Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Stjórnvaldsákvörðun. Skráningarskylda. Leiðbeiningarskylda. Vandaðir stjórnsýsluhættir.

(Mál nr. 4934/2007)

B leitaði til umboðsmanns Alþingis, fyrir hönd A, og kvartaði yfir því að umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefði ekki svarað fyrirspurnum sem þangað hefði verið beint og ekki látið í té umbeðin gögn. Tilefni umræddra fyrirspurna og beiðni um aðgang að gögnum var bréf umhverfissviðsins til A þar sem henni var tilkynnt að ábending hefði borist til sviðsins um að hún héldi hund án leyfis sem ónæði væri af um nætur. Var A ósátt við þau svör sem hún hafði fengið frá umhverfissviði um þetta atriði, en í svarbréfi þess kom m.a. fram að umhverfissvið upplýsti ekki um nöfn einstaklinga sem kvartað hefðu ef þeir vildu ekki láta nafn síns getið.

Vegna þeirra skýringa umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, um að nafnleyndar þeirra sem kærðu eða sendu ábendingar til sviðsins um hundahald væri ætíð gætt í þessum tilvikum, ákvað umboðsmaður að beina athugun sinni að því hvort og þá að hvaða marki Reykjavíkurborg gæti að lögum lagt til grundvallar í framkvæmd að ávallt væri gætt nafnleyndar þeirra sem kæmu ábendingum á framfæri um atferli einstaklinga og lögaðila sem hugsanlega færi í bága við lög og stjórnvaldsfyrirmæli, þ.á m. um hundahald, sem sveitarfélaginu væri ætlað að hafa eftirlit með og framfylgja.

Í álitinu taldi umboðsmaður rétt að fara nokkrum orðum um almenna þýðingu 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 þegar stjórnvaldi berast munnlega ábendingar eða kærur um ætluð lögbrot sem hlutaðeigandi stjórnvaldi er að lögum ætlað að hafa eftirlit með.

Umboðsmaður rakti viðeigandi ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og ákvæði samþykktar nr. 52/2002, um hundahald í Reykjavík. Taldi hann ótvírætt að ákvörðun sem umhverfissvið Reykjavíkurborgar tæki um undanþágu frá banni við hundahaldi samkvæmt samþykkt nr. 52/2002 teldist stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Væri því umhverfissviði skylt að gæta þeirra málsmeðferðarreglna sem fram kæmu í ákvæðum stjórnsýslulaga. Þá rakti umboðsmaður ákvæði 15.-17. gr. stjórnsýslulaga um upplýsingarétt aðila máls. Umboðsmaður gat ekki fallist á það með umhverfissviði Reykjavíkurborgar að mál er vörðuðu ólögmætt hundahald samkvæmt samþykkt nr. 52/2002 væru með þeim hætti að sveitarfélaginu hefði verið fært að leggja þá almennu framkvæmd til grundvallar að aðila yrði ekki á grundvelli 17. gr. stjórnsýslulaga veittar upplýsingar um nafn þess sem sett hefði fram kæru eða ábendingu um ætlað lögbrot. Umboðsmaður taldi hins vegar ekki útilokað að sveitarfélagið gæti í einstökum tilvikum og þá á grundvelli 17. gr. stjórnsýslulaga verið heimilt að synja beiðni um aðgang að gögnum vegna þess að í þeim kæmu fram upplýsingar um nafn þess sem sett hefði fram kæru eða ábendingu um hundahald. Sú heimild væri þó háð því skilyrði að sveitarfélagið hefði í ljósi allra atvika í tilteknu máli metið það svo að réttur aðila máls til slíkra upplýsinga samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga yrði að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum þess, sem kvartað hefði, eða eftir atvikum að mun ríkari almannahagsmunir stæðu til þeirrar niðurstöðu. Að þessu virtu var það niðurstaða umboðsmanns að umrædd framkvæmd Reykjavíkurborgar í málum er vörðuðu ætluð brot á samþykkt nr. 52/2002 væri ekki í samræmi við lög. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að sveitarfélagið tæki þessa framkvæmd til endurskoðunar og hagaði henni framvegis í samræmi við þau sjónarmið sem lýst væri í álitinu.

Það var einnig niðurstaða umboðsmanns að það hefði verið í betra samræmi við leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ef umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefði bent B á að samkvæmt 6.-8. gr. samþykktar nr. 52/2002 væri almennt gerð sú krafa að sótt væri um undanþágu til hundahalds innan mánaðar frá því að hundur eða hvolpur væri tekinn inn á heimili. Þá taldi umboðsmaður að það hefði verið réttara og í betra samræmi við sjónarmið um aðgang aðila máls að upplýsingum og vandaða stjórnsýsluhætti að umhverfissviðið gerði B skýra grein fyrir því að upplýsingar um nafn þess sem kvartaði yfir hundahaldi væri ekki að finna í gögnum málsins í svörum sínum við fyrirspurnum hans um það atriði.

Að lokum taldi umboðsmaður ekki að slíkir annmarkar hefðu að öðru leyti verið á meðferð umhverfissviðs Reykjavíkurborgar á máli þessu að tilefni væri til þess að hann beindi tilmælum til sviðsins um endurupptöku á máli A.

I. Kvörtun.

Þann 20. febrúar 2007 barst umboðsmanni Alþingis kvörtun B sem hann lagði fram fyrir hönd A. Beindist kvörtunin í meginatriðum að því að umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefði ekki svarað fyrirspurnum sem þangað hefði verið beint og ekki látið í té tiltekin umbeðin gögn. Tilefni umræddra fyrirspurna og beiðni um aðgang að gögnum var bréf umhverfissviðsins til A, dags. 25. júlí 2006, þar sem henni var tilkynnt um að ábending hefði borist til sviðsins um að hún héldi hund sem ónæði væri af um nætur.

Með vísan til kvörtunar málsins og þeirra samskipta sem B hefur átt við umhverfissvið Reykjavíkurborgar fyrir hönd A hef ég ákveðið að beina athugun minni að því hvort sú málsmeðferð sem umhverfissvið Reykjavíkurborgar viðhafði, þegar veitt voru svör við beiðnum B um aðgang að gögnum og fyrirspurnum hans í tengslum við málið, hafi verið í samræmi við lög.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 5. mars 2009.

