Opinberir starfsmenn. Ráðning í starf starfsmanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Sjónarmið sem ákvörðun verður byggð á. Rannsóknarregla. Réttmætisregla. Jafnræðisregla. Stjórnarskrá. Tjáningarfrelsi.

(Mál nr. 5740/2009)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir þeirri ákvörðun iðnaðarráðuneytisins að ráða B í starf starfsmanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og málsmeðferð við þá ráðningu. Í kvörtuninni var þess m.a. óskað að metið yrði hvort utanaðkomandi aðilar hefðu á óeðlilegan hátt komið að ráðningunni og hvort sú staðreynd að A hefði starfað að umhverfismálum hefði haft áhrif á ákvörðun um ráðningu í starfið. Hefði svo verið óskaði A eftir afstöðu umboðsmanns til þess hvort slík afgreiðsla væri lögleg við ráðningar í störf hjá hinu opinbera.

Settur umboðsmaður vísaði til þess að þegar litið væri til skýringa iðnaðarráðuneytisins yrði að telja ljóst að það sem hefði ráðið úrslitum um niðurstöðu ráðuneytisins um að velja B til starfans umfram A hefði verið að A hefði ekki verið talin njóta trausts verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar. Ástæður þess hefðu verið að rekja til þess að A hefði á undanförnum árum tekið þátt í umræðum á opinberum vettvangi um virkjana- og umhverfismál. Þannig hefði A komið fram opinberlega sem málsvari umhverfisverndarsjónarmiða og hefðu bæði birst greinar eftir hana og viðtöl við hana í blöðum þar sem fjallað hefði verið um ýmis atriði er tengdust orku- og umhverfismálum.

Settur umboðsmaður tók m.a. fram að það leiddi af 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að almennt væri óheimilt að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða byggðum á stjórnmálaskoðunum. Afstaða manna til mikilvægra samfélagslegra málefna, s.s. umhverfismála, teldist ótvírætt falla þar undir. Vísaði hann jafnframt til tjáningarfrelsisákvæðis 73. gr. stjórnarskrárinnar. Settur umboðsmaður taldi þó ekki með öllu fært að útiloka að það gæti í undantekningartilvikum talist málefnalegt að líta til ummæla eða afstöðu umsækjanda um opinbert starf þótt hún yrði talin liður í umfjöllun á opinberum vettvangi um samfélagsleg málefni við mat á hæfni hans til að gegna starfinu. Væri fyrirhugað að láta traust handhafa veitingarvalds og eftir atvikum annarra aðila hafa veruleg áhrif á niðurstöðu veitingarvaldshafa um ráðningu í opinbert starf yrði hins vegar að taka til sérstakrar skoðunar á hvaða grundvelli það traust byggðist eða eftir atvikum ályktun um að umsækjandi nyti ekki nægilegs trausts. Væri ályktun um skort á trausti til umsækjanda reist á opinberri afstöðu hans eða öðrum ummælum um það málefni sem hið auglýsta starf beindist að, yrðu þannig að liggja fyrir skýrar og glöggar upplýsingar um efni ummælanna, af hvaða tilefni þau væru sett fram og samhengi þeirra að öðru leyti.

Settur umboðsmaður vísaði til þess að í skýringum iðnaðarráðuneytisins hefði komið fram að það hefði í reynd ekki ráðið úrslitum af hálfu ráðuneytisins hvaða ástæður hefðu verið þess valdandi að A naut ekki trausts verkefnisstjórnarinnar, heldur sú staðreynd að vantraust hafði verið fyrir hendi. Settur umboðsmaður benti á að ef sú staðreynd, ein og sér, að á skorti að stjórnvald treysti umsækjanda til að sinna opinberu starfi, yrði talinn fullnægjandi ástæða að lögum til þess að útiloka einstakling frá starfinu, án tillits til þess á hvaða grundvelli slíkur skortur á trausti byggðist, væri sú vernd sem jafnræðisreglu og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar væri ætlað að veita borgurunum fyrir borð borin. Settur umboðsmaður taldi að iðnaðarráðuneytinu hefði borið að afla frekari upplýsinga um þau ummæli sem A átti að hafa viðhaft á opinberum vettvangi og leggja mat á inntak þeirra og samhengi og þá hvort réttlætanlegt hefði verið að líta til þeirra við mat á umsókn hennar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Settur umboðsmaður taldi, eins og atvikum málsins var háttað, óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að iðnaðarráðuneytið hefði ekki sýnt fram á að það hefði hagað undirbúningi þeirrar ákvörðunar að ráða í umrætt starf í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Taldi hann þó ekki unnt að fullyrða að þeir annmarkar, sem hefðu verið á meðferð málsins leiddu til ógildingar á umræddri ákvörðun ráðuneytisins. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari umfjöllunar um réttaráhrif þessara annmarka og þar með talið hugsanlega bótaábyrgð ríkisins gagnvart A. Það yrði að vera hlutverk dómstóla að fjalla um slíkt. Hann beindi hins vegar þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu við veitingu opinberra starfa.

I. Kvörtun.

Hinn 24. júlí 2009 leitaði A til mín og kvartaði yfir þeirri ákvörðun iðnaðarráðuneytisins að ráða B í starf starfsmanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og málsmeðferð við þá ráðningu, en A var á meðal umsækjenda um starfið.

Athugasemdir A lúta að því að menntun hennar, reynsla og þekking á málaflokknum sé umtalsvert meiri en þess aðila er hlaut starfið. A telur einnig að viðhlítandi rökstuðningur hafi ekki fengist fyrir ráðningu í starfið. Þá gerir hún athugasemdir við að hún hafi ekki fengið upplýsingar um nöfn þeirra umsagnaraðila sem leitað var til í tilefni af umsókn hennar um starfið.

Í kvörtuninni er þess einkum óskað að metið verði hvort utanaðkomandi aðilar hafi á óeðlilegan hátt komið að ráðningunni og hvort sú staðreynd, að hún hafi starfað að umhverfismálum, hafi haft áhrif á ákvörðun um ráðningu í starfið. Hafi svo verið óskar A eftir afstöðu umboðsmanns til þess hvort slík afgreiðsla sé lögleg við ráðningar í störf hjá hinu opinbera.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 31. desember 2010.

II. Málavextir.

Samkvæmt gögnum málsins sótti A um starf starfsmanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma með umsókn, dags. 27. júlí 2008, í kjölfar auglýsingar starfsins 13. júlí 2008 í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og á Starfatorgi. Í auglýsingunni var starfssviði og helstu verkefnum starfsmannsins lýst með eftirfarandi hætti:

„Á vegum ríkisstjórnarinnar er unnið að 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Markmið rammaáætlunarinnar er að skapa faglegar forsendur fyrir ákvörðun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðhitasvæði. Í áætluninni skal leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, og áhrif þeirra á náttúru- og menningarminjar, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis. Heildarstjórn verkefnisins er í höndum verkefnisstjórnar og undir verkefnisstjórn starfa faghópar skipaðir af sérfræðingum á viðeigandi sviðum.

Iðnaðarráðuneyti, að höfðu samráði við umhverfisráðuneyti og verkefnisstjórn rammaáætlunar, auglýsir eftir starfsmanni verkefnisstjórnarinnar. Helstu verkefni starfsmanns verða að vinna með verkefnisstjórn og faghópum m.a. að undirbúningi og gerð lokaskýrslu, auk þess að skipuleggja og annast vefsíðu og annað kynningarstarf. Starfsmaður er ritari verkefnisstjórnar og faghópa og heldur utan um gögn þeirra.“

Í auglýsingunni voru einnig áskildar eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur til starfans:

„Háskólamenntun sem nýtist í starfi.

Gott vald á rituðu máli, íslensku og ensku og reynslu af samantekt og framsetningu efnis.

Framtakssemi, sjálfstæði í vinnubrögðum og löngun til að takast á við síbreytileg verkefni.

Samskiptahæfni.“

Í auglýsingunni kom jafnframt fram að starfið væri tímabundið, frá hausti 2008 til loka árs 2009. Umsóknarfrestur rann út 28. júlí 2008 og bárust iðnaðarráðuneytinu alls 11 umsóknir, þ. á m. frá A. Fjórir umsækjendur, sem ráðuneytið taldi að byggju yfir mestri menntun og reynslu, voru boðaðir í viðtöl sem fram fóru í húsakynnum Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri 11. ágúst 2008, en á meðal þeirra voru A og B. Í kjölfarið var rætt við umsagnaraðila og farið yfir málið í verkefnisstjórn 2. áfanga rammaáætlunar.

Í málinu liggur fyrir fundargerð verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar, dags. 14. ágúst 2008, þar sem fram kemur að formaður hafi lagt til að B yrði ráðinn starfsmaður nefndarinnar og að verkefnisstjórnin hafi verið einhuga um að veita formanni umboð til að ganga frá samningi við hann.

Með bréfi, dags. 3. september 2008, tilkynnti iðnaðarráðuneytið A að ákveðið hefði verið að ráða B í starfið. Í bréfinu var A leiðbeint um heimild sína til þess að fá ákvörðunina rökstudda, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfum til iðnaðarráðuneytisins, dags. 26. ágúst og 9. september 2008, óskaði A eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun ráðuneytisins um ráðningu í starfið.

