Börn. Foreldrar og börn. Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Grunnskólar. Meinbugir á lögum. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. 5584/2009)

Tveir forsjárlausir foreldrar leituðu til umboðsmanns Alþingis í tilefni af því að þeim hafði verið neitað um aðgang að upplýsingakerfinu Mentor.is en í kerfið voru skráðar ýmiss konar upplýsingar sem vörðuðu skólagöngu barna þeirra í grunnskólum. Meðan á athugun umboðsmanns Alþingis stóð tóku gildi ný grunnskólalög nr. 91/2008 en í 2. mgr. 27. gr. þeirra kemur fram að óheimilt sé að veita upplýsingar um vitnisburði einstakra nemenda öðrum en þeim sjálfum og foreldrum þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna teljast foreldrar vera þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga nr. 76/2003.

Umboðsmaður Alþingis ritaði menntamálaráðherra bréf, dags. 3. febrúar 2009, þar sem bent var á að þrátt fyrir ofangreint ákvæði grunnskólalaga væri forsjárlausum foreldrum veittur réttur samkvæmt 2. mgr. 52. gr. barnalaga til að fá upplýsingar um börn sín frá stjórnvöldum og stofnunum eins og skólum. Umboðsmaður benti á að ákvæði barnalaga og grunnskólalaga virtust að þessu leyti vera efnislega ósamþýðanleg. Ákveðin réttaróvissa kynni því að ríkja um inntak og afmörkun réttar forsjárlausra foreldra til upplýsinga um skólagöngu barna þeirra í grunnskólum. Umboðsmaður óskaði eftir því að menntamálaráðuneytið lýsti viðhorfi sínu til þeirra atriða sem rakin voru í bréfinu. Einnig vakti hann athygli á að sambærilegt álitaefni kynni að vera til staðar varðandi upplýsingarétt foreldra í lögum nr. 90/2008, um leikskóla. Umboðsmaður beindi sambærilegri fyrirspurn til menntasviðs Reykjavíkurborgar í tilefni af samskiptum annars þess foreldris sem kvartaði til umboðsmanns við sviðið.

Umboðsmanni Alþingis barst bréf frá menntamálaráðuneytinu, dags. 9. mars 2009. Í bréfinu var bent á að í skýringum við 1. gr. frumvarps til laga um leikskóla nr. 90/2008 og 3. gr. frumvarps til laga um grunnskóla nr. 91/2008 kæmi fram að talið hefði verið nauðsynlegt að telja foreldra í merkingu laganna vera þá sem færu með forsjá barns vegna fjölgunar tilvika þar sem foreldrar færu sameiginlega með forsjá og til afmörkunar á því við hverja væri átt með hugtakinu. Með þessu væri leitast við að koma til móts við þann fjölda foreldra sem færi með sameiginlega forsjá, en um leið að gera skyldur þeirra sem færu með forsjá barns, sbr. 28. gr. barnalaga, skýrari. Fram kom að ráðuneytið teldi ekki að ákvæði grunnskólalaga eða ummæli í lögskýringargögnum gæfu vísbendingar um að ætlunin hefði verið að girða fyrir eða takmarka þann rétt sem forsjárlausir foreldrar ættu til upplýsinga frá opinberum aðilum. Í ljósi þess að uppi kynnu að vera ólík sjónarmið um rétt forsjárlausra foreldra til upplýsinga um börn sín eftir setningu laga um leikskóla og laga um grunnskóla, og þeirra hagsmuna sem væru í húfi, hefði menntamálaráðuneytið vakið athygli menntamálanefndar Alþingis á málinu. Nefndin hefði af þessu tilefni lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum nr. 90/2008, um leikskóla, og lögum nr. 91/2008, um grunnskóla. Í frumvarpinu væri gert ráð fyrir að í lögunum kæmi fram að um rétt foreldris sem ekki færi með forsjá barns til upplýsinga um barn sitt færi samkvæmt fyrirmælum 52. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Í ljósi viðbragða menntamálaráðuneytisins og menntamálanefndar við því álitaefni sem umboðsmaður Alþingis hafði vakið athygli á með fyrirspurnarbréfi sínu taldi hann ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins. Tilkynnti hann því menntamálaráðherra um lok frumkvæðisathugunar sinnar með bréfi, dags. 23. mars 2009.

.