II. Málavextir.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þau að síðla júlímánaðar 2006 hringdi ónafngreindur einstaklingur í umhverfissvið Reykjavíkurborgar og lagði fram kvörtun vegna ónæðis af hundi í garði á X-vegi. Segir á eyðublaði sem útfyllt var af starfsmanni umhverfissviðsins að nágranni hafi hringt og lagt fram umrædda kvörtun. Hundur hafi verið í garðinum „geltandi og spangólandi [aðfaranótt sunnudags 23. júlí 2006] frá kl. 03“.

Í tilefni af ofangreindri kvörtun ritaði umhverfissvið A bréf þar sem fram kom að borist hefði ábending um að hún héldi hund án leyfis og að kvartað hefði verið yfir ónæði af hans völdum um nætur. Var A bent á þær reglur sem gilda um hundahald í Reykjavík, sbr. samþykkt nr. 52/2002. Var tekið fram að ef A héldi hund án leyfis yrði hún vinsamlegast að fylla út umsóknareyðublað, sem fylgdi með bréfinu, og skila því til umhverfissviðs. Í niðurlagi bréfsins kom fram að væri um misskilning að ræða þá skyldi hún vinsamlegast hafa samband við umhverfissvið eða annan af tveimur tilgreindum hundaeftirlitsmönnum svo hægt væri að leiðrétta hann. Voru í þessu skyni gefin upp þrjú símanúmer viðkomandi aðila.

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar ítrekaði umrætt erindi með bréfi, dags. 28. ágúst 2006. Þar sagði m.a. svo:

„Þann 25. júlí sl. sendi Umhverfissvið Reykjavíkurborgar yður bréf þar sem farið var fram á að þér sæktuð um leyfi til hundahalds fyrir hund yðar. [...] Umhverfissvið Reykjavíkurborgar ítrekar þá kröfu að þér sækið um leyfi til hundahalds fyrir hund yðar. Umsókn skal berast innan tveggja vikna frá dagsetningu þessa bréfs.“

Vegna ofangreindra bréfa umhverfissviðs Reykjavíkurborgar ritaði B bréf til sviðsins, f.h. A, dags. 12. september 2006. Þar fór hann fram á að umhverfissvið upplýsti „nákvæmlega hvert hafi verið efni ofangreindrar svokallaðrar ábendingar og enn fremur hver hefði komið henni á framfæri við stofnunina og hvernig og hvenær þetta hafi gerst.“ Þá krafðist B þess í bréfinu að upplýst yrði „skilmerkilega um með hvaða hætti stofnunin hafi leitast við að staðreyna réttmæti hinnar svokölluðu ábendingar áður en ákveðið [hefði verið] að ráðast“ í ritun bréfs til A og að umhverfissvið léti honum í té „ítarlegar skýringar á því hvaða merking [væri] af hálfu stofnunarinnar fólgin í orðasambandinu „að halda hund“, auk þess sem umsóknareyðublað sem fylgdi bréfi stofnunarinnar til A var endursent.

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar svaraði ofangreindu bréfi B með bréfi, dags. 18. september 2006. Kemur þar fram að ábending hafi borist frá nágrönnum A. Kvörtunin hafi beinst að ónæði frá hundi í garði hennar að X-vegi aðfaranótt 23. júlí 2006. Í bréfi umhverfissviðs segir m.a. svo:

„Umhverfissviði ber að sinna þeim kvörtunum sem því berst [...]. Í fyrra bréfinu var umbjóðanda yðar tilkynnt að kvörtun hafi borist auk þess sem honum var boðið upp á að andmæla kvörtuninni ef hún væri ekki á rökum reist ásamt leiðbeiningum um við hvern hann gæti talað. [...] Umhverfissvið getur ekki staðfest kvartanir aftur í tímann en með þessu móti boðið viðkomandi að tjá sig um málið, enda eðlilegt að upplýst sé um að kvartanir berist. Umhverfissvið upplýsir ekki um nöfn einstaklinga sem kvarta ef þeir vilja ekki láta nafns síns getið.

Þar sem fram kemur í bréfi yðar að yður sé ekki ljóst hvað felist í að halda hund, þá er það þegar hundur er haldinn að staðaldri eða dvelst langdvölum á viðkomandi stað. Ekki er átt við stuttar heimsóknir. Hins vegar á við heimsóknir hunds, að eigendur hundsins eða forráðamenn húsnæðis eiga að sjá til þess að heimsókn valdi ekki öðrum ónæði.

Með bréfinu er endursent skráningareyðublað og túlkast það sem ekki sé haldinn hundur að [X-vegi] [...].“

Með ítarlegu bréfi, dags. 12. desember 2006, ítrekaði B m.a. fyrri beiðni sína um skýringar frá umhverfissviði, þ.e. að útskýrt yrði nákvæmlega hvert hefði verið efni upphaflegrar ábendingar og hver hefði komið henni á framfæri og hvernig og hvenær og með hvaða hætti umhverfissvið hefði leitast við að staðreyna réttmæti ábendingarinnar áður en A var skrifað. Þá var þess óskað aftur að sviðið léti í té ítarlegar skýringar á því hvaða merkingu sviðið legði í „að halda hund“. Í bréfinu var leitast við að rökstyðja mikilvægi þess að sá, er væri sent bréf af því tagi sem A fékk, fengi upplýsingar um hvenær ábending um hundahald hefði komið fram, með hvaða hætti og af hverjum. Var því andmælt að umhverfissviði Reykjavíkurborgar væri heimilt að halda leyndu nafni þess einstaklings sem borið hefði fram „umræddar ásakanir“ á hendur A. Með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var sérstaklega áréttuð krafa um „nafngreiningu tilkynnandans“. Loks lagði B fram kröfu í þremur liðum: Í fyrsta lagi um aðgang að öllum gögnum sem til væru varðandi mál A. Í öðru lagi að upplýst yrði hvort stofnunin hefði, eftir að henni barst fyrra bréf hans, leitað til þess einstaklings sem bar fram umrædda ábendingu til að afla sér nánari vitneskju til að byggja svör sín á og í þriðja lagi að upplýst yrði hvort sú skýring sem stofnunin lét honum í té á orðasambandinu „að halda hund“ væri fengin úr skráðum vinnureglum stofnunarinnar eða hvort um væri að ræða skýringu sem viðkomandi starfsmaður hefði „samið frá eigin brjósti“.