Í rökstuðningi iðnaðarráðuneytisins til A, dags. 12. september 2008, var vikið að starfssviði og verkefnum starfsmanns verkefnisstjórnarinnar og þeim hæfniskröfum sem fram komu í auglýsingu. Í rökstuðningnum sagði síðan eftirfarandi:

„Umsækjendur um starfið voru ellefu talsins. Eftir rækilega skoðun á umsóknum, og þeim atriðum sem fram komu í viðtölum, var það mat ráðuneytisins að [B] uppfyllti best þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu til starfsmannsins. Hann taldist því hæfasti umsækjandinn og var ráðinn í starfið.

[B] hefur lokið BA prófi í sagnfræði, BSc í rekstrarfræði frá University of [...] í Bandaríkjunum og MBA námi frá [...] Business School í Bretlandi.

[B] hefur góða tungumálakunnáttu og hefur gott vald á rituðu máli. Hann hefur m.a. skrifað íslenskt sagnfræðirit í tveimur bindum. Hann hefur mikla reynslu af því að taka saman og setja fram skýrslur, greinargerðir og upplýsingaefni bæði á íslensku og ensku. Þá hefur hann sett upp og ritstýrt fjórum vefsíðum.

Sl. 25 ár hefur hann gegnt ýmsum störfum á sviði sölu-, markaðs- og kynningarmála. Þá hefur hann gegnt starfi framkvæmdastjóra ferðaskrifstofu og sinnt ráðgjafastörfum á sviði stefnumótunar, markaðsmála og stjórnunar. Þá hefur hann gegnt starfi stundakennara við Háskólann í Reykjavík. [B] hefur reynslu af því að vinna sjálfstætt og hefur sýnt að hann er tilbúinn til að takast á við ný verkefni. Loks hefur hann mikla reynslu af því að skipuleggja fundi og kynningar.

[B] stóð sig vel í viðtali sem tekið var við umsækjendur og fær góð meðmæli hjá öllum þeim umsagnaraðilum sem rætt var við bæði hvað varðaði fagleg vinnubrögð og samskiptahæfni. Þá nýtur hann trausts verkefnisstjórnar um 2. áfanga rammaáætlunar.“

Með bréfi, dags. 16. september 2008, ítrekaði A beiðni sína til iðnaðarráðuneytisins um rökstuðning fyrir ráðningunni. Í bréfinu vísaði hún m.a. til þess að í rökstuðningi ráðuneytisins frá 12. september 2008 hefði enginn samanburður verið gerður á menntun og starfsreynslu B og annarra umsækjenda. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 2. október 2008, var beiðni A um frekari rökstuðning fyrir ráðningunni hafnað.

Með bréfi til iðnaðarráðuneytisins, dags. 14. september 2010, óskaði A eftir því með vísan í upplýsingalög nr. 50/1996 að ráðuneytið afhenti henni fundargerð verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar frá 14. ágúst 2008 og lista yfir þá umsagnaraðila sem haft var samband við í tilefni af umsókn hennar um starfið og umsagnir þeirra.

Með svarbréfi ráðuneytisins til A, dags. 15. september 2010, fylgdi umbeðin fundargerð. Í bréfinu kom fram að ekki lægju fyrir upplýsingar um nöfn umsagnaraðila og umsagnir þeirra í ráðuneytinu. Ráðuneytið myndi hins vegar óska eftir þessum upplýsingum frá formanni verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar. Með bréfi til formanns verkefnisstjórnar, dags. 16. september 2010, óskaði ráðuneytið eftir framangreindum upplýsingum.

Í tölvubréfi formanns verkefnisstjórnar, dags. 18. september 2010, af þessu tilefni til iðnaðarráðuneytisins, kom m.a. fram að 28. ágúst 2008 hefði formaðurinn sent ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytisins minnisblað vegna ráðningar starfsmanns verkefnisstjórnar og hefðu því upplýsingar um umsagnaraðila legið fyrir í ráðuneytinu, en ég tek fram að minnisblað þetta verður nánar rakið í kafla IV.3 hér síðar í álitinu. Í tölvubréfinu sagði síðan eftirfarandi:

„Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur ekki lagagrundvöll en er nefnd sem starfar á vegum iðnaðarráðuneytis að tilteknu verkefni. Í 1. áfanga var samið við Landvernd um umsýslu með verkefninu og starfsmaður verkefnisstjórnar var jafnframt framkvæmdastjóri Landverndar. Þegar farið var af stað með 2. áfanga var einum starfsmanna iðnaðarráðuneytis falið að vera jafnframt starfsmaður verkefnisstjórnar til að byrja með. Vorið 2008 var talið tímabært að verkefnisstjórn fengi sinn starfsmann sem ekki yrði þá starfsmaður iðnaðarráðuneytis og til að undirstrika sjálfstæði starfsmanns var honum fengin vinnuaðstaða hjá Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri (RHA). Með þessu var leitast við að sýna eins mikið hlutleysi og hægt var; að starfsmaður væri ekki um of litaður eða tengdur tilteknum hagsmunaaðilum. Þetta þótti nauðsynlegt til þess að auka líkur á að allir aðilar gætu treyst því að verkefnisstjórn sýndi hlutleysi í störfum sínum.“

Í viðhengi með tölvubréfi formanns verkefnisstjórnar, dags. 18. september 2010, voru tilgreind nöfn þeirra aðila sem formaður ræddi við í tilefni af fyrirhugaðri ráðningu starfsmanns verkefnisstjórnarinnar. Þá sagði m.a. eftirfarandi í bréfinu:

„Þessi samtöl voru óformleg og voru ýmist að frumkvæði mínu eða viðkomandi og fyrst og fremst til þess fallin að auðvelda mér að átta mig á því hvort unnt yrði að ná einingu í verkefnisstjórn um ráðningu starfsmanns, en það taldi ég skyldu mína m.v. þær umræður sem fram höfðu farið m.a. í verkefnisstjórn um mikilvægi þess að starfsmaður nyti trausts hagsmunaaðila og þá fulltrúa þeirra í verkefnisstjórn.

Samkvæmt ábendingu [A] var einnig rætt við [X].

Það varð fljótt ljóst af samtölum mínum við fulltrúa í verkefnisstjórn að ekki yrði eining um ráðningu [B] og varð niðurstaðan því að leggja til að [B] yrði ráðinn eins og fram kemur í fundargerð frá 14. ágúst 2008. Ég tel það ekki skyldu mína að upplýsa um viðhorf einstakra fulltrúa þar sem þessi viðtöl voru óformleg en niðurstaðan er ljós sbr. framangreinda fundargerð; eining var um ráðningu [B] og ekki komu fram aðrar tillögur.“

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda.

Í tilefni af kvörtun A ritaði ég iðnaðarráðuneytinu bréf, dags. 28. júlí 2009, þar sem ég óskaði eftir gögnum málsins með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, áður en ég tæki ákvörðun um meðferð mína á málinu. Bárust mér gögn málsins með bréfi ráðuneytisins, dags. 19. ágúst 2009.

Ég ritaði iðnaðarráðuneytinu á ný bréf, dags. 1. september 2009, þar sem ég óskaði eftir því með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið lýsti viðhorfi sínu til kvörtunarinnar og skýrði nánar ástæður ákvörðunar um ráðningu í umrætt starf og hvaða sjónarmið hefðu vegið þar þyngst. Í þessu sambandi óskaði ég eftir að gerð yrði grein fyrir því hvernig umsóknir A og þess umsækjanda sem fékk starfið hefðu verið metnar með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ákvörðunin byggðist á. Þá óskaði ég sérstaklega eftir að ráðuneytið veitti mér upplýsingar um og skýringar á nánar tilgreindum atriðum, en ég tek fram að hér verða samskipti mín við ráðuneytið aðeins rakin að því marki sem nauðsynlegt er í ljósi þess hvernig athugun mín á kvörtun málsins er afmörkuð, sjá kafla IV.1 hér síðar.

Í fyrsta lagi óskaði ég eftir upplýsingum um hvort tiltekið samtal á milli formanns verkefnisstjórnarinnar og A hefði átt sér stað og ef svo væri hvort það hefði verið skráð, sbr. 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Hefði það átt sér stað og verið skráð óskaði ég eftir afriti af þeim gögnum sem og upplýsingum um nöfn þeirra umsagnaraðila sem leitað var til. Hefði umrætt samtal átt sér stað og upplýsingar um efni þess ekki verið skráð óskaði ég eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá hvernig slík málsmeðferð samrýmdist 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

Í öðru lagi vék ég að því að af gögnum málsins, sbr. minnisblað ráðuneytisstjóra, dags. 2. september 2008, yrði ráðið að leitað hefði verið eftir munnlegum meðmælum um þau A og B. Af gögnum málsins yrði hins vegar ekki ráðið við hvaða umsagnaraðila hefði verið rætt og hvað hefði komið fram í samtölum við þá. Einnig óskaði ég eftir að upplýst yrði hvort þær upplýsingar sem aflað hefði verið með munnlegum umsögnum umsagnaraðila hefðu verið skráðar í samræmi við 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Ef það hefði ekki verið gert óskaði ég eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá hvernig slík málsmeðferð samrýmdist fyrrnefndu ákvæði 23. gr. upplýsingalaga.

