Sjávarútvegsmál. Lagaheimild. Línuívilnun.

(Mál nr. 5156/2007)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að sjávarútvegsráðherra hefði án fullnægjandi lagastoðar sett ákvæði um flutning veiðiheimilda milli tímabila í 3. gr. reglugerðar nr. 642/2006, um línuívilnun. Einnig voru gerðar athugasemdir við að ráðuneytið hefði ekki sinnt lögboðinni tilkynningarskyldu samkvæmt 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með því að láta hjá líða að tilkynna Fiskistofu að þorskafli á línu skuli reiknast að fullu til aflamarks.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtun A með bréfi, dags. 10. mars 2009, þar sem hann taldi sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að reglugerðarákvæðið ætti sér ekki viðhlítandi stoð í lögum. Í bréfi sínu rakti umboðsmaður viðeigandi ákvæði laga nr. 116/2006 og reglugerðar nr. 642/2006. Hann taldi ljóst, af texta 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, að við framkvæmd veiða á þorski á grundvelli línuívilnunar væri þeim sem hefðu til þess heimild aðeins tryggt á hverju þriggja mánaða tímabili það hagræði sem þetta lögmælta fyrirkomulag hefði í för með sér að því marki sem næmi hinu leyfilega viðmiðunarmagni sem ráðherra hefði ákveðið á því sama tímabili. Ef ljóst þætti, að að mati Fiskistofu, að líklegt mætti telja að leyfilegu heildarmagni yrði t.d. náð hinn 15. október á tímabilinu september-nóvember bæri Fiskistofu að tilkynna ráðuneytinu um það. Umboðsmaður tók því næst til athugunar hvort reglugerðarheimild lokamálsliðar 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 veitti ráðherra slíka heimild og þá í ljósi þeirra efnisreglna um þorskveiðar línubáta sem að framan hefðu verið raktar. Í því sambandi tók umboðsmaður fram að ekki yrði að hans áliti dregin sú ályktun af orðalagi ákvæðisins að girt væri fyrir að óveiddum viðmiðunarafla væri bætt við næsta tímabil. Umboðsmaður taldi jafnframt að ekki yrði dregin sú ályktun af lögskýringargögnum að baki 3. gr. laga nr. 147/2003, sem lögfesti fyrirrennara 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, að með ákvæðinu væri girt fyrir að ráðherra nýtti reglugerðarheimild sína með þeim hætti sem gert var í 3. gr. reglugerðar nr. 642/2006. Umboðsmaður talid einnig að þegar litið væri til texta 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 og til markmiða línuívilnunar teldi hann sig ekki hafa forsendur til að telja annað en að sjónarmið sjávarútvegsráðuneytisins, sem lægju að baki skiptingu magns af þorskafla í fjögur þriggja mánaða tímabil og flutningi ónýtts afla milil tímabilanna, væru málefnaleg. Þá tók umboðsmaður fram að sú ályktun yrði ekki dregin að fyrirkomulag áðurgildandi reglugerðar nr. 3. gr. reglugerðar nr. 642/2006 um flutning ónýtts afla milli tímabila hefði sem slík bein áhrif á réttarstöðu útgerðaraðila, sem gera út báta og standa fyrir utan línuívilnunarfyrirkomulagið, með þeim hætti að það fæli í sér skerðingu á aflaheimildum umfram þá sem leiddi af þeirri skýru afstöðu löggjafans að koma á tilteknu kerfi línuívilnunar í þorski.

Umboðsmaður taldi auk þess að þar sem heimilt hefði verið að flytja ónýttan afla á milli tímabila með þeim hætti sem rakið væri í bréfinu hefði ekki hvílt skylda á sjávarútvegsráðuneytinu til að tilkynna Fiskistofu frá hvaða tíma þorskafli á línu skyldi reiknast að fullu til aflamarks þegar A vakti athygli á því í tölvubréfi til ráðuneytisins frá 24. júlí 2007 að búið væri að veiða 10 tonn af þorski umfram það sem heimilt var samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Fiskistofu. Umboðsmaður geri því ekki athugasemdir við þetta atriði. Hins vegar ritaði umboðsmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bréf þar sem hann kom ábendingu á framfæri vegna þess dráttar sem varð af hálfu ráðuneytisins á að svara fyrirspurnarbréfi umboðsmanns.

