Sveitarfélög. Meðferð valds og eftirlit vegna eignaraðildar að Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirspurn.

(Mál nr. 5117/2007 - Fyrirspurnarbréf umboðsmanns Alþingis til borgarstjórnar Reykjavíkur.)

Umboðsmaður Alþingis ritaði borgarstjórn Reykjavíkur bréf, dags. 31. desember 2010, í tengslum við frumkvæðisathugun sína er hann hóf haustið 2007 er lýtur að meðferð þess valds og eftirlits sem borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Akranesbæjar og sveitarstjórn Borgarbyggðar fara með sem yfirstjórnir þeirra sveitarfélaga sem eru eignaraðilar að Orkuveitu Reykjavíkur og hvaða þýðingu reglur um stjórnsýslu sveitarfélaga og ráðstöfun eigna þeirra hafi í þessu sambandi. Í bréfinu óskaði hann eftir að vera upplýstur um hvað hefði gerst í málefnum er varða stefnumörkun fyrir Orkuveitu Reykjavíkur frá því að honum var sent bréf borgarstjóra, dags. 5. mars 2009, sbr. efni spurninga 1-4 í bréfi hans til borgarstjórnar, dags. 31. desember 2008. Umboðsmaður tók fram að hann hefði m.a. í huga hvort stefnumótunarvinnu fyrir Orkuveitu Reykjavíkur væri lokið, hvort gerðar hefðu verið breytingar á samþykktum orkuveitunnar eða annarra fyrirtækja í meiri hluta eigu borgarinnar og hvort teknar hefðu verið einhverjar ákvarðanir eða gripið til einhverja viðbragða sem væru til þess fallin að koma í veg fyrir að sú staða sem kom upp í því máli sem væri tilefni þess að hann tók þetta mál til athugunar að eigin frumkvæði á árinu 2007 endurtæki sig, þ.e. eins og lýst væri í bréfi borgarstjóra til umboðsmanns, dags. 5. mars 2009, að teknar verði „stórar og afdrifaríkar ákvarðanir án nauðsynlegrar umræðu eða samþykkis lýðræðislega kjörinna fulltrúa“.

Bréf umboðsmanns Alþingis til borgarstjórnar Reykjavíkur, dags. 31. desember 2010 hljóðar svo í heild sinni:

I.

Ég vísa til fyrri bréfaskipta vegna athugunar minnar að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er lýtur að meðferð þess valds og eftirlits sem borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Akranesbæjar og sveitarstjórn Borgarbyggðar fara með sem yfirstjórnir þeirra sveitarfélaga sem eru eignaraðilar að Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og hvaða þýðingu reglur um stjórnsýslu sveitarfélaga og ráðstöfun eigna þeirra hafi í þessu sambandi.

Ég ritaði borgarstjórn Reykjavíkur m.a. bréf, dags. 31. desember 2008, þar sem ég tók fram að af hálfu eigenda OR hefðu mér ekki eftir að mér bárust svör við bréfi mínu, dags. 22. febrúar 2008, verið kynntar frekari ákvarðanir eða ráðagerðir um breytingar á reglum um meðferð eigendavalds sveitarfélaganna innan OR eða um stöðu fyrirtækisins almennt. Ég tók fram að ástæða þess að ég hefði beðið með að ljúka athugun minni á þessu máli væri einkum sú að í samræmi við þá starfsvenju umboðsmanns Alþingis að gefa stjórnvöldum hæfilegan tíma til að ráðast í boðaðar breytingar eða endurskoðun hefði ég talið rétt að sjá hver yrði framvinda ráðagerða um breytingar á reglum og fyrirkomulagi mála að því er varðaði OR á grundvelli tillagna stýrihóps borgarráðs og þar með úrvinnslu stjórnar OR á þeim í samræmi við samþykkt eigendafundar OR 15. febrúar 2008.

Í bréfi mínu til borgarstjórnar, dags. 31. desember 2008, kom ég jafnframt inn á að ég fengi ekki annað séð af þeim upplýsingum sem ég hefði aflað um framgang þessa máls í kjölfar skýrslu og tillagna stýrihóps borgarráðs, og þrátt fyrir afstöðu að minnsta kosti Reykjavíkurborgar sem eiganda að meiri hluta OR og hvernig málið var afgreitt á fundi eigenda OR 15. febrúar 2008, en að enn kynni af hálfu eigenda OR að vera uppi sama staða og fram kom við vinnu stýrihópsins um að OR væri ýmist talin starfa á sviði einkaréttar eða á sviði opinberra stjórnsýslu.

