Orlof. Undanþága frá lögheimilisskilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks. Leiðbeiningarskylda. Valdbærni.

(Mál nr. 4238/2004)

A kvartaði yfir málsmeðferð Tryggingastofnunar ríkisins og þeirri niðurstöðu stofnunarinnar og úrskurðarnefndar í fæðingar- og foreldraorlofsmálum að synja henni um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni. A, sem stundaði nám í Hollandi, flutti lögheimili sitt frá Íslandi til Færeyja ásamt manni sínum, sem þar hafði fengið atvinnu, áður en barn þeirra fæddist.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtun A með bréfi til hennar, dags. 29. desember 2006. Þar tók hann fram, m.a. með vísan til lögskýringargagna að baki 2. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof og 9. gr. a. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, að fallast yrði á það með úrskurðarnefndinni að tryggingastofnun gæti metið það sjálfstætt hvort lögheimilisskilyrði 2. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 væri uppfyllt. Taldi hann sig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við þá niðurstöðu tryggingastofnunar að A hefði verið búsett í Færeyjum en ekki á Íslandi þegar hún ól barn sitt í október 2003, og þar með haft þar lögheimili í skilningi laganna. Þá benti umboðsmaður á að ákvæði 13. gr. þágildandi reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, fæli í sér heimild til handa tryggingastofnun til að veita ívilnun til þeirra er flyttu tímabundið lögheimili sitt vegna náms erlendis sem fæli í sér frávik frá nefndu lögheimilisskilyrði. Taldi hann í ljósi atvika máls A, orðalags 13. gr. reglugerðarinnar og réttarheimildarlegrar stöðu ákvæðisins sem undanþáguákvæðis í reglugerð frá meginreglu almennra laga, sig ekki hafa fullnægjandi forsendur til að gera athugasemd við þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að flutningur A til Færeyja hefði ekki verið tímabundinn lögheimilisflutningur vegna náms hennar.

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu taldi umboðsmaður tilefni til að senda bæði tryggingastofnun og úrskurðarnefndinni bréf, dags. sama dag, þar sem hann áréttaði að hann fengi ekki séð að úrskurðarnefndin hefði tekið undir þá afstöðu tryggingastofnunar, sem fram kom í úrskurði hennar í máli A, að undanþáguheimild 13. gr. reglugerðarinnar væri háð því að foreldri væri búsett í námslandi. Í bréfinu til tryggingastofnunar lýsti umboðsmaður jafnframt þeirri afstöðu sinni að sá tími sem liðið hefði frá því að A sendi fyrst fyrirspurn til stofnunarinnar í maí 2003 og þar til svör sem vörpuðu ljósi á réttarstöðu hennar í málinu hefðu fengist í ágúst það sama ár, auk þeirra ófullnægjandi svara sem veitt hefðu verið á þessu tímabili, hefðu hvorki verið í samræmi við þær kröfur um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda sem leiddu af 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, né í samræmi við þá sérstöku upplýsingaskyldu sem á starfsfólki tryggingastofnunar hvíldi samkvæmt 24. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Benti hann m.a. á að tilvitnaðar lagakröfur legðu þær skyldur á herðar stjórnvöldum að þau þekktu þær efnisreglur sem þeim bæri í störfum sínum að framfylgja og taldi að í tilviki A hefði ekki reynt á önnur atriði en almennt væri ástæða til að ætla að það starfsfólk tryggingastofnunar sem annaðist afgreiðslu beiðna námsmanna um fæðingarstyrki hefði þurft að kynna sér og átt að geta leiðbeint um.

Í bréfinu til úrskurðarnefndarinnar tók umboðsmaður fram að hann fengi ekki séð að lagarök stæðu til þess að nefndin takmarkaði skoðun sína á því hvort leiðbeiningarskyldu hafi verið gætt við málsmeðferð tryggingastofnunar við skoðun á almennum leiðbeiningum og upplýsingum í bæklingum og á heimasíðu en undanskildi aðrar leiðbeiningar sem veittar væru með einstaklingsbundnum hætti, t.d. í formi tölvupósts. Tók hann fram að enda þótt hann gerði ekki athugasemdir við þá afstöðu úrskurðarnefndarinnar að úrskurður um hugsanlegan bótarétt þeirra foreldra sem teldu sig hafa fengið ófullnægjandi upplýsingar hjá tryggingastofnun stæði almennt utan valdsviðs nefndarinnar kynni einstaklingur að hafa af því ríka hagsmuni að nefndin tæki afstöðu til þess hvort nægra leiðbeininga hefði verið gætt, enda kynni niðurstaða um að svo hefði ekki verið að leiða til þess að hið lægra setta stjórnvald, þ.e. tryggingastofnun, bætti almennt úr annmörkum eða ákveddi að endurupptaka mál.

.