Bréf umboðsmanns Alþingis til A, dags. 10. mars 2009, hljóðar svo í heild sinni:

I.

Ég vísa til kvörtunar A, sem barst umboðsmanni Alþingis 9. nóvember 2007. Kvörtunin beinist að því að sjávarútvegsráðherra hafi án fullnægjandi lagastoðar sett ákvæði um flutning veiðiheimilda milli tímabila í reglugerð nr. 642/2006, um línuívilnun. Þá eru gerðar athugasemdir við það að ráðuneytið hafi ekki sinnt lögboðinni tilkynningarskyldu samkvæmt 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með því að láta hjá líða að tilkynna Fiskistofu að þorskafli á línu skuli reiknast að fullu til aflamarks.

Í kvörtun sinni tekur A m.a. fram að lög nr. 116/2006 banni með skýrum hætti flutning aflamarks á milli tímabila innan fiskveiðiársins. Hvergi sé að finna heimild í lögunum um tilfærslu aflamarks á milli tímabila eins og tilgreint sé í umræddri reglugerð. Línuívilnun feli í sér undantekningu á almennri meginreglu laga um stjórn fiskveiða um að reikna eigi allan fiskafla til aflamarks. Túlka beri því heimildir til línuívilnunar með þröngum hætti og þær verði að styðjast við skýr lagarök. Ég tek sérstaklega fram að ofangreind kvörtun A, sem og athugasemdir þess til umboðsmanns Alþingis vegna svars sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, sbr. bréf um það efni frá 17. desember 2008, gefa til kynna að kvörtunin lúti aðeins að línuívilnun í þorski en ekki ýsu og steinbít. Athugun mín hefur því eingöngu beinst að því atriði.

II.

Í 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er ákvæði um línuívilnun. Það hljóðar svo:

„Við línuveiðar dagróðrabáta sem beita línu í landi má landa 16% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Dagróðrabátur telst bátur sem kemur til hafnar til löndunar innan 24 klukkustunda frá því að hann heldur til veiða úr höfn þeirri þar sem línan var tekin um borð. Ákvæði þetta tekur aðeins til þeirra báta sem tilkynna staðsetningu um sjálfvirkt tilkynningarkerfi íslenskra skipa, sbr. lög nr. 41 20. mars 2003, um vaktstöð siglinga. Línuívilnun í þorski skal á hverju fiskveiðiári takmarkast við 3.375 lestir af óslægðum þorski og skal það magn skiptast innan hvers fiskveiðiárs á fjögur þriggja mánaða tímabil frá 1. september að telja, hlutfallslega með hliðsjón af þorskveiðum línubáta á árinu 2002. Fiskistofa fylgist með línuafla og tilkynnir ráðuneytinu hvenær telja megi líklegt að leyfilegu viðmiðunarmagni hvers tímabils verði náð. Ráðuneytið tilkynnir síðan frá hvaða tíma þorskafli á línu skuli reiknast að fullu til aflamarks. Þá getur ráðherra ákveðið hámark á heildarmagn ýsu og steinbíts til línuívilnunar og jafnframt ákveðið að ýsu- og steinbítsafli skuli reiknast að fullu til aflamarks þegar því er náð. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Samhljóða ákvæði var í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Kom ákvæðið inn í þau lög með 3. gr. laga nr. 147/2003, um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Á grundvelli áðurgildandi 8. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sbr. 3. gr. laga nr. 147/2003, setti sjávarútvegsráðherra 21. júlí 2006 reglugerð nr. 642/2006, um línuívilnun. Í reglugerðinni var gerð grein fyrir þeirri skiptingu í fjögur þriggja mánaða tímabil sem línuívilnun í þorski, ýsu og steinbít miðaðist við. Ákvæði 2. gr. hljóðaði svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. skal línuívilnun í þorski á hverju fiskveiðiári takmarkast við 3.375 lestir, 1.722 lestir af ýsu og 894 lestir af steinbít, miðað við óslægðan fisk, sem skiptast þannig innan fiskveiðiársins:

