I. Kvörtun.
Hinn 20. maí 2008 leitaði B, héraðsdómslögmaður, fyrir hönd A ehf., til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir drætti á afgreiðslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á tilgreindum fimm erindum félagsins til ráðuneytisins sem einkum lutu að afgreiðslu leyfa í tengslum við innflutning landbúnaðarvara. Í kvörtun málsins er því borið við að þá hafi ráðuneytið hvorki afgreitt erindin né upplýst félagið um hvenær svars væri að vænta og telji hún tafir á afgreiðslu ráðuneytisins óhæfilegar og óútskýrðar.
Ofangreind erindi voru: 1) Umsókn um leyfi til innflutnings á lambakjöti frá Írlandi, dags. 16. ágúst 2007, 2) umsókn um leyfi til innflutnings á kindalundum og file frá Spáni, dags. 29. október 2007, 3) umsókn um leyfi til innflutnings á ferskum eggjum frá Svíþjóð, dags. 18. febrúar 2008, og svör við bréfi vegna sömu umsóknar er varðar úthlutun á tollkvótum, 4) kæra til landbúnaðarráðuneytisins vegna synjunar Landbúnaðarstofnunar um leyfi til innflutnings á svínakjöti frá Færeyjum, dags. 20. desember 2007, og 5) beiðni um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á lambakjöti í samræmi við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, dags. 6. mars 2008.
Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 17. nóvember 2010.
II. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda.
Í tilefni af kvörtun A ehf. ritaði umboðsmaður Alþingis bréf til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dags. 10. júní 2008. Hann tók fram að hann teldi nauðsynlegt að ráðuneytið gerði honum í samræmi við 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, grein fyrir ástæðum þess hversu langan tíma umrædd erindi hefðu verið til afgreiðslu í ráðuneytinu. Einnig óskaði hann með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997 eftir að ráðuneytið upplýsti hann um hvað liði meðferð þess og afgreiðslu á hverju og einu af fimm erindum A ehf. til ráðuneytisins.
Í svarbréfi ráðuneytisins til umboðsmanns, dags. 25. júní 2008, kom fram að það hefði með bréfi, dags. 18. september 2007, óskað eftir umsögn Landbúnaðarstofnunar um innflutning á lambakjöti frá Írlandi og hefði ráðuneytinu borist umsögn Matvælastofnunar með bréfi, dags. 7. apríl 2008. Einnig tók ráðuneytið fram að við gildistöku laga um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands nr. 167/2007 þann 1. janúar 2008 hefði ný stofnun, Matvælastofnun, tekið við starfsemi og verkefnum Landbúnaðarstofnunar. Ráðuneytið hefði ekki gengið með formlegum hætti eftir svörum stofnunarinnar við erindi A ehf. Málið væri enn til vinnslu í ráðuneytinu.
Um innflutning á kindalundum og file frá Spáni tók ráðuneytið fram að með bréfi, dags. 30. október 2007, hefði það óskað eftir umsögn Landbúnaðarstofnunar um innflutninginn. Umsögn Matvælastofnunar hefði borist ráðuneytinu með bréfi, dags. 7. apríl 2008. Málið væri enn til vinnslu í ráðuneytinu.
Um innflutning á ferskum eggjum frá Svíþjóð tók ráðuneytið fram í svarbréfi sínu að það hefði með bréfi, dags. 2. apríl 2008, óskað eftir umsögn Matvælastofnunar um innflutninginn. Umsögnin hefði ekki borist. Með bréfi, dags. 23. júní 2008, hefði ráðuneytið ítrekað beiðni um að stofnunin léti umsögn sína í té innan þriggja vikna. Afrit af bréfinu hefði verið sent A ehf. til upplýsingar. Einnig tók ráðuneytið fram að með bréfi, dags. 17. mars 2008, hefði A ehf. óskað eftir upplýsingum í tengslum við innflutninginn á ferskum eggjum. Með bréfi, dags. 24. júní 2008, hefði ráðuneytið svarað erindinu.
Um stjórnsýslukæru A ehf. til ráðuneytisins vegna synjunar Landbúnaðarstofnunar um leyfi til innflutnings á svínakjöti frá Færeyjum upplýsti það í svarbréfinu að málinu væri lokið með úrskurði ráðuneytisins, dags. 11. júní 2008, sem og hafnaði því að óeðlilegur dráttur hefði orðið á meðferð kærunnar.
