Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Kæruheimild. Ákvörðun endurkröfunefndar samkvæmt 96. gr. umferðarlaga verður samkvæmt venju ekki skotið til æðra stjórnvalds.

(Mál nr. 4567/2005)

A kvartaði fyrir hönd B yfir ákvörðun endurkröfunefndar samkvæmt 96. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 um að endurkröfu skyldi beitt gagnvart B vegna umferðartjóns. Laut kvörtunin að þeirri niðurstöðu nefndarinnar að B hefði sýnt af sér stórfellt gáleysi umrætt sinn og að því að verulegir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð nefndarinnar, m.a. á rannsókn hennar og rökstuðningi fyrir ákvörðuninni.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfum til A og endurkröfunefndarinnar, dags. 6. nóvember 2006. Í bréfi sínu til A tók umboðsmaður fram að í tilefni af kvörtuninni og þar sem ekki væri í lögum skýrlega mælt fyrir um að ákvarðanir nefndarinnar væru ekki kæranlegar til æðra stjórnvalds hefði hann leitað eftir afstöðu iðnaðar- og viðskiptaráðherra til þess álitaefnis. Í svari ráðuneytisins hefði komið fram sú afstaða að ákvarðanir nefndarinnar væru ekki kæranlegar til ráðherra. Með tilliti til verkefnis nefndarinnar og hvernig í framkvæmd hefði verið litið á stöðu hennar taldi umboðsmaður í ljósi niðurlags 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að það kunni að leiða af venju að stjórnvaldsákvarðanir séu ekki kæranlegar, að ákvæði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis væri því ekki til fyrirstöðu að hann tæki kvörtun A fyrir hönd B til nánari athugunar.

Umboðsmaður tók fram í bréfi sínu til A að hér hefði löggjafinn sett á fót sérstaka stjórnsýslunefnd sem færi með það hlutverk að meta hvort hin lögmæltu skilyrði til endurkröfu vátryggingafélags væru uppfyllt og hver skyldi vera fjárhæð endurkröfunnar. Nefndinni væri sem stjórnvaldi fengið vald til að grípa inn í einkaréttarleg viðskipti og við stofnun nefndarinnar hefði verið horft til varnarvörslusjónarmiða og þess að sérþekking nefndarinnar fengi notið sín. Eftirlit umboðsmanns Alþingis með störfum slíkrar stjórnsýslunefndar miðaði fyrst og fremst að því að ganga úr skugga um að nefndin hefði í störfum sínum gætt stjórnsýslureglna og leyst úr hverju máli í samræmi við lög. Um þau atriði sem sættu mati nefndarinnar liti umboðsmaður fyrst og fremst til þess hvort þau sjónarmið sem nefndin byggði á hefðu verið málefnaleg og fylgt hefði verið eðlilegum og almennt viðurkenndum aðferðum, svo sem með tilliti dómafordæma, við það mat. Umboðsmaður Alþingis væri hins vegar ekki í stakk búinn til að meta á ný efnislega niðurstöðu þar sem sérfræðileg þekking nefndarmanna hefði haft vægi. Taldi umboðsmaður ekki efni til athugasemda við ályktanir nefndarinnar af gögnum málsins um reynsluleysi og vankunnáttu [B] af akstri í þéttbýlisumferð og það hvernig nefndin hefði lagt mat á það að akstur hans umrætt sinn hefði falið í sér stórkostlegt gáleysi af hans hálfu. Ítrekaði hann þó að dómstólar ættu síðasta orðið um þetta mat og benti á að aðstaða dómstóla til að afla sönnunargagna um málsatvik með skýrslutöku af aðilum og vitnum væri ólík aðstöðu stjórnsýslunefnda og raunar einnig umboðsmanns Alþingis til þess. Þá taldi hann ekki efni til athugasemda við málsmeðferð endurkröfunefndar, utan þess að hann taldi rökstuðning nefndarinnar fyrir ákvörðuninni ekki hafa uppfyllt kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings. Í bréfi sínu til endurkröfunefndar beindi hann ábendingu þar að lútandi til nefndarinnar, auk ábendingar um að þess yrði framvegis gætt að nöfn þeirra nefndarmanna sem stæðu að ákvörðun í hverju máli kæmu fram þegar nefndin tilkynnti um afgreiðslu sína.

.