Í þriðja lagi óskaði ég eftir upplýsingum um hvort A hefði verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum við þær umsagnir sem leitað var eftir og þær athugasemdir, sem fram höfðu komið, um að hún hefði ekki notið trausts hjá öllum fulltrúum í verkefnisstjórninni. Ef svo væri ekki óskaði ég eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig slík málsmeðferð samrýmdist annars vegar 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt og hins vegar ákvæði 10. gr. sömu laga um rannsókn máls. Ég óskaði jafnframt eftir nánari skýringum á þeim ummælum sem fram kæmu í minnisblaði ráðuneytisstjóra, dags. 2. september 2008, um að A hefði ekki notið trausts hjá öllum fulltrúum í verkefnisstjórninni.

Í fjórða lagi óskaði ég eftir viðhorfi ráðuneytisins til þess hvort rökstuðningur þess fyrir ráðningu í starfið, dags. 12. september 2008, hefði uppfyllt þær kröfur sem gerðar væru í 22. gr. stjórnsýslulaga.

Í svarbréfi iðnaðarráðuneytisins til mín, dags. 16. desember 2009, sagði m.a. svo:

„I.

[...]

Markmið rammaáætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Með þessu móti er ætlunin að leggja grundvöll að forgangsröðun virkjunarkosta með tilliti til þarfa þjóðfélagsins hvað varðar atvinnustarfsemi, varðveislu náttúrugæða, styrkingu landsbyggðar og hagsmuna allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Frá upphafi var skipulag undirbúningsvinnu að rammaáætlun hugsað á þann veg að þar væri í öndvegi fagleg aðkoma og vinna sérfræðinga er besta þekkingu hefðu á viðfangsefninu. Einnig að skapaður yrði almennur samráðsvettvangur hagsmunaaðila sem eðlilegt væri að kæmu að málinu, áhugafólks og almennings þannig að allir hefðu tök á að fylgjast með framgangi áætlunarinnar. Fyrir vinnunni fer öflug verkefnisstjórn sem mótar áætlunina og skipulag hennar og beinir hinni faglegu vinnu í réttan farveg. Verkefnisstjórninni til aðstoðar við mat á virkjunarkostum eru fjórir faghópar: faghópur 1 sem fjallar um náttúrufar og minjar, faghópur 2 sem fjallar um ferðaþjónustu, útivist og hlunnindi, faghópur 3 sem fjallar um þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun og faghópur 4 sem fjallar um orkulindir. Verkefni hópanna er að fara yfir virkjunarkosti hver frá sínum sjónarhóli, meta þá og gera tillögur til verkefnisstjórnar. Í faghópunum sitja sérfræðingar á viðkomandi sviði. Verkefnisstjórnin stendur fyrir samráði og kynningu með skipulegum hætti. Samkvæmt þessu er skipulagið þríþætt; verkefnisstjórn, faghópar og samráðsvettvangur. Auk þessa hefur ávallt starfsmaður unnið með verkefnisstjórn og faghópum og hefur hlutverk starfsmannsins verið að halda utan um fundi, gerð skýrslna, vinnu við heimasíðu og undirbúning kynningarstarfs. Hlutverk starfsmannsins er hins vegar ekki að koma með faglega þekkingu á umfjöllunarefninu inn í starf verkefnisstjórnar eða faghópa. Með auglýsingu iðnaðarráðuneytisins 13. júlí 2008 var því verið að leita eftir starfsmanni í þetta tiltekna tímabundna starf.

Þrjár verkefnisstjórnir hafa komið að stjórnun rammaáætlunar. Í verkefnisstjórn 1. áfanga 1999-2003 sátu 16 manns; 12 voru skipaðir beint í stjórnina og auk þeirra sátu þar fjórir formenn faghópa. Iðnaðarráðuneytið gerði samning við Landvernd um að samtökin önnuðust samráðsvettvang og leggðu til starfsmann sem aðstoðaði verkefnisstjórn og faghópa í vinnu sinni við 1. áfanga rammaáætlunarinnar. Í fyrri hluta 2. áfanga, 2004-2007, voru frekari rannsóknir og mat um framhaldið í höndum þriggja manna verkefnisstjórnar, en Orkustofnun lagði til starfsmann til að aðstoða verkefnisstjórnina. Núverandi 12 manna verkefnisstjórn tók við í september 2007 og henni er ætlað að leiða starf þessa áfanga til lykta. Í byrjun vinnu verkefnisstjórnarinnar lögðu iðnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneyti til starfsmenn til að vera verkefnisstjórninni innan handar en fljótlega varð ljóst að um fullt starf væri að ræða. Þar sem hvorki ráðuneytin, Orkustofnun né aðrar stofnanir gátu lagt til starfsmann í að sinna eingöngu aðstoð við verkefnisstjórn og faghópa í störfum sínum var gripið til þess ráðs að auglýsa eftir umsækjendum um tímabundið starf starfsmanns verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Þar sem verkefnisstjórn rammaáætlunar hafði hvorki umboð til að ráða starfsmann né aðstöðu til starfsmannahalds var ákveðið að iðnaðarráðuneytið annaðist auglýsingu og hefði yfirumsjón með ráðningunni, en að formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar tæki þátt í öllu ráðningarferlinu þar sem að starfsmaðurinn var eingöngu ætlað að starfa með verkefnisstjórn og faghópum rammaáætlunar. Til að undirstrika áherslu á sjálfstæði starfsmannsins gagnvart ráðuneytinu var ákveðið að hann hefði aðsetur hjá rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA).

Að höfðu samráði við umhverfisráðuneyti og verkefnisstjórn rammaáætlunar, auglýsti iðnaðarráðuneyti hinn 13. júlí 2008 í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og á Starfatorgi, laust til umsóknar tímabundið starf starfsmanns verkefnisstjórnar rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. [...]

Umsóknarfrestur rann út 28. júlí 2000 og bárust alls 11 umsóknir. Farið var yfir allar umsóknir af fulltrúum ráðuneytisins og formanni verkefnisstjórnar rammaáætlunar og var það sameiginleg niðurstaða að fjórir af umsækjendunum teldust hæfastir til að gegna starfinu með vísan til þeirra krafna sem fram komu í [...] auglýsingu. Í framhaldi af því voru umræddir fjórir einstaklingar [...] kallaðir í viðtöl sem fram fóru 11. ágúst 2008 í húsakynnum RHA. [...] Eftir viðtölin var það sameiginleg álit þeirra [sem tóku viðtölin] að [A] og [B] væru hæfustu umsækjendurnir út frá þeim kröfum sem komu fram í [...] auglýsingu.

Í framhaldi af viðtölum aflaði formaður verkefnisstjórnar umsagna þeirra aðila sem [A] og [B] höfðu bent á sem meðmælendur, auk þess sem rætt var við umsækjendur og farið yfir málið í verkefnisstjórn rammaáætlunar. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins höfðu aðilar innan verkefnisstjórnar samband við formann sinn að fyrra bragði til að koma á framfæri áhyggjum sínum yfir því að [A] gæti mögulega ekki sinnt starfinu á hlutlausan hátt. Þá ræddi formaðurinn málið sérstaklega við þáverandi fulltrúa náttúruverndarsamtaka í verkefnisstjórn. Í fundargerð frá 9. fundi verkefnisstjórnar, sem haldinn var 14. ágúst 2008, kemur fram að verkefnisstjórnin hafi verið einhuga um að veita formanni umboð til að ganga frá samningi við [B]. Formaður verkefnisstjórnar kom ofangreindum sjónarmiðum á framfæri munnlega við ráðuneytið og skráði ráðuneytisstjóri þær upplýsingar í minnisblaði, dags. 2. september 2008, en þar var lagt til að [B] yrði ráðinn í starfið. Á grundvelli þessa var það niðurstaða ráðuneytisins að [B] skyldi boðið umrætt starf sem hann þáði. Í kjölfar þessa var öllum umsækjendum tilkynnt um ráðningu hans með bréfi ráðuneytisins, dags. 3. september 2008.

II.

[...]

Að mati ráðuneytisins var farið að reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð við ráðningu starfsmanns verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Hvað varðar menntun og reynslu [A] þá bendir ráðuneytið á að í auglýsingu var einungis gerð krafa um háskólamenntun sem nýttist í starfi og reynslu af samantekt og framsetningu efnis. Ekki var gerð krafa um að menntun eða reynsla tengdist umræddum málaflokki. Eins og að framan er rakið var það niðurstaða ráðuneytisins og formanns verkefnisstjórnar rammaáætlunar að fjórir umsækjendur, þ. á m. [A], uppfylltu kröfur auglýsingarinnar og voru viðtöl því tekin við þá umsækjendur. Ráðuneytið telur hins vegar að við mat á hæfni umsækjenda beri að horfa til þess sem fram kemur í auglýsingu varðandi lýsingu á umræddu starfi og heildstæðs mats á þeim kröfum sem gerðar eru til umsækjenda. Hlýtur þar m.a. að koma til skoðunar krafa um samskiptahæfni sem tengist mati á því hversu vel umsækjendur séu fallnir til þess að starfa á hlutlausan hátt fyrir verkefnisstjórn og faghópa rammaáætlunar.