Loks tók ráðuneytið fram í svarbréfinu að það hefði með bréfi til A ehf., dags. 24. júní 2008, svarað bréfi félagsins frá 6. mars 2007 sem laut að beiðni um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á lambakjöti í samræmi við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Samkvæmt framangreindu hafði ráðuneytið þegar hér var komið við sögu afgreitt þrjú af fimm erindum A ehf. Tvö þeirra voru hins vegar sögð til vinnslu í ráðuneytinu. Þar sem umboðsmanni Alþingis bárust ekki í framhaldinu frekari upplýsingar um afdrif erindanna tveggja ritaði hann ráðuneytinu annað bréf, dags. 29. desember 2008, þar sem hann óskaði, með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eftir upplýsingum um hvort erindin tvö hefðu verið afgreidd af hálfu ráðuneytisins og, ef ekki, hvað liði meðferð þess á þeim. Einnig óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvað hefði valdið drætti á afgreiðslu ráðuneytisins á þeim og sérstaklega að fram kæmi hvað hefði valdið drætti eftir að umboðsmaður sendi ráðuneytinu síðast bréf af þessu tilefni, dags. 10. júní 2008. Af þessu tilefni barst mér svarbréf ráðuneytisins, dags. 4. mars 2009, þar sem fram kom að ráðuneytið hefði með „hjálögðum leyfisbréfum“, dags. sama dag, orðið við þeim beiðnum um innflutning á lambakjöti sem þar væri vikið að.
Ég ritaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu bréf, dags. 28. ágúst 2009, þar sem ég tók fram að í framangreindum svarbréfum þess hefði verið upplýst að öll fimm erindi A ehf. hefðu verið afgreidd utan hluta af einu þeirra, nánar tiltekið umsókn félagsins um leyfi til innflutnings á ferskum eggjum frá Svíþjóð, dags. 18. febrúar 2008. Fyrirliggjandi gögn málsins veittu ekki upplýsingar um hvaða meðferð og afgreiðslu sú umsókn félagsins hefði hlotið hjá ráðuneytinu. Ég óskaði með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997 eftir frekari upplýsingum um meðferð ráðuneytisins og afgreiðslu á ofangreindri umsókn A ehf. Af þessu tilefni barst mér svar frá ráðuneytinu með bréfi, dags. 14. desember 2009, en með því fylgdi bréf ráðuneytisins, dags. sama dag, til Matvælastofnunar. Í bréfinu var vísað til bréfa ráðuneytisins, dags. 2. apríl 2008 og 23. júní 2008, þar sem ráðuneytið hafði óskað eftir umsögn Matvælastofnunar um ofangreinda umsókn A ehf. um leyfi til innflutnings á eggjum frá Svíþjóð, dags. 18. febrúar 2008. Með bréfi ráðuneytisins var umsagnarbeiðnin ítrekuð og upplýst að umboðsmaður Alþingis hefði drátt á afgreiðslu málsins til athugunar.
Þar sem ég hafði ekki fengið upplýsingar um afdrif málsins í upphafi þessa árs hafði ég 4. janúar 2010 samband símleiðis við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Í símtali við starfsmann ráðuneytisins kom fram að umsögn stofnunarinnar hefði ekki borist. Mér bárust í framhaldinu engar upplýsingar um afdrif málsins fram eftir árinu 2010, en 18. ágúst 2010 hafði ég á ný samband við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og óskaði upplýsinga um málið. Af því tilefni barst mér svarbréf frá ráðuneytinu, dags. sama dag, þar sem upplýst var að engin svör hefðu borist við bréfum ráðuneytisins til Matvælastofnunar, dags. 2. apríl 2008, 23. júní 2008 og 14. desember 2009, sem höfðu að geyma beiðni um umsögn um beiðni A ehf. um leyfi til innflutnings á eggjum frá Svíþjóð.
III. Álit umboðsmanns Alþingis.
1. Afmörkun athugunar.
Kvörtun A ehf. til umboðsmanns Alþingis lýtur að drætti á því að félagið hafi fengið afgreiðslu á fimm erindum sem það sendi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og vikið hefur verið að í kafla I hér að framan. Í kvörtuninni er varðandi hvert og eitt erindi þess sérstaklega farið á leit við umboðsmann að hann beini þeim tilmælum til ráðuneytisins að erindin verði afgreidd án frekari tafa.