Í bréfinu setti ég jafnframt fram fjórar tölusettar spurningar. Í fyrsta lagi óskaði ég þess hvernig eftirfarandi tillögu stýrihóps borgarráðs hefði verið fylgt eftir innan OR og þá með ákvörðunum eigendafunda OR: „Stýrihópurinn er sammála um þá meginreglu að þau fyrirtæki eða stofnanir sem reknar eru fyrir opinbert fé og í þágu almennings eigi að lúta almennum reglum um opinbera stjórnsýslu.“.

Í öðru lagði spurði ég hvort það væri afstaða borgarstjórnar að OR ætti „að lúta almennum reglum um opinbera stjórnsýslu“ og ef svo væri hvaða áform hefðu verið uppi um að gera breytingar á reglum um OR til að fylgja því eftir.

Í þriðja lagði óskaði ég eftir upplýsingum hvort skýrsla stýrihópsins hefði verið kynnt helstu stjórnum og fyrirtækjum borgaranna og hvort einhverjar breytingar hefðu verið gerðar á reglum eða starfsháttum fyrirtækja borgarinnar af því tilefni.

Að lokum óskaði ég eftir upplýsingum um hvort gerðar hefðu verið einhverjar þær breytingar á reglum um meðferð borgarstjóra á atkvæðisrétti borgarinnar á eigendafundum OR, reglum um starfsemi OR eða dótturfélaga OR sem kæmi í veg fyrir að ákvarðanir eða samningar sambærilegir þeir sem borgarráð féllst ekki á, sbr. samþykkt borgarráðs 1. nóvember 2007, yrðu gerðar aftur án þess að sveitarstjórnir eigenda OR hefðu tekið formlega afstöðu til þeirra fyrirfram, þ.m.t. um kauprétt starfsmanna á hlutabréfum í dótturfélögum OR og sölu á eignarhlutum í þeim til einkaaðila/einstaklinga án auglýsinga.

Mér barst svar borgarstjóra Reykjavíkurborgar ásamt fylgigögnum með bréfi, dags. 5. mars 2009. Í bréfinu er fjallað um stefnumörkunarvinnu stjórnar OR, stjórnsýsluúttekt innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar á OR, stefnumörkunarvinnu stjórnar Reykjavík Energy Invest, áður en vikið er að svörum við spurningum mínum.

Í bréfinu segir síðan í svari við spurningum 1 og 2 m.a. að stefnumörkun stjórnar OR sé ekki enn lokið en tilvitnuð tillaga stýrihóps borgarráðs sé m.a. eitt þeirra atriða sem stjórnin muni taka afstöðu til og leggja fyrir eigendafund. Það sé þverpólitísk samstaða um þá meginreglu að þau fyrirtæki og stofnanir, sem reknar séu fyrir opinbert fé, eigi að lúta almennum reglum um opinbera stjórnsýslu svo lýðræðislegt aðhald sé ekki fyrir borð borið. Taka þurfi hins vegar mið af eðli og starfsemi einstakra stofnana og fyrirtækja og gera greinarmun á eðli fyrirtækja annars vegar og stofnana hins vegar. Það sé afstaða borgarráðs að fyrirtæki geti í eðli sínu talist einkaréttarlegs eðlis en því engu að síður settur rammi eða regluverk sem að stærstum hluta líkist því sem gildir um opinbera aðila. Það verði best gert með skýrum reglum í samþykktum fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki. Það hafi verið í þeim tilgangi sem stýrihópurinn hafi lagt til að í samvinnu OR og eigenda fyrirtækisins yrði farið yfir lagaumhverfi fyrirtækisins, samstarfssamning sem og starfsreglur stjórnar og stjórnenda sem gilda um ákvarðanatöku og rekstur OR. Sú vinna væri í fullum gangi á vettvangi OR. Í svarinu kemur jafnframt fram að þess sé vænst að úr þeirri vinnu sem felist í stefnumörkun stjórnar OR kæmi m.a. að þrátt fyrir að fyrirtækið starfi á sviði einkaréttar skuli gilda um það flest það sem gildir um opinberar stofnanir og lúti að gagnsæi og aðgengi eftir því sem við á hverju sinni.