Þorskur Ýsa Steinbítur

1. September-nóvember 1.080 740 28

2. Desember-febrúar 1.280 552 90

3. Mars- maí 770 318 555

4. Júní-ágúst 245 112 221“

Í 3. gr. reglugerðarinnar kom síðan eftirfarandi fram:

„Fiskistofa fylgist með línuafla og tilkynnir ráðuneytinu hvenær líklegt megi telja að viðmiðunarafla hvers tímabils verði náð sbr. 2. gr. Náist ekki að veiða viðmiðunarafla einhvers tímabils bætast ónýttar heimildir við viðmiðunarafla næsta tímabils á eftir. Ráðuneytið tilkynnir síðan frá hvaða degi tiltekinn afli reiknast að fullu til aflamarks.“

Af orðalagi 3. gr. verður ráðið að opnað hafi verið fyrir það fyrirkomulag að næðist ekki að veiða viðmiðunarafla ákveðins tímabils bættust ónýttar heimildir við viðmiðunarafla næsta tímabils á eftir. Af þessu fyrirkomulagi leiddi að tækist ekki að veiða að fullu það magn af afla sem t.d. tímabilið september-nóvember miðaðist við, þ.e. 1080 lestir af þorski, þá var heimilt að veiða magnið af aflanum sem stóð eftir á tímabilinu desember-febrúar. Með þessu fyrirkomulagi var verið að færa eða flytja ónýttan afla á milli tímabila innan sama fiskveiðiárs.

Eins og kvörtun A er sett fram er ljóst að hún beinist að lagagrundvelli tilvitnaðs ákvæðis 3. gr. reglugerðar nr. 642/2006 um flutning afla milli tímabila. Ég tek fram að eftir að kvörtun A barst umboðsmanni og hann ritaði bréf til sjávarútvegsráðuneytisins var reglugerð nr. 642/2006, um línuívilnun, felld úr gildi með 5. gr. reglugerðar nr. 741/2008, um línuívilnun. Í 2. gr. síðarnefndu reglugerðarinnar er gerð grein fyrir umræddri skiptingu í fjögur þriggja mánaða tímabil og í 3. gr. er efnislega sambærilegt ákvæði um flutning ónýtts afla milli tímabilanna og var í 3. gr. reglugerðar nr. 642/2006. Með tilliti til þess hefur athugun mín einnig í meginatriðum beinst að ofangreindu kvörtunarefni eins og það horfir nú við eftir gildistöku reglugerðar nr. 741/2008.

III.

Þegar mat er lagt á lagastoð reglugerðar, sem sett er á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, verður sem endranær að horfa fyrst til þess hvernig texti reglugerðarheimildarinnar er afmarkaður og þá í samhengi við þær lögmæltu efnisreglur sem gilda um það efni sem reglugerðin á að fjalla um.

Að framan er rakið orðalag 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, sbr. áðurgildandi 8. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1990, sbr. 3. gr. laga nr. 147/2003. Að virtu því álitaefni sem á reynir í máli þessu tel ég ljóst að ráða megi í fyrsta lagi af texta ákvæðisins að skýr afstaða löggjafans liggi fyrir um að línuívilnun í þorski skuli takmarkast við 3.375 lestir af óslægðum þorski. Þá beri í öðru lagi að skipta því magni sem ákveðið er hverju sinni af ráðherra í fjögur þriggja mánaða tímabil frá 1. september að telja. Af orðalagi ákvæðisins verður í þriðja lagi ráðið að það magn sem þannig er skipt á milli tímabila er skilgreint sem „viðmiðunarmagn“. Það falli síðan í fjórða lagi undir eftirlitshlutverk Fiskistofu með línuafla að tilkynna ráðuneytinu hvenær „telja megi líklegt“ að „leyfilegu viðmiðunarmagni hvers tímabils verði náð“, enda verður þá í fimmta lagi virk í framhaldinu heimild ráðuneytisins til að tilkynna um það frá hvaða tíma þorskafli á línu, sem veiðst hefur umfram hið leyfilega viðmiðunarmagn á tilteknu tímabili, skuli reiknaður að fullu til aflamarks.

