Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Lögreglumál. Alþingi.

(Mál nr. 5769/2009)

A o.fl., meðlimir alþjóðlegu samtakanna X, leituðu til umboðsmanns Alþingis með kvörtun. Annars vegar beindist kvörtunin að meintum ólögmætum ákvörðunum og aðgerðum lögregluyfirvalda í ýmsum lögregluumdæmum gegn mótmælendum stóriðjuframkvæmda á árunum 2005, 2006 og 2007. Hins vegar beindist kvörtunin að vinnubrögðum við gerð skýrslu dómsmálaráðherra til Alþingis um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuframkvæmda 2005, 2006 og 2007. Í kvörtuninni kom fram sú afstaða A að skýrslan væri villandi, full rangfærslna og tilraun til þöggunar og til að breiða yfir ámælisverðar aðgerðir lögreglu. Einnig kom fram sú afstaða A að sá maður, sem dómsmálaráðherra fól gerð skýrslurnnar, hefði verið vanhæfur samkvæmt stjórnsýslullögum til að sinna því verki þar sem hann gegndi starfi skólastjóra Lögreglustjóra ríkisins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á kvörtuninni með bréfi, dags. 28. september 2009. Í bréfinu benti umboðsmaður á að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Ganga yrði út frá því að sú athöfn ráðherra, að útbúa skýrslu á grundvelli beiðni þess efnis samkvæmt 54. gr. stjórnarskrár og 46. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, væri liður í störfum Alþingis í merkingu a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Því brysti lagaskilyrði til að sér væri fært að fjalla frekar um þennan þátt kvörtunarinnar. Þá sagði í bréfi umboðsmanns að ekki yrði ráðið af kvörtuninni að nein aðgerð lögreglu, sem hún beindist að, eða að öðru leyti aðrar aðgerðir stjórnvalda, sem þar væri getið um, hefðu átt sér stað síðar en á árinu 2007. Því væri umboðsmanni að lögum óheimilt að taka athugsemdir A, sem beindust að umræddum lögregluaðgerðum á árunum 2005-2007, til frekari athugunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 þar sem kveðið væri á um að kvörtun skyldi bera fram innan árs frá því að stjórnsýslugerningur hefði verið til lykta leiddur.

Bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 28. september 2009, til A o.fl., hljóðar svo:

I.

Ég vísa til kvörtunar yðar til mín sem barst mér 26. ágúst sl. ásamt samhljóða kvörtunum frá ofangreindum einstaklingum. Samkvæmt kvörtuninni eruð þér meðal meðlima alþjóðlegu samtakanna X. Kvörtuninni fylgdi töluvert magn fylgigagna og eru einstakir hlutar hennar og fylgigagna eru ýmist á ensku eða íslensku. Í óundirrituðu og ódagsettu skjali á ensku undir yfirskriftinni „Introduction“ segir að setja hafi þurft fram kvörtunina á ensku að hluta vegna þess að það sé eina sameiginlega tungumál meðlima X sem séu fjölþjóðleg samtök. Í íslenskri greinargerð með kvörtuninni, sem hefst á orðinu „Inngangsorð“ og einnig er ódagsett og óundirrituð, er óskað eftir því að svar mitt verði bæði á íslensku og ensku þar sem stór hluti af þátttakendum í mótmælum samtakanna séu erlendir, sbr. bls. 1 í greinargerðinni. Með vísan til þessa sendi ég íslenskum viðtakendum bréfs þessa hjálagða enska útgáfu af bréfinu, sem einkum er beint til B.

Af kvörtun yðar og gögnum málsins má ráða að hún beinist að tveimur atriðum: Í fyrsta lagi að meintum ólögmætum ákvörðunum og aðgerðum lögregluyfirvalda í ýmsum lögregluumdæmum gegn mótmælendum stóriðjuframkvæmda á árunum 2005, 2006 og 2007, en umræddum athöfnum lögreglu er lýst ítarlega í kvörtun yðar og fylgigögnum.

Í öðru lagi kvartið þér yfir „óviðunandi vinnubrögðum“ við gerð skýrslu dómsmálaráðherra til Alþingis um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuframkvæmda 2005, 2006 og 2007. Afrit skýrslu dómsmálaráðherra fylgdi með kvörtun yðar. Hún er ódagsett en samkvæmt kvörtuninni var hún birt í september 2008. Ég geri nánari grein fyrir skýrslunni í kafla II hér að neðan. Í greinargerð með kvörtuninni lýsið þér skýrslunni m.a. svo að hún sé „villandi, full rangfærslna og tilraun til þöggunar og til að breiða yfir ámælisverðar aðgerðir lögreglu“. Sú afstaða yðar kemur einnig fram að sá maður sem dómsmálaráðherra fól gerð skýrslunnar hafi verið vanhæfur samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 til að sinna því verki. Ástæðuna fyrir því segið þér vera þá að hann gegni starfi skólastjóra Lögregluskóla ríkisins.

Ég mun víkja fyrst að athugasemdum yðar sem varða skýrslu dómsmálaráðherra, sbr. kafla II hér á eftir, en að því búnu um athugasemdir yðar sem beinast beint að þeim athöfnum lögreglu sem um ræðir í kvörtun yðar, sbr. kafla III.

II.