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar svaraði fyrirspurn B með bréfi, dags. 2. janúar 2007. Þar segir m.a. svo:

„Varðandi svör við bréfi yðar dags. 12. desember 2006 þá er Umhverfissvið með bréfum sínum [...] að sinna rannsóknarskyldu sinni og afla frekari upplýsinga í kjölfar ábendingar. Í samræmi við góða stjórnsýslu er réttast að snúa sér beint til þess er málið varðar enda á viðkomandi rétt á að vita að mál hvað hann varðar séu til skoðunar hjá embættinu. Ekki er verið að bera neinar sakir á umbjóðanda yðar, enda andmælaréttur veittur og leiðbeiningar, eins og áður hefur komið fram. Þeirri spurningu var beint til viðkomandi hvort hundur sé haldinn á staðnum og er þeirri spurningu enn ósvarað. Ítrekuð er hér með krafa um svar við þeirri spurningu. Í bréfinu dags. 12. desember 2006 koma fram andmæli yðar um að hundur hafi verið í garðinum að [X-vegi] nóttina 23. júlí 2006 og eru þau andmæli tekin til greina.“

Í kjölfar þessa svars umhverfissviðs leitaði B til umboðsmanns Alþingis með framangreinda kvörtun.

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda.

Í tilefni af kvörtuninni ritaði umboðsmaður Alþingis umhverfissviði Reykjavíkurborgar bréf, dags. 6. mars 2007. Benti umboðsmaður þar á að í bréfi, dags. 12. desember 2006, hefði B meðal annars óskað eftir afritum af gögnum málsins en ekki væri að sjá að umhverfissvið hefði tekið afstöðu til þeirrar beiðni í svörum sínum til hans. Með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, óskaði umboðsmaður því eftir upplýsingum um hvort tekin hefði verið afstaða til beiðninnar, auk þess sem hann óskaði þess að honum yrðu afhent umrædd gögn.

Umhverfissviði var í upphafi gefinn frestur til 20. mars 2007 til að svara bréfi umboðsmanns. Þann frest féllst umboðsmaður á að framlengja til 28. mars 2007 með bréfi, dags. 12. sama mánaðar. Þar sem umboðsmanni höfðu enn ekki borist svör umhverfissviðs ítrekaði hann erindi sitt með bréfi, dags. 20. apríl 2007, en svar barst honum 27. þess mánaðar. Annars vegar var þar um að ræða bréf sviðsins til umboðsmanns Alþingis, dags. 27. apríl 2007, þar sem fram kom að fyrir mistök virtist svarbréf stofnunarinnar, dags. 27. mars 2007, ekki hafa verið sent umboðsmanni á þeim tíma. Hins vegar var þar um að ræða bréfið sjálft, dags. 27. mars 2007, ásamt gögnum málsins en í bréfinu segir m.a. eftirfarandi:

„Jafnframt því að senda yður gögn málsins skal eftirfarandi tekið fram í sömu röð og liðum og kröfur [B] koma fram í ofangreindu bréfi hans.:

a. Ekki er ljóst af meðferð málsins hér, að honum hafi verið send gögn málsins. Fylgja þau því bréfi þessu.

b. Spurningu [B] um hvort leitað hafi verið til þess einstaklings, sem bar fram ábendingu um hundahald að [X-vegi] er svarað með bréfi dags. 2. janúar 2007.

c. Skýringar til [B] á hundahaldi er að finna í samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002 með síðari breytingum.“

Umboðsmaður Alþingis ritaði umhverfissviði á ný bréf, dags. 7. maí 2007. Þar óskaði hann með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir svofelldum skýringum og upplýsingum sviðsins:

„1. Af svari umhverfissviðs má ráða að [B] hafi enn ekki verið send afrit af þeim gögnum sem hann óskaði eftir með bréfi, dags. 12. desember 2006. Sé það rétt óska ég eftir að umhverfissvið upplýsi mig hvernig það samræmist 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem kveðið er á um að aðili máls eigi rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varða og fá afrit af þeim hjá því stjórnvaldi sem hefur mál til meðferðar.

2. Af bréfi yðar til mín má einnig ráða að fyrirspurn [B] varðandi hvaðan umhverfissvið fái skilning sinn á því hvað það sé að halda hund hafi ekki verið svarað, en í svari yðar kemur fram að þann skilning sé að finna í samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002, með síðari breytingum. Hafi áðurnefndri fyrirspurn [B] ekki verið svarað óska ég eftir skýringum umhverfissviðs á því hvernig það samrýmist leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, en í 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um skyldu stjórnvalda að veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess.

3. Hafi [B] hins vegar fengið afrit af þeim gögnum sem hann óskaði eftir í bréfinu frá 12. desember sl. og framangreindri fyrirspurn hans verið svarað óska ég eftir að mér verði sent afrit af svari umhverfissviðs til [B].“

Í bréfi umboðsmanns Alþingis óskaði hann eftir að svar bærist honum eigi síðar en 21. maí 2007. Þá ósk ítrekaði umboðsmaður með bréfum, dags. 13. júní 2007, 10. september 2007 og 9. október 2007. Hinn 7. nóvember 2007 ritaði umboðsmaður umhverfissviði á ný og ítrekaði fyrirspurn sína auk þess sem hann sendi afrit ítrekunarinnar til borgarlögmanns. Umboðsmanni barst svar umhverfissviðs 28. nóvember 2007 en þar sagði m.a. eftirfarandi:

„l. Það er upplýst í málinu, að [B] hafa verið send öll skjöl málsins sbr. bréf Umhverfissviðs dags. 18. september 2006 og 2. janúar 2007. Afrit ofangreindra bréfa hafa þegar verið send umboðsmanni.

2. [B] hefur ítrekað verið leiðbeint um hundahald í Reykjavík. Hann hefur hins vegar ekki sætt sig við þær leiðbeiningar og ekki viljað þiggja þær. Hann hefur ítrekað komið fram sem sérfræðingur í samþykkt um hundahald í Reykjavík og lýst því yfir, að lagaleg þekking Umhverfissviðs sé ekki nægileg. Vísast þar til m.a. meðfylgjandi úrskurðar úrskurðarnefndar skv. 1. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem fylgir bréfi þessu.