Samkvæmt skýringum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins til mín hefur ráðuneytið nú afgreitt öll erindi félagsins að undanskildu hluta af einu erindanna er lýtur að umsókn félagsins um leyfi ráðuneytisins til innflutnings á eggjum frá Svíþjóð, dags. 18. febrúar 2008. Ég tel af þessum sökum ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um þau erindi sem ráðuneytið hefur afgreitt, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, en tel rétt að taka fram að athugasemdir þær um skort á því að gætt hafi verið að málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, sem fram koma í kafla IV.3 hér síðar, eiga einnig við um málsmeðferð ráðuneytisins hvað varðar erindi nr. 1 og 2, sbr. kafla I hér að framan. Þá vek ég athygli á því að ekki verður séð af gögnum málsins að ráðuneytið hafi gætt að tilkynningarskyldu 3. mgr. 9. gr. sömu laga við meðferð sömu erinda.
Athugun mín hefur samkvæmt framangreindu einskorðast við þann drátt sem orðið hefur á því að ráðuneytið hafi afgreitt umrædda umsókn A ehf. um leyfi til innflutnings á eggjum. Hefur athugunin nánar tiltekið lotið annars vegar að því hvort slík málsmeðferð samrýmist 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hins vegar að því hvaða heimildir að lögum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur til að bregðast við þegar lægra sett stjórnvald, Matvælastofnun, veitir ekki umsögn.
2. Lagagrundvöllur málsins.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, er tilgangur laganna m.a. að stuðla að góðu heilsufari dýra í landinu og koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins sem og fylgjast með og hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma og vinna að útrýmingu þeirra. Í 1. mgr. 3. gr., sbr. 64. gr. laga nr. 167/2007, er kveðið á um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka til. Í 2. mgr. 3. gr. er mælt fyrir um að Matvælastofnun skuli vera ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt er lúti að dýrasjúkdómum og framkvæmd laganna.
Í a-c-liðum 1. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993, sbr. 26. gr. laga nr. 87/1995, eru taldar upp þær vörutegundir sem óheimilt er að flytja til landsins til að hindra að dýrasjúkdómar berist til landsins. Undir þessa upptalningu falla m.a. hrá egg. Í 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. er mælt fyrir um að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilt að leyfa innflutning á vörum þeim sem taldar eru upp í a-c-liðum að fengnum meðmælum yfirdýralæknis, enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum. Samkvæmt þessu ákvæði getur ráðherra, þrátt fyrir þá meginreglu að það ríki bann við innflutningi þeirra vara sem taldar eru upp í a-c-liðum 1. mgr. 10. gr., leyft innflutning á vörunum að fengnum „meðmælum yfirdýralæknis“ svo fremi sem efnisskilyrðið, um að það sé „sannað að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum“, sé uppfyllt.
Samkvæmt a-lið 2. gr. laga nr. 80/2005, um Matvælastofnun, sbr. 61. gr. laga nr. 167/2007, er hlutverk stofnunarinnar m.a. að annast starfsemi sem yfirdýralækni er falin samkvæmt lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Með tilliti til þess er framangreindur innflutningur samkvæmt 1. málsl 2. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993 háður leyfi ráðherra að fengnum „meðmælum Matvælastofnunar“.
Af framangreindu verður ráðið að löggjafinn hafi ákveðið að fela Matvælastofnun það stjórnsýsluhlutverk að taka afstöðu til þess hvort heimilt sé að leyfa innflutning, t.d. á hráum eggjum, og þá í formi þess sem nefnt er í stjórnsýslurétti álitsumleitan. Hér er því um lögbundna álitsumleitan að ræða. Hins vegar er það á valdi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka ákvörðun um hvort veita eigi heimild fyrir því að innflutningurinn fari fram. Þar sem slík ákvörðun varðar rétt þess sem sækir um innflutningsleyfi er um að ræða stjórnvaldsákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Undirbúningur ákvörðunarinnar verður því að fullnægja þeim kröfum sem koma fram í lögunum.
3. Málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í 9. gr. stjórnsýslulaga er lögfest meginregla um málshraða í stjórnsýslu. Í 1. mgr. er mælt fyrir um að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í 2. mgr. er tekið fram að þar sem leitað sé umsagnar skuli það gert við fyrsta hentugleika. Ef leita þurfi eftir fleiri en einni umsögn skuli það gert samtímis þar sem því verði við komið. Stjórnvald skuli tiltaka fyrir hvaða tíma óskað er eftir að umsagnaraðili láti í té umsögn sína. Í 3. mgr. er síðan kveðið svo á að þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
Í málshraðareglunni felst áskilnaður um að aldrei megi vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Við mat á því hvað geti talist eðlilegur afgreiðslutími verður að meta málsmeðferð í hverju máli heildstætt. Við matið er því litið til umfangs máls og atvika hverju sinni. Þá hefur mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila einnig þýðingu. Þannig ber almennt að hraða meðferð mála sem varða verulega fjárhagslega hagsmuni aðila, eins og t.d. mála er lúta að réttindum aðila sem reka atvinnustarfsemi.
Í máli A ehf. liggur fyrir að félagið sótti um leyfi til innflutnings á ferskum eggjum frá Svíþjóð með tölvubréfi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dags. 18. febrúar 2008. Samkvæmt skýringum ráðuneytisins til mín hafði það óskað eftir umsögn Matvælastofnunar um umsóknina með bréfi til stofnunarinnar, dags. 2. apríl 2008, og ítrekaði þá ósk með bréfum, dags. 23. júní 2008 og 14. desember 2009. Samkvæmt svarbréfi ráðuneytisins til mín, dags. 18. ágúst 2010, hafði umsögnin ekki enn borist ráðuneytinu. Þá hafa mér ekki, þegar þetta álit er ritað, borist frekari upplýsingar frá ráðuneytinu af þessu tilefni.
Þegar framangreint er virt, þ.e. að umsókn A ehf. hafði ekki enn verið afgreidd 18. ágúst 2010, þrátt fyrir að umsóknin hafi borist ráðuneytinu 18. febrúar 2008, og með tilliti til fjárhagslegra hagsmuna félagsins, er það niðurstaða mín að málsmeðferð ráðuneytisins hafi ekki samrýmst 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Ég legg áherslu á það að þótt drátt á málinu megi rekja til seinagangs hjá Matvælastofnun þá ber sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, eins og ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, er úr garði gert, stjórnarfarslega ábyrgð á þeirri ákvörðun hvort leyfa eigi innflutning á ferskum eggjum. Í samræmi við þá ábyrgð ber ráðuneytinu að fylgja framangreindu ákvæði stjórnsýslulaga með því að taka slíka ákvörðun svo fljótt sem unnt er.
4. Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra.
Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 fara forseti lýðveldisins og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskránni og öðrum landslögum með framkvæmdarvaldið. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar lætur forseti ráðherra framkvæma vald sitt. Í 14. gr. stjórnarskrárinnar kemur síðan fram að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Þá skipar forseti ráðherra, ákveður tölu þeirra og skiptir með þeim störfum, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar.
Af framangreindum grundvallarreglum stjórnarskrárinnar leiðir að ráðherrar fara með æðsta vald, hver á sínu sviði. Ráðherrar fara með stjórnarmálefni í Stjórnarráði Íslands, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1969, um Stjórnarráð Íslands, og samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna hefur ráðuneyti eftirlit með starfrækslu stofnana, sem undir það ber, og eignum á vegum þeirra stofnana. Af ákvæði 2. og 14. gr. stjórnarskrárinnar, 1. mgr. 9. gr. laga nr. 73/1969 og almennum reglum stjórnsýsluréttar leiðir samkvæmt þessu að ráðherrar fara með æðsta vald í stigskiptri stjórnsýslu og hafa eftirlit og bera ábyrgð á starfsemi ráðuneyta og þeirra stjórnvalda sem teljast lægra sett gagnvart hlutaðeigandi ráðherra.
Vald ráðherra og lagaleg ábyrgð birtist þannig einkum í þeim yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum sem hann hefur samkvæmt settum lögum og óskráðum reglum til að hafa raunhæf og virk áhrif á starfsemi undirstofnana sem undir hann heyra samkvæmt lögum á hverjum tíma. Við nánari afmörkun á yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum ráðherra verður í hverju tilviki að horfa til þeirra lagafyrirmæla sem gilda um það málefni sem undirstofnun er falið að sinna og þess samspils almennra stjórnunarheimilda sem ráðherra kunna að vera fengnar samkvæmt slíkum fyrirmælum og þeim stjórntækjum öðrum sem þau gera ráð fyrir, t.d. í formi kærusambands eða staðfestingarheimilda ráðherra. Þá ber einnig að geta þeirra almennu reglna sem gilda um opinber störf samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og þá einkum um valdheimildir ráðherra gagnvart forstöðumönnum undirstofnana sem birtast í ákvæðum laganna um stjórnsýsluviðurlög gagnvart einstökum forstöðumönnum og öðrum starfsmönnum. Um þessi lagasjónarmið vísa ég að öðru leyti til álits míns frá 7. júlí 2009 í máli nr. 5718/2009 og til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 19. desember 1989 í máli nr. 53/1988 og 27. nóvember 1998 í máli nr. 2289/1997.