Eins og að ofan er rakið kom í ljós í ráðningarferlinu að [A] nyti ekki trausts allra í verkefnisstjórninni. Ástæður þess voru að [A] hafði á undanförnum árum komið fram opinberlega sem málsvari umhverfisverndarsjónarmiða og höfðu bæði birst greinar eftir hana og viðtöl í blöðum þar sem fjallað er um ýmis atriði er tengjast orku- og umhverfismálum. Þá bendir ráðuneytið á opinbera umræðu sem átti sér stað í tengslum við vinnu [A] fyrir VSÓ við mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu og vikið er að síðar. Formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar ræddi símleiðis við [A] um þessi atriði. Á fundi verkefnisstjórnarinnar hinn 14. ágúst 2008 var einróma samþykkt að [B] skyldi ráðinn í starfið. Formaður verkefnisstjórnar kom ofangreindum sjónarmiðum á framfæri munnlega við ráðuneytið og skráði ráðuneytisstjóri þær upplýsingar í minnisblaði, dags. 2. september 2008, en þar var lagt til að [B] yrði ráðinn í starfið.

Að þessu virtu telur ráðuneytið að ekki hafi verið sýnt fram á að [A] hafi verið hæfari en [B] í umrætt starf. Mat á hæfni umsækjenda byggir á heildstæðu mati á því hvernig umsækjendur uppfylla öll skilyrði auglýsingar og eðli viðkomandi starfs. Í ljósi þessa og með hliðsjón af málavöxtum og afstöðu verkefnisstjórnar til umsækjenda hafi [B] verið hæfasti umsækjandinn um umrætt starf.

Hvað varðar rökstuðning fyrir ákvörðun ráðuneytisins þá telur ráðuneytið að rökstuðningurinn, eins og hann var settur fram með bréfi, dags. 12. september 2008, uppfylli kröfur laga og byggi á þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í fyrri álitum umboðsmanns [...].

III.

[...]

Að mati ráðuneytisins hefði mátt standa betur að skráningu umræddra upplýsinga, þar sem tilgreindir væru umsagnaraðilar og umsagnir þeirra, í samræmi við 23. gr. upplýsingalaga. Í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5466/2008, sem barst ráðuneytinu 28. september 2009, og þeim sjónarmiðum sem þar koma fram varðandi skráningarskyldu stjórnvalda og aðkomu einkaaðila að ráðgjafarstörfum við stöðuveitingar, hefur ráðuneytið gert viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að skráning upplýsinga hvað þetta varðar verði með fullnægjandi hætti í framtíðinni.

[...]

Eins og áður hefur komið fram hafði formaður verkefnisstjórnar samband við [A] símleiðis eftir að umsagna hafði verið leitað og í ljós hafði komið að aðilar innan verkefnisstjórnarinnar teldu hana ekki njóta nægilegs trausts. Var [A] því gefinn kostur á að koma að athugasemdum við þær umsagnir sem leitað var eftir og eins athugasemdum um að hún nyti ekki trausts hjá öllum fulltrúum verkefnisstjórnarinnar.

Ráðuneytið hefur í aðkomu sinni að rammaáætlun reynt að tryggja að jafnræðis sé gætt varðandi þau mismunandi sjónarmið sem taka þarf tillit til í starfinu. Þá hefur ráðuneytið reynt að tryggja hlutleysi gagnvart verkefnisstjórn rammaáætlunar eins og að framan er rakið. Ástæður þess að [A] naut ekki trausts hjá öllum fulltrúum í verkefnisstjórninni má fyrst og fremst rekja til þess að [A] hefur á undanförnum árum tekið þátt í umræðum á opinberum vettvangi um virkjana- og umhverfismál. Þannig hafa birst opinberlega greinar og viðtöl við [A] um þessi mál, sem gáfu hluta þeirra aðila sem koma að starfi rammaáætlunar ástæðu til að ætla að [A] myndi ekki gæta hlutleysis í störfum sínum. Þessu til viðbótar má benda á opinbera umræðu sem fór fram í tengslum við vinnu [A] við mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu. Í tengslum við þá vinnu lýsti [A] því svo í fjölmiðlum að hún hefði verið beitt óeðlilegum þrýstingi af starfsmönnum Landsvirkjunar við vinnu sína og að misfarið hefði verið með framlag hennar til umhverfismatsins. Var þessum ávirðingum svarað opinberlega af nokkrum starfsmönnum Landsvirkjunar en ítarlega var fjallað um málið í fjölmiðlum auk þess sem málið var tekið upp í umræðum á Alþingi.

[...]

Eins og að framan er rakið var það niðurstaða ráðuneytisins að fjórir umsækjendur uppfylltu best kröfur auglýsingarinnar. Eftir viðtöl við þessa umsækjendur var ljóst að valið stæði á milli [A] og [B]. Snerist valið á milli þeirra fyrst og fremst um það hvort þau nytu trausts verkefnisstjórnar og gætu unnið svo náið með verkefnisstjórninni og faghópum sem starfið krafðist. Af því sem að framan er rakið var ljóst að [A] naut ekki trausts allrar verkefnisstjórnarinnar og ræddi formaður verkefnisstjórnar það við [A] í síma. Þegar upp var staðið réð þetta atriði og afstaða verkefnisstjórnar úrslitum um það að [B] var boðið starfið á þeim forsendum að hann væri hæfastur umsækjenda til að gegna því. Af þessu tilefni bendir ráðuneytið á að í rökstuðningi ráðuneytisins, dags. 12. september 2008, er sérstaklega tekið fram að [B] hafi notið trausts verkefnisstjórnar rammaáætlunar.“

Með bréfi, dags. 17. desember 2009, var A gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við svarbréf ráðuneytisins og bárust athugasemdir hennar með bréfi, dags. 9. janúar 2010.

Ég ritaði á ný bréf til iðnaðarráðuneytisins, dags. 28. maí 2010, þar sem ég óskaði eftir, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, afriti af fundargerð verkefnisstjórnar frá 14. ágúst 2008 og að ráðuneytið veitti mér upplýsingar um og skýringar á nánar tilgreindum atriðum.

Í fyrsta lagi óskaði ég eftir að ráðuneytið skýrði nánar með hvaða hætti talið hefði verið að þátttaka A í opinberri umræðu á sviði umhverfis- og orkumála hefði dregið úr trausti hennar eða gefið til kynna að hún væri ekki hlutlaus til að gegna starfinu. Í þessu sambandi óskaði ég eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið hefði kannað hvaða skoðanir eða ummæli A hefðu að mati verkefnisstjórnarinnar verið til þess fallin að hafa það í för með sér að A nyti ekki trausts verkefnisstjórnar og þá hvort það mat hefði verið forsvaranlegt. Í þessu sambandi vísaði ég til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í öðru lagi benti ég á að í svarbréfi ráðuneytisins til mín, dags. 16. desember 2009, hefði m.a. komið fram að það hefði haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins að A hefði ekki notið trausts allra í verkefnisstjórn rammaáætlunar þar sem hún hefði á undanförnum árum komið fram opinberlega sem málsvari umhverfisverndarsjónarmiða og birt greinar og komið fram í viðtölum á sviði orku- og umhverfismála. Af þessu tilefni óskaði ég eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig framangreint sjónarmið fengi samrýmst réttmætisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. einnig 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá tók ég fram að í þessu sambandi hefði ég einnig í huga tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og þau sjónarmið sem fram kæmu í áliti umboðsmanns Alþingis frá 26. júlí 1999 í máli nr. 2475/1998.

Í þriðja lagi óskaði ég eftir að ráðuneytið veitti mér upplýsingar um hvort það væri rétt að X hefði verið sá umsagnaraðili sem leitað hefði verið til í tilefni af umsókn A um starfið en formaður verkefnisstjórnar ekki munað nafnið á. Þá óskaði ég eftir upplýsingum um við hvaða aðra umsagnaraðila hefði verið rætt í tengslum við umsókn A og að mér yrðu veittar upplýsingar um við hvaða „stóru hagsmunaaðila“ hefði verið rætt í þessu sambandi.

Í svarbréfi iðnaðarráðuneytisins til mín, dags. 15. september 2010, sagði m.a. eftirfarandi:

„1. [...]

Til að varpa nánara ljósi á aðstæður í umræddu máli telur ráðuneytið nauðsynlegt að ítreka það sem áður hefur komið fram í bréfi ráðuneytisins, dags. 16. desember 2009, um tilgang og verkefni verkefnisstjórnar um rammaáætlun, samsetningu hópsins sem vinnur að verkinu og hlutverk starfsmanns verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Hlutverk starfsmannsins er að vera ritari verkefnisstjórnar og faghópa, halda utan um gögn þeirra, gerð skýrslna, vinna við heimasíðu og undirbúning kynningarstarfs. Af þessu hlutverki má vera ljóst að slíku starfi er ekki unnt að gegna nema fullkomið traust og trúnaður ríki á milli starfsmannsins og allra aðila í verkefnisstjórn.

Verkefnisstjórn er fjölskipuð og þar er mörgum mismunandi sjónarmiðum og skoðunum haldið til haga og því brýnt að hafið sé yfir vafa að ritari og starfsmaður verkefnisstjórnar sé að öllu leyti hlutlaus gagnvart verkefnum verkefnisstjórnar og njóti umrædds trausts verkefnisstjórnar.

Við yfirferð á umsókn [B] kom ekkert fram sem dregið gæti í efa hlutleysi hans til að starfa sem starfsmaður verkefnisstjórnar. Eins og fram kemur í meðfylgjandi fundargerð verkefnisstjórnar frá 14. ágúst 2008 þá var verkefnisstjórn „einhuga um að veita formanni umboð til að ganga frá samningum við [B].“ Ljóst var því að [B] naut fulls trausts allra í verkefnisstjórn.