Samkvæmt þessu tel ég ljóst að dregin verði sú ályktun af texta 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 að við framkvæmd veiða á þorski á grundvelli línuívilnunar sé þeim sem hafa til þess heimild aðeins tryggt á hverju þriggja mánaða tímabili það hagræði sem þetta lögmælta fyrirkomulag hefur í för með sér að því marki sem nemur hinu leyfilega viðmiðunarmagni sem ráðherra hefur ákveðið á því sama tímabili. Ef ljóst þykir að mati Fiskistofu að líklegt megi telja að leyfilegu heildarmagni verði t.d. náð hinn 15. október á tímabilinu september-nóvember, þá ber Fiskistofu að tilkynna ráðuneytinu um það. Getur þá ráðuneytið ákveðið að þorskafli á línu sem veiðist eftir þann tíma skuli reiknaður að fullu til aflamarks.

Af hálfu A er gerð athugasemd við þá útfærslu ráðherra í ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 642/2006, sbr. nú efnislega samhljóða ákvæði í 3. gr. reglugerðar nr. 741/2008, að ónýttum heimildum tiltekins tímabils sé bætt við viðmiðunarafla næsta tímabils á eftir, enda náist ekki að veiða viðmiðunarafla fyrra tímabilsins. Verður þá að taka afstöðu til þess hvort reglugerðarheimild lokamálsliðar 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 veiti ráðherra slíka heimild og þá í ljósi þeirra efnisreglna um þorskveiðar línubáta sem að framan hafa verið raktar.

Ég tek í upphafi fram að ekki verður að mínu áliti sjálfkrafa dregin sú ályktun af orðalagi 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 að girt sé fyrir að óveiddum viðmiðunarafla, t.d. á tímabilinu september-nóvember, sé bætt við næsta tímabil, þ.e. desember-febrúar. Ég ítreka að þegar texti ákvæðisins er lesinn og horft til samhengis einstakra setningarliða innbyrðis tel ég verða að skilja útfærslu ákvæðisins þannig að þar sé einkum verið að tryggja að Fiskistofa og sjávarútvegsráðuneytið geti framkvæmt raunhæft og skilvirkt eftirlit með þessum veiðum, og þá þannig að veiðar á hverju þriggja mánaða tímabili fari ekki yfir ákveðið hámark. Veiðar umfram hið leyfilega viðmiðunarmagn tímabils skuli þannig reiknaðar að fullu til aflamarks. Texti ákvæðisins fjallar með öðrum orðum ekkert um þau tilvik þegar ekki tekst að veiða hið leyfilega viðmiðunarmagn innan tiltekins tímabils og þá hvort girt sé fyrir að ráðherra geti á grundvelli reglugerðarheimildar lokamálsliðar ákvæðisins sett efnisreglu af því tagi sem fram kom í áðurnefndu ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 642/2006, sbr. nú 3. gr. reglugerðar nr. 741/2008. Verður þá næst að horfa til þess hvort ráða megi einhverja takmörkun að þessu leyti á heimildum ráðherra til að mæla fyrir um slíkt fyrirkomulag í reglugerð af markmiðum 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, eins og þau verða meðal annars ráðin af lögskýringargögnum.

Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 147/2003 kemur eftirfarandi fram um línuívilnun:

„Í b-lið þessarar greinar er lagt til að tekin verði upp línuívilnun við veiðar dagróðrabáta. Línuívilnunin tekur til línuveiða á þorski, ýsu og steinbít. Enda þótt notað sé orðið dagróðrabátur venju samkvæmt takmarkast þessi heimild ekki við ákveðna stærð skipa. Skilyrði þess að línuskip njóti slíkrar línuívilnunar eru þau að línan sé beitt í landi, róður standi ekki lengur en sólarhring, aflanum sé landað þar sem línan er tekin um borð og báturinn sé með sjálfvirkt tilkynningarkerfi um borð. Línuívilnun í þorski takmarkast við 3.375 lestir sem eru 16% af áætluðum þorskafla dagróðrabáta á árinu 2002. Hins vegar er ekki takmörkun á magni ýsu og steinbíts sem þannig má veiða utan aflamarks á línu, en ráðherra getur sett slíka takmörkun á þær veiðar telji hann ástæðu til.“ (Alþt. 2003-2004, A-deild, bls. 2510.)

Í nefndaráliti meirihluta sjávarútvegsnefndar Alþingis, sem útbúið var í tilefni af ofangreindu frumvarpi, kom meðal annars fram að markmið línuívilnunar væri að styrkja og efla útgerð og fiskvinnslu í sjávarbyggðum. (Alþt. 2003-2004, A-deild, bls. 2742.)

Með vísan til framangreinds tel ég að ekki verði dregin sú ályktun af lögskýringargögnum að baki 3. gr. laga nr. 147/2003, sem lögfesti fyrirrennara umræddrar 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, að með ákvæðinu sé girt fyrir að ráðherra nýti reglugerðarheimild sína með þeim hætti sem gert var í 3. gr. reglugerðar nr. 642/2006, sbr. nú 3. gr. reglugerðar nr. 741/2008. Verður þá að lokum að meta hvort ráðherra hafi við þá útfærslu í reglugerðunum byggt afmörkun sína á málefnalegum sjónarmiðum, sem telja verður að standi í beinum tengslum við orðalag og efni 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, sbr. áður 8. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1990, sbr. 3. gr. laga nr. 147/2003.

Í fyrirspurnarbréfi umboðsmanns Alþingis til sjávarútvegsráðherra, dags. 10. desember 2007, var m.a. vikið að því að í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 147/2003 hefði ekki komið fram sérstök skýring á því hvers vegna talið var rétt að lögbinda skiptingu þess magns, sem línuívilnun er bundin við, við fjögur þriggja mánaða tímabil og láta hlutfallið frá árinu 2002 ráða. Óskaði umboðsmaður af því tilefni eftir nánari skýringum á því hvers vegna var af hálfu ráðherra lagt til að þessi ákvæði yrðu tekin í lögin. Í svarbréfi ráðuneytisins, sem er dags. 2. desember 2008, segir svo:

„Svar: Eins og fram kemur í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins til [A], dags. 18. október 2007, lítur ráðuneytið svo á að tilgangurinn með skiptingu línuívilnunar hafi verið sá að tryggja að sókn breyttist ekki frá því sem verið hefði á næstu árum á undan. Sókninni yrði dreift á árið og þeir sem nýttu sér línuívilnunina gætu stundað veiðar með sem líkustum hætti og fyrir setningu laga nr. 147/2003, um breytingu á lögum nr. 116/2006. Með því að skipta leyfilegri ívilnun á fjögur tímabil hafi jafnframt verið leitast við að tryggja að ívilnunin nýttist sem jafnast fyrir útgerð um land allt. Það er mismunandi eftir svæðum á hvaða tíma línuveiðar eru helst stundaðar og ef skipting ívilnunar á tímabil kæmi ekki til þá gæti það leitt til þess að ívilnunin nýttist aðeins þeim sem línuveiðar stunduðu fyrri hluta fiskveiðiárs. Jafnframt er ljóst að skipting með þessum hætti kom að hluta í veg fyrir það að óheppileg samkeppni yrði í þessum veiðum og að sóknarmynstrið breyttist verulega. Þannig telur ráðuneytið að ákvæðið kunni einnig að hafa verið byggt á m.a. atvinnu- og byggðasjónarmiðum.“