Í svari við spurningu 3 er talið upp til hvaða ráða og stjórna skýrsla starfshópsins hafi verið send. Síðan kemur fram að í engu tilvika, utan OR, hafi framlagning og kynning skýrslunnar leitt til þess að svo stöddu að ástæða hefði verið talin til að breyta reglum eða starfsháttum. Að lokinni vinnu við stefnumótun á vettvangi stjórnar OR verði tekin afstaða til þess hvaða breytingar þurfi að gera svo að stefnumótunin gangi eftir. Borgarráð telji eðlilegt að nýta niðurstöðu þeirrar vinnu við endurskoðun samþykkta annarra ráða og stjórna fyrirtækja sem Reykjavíkurborg eigi meirihluta í. Síðan segir:

„Borgarráð mun fylgja því eftir að í þeirri endurskoðun verði litið til þess hvort skýra þurfi valdmörk, verkferla og upplýsingastreymi svo tryggja megi að á engum vettvangi borgarinnar eða fyrirtækja sem Reykjavíkurborg á að meirihluta verði teknar stórar og afdrifaríkar ákvarðanir án nauðsynlegrar umræðu eða samþykkis lýðræðislega kjörinna fulltrúa eins og gerðist haustið 2007 við samningu REI OG GGE (Geysir Green Energy).“

Í svari við spurningu 4 segir m.a. að þótt samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007 eða öðrum reglum hafi ekki verið breytt sérstaklega enn sem komið væri heldur beðið niðurstöðu stefnumörkunar OR hafi þess verið gætt að borgarstjóri fengi sérstakt umboð til að fara með atkvæði Reykjavíkurborgar á eignarhlut í ef á dagskrá slíkra funda sé eitthvað annað en tilheyrir hefðbundnum aðalfundarstörfum. Á það hafi einungis reynt vegna eigendafunda OR.

Í lok bréfs borgarstjóra til mín segir m.a. að borgarráð leggi áherslu á að þverpólitísk samstaða sé um það á vettvangi borgarráðs að brýnt sé að lýðræðislegt umboð sé skýrt þegar teknar séu meiriháttar ákvarðanir í fyrirtækjum í almannaeigu og að um fyrirtækið eigi að meginreglu að gilda almennar reglur opinberrar stjórnsýslu. Til að tryggja það, sem og til að skýra valdmörk og hlutverk eigenda, stjórnar og stjórnendur OR hafi stjórn OR, samkvæmt skýru umboði eigenda OR, unnið að slíkri stefnumörkun. Mikilvægt sé að því sé sýndur skilningur að slík heildarstefnumörkun á starfsemi, starfsreglum og starfsháttum OR, sem lagt hafi verið af stað með, taki tíma og að brýnt sé að vandað sé til þeirrar vinnu. Borgarráð bindi miklar vonir við útkomu þeirrar vinnu og að hún muni nýtast við endurskoðun samþykkta fyrir önnur fyrirtæki í meiri hluta eigu borgarinnar.

II.

Nú eru liðnir tæplega tuttugu og tveir mánuðir frá bréfi borgarstjóra Reykjavíkurborgar til mín, dags. 5. mars 2009. Í bréfinu er, sem fyrr greinir, lýst því að beðið sé eftir því að vinna við stefnumörkun OR ljúki. Sú vinna kunni að nýtast við endurskoðun samþykkta fyrir önnur fyrirtæki í meiri hluta eigu borgarannar. Mér hafa ekki borist frekari svör frá Reykjavíkurborg um að ákvarðanir í framhaldi af þeirri stefnumörkunarvinnu sem lýst var að þá stæði enn yfir hafi verið teknar. Á fundi sem ég átti með borgarráði Reykjavíkurborgar hinn 18. nóvember sl. sem haldinn var af öðru tilefni vakti ég máls á því að ég biði enn svara af hálfu Reykjavíkurborgar að þessu leyti og fram kom af hálfu formanns borgarráðs að enn væri unnið að stefnumörkun á þessu sviði á vettvangi Reykjavíkurborgar.

Af framangreindu tilefni óska ég eftir því með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að borgarstjórn Reykjavíkurborgar upplýsi mig um hvað hafi gerst í þessum málefnum frá því að mér var sent bréf borgarstjórar, dags. 5. mars 2009, sbr. efni spurninga 1-4 í bréfi mínu til borgarstjórnar, dags. 31. desember 2008. Ég hef þá m.a. í huga hvort stefnumótunarvinnu OR sé lokið, hvort gerðar hafi verið breytingar á samþykktum OR eða annarra fyrirtækja í meiri hluta eigu borgarannar og hvort teknar hafi verið einhverjar ákvarðanir eða gripið til einhverja viðbragða sem eru til þess fallin að koma í veg fyrir að sú staða sem kom upp í því máli sem var tilefni þess að ég tók þetta mál til athugunar að eigin frumkvæði á árinu 2007 endurtaki sig, þ.e. eins og lýst er í bréfi borgarstjóra til mín, dags. 5. mars 2009, að teknar verði „stórar og afdrifaríkar ákvarðanir án nauðsynlegrar umræðu eða samþykkis lýðræðislega kjörinna fulltrúa“.

Ég óska þess að svar berist mér eigi síðar en 2. febrúar nk.