Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Ákvörðun veggjalds. Alþingi. Ágreiningur milli einstaklings og hlutafélags.

(Mál nr. 4671/2006)

A kvartaði yfir ósamræmi í ferðagjöldum um Hvalfjarðargöng. Laut kvörtunin m.a. að því að sérstakir samningar Spalar hf. við ýmsa aðila um ferðagjöld fælu í sér óheimila mismunun af hálfu fyrirtækis í eigu opinberra aðila.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi til A, dags. 12. desember 2006. Benti hann á að löggjafinn hefði með lögum nr. 45/1990, um vegtengingu við utanverðan Hvalfjörð, tekið þá afstöðu að jarðgangagerð undir Hvalfjörð skyldi fjármögnuð með þeim hætti að fela hlutafélagi gerð, framkvæmd og rekstur ganganna um tiltekinn tíma á grundvelli þeirra sjónarmiða er þar væru rakin. Samkvæmt samningi er samgönguráðherra hefði gert við félagið á grundvelli 3. gr. laganna væri því veitt töluvert svigrúm um hvernig það hagaði gjaldtöku við ákvörðun þess veggjalds sem það innheimti. Þennan samning hefði Alþingi síðan í samræmi við lög nr. 45/1990 staðfest með þingsályktun og þar með ákvæði hans um gjaldtökuna. Þar sem Alþingi hefði staðfest umræddan samning félli það utan við starfssvið umboðsmanns, sbr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að fjalla um það hvernig samgönguráðherra hefði í samningi við Spöl hf. útfært það verkefni sem honum væri í lögum nr. 45/1990 falið að því er varðaði rétt til gjaldtökunnar.

Umboðsmaður benti jafnframt á að starfssvið umboðsmanns Alþingis tæki ekki til einkaaðila, þ.m.t. hlutafélaga, nema í þeim tilvikum sem þeim hefði á grundvelli laga verið falið að fara með stjórnsýsluverkefni. Taldi hann ljóst af tilurð laga nr. 45/1990, samningum sem gerðir hefðu verið á grundvelli þeirra og staðfestingu Alþingis á þeim að gengið hefði verið út frá því að hlutafélagið Spölur hf. væri einkaaðili sem ekki lyti sem slíkt almennum stjórnsýslureglum við ákvarðanir um rekstur félagsins. Hér yrði jafnframt að horfa til þess að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum væri félagið ekki alfarið í eigu eða að öllu leyti undir stjórn opinberra aðila. Vísaði umboðsmaður í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar frá 16. nóvember 2000 í máli nr. 151/2000. Væri því ekki lagagrundvöllur til athugunar af hálfu umboðsmanns á því hvort Spölur hf. hefði gætt nægjanlega að jafnræðisreglum eða meðalhófsreglu við ákvarðanir félagsins um mismunandi gjaldflokka ökutækja.

Loks vakti umboðsmaður athygli A á því að um starfsemi Spalar hf. giltu almennar lagareglur um starfsemi félaga og fyrirtækja í landinu og að hún kynni að geta borið athugasemdir sínar undir Samkeppniseftirlitið.

.