Af tilvitnuðum skýringum sjávarútvegsráðuneytisins verður ráðið að ráðuneytið hafi við setningu 3. gr. reglugerðar nr. 642/2006, sbr. nú 3. gr. reglugerðar nr. 741/2008, byggt m.a. á þeim sjónarmiðum að með því að skipta línuívilnun á fjögur tímabil sé verið að tryggja að hún nýtist sem jafnast fyrir útgerð um allt land. Það sé mismunandi eftir svæðum á hvaða tíma línuveiðar séu helst stundaðar og ef skiptingin kæmi ekki til þá gæti það leitt til þess að línuívilnun nýttist aðeins þeim sem línuveiðar stunduðu fyrri hluta fiskveiðiárs. Einnig komi skiptingin að hluta í veg fyrir það að óheppileg samkeppni yrði í veiðunum og að sóknarmynstrið breyttist verulega. Í niðurlagi bréfs sjávarútvegsráðuneytisins er einnig tekið fram að það telji að sérákvæði sem gilda um línuívilnun við þorskveiðar taki í raun aðeins til þess að heildarmagnið sé lögbundið og mörkuð séu ákveðin tímabil sem „[þykja] nauðsynleg til að tryggja að veiðar dreif[ist] á allt fiskveiðiárið þannig að sem flest svæði n[jóti] ívilnunarinnar og þar með þeir bátar sem nýttu sér hana“. Síðan segir ráðuneytið: „Flutningur ónýttra heimilda milli tímabila er nauðsynleg ráðstöfun sem stefnir að sama marki“.

Þegar litið er til texta 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, og til þess að markmið línuívilnunar er, eins og að framan er rakið, að styrkja og efla útgerð og fiskvinnslu í sjávarbyggðum, tel ég mig ekki hafa forsendur til að telja annað en að framangreind sjónarmið sjávarútvegsráðuneytisins, sem liggja að baki skiptingu magns af þorskafla í fjögur þriggja mánaða tímabil og flutningi ónýtts afla milli tímabilanna, séu málefnaleg. Í þessu sambandi legg ég jafnframt á það áherslu að við mat á lagastoð reglugerða, sem sjávarútvegsráðherra setur á grundvelli laga nr. 116/2006, verður að hafa í huga að ráðherra hefur með lögunum verið fengið víðtækt yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverk við framkvæmd fiskveiðistjórnunar. Verður því að ljá ráðherra að nokkru marki svigrúm við útfærslu ákvæða í almennum stjórnvaldsfyrirmælum, enda verði ekki dregin sú ályktun af texta hlutaðeigandi efnisreglna og reglugerðarheimildar, markmiðum þeirra eða upplýsingum í lögskýringargögnum að þeir valkostir sem ráðherra hefur lagt til grundvallar séu ólögmætir eða reistir á ómálefnalegum sjónarmiðum, m.a. að virtum hagsmunum þeirra sem stunda fiskveiðar við strendur landsins.

Vegna þess hvernig kvörtun A er úr garði gerð tel ég að lokum ástæðu til að draga það fram að það leiðir af þeirri skýru og ótvíræðu ákvörðun löggjafans um línuívilnun í þorski, sem nú kemur fram í 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, að hlutfall línuívilnunar í þorski takmarkast við 3.375 lestir á hverju fiskveiðiári. Ég geri mér grein fyrir því að þetta magn hefur áhrif á hlutdeild aðila, sem gera út báta og standa fyrir utan línuívilnunarfyrirkomulagið, í leyfðum heildarafla. Hef ég þá í huga 3. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006 en þar segir að áður en leyfðum heildarafla sé skipt á grundvelli aflahlutdeildar skuli draga frá aflaheimildir samkvæmt 10. gr. og aflaheimildir og áætlaðan afla til línuívilnunar samkvæmt 11. gr. Af þessu ákvæði leiðir að aflaheimildir í formi svokallaðs byggðakvóta og aflaheimildir og áætlaður afli til línuívilnunar eru dregnar frá áður en leyfðum heildarafla er skipt á grundvelli aflahlutdeildar. Í ákvæði 2. gr. reglugerðar nr. 742/2008, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2008/2009, er þessi framkvæmd útfærð. Samkvæmt þessu er ljóst að línuívilnunarfyrirkomulagið hefur þau áhrif að minni afli er til ráðstöfunar á grundvelli aflahlutdeildar og þar með minnkar hlutdeild annarra en dagróðrabáta í leyfðum heildarafla. Þar sem aflamark ræðst af leyfðum heildarafla og hlutdeild skips í þeim heildarafla, sbr. 4. mgr. 8. gr., er einnig ljóst að skip og aðrir bátar en dagróðrabátar fá úthlutað minna aflamark.

