Menntamál. Leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari. Jafnræðisregla. Réttaróvissa.

(Mál nr. 4440/2005)

A, sem var meistari í gullsmíði og hafði lokið námi í uppeldis- og kennslufræðum, kvartaði yfir þeirri niðurstöðu menntamálaráðuneytisins að synja henni um veitingu leyfis til að nota starfsheitið grunnskólakennari, sbr. lög nr. 86/1998, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi til A, dags. 14. desember 2006. Þar benti hann á að álitaefni málsins lyti að því hvort menntun A hefði fullnægt því skilyrði 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 86/1998, að samsvara „öðru jafngildu námi sem hefur að markmiði að veita undirbúning til kennslu á grunnskólastigi“. Fyrir lægi að menntamálaráðuneytið og matsnefnd sem skipuð væri af ráðherra á grundvelli laganna hefðu lagt nokkuð rýmri merkingu í ákvæði 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna heldur en orðalag þess og athugasemdir í lögskýringargögnum gæfu til kynna. Í framkvæmd hefði ekki verið gerð krafa um að yfirlýst markmið námsins væri að þjálfa nemendur til kennslu í grunnskóla, heldur talið nægilegt að menntunin nýttist beint við kennsluna. Á grundvelli þessarar túlkunar ráðuneytisins hefðu til að mynda trésmíðameisturum og kjólameisturum verið veitt réttindin. Umboðsmaður taldi ljóst að við þessa beitingu stjórnvalda á 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 86/1998 væri enn aukið við það mat sem framkvæma þyrfti þegar tekin væri afstaða til þess hvort rétt væri að samþykkja umsókn um veitingu leyfis til að nota starfsheitið grunnskólakennari og mikilvægt að gætt væri jafnræðis í því sambandi.

Umboðsmaður fékk ekki betur séð af svari menntamálaráðuneytisins en það væri skýr afstaða þess að sú lýsing er birtist í aðalnámskrá grunnskólanna á námi í hönnun og smíði í 1.—8. bekk grunnskóla gengi út frá því að námið miðaðist fyrst og fremst við trésmíði. Taldi hann sig ekki hafa nægilegar forsendur til þess að hafna þeirri túlkun ráðuneytisins. Vísaði umboðsmaður jafnframt til þess að löggjafinn hefði falið ráðuneytinu og matsnefndinni ákveðið mat þegar kæmi að því að taka afstöðu til umsókna um leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari og minnti á að ekki yrði ráðið af beinu orðalagi 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 86/1998 að nám A í gullsmíðaiðn gæti orðið grundvöllur að veitingu réttinda samkvæmt ákvæðinu. Í ljósi afstöðu ráðuneytisins varðandi túlkun aðalnámskrár grunnskólanna taldi hann sig ekki geta fullyrt að brotið hefði verið gegn jafnræðissjónarmiðum með synjuninni.

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu ákvað umboðsmaður að senda menntamálaráðuneytinu bréf, dags. sama dag, þar sem hann benti á að túlkun ráðuneytisins og matsnefndar á 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 86/1998 leiddi til þess að örðugt kynni að vera fyrir almenning og jafnvel fagaðila á sviði menntamála að sjá fyrirfram með nákvæmum hætti hvaða nám teldist fullnægja skilyrðum ákvæðisins. Benti hann ráðuneytinu á að ástæða kynni að vera til þess að taka þær reglur sem á reyndi í máli A til endurskoðunar með það að augnamiði að draga úr réttaróvissu.

.