Eins og fram kemur í bréfi ráðuneytisins, dags. 16. desember 2009, kom hins vegar í ljós við yfirferð á umsókn [A] að hún naut ekki sama trausts allra í verkefnisstjórn. Í því samhengi bendir ráðuneytið á að í reynd réði ekki úrslitum hvaða ástæður voru þess valdandi að [A] naut ekki trausts verkefnisstjórnar, heldur sú staðreynd að vantraust var fyrir hendi. Taka ber fram að ráðuneytið hafði, eðli máls samkvæmt, engin áhrif á þessa afstöðu verkefnisstjórnar og frekari rannsóknir ráðuneytisins á málavöxtum hefðu að mati ráðuneytisins ekki myndað slíkt traust. Að mati ráðuneytisins voru engin gögn í málinu sem bentu til annars en að framangreint mat verkefnisstjórnar væri forsvaranlegt. Að mati ráðuneytisins var það ekki vænlegur valkostur, með vísan til eðlis viðkomandi starfs, að ráðuneytið myndi hlutast til um ráðningu starfsmanns verkefnisstjórnar í andstöðu við mat verkefnisstjórnarinnar.

Þrátt fyrir framangreint bendir ráðuneytið á að um ástæður þess að [A] nyti ekki trausts allra í verkefnisstjórnar, og teldist því ekki hlutlaus til að gegna starfinu, segir eftirfarandi í bréfi ráðuneytisins, dags. 16. desember 2009:

„Ástæður þess að [A] naut ekki trausts hjá öllum fulltrúum í verkefnisstjórninni má fyrst og fremst rekja til þess að [A] hefur á undanförnum árum tekið þátt í umræðum á opinberum vettvangi um virkjana- og umhverfismál. Þannig hafa birst opinberlega greinar og viðtöl við [A] um þessi mál, sem gáfu hluta þeirra aðila sem koma að starfi rammaáætlunar ástæðu til að ætla að [A] myndi ekki gæta hlutleysis í störfum sínum. Þessu til viðbótar má benda á opinbera umræðu sem fór fram í tengslum við vinnu [A] við mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu. Í tengslum við þá vinnu lýsti [A] því svo í fjölmiðlum að hún hefði verið beitt óeðlilegum þrýstingi af starfsmönnum Landsvirkjunar við vinnu sína og að misfarið hefði verið með framlag hennar til umhverfismatsins. Var þessum ávirðingum svarað opinberlega af nokkrum starfsmönnum Landsvirkjunar en ítarlega var fjallað um málið í fjölmiðlum auk þess sem málið var tekið upp í umræðum á Alþingi.“

Eins og fram hefur komið fékk ráðuneytið þær upplýsingar frá formanni verkefnisstjórnar að [A] nyti ekki trausts allra í verkefnisstjórninni og taldi ráðuneytið ekki ástæðu til að rengja þær upplýsingar formannsins. Á grundvelli munnlegra upplýsinga frá formanni verkefnisstjórnar voru þessar upplýsingar skráðar í minnisblað ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytis, dags. 2. september 2008, og þá er einnig vísað [til] þessa í rökstuðningi ráðuneytisins, dags. 12. september 2008.

Með vísan til framangreinds var því að mati ráðuneytisins gætt að 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 áður en ákvörðun um ráðningu starfsmanns verkefnisstjórnar rammaáætlunar var tekin.

2. [...]

Í 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.

Að mati ráðuneytisins á ekkert af þeim atriðum sem tilgreind eru í 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga við í máli þessu. Af auglýsingu um starfsmann verkefnisstjórnar rammaáætlunar má ráða að til að geta rækt umrætt starf væri lykilatriði að viðkomandi aðili nyti fulls trausts meðal allra meðlima verkefnisstjórnar þannig að hafið væri yfir vafa að starfsmaðurinn væri hlutlaus í störfum sínum. Vegna fyrri þátttöku í opinberri umræðu, greinum og viðtölum, um málefni sem tengjast hlutverki verkefnisstjórnar rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma (sbr. framangreint), leit hluti verkefnisstjórnar svo á að ekki væri hafið yfir vafa að [A] myndi gæta hlutleysis í störfum sínum sem starfsmaður verkefnisstjórnar. Sem áður segir sá ráðuneytið ekki ástæðu til að draga í efa þá niðurstöðu verkefnisstjórnar sem formaður verkefnisstjórnar kom á framfæri við ráðuneytið. Þ.e. ekkert benti til annars en að um forsvaranlegt mat væri að ræða sem taka bæri mið af við ráðningu í umrætt starf.

Ráðuneytið vill af þessu tilefni taka fram að réttur fólks skv. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, til að tjá sig er að sjálfsögðu ekki dreginn í efa. Ráðuneytið telur þó vafasamt að umfjöllun um þau réttindi eigi við í máli þessu eins og það snýr að ráðuneytinu. Ráðuneytið auglýsti vissulega eftir starfsmanni rammaáætlunar og sá að hluta til um úrvinnslu umsókna og mat á umsækjendum. Þegar kom að mati á þeim þáttum sem snúa að persónulegum eiginleikum og samskiptahæfni, sem alltaf eru háð persónulegu mati að einhverju marki, taldi ráðuneytið að afstaða verkefnisstjórnar yrði að ráða. Umræddur starfsmaður lýtur á engan hátt verkstjórn ráðuneytisins og hann starfar utan ráðuneytisins en vinnur hins vegar mjög náið með verkefnisstjórn rammaáætlunar eins og fram hefur komið. Í ljósi framangreinds trausts og hlutleysis kom þar af leiðandi ekki til greina, af hálfu ráðuneytisins, að ráða starfsmann verkefnisstjórnar í andstöðu við mat verkefnisstjórnar á hæfni og getu umsækjenda.

Að mati ráðuneytisins samrýmast því sjónarmið þau sem fram koma í bréfi ráðuneytisins, dags. 16. desember 2009, og bréfi þessu, réttmætisreglu stjórnsýsluréttar, 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga og 73. gr. stjórnarskrár.

3. [...]

Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur fengið hjá formanni verkefnisstjórnar, í kjölfar erindis umboðsmanns dags. 28. maí 2010, þá mun kona sú sem formaður verkefnisstjórnar kvaðst ekki muna nafnið á vera [X]. Ráðuneytið hefur kallað eftir en ekki fengið frekari upplýsingar frá formanni verkefnisstjórnar um hvers vegna hún hafi metið það svo að [X] hafi verið mjög varfærin í umsögn sinni um [A].“

Með bréfi, dags. 16. september 2010, gaf umboðsmaður Alþingis A kost á að gera athugasemdir við svarbréf iðnaðarráðuneytisins og bárust athugasemdir hennar með bréfi, dags. 12. október 2010.

Hinn 28. september 2010 barst umboðsmanni Alþingis bréf frá iðnaðarráðuneytinu í tilefni af afgreiðslu ráðuneytisins á beiðni A um aðgang að fundargerð verkefnisstjórnarinnar frá 14. ágúst 2008 og lista yfir þá umsagnaraðila sem haft hafði verið samband við vegna umsóknar hennar og umsagnir þeirra. Með bréfi ráðuneytisins fylgdi minnisblað formanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar frá 28. ágúst 2008, en í bréfi ráðuneytisins kom m.a. fram að umrætt minnisblað hefði fyrir mistök ekki verið vistað í málaskrá þess. Með bréfinu fylgdi einnig fundargerð verkefnisstjórnar frá 14. ágúst 2008 og bréfaskipti á milli annars vegar A og iðnaðarráðuneytisins og hins vegar ráðuneytisins og formanns verkefnisstjórnarinnar, en vikið var að þessum bréfasamskiptum í kafla II hér að framan.

IV. Álit umboðsmanns Alþingis.

1. Afmörkun athugunar.

Athugun mín á máli þessu beinist að því hvort iðnaðarráðuneytið hafi gætt rannsóknarskyldu sinnar samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 áður en tekin var ákvörðun um ráðningu í starf starfsmanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, sbr. umfjöllun í kafla IV.3 hér á eftir.

Í ljósi skýringa iðnaðarráðuneytisins til mín og gagna málsins tel ég ekki ástæðu til að fjalla um önnur atriði sem fram koma í kvörtun A. Hvað varðar athugun mína er beinst hefur að því hvort málsmeðferð iðnaðarráðuneytisins hafi samrýmst ákvæði 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 tek ég sérstaklega fram að ráðuneytið hefur viðurkennt að það hafi verið mistök að minnisblað formanns verkefnisstjórnar rammaáætlunar frá 28. ágúst 2008 hafi ekki verið fært í málaskrá ráðuneytisins. Þá hefur ráðuneytið lýst því yfir við meðferð máls þessa að standa hafi mátt betur að skráningu upplýsinga í málinu með því að tilgreina umsagnaraðila og umsagnir þeirra í samræmi við framangreint ákvæði upplýsingalaga.

2. Lagagrundvöllur og sjónarmið sem lögð voru til grundvallar mati iðnaðarráðuneytisins á umsækjendum.

Ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Nær gildissvið laganna m.a. til ákvarðana um ráðningar í opinber störf eins og fram kemur í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögunum. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3283.)

