Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Gjöld til stéttarfélaga. Kjarasamningar. Réttarágreiningur á undir dómstóla.

(Mál nr. 4665/2006)

A, sem gegndi starfi náms- og starfsráðgjafa hjá fjölskyldudeild Akureyrarbæjar, kvartaði yfir því að Akureyrarbær hefði synjað ósk hennar um að fá að ganga í Kennarasamband Íslands (KÍ) og um launaröðun hjá kennarasambandinu, til samræmis við aðra starfsmenn sem störfuðu hjá fjölskyldudeildinni að ráðgjafarstörfum.

Umboðsmaður lauk athugun sinni með bréfi til A, dags. 13. nóvember 2006. Benti hann á að af svörum Akureyrarbæjar mætti ráða að ekkert starf á fjölskyldudeild væri sambærilegt starfi A og þótt aðrir ráðgjafar störfuðu innan deildarinnar væri ekki sjálfgefið að þeir tilheyrðu sömu starfsstétt. Væri því uppi ágreiningur milli A og Akureyrarbæjar sem lyti að því hvort bæjarfélaginu væri skylt að fallast á þá kröfu A að hún ætti rétt á að taka laun samkvæmt kjarasamningum Launanefndar sveitarfélaga við Kennarasamband Íslands. Vék hann því næst að hlutverki og starfssviði umboðsmanns samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og benti á að lögin væru byggð á þeirri forsendu að um ákveðna verkaskiptingu milli hans og dómstóla væri að ræða og að mál gætu verið þannig vaxin að heppilegra væri að leyst væri úr þeim fyrir dómstólum, sbr. c–lið 3. mgr. 3. gr. og c–lið 2. mgr. 10. gr. laganna. Vísaði hann til umfjöllunar um eldra mál í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1995, bls. 492, þar sem segði að mál er snertu samningsbundin réttindi ríkisstarfsmanna væru oft þannig vaxin, að við túlkun ákvæða kjarasamninga gæti m.a. þurft að líta til þess hvernig þau hefðu verið framkvæmd, tengsla við framkvæmd og túlkun eldri ákvæða um sama efni, svo og venja, sem kynnu að hafa myndast á umræddu sviði. Við úrlausn slíkra mála reyndist því iðulega nauðsynlegt að afla sönnunargagna, svo sem vitnaskýrslna, og meta síðan sönnunargildi slíkra gagna og hefði umboðsmaður því almennt ekki talið rétt að fjalla um slík mál, heldur yrði það að vera hlutverk dómstóla. Taldi umboðsmaður með vísan til framangreindra sjónarmiða um hlutverk umboðsmanns Alþingis og 1. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, um hlutverk Félagsdóms, að eðlilegra væri að Félagsdómur fjallaði um mál A.

Umboðsmaður benti jafnframt á að hann fengi ekki annað séð af svörum Akureyrarbæjar en að sveitarfélagið teldi sig geta skilað félagsgjaldi til Kennarasambands Íslands kæmi fram ósk um það frá A, eða að það væri m.ö.o. ekki alfarið útilokað að henni kynni að vera heimilt að greiða til félagsins samhliða því að greiða félagsgjald til annars stéttarfélags, enda þótt það teldi sig ekki hafa skyldu til að koma því félagsgjaldi til skila. Í ljósi fyrrgreindra sjónarmiða um hlutverk umboðsmanns Alþingis og þess að af 7. gr. laga nr. 94/1986 svo og ákvæðum laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu á lífeyrisfé, yrði ráðið að löggjafinn hefði gert ráð fyrir því að það réðist einkum af efni þeirra kjarasamninga sem á reyndi hverju sinni til hvaða stéttarfélags þær iðgjaldagreiðslur sem atvinnurekendum væri skylt að halda eftir af launum launþega ættu að berast taldi umboðsmaður eðlilegra að dómstólar fjölluðu um hugsanlegan ágreining A og Akureyrarbæjar um til hvaða stéttarfélags sveitarfélagið skyldi standa skil á félagsgjöldum hennar.

.