Opinberir starfsmenn. Starfsmenn dómstóla.

(Mál nr. 5590/2009)

A, sem starfaði sem aðstoðarmaður dómara, leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir starfslokum sínum hjá Héraðsdómi X og meðferð dómstólaráðs á erindi sínu vegna þeirra. Í kvörtuninni kom fram að vorið 2008 hefði, að mati A, verið kominn á bindandi ráðningarsamningur milli A og dómstólsins en þessum samningi hefði dómstjórinn fyrirvaralaust rift á ómálefnalegum forsendum. Einnig kom fram að A teldi erindi sitt ekki hafa fengið umfjöllun í dómstólaráði, að meintar ávirðingar dómstjórans hefðu ekki verið rannsakaðar og að A hefði ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um greinargerð dómstjórans.

Umboðsmaður Alþingis lauk málinu með bréfi, dags. 6. júlí 2009, þar sem hann taldi að veruleg réttaróvissa væri til staðar um hvort umboðsmanni Alþingis væri að lögum fært að fjalla efnislega um ákvarðanir dómstólaráðs eða dómstjóra í málum á borð við það sem kvörtun A beindist A. Hins vegar ákvað umboðsmaður, með bréfi dags. sama dag, að vekja athygli Alþingis á ný á sjónarmiðum sem höfðu komið fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2003 og þá með það í huga að á vettvangi Alþingis yrði leitað leiða til að leysa úr þeirri réttaróvissu um starfssvið umboðsmanns Alþingis hvað varðar ákvarðanir sem teknar eru í almennri stjórnsýslu dómstólanna.

Bréf umboðsmanns Alþingis, dags. 6. júlí, til forseta Alþingis hljóðar svo í heild sinni:

Hjá embætti mínu hefur verið til meðferðar mál vegna kvörtunar konu sem beindist að starfslokum hennar sem aðstoðarmanns dómara við Héraðsdóm X. Með bréfi, dags. í dag, hef ég ákveðið að ljúka meðferð minni á þeirri kvörtun, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í bréfi mínu, sem er meðfylgjandi í afriti, segir m.a. svo í kafla II:

„[...]

Í skýrslu umboðsmanns til Alþingis fyrir árið 2003, sem að ofan er rakin, er þeirri afstöðu umboðsmanns lýst, sjá bls. 27, að „nokkur réttaróvissa [ríki] að [hans] áliti um hvort ákvarðanir sem teknar [séu] í almennri stjórnsýslu dómstólanna hér á landi falli undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, m.a. að teknu tilliti til lögskýringargagna að baki lögum nr. 85/1997“. Telur umboðsmaður Alþingis það óheppilegt að lögbundin afmörkun á starfssviði umboðsmanns sé að þessu leyti ekki eins skýr og kostur er. Lýkur umboðsmaður umfjöllun sinni með því að taka fram að hann telji nauðsynlegt að „leitað verði eftir atvikum leiða á vettvangi Alþingis til að taka af vafa um hvort ákvarðanir sem teknar eru í almennri stjórnsýslu dómstóla eigi að falla undir starfssvið umboðsmanns“.

Ég hef hér að framan í bréfi þessu leitast við að útskýra nánar í hverju sú réttaróvissa, sem að framan er lýst í skýrslu umboðsmanns til Alþingis fyrir árið 2003, er fólgin og þá með tilvísun til ákvæða laga nr. 85/1997, lögskýringargagna og að virtu stjórnskipulagi dómstólanna samkvæmt lögum nr. 15/1998. Ég tel að sama óvissa um mögulega aðkomu umboðsmanns Alþingis sé til staðar hvað varðar réttarstöðu aðstoðarmanns dómara, sbr. 17. gr. laga nr. 15/1998, í samskiptum við dómstjóra. Ekki hafa til þessa af hálfu löggjafans verið gerðar breytingar á ákvæðum laga nr. 85/1997 með þau sjónarmið í huga sem umboðsmaður Alþingis lýsir í áðurnefndri skýrslu sinni.

Ég ítreka að þau álitaefni sem hér eru uppi um gildissvið laga nr. 85/1997 snúa að því í grundvallaratriðum hvort og þá að hvaða marki umboðsmaður Alþingis geti fjallað um athafnir hjá öðrum sjálfstæðum handhafa ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þar tel ég að umboðsmaður verði að gæta ákveðinnar varfærni að virtri stöðu hans að lögum, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/1997. Þótt almennt verði að ganga út frá því að vafa um hvort umboðsmaður geti fjallað um mál verði að túlka borgaranum í hag, þarf hins vegar sérstaklega að líta til ofangreindra sjónarmiða í tilvikum þegar reynir á ákvæði 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 sem hefur að geyma takmörkun á starfssviði umboðsmanns gagnvart athöfnum á vettvangi Alþingis og dómstóla.

Að þessu virtu, og þar sem enn er að mínu áliti til staðar veruleg réttaróvissa um hvort umboðsmanni Alþingis sé að lögum fært að fjalla efnislega um ákvarðanir sem teknar eru af hálfu dómstólaráðs eða dómstjóra í málum á borð við það sem kvörtun yðar fyrir hönd [A] beinist að, er það niðurstaða mín að ljúka hér með athugun minni á kvörtuninni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég tek þó fram að athugun mín á kvörtun umbjóðanda yðar hefur leitt til þess að ég hef ákveðið, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, að vekja athygli Alþingis á ný á þeim sjónarmiðum sem fram koma í skýrslu umboðsmanns til Alþingis fyrir árið 2003 og þá með það í huga að leitað verði leiða á vettvangi Alþingis til að leysa úr þeirri réttaróvissu um starfssvið umboðsmanns Alþingis hvað varðar ákvarðanir sem teknar eru í almennri stjórnsýslu dómstólanna.

Með vísan til alls ofangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er meðferð minni á kvörtun yðar hér með lokið.“

Með vísan til ofangreinds tel ég rétt að vekja athygli Alþingis, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, á ný á þeirri afstöðu umboðsmanns, sem áður hefur komið fram í skýrslu hans til Alþingis fyrir árið 2003, að veruleg réttaróvissa sé til staðar um hvernig beri að skilja b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og þá um hvort almenn stjórnsýsla héraðsdómstólanna falli undir starfssvið umboðsmanns Alþingis. Ég ítreka þá ábendingu umboðsmanns Alþingis sem fram kemur í áðurnefndri skýrslu hans til Alþingis fyrir árið 2003, bls. 24-27, að nauðsynlegt sé að leitað verði eftir atvikum leiða á vettvangi Alþingis til að taka af vafa um hvort ákvarðanir sem teknar eru í almennri stjórnsýslu dómstólanna eigi að falla undir starfssvið umboðsmanns Alþingis.

Undirritaður var hálfu forsætisnefndar Alþingis settur í embætti umboðsmanns Alþingis frá 1. janúar sl. í leyfi kjörins umboðsmanns.

Róbert R. Spanó.