Starfssvið umboðsmanns Alþingis er afmarkað í 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í samræmi við afmörkun á hlutverki umboðsmanns í 2. gr. sömu laga tekur starfssvið hans að meginreglu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í 3. mgr. 3. gr. laganna er til skýringarauka tekið fram til hvaða aðila starfssvið umboðsmanns taki ekki, en samkvæmt a-lið þeirrar málsgreinar tekur starfssviðs umboðsmanns ekki til „starfa Alþingis og stofnana þess“.

Skýrsla dómsmálaráðherra, sem kvörtun yðar beinist að, var tekin saman á vegum ráðherra á grundvelli beiðni sem níu alþingismenn lögðu fram um að ráðherra léti þinginu í té skýrslu um „framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum Kárahnjúkavirkjunar og stóriðjuframkvæmda 2005, 2006 og 2007“, sbr. 46. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Beiðnin er á þingskjali 888 í 574. máli á 135. löggjafarþingi 2007-2008. Skýrslan sem gerð var samkvæmt beiðninni er á þingskjali 1308 í sama máli og löggjafarþingi og áður greindi. Hún er árituð um að hafa verið lögð fyrir Alþingi á því löggjafarþingi, sbr. ákvæði 2. mgr. 46. gr. laga nr. 55/1991. Bæði þessi gögn eru aðgengileg opinberlega á íslensku á vef Alþingis, www.althingi.is. Í inngangi skýrslunnar, sbr. bls. 5, kemur m.a. fram að dómsmálaráðuneytið hafi falið Arnari Guðmundssyni, lögfræðingi og skólastjóra Lögregluskóla ríkisins, að safna upplýsingum og vinna drög að skýrslu fyrir ráðuneytið.

Líkt og fyrr greinir byggðist gerð umræddrar skýrslu dómsmálaráðherra á ákvæði 46. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Lagagreinin hljóðar svo:

„Níu þingmenn geta óskað skýrslu ráðherra um opinbert málefni. Skal beiðnin vera skrifleg og beint til forseta og má fylgja henni stutt greinargerð. Skal beiðnin prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi. Á næsta þingfundi ber forseti það undir atkvæði umræðulaust hvort beiðnin skuli leyfð. Forseti tilkynnir hlutaðeigandi ráðherra um beiðni um skýrslu sem leyfð hefur verið.

Ráðherra skal ljúka skýrslugerðinni innan 10 vikna og skal skýrslan þá prentuð og útbýtt meðal þingmanna á fundi.

Ef ráðherra eða skýrslubeiðendur, einn eða fleiri, óska þess skal skýrslan tekin til umræðu. Ráðherra gerir þá grein fyrir henni.“

Tilvitnað ákvæði þingskaparlaga felur í sér nánari útfærslu á þeirri stjórnarskrárbundnu skyldu ráðherra að veita alþingismönnum m.a. skýrslu um „opinbert málefni“, sbr. 54. gr. stjórnarskrárinnar, enda fáist til þess leyfi Alþingis. Umrætt úrræði þingmanna er þáttur í eftirliti löggjafarvaldsins með framkvæmdarvaldinu.

Áður er rakið að starfssvið umboðsmanns Alþingis taki ekki til „starfa Alþingis og stofnana þess“. Athugun mín í tilefni af þessum þætti kvörtunar yðar hefur því beinst að því hvort og þá að hvaða marki mér sé að lögum fært að fjalla um athugasemdir yðar varðandi inntak umræddrar skýrslu og undirbúning að gerð hennar. Ganga verður út frá því að sú athöfn ráðherra að útbúa skýrslu á grundvelli beiðni þess efnis, sbr. 54. gr. stjórnarskrárinnar og 46. gr. laga nr. 55/1991, sé liður í „störfum Alþingis“ í merkingu a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Almennt getur umboðsmaður því hvorki fjallað um efnisatriði slíkrar skýrslu né um undirbúning ráðherra að gerð hennar.

Samkvæmt ofangreindu, og í ljósi þess hvernig kvörtun yðar er fram sett, tel ég að lagaskilyrði bresti til að mér sé fært að fjalla frekar um þennan þátt kvörtunar yðar, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. og a-lið 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

III.

Kvörtun yðar beinist einnig að þeim lögregluaðgerðum sem fjallað var um í ofangreindri skýrslu dómsmálaráðherra. Líkt og fram kemur í kvörtun yðar og þeim þinglegu gögnum sem fjallað var um hér að framan, þ.e. beiðni um skýrslu á grundvelli 46. gr. laga nr. 55/1991 og skýrslu dómsmálaráðherra, áttu umræddar lögregluaðgerðir sér stað á árunum 2005, 2006 og 2007. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að nein aðgerð lögreglu sem hún beinist að, eða að öðru leyti aðrar aðgerðir stjórnvalda sem þar er getið um, hafi átt sér stað síðar en á árinu 2007.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, skal bera fram kvörtun innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Af þessu ákvæði einu og sér leiðir að mér er að lögum óheimilt að taka athugasemdir yðar sem beinast að umræddum lögregluaðgerðum á árunum 2005-2007 til frekari meðferðar.

...

Með vísan til alls ofangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er athugun minni á kvörtun yðar þar með lokið.

Róbert R. Spanó.