríkisborgararétt, og þannig samþykkt hann inn í íslenskt samfélag, þótt almenn lagaskilyrði séu ekki uppfyllt, sjá áðurnefnt rit Bjargar Thorarensen: Stjórnskipunarréttur, mannréttindi, bls. 123.

IV.

Með vísan til framangreinds tel ég að ekki sé tilefni til að aðhafast frekar í máli umbjóðanda yðar og hef ég því ákveðið að ljúka umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég vek þó athygli umbjóðanda yðar á því að ég hef ákveðið að rita bréf, sem hér fylgir með í ljósriti, til dómsmála- og mannréttindaráðherra þar sem ég set fram ábendingu um tiltekinn annmarka á rökstuðningi á ákvörðun ráðuneytis hans í máli umbjóðanda yðar.

Undirritaður hefur sem settur umboðsmaður Alþingis í leyfi kjörins umboðsmanns farið með mál þetta frá 1. janúar sl.

Róbert R. Spanó.