Ég tel mikilvægt að draga framangreint fram vegna þess að hér er um að ræða skerðingu sem löggjafinn sjálfur hefur mælt sérstaklega fyrir um. Það sem skiptir hins vegar máli með tilliti til kvörtunar þessa máls er að þótt ákvæði 3. gr. fyrrnefndrar reglugerðar nr. 741/2008 gerir ráð fyrir því að heimilt sé að veiða það magn af afla sem ekki tekst að veiða á þriggja mánaða tímabili innan fiskveiðiársins á næsta þriggja mánaða tímabili, er ljóst að það fyrirkomulag gengur ekki út á að veiða meiri afla en 3.375 lestir. Fyrirkomulagið snýst í raun um það að nýta þann afla sem ekki tókst að veiða að fullu á einu þriggja mánaða tímabili með því að veiða hann á öðru tímabili eða veiða afla sem ekki tókst að veiða á fyrstu þremur þriggja mánaða tímabilunum á því síðasta. Ég bendi í þessu sambandi á að samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Fiskistofu var sá þorskafli sem veiddur var á fiskveiðiárunum 1. september 2004-31. ágúst 2005, 1. september 2005-31. ágúst 2006, 1. september 2006-31. ágúst 2007 og 1. september 2007-31. ágúst 2008 ekki umfram 3.375 lestir.

Þá minni ég á að í skýringum sjávarútvegsráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis, dags. 2. desember 2008, er áréttað að ef ekki tekst á fiskveiðiári að veiða að fullu þann afla sem fellur undir línuívilnun í þorski, og skipt hefur verið á milli tímabila á grundvelli reglugerðar, fellur sá afli niður og bætist þannig ekki við heildarafla línuívilnunar næsta fiskveiðiárs á grundvelli 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2008. Þegar allt framangreint er haft í huga verður ekki dregin sú ályktun að fyrirkomulag áðurgildandi 3. gr. reglugerðar nr. 642/2006, sbr. nú 3. gr. reglugerðar nr. 741/2008, um flutning ónýtts afla milli tímabila, hafi sem slíkt bein áhrif á réttarstöðu útgerðaraðila sem gera út báta og standa fyrir utan línuívilnunarfyrirkomulagið með þeim hætti að það feli í sér skerðingu á aflaheimildum umfram þá sem leiðir af þeirri skýru afstöðu löggjafans, sbr. nú 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, að koma á tilteknu kerfi línuívilnunar í þorski.

Með tilliti til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að ekki séu af minni hálfu forsendur til að fullyrða að á skorti að 3. gr. reglugerðar nr. 741/2008, um línuívilnun, sbr. áður 3. gr. reglugerðar nr. 642/2006, eigi sér viðhlítandi stoð í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. áður lög nr. 38/1990.

IV.