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu iðnaðarráðuneytisins var verkefnisstjórn 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma skipuð af iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra í ágúst 2007. Verkefnisstjórninni er ætlað að ákveða hvernig haga á mati á virkjunarkostum í þessum áfanga, sem og að vinna samræmt heildarmat fyrir alla þá virkjunarkosti sem verið hafa til umfjöllunar í 1. og 2. áfanga rammaáætlunarinnar með hliðsjón af stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Á heimasíðu rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði kemur fram að undirbúningur að 2. áfanga rammaáætlunar hafi verið kostaður af fjárveitingu Orkustofnunar og þá hafi iðnaðarráðuneytið greitt launakostnað lausráðins starfsmanns árið 2009 og framan af ári 2010. Í auglýsingu starfs starfsmanns verkefnisstjórnarinnar, sem um er fjallað í áliti þessu, kom fram að iðnaðarráðuneytið stæði að auglýsingunni að höfðu samráði við umhverfisráðuneyti og verkefnisstjórn rammaáætlunarinnar.

Með vísan til framangreinds tel ég að leggja verði til grundvallar að starf starfsmanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma teljist opinbert starf, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um ráðninguna giltu því reglur stjórnsýslulaga og almennar grundvallarreglur um ráðningar í opinber störf. Af hálfu iðnaðarráðuneytisins hefur raunar ekki verið borið við í máli þessu að almennar reglur stjórnsýsluréttar hafi ekki gilt við ráðningu í starf starfsmanns verkefnisstjórnarinnar. Var því ráðuneytinu skylt að fylgja fyrirmælum stjórnsýslulaga sem og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar við ráðningu í starfið.

Vegna sjónarmiða, sem fram koma í skýringum ráðuneytisins til mín og rakin eru í kafla III hér að framan, tel ég rétt hér í upphafi að taka það skýrt fram að þótt ekki sé loku fyrir það skotið að afstaða verkefnisstjórnar rammaáætlunarinnar hafi í ljósi eðlis starfsins getað haft verulega þýðingu fyrir ákvörðun ráðuneytisins um val á umsækjanda bar iðnaðarráðuneytið eitt stjórnarfarslega ábyrgð á því að ráðningin væri í samræmi við lög. Var því ráðuneytinu skylt að ganga úr skugga um að ákvörðunin væri reist á málefnalegum sjónarmiðum í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar og að nægilegar upplýsingar væru til staðar til að fært væri að draga viðhlítandi ályktanir af þeim um hæfni umsækjenda, eins og nánar verður rakið í kafla IV.3 hér síðar.

Ekki er í lögum vikið að því á hvaða sjónarmiðum eigi að byggja þegar velja þarf á milli hæfra umsækjenda um starf starfsmanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Verður því að líta svo á að iðnaðarráðuneytið hafi haft ákveðið svigrúm til að velja þau sjónarmið sem það taldi þörf á að leggja til grundvallar við ráðninguna svo framarlega sem þau voru málefnaleg. Ef þau sjónarmið leiddu ekki öll til sömu niðurstöðu var það í meginatriðum á valdi ráðuneytisins að ákveða á hvaða sjónarmiðum skyldi lögð sérstök áhersla.

Í auglýsingu starfs starfsmanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma kom fram að áskildar væru eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur til starfans: háskólamenntun sem nýttist í starfi, gott vald á rituðu máli, íslensku og ensku og reynsla af samantekt og framsetningu efnis, framtakssemi, sjálfstæði í vinnubrögðum og löngun til að takast á við síbreytileg verkefni og samskiptahæfni. Ég tel mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við val iðnaðarráðuneytisins á umræddum sjónarmiðum sem fram komu í auglýsingu starfsins.

Samkvæmt grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um mat á hæfni umsækjenda um opinber störf verður að ljá veitingarvaldshafa, hér iðnaðarráðuneytinu, ákveðið svigrúm við mat á þeim sjónarmiðum sem það leggur til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starf sem og vægi einstakra sjónarmiða, sem málefnaleg teljast, við samanburð á milli umsækjenda. Veitingarvaldshafi hefur þó ekki frjálsar hendur um hver verði ráðinn í starf þegar fleiri en einn umsækjandi telst hæfur.

Það er grundvallarregla í stjórnsýslurétti að veitingarvaldshafa ber að velja þann umsækjanda sem hæfastur verður talinn með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem hann hefur ákveðið að byggja ákvörðun sína á. Í ljósi þeirrar skyldu verður veitingarvaldshafi að sýna fram á að heildstæður samanburður á umsækjendum hafi farið fram þar sem megináhersla hafi verið lögð á atriði sem geta varpað ljósi á væntanlega frammistöðu umsækjenda í starfinu út frá þeim málefnalegu sjónarmiðum sem lögð hafa verið til grundvallar við val á umsækjendum. Forsenda þess að slíkur samanburður geti farið fram er að þau atriði sem þýðingu eiga að hafa í fari umsækjenda, svo sem menntun þeirra, reynsla og önnur atriði, séu nægilega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

3. Rannsókn málsins.

Í skýringum iðnaðarráðuneytisins til mín, dags. 16. desember 2009, kemur fram að það hafi verið sameiginlegt mat þeirra aðila sem fóru yfir umsóknir í tilefni af auglýsingu starfs starfsmanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma að A og B væru hæfustu umsækjendurnir þegar litið væri til þeirra krafna sem fram komu í auglýsingu starfsins. Í kjölfarið hafi formaður verkefnisstjórnar aflað umsagna hjá meðmælendum um A og B og farið yfir málið í verkefnisstjórn rammaáætlunar. Í skýringunum kemur jafnframt fram að samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hafi aðilar innan verkefnisstjórnar haft samband við formann stjórnarinnar að fyrra bragði til að koma á framfæri áhyggjum sínum yfir því að A gæti mögulega ekki sinnt starfinu á hlutlausan hátt. Verkefnisstjórnin hafi síðan verið einhuga um að veita formanni umboð til að ganga frá samningi við B, sbr. fundargerð 9. fundar verkefnisstjórnar, dags. 14. ágúst 2008. Formaður verkefnisstjórnar hafi komið þessum sjónarmiðum á framfæri munnlega við ráðuneytið og hafi ráðuneytisstjóri skráð þær upplýsingar í minnisblað, dags. 2. september 2008, en þar hafi verið lagt til að B yrði ráðinn í starfið. Á grundvelli þessa hafi það verið niðurstaða ráðuneytisins að B skyldi boðið umrætt starf.

Í minnisblaði formanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar, dags. 28. ágúst 2008, sem barst mér 28. september 2010, kemur fram að það hafi strax komið í ljós þegar fulltrúar í verkefnisstjórn sáu nöfn umsækjenda að það yrði ekki eining um að ráða Ai. Í þessu sambandi hafi verið bent á forsögu hennar sem hafi m.a. birst í fréttatilkynningu Landsvirkjunar frá 2002, en þar tekur Landsvirkjun til andsvara í tengslum við þá umræðu sem kom upp vegna vinnu A fyrir VSÓ ráðgjöf við gerð matsskýrslu Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu. Síðan sagði eftirfarandi í umræddu minnisblaði:

„Það var alveg ljóst að Samorka [sem átti fulltrúa í verkefnisstjórn] hefði aldrei fallist á ráðningu [A] þar sem hún nýtur ekki trausts í þeirra röðum. Ég reyndi að tala fyrir ráðningu hennar, en án árangurs.

Ýmsir aðrir í verkefnisstjórn lýstu líka áhyggjum af því hvert það leiddi ef ráðin yrði umdeild manneskja sem ekki nyti trausts vegna forsögu sinnar. Verkefnisstjórnin hefði einfaldlega ekki tíma til að vinna við slíkar aðstæður. Ég fékk fleiri dæmi um einstrengingslegar skoðanir [A] sem ég reyndi að sannreyna, m.a. með samtali við hana sjálfa. Þær voru ekki allar byggðar á staðreyndum en sögðu mér þó hve umdeild hún er.

Einnig var það nefnt að hún hefði ekki til að bera þá samskiptahæfni sem nauðsynleg væri í þessu starfi þar sem viðkomandi þyrfti að geta unnið með öllum hagsmunahópum eða fulltrúum þeirra í verkefnisstjórn. Þeir sem kunnu best að meta hina góðu eiginleika hennar virtust ekki heldur treysta sér til að mæla með ráðningu hennar við þessar aðstæður.“

Í minnisblaði ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytisins, dags. 2. september 2008, sem fyrir liggur í málinu, kemur m.a. fram að af umsögnum um A megi ráða að hún sé umdeild og hafi einstrengingslegar skoðanir sem geti leitt til þess að hún eigi erfitt með að vinna með öðrum. Þá kemur þar fram að fyrir liggi að A „[njóti] ekki trausts hjá öllum fulltrúum í verkefnisstjórninni“. Allir í verkefnisstjórninni beri hins vegar traust til B. Í minnisblaðinu er sem fyrr greinir lagt til að B verði ráðinn starfsmaður verkefnisstjórnar.

