Almannatryggingar. Gjaldtaka fyrir notkun á CPAP-öndunarvél. Lagaheimild. Jafnræðisregla. Leiðbeiningar um kæruheimild.

(Mál nr. 4715/2006)

A kvartaði yfir gjaldtöku fyrir notkun á CPAP-öndunarvél. Með reglugerð nr. 972/2003 um (1.) breytingu á reglugerð nr. 460/2003, um styrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna hjálpartækja, var sjúkratryggðum gert skylt að greiða hluta af kostnaði vegna skiptanlegra fylgihluta og rekstrarvara fyrir slíkar öndunarvélar ásamt þjónustu við þær.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtunina með bréfi til A, dags. 21. desember 2006. Þar benti hann á að í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, væri lagaheimild til gjaldtöku vegna hjálpartækja sem einstaklingar ættu rétt á að fá styrk vegna samkvæmt a-lið 1. mgr. sömu greinar og hefði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra nýtt þá heimild með setningu fyrrnefndra reglugerða. Taldi umboðsmaður að það að löggjafinn hefði valið að nota orðið „styrkur“ í a-lið 1. mgr. 33. gr. laganna benti til þess að ekki hefði verið ætlun löggjafans að ríkið bæri allan kostnað við að afla hjálpartækja. Tók umboðsmaður fram að það væri almennt ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að leggja dóm á það, hvernig til hefði tekist um löggjöf sem Alþingi hefði sett.

Umboðsmaður benti á að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 girti ekki fyrir að heimilt væri að mismuna mönnum ef til slíkrar mismununar stæðu málefnaleg sjónarmið. Samkvæmt svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins hefði mat á alvarleika grunnsjúkdóms þeirra einstaklinga sem þarfnast CPAP-öndunarvéla ráðið því að umrætt gjald hefði verið tekið upp vegna þeirra en ekki annarra öndunarvéla. Þá hefðu almenn sjónarmið almannatrygginga um að koma skyldi til móts við þá sem væru meira veikir eða metnir í þörf fyrir meiri aðstoð en aðrir, sbr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, staðið að baki hærra niðurgreiðsluhlutfalli öryrkja, aldraðra og barna undir 18 ára aldri. Taldi umboðsmaður því að málefnaleg sjónarmið hefðu legið að baki ákvörðun um mismunandi þátttöku notenda í kostnaði við mismunandi tegundir öndunarvéla og aukinnar niðurgreiðslu til tiltekinna hópa.

Umboðsmaður tók fram að það væri mikilvægt að stjórnvöld gættu nákvæmni þegar þau skýrðu einstaklingum frá ástæðu gjaldtöku. Taldi hann óheppilegt hvernig tilkynningarbréf Landspítala-háskólasjúkrahúss um grundvöll gjaldtökunnar hefði verið orðað. Þá upplýsti hann A um að í tilkynningarbréfinu og síðari bréfum vegna gjaldtökunnar hefði láðst að veita honum leiðbeiningar um kæruheimild til úrskurðarnefndar almannatrygginga samkvæmt 7. gr. laga nr. 117/1993. Af því tilefni hefði hann sent heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu bréf með ósk um að ráðuneytið vekti athygli tryggingastofnunar og Landspítala-háskólasjúkrahúss á skyldu til að veita leiðbeiningar um kæruheimild þegar innheimt væru gjöld á grundvelli laga nr. 117/1993.

.