Í samræmi við það sem hér er rakið hefur ráðherra heimild og skyldu til að hafa áhrif á hvernig undirstofnanir rækja verkefni sín og beita þeim opinberu valdheimildum sem þau fara með. Ef út af er brugðið í starfsemi þeirra, t.d. að þau fari ekki að lögum, og réttarbrotið varðar verulega hagsmuni borgara og/eða lögaðila, ber ráðherra almennt að bregðast við með því að nota einhver af þeim úrræðum sem felast í stjórnunarheimildum hans gagnvart undirstofnun.
Í ákvæði 1. gr. laga nr. 80/2005, um Matvælastofnun kemur fram að ríkið starfræki stofnun sem nefnist Matvælastofnun. Aðsetur stofnunarinnar sé þar sem ráðherra ákveði. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fari með yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka til. Af lögunum er ekki unnt að draga þá ályktun að stofnunin sé sjálfstæð gagnvart ráðherra. Með þetta í huga, og að virtri þeirri meginreglu að ráðherrar fara með yfirstjórn stjórnsýslunnar nema hún sé að lögum undanskilin, verður að líta svo á að Matvælastofnun sé lægra sett stjórnvald gagnvart ráðherra. Af því leiðir að framangreind lagasjónarmið um yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir ráðherra eiga við í máli þessu.
Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993, eins og ákvæðið verður skilið í ljósi a-liðar 2. gr. laga nr. 80/2005, sbr. 61. gr. laga nr. 167/2007, er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra óheimilt að veita umrætt leyfi án meðmæla Matvælastofnunar. Með ákvæðinu hefur löggjafinn falið tilteknu stjórnvaldi, sem sérfræðiaðila á sviðinu, það hlutverk að leggja mat á lögmælt skilyrði, þ.e. hvort sannað þyki að ekki berist smitefni með þeim sem valda dýrasjúkdómum. Þegar löggjafinn hefur með þessum hætti falið stjórnvaldi að veita umsögn hvílir skylda á því að lögum að veita hana innan hæfilegs tíma, sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 19. apríl 1993 í máli nr. 613/1992. Í þessu máli hafði Matvælastofnun dregið verulega að gæta að þessari skyldu sinni með þeim afleiðingum að ráðherra hafði, hvað varðar þennan hluta umsóknar A ehf., látið hjá líða að taka ákvörðun í málinu. Augljóst er að óviðunandi er að umsagnaraðili geti með athafnaleysi sínu komið með þessum hætti í veg fyrir að stjórnvald afgreiði mál. Að því virtu hefur verið lagt til grundvallar að stjórnvald geti við slíkar aðstæður eftir atvikum tekið ákvörðun í máli, þó að því skilyrði uppfylltu, að það hafi sannanlega gripið til allra þeirra ráðstafana, til þess að fá hina lögboðnu umsögn, sem eðlilegar geta talist á viðkomandi sviði stjórnsýslunnar, sbr. fyrrnefnt álit umboðsmanns Alþingis frá 19. apríl 1993. Þegar um aðstæður sem þessar er að ræða í samskiptum ráðherra og undirstofnunar verður samkvæmt þessu að horfa til þess hvort ráðherra hafi nýtt yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir sínar til að knýja undirstofnunina til að sinna skyldu sinni til að veita hina lögboðnu umsögn.