Í kvörtun A er einnig kvartað yfir því að sjávarútvegsráðuneytið hafi ekki gætt að tilkynningarskyldu sinni gagnvart Fiskistofu samkvæmt 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, en þar kemur fram sem fyrr segir að Fiskistofa fylgist með línuafla og tilkynni ráðuneytinu hvenær telja megi líklegt að leyfilegu viðmiðunarmagni hvers tímabils verði náð. Ráðuneytið tilkynni síðan frá hvaða tíma þorskafli á línu skuli reiknast að fullu til aflamarks. Tekur A m.a. fram að það hafi í tölvubréfi þann 24. júlí 2007 bent ráðuneytinu á að Fiskistofu hefði þegar verið tilkynnt um yfir 255 tonn af þorski. Á þessum tíma hefði því verið tilkynnt um rúm 10 tonn af þorski umfram heimildir samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Fiskistofu. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 642/2006 sé línuívilnun í þorski 245 tonn á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2007. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Fiskistofu frá 24. október 2007 hafi stofnuninni verið tilkynnt um 342,9 tonn eða um 97,9 tonn af þorski umfram heimildir á umræddu tímabili. Með hliðsjón af þessu telja samtökin að ráðuneytinu hafi borið að bregðast við og tilkynna Fiskistofu að þorskafli á línu skyldi reiknast að fullu til aflamarks.

Í svarbréfi sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 18. október 2007, til A, segir að þau svör ráðuneytisins sem vísað er til í bréfi samtakanna byggi á því að samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar hafi 955 lestir enn verið óveiddar af þeim 3.375 lestum sem úthlutað er samkvæmt lögum nr. 116/2006 en umræddar lestir sem ekki hafi veiðst á fyrstu þremur tímabilum ársins hafi flust á tímabilið júní-ágúst í samræmi við ákvæði 2. málsl. 3. gr. reglugerðarinnar. Í svarbréfinu víkur ráðuneytið síðan að því að það telji umrædda reglugerð eiga sér lagastoð og því sé flutningur ónýttra heimilda milli tímabila heimill á grundvelli 2. málsl. 3. gr. hennar.

Það er ljóst af framangreindu að sjávarútvegsráðuneytið hefur á sínum tíma ekki talið ástæðu til að grípa til aðgerða á grundvelli 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 með því að tilkynna frá hvaða tíma þorskafli á línu skuli reiknast að fullu til aflamarks þegar leyfilegum afla á tímabilinu 1. júní-31. ágúst 2007 var náð, þ.e. 245 lestir, þar sem ráðuneytið taldi heimilt að lögum að flytja ónýttan afla frá fyrstu þremur tímabilunum yfir á það tímabil. Í kafla III er það niðurstaða mín að ekki séu forsendur af minni hálfu til að gera athugasemdir við lagastoð 2. málsl. 3. gr. reglugerðar nr. 741/2008, sem mælir fyrir um heimild til að flytja ónýttan afla milli tímabila. Sambærilegt ákvæði var í 2. málsl. 3. gr. reglugerðar nr. 642/2006. Af þessu leiðir að það hvíldi ekki skylda á ráðuneytinu á grundvelli 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem hafði á þeim tíma leyst af hólmi 8. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1990, um að tilkynna frá hvaða tíma þorskafli á línu skyldi reiknast að fullu til aflamarks, þegar A vakti athygli á því í tölvubréfinu til sjávarútvegsráðuneytisins frá 24. júlí 2007 að búið væri að veiða 10 tonn af þorski umfram það sem heimilt var samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Fiskistofu.

Samkvæmt framangreindu geri ég því ekki athugasemd við það að sjávarútvegsráðuneytið hafi ekki í lok júlí 2007 fylgt fyrirmælum 8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, um að tilkynna frá hvaða tíma þorskafli á línu skuli reiknast að fullu til aflamarks þegar veiddur afli á þeim tíma var orðinn meiri en það magn sem tímabilið júní-ágúst miðaðist við.

V.

Með vísan til framangreinds hef ég ákveðið að ljúka umfjöllun minni um mál það sem kvörtun A lýtur að, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þó vek ég athygli á því að ég hef ákveðið að rita meðfylgjandi bréf til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar sem ég kem ábendingu á framfæri vegna þess dráttar sem varð af hálfu ráðuneytisins á að svara fyrirspurnarbréfi umboðsmanns.

Undirritaður hefur sem settur umboðsmaður Alþingis í leyfi kjörins umboðsmanns farið með mál þetta frá 1. janúar sl.

Róbert R. Spanó.