3. Fyrirspurn [B] um „gögn“ í bréfi hans dags. 12. desember s.l. var svarað með bréfi Umhverfissviðs 2. janúar 2007. Á Umhverfissviði er daglega tekið við ábendingum um ólögmætt hundahald. Oftar en ekki eru ábendingar þessar nafnlausar, eða kvartandi vill ekki að nafn sitt sé nefnt í sambandi við ábendinguna. Oftast er það vegna þess að um nágranna eða íbúa í sama fjöleignahúsi er að ræða og vill þá kvartandi ekki þurfa að vinna gegn ólögmætu hundahaldi sjálfur, heldur óskar eftir því, að Umhverfissvið annist það. Í öllum tilvikum eru þessar óskir virtar. Þeim, sem grunaður er um ólögmætt hundahald, er sent bréf þar sem honum er bent á ábendinguna. Jafnframt eru honum send gögn til skráningar. Viðkomandi er einnig beðinn um að láta vita, ef hann telur kvörtunina ekki á rökum reista og veittur andmælaréttur. Ávallt er reynt að staðreyna kvörtunina, þegar hún berst. Meðfylgjandi eru afrit af bréfum þessum. Í tilviki [A] var kvörtunin staðfest af hundaeftirlitsmanni. [B] var ekki tilkynnt, hver hafði kvartað um hundahaldið, enda nafn kvartanda ekki til í málinu.“

Þá segir eftirfarandi um skýringar á drætti á svörum:

„Undirritaður vill biðja umboðsmann sérstaklega afsökunar á þeim drætti sem hefur orðið á svörum þessum. Það er ekki í samræmi við reglur og siði Umhverfissviðs að svara ekki erindum og síst erindum sem þessum. Þótt óafsakanlegt sé, á undirritaður sér þær einar málsbætur, að hafa síðan í apríl s.l. þurft að sinna starfi sviðsstjóra Umhverfissviðs, ásamt starfi skrifstofustjóra og fjármálastjórastarfi stofnunarinnar og því ýmislegt, sem dregist hefur í störfum mínum. Ég vil því ítreka afsökunarbeiðni mína til umboðsmanns.“

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2007, gaf umboðsmaður Alþingis B kost á að gera athugasemdir við framangreint svarbréf umhverfissviðs. Athugasemdir B bárust umboðsmanni með bréfi, dags. 12. desember 2007.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1. Afmörkun athugunar.

Í kvörtun A eru gerðar athugasemdir við að umhverfissvið Reykjavíkurborgar hafi ekki í samræmi við beiðni umboðsmanns hennar frá 12. september 2006 afhent henni öll gögn sem til voru um mál hennar og þá einkum og sér í lagi gögn sem hefðu að geyma upplýsingar um hvernig umhverfissviði barst ábending um ónæði af hundi að X-vegi. Ræð ég það af kvörtuninni að hún sé ósátt við þau svör sem hún hafi fengið frá umhverfissviði um þetta atriði en í svarbréfi þess, dags. 18. september 2006, kemur fram að ábending hafi borist frá nágrönnum vegna ónæðis af hundi í garði A að X-vegi aðfaranótt 23. júlí 2006. Umhverfissvið upplýsi hins vegar ekki um nöfn einstaklinga sem kvarta ef þeir vilja ekki láta nafn síns getið.

Ljóst er að í þeim gögnum sem Reykjavíkurborg hefur afhent umboðsmanni Alþingis vegna athugunar hans á þessu máli er ekki að finna neinar upplýsingar um hvernig umrædd ábending barst, umfram þær sem þegar hafa komið fram í svarbréfi umhverfissviðs til umboðsmanns A. Ég hef af þessum sökum ekki forsendur til að fjalla nánar það um hvort umhverfissviði Reykjavíkurborgar hafi borið að skrá upplýsingar um nafn og heimilisfang þess sem bar fram umrædda kvörtun, sbr. ákvæði 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, enda verður ekki séð að teknar hafi verið efnislegar ákvarðanir á grundvelli þeirra nafnlausu ábendinga sem bárust umhverfissviði eða að aðhafst hafi verið eitthvað umfram það að óska eftir skýringum A vegna ábendingarinnar. Í þessu sambandi tek ég fram að í bréfi umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, dags. 2. janúar 2007, til umboðsmanns A er tekið fram að í bréfi hans til sviðsins, dags. 12. desember 2006, komi fram andmæli hans við því að hundur hafi verið í garðinum að X-vegi aðfaranótt 23. júlí 2006. Í bréfi umhverfissviðsins segir síðan að „þau andmæli [séu] tekin til greina“. Skil ég þessa afstöðu umhverfissviðs Reykjavíkurborgar þannig að í framhaldi af skýringum umboðsmanns A hafi verið ákveðið að ljúka meðferð málsins og grípa ekki til frekari aðgerða. Hvað sem þessu líður mun ég í kafla IV.3 í þessu áliti fara nokkrum orðum um almenna þýðingu 23. gr. upplýsingalaga þegar stjórnvöldum berast munnlega ábendingar eða kærur um ætluð lögbrot sem hlutaðeigandi stjórnvaldi er ætlað að hafa eftirlit með að lögum.

Þótt umhverfissvið Reykjavíkurborgar hafi samkvæmt framangreindu ekki aðhafst sérstaklega gagnvart A á grundvelli þeirra valdheimilda sem því eru fengnar í lögum hefur sú almenna afstaða sem lýst er í bréfi þess til umboðsmanns hennar og síðan skýringum þess til umboðsmanns Alþingis, um að nafnleyndar þeirra sem kæra eða senda ábendingar til sviðsins um hundahald sé ætíð gætt í þessum tilvikum, orðið mér tilefni til þess að fjalla nánar um þetta atriði. Í samræmi við þetta hefur athugun mín á þessari kvörtun einkum beinst að því hvort og þá að hvaða marki Reykjavíkurborg geti að lögum lagt til grundvallar í framkvæmd að ávallt sé gætt nafnleyndar þeirra sem koma ábendingum á framfæri um atferli einstaklinga eða lögaðila sem hugsanlega fer í bága við lög og stjórnvaldsfyrirmæli, þ. á m. um hundahald, sem sveitarfélaginu er ætlað að hafa eftirlit með og framfylgja, sjá kafla IV.3. Þá hef ég einnig tekið til athugunar svör umhverfissviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurnum umboðsmanns A, sjá kafla IV.4.

2. Lagagrundvöllur málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, með síðari breytingum, skal ekkert sveitarfélag vera án heilbrigðiseftirlits. Skiptist landið í sérstök heilbrigðiseftirlitssvæði og skal sérstök heilbrigðisnefnd starfa á hverju svæði, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Reykjavíkursvæði er eitt eftirlitssvæða samkvæmt lögunum og er starfssvæði þess umdæmi Reykjavíkurborgar, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna. Hlutverk heilbrigðisnefnda er að sjá til þess að ákvæðum laganna sé framfylgt og þá jafnframt þeim stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli laganna, sbr. 13. gr. Í þessu skyni ráða nefndirnar sér heilbrigðisfulltrúa sem annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna.