Með vísan til framangreinds skapaðist í þessu máli sú skylda hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hlutast til um að Matvælastofnun veitti umrædda umsögn þannig að ráðuneytinu væri fært að afgreiða umsóknina. Að mínu áliti var því, í ljósi þeirra skyldna sem hvíla á ráðuneytinu á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þess gagnvart Matvælastofnun, ekki nægilegt að ráðuneytið léti við það sitja að senda þriðja bréfið til stofnunarinnar, dags. 14. desember 2009, þar sem ítrekað var eftir beiðni um umsögn hennar, tæpu einu og hálfu ári eftir að annað bréfið var ritað sem var 23. júní 2008, og gera ekki frekari ráðstafanir þegar því erindi ráðuneytisins var ekki sinnt af hálfu Matvælastofnunar. Þar sem þá var þegar orðinn verulegur dráttur á því að Matvælastofnun brygðist við umsagnarbeiðni ráðuneytisins bar ráðherra að taka afstöðu til þess á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna hvort setja ætti stofnuninni lokafrest, sbr. 2. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, til að skila umsögn í málinu og jafnframt að taka þá fram að yrði umsögn ekki skilað að þeim tíma liðnum kæmi til greina að ráðuneytið beitti heimildum sínum, m.a. á grundvelli laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gagnvart forstöðumanni stofnunarinnar. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem æðra stjórnvald og yfirstjórnandi málaflokksins gat þannig ekki látið hjá líða að gera virkar ráðstafanir til að koma þessum þætti í starfsemi lægra setts stjórnvalds, Matvælastofnunar, í lögmætt horf.
Með vísan til alls framangreinds er það því jafnframt niðurstaða mín að sá skortur sem orðið hefur á því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið brygðist nægjanlega við þeim verulega drætti sem orðið hefur á því að Matvælastofnun veitti umsögn í tilefni af ofangreindri umsókn A ehf. hafi ekki verið í samræmi við þær skyldur sem hvíla á ráðherra samkvæmt yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum hans gagnvart Matvælastofnun.
IV. Niðurstaða.
Að virtu öllu framangreindu er það niðurstaða mín að sá dráttur sem orðið hefur á því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið afgreiddi að öllu leyti umsókn A ehf. frá 18. febrúar 2008, um leyfi til innflutnings á ferskum eggjum frá Svíþjóð, hafi ekki samrýmst 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er það niðurstaða mín að sá skortur sem orðið hefur á því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið brygðist nægjanlega við þeim drætti sem orðið hefur á því að Matvælastofnun veitti umsögn um ofangreinda umsókn A ehf. hafi ekki verið í samræmi við þær skyldur sem hvíla á ráðherra samkvæmt yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum hans með Matvælastofnun.
Ég beini þeim tilmælum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að ráðuneytið geri þær nauðsynlegu ráðstafanir gagnvart Matvælastofnun, sem fjallað er um í áliti þessu, hafi ekki enn borist umsögn frá stofnuninni. Einnig beini ég þeim tilmælum til ráðuneytisins að það hafi þau sjónarmið sem rakin eru í áliti þessu framvegis í huga í störfum sínum.
Undirritaður hefur í samræmi við ákvæði 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, sbr. breytingu með lögum nr. 142/2008, farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis í fjarveru kjörins umboðsmanns á tímabilinu 1. janúar 2009 til 30. júní 2010. Forsætisnefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum 23. júní 2010 að ég yrði áfram settur umboðsmaður Alþingis í ákveðnum málum sem voru til lokaafgreiðslu við lok þess tímabils og er mál þetta þar á meðal.
Róbert R. Spanó.
V. Viðbrögð stjórnvalda.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var ritað bréf, dags. 1. febrúar 2011, þar sem þess var óskað að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið upplýsti um hvort álit setts umboðsmanns í málinu hefði orðið tilefni til einhverra ráðstafana hjá ráðuneytinu og ef svo væri í hverju þær ráðstafanir hefðu falist.
Í svarbréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dags. 1. mars 2011, kom fram að ráðuneytinu hefði borist umsögn yfirdýralæknis/Matvælastofnunar, dags. 30. nóvember 2010, þar sem mælt væri með því að innflutningur yrði heimilaður að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og að ráðuneytið hefði umsögnina nú til athugunar.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu var ritað á ný bréf, dags. 10. mars 2011, þar sem þess óskað var upplýsinga um afstöðu ráðuneytisins til þeirra tilmæla að sjónarmið sem rakin væru í álitinu yrðu framvegis höfð í huga í störfum ráðuneytisins.
Í svarbréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dags. 29. apríl 2011, kom fram að ráðuneytið hefði farið yfir þau sjónarmið og myndi framvegis hafa þau í huga í störfum sínum.
Þess má geta að A ehf. hefur leitað til mín á ný og kvartað yfir starfsháttum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í tengslum við leyfisbeiðnina. Þegar þetta er ritað eru um þrjú og hálft ár frá því að A ehf. lagði umsókn sína fram en hún hefur ekki enn fengist afgreidd. Málið er til athugunar í framhaldi af bréfaskiptum við ráðuneytið.