Í fyrrnefndum skýringum ráðuneytisins til mín, dags. 16. desember 2009, er áréttað að það haft verulega þýðingu við ákvörðun um ráðningu í starfið að A nyti ekki trausts allra í verkefnisstjórn rammaáætlunar. Ástæður þess hafi verið að rekja til þess að hún hafi á undanförnum árum „tekið þátt í umræðum á opinberum vettvangi um virkjana- og umhverfismál“. Þannig hafi hún komið fram opinberlega sem „málsvari umhverfisverndarsjónarmiða“ og hafi bæði birst greinar eftir hana og viðtöl við hana í blöðum þar sem fjallað hafi verið um ýmis atriði er tengjast orku- og umhverfismálum. Hafi þetta gefið hluta þeirra aðila sem komu að starfi rammaáætlunar ástæðu til að ætla að A myndi ekki gæta hlutleysis í störfum sínum. Þá bendir ráðuneytið á opinbera umræðu sem átti sér stað í tengslum við vinnu A við mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu. Í tengslum við þá vinnu hafi A lýst því svo í fjölmiðlum að hún hafi verið beitt óeðlilegum þrýstingi af starfsmönnum Landsvirkjunar við vinnu sína og að misfarið hafi verið með framlag hennar til umhverfismatsins. Hafi þessum ávirðingum verið svarað opinberlega af nokkrum starfsmönnum Landsvirkjunar en ítarlega hafi verið fjallað um málið í fjölmiðlum auk þess sem málið hafi verið tekið upp í umræðum á Alþingi. Í skýringum ráðuneytisins segir enn fremur eftirfarandi:

„Snerist valið á milli [[A] og [B]] fyrst og fremst um það hvort þau nytu trausts verkefnisstjórnar og gætu unnið svo náið með verkefnisstjórninni og faghópum sem starfið krafðist. Af því sem að framan er rakið var ljóst að [A] naut ekki trausts allrar verkefnisstjórnarinnar [...]. Þegar upp var staðið réð þetta atriði og afstaða verkefnisstjórnar úrslitum um að [B] var boðið starfið á þeim forsendum að hann væri hæfastur umsækjenda til að gegna því.“

Þá segir eftirfarandi í skýringum iðnaðarráðuneytisins til mín, dags. 15. september 2010:

„Að mati ráðuneytisins á ekkert af þeim atriðum sem tilgreind eru í 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga við í máli þessu. Af auglýsingu um starfsmann verkefnisstjórnar rammaáætlunar má ráða að til að geta rækt umrætt starf væri lykilatriði að viðkomandi aðili nyti fulls trausts meðal allra meðlima verkefnisstjórnar þannig að hafið væri yfir vafa að starfsmaðurinn væri hlutlaus í störfum sínum. Vegna fyrri þátttöku í opinberri umræðu, greinum og viðtölum, um málefni sem tengjast hlutverki verkefnisstjórnar rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma [...], leit hluti verkefnisstjórnar svo á að ekki væri hafið yfir vafa að [A] myndi gæta hlutleysis í störfum sínum sem starfsmaður verkefnisstjórnar. Sem áður segir sá ráðuneytið ekki ástæðu til að draga í efa þá niðurstöðu verkefnisstjórnar sem formaður verkefnisstjórnar kom á framfæri við ráðuneytið. Þ.e. ekkert benti til annars en að um forsvaranlegt mat væri að ræða sem taka bæri mið af við ráðningu í umrætt starf.

Ráðuneytið vill af þessu tilefni taka fram að réttur fólks skv. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, til að tjá sig er að sjálfsögðu ekki dreginn í efa. Ráðuneytið telur þó vafasamt að umfjöllun um þau réttindi eigi við í máli þessu eins og það snýr að ráðuneytinu. Ráðuneytið auglýsti vissulega eftir starfsmanni rammaáætlunar og sá að hluta til um úrvinnslu umsókna og mat á umsækjendum. Þegar kom að mati á þeim þáttum sem snúa að persónulegum eiginleikum og samskiptahæfni, sem alltaf eru háð persónulegu mati að einhverju marki, taldi ráðuneytið að afstaða verkefnisstjórnar yrði að ráða. Umræddur starfsmaður lýtur á engan hátt verkstjórn ráðuneytisins og hann starfar utan ráðuneytisins en vinnur hins vegar mjög náið með verkefnisstjórn rammaáætlunar [...]. Í ljósi framangreinds trausts og hlutleysis kom þar af leiðandi ekki til greina, af hálfu ráðuneytisins, að ráða starfsmann verkefnisstjórnar í andstöðu við mat verkefnisstjórnar á hæfni og getu umsækjenda.“

Þegar litið er til framangreinds verður að telja ljóst að það sem réð úrslitum um niðurstöðu iðnaðarráðuneytisins um að velja B umfram A til starfans var að hún var ekki talin njóta trausts verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar. Ástæður þess hafi verið að rekja til þess, eins og segir í ofangreindum skýringum ráðuneytisins til mín, að A hafi á undanförnum árum „tekið þátt í umræðum á opinberum vettvangi um virkjana- og umhverfismál“. Þannig hafi hún komið fram opinberlega sem „málsvari umhverfisverndarsjónarmiða“ og hafi bæði birst greinar eftir hana og viðtöl við hana í blöðum þar sem fjallað hafi verið um ýmis atriði er tengjast orku- og umhverfismálum.

Hér að framan var vikið að því að veitingarvaldshafi verði að velja á milli umsækjenda um opinbert starf á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Við mat á því hvort sjónarmið teljist málefnalegt verður m.a. að horfa til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Í 2. mgr. 11. gr. kemur m.a. fram að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða byggðum á stjórnmálaskoðunum. Það hugtak verður að mínu áliti að túlka rúmt. Afstaða manna til mikilvægra samfélagslegra málefna, s.s. umhverfismála, telst ótvírætt falla þar undir. Af 2. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga leiðir að almennt er óheimilt að líta til skoðana umsækjenda um samfélagsleg málefni við töku ákvarðana um ráðningar í opinber störf þar sem valið er á milli umsækjenda. Þannig eiga slíkar skoðanir umsækjanda um opinbert starf hvorki að vera honum til framdráttar né tjóns í ráðningarferlinu. Í þessu sambandi verður jafnframt að hafa í huga tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Þær skorður sem Alþingi eru settar af stjórnarskrárákvæðinu gilda einnig um stjórnvöld við töku stjórnvaldsákvarðana, sbr. einkum álit umboðsmanns Alþingis frá 26. júlí 1999 í máli nr. 2475/1998, og þá m.a. við mat á hæfni umsækjenda um opinber störf.

Ekki er hins vegar með öllu fært að útiloka að það geti í undantekningartilvikum talist málefnalegt að líta til ummæla eða afstöðu einstaklings, sem sækir um opinbert starf, þótt hún verði talin liður í umfjöllun á opinberum vettvangi um samfélagsleg málefni, við mat á hæfni hans til að gegna starfinu. Slíkt kann að leiða til þess að draga megi í efa óhlutdrægni umsækjanda til að gegna opinberu starfi á grundvelli hinnar óskráðu reglu stjórnsýsluréttar um almennt neikvætt hæfi. Þá kann þátttaka umsækjenda í opinberri umræðu að vera eftir atvikum þess eðlis að veita næga stoð undir þá ályktun að ólíklegt sé að umsækjandi muni gegna umræddu starfi í samræmi við markmið þeirra verkefna sem honum er sem opinberum starfsmanni ætlað að hafa með höndum og þarfir hins opinbera. Í ljósi 73. gr. stjórnarskrárinnar, jafnræðisreglna og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar, verður slík ályktun hins vegar aðeins talin lögmæt þegar ótvírætt er sýnt fram á af veitingarvaldshafa að hún sé í nánum og málefnalegum tengslum við eðli hins opinbera starfs.

Í samhengi við framangreind sjónarmið er jafnframt ekki útilokað að það geti eftir atvikum talist málefnalegt sjónarmið við ráðningu í opinbert starf að láta sjónarmið um traust stjórnvalds á umsækjanda hafa áhrif við heildarmat á starfshæfni umsækjenda. Óheimilt er hins vegar að byggja ákvörðun um ráðningu í opinbert starf á persónulegri óvild handhafa veitingarvalds eða annarra gagnvart ákveðnum umsækjendum eða persónulegri velvild í garð einhvers þeirra. Sé fyrirhugað að láta traust handhafa veitingarvalds og annarra aðila, s.s. yfirmanna viðkomandi, væntanlegra samstarfsaðila hans eða umsagnaraðila, hafa veruleg áhrif á niðurstöðu veitingarvaldshafa verður því að taka til sérstakrar skoðunar á hvaða grundvelli það traust byggist eða eftir atvikum ályktun um að umsækjandi njóti ekki nægjanlegs trausts, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 31. júlí 2000 í máli nr. 2696/1999. Sé ályktun um skort á trausti til umsækjanda reist á opinberri afstöðu hans eða öðrum ummælum um það málefni sem hið auglýsta starf beinist að, verða þannig að liggja fyrir skýrar og glöggar upplýsingar um efni ummælanna, af hvaða tilefni þau voru sett fram og samhengi þeirra að öðru leyti. Að öðrum kosti er ekki fært að staðreyna með forsvaranlegum hætti að málefnalegt og lögmætt hafi verið að ljá slíkum upplýsingum um opinbera afstöðu umsækjanda vægi við töku ákvörðunar um ráðningu í tiltekið opinbert starf og þá að gættum þeim lagasjónarmiðum sem að framan eru rakin.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í athugasemdum greinargerðar við 10. gr. frumvarps þess er varð að lögunum segir að áður en hægt sé að taka stjórnvaldsákvörðun í máli verði að undirbúa málið og rannsaka með það að markmiði að afla nauðsynlegra upplýsinga um málsatvik. Í reglunni felist m.a. sú skylda stjórnvalds að sjá til þess, að eigin frumkvæði, að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3293-3294.)