Í 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er kveðið á um að sveitarstjórn sé heimilt að sameina nefndir þannig að ein nefnd fari með verkefni á fleiri en einu sviði þótt svo sé kveðið á í lögum að kjósa skuli sérstaka nefnd til þess að fara með tiltekin verkefni. Á þeim tíma sem atvik þessa máls áttu sér stað var Umhverfisráði Reykjavíkurborgar, nú umhverfis- og samgönguráði, sbr. samþykkt nr. 1200/2007, um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, falið að annast verkefni heilbrigðisnefnda samkvæmt lögum nr. 7/1998. Á sama tíma hafði sérstakt svið, umhverfissvið, umsjón með framkvæmd stefnu og verkefna ráðsins og samskipti við aðrar stofnanir borgarinnar, en þetta hlutverk er nú í höndum umhverfis- og samgöngusviðs.

Sveitarfélög geta á grundvelli 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum settum á grundvelli laganna eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram koma í þeim. Meðal þeirra atriða sem sveitarfélög geta kveðið á um í samþykktum sínum að þessu leyti eru reglur um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, en Reykjavíkurborg hefur á grundvelli þessarar heimildar sett sérstaka samþykkt um hundahald í Reykjavík, sbr. samþykkt nr. 52/2002, um hundahald í Reykjavík. Hefur samþykktin hlotið staðfestingu umhverfisráðherra, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Á þeim tíma er atvik máls þessa áttu sér stað sagði í 1. mgr. 1. gr. samþykktar nr. 52/2002 að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur annaðist málefni hunda og hundahalds í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur í umboði heilbrigðisnefndar Reykjavíkur. Með 1. mgr. 1. gr. samþykktar nr. 410/2007, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 23. apríl 2007, var gerð breyting á 1. mgr. 1. gr. fyrri samþykktar. Í þeirri breytingu fólst að eftir hana var sérstaklega tiltekið í samþykktinni að umhverfisráð Reykjavíkurborgar færi með málefni heilbrigðisnefndar Reykjavíkursvæðis samkvæmt lögum nr. 7/1998, sbr. heimild í 1. mgr. 41. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Samkvæmt því ákvæði fer umhverfisráð nú með málefni hunda og hundahalds í lögsagnarumdæmi Reykjavíkurborgar og annast umhverfissvið Reykjavíkurborgar þau mál í umboði ráðsins.

Samkvæmt 2. gr. samþykktar nr. 52/2002 er hundahald bannað í Reykjavík nema að fenginni undanþágu og að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í samþykktinni. Er þá gert ráð fyrir því í samþykktinni að þeir sem óska slíkrar undanþágu sæki sérstaklega um hana, sbr. 3. gr. samþykktarinnar.

Þótt umhverfissvið Reykjavíkurborgar fallist á leyfi til að halda hund samkvæmt samþykktinni ber handhafi slíks leyfis eftir sem áður ákveðnar skyldur á grundvelli samþykktarinnar. Er að því leyti sérstaklega kveðið á um það í 1. mgr. 13. gr. að leyfishafi skuli gæta þess vel, að hundur hans valdi ekki hættu, óþægindum eða óþrifnaði, né raski ró manna. Ef hundeigandi brýtur gegn þessu ákvæði er gert ráð fyrir því í 20. gr. samþykktarinnar að umhverfissvið geti afturkallað leyfi hundeigenda og/eða bannað honum að vera með hund í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. Auk þess er í 22. gr. samþykktarinnar mælt fyrir um það að brot gegn henni varði „sektum eða varðhaldi“.

Með vísan til framangreindra lagareglna tel ég ótvírætt að ákvörðun sem umhverfissvið Reykjavíkurborgar tekur um undanþágu frá banni við hundahaldi samkvæmt samþykkt nr. 52/2002 teljist stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umhverfissviði er því skylt að gæta þeirra málsmeðferðarreglna sem fram koma í ákvæðum stjórnsýslulaga, þar á meðal um rétt aðila máls til aðgangs að gögnum og leiðbeiningarskyldu, þegar þau taka mál til umfjöllunar á grundvelli valdheimilda þess samkvæmt lögum nr. 7/1998 og samþykkt nr. 52/2002, um hundahald í Reykjavík.

3. Ábendingar eða kærur til stjórnvalda

og réttur aðila máls til aðgangs að gögnum.

Í 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um rétt aðila máls til að fá að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varða. Að því marki sem gögn máls falla ekki undir þær tegundir skjala og gagna sem talin eru í 1.-3. tölul. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga verður réttur aðila máls til aðgangs að gögnum ekki takmarkaður nema þegar sérstaklega stendur á, og þá aðeins ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum, sbr. 17. gr. laganna.

Ákvæði 17. gr. stjórnsýslulaga gerir ráð fyrir því að þegar stjórnvaldi berst beiðni um aðgang að gögnum þá beri því að meta upplýsingar í einstökum gögnum með tilliti til þeirra andstæðu hagsmuna sem uppi eru í hverju tilviki. Er þá ekki nóg að staðreyna að þeir almanna- eða einkahagsmunir sem í húfi eru séu að nokkru ríkari en hagsmunir aðila máls af því að notfæra sér upplýsingar úr gögnum þess, til að heimilt sé að takmarka aðgang að tilteknum gögnum, heldur er einungis gert ráð fyrir því að réttur aðila máls til aðgangs þoki fyrir „mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum“.

Samkvæmt framangreindu á aðili máls á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga að jafnaði rétt til að kynna sér gögn máls meðan það er til meðferðar hjá stjórnvöldum og einnig eftir að ákvörðun hefur verið tekin. Af þessu leiðir að taki Reykjavíkurborg til meðferðar mál sem lýtur að því hvort eigandi hunds hafi gerst brotlegur við samþykktir sveitarfélagsins um hundahald og hvort tilefni sé til þess að hann sæti sérstökum viðurlögum samkvæmt ákvæðum samþykktarinnar og laga nr. 7/1998, þá getur eigandi hunds, sem aðili máls, almennt krafist þess á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga að fá aðgang að gögnum sem aflað hefur verið við undirbúning málsins. Getur hann þá á sama grundvelli krafist þess að fá afhent gögn með upplýsingum um nöfn þeirra sem látið hafa stjórnvöldum í té upplýsingar vegna málsins, liggi slík gögn á annað borð fyrir. Reykjavíkurborg verður að verða við slíkri beiðni nema upplýsingaréttur aðila máls verði að réttu lagi takmarkaður á grundvelli 16. eða 17. gr. stjórnsýslulaga, sem áður eru raktar.

