A kvartaði fyrir hönd húsfélags yfir áliti kærunefndar fjöleignarhúsamála. Það álitaefni sem kvörtun A beindist að fjallaði í eðli sínu um ágreining sameigenda í fjöleignarhúsinu um hvort þau áform að loka svölum hússins með opnanlegum glerveggjum teldust veruleg breyting á sameign hússins í merkingu 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga eða ekki og þá afstöðu sem kærunefndin hafði tekið til ágreiningsins.
Umboðsmaður lauk athugun sinni á kvörtuninni með bréfi til A, dags. 4. desember 2006. Þar tók hann fram að í málinu væri fyrst og fremst uppi einkaréttarlegur ágreiningur, en löggjafinn hefði við samþykkt laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús, farið þá leið að stofna til sjálfstæðrar kærunefndar, sem byggi yfir ákveðinni þekkingu, sem eigendur fjöleignarhúsa gætu leitað til með ágreiningsmál sín og fengið rökstutt álit, en ekki væri um það að ræða að kærunefndin kvæði upp úrskurði sem bundið gætu aðila. Rakti hann ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um hlutverk umboðsmanns og tók fram að kærunefnd fjöleignarhúsamála væri sem slík hluti af stjórnsýslu ríkisins en úrlausnir hennar væru ekki svonefndar stjórnvaldsákvarðanir og féllu því ekki undir gildissvið stjórnsýslulaga. Eftirlit umboðsmanns Alþingis með starfi slíkrar álitsnefndar beindist fyrst og fremst að því hvort nefndin hefði við úrlausn einstakra mála gætt þeirra almennu stjórnsýslureglna sem við ættu í hverju tilviki, hinna sérstöku reglna sem settar hefðu verið um störf nefndarinnar, sbr. reglugerð nr. 881/2001, og að hún hefði að öðru leyti hagað störfum sínum í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti, svo sem að samræmi væri í lagalegu tilliti milli úrlausna. Að því marki sem úrlausn nefndarinnar í einstöku máli byggðist á mati á atvikum, svo sem hvað teldist veruleg breyting á útliti húss, væri umboðsmaður almennt ekki í stakk búinn til að taka slíkt mat til endurskoðunar lægi fyrir að nefndin hefði við þá úrlausn fylgt þeim reglum sem eftirlit umboðsmanns beindist að. Benti umboðsmaður á að lög um umboðsmann Alþingis, sbr. c–lið 3. mgr. 3. gr. og c–lið 2. mgr. 10. gr. laganna, væru byggð á þeirri forsendu að um ákveðna verkaskiptingu milli hans og dómstóla væri að ræða og að mál gætu verið þannig vaxin að heppilegra væri að leyst yrði úr þeim fyrir dómstólum.
Umboðsmaður benti á að í áliti kærunefndarinnar vegna ágreinings eigenda fjöleignarhússins kæmi fram að niðurstaða nefndarinnar væri í samræmi við fyrri álit sem hún hefði sent frá sér um áþekk álitaefni og að nefndin hefði fjallað um aðstæður og umfang umræddra breytinga og lagt mat á þær. Taldi umboðsmaður að athugasemdir A við álit kærunefndarinnar vörðuðu réttarágreining sem heyrði undir dómstóla og eðlilegt væri að þeir leystu úr, sbr. c–lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Tók umboðsmaður fram að hann hefði, auk þess sem að framan greinir, í huga að við úrlausn um þau atriði sem ágreiningur væri um milli sameigenda hússins kynni að reyna á sönnunarfærslu, svo sem með athugun á vettvangi, skýrslutökum, hugsanlega mati dómkvaddra matsmanna, og síðan mati á sönnunargögnum, en um þessi atriði væru dómstólar betur í stakk búnir að leysa úr en umboðsmaður Alþingis auk þess sem hann hefði ekki að lögum réttarskipandi vald í einstökum málum sem hann hefði til meðferðar.