Stjórnvald sem veitir opinbert starf getur almennt ekki fullyrt að það hafi ráðið hæfasta umsækjandann í starfið nema sú ákvörðun sem um ræðir hafi verið undirbúin á forsvaranlegan hátt þannig að hún uppfylli skilyrði laga um undirbúning ákvörðunar. Ber handhafa veitingarvalds því að afla nauðsynlegra gagna til að upplýsa hverjir umsækjenda um laust opinbert starf uppfylla almenn hæfisskilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem um það gilda. Sú skylda hvílir enn fremur á veitingarvaldshafa að sjá til þess að nægjanlegar upplýsingar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, liggi fyrir svo unnt sé að draga ályktanir um starfshæfni umsækjenda með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem hann leggur til grundvallar mati á því hver telst hæfastur umsækjenda, sjá til hliðsjónar álit mitt frá 24. mars 2010 í máli nr. 5424/2008.

Í tilefni af fyrirspurn minni um hvort iðnaðarráðuneytið hafi kannað hvaða skoðanir eða ummæli A hafi gert það að verkum að hún var ekki talin njóta trausts verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar segir aðeins eftirfarandi í skýringum ráðuneytisins til mín í bréfi, dags. 15. september 2010:

„Eins og fram kemur í bréfi ráðuneytisins, dags. 16. desember 2009, kom hins vegar í ljós við yfirferð á umsókn [A] að hún naut ekki sama trausts allra í verkefnisstjórn. Í því samhengi bendir ráðuneytið á að í reynd réði ekki úrslitum hvaða ástæður voru þess valdandi að [A] naut ekki trausts verkefnisstjórnar, heldur sú staðreynd að vantraust var fyrir hendi. Taka ber fram að ráðuneytið hafði, eðli máls samkvæmt, engin áhrif á þessa afstöðu verkefnisstjórnar og frekari rannsóknir ráðuneytisins á málavöxtum hefðu að mati ráðuneytisins ekki myndað slíkt traust. Að mati ráðuneytisins voru engin gögn í málinu sem bentu til annars en að framangreint mat verkefnisstjórnar væri forsvaranlegt. Að mati ráðuneytisins var það ekki vænlegur valkostur, með vísan til eðlis viðkomandi starfs, að ráðuneytið myndi hlutast til um ráðningu starfsmanns verkefnisstjórnar í andstöðu við mat verkefnisstjórnarinnar.

[...]

Eins og fram hefur komið fékk ráðuneytið þær upplýsingar frá formanni verkefnisstjórnar að [A] nyti ekki trausts allra í verkefnisstjórninni og taldi ráðuneytið ekki ástæðu til að rengja þær upplýsingar formannsins. Á grundvelli munnlegra upplýsinga frá formanni verkefnisstjórnar voru þessar upplýsingar skráðar í minnisblað ráðuneytisstjóra iðnaðarráðuneytis, dags. 2. september 2008, og þá er einnig vísað [til] þessa í rökstuðningi ráðuneytisins, dags. 12. september 2008.

Með vísan til framangreinds var því að mati ráðuneytisins gætt að 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 áður en ákvörðun um ráðningu starfsmanns verkefnisstjórnar rammaáætlunar var tekin.“



Í tilvitnuðum skýringum ráðuneytisins kemur m.a. fram að í reynd hafi ekki ráðið úrslitum af hálfu ráðuneytisins „hvaða ástæður voru þess valdandi að A naut ekki trausts verkefnisstjórnar, heldur sú staðreynd að vantraust var fyrir hendi“. Áður en lengra er haldið tel ég nauðsynlegt að taka fram að á þetta sjónarmið ráðuneytisins get ég ekki fallist. Í samræmi við þau lagasjónarmið sem ég hef rakið hér að framan skiptir það þvert á móti grundvallarmáli á hvaða sjónarmiðum hugsanlegur skortur á trausti stjórnvalds til umsækjanda um opinbert starf byggist. Ef sú staðreynd ein og sér, að á skorti að stjórnvald treysti umsækjanda til að sinna opinberu starfi, væri fullnægjandi grundvöllur að lögum til þess að útiloka einstakling frá starfinu, án tillits til þess á hvaða grundvelli slíkur skortur á nægjanlegu trausti byggðist, væri sú vernd sem jafnræðisreglu og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar er ætlað að veita borgurunum fyrir borð borin. Skortur á trausti til umsækjandans gæti þá byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum, t.d. þeim sem sérstaklega eru talin upp í 65. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. stjórnsýslulaga.

Í því máli sem hér er til umfjöllunar verður ekki annað ráðið af gögnum málsins og skýringum iðnaðarráðuneytisins til mín en að A hafi ekki notið trausts verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar þar sem hún hafi komið fram opinberlega sem málsvari umhverfisverndarsjónarmiða og tekið þátt í umræðum á opinberum vettvangi um virkjana- og umhverfismál. Þá hafi bæði birst greinar eftir hana og viðtöl í blöðum þar sem fjallað hafi verið um ýmis atriði er tengjast orku- og umhverfismálum. Af skýringum iðnaðarráðuneytisins til mín verður hins vegar ekki séð að ráðuneytið hafi kannað sérstaklega efni þeirrar opinberu umræðu sem A á að hafa tekið þátt í og þá sérstaklega hvert hafi verið framlag hennar til þeirrar umræðu, að undanskilinni þeirri sem átti sér stað í tengslum við vinnu A fyrir VSÓ ráðgjöf við mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu á árunum 2001-2002. Þá hefur ráðuneytið ekki sýnt fram á að það hafi gert sérstakar ráðstafanir til að kanna með sjálfstæðum hætti inntak þeirra greina sem hún hefur skrifað og þeirra opinberu viðtala sem tekin hafa verið við hana. Þannig liggur ekki nánar fyrir í hvaða samhengi umræddar greinar og viðtöl fóru fram og hver hafi verið tilgangur þeirra, þ. á m. hvort þau hafi verið hluti af fræðilegri umfjöllun sem A tók þátt í eða eftir atvikum stjórnmálalegri umræðu á þessu sviði.

Að þessu virtu, og eins og atvikum og gögnum málsins er háttað, tel ég að iðnaðarráðuneytinu hafi borið að afla frekari upplýsinga um þau ummæli sem A átti að hafa viðhaft á opinberum vettvangi og leggja mat á inntak þeirra og samhengi og þá hvort réttlætanlegt hafi verið að líta til þeirra við mat á umsókn hennar. Aðeins þannig gat ráðuneytið, sem veitingarvaldshafi og það stjórnvald sem bar að lögum endanlega ábyrgð á að ráðningin væri í samræmi við lög, með réttu lagt mat á hvort þau sjónarmið um skort á trausti verkefnisstjórnarinnar til A, sem höfðu verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins, teldust málefnaleg og lögmæt í ljósi eðlis þeirra verkefna sem starfsmanni verkefnisstjórnarinnar voru falin. Það að formaður verkefnisstjórnarinnar hafi upplýst ráðuneytið um að A nyti ekki trausts, án skýrari og nákvæmari afmörkunar á þeim forsendum sem lágu þeirri ályktun til grundvallar, gat ekki eitt og sér verið nægur grundvöllur fyrir þeirri ákvörðun ráðuneytisins að ljá því sjónarmiði verulegt vægi við úrlausn málsins.

Samkvæmt öllu framangreindu tel ég óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að iðnaðarráðuneytið hafi ekki sýnt fram á að það hafi hagað undirbúningi þeirrar ákvörðunar að ráða í starf starfsmanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

V. Niðurstaða.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að málsmeðferð iðnaðarráðuneytisins í tilefni af ráðningu í starf starfsmanns verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þegar litið er til hagsmuna þess sem hlaut umrætt starf, og réttarframkvæmdar á þessu sviði í íslenskum rétti, tel ég mér ekki fært að fullyrða að framangreindir annmarkar leiði til ógildingar á ákvörðuninni. Þá er ekki tilefni til að ég fjalli frekar um réttaráhrif þessara annmarka og þar með talið hugsanlega bótaábyrgð ríkisins gagnvart A. Það verður að vera hlutverk dómstóla að fjalla um slíkt.

Ég beini hins vegar þeim tilmælum til iðnaðarráðuneytisins að það taki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram koma í áliti þessu.

Undirritaður hefur í samræmi við ákvæði 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, sbr. breytingu með lögum nr. 142/2008, farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis í fjarveru kjörins umboðsmanns á tímabilinu 1. janúar 2009 til 30. júní 2010. Forsætisnefnd Alþingis samþykkti á fundi sínum 23. júní 2010 að ég yrði áfram settur umboðsmaður Alþingis í ákveðnum málum sem voru til lokaafgreiðslu við lok þess tímabils og er mál þetta þar á meðal.

Róbert R. Spanó.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Iðnaðarráðherra var ritað bréf, dags. 1. mars 2011, þar sem þess var óskað að ráðuneytið upplýsti um hvort álit setts umboðsmanns í málinu hefði orðið tilefni til einhverra ráðstafana hjá ráðuneytinu og ef svo væri í hverju þær ráðstafanir hefðu falist.

Í svarbréfi iðnaðarráðuneytisins, dags. 2. mars 2011, kom fram að að ráðuneytið hefði á árinu 2010 tekið upp nýtt verklag við ráðningar á starfsfólki og síðan vísað til lýsingar á því í bréfi iðnaðarráðuneytisins til mín, dags. 24. febrúar 2011.