Eins og fram kemur í kafla II, og ráðið verður af þeim gögnum sem umboðsmanni Alþingis hafa verið afhent, var umhverfissviði Reykjavíkurborgar ekki mögulegt að verða við kröfu umboðsmanns A um að honum yrðu veittar upplýsingar um nafn þess sem bar fram kvörtun yfir hundahaldi í garði A þar sem umhverfissvið hafði hvorki þessar upplýsingar né nein gögn þar um undir höndum. Í bréfi umhverfissviðs til umboðsmanns A, dags. 18. september 2007, er hins vegar lýst þeirri almennu afstöðu að umhverfissvið „[upplýsi] ekki um nöfn einstaklinga sem kvarta ef þeir vilja ekki láta nafns síns getið“. Um ástæður þess segir nánar svo í skýringum umhverfissviðs til mín, sem teknar eru einnig orðrétt upp í kafla II hér að framan:

„Oftast er það vegna þess að um nágranna eða íbúa í sama fjöleignahúsi er að ræða og vill þá kvartandi ekki þurfa að vinna gegn ólögmætu hundahaldi sjálfur, heldur óskar eftir því, að Umhverfissvið annist það. Í öllum tilvikum eru þessar óskir virtar. Þeim, sem grunaður eru um ólögmætt hundahald, er sent bréf þar sem honum er bent á ábendinguna. Jafnframt eru honum send gögn til skráningar. Viðkomandi er einnig beðinn um að láta vita, ef hann telur kvörtunina ekki á rökum reista og veittur andmælaréttur. Ávallt er reynt að staðreyna kvörtunina, þegar hún berst.“

Rétt eins og rakið er í kafla IV.1. hér að framan hef ég ekki forsendur til að fjalla um hvort umhverfissvið Reykjavíkurborgar hafi borið á grundvelli 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að skrá sérstaklega upplýsingar um hver bar fram kvörtun vegna hundahalds í máli A. Ég tel þó tilefni til að benda með almennum hætti á að samkvæmt nefndu ákvæði upplýsingalaga ber stjórnvaldi við meðferð mála, þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, að skrá upplýsingar um málsatvik sem því eru veittar munnlega ef þær hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og þær er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Ef fram koma hjá þeim, sem leitar til sveitarfélags með munnlega ábendingu eða kæru um brot á lögum eða samþykktum, efnislegar upplýsingar um atvik máls, sem hafa í framhaldinu verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins, ber sveitarfélaginu að skrá slíkar upplýsingar og þá meðal annars nafn þess sem setur þær fram. Við þær aðstæður liggja upplýsingarnar fyrir í gögnum málsins, þ.á m. nafn þess sem sett hefur fram ábendingu, og til greina kann að koma að stjórnvaldi beri skylda til að veita aðila máls aðgang að slíkum upplýsingum á grundvelli 15. gr. stjórnsýslulaga, sem áður er rakin, nema undantekningarákvæði 16. eða 17. gr. sömu laga eiga við. Með þetta í huga getur stjórnvald almennt ekki án lagaheimildar lofað þeim, sem til þess leitar með munnlega eða skriflega ábendingu eða kæru um ætlað lögbrot annars einstaklings eða lögaðila, að nafn hlutaðeigandi komi ekki fram í gögnum málsins og að sá, sem málið varðar, fái ekki aðgang að slíkum upplýsingum. Af skráningarskyldu 23. gr. upplýsingalaga leiðir jafnframt að stjórnvaldi ber almennt í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að skrá þegar í upphafi nafn þess sem setur fram munnlega ábendingu eða kæru um ætlað lögbrot og þau atvik sem hann lýsir, enda kann sú lagaskylda sem umrætt ákvæði upplýsingalaga mælir fyrir um að verða virk í framhaldinu. Sú lagaskylda verður sem fyrr segir virk ef ljóst þykir að hinar munnlegu upplýsingar eru taldar hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins þar sem til greina kemur að taka ákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Í ljósi þess hvernig ákvæði 15. og 17. gr. stjórnsýslulaga eru orðuð, og að virtu samhengi þeirra innbyrðis, hefur verið lagt til grundvallar í íslenskum stjórnsýslurétti að stjórnvald geti að jafnaði ekki synjað aðila um aðgang að gögnum máls á grundvelli almennra hugleiðinga um að aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga, þ. á m. nafn þess sem kært hefur mál eða sett fram ábendingu um lögbrot, sé almennt fallinn til að valda tjóni. Sérstakt mat verður að fara fram í hverju máli og þá með því að stjórnvald meti sérstaklega hvort þau gögn eða þær upplýsingar, sem aðili máls óskar aðgangs að, verði réttilega undanþegin aðgangi aðila máls á grundvelli 17. gr. stjórnsýslulaga. Ekki sé því að jafnaði unnt að undanþiggja almennt ákveðin málefnasvið eða vissar tegundir upplýsinga, sjá til hliðsjónar ritgerð Páls Hreinssonar: Upplýsingaréttur aðila máls. Úlfljótur, 2. tbl. 60. árg. 2007, bls. 231, og til samanburðar úr dönskum rétti, John Vogter: Forvaltningsloven, 3. útg., Kaupmannahöfn 2001, bls. 309.

Eins og að framan er rakið birtist sú afstaða í bréfi umhverfissviðs Reykjavíkurborgar til umboðsmanns A, dags. 18. september 2007, og skýringum þess til umboðsmanns Alþingis, að umhverfissvið upplýsir almennt ekki um nöfn þeirra sem kvarta vegna hundahalds jafnvel þótt gögn þar um liggi fyrir. Af skýringum sviðsins verður ráðið að þessi afstaða helgist einkum af sjónarmiðum um að firra þá sem færa fram ábendingar óþægindum af því að fylgja málinu frekar eftir. Í bréfi umhverfissviðsins til umboðsmanns Alþingis, sem barst 28. nóvember 2007, er þessi framkvæmd nánar tiltekið rökstudd með því að sá sem leitar til umhverfissviðsins þurfi þannig ekki „að vinna gegn ólögmætu hundahaldi sjálfur, heldur óskar eftir því, að umhverfissvið annist það“.

Ég tel ekki þörf á því í þessu máli að taka afstöðu til þess hvort samspil 15. og 17. gr. stjórnsýslulaga útiloki í öllum tilvikum að stjórnvald geti í algerum undantekningartilvikum, einkum vegna mun ríkari almannahagsmuna í tilteknum málaflokki, án sérstakrar lagaheimildar byggt almennt á þeirri framkvæmd að aðila máls verði ekki á grundvelli síðarnefnda ákvæðisins veittar upplýsingar um nafn þess sem sett hefur fram kæru eða ábendingu um ætlað lögbrot. Ég tek aðeins fram að ég get ekki fallist á það með umhverfissviði Reykjavíkurborgar að mál er varða ætlað ólögmætt hundahald samkvæmt samþykkt nr. 52/2002 séu almennt því marki brennd, eða atvik í slíkum málum í eðli sínu jafnan á þá leið, að sveitarfélaginu hafi verið fært að leggja slíka almenna framkvæmd til grundvallar í þessum málaflokki. Ég ítreka að ekki er útilokað að sveitarfélagið geti í einstökum tilvikum og þá á grundvelli 17. gr. stjórnsýslulaga verið heimilt að synja beiðni um aðgang að gögnum vegna þess að í þeim koma fram upplýsingar um nafn þess sem setur fram kæru eða ábendingu um hundahald. Sú heimild er þó háð því skilyrði að sveitarfélagið hafi í ljósi allra atvika í tilteknu máli metið það svo að réttur aðila máls til slíkra upplýsinga samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga verði að víkja fyrir mun ríkari einkahagsmunum þess, sem kvartað hefur, eða eftir atvikum að mun ríkari almannahagsmunir standi til þeirrar niðurstöðu. Það mat fer ekki fram fyrr en að upplýsingarnar liggja fyrir og stjórnvaldinu er fært að meta efnislega hvernig háttað er annars vegar samspili hins almenna upplýsingaréttar aðila máls samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga og þeim þröngu takmörkunarheimildum á þeim rétti sem mælt er fyrir um í 17. gr. sömu laga.

Það leiðir af framangreindu að fari umhverfissvið Reykjavíkurborgar þá leið, eins og í máli A, að fylgja þeirri framkvæmd að gæta ávallt nafnleyndar þá leiðir slík framkvæmd í reynd til þess að það mat sem 17. gr. stjórnsýslulaga áskilur að fara skuli fram á innbyrðis vægi hagsmuna aðila máls af því að fá aðgang og öðrum almanna- og einkahagsmunum fer ekki fram. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin tel ég að slík almenn framkvæmd geti ekki í þessum málaflokki talist í samræmi við meginreglu 15. gr. stjórnsýslulaga um upplýsingarétt aðila máls, eins og sá réttur verður afmarkaður með hliðsjón af 17. gr. sömu laga. Að þessu virtu er það niðurstaða mín að umrædd framkvæmd Reykjavíkurborgar í málum er varða ætluð brot á samþykkt nr. 52/2002, um hundahald í Reykjavík, sé ekki í samræmi við lög.

4. Svör umhverfissviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurnum.

Í kvörtun umboðsmanns A fyrir hennar hönd eru gerðar athugasemdir við það hvernig umhverfissvið Reykjavíkurborgar hagaði svörum við beiðnum hans um skýringar á orðalaginu „að halda hund“ úr bréfi umhverfissviðs til A, dags. 25. júlí 2006, en þar sagði að sviðinu hefði borist ábending um að hún „héldi hund“ án leyfis. Í bréfi umboðsmanns A til umhverfissviðs, dags. 12. september 2006, óskaði hann þess m.a. að umhverfissvið Reykjavíkur léti honum í té „ítarlegar skýringar á því hvaða merking væri af hálfu stofnunarinnar talin fólgin í orðasambandinu „að halda hund“ og að stofnunin [færði] rök að áliti sínu hvað þetta [varðaði]“.

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar svaraði erindi umboðsmanns A með bréfi, dags. 18. september 2006, en þar sagði svo um þetta atriði:

„Þar sem fram kemur í bréfi yðar að yður sé ekki ljóst hvað felist í að halda hund, þá er það þegar hundur er haldinn að staðaldri eða dvelst langdvölum á viðkomandi stað. Ekki er átt við stuttar heimsóknir. Hins vegar á við heimsóknir hunds, að eigendur hundsins eða forráðamenn húsnæðis eiga að sjá til að heimsókn valdi ekki öðrum ónæði.“

Í bréfi umboðsmanns A til umhverfissviðs, dags. 12. desember 2006, ítrekaði hann fyrri kröfur sínar um upplýsingar, auk þess sem hann óskaði eftir því að gögn málsins yrðu afhent honum, og þá einkum gögn um það hvernig ábending um hundahald A hefði verið skráð þegar hún barst. Væru slík gögn ekki til, eða hefðu þau aldrei verið til, var gerð krafa um að umhverfissvið lýsti því afdráttarlaust að svo væri. Óskaði hann jafnframt eftir því að umhverfissvið upplýsti hvort það hefði leitað aftur til þess einstaklings sem kom fram með ábendinguna til sviðsins um hund í garði A og að upplýst yrði hvort sú lýsing sem fram kæmi í bréfi sviðsins væri fengin úr skráðum vinnureglum þess eða hvort um væri að ræða skýringu sem sá starfsmaður, sem undirritaði bréfið, hefði samið frá eigin brjósti vegna fyrirspurnar hans.

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar sendi umboðsmanni A svarbréf, dags. 2. janúar 2007, en yfirskrift bréfsins ber þess merki að það feli í sér svar við bréfi hans frá 12. desember 2006. Er efni bréfsins tekið upp orðrétt í kafla II hér að framan og verður ekki ráðið af bréfinu að umhverfissvið hafi svarað fyrirspurnum umboðsmanns A um hvað fælist í orðasambandinu að „halda hund“ frekar efnislega en gert var í fyrra bréfi sviðsins, dags. 18. september 2006, en vísað var til síðastnefnda bréfsins í bréfinu frá 12. desember 2006.

Í skýringum umhverfissviðs til umboðsmanns Alþingis, dags. 26. nóvember 2007, um hvort það teldi ofangreint svar, um hvaðan sviðið hefði fengið skilning sinn á orðalaginu „að halda hund“, hafi samrýmst leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, er tekið fram að umboðsmanni A hafi ítrekað verið leiðbeint um hundahald í Reykjavík. Er í svarbréfi umhverfissviðs til umboðsmanns Alþingis jafnframt vísað til hliðsjónar í tilgreindan úrskurð úrskurðarnefndar samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, í tilefni af kæru umboðsmanns A, B, vegna ákvörðunar umhverfissviðs í máli sem laut að hundahaldi B.

Af leiðbeiningarskyldu stjórnvalda samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga leiðir að stjórnvöldum ber að veita aðila máls nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfsvið þess. Hefur þá verið gengið út frá því að stjórnvöldum beri að veita leiðbeiningar um hvaða réttarreglur gildi á viðkomandi sviði með það fyrir augum að aðila máls verði kleift að gæta hagsmuna sinna á auðveldan og skilvirkan hátt við meðferð málsins. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3292.)

Í ljósi þessara sjónarmiða og efni fyrirspurna umboðsmanns A þá tel ég að það hefði verið í betra samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. ákvæði 2. gr. laga nr. 85/1997, ef umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefði bent umboðsmanni A á að samkvæmt 6.-8. gr. samþykktar nr. 52/2002, um hundahald í Reykjavík, sé almennt gerð sú krafa að sótt sé um undanþágu til hundahalds innan mánaðar frá því að hundur eða hvolpur er tekinn inn á heimili. Leiðir það af orðalagi þessara ákvæða að einstaklingur telst halda hund í skilningi samþykktarinnar ef hann hefur hund á heimili sínu í mánuð eða lengur. Vegna tilvísunar umhverfissviðs til úrskurðar úrskurðarnefndar samkvæmt lögum nr. 7/1998, þá er ljóst að sá úrskurður hefur að þessu leyti enga efnislega þýðingu um svör umhverfissviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurnum umboðsmanns A.

Ekki verður beinlínis ráðið af bréfaskiptum umboðsmanns A og umhverfissviðs hvaða gögn umhverfissvið hafi sent honum vegna málsins. Hvað sem því líður hef ég ekki forsendur til að vefengja þá fullyrðingu sem fram kemur í svörum umhverfissviðs til umboðsmanns Alþingis, dags. 26. nóvember 2007, að umboðsmanni A hafi þegar verið send öll gögn málsins. Þá liggur fyrir að frekari gögn um hver bar fram kvörtun vegna ónæðis af hundi við X-veg eru ekki til staðar í málinu. Þegar litið er til ítrekaðra óska umboðsmanns A um að hann yrði upplýstur um hver hefði borið fram kvörtun, og þegar höfð eru í huga ofan greind sjónarmið um aðgang aðila máls að upplýsingum og vandaða stjórnsýsluhætti, þá tel ég að réttara hefði verið að umhverfissvið hefði gert umboðsmanni A skýra grein fyrir því í svörum til hans að ekki væru til frekari gögn um hver hefði lagt fram hina margumræddu kvörtun.

V. Niðurstaða.

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að sú framkvæmd sem lýst er í bréfi umhverfissviðs Reykjavíkurborgar til umboðsmanns A, og skýringum þess til umboðsmanns Alþingis, um að sveitarfélagið upplýsi almennt ekki aðila máls um nöfn þeirra sem kvarta yfir hundahaldi, sbr. samþykkt nr. 52/2002, um hundahald í Reykjavík, sé ekki í samræmi við ákvæði 15. og 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eru það tilmæli mín til Reykjavíkurborgar að sveitarfélagið taki þessa framkvæmd til endurskoðunar og hagi henni framvegis í samræmi við þau sjónarmið sem lýst er í þessu áliti.

Þá er það niðurstaða mín að það hefði verið í betra samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ef umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefði bent umboðsmanni A á að samkvæmt 6.-8. gr. samþykktar nr. 52/2002 sé almennt gerð sú krafa að sótt sé um undanþágu til hundahalds innan mánaðar frá því að hundur eða hvolpur er tekinn inn á heimili. Þá hefði verið réttara og í betra samræmi við sjónarmið um aðgang aðila máls að upplýsingum og vandaða stjórnsýsluhætti að umhverfissviðið gerði umboðsmanni A skýra grein fyrir því að upplýsingar um nafn þess sem kvartaði yfir hundahaldi væri ekki að finna í gögnum málsins í svörum sínum við fyrirspurnum hans um það atriði.

Ég fæ hins vegar að lokum ekki séð að slíkir annmarkar hafi að öðru leyti verið á meðferð umhverfissviðs Reykjavíkurborgar á máli þessu að tilefni sé til þess að ég beini tilmælum til sviðsins um endurupptöku á máli A.

Undirritaður hefur sem settur umboðsmaður Alþingis í leyfi kjörins umboðsmanns farið með mál þetta frá 1. janúar sl.

Róbert R. Spanó.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Ég ritaði Reykjavíkurborg bréf, dags. 12. febrúar 2010, þar sem ég óskaði upplýsinga um hvort framangreint álit mitt hefði orðið tilefni til einhverra sérstakra ráðstafana hjá umhverfis- og samgöngusviði og þá í hverju þær ráðstafanir hefðu falist.

Meginefni svarbréfs Reykjavíkurborgar, dags. 29. maí 2010, er svohljóðandi:

„Óskað er eftir upplýsingum um þá framkvæmd Reykjavíkurborgar að upplýsa ekki almennt aðila máls um nöfn þeirra, sem kvörtuðu yfir hundahaldi. Skemmt er frá því að segja, að ekki hefur reynt á þetta álitamál hjá borginni í alllangan tíma. Sjónarmið borgarinnar eru enn, að almennt skuli ekki upplýsa aðila máls um nöfn þeirra sem kvarta undan hundahaldi.

Könnun á meðal kvartenda leiddi í ljós að kvartendur vildu frekar draga kvörtun sína til baka en að þurfa að sæta því, að nöfn þeirra væru gefin upp. Flestir þeirra neita jafnframt að gefa upp nöfn sín. Reykjavíkurborg missir þannig af mikilvægum upplýsingum sem stuðla að bættu hundahaldi í borginni, ef því er haldið til streitu að upplýsa um nöfn kvartenda. Því hafa verklagsreglur verið endurskoðaðar og skýrt tekið fram í þeim, að sjálfstæð rannsókn hundaeftirlitsins á málum, sem þeim berast frá kvartendum, sé grundvöllur athugasemda við hundahald. Sé ekki unnt að staðreyna kvörtun, er ekki aðhafst.

Hvað varðar aðrar ábendingar um vandaðri stjórnsýslu sem fram koma í ofangreindu áliti, þá hafa